Hæstiréttur íslands
Mál nr. 53/2004
Lykilorð
- Umferðarslys
- Skaðabætur
- Tímabundið atvinnutjón
- Matsgerð
- Vextir
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 10. júní 2004. |
|
Nr. 53/2004. |
Hjálmar Baldursson(Kristján Stefánsson hrl.) gegn Heiðrúnu Jónu Ingólfsdóttur, Guðbirni Ingólfi Ólafssyni og Lloyd´s of London (Baldvin Hafsteinsson hrl.) |
Umferðarslys. Skaðabætur. Tímabundið atvinnutjón. Matsgerð. Vextir. Frávísun máls frá héraðsdómi.
H lenti í fjórum umferðarslysum með stuttu millibili, 8. janúar, 13. apríl og 27. september 1999 og 20. maí 2000. Hann krafðist bóta vegna slyssins 13. apríl 1999. Tryggingafélagið L greiddi H bætur á grundvelli matsgerðar tveggja lækna sem ekki voru þó dómkvaddir til starfans. Vildi H ekki una við það uppgjör og krafðist bóta fyrir tímabundið atvinnutjón með vísan til endurskoðaðrar niðurstöðu matsmanna. Var sú endurskoðaða matsniðurstaða talin órökstudd með öllu og beinlínis í andstöðu við fyrri niðurstöðu þess efnis að ekkert tímabundið atvinnutjón hafi hlotist í umræddu slysi. Með hliðsjón af þessu, svo og því hversu vanreifaður málatilbúnaður H var að öðru leyti varð ekki hjá því komist að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. janúar 2004. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Til vara krefst áfrýjandi þess að stefndu verði gert að greiða sér 9.456.571 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. apríl 1999 til 1. júlí 2001, en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 5.074.646 krónur 10. október 2002. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Fyrir Hæstarétti kom fram að frumvátryggjandi bifreiðarinnar, sem olli áfrýjanda tjóni 13. apríl 1999, var IBEX Motor Policies at Lloyd´s og að það félag hafi gefið út skírteini fyrir umræddri vátryggingu. Stefndu gera hins vegar ekki athugasemd við þá aðild til varnar í málinu, sem áfrýjandi mótaði með stefnu til héraðsdóms.
I.
Svo sem rakið er í héraðsdómi lenti áfrýjandi í fjórum umferðarslysum með stuttu millibili á árunum 1999 og 2000. Fyrsta slysið varð 8. janúar 1999, annað 13. apríl sama árs, hið þriðja 27. september 1999 og fjórða slysið 20. maí 2000. Var í öllum tilvikum annað hvort ekið í veg fyrir bifreið áfrýjanda eða aftan á hana og varð hann í hvert sinn fyrir meiðslum, en mismiklum þó. Í málinu krefur áfrýjandi stefndu um bætur vegna slyssins 13. apríl 1999.
Með matsbeiðni 11. júní 2001 fóru áfrýjandi, Tryggingamiðstöðin hf., Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og tjónafulltrúi Lloyd´s á Íslandi þess sameiginlega á leit við tvo nafngreinda lækna að þeir létu í té rökstutt álit eða mat á tjóni áfrýjanda vegna áðurnefndra slysa. Var Tryggingamiðstöðin hf. vátryggjandi bifreiðanna, sem ollu fyrsta og fjórða slysinu, en Sjóvá-Almennar tryggingar hf. var vátryggingafélag bifreiðarinnar, sem olli því þriðja. Læknarnir voru ekki dómkvaddir til starfans. Í matsbeiðninni var spurt um hver væri tímabundin óvinnufærni áfrýjanda „vegna hvers slyss á tímabilinu frá því tjón varð og þar til ekki var að vænta frekari bata.“ Þá var spurt um varanlegan miska og varanlega örorku áfrýjanda af völdum hvers slyss og loks hvort og þá hversu lengi áfrýjandi hafi verið veikur þannig að hann teldist eiga rétt á þjáningabótum samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna hvers slyss. Matsgerð læknanna er dagsett 1. febrúar 2002. Er í héraðsdómi gerð nánari grein fyrir efni hennar.
Tjónafulltrúi Lloyd´s greiddi áfrýjanda 5.074.646 krónur 10. október 2002. Er af hálfu stefndu haldið fram að áfrýjandi hafi með því fengið að fullu bætt tjón sitt vegna umferðarslyssins 13. apríl 1999 og að frekari bótaréttur vegna þess slyss verði ekki studdur við nefnda matsgerð. Í málinu krefst áfrýjandi annars vegar bóta fyrir tímabundið atvinnutjón samkvæmt 2. grein skaðabótalaga, sem stefndu telja sér óskylt að greiða. Í annan stað deila málsaðilar um vexti, en áfrýjandi telur upphafsdag dráttarvaxta vegna allra liða bótakröfu sinnar eiga að miðast við fyrra tímamark en stefndu fallast á.
