Hæstiréttur íslands
Mál nr. 110/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 28. febrúar 2006. |
|
Nr. 110/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. febrúar 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 2. mars 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og látið verði við það sitja að varnaraðila verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2006.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess X, [kt. og heimilisfang], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 2. mars 2006, klukkan 16:00.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans í Reykjavík rannsakar meint fíkniefnabrot A, litháísks ríkisborgara, sem varði innflutning á fíkniefnum til landsins. A hafi komið til landsins þann 4. þ.m. með flugi frá Kaupmannahöfn með mikið magn amfetamíns í fórum sínum. Amfetamínið hafi verið í vökvaformi og verið komið fyrir í tveimur léttvínsflöskum. A hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 5. þ.m.
Við rannsókn málsins hafi komið fram að A hafi áður komið til Íslands í desember sl. og hafi hann gefið framburð um að sú ferð hafi verið í sömu erindagjörðum, þ.e. að flytja tvær vínflöskur frá Litháen. A hafi í skýrslutöku hjá lögreglu jafnframt lýst litháískum manni búsettum hér á landi sem hafi tekið á móti flöskunum í fyrri ferð hans hingað til lands. Hann hafi lýst hvernig þessi aðili hafi farið með honum á nýlegri grárri bifreið af gerðinni [...] á söluskrifstofu Flugleiða til kaupa á flugmiða til Stokkhólms. Í gögnum sem lögregla hafi aflað frá Flugleiðum komi fram að X, hafi keypt umræddan flugmiða auk þess sem lýsingar A passi við kærða sem aki um á grárri [...] bifreið. A hafi gengist undir myndsakbendingu í gærdag þar sem hann hafi þekkt kærða og eiginkonu hans, B sem það fólk sem hann hafi hitt í fyrri ferð sinni en kærði hafi verið sá maður sem hann hafi afhent flöskurnar í það skiptið.
Kærði hafi verið missaga við yfirheyrslur. Í fyrstu hafi hann neitað allri aðild og gefið þær skýringar á farmiðakaupunum að hann hafi hitt A fyrir tilviljun á söluskrifstofu Flugleiða og greitt fyrir hann farmiða til Stokkhólms án þess að þekkja hann nokkuð. Kærði hafi gefið framburðarskýrslu í gærkvöldi þar sem hann hafi viðurkennt að hafa tekið að sér að geyma flöskur fyrir tiltekinn mann frá Júgóslavíu í desember sl. og hafi hann í því sambandi um svipað leyti móttekið tvær flöskur frá litháískum manni án þess að hafa vitað um innihald þeirra og hann hafi síðan komið flöskunum fyrir á fyrir fram ákveðnum stað. Kærði segist ekkert hafa vitað um ferð A til landsins þann 4. þ.m. Framburður kærða í heild verði að teljast ótrúverðugur en um þetta sé vísað til gagna málsins. Nefnd B hafi gefið framburðarskýrslu í gærkvöldi en misræmi sé í framburði hennar og kærða. Lögregla hafi aflað upplýsinga um að handhafi ótilgreinds frelsisnúmers hafi hringt oft í síma ofangreinds A eftir að hann hafi verið handtekinn með fíkniefnin í vörslum sínum og að sama símanúmer hafi hringt í númer sem kærði hafi verið handhafi að strax þar á eftir.
Skv. framansögðu og með vísan til gagna málsins þyki fyrir hendi rökstuddur grunur um aðild kærða að stórfelldu fíkniefnalagabroti sem kunni að varða fangelsisrefsingu ef sök sannist. Á þessu stigi rannsóknarinnar þurfi að yfirheyra kærða frekar með tilliti til framburðar A og B og e.t.v. fleiri aðila sem kunni að tengjast málinu. Kanna þurfi sérstaklega hvort umræddur Júgóslavi, sem kærði hafi nefnt við yfirheyrslu í gærkvöldi, finnist í nafnaskrá yfirvalda hér á landi og þá yfirheyra hann vegna málsins finnist hann. Einnig beinist rannsókn lögreglu að því að hafa uppi á fyrrgreindum handhafa frelsisnúmers sem hringt hafi verið úr í bæði kærða og fyrrgreindan A. Lögregla vinni að því að yfirfara gögn í tölvu sem lagt hafi verið hald á á heimili kærða þann 13. þ.m. Einnig sé verið að yfirfara símagögn vegna kærða og beðið sé upplýsinga um kærða frá erlendum lögregluyfirvöldum.
Gangi kærði laus eigi hann þess kost koma frá sér upplýsingum eða móttaka upplýsingar sem skaðað geti rannsókn málsins. Þykir þannig brýnt að vernda áfram rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með áframhaldandi gæsluvarðhaldi kærða. Þá liggi fyrir að kærði sé erlendur ríkisborgari. Kærði eigi bankareikning í Bandaríkjunum og hafi nýlega dvalist í Bandaríkjunum og Litháen og hann virðist vera í samskiptum við aðila búsetta erlendis. Meint brot kærða þyki vera mjög alvarlegt og skipti miklu fyrir áframhaldandi rannsókn málsins að tryggja nærveru kærða hér á landi en gera megi ráð fyrir því að kærði fari af landi brott verði hann látinn laus.
Sakarefnið sé talið geta varðað við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a- og b-liða 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.
Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 14. febrúar sl. Í fyrstu neitaði hann allri aðild að málinu en samkvæmt skýrslu hjá lögreglu í gærkvöldi viðurkenndi hann að hafa geymt flöskur fyrir tiltekinn mann frá Júgóslavíu í desember sl. og um svipað leyti tekið á móti tveimur flöskum frá litháískum manni án þess að vita um innihald þeirra og komið þeim síðan fyrir á fyrir fram ákveðnum stað. Einnig hefur kærði viðurkennt að hann hafði keypt flugmiða fyrir A, sem er litháiskur ríkisborgari og sætir gæsluvarðhaldi vegna málsins, til Stokkhólms er hann kom áður hingað til landsins.
Samkvæmt greinargerð lögreglu er hún enn að vinna að rannsókn málsins þar sem fleiri aðilar koma við sögu og eigi lögreglan m.a. eftir að yfirheyra þá sem kunna að tengjast málinu. Samkvæmt því sem að framan er rakið og að öðru leyti með vísan til rannsóknargagna þykir vera kominn fram rökstuddur grunur um að kærði eigi aðild að innflutningi fíkniefna, sem lögreglan er að rannsaka. Sakarefnið varðar við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en samkvæmt því ákvæði liggur allt að 12 ára fangelsi við broti. Með tilliti til rannsóknarhagsmuna er fallist á að skilyrðum a-liðar 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sé fullnægt að kærði, sem er erlendur ríkisborgari, geti torveldað rannsókn málsins gangi hann laus. Samkvæmt því verður kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, [kt.], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 2. mars 2006, klukkan 16.00.