Hæstiréttur íslands

Mál nr. 663/2006


Lykilorð

  • Húsleit
  • Hald
  • Gjaldþrotaskipti
  • Skaðabætur
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
  • Gjafsókn


         

Fimmtudaginn 8. nóvember 2007.

Nr. 663/2006.

Íslenska ríkið

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

gegn

Unnsteini B. Eggertssyni

(Hilmar Magnússon hrl.)

og gagnsök

 

Húsleit. Hald. Gjaldþrotaskipti. Skaðabætur. Vanreifun. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi. Gjafsókn.

 

Í kjölfar beiðni skiptastjóra þrotabúsins K ehf. um rannsókn á ætluðu undanskoti eigna félaganna K ehf. og KA ehf. óskaði ríkislögreglustjóri eftir heimild til húsleitar á fjórum stöðum, m.a. á þáverandi heimili U. Í kjölfarið voru kveðnir upp 4 úrskurðir í héraðsdómi þar sem talið var að fyrir lægi rökstuddur grunur um að U hefði skotið undan eignum áðurnefndra félaga. Við leitina á þessum stöðum var lagt hald á ýmsa muni. U óskaði eftir að fá munina afhenta þar sem hann taldi þá sína eign en með bréfi ríkislögreglustjóra var honum tilkynnt að munirnir hefðu þegar verið afhentir skiptastjóra. Ekki var fallist á það með U að leit lögreglu hefði verið andstæð lögum, hins vegar kom ekkert fram um að þegar lögregla afhenti skiptastjóra lausaféð, hefði hún haft undir höndum gögn sem staðfestu að þrotabúin ættu lögmætt tilkall til þess. Jafnframt mátti lögreglu vera kunnugt um að skiptastjóri hefði engan reka gert að því að tryggja rétt þrotabúanna til munanna. Bar því Í bótaábyrgð á því fjárhagslega tjóni, sem gagnáfrýjandi kunni að hafa orðið fyrir af þessum sökum, sbr. a. og b. liðum 176. gr. laga nr. 19/1991. Kröfu U um bætur vegna miska og ætlað tekjutap vegna afurðamissis bifreiðar, sem hald var lagt á, var hafnað. Þá var krafa U um greiðslu vegna halds á ótilgreindum munum vanreifuð og henni því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. desember 2006. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 6. mars 2007. Hann krefst þess aðallega að áfrýjandi greiði sér 6.123.041 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. júní 2003 til greiðsludags en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

 

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi var gagnáfrýjandi framkvæmdastjóri og einn af eigendum Kraftvaka ehf., sem tekið var til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 9. janúar 2003. Húsnæði félagsins hafði verið innsiglað af tollstjóranum í Reykjavík, en í ljós kom að gagnáfrýjandi hafði allt að einu komist þangað inn og höfðu öll bókhaldsgögn ásamt skrifstofu- og tölvubúnaði verið fjarlægð er skiptastjóri kom með honum á staðinn. Kvaðst gagnáfrýjandi hafi flutt bókhaldið og búnaðinn á heimili sitt, en ekkert geta afhent nema bókhaldsmöppur þar sem eignir félagsins hafi verið seldar Kvarða Afli ehf., sem áður hét Kvarði Vélsmiðja ehf. Við nánari könnun skiptastjóra kom í ljós að gagnáfrýjandi og sonur hans höfðu 1. júlí 2002 keypt öll hlutabréf í Kvarða Vélsmiðju ehf. af Kraftvaka ehf. og greitt kaupverðið, 100.000 krónur, með því að skuldajafna við inneign sína hjá síðastnefndu félagi. Þá kom fram að Kvarði Vélsmiðja ehf. hafði sama dag gert samning um kaup á rekstri, birgðum, tækjum og áhöldum Kraftvaka ehf. fyrir 3.650.000 krónur. Af þeirri fjárhæð greiddi kaupandinn 3.000.000 krónur með greiðslu inn á skuld seljandans við tollstjórann í Reykjavík, en 650.000 krónur með „millifærslu á viðskiptareikningi“. Við skýrslutöku hjá skiptastjóra 13. janúar 2003 kannaðist gagnáfrýjandi við að þeir feðgar hafi keypt allt hlutafé í Kvarða Vélsmiðju ehf., en enginn samningur hafi verið gerður um kaupin, einungis hafi verið um færslu í bókhaldi að ræða. Þá kvað hann þá feðga sjálfa hafa metið verðmæti eigna Kraftvaka ehf. við söluna 1. júlí 2002. Skiptastjóri gaf gagnáfrýjanda kost á að láta þessi kaup ganga til baka og veitti honum frest í því skyni, en gagnáfrýjandi tók ekki því boði. Skiptastjóri skipaði nýja stjórn í Kvarða Afli ehf. í febrúar 2003 í skjóli þess að hann væri handhafi alls hlutafjár í félaginu vegna þrotabús Kraftvaka ehf. Þessi nýja stjórn leitaði síðan gjaldþrotaskipta á búi Kvarða Afls ehf. með beiðni 10. mars 2003, sem tekin var til greina 12. sama mánaðar.

Með bréfum skiptastjórans 27. mars og 9. maí 2003 til lögreglunnar í Reykjavík óskaði hann eftir rannsókn á ætluðu undanskoti eigna félaganna Kraftvaka ehf. og Kvarða Afls ehf. Jafnframt óskaði hann með síðarnefnda bréfinu aðstoðar lögreglu við að brigða tilteknum eignum frá gagnáfrýjanda, en þar kvaðst hann mundu höfða riftunarmál í tengslum við kæru sína. Af því tilefni óskaði ríkislögreglustjóri eftir heimild til húsleitar á fjórum stöðum, meðal annars á þáverandi heimili gagnáfrýjanda og tilteknu húsi á Skarðsströnd. Í kjölfarið voru kveðnir upp fjórir úrskurðir í Héraðsdómi Reykjavíkur 16. júní 2003 en í þeim var talið að fyrir lægi rökstuddur grunur um að gagnáfrýjandi hefði skotið undan eignum áðurnefndra félaga og með því kynni hann að hafa gerst sekur um brot gegn 247. gr. og 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við leit sem fram fór á þessum stöðum 18. júní 2003 var lagt hald á ýmsa muni, sem nánar eru tilgreindir í hinum áfrýjaða dómi. Gagnáfrýjandi óskaði eftir að fá munina afhenta 31. október 2003 þar sem hann taldi þá sína eign. Með bréfi ríkislögreglustjóra 10. nóvember sama ár var gagnáfrýjanda tilkynnt að munirnir hefðu þegar verið afhentir skiptastjóra. Málavöxtum er nánar lýst í héraðsdómi, svo og málsástæðum aðila.

II.

Af gögnum málsins og framburði gagnáfrýjanda hjá skiptastjóra og lögreglu er ljóst að gagnáfrýjandi þverskallaðist við að verða við skyldu sinni samkvæmt 1. mgr. 81. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. til að láta skiptastjóra í té bókhaldsgögn og gefa skýringar á hvað um þau og ýmist lausafé áðurnefndra tveggja félaga hafði orðið. Hafði hann sem fyrr segir meðal annars fjarlægt bókhald og eignir Kraftvaka ehf. úr húsnæði félagsins eftir að það hafði verið innsiglað. Jafnframt hafði hann keypt nokkrum dögum áður en bú Kvarða Afls ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta skrifstofubúnað, tölvubúnað og ýmist annað lausafé af félaginu, en það hafði sem fyrr segir keypt flestar eða allar eignir Kraftvaka ehf. rúmu hálfu ári áður. Með vísan til þessa og forsendna héraðsdóms er ekki fallist á með gagnáfrýjanda að leit lögreglu 18. júní 2003, sem um er fjallað í máli þessu, eða haldlagning muna við þá leit hafi verið andstæð lögum. Það sama gildir um leitarúrskurði héraðsdómara 16. sama mánaðar. Eins og nánar er rakið í forsendum héraðsdóms er hins vegar ekkert komið fram um að lögregla hafi, er hún afhenti skiptastjóra umrætt lausafé sem hald var lagt á, haft undir höndum gögn sem staðfestu að þrotabúin ættu lögmætt tilkall til þess. Að auki mátti lögreglu vera kunnugt um að skiptastjóri hafði engan reka gert að því að tryggja rétt þrotabúanna til munanna með ráðstöfunum sem honum voru að lögum tiltækar. Við þessar aðstæður var lögreglu óheimilt að afhenda skiptastjóra hina haldlögðu muni. Ber því aðaláfrýjandi bótaábyrgð á því fjárhagslega tjóni, sem gagnáfrýjandi kann að orðið fyrir af þessu sökum samkvæmt a. og b. liðum 176. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Verður því tekin afstaða til einstakra liða í kröfugerð gagnáfrýjanda.

 Með vísan til forsendna héraðsdóms er kröfulið gagnáfrýjanda um bætur vegna áætlaðs tekjutjóns hans hafnað.

Gagnáfrýjandi gerir einnig kröfu um greiðslu annars vegar 510.856 króna vegna haldlagningar lögreglu á skrifstofu- og tölvubúnaði og hins vegar 1.401.185 króna vegna haldlagningar á rafvörum og handverkfærum. Taka þessar fjárhæðir mið af tveimur reikningum, sem nánar er lýst í héraðsdómi. Með vísan til forsendna hans er fallist á að ákvörðun bóta verði ekki byggð á þessum reikningum. Önnur gögn hafa heldur ekki verið lögð fram sem skýrt gætu til hvaða einstakra hluta þessir kröfuliðir taka og þá heldur ekki um verðmæti þeirra. Eru þessir kröfuliðir svo vanreifaðir að þeim ber að vísa af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

Þá gerir gagnáfrýjandi kröfu um bætur fyrir afnotamissi bifreiðarinnar IZ-012 eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Hann hefur engan reka gert að því að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna afnotamissis bifreiðarinnar og er þessum lið í kröfu hans því hafnað.

Ríkislögreglustjóri tilkynnti gagnáfrýjanda fyrst 10. nóvember 2003 að hinir haldlögðu munir hefðu verið afhentir skiptastjóra, en óumdeilt er að það hafi verið gert 27. ágúst sama ár. Frá þeim tíma lá rannsóknin að mestu niðri uns henni lauk með ákvörðun ríkislögreglustjóra 13. september 2004 um að fella hana niður og var gagnáfrýjanda tilkynnt það sama dag. Er fallist á með héraðsdómi að þessi dráttur á málinu hafi verið úr hófi. Hins vegar eru ekki fyrir hendi skilyrði til að dæma gagnáfrýjanda miskabætur af þessum sökum, hvorki samkvæmt 2. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991 né 26. gr. skaðabótalaga nr 50/1993. Ber því að sýkna aðaláfrýjanda af þeirri kröfu gagnáfrýjanda.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og  gjafsóknarkostnað verða staðfest.

Um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Kröfu gagnáfrýjanda, Unnsteins B. Eggertssonar, um greiðslu skaðabóta að fjárhæð samtals 1.912.041 króna er vísað frá héraðsdómi.

Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, er að öðru leyti sýkn af kröfu gagnáfrýjanda.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 400.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2006.

 

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 11. mars 2005 og dómtekið 5. september sl. Stefnandi er Unnsteinn B. Eggertsson, Vallarási 2, Reykjavík. Stefndi er fjármála­ráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, Arnarhváli, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verður dæmdur til greiðslu 6.123.041 krónu ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá 18. júní 2003 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi krefst sýknu af kröfu stefnanda auk málskostnaðar.

 

I.

Málsatvik

Mál þetta er sprottið af leit sem fram fór á vegum ríkislögreglustjóra 18. júní 2003 á jörðinni Skarðsá í Dalabyggð, eign stefnanda, og að Súluhöfða 21, Mosfellsbæ, þáverandi lögheimili stefnanda, samkvæmt úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur 16. sama mánaðar svo og haldlagningu á eftirgreindum munum:

 

Að Skarðsá

Brotvél (merkt B-1 í haldlagningarskýrslu)

Hitablásari (merkt B-2 í haldlagningarskýrslu)

Höggborvél (merkt B-3 í haldlagningarskýrslu)

HP 1200 prentari (merkt B-4 í haldlagningarskýrslu)

Canon faxtæki (merkt B-5 í haldlagningarskýrslu)

Dell heimilistölva ásamt lyklaborði og mús (merkt B-6 í haldlagningarskýrslu)

Dell tölvuskjár, 19" (merkt B-7 í haldlagningarskýrslu)

Benz IZ-012 (merkt B-9 í haldlagningarskýrslu)

 

Að Súluhöfða 21

Ljósritunarvél Canon GP 160 (merkt A-23 í haldlagningarskýrslu)

Dell borðtölva (merkt A-24 í haldlagningarskýrslu)

Dell tölvuskjár SN (merkt A-25 í haldlagningarskýrslu)

Lyklaborð og mús (merkt A-26 í haldlagningarskýrslu)

Dell tölvuskjár (merkt A-27 í haldlagningarskýrslu)

Lyklaborð og mús (merkt A-28 í haldlagningarskýrslu)

 

Tildrög málsins eru þau að 9. janúar 2003 var bú Kraftvaka ehf. tekið til gjaldþrota­skipta, en stefnandi hafði verið stjórnandi og einn aðaleiganda félagsins. Samkvæmt greinargerð skiptastjóra þrotabúsins, Kristjáns Ólafssonar hrl., 6. febrúar 2003 og bréfi hans til ríkislögreglustjóra 27. mars 2003 vaknaði grunur um undanskot eigna þegar í ljós kom að stefnandi hafði haft aðgang að starfstöð félagsins þótt hún hefði verið innsigluð vegna skulda við tollstjóra. Þá hafi komið í ljós að allur rekstur og eignir félagsins höfðu verið seld Kvarða-Afli ehf. 1. júlí 2002 (þá Kvarði vélsmiðja ehf.) fyrir alls 3.650.000 krónur. Sama dag hafði Kvarði-Afl ehf. verið selt stefnanda og syni hans persónulega fyrir 100.000 krónur og höfðu þeir feðgar greitt kaupverðið með skuldajöfnun við inneign sína hjá Kraftvaka ehf. Í greinargerð skiptastjóra kemur fram ekkert mat hafði farið fram á þeim eignum sem seldar voru frá Kraftvaka ehf. Þá kemur fram að skiptastjóri taldi sölu Kvarða-Afls ehf. að vettugi virðandi og að hann færi með hlutafé félagsins án tillits til sölunnar 1. júlí 2002. Skipaði skiptastjóri nýja stjórn í Kvarða-Afli ehf., m.a. þannig að hann sjálfur var stjórnarformaður. Eftir könnun á fjármálum félagsins var óskað eftir gjaldþrotaskiptum fyrir hönd Kvarða-Afls ehf. Í bréfi skiptastjóra kemur þó fram að þessi könnun hafi verið erfiðleikum bundin þar sem á þessum tíma hafi bókhald félagsins ekki fengist afhent. Var félagið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 12. mars 2003 og fyrrnefndur Kristján Ólafsson hrl., skiptastjóri Kraftvaka ehf. og stjórnarformaður Kvarða-Afls ehf., skipaður skiptastjóri þrotabús Kvarða-Afls ehf.

Með bréfi 27. mars 2003 óskaði skiptastjóri framangreindra þrotabúa eftir rannsókn ríkislögreglustjóra á ætluðu undanskoti eigna, m.a. í tiltekin hús á Skarðs­strönd og á Súluhöfða 21 sem og vegna ráðstöfunar stefnanda á bifreið í eigu Kvarða-Afls ehf. til sín. Með bréfi 9. maí 2003 til lögreglunnar í Reykjavík var óskað eftir aðstoð lögreglunnar við að brigða tilteknum eignum frá stefnanda sem m.a. var talið að væru á Skarðsströnd og Súluhöfða 21, en beiðnin var framsend ríkislögreglustjóra 21. sama mánaðar. Urðu þessar beiðnir skiptastjóra tilefni þess að ríkislögreglustjóri óskaði eftir heimild til leitar á Skarðsströnd og Súluhöfða 21 hinn 16. júní 2003.

Samkvæmt forsendum í úrskurðum héraðsdóms, sem kveðnir voru upp 16. júní 2003, var talinn liggja fyrir rök­studdur grunur um að stefnandi hefði komið undan eignum í eigu Kraftvaka ehf. og Kvarða-Afls ehf. sem hann hafði áður verið í fyrir­svari fyrir. Segir í forsendunum að grunur liggi fyrir um að komið hafi verið undan munum, svo sem verkfærum, vinnuvélum og skrifstofu- og tölvubúnaði. Var talið að með þessu kynni stefnandi að hafa gerst sekur um brot gegn 247. og 250. gr. hegningarlaga og bæri því með vísan til 1. mgr. 90. gr., sbr. 89. gr. laga nr. 19/1991 að heimila leit á jörðinni.

Við umræddar leitir var lagt hald á ýmislegt lausafé sem talið var vera í eigu fyrrnefndra félaga. Samkvæmt skýrslu Hálfdáns Daðasonar lögreglumanns fyrir dómi voru við leitirnar notuð ýmis gögn, aðallega afrit reikninga úr bókhaldi félaganna auk einhverra mynda, og var reynt að ganga úr skugga um hvort við leitirnar fyndust munir sem svöruðu til lýsinga á þessum gögnum. Að Skarðsá var lagt hald á alls 9 muni, þar á meðal Benz-sendibifreið með skrásetningarnúmerið IZ-012. Samkvæmt aðila­skýrslu stefnanda fyrir dómi voru þeir munir sem hald var lagt á að Skarðsá allir komnir frá Kraftvaka ehf. og Kvarða-Afli ehf. utan tveir (þ.e. hitablásari merktur B-2 á haldlagningarskýrslu og höggborvél merkt B-3 á haldlagningarskýrslu). Að Súluhöfða 21 var lagt hald á alls 29 muni, þar af voru 22 munir möppur með skjölum og bókhaldsgögnum. Samkvæmt aðilaskýrslu stefnanda voru ýmis persónuleg skjöl sem ekki tengdust starfsemi Kraftvaka ehf. og Kvarða-Afli ehf. meðal þessara gagna. Annað lausafé sem lagt var hald á (ljósritunarvél, tölvubúnaður og þvottavél, merkt A-23 til A-29) var samkvæmt aðilaskýrslu stefnanda allt komið frá Kraftvaka ehf. og Kvarða-Afli ehf. Samkvæmt aðilaskýrslu stefnanda var allt lausafé sem hald var lagt á að Skarðströnd í hans eigu að frátaldri gröfu af gerðinni JCB (merkt B-8 í haldlagningarskýrslu) og þvottavél sem lagt var hald á að Súluhöfða (merkt A-29).