II.
Í matsgerð 1. febrúar 2002 er fjallað um hvert áðurnefndra fjögurra slysa og afleiðingar þess fyrir heilsufar áfrýjanda. Verður ráðið að fyrsta slysið hafi haft alvarlegustu afleiðingarnar. Umfjöllun um það lýkur með þessum orðum: „Tjónþoli kvaðst hafa verið óvinnufær og ekki búinn að jafna sig af afleiðingum slyssins þann 8. janúar 1999 er hann lenti í nýju slysi í apríl 1999.“ Í kafla í matsgerðinni um atvikið 13. apríl 1999 er greint frá rannsókn Torfa Magnússonar taugasérfræðings á áfrýjanda og meðal annars sagt frá henni þannig: „Einkenni tjónþola höfðu verið batnandi af þeim einkennum, sem komið höfðu í kjölfar fyrra slyssins og hafði tjónþoli verið í sjúkraþjálfun. Taldi læknirinn að einkenni tjónþola væru tiltölulega væg og hann ætti að vera fær um að vinna létt störf. Hann taldi hann hins vegar ófæran um að vinna erfiðisvinnu og vera ófæran til sjómennsku. Taldi hann að fyrra slysið væri afgerandi þáttur í þeim einkennum sem tjónþoli hafði. Seinna slysið hefði hins vegar hamlað nokkru varðandi bata.“
Í niðurstöðukafla matsins segir meðal annars: „Undirritaðir telja að um sé að ræða tímabundið atvinnutjón vegna fyrsta slyssins og tímabil veikinda vegna allra slysanna.“ Segir síðan að tímabundið atvinnutjón vegna umferðarslyssins 8. janúar 1999 samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga teljist vera 100% frá slysdegi til 13. apríl 1999. Tímabundið atvinnutjón vegna slyssins 13. apríl 1999 samkvæmt sömu lagagrein „telst ekkert vera.“ Þá teljist áfrýjandi hafa verið veikur í skilningi skaðabótalaga frá 13. apríl 1999 til 13. júlí sama árs.
Með bréfi til matsmannanna 18. apríl 2002 óskaði lögmaður áfrýjanda eftir ítarlegum rökstuðningi fyrir tímabundinni tapaðri starfsgetu. Í öðru bréfi lögmannsins til matsmanna 19. júlí sama árs kvaðst hann hafa kynnt sér „hugmyndir ykkar er varða tímabundið örorkutjón vegna 4ra umferðarslysa og tel þörf á að koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum ... .“ Athugasemdirnar lúta síðan eingöngu að matsniðurstöðum um þriðja og fjórða slysið. Í kjölfarið sendu matsmennirnir frá sér bréf 7. ágúst 2002 varðandi matið 1. febrúar sama árs. Segir þar að því miður hafi orðið mistök í mati á tímabundnu atvinnutjóni og tímabili veikinda vegna slysanna fjögurra. Það skuli hér með leiðrétt og niðurstöður eftir endurskoðun séu þær, sem á eftir fylgi. Tímabundið atvinnutjón vegna slyssins 8. janúar 1999 sé frá þeim degi til 13. apríl sama árs, en vegna slyssins þann dag teljist 100% tímabundið atvinnutjón „frá 13. apríl 1999 til 27. september 1999.“ Ekki er ástæða til að geta sérstaklega annarra leiðréttinga í bréfi matsmannanna.
III.
Áfrýjandi styður kröfu sína um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón við endurskoðaða niðurstöðu matsmannanna 7. ágúst 2002, þar sem slysið 13. apríl 1999 var talið hafa leitt til tímabundinnar óvinnufærni allt til 27. september sama árs er áfrýjandi lenti í þriðja slysinu. Við uppgjör bóta til hans 10. október 2002 var matið frá 1. febrúar sama árs hins vegar lagt til grundvallar, þar sem ekkert tímabundið atvinnutjón var talið hafa hlotist af slysinu. Telja stefndu gögn málsins benda eindregið til að áfrýjandi hafi þá verið óvinnufær af völdum fyrsta slyssins.
Hin endurskoðaða matsniðurstaða er órökstudd með öllu og beinlínis í andstöðu við forsendur fyrir niðurstöðunum 1. febrúar 2002, sem raktar voru að framan, um að ekkert tímabundið atvinnutjón hafi hlotist 13. apríl 1999. Verður ekki byggt á bréfi matsmannanna 7. ágúst 2002 um ætlað tjón áfrýjanda. Í málinu krefst hann bóta fyrir töpuð laun miðað við laun 1. vélstjóra á fiskiskipinu Snorra Sturlusyni í öllum veiðiferðum á viðmiðunartímabilinu, þótt fyrir liggi að hann hafi að jafnaði gegnt stöðu 2. vélstjóra á skipinu og nýtt sér rétt til frítöku. Er krafan vanreifuð að þessu leyti og hinu sama gegnir um upphafstíma dráttarvaxtakröfu hans. Af öllu framangreindu leiðir að málatilbúnaður áfrýjanda telst vera svo vanreifaður að ekki verður komist hjá að vísa málinu frá héraðsdómi af sjálfsdáðum.
Rétt er að hver aðilanna beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Málinu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. nóvember 2003.
Mál þetta var höfðað 1. apríl 2003 og dómtekið 6. þ.m.
Stefnandi er Hjálmar Þ. Baldursson, Lóuási 9, Hafnarfirði.
Stefndu eru Heiðrún Jóna Ingólfsdóttir, Frostafold 6, Reykjavík, Guðbjörn Ingólfur Ólafsson (heimilisfang ekki tilgreint í stefnu en mun samkvæmt framlagðri lögregluskýrslu vera Akurholt 2, Mosfellsbæ) og Lloyd´s of London, tjónafulltrúa Lloyd´s á Íslandi, en fyrirsvarsmaður hans er Baldvin Hafsteinsson hrl.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 9.456.571 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 13. apríl 1999 til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. og 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags. Allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 5.074.646 krónur þann 10. október 2002. Þá krefst stefnandi málskostnaðar in solidum úr hendi stefndu.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda og til vara að kröfur þeirra verði verulega lækkaðar og dráttarvextir eingöngu reiknaðir frá 15. september 2002 til greiðsludags. Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I
Í málinu krefst stefnandi bóta vegna umferðarslyss sem hann varð fyrir 13. apríl 1999. Ekki er ágreiningur um málsatvik eða bótaskyldu. Það slys, sem hér um ræðir, er annað í röð fjögurra umferðarslysa sem stefnandi lenti í á tiltölulega skömmum tíma; hið fyrsta varð 8. janúar 1999, hið þriðja 27. september 1999 og hið fjórða 20. maí 2000.
Slys þetta varð er stefnandi ók bifreiðinni VH-820 austur Miklubraut yfir gatnamót Kringlumýrarbrautar og þurfti að nema skyndilega staðar vegna umferðar. Bifreið stefnda, Guðbjörns Ingólfs Ólafssonar, M-3879, sem var ekið af stefndu, Heiðrúnu Jónu Ingólfsdóttur, tryggingafélag IBEX, lenti þá aftan á bifreiðinni DB-223 sem kastaðist við það aftan á bifreið stefnanda. Í lögregluskýrslu segir að stefnandi hafi hlotið meiðsl á hálsi og baki, meiðsli hafi verið lítil og hann hafi farið sjálfur á slysadeild.
Með bréfi lögmanns stefnanda 24. nóvember 1999 til hins stefnda tryggingafélags fylgdi umboð stefnanda til lögmannsins varðandi slys sem hann hafi orðið fyrir 13. apríl 1999. Greint er frá því að stefnandi hafi áður lent í umferðarslysi 8. janúar og verið á batavegi er þetta slys varð en við það hafi áverkar ýfst upp að nýju. Þá er skýrt frá umferðarslysi 27. september 1999. Boðuð er kröfugerð vegna launamissis.
Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 7. janúar 2000, til tryggingafélagsins fylgdi, eftir því sem þar segir, greinargerð Torfa Magnússonar og læknisvottorð Þórarins Rafns Harðarsonar um vinnufærni stefnanda. Einnig er vísað til þess að hjálagt sé endurrit uppgjöra Granda hf. um laun staðgengils en stefnandi hafi ekki fengið bætur vegna tímabundins atvinnutjóns frá september 1999. Vísað er til þess að samkvæmt uppgjörinu nemi tekjur staðgengils vegna tímabilsins frá 19. september 1999 til 23. desember s.á 2.097.337 krónum. Krafa er sett fram um það að bótaskylda verði játuð og að félagið greiði áfallandi kröfur vegna tímabundins atvinnutjóns. Í greinargerð stefndu segir að greiðslum hafi verið hafnað enda hafi stefnandi á sama tíma þegið greiðslur frá vátryggjanda sem afleiðingu af fyrsta slysi hans, þann 8. janúar 1999.
Mat á afleiðingum allra framangreindra slysa stefnanda var unnið af læknunum Júlíusi Valssyni og Ragnari Jónssyni og er það dags. 1. febrúar 2002. Þeir voru ekki dómkvaddir til starfans. Matsbeiðendur voru stefnandi og vátryggjendur þeir, sem í hlut áttu, þ.e. Tryggingamiðstöðin hf. vegna slyss nr. 1 og 4, stefndi, tjónafulltrúi Lloyd´s á Íslandi, vegna slyss nr. 2 og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. vegna slyss nr. 3.
Greint verður frá nokkrum meginatriðum sem fram koma í matsgerðinni um hvert framangreindra slysa.
Umferðarslysið 8. janúar 1999 varð við það að bifreið var ekið í veg fyrir bifreið stefnanda. Mikið tjón varð á báðum bifreiðunum og þurfti að fjarlægja þær af vettvangi með krókbifreið. Stefnandi mundi eftir aðdraganda slyssins en vankaðist við áreksturinn og mundi ekki glöggt eftir fyrstu mínútunum eftir hann. Var hann fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Sjúkdómsgreining var tognun í hálsi, togunun í öxl svo og mar á brjóstkassa og mar við hné. Honum var í framhaldinu vísað til sjúkraþjálfara. Við eftirlit 16. mars 1999 voru verkir aftan til í hálsi og eymsli á milli herðablaða og niður í mjóbak. Einnig var stefnandi mjög stirður í hreyfingum og hafði skert úthald. Eftir stefnanda er haft að hann hafi verið óvinnufær og ekki verið búinn að jafna sig af afleiðingum slyssins 8. janúar 1999 er hann lenti að nýju í slysi í apríl 1999.
Um umferðarslysið 13. apríl 1999 segir að stefnandi hafi fengið nýjan hnykk og einkenni hans blossað upp. Þegar hann hafi komið til skoðunar á endurkomudeild hafi komið fram að honum hafi versnað verulega. Hann hafi verið með einkenni frá mjóbaki svo og aftanvert upp á brjóstkassann og á svipuðum svæðum og áður. Þannig hafi verið talið að hann hefði hlotið nýjan hnykk á herðar og mjóbak og einkenni þaðan magnast upp aftur. Einnig hafi komið fram eymsli í vinstra hné sem hann hafi reyndar verið með frá því í slysinu í janúar. Vísað er til greinargerðar Torfa Magnússonar taugasérfræðings, dags. 20. júlí 1999, en í niðurstöðum hennar komi fram það mat að stefnandi hafi hlotið þau einkenni, sem böguðu hann á ritunartíma greinargerðarinnar, í fyrra slysinu en þau hafi ýfst upp í því síðara. Einkenni stefnanda væru tiltölulega væg og ætti hann að vera fær um að vinna létt störf en hins vegar taldi Torfi Magnússon stefnanda vera ófæran um að vinna erfiðisvinnu og vera ófæran til sjómennsku. Fyrra slysið væri afgerandi þáttur í þeim einkennum sem stefnandi hefði en seinna slysið hefði hamlað nokkru varðandi bata. Eftir stefnanda hafa matsmennirnir að hann teldi ekki að nein ný einkenni hefðu við þetta slys bæst við þau einkenni, sem þegar voru til staðar vegna fyrra slyssins, en hins vegar hefðu þau ýfst talsvert upp. Hann hafi ekki jafnað sig á afleiðingum þessara tveggja slysa er hann lenti í þriðja slysinu í september 1999.
Umferðarslysið 27. september 1999 varð við það að bifreið var ekið aftan á bifreið stefnanda. Stefnandi taldi að þetta slys hefði ekki skipt miklu máli varðandi framvindu einkenna sinna og verið síst alvarlegt af þeim slysum sem hann lenti í. Einkennin hafi ýfst upp en aðeins tímabundið og eftir um tvo mánuði hafi ástandið verið orðið svipað og það var fyrir umrætt slys.
Umferðarslysið 20. maí 2000 varð við það að bifreið var ekið aftan á bifreið stefnanda. Við það ýfðust upp öll gömlu einkennin sem hann hafði haft fyrir en verst voru einkenni frá mjóbaki. Sjúkdómsgreining var tognun í mjóbaki og tognun í hálsi. Greint er frá því að við eftirlit 28. júlí 2000 hafi tjónþoli stundað sjúkraþjálfun þrisvar í viku en ekki tekið miklum framförum. Væri talið að frekari eftirlit á slysadeild væri gagnslaust og að líklegt væri að stefnandi kæmi til með að hafa einhver óþægindi frá stoðkerfi um ófyrirséða framtíð.
Niðurstöður matsins eru sem hér segir:
a) Umferðarslysið 8. janúar 1999.
Tímabundið atvinnutjón 100% frá 8. janúar 1999 til 13. apríl s.á..
Varanlegur miski 10%
Varanleg örorka 20%.
Stefnandi telst ekki hafa verið rúmfastur eftir slysið en veikur í skilningi skaðabótalaga frá 8. janúar 1999 til 13. apríl s.á. Eftir þann tíma telst ástand hans hafa verið orðið stöðugt og var þá ekki að vænta frekari bata.
b) Umferðarslysið 13. apríl 1999.
Tímabundið atvinnutjón telst ekkert vera.
Varanlegur miski 5%.
Varanleg örorka 10%.
Stefnandi telst ekki hafa verið rúmfastur eftir slysið en veikur í skilningi skaðabótalaga frá 13. apríl 1999 til 13. júlí s.á. Eftir þann tíma telst ástand hans hafa verið orðið stöðugt og var þá ekki að vænta frekari bata.
c) Umferðarslysið 27. september 1999.
Tímabundið atvinnutjón telst ekkert vera.
Varanlegur miski enginn.
Varanleg örorka engin.
Stefnandi telst ekki hafa verið rúmfastur eftir slysið en veikur í skilningi skaðabótalaga frá 27. september 1999 til 27. nóvember s.á. Eftir þann tíma telst ástand hans hafa verið orðið stöðugt og var þá ekki að vænta frekari bata.
d) Umferðarslysið 20. maí 2000.
Tímabundið atvinnutjón telst ekkert vera.
Varanlegur miski 5%.
Varanleg örorka 10%.
Stefnandi telst ekki hafa verið rúmfastur eftir slysið en veikur í skilningi skaðabótalaga frá 20. maí 2000 til 20. júlí s.á. Eftir þann tíma telst ástand hans hafa verið orðið stöðugt og var þá ekki að vænta frekari bata.
Lögmaður stefnanda skrifaði matsmönnunum bréf 18. apríl 2002. Þar segir að vegna framsetningar kröfugerða sé honum brýnt að fá upplýsingar um þann heildartíma sem stefnandi sé óvinnufær vegna slysanna og verði við það litið til starfs hans. Stefnandi hafi skilað læknisvottorðum um samfellda óvinnufærni fram á árið 2001. Tryggingamiðstöðin hf. hafi játað bótaskyldu og greitt vegna slysanna 11 milljónir króna fram á árið 2001. Stefnandi hafi vegna slysanna verið frá störfum allt til 15. september 2001 að hann hafi hafið störf við húsvörslu en hann muni ekki hafa heilsu til að hverfa til fyrri starfa sem hafi skilað honum verulegum launum. Af þessum sökum sé óskað eftir ítarlegum rökstuðningi fyrir tímabundinni tapaðri starfsgetu
Í bréfi lögmanns stefnanda til matsmannanna 19. júlí 2002 kveðst hann ekki gera athugasemdir við hugmyndir þeirra um tímabundið örorkutjón stefnanda vegna fyrsta og annars umferðarslyssins en setur fram athugasemdir og skýringar varðandi hið þriðja svo og fjórða. Í bréfinu segir að með hliðsjón af alvarlegum afleiðingum slysanna og fyrra starfi stefnanda sem vélstjóra á frystitogurum sé ekki óvarlegt að ætla hann óvinnufæran allt þar til hann hóf störf í september 2001.
Í greinargerð matslæknanna Júlíusar Valssonar og Ragnars Jónssonar, dags. 7. ágúst 2002, segir að mistök hafi orðið í mati á tímabundnu atvinnutjóni og tímabili veikinda vegna slysanna. Leiðrétt niðurstaða eftir endurskoðun sé sem hér segir:
a) Umferðarslysið 8. janúar 1999.
Tímabundið atvinnutjón 100% frá 8. janúar 1999 til 13. apríl 1999.
Stefnandi telst ekki hafa verið rúmfastur eftir slysið en veikur í skilningi skaðabótalaga frá 8. janúar 1999 til 13. apríl 1999. Eftir þann tíma telst ástand hans hafa verið orðið stöðugt og var þá ekki að vænta frekri bata.
b) Umferðarslysið 13. apríl 1999.
Tímabundið atvinnutjón 100% frá 13. apríl 1999 til 27. september 1999.
Stefnandi telst ekki hafa verið rúmfastur eftir