Hinn 26. júní 2003 gaf stefnandi skýrslu sem sakborningur hjá ríkislögreglu­stjóra. Tjáði hann sig þar ítarlega um kæruefnið. Þá var farið yfir réttindi yfir þeim munum sem hald hafði verið lagt á við framangreindar leitir. Hinn 29. júlí 2003 óskaði ríkislögreglustjóri eftir ýmsum gögnum og upplýsingum frá skiptastjóra Kraftvaka ehf. og Kvarða-Afls ehf. Hinn 10. nóvember 2003 var þessi beiðni ítrekuð. Með bréfi 20. nóvember 2003 svaraði skiptastjóri loks erindi ríkislögreglustjóra. Með bréfi 13. september 2004 lýsti ríkissaksóknari því yfir að mál stefnanda hefði verið fellt niður með vísan til 112. gr. laga nr. 19/1991.

Samkvæmt lýsingu málsatvika í stefnu voru stefnanda afhentar ýmsar möppur og önnur pappírsgögn „eftir langt þóf“ eftir að þessi gögn höfðu áður verið afhent skiptastjóra. Í skýrslu stefnanda fyrir dómi kom fram að 19. september 2003 hafi hann fundið bifreiðina IZ-012 á bílasölu á Stykkishólmi fyrir tilviljun. Hafi verið komið fyrir spjaldi í framrúðu bifreiðarinnar með verðinu 550.000 krónur. Eftir viðræður við bílasalann, Arilius Sigurðsson, sem hafi símað til Halldórs Lúðvígssonar, sem aðstoð­að hafði Kristján Ólafsson hrl. við skiptastjórn, hafi honum verið afhentur bíllinn og hann ekið á brott. Halldór Lúðvígsson staðfesti fyrir dómi að hann hefði flutt bifreiðina á bílasöluna og taldi sig hafa gert það samkvæmt fyrirmælum skiptastjórans, Kristjáns Ólafssonar hrl. Hann mundi eftir því að hringt hafði verið í hann af bíla­sölunni þegar stefnandi óskaði eftir því að fá bifreiðina afhenta. Hafi hann þá reynt að ná í skiptastjóra án árangurs og í framhaldi af því hafi bifreiðin verið afhent stefnanda án þess að hann gæti mótmælt því. Með bréfi 31. október 2003 óskaði stefnandi eftir því að þeir munir sem lagt var hald á og væru í persónulegri eigu stefnanda yrðu afhentir honum en ella yrðu gefnar viðeigandi skýringar. Með bréfi 10. nóvember 2003 var stefnanda tjáð að umræddir munir hefðu verið afhentir skiptastjóra.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu. Auk þess komu fyrir dóm sem vitni, Halldór Lúðvígsson vörslusviptingarmaður, Kristján Ólafsson hrl., skipta­stjóri þrotabúa Kraftvaka ehf. og Kvarða-Afls ehf., Hjalti Pálmason, fyrrverandi fulltrúi ríkislögreglustjóra, Hálfdán Daðason, fyrrverandi lögreglufulltrúi hjá ríkis­lögreglu­stjóra, Jón Lárusson, fyrrverandi lögreglufulltrúi hjá ríkislögreglustjóra og Arilius Sigurðsson, bílasali í Borgarnesi.

Í skýrslu Kristjáns Ólafssonar hrl. kom fram að engin riftunarmál hefðu verið höfðuð fyrir hönd þrotabúa Kraftvaka ehf. og Kvarða-Afls ehf. Kristján gat ekki upplýst hvort hann hefði fyrir hönd þrotabúanna tekið við þeim munum sem hald var lagt á og hvort eða hvernig þeim hefði verið ráðstafað í þágu þrotabúanna. Skipta­stjórinn kannaðist þó við undirritun sína á haldlagningarskýrslum lögreglunnar þar sem kvittað var fyrir móttöku á þessum munum. Í skýrslu Hjalta Pálmasonar kom fram að eftir að kæra skiptastjóra lá fyrir hafi það verið talið andstætt rannsóknarhags­munum að yfirheyra stefnanda áður en leit yrði gerð. Hann staðfesti að litið hefði verið svo á að þeir munir sem lagt var hald á væru eign umræddra þrotabúa og bæri að skila til skiptastjóra. Að öðru leyti er ekki ástæða til að rekja sérstaklega munnlegar skýrslur við aðalmeðferð málsins.

                                                                 

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þeirra aðgerða ríkislögreglustjóra sem áður greinir. Rekur stefnandi í þessu sambandi að stefnandi og eiginkona hans hafi í framhaldi af aðgerðum ríkislögreglustjóra strítt við ýmsa erfiðleika, t.d. kvíða-, streitu- og svefnvandamál. Fyrst í mars 2005 hafi stefn­andi getað hafið störf að nýju.

Stefnandi telur að ríkislögreglustjóri hafi byggt aðgerðir sínar gagnrýnislaust á upplýsingum frá Kristjáni Ólafssyni hrl. sem síðar hafi reynst rangar. Sama eigi við um úrskurði héraðsdóms þar sem veitt var heimild til leitar. Hafi þar verið um að ræða „fullkomna vanrækslu dómarans um að gæta að rétti stefnanda í úrskurði sínum“, svo sem segir í stefnu. Í ljós hafi komið að stefnandi hafi verið borinn röngum sökum og hafi hann því að ófyrirsynju og vegna gáleysis rannsóknaraðila og dómara sætt ólög­mætri meingerð gegn friði, æru og persónu sinni með tilefnislausum húsleitum og þvingunum af hálfu ríkislögreglustjórans. Stefnandi vísar í þessu sambandi einnig til þess að hann hafi orðið fyrir álitshnekki í Dalabyggð vegna aðdróttana, dylgna og þess háttar.

Stefnandi vísar einnig til þess að rannsókn málsins hafi legið niðri lengi þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir um framvindu hennar.  Málið hafi svo loks verið fellt niður en það hafi ekki verið tilkynnt stefnanda fyrr en eftir eftirgangsmuni, sbr. bréf ríkis­lögreglu­stjóra 13. september 2004. Á meðan hafi stefnandi legið undir grun um refsiverða háttsemi.

Stefnandi hafi á engan hátt verið valdur að eða stuðlað að því að hann sætti þeim aðgerðum, sem ríkislögreglustjóri beitti og telja verði fullkomlega óforsvaran­legar. Hann hafi saklaus verið dreginn inn í rannsókn vegna gálausra og óforsvaran­legra vinnubragða rannsóknaraðila og héraðsdómara. Beri að leggja ábyrgð á fjártjóni hans og miska á ríkissjóð, enda beri ríkissjóður alla ábyrgð og áhættu á tjóni, er hljótist af beitingu lögregluvalds í tilvikum sem þessum svo og þess óútskýrða dráttar sem varð á að ljúka málinu formlega, sbr. XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála, einkum 175. og 176. gr. og á ákvæði 26. gr. laga nr. 50/1993. 

Að því er varðar fjártjón kemur fram í stefnu að stefnanda hafi reynst ómögu­legt að fá atvinnu meðan hann lá undir grun um refsiverða háttsemi auk þess sem ferlið allt hafi valdið honum líkamlegum og andlegum þjáningum sem hafi leitt til óvinnufærni yfir langt tímabil. Þá vísar hann til þess að hann eigi rétt á því að fá andvirði haldlagðra muna bætt. Sundurliðun fjártjóns er sem hér segir:

 

1.                                                        Áætlað tekjutjón fram til mars 2005    1.500.000         kr.

2.                                                Haldlagður skrifstofu og tölvubúnaður    510.856            kr.

3.                                                    Haldlagðar rafvörur og handverkfæri    1.401.185         kr.

4.                                             Afnotamissir sendibifreiðar í þrjá mánuði

                                                                            90 dagar x 7.900 (án vsk.)    711.000            kr.

                                                                                                          Samtals    4.123.041         kr.

 

Að því er varðar liði nr. 2 og 3 kveður stefnandi að miðað sé við kaupverð stefnanda á þeim samkvæmt framlögðum reikningum. Að því er varðar lið nr. 4 segir að missir bif­reið­ar­innar hafi verið sérstaklega bagalegur fyrir stefnanda þar sem hann notaði hana við grásleppuútgerð sem hann stundi á sumrin. Daggjald sé reiknað samkvæmt almennri gjaldskrá á útleigu sambærilegra sendibifreiða og stefnanda.

          Stefnandi krefst bóta fyrir ólögmæta meingerð gegn friði, æru og persónu án þess að hafa unnið þar til sakar svo og annars miska, sem hann metur á 2.000.000 króna.

          Stefnandi reisir kröfur sínar á meginreglum skaðabótaréttar svo og á XXI. kafla laga nr. 19/1991 um bætur handa sakborningi og laga nr. 50/1993.  Þá vísar stefnandi til mannréttindaákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1994 og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Um dráttarvexti er vísað til laga nr. 38/2001 og er dráttarvaxta krafist frá þeim degi er hin ólögmæta aðför hófst gegn stefnendum með húsleit 18. júní 2003

 

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi vísar til þess að lögregla hafi haft rökstuddan grun um að refsiverð brot kynnu að hafa verið framin af stefnanda vegna ráðstöfunar eigna þrotabúa Kraftvaka ehf. og Kvarða-Afls ehf. og hafi því verið gerð krafa um leit 16. júní 2003 svo sem áður greini. Um hafi verið að ræða skiptameðferð þrotabúa. Skiptastjóri hafi rann­sóknar- og athafnaskyldu í því efni að finna eigur búsins og tryggja að þær séu til staðar við skiptin.  Ljóst sé að lögreglu beri að veita liðsinni sitt með því að aðstoða við að ná vörslum eigna sem tilheyra þrotabúinu. Stefnandi hafi hins vegar verið ósamvinnuþýður við skiptastjóra sem hafi orðið að leita til lögreglu m.a. af þeim sökum. Hafi stefnandi þannig alfarið sjálfur kallað yfir sig rannsókn og aðgerðir lög­reglu.

Leitir og haldlagning hafi byggst á úrskurðum héraðsdóms og verið fyllilega lögmætar. Hvorki stefnandi né annar hafi hirt um að bera haldlagninguna undir héraðs­dóm eins og heimildir stóðu til, sbr. 75. og 79. gr. laga um meðferð opinberra mála nr.  19/1991 og verði stefnandi að bera af því hallann.

Umfangsmikil rannsókn hafi farið fram á ætluðum brotum. Hafi málið verið umfangsmikið og óhjákvæmilegt að yfirfara mikið af gögnum, svo sem bókhaldsgögn, kaupsamninga og margt annað tengt umræddri atvinnustarfsemi. Stefndi telur að með­ferð málsins hjá lögreglu hafi ekki tekið óeðlilega langan tíma.

Öllum málsástæðum varðandi fyrrverandi eiginkonu stefnanda er mótmælt sem málinu óviðkomandi, röngum og ósönnuðum, enda sé hún ekki aðili málsins. Ekkert liggi fyrir um ætlað heilsutjón og óvinnufærni stefnanda og enn síður um tengsl slíks við hina umdeildu atburði. Er öllum fullyrðingum stefnanda um þetta mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Liggi ekki fyrir að stefnandi hafi ekki unnið eftir þetta og enn síður að það hafi tengst umræddum atburðum.

Mótmælt er fullyrðingum um að skylt hafi verið að láta stefnanda vita að til stæði að gera kröfu um húsleit eða að slík krafa væri fram komin, enda ljóst að það gengi gegn hagsmunum rannsóknarinnar. Engu breytir þótt nágrannar stefnanda hafi e.t.v. vitað um atburðina eftir á, enda óhjákvæmilegt. Starfsmenn stefndu hafi farið fram með þeirri varkárni og nærfærni sem unnt var miðað við málavexti. Ósannað sé að stefnandi hafi orðið fyrir nokkrum miska eða álitshnekki vegna þessa. Þá er full­yrðingum um ósjálfstæði dómara og rannsóknaraðila mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

Stefndi áréttar að stefnandi hafi ekki sýnt fram á tjón af neinu tagi. Þá hafi ekki verið bent á neinar þær aðgerðir eða háttsemi sem leitt geti til bótaskyldu stefnda. Einnig er vísað til þess að stefnandi hafi ekki látið reyna á úrræði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., um ábyrgð skiptastjóra eða 27. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998 að því er varði ábyrgð héraðsdómara.

Verði ekki fallist á sýknukröfu telur stefndi ljóst að bótakröfur séu allt of háar og byggi ekki á neinum gögnum. Fyrsti liður bótakröfu sé ekki studdur við nein gögn.  Liggi ekkert fyrir um óvinnufærni stefnanda eða á hverju tölur um tjón hans að þessu leyti séu byggðar.  Varðandi annan og þriðja liðinn hafi stefnandi ekki sýnt fram á að rangt hafi verið að koma hinum haldlögðu munum í vörslur skiptastjóra, en þess beri að geta að ekki hvílir fortakslaus skylda á lögreglu að aflétta haldi í hendur þess sem upphaflega er skráður sem þolandi haldlagningar. Sé lögreglu rétt að koma hald­lögðum munum í hendur þess sem á tilkall til munarins. Um hinn fjórða lið ber að geta þess að ekkert liggur fyrir um hann eða á hverju hann er byggður. Þá sé miskabótakröfum alfarið mótmælt. Að lokum er vísað til þess að stefnandi hafi ekki sinnt skyldu sinni að reyna að takmarka tjón sitt.

                                                                 

IV.

Niðurstaða

Í máli þessu liggur fyrir að rannsókn á ætluðum brotum stefnanda gegn 247. og 250. gr. hegningarlaga hefur verið hætt, en haldlagning ríkislögreglustjóra á því lausa­fé sem áður greinir var  þáttur í þeirri rannsókn. Að mati dómara er ekkert komið fram um að stefnandi hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hér um ræðir. Er 175. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 42. gr. laga nr. 36/1999, því ekki til fyrirstöðu að fallist verði á kröfu stefnanda um bætur samkvæmt 176. gr. laganna.

Eins og áður greinir óskaði skiptastjóri þrotabús Kraftvaka ehf. og Kvarða-Afls ehf. eftir aðgerðum lögreglu með bréfi 27. mars 2003. Í bréfinu kom m.a. fram að skiptastjóri hefði fengið ábendingu frá manni sem hefði séð varning fluttan með vörubíl í hús á jörðinni Skarðströnd í a.m.k. þremur ferðum. Sagði svo í bréfi skiptastjóra að meðal þess sem rannsaka þyrfti væri í fyrsta lagi „mögulegt undanskot eigna (ýmiss varnings í eigu þrotabúanna) í hús á nafngreindum jörðum á Skarðs­strönd í Dalasýslu og jafnvel víðar (Reykjavík og nágrenni) þó einkum í Súluhöfða 21, Mosfellsbæ og Jónsgeisla 2 í Reykjavík“ en í öðru lagi „»samning um sölu« Unnsteins til sjálfs sín á bíl í eigu Kvarða-Afls ehf. með skráningarnúmerinu IZ 012; Mercedes Benz árgerð 1986.“

Að mati dómara verður að hafa í huga að á þessum tíma lá fyrir að allar eignir Kraftvaka ehf. höfðu í einu lagi verið færðar til Kvarða-Afls ehf. Hins vegar hafði skiptastjóri ekki fengið bókhald Kvarða-Afls ehf. og gat því ekki kynnt sér hvernig hagað hafði verið ráðstöfun eignanna af hálfu síðargreinda félagsins. Þá lá fyrir rökstuddur grunur um að eignir Kvarða-Afls ehf., áður í eigu Kraftavaka ehf., væru fluttar á ýmsa staði sem ekki tengdust starfsemi fyrirtækisins. Eins og atvikum málsins var háttað telur dómari að þær upplýsingar sem skiptastjóri lagði fram fyrir lögreglu hafi rennt nægilegum stoðum undir grun um að stefnandi kynni að hafa gerst sekur um brot gegn 250. gr. hegningarlaga eða jafnvel 247. gr. sömu laga með því að koma undan ýmsum eignum Kvarða-Afls ehf.

Eins og málið lá fyrir lögreglu í framhaldi af kæru skiptastjóra getur dómari ekki fallist á að rannsóknara hafi verið skylt að hlutast til um skýrslutöku af stefnanda áður en gerð var krafa um heimild til leitar hjá dómstólum, enda hefði slík skýrslutaka augljóslega getað spillt rannsóknarhagsmunum. Það er jafnframt álit dómara að þau gögn sem fyrir lágu á þessum tíma, og stöfuðu frá skiptastjóra umræddra þrotabúa, hafi rennt nægum stoðum undir heimild lögreglu til leitar á jörðinni Skarðsá og að Súluhöfða 21, Mosfellsbæ, í þeim tilgangi að finna og leggja hald á muni í eigu þrotabús Kvarða-Afls ehf. Er því hvorki fallist á að krafa lögreglu um leit né úrskurður héraðsdómara 16. júní 2003 hafi verið ólögmætur, sbr. 1. mgr. 90. gr. og 89. gr., laga nr. 19/1991.

Í málinu er fram komið að lögreglumenn notuðust við lista úr bókhaldi Kraftvaka ehf. um keypt og gjaldfærð áhöld fyrirtækisins auk fylgiskjala úr bókhaldi þar sem nánari lýsingar á þessum áhöldum var að finna. Bar lögreglumaðurinn Hálf­dán Daðason fyrir dómi að við framkvæmd leitar hefði verið leitast eftir föngum við að ganga úr skugga um hvort um muni á þessum listum væri að ræða að Skarðsá og Súluhöfða 21. Fær þessi lýsing Hálfdáns á framkvæmd leitarinnar stoð í aðilaskýrslu stefnanda þess efnis að þeir munir sem þar var lagt hald á hafi í öllum tilvikum nema tveimur (þ.e. hitablásari og höggborvél) verið komnir frá Kraftvaka ehf. Verður því ekki á það fallist að haldlagning hafi verið víðtækari en efni stóðu til. Þá hefur ekkert komið fram um að framganga lögreglumanna við framkvæmd leitar og haldlagningar hafi verið úr hófi harkaleg eða særandi fyrir stefnanda.

Við umræddar leitir var m.a. lagt hald á ýmis bókhaldsgögn sem talin voru tengjast Kraftvaka ehf. og Kvarða-Afli ehf. Stuttu eftir leitina, þ.e. 26. júní 2003, gaf stefnandi svo skýrslu hjá lögreglu þar sem hann færði m.a. fram skýringar á því hvernig það lausafé sem hald hafði verið lagt á hafði skipt um hendur. Telur dómari að við skoðun á bókhaldsgögnum, svo og við yfirheyrslu stefnanda, hafi rannsóknara mátt verða ljóst á hvaða grundvelli stefnandi taldi sig eiga þá muni sem hald hafði verið lagt á. Nánar tiltekið hlaut frekari rannsókn málsins að leiða í ljós að því lausafé, sem hér var um að ræða og lagt hafði verið hald á, hafði verið afsalað til Kvarða ehf. (síðar Kvarða-Afls ehf.) 1. júlí 2002, en hafði síðan verið selt stefnanda persónulega. Hlaut rannsóknin enn fremur að leiða í ljós að til voru gögn um þessar ráðstafanir í bókhaldi Kvarða-Afls ehf., sbr. reikninga dagsetta 31. desember 2002, 1. janúar 2003 og 6. febrúar sama ár, og stefnandi taldi sig hafa greitt kaupverðið með skuldajöfnuði vegna inneignar hans og sonar hans hjá fyrirtækinu.

Þeir gerningar sem stefnandi skýrði frá í skýrslutökunni 26. júní 2003 voru vafalaust riftanlegir samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Einnig gat ógildi þessara gerninga að samningarétti komið til álita, sbr. einkum 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerningar. Að lokum kunnu þessir gerningar að vera þess eðlis að þeir vörðuðu við 250. gr. hegningarlaga. Skiptastjóra voru ýmis úrræði tæk til að tryggja rétt þrotabúanna vegna umræddra eigna, t.d. krefjast kyrrsetningar þeirra. Nánari rannsókn málsins hlaut hins vegar að leiða í ljós að ekkert renndi stoðum undir þá skoðun skiptastjóra að umrædd þrotabú væru, án nokkurra aðgerða skiptastjóra, raunverulegir eigendur þeirra muna sem hér um ræddi. Ekki síst átti þetta við um bifreiðina IZ-012 sem var skráð á nafn stefnanda án þess að skiptastjóri hefði uppi nokkra viðleitni til þess að fá þeirri skráningu hnekkt eða þeim löggerningi er þar bjó að baki.

Samkvæmt framangreindu hafði lögregla ekkert í höndum um að þrotabú Kraftvaka ehf. eða Kvarða-Afls ehf. ættu lögmætt tilkall til þess lausafé sem lagt var hald á við leitirnar 18. júní 2003. Var lögreglu því óheimilt að afhenda skiptastjóra þrotabúanna þessa muni, en samkvæmt skýrslu skiptastjóra fyrir dómi er óvíst hvort og með hvaða hætti mununum var síðar ráðstafað í þágu þrotabúanna. Við þetta bætist að á skorti að rannsókn málsins væri fram haldið með eðlilegum hraða sumarið 2003 og gengið væri úr skugga um, án ástæðulauss dráttar, hvort ástæða væri til áfram­haldandi haldlagningar. Stefnanda var þannig fyrst tilkynnt um ráðstöfun munanna með bréfi 10. nóvember 2003, en munirnir munu hafa verið afhentir skiptastjóra 27. ágúst 2003 ef marka má móttökukvittanir skiptastjóra á haldlagningarskýrslum. Að frátöldum beiðnum ríkislögreglustjóra um upplýsingar og gögn frá skiptastjóra í júlí og nóvember 2003 verður ekki séð að starfsmenn ríkislögreglustjóra hafi aðhafst nokkuð í þágu rannsóknar málsins. Einkum telur dómari að með öllu sé óútskýrður sá dráttur sem varð á rannsókn málsins eftir að skiptastjóri svaraði umræddu erindi lögreglunnar með bréfi 20. nóvember 2003 þar til að tilkynnt var um lok rannsóknar málsins tæpum 10 mánuðum síðar, þ.e. 13. september 2004.

Þótt skilyrði hafi verið uppfyllt til að leggja hald á umrædda muni að Skarðströnd og Súluhöfða 21 við leit 18. júní 2003 er það samkvæmt þessu niðurstaða dómara að skort hafi á að umræddri rannsókn væri framhaldið með eðlilegum hraða, þar á meðal hvort ástæða væri til áframahaldandi haldlagningar þeirra muna sem hér um ræðir. Þá telur dómari að sú ákvörðun rannsóknara að afhenda skiptastjóra munina í stað stefnanda hafi verið ólögmæt hvað sem leið hugsanlegum kröfum eða bráðabirgðafullnustuaðgerðum af hálfu þrotabúa Kraftvaka ehf. og Kvarða-Afls ehf. Ber stefndi bótaábyrgð á fjárhagslegu tjóni stefnanda af þessum sökum samkvæmt a- og b-liðum 176. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 199. gr. laga nr. 82/1998, svo og samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar, en í máli þessu kemur bótaábyrgð skiptastjóra samkvæmt 5. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991 ekki til skoðunar. Víkur þá að sundurliðun kröfu stefnanda um bætur.

Stefnandi krefst í fyrsta lagi 1.500.000 króna fyrir áætlað tekjutjón fram til mars 2005. Lýsir stefnandi því að stefnanda hafi reynst ómögulegt að fá atvinnu meðan hann lá undir grun um refsiverða háttsemi auk þess sem aðgerðir lögreglu hafi valdið honum líkamlegum og andlegum þjáningum sem gerðu það að verkum að hann varð óvinnufær meira og minna yfir langt tímabil. Hefur stefnandi lagt fram skattaleg gögn um tekjur sínar 2002 til 2005 þessu til stuðnings, en þessi gögn bera með sér að tekjur stefnanda hafa verið verulega lægri á árunum 2003-2005 samanborið við árið 2002.

Að mati dómara hefur ekkert verið fært fram í málinu sem gefur vísbendingu um að stefnandi hafi orðið óvinnufær, að hluta eða í heild, vegna aðgerða lögreglu. Raunar benda gögn málsins til þess að stefnandi hafi nýtt aflahæfi sitt nokkuð óslitið á þessu tímabili, m.a. við eigin útgerð frá Skarðsströnd. Jafnvel þótt fallist væri á að stefnandi hefði orðið fyrir einhverju tekjutapi vegna þeirra hluta sem hald var lagt á liggja engin gögn fyrir um nánari fjárhæð þess tjóns. Er þessi liður í kröfu stefnanda því ósannaður og verður honum hafnað.

Í annan stað krefst stefnandi 510.856 króna fyrir haldlagðan skrifstofu- og tölvubúnað. Er þessi fjárhæð miðuð við upphæð á reikningi 31. desember 2002, þar sem Kvarði-Afl ehf. seldi stefnanda tvö skrifborð ásamt fylgihlutum (35.000 krónur), allar tölvur og búnað tengdan þeim (250.000 krónur), ljósritunarvél (135.305 krónur) og faxtæki (25.021) fyrir 554.431 krónu að meðtöldum virðisaukaskatti. Samkvæmt nánari skýringum lögmanns stefnanda við aðalmeðferð málsins er fjárhæð kröfu­liðarins miðuð við alla ofangreinda hluti að frátöldum skrifborðum (43.575 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti). Frekari tilgreiningu á hinum seldu hlutum er ekki að finna í gögnum málsins. Í þriðja stað krefst stefnandi 1.401.185 króna fyrir haldlagðar rafvörur og handverkfæri. Fjárhæðin svarar til reiknings 1. janúar 2003 þar sem „rafvörur af lager og ýmis handverkfæri skv. lista“ voru seld stefnanda. Enga frekari tilgreiningu á hinum seldu hlutum er að finna í gögnum málsins.

Það er álit dómara að á grundvelli framangreindra reikninga eða annarra gagna málsins sé ómögulegt að skera úr um hvort og þá að hvaða marki það lausafé sem hald var lagt á 18. júní 2003 hafi svarað til þeirra hluta sem seldir voru stefnanda 31. desember 2002 og 1. janúar 2003. Ýmislegt mælir raunar á móti því að svo geti verið. Til dæmis verður ekki séð að hald hafi verið lagt á neina hluti sem geta fallið undir lýsinguna „rafvörur af lager“, sbr. reikning 1. janúar 2003. Þá benda listar yfir lausafé í eigu Kraftvaka ehf. fremur í þá átt að mun meira lausafé en lagt var hald á 18. júní 2003 hafi verið andlag samninga stefnanda við Kraftvaka ehf. um áramótin 2002/2003. Verður ákvörðun bóta því ekki byggð á umræddum reikningum. Með hliðsjón af því að mat á þeim munum sem hér er um að ræða er vandkvæðum bundið þykir stefnandi allt að einu hafa fært slíkar sönnur að tjóni sínu að heimilt sé að dæma honum bætur að álitum. Þykja þær hæfilega metnar 1.000.000 króna fyrir haldlagðan skrifstofu-, tölvubúnað og annað lausafé.

Í fjórða lagi krefst stefnandi 711.000 króna fyrir afnotamissi bifreiðarinnar IZ-012 í þrjá mánuði og miðar hann fjárhæðina við leigugjald sambærilegrar bifreiðar hjá tiltekinni bílaleigu. Stefnandi hefur engin gögn lagt fram um þann kostnað sem hann telur sig hafa haft af því að stunda atvinnustarfsemi sína án bifreiðarinnar. Er þá sérstaklega haft í huga að ekkert liggur fyrir um að stefnandi hafi nokkurn tíma leigt bifreið eða annað flutningstæki á því tímabili sem hér um ræðir. Er því ósannað að tjón hans nemi framangreindri fjárhæð. Hins vegar þykir stefnandi hafa fært líkur að því að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna afnotamissis bifreiðarinnar og einnig við að endurheimta hana. Verða honum dæmdar bætur að álitum einnig fyrir þennan þátt málsins. Ber við mat á þeim bótum að taka tillit til þess að hér var um að ræða gamla bifreið sem seld hafði verið stefnanda 6. febrúar 2003 fyrir 105.825 krónur, en síðan endurbætt nokkuð í hans vörslum. Þykja bætur fyrir þennan þátt hæfilega metnar 50.000 krónur.

Eins og áður greinir er það álit dómara að rannsókn ríkislögreglustjóra hafi dregist úr hófi, einkum frá því að gögn voru móttekin 20. nóvember 2003 og þar til að tilkynnt var um lok rannsóknar málsins 13. september 2004. Er þá litið til umfangs og eðlis málsins og þess tíma sem ætla mátti að tæki að fara yfir þau bókhaldslegu gögn sem aflað hafði verið. Verður að meta þennan drátt sem brot á friði og æru stefnanda þannig að varði bótum samkvæmt 2. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja þær bætur hæfilega ákveðnar 250.000 krónur.

Samkvæmt öllu framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.300.000 krónur. Með vísan til 2. málsliðar 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu dæmast dráttarvextir frá uppsögu héraðsdóms.

Í ljósi þess að stefnandi nýtur gjafsóknar við rekstur málsins í héraði sam­kvæmt leyfi 28. júní 2005 verður stefndi ekki sérstaklega dæmdur til greiðslu málskostnaðar. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, Björns Ólafs Hallgrímsson hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.058.250 krónur með hlið­sjón af framlögðu málskostnaðaryfirliti, greiðist úr ríkissjóði. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Samkvæmt þessu nemur gjafsóknarkostnaður í málinu í heild 1.062.150 krónum.

Af hálfu stefnanda flutti málið Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.

Af hálfu stefnda flutti málið Sigurður Gísli Gíslason hdl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Unnsteini B. Eggertssyni, 1.300.000 krónur með dráttarvöxtum frá dómsuppsögu að telja.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda að fjárhæð 1.062.150 krónur, þar með talin þóknun lögmanns hans, Björns Ólafs Hallgrímsson hrl., að fjárhæð 1.058.250 krónur, greiðist úr ríkissjóði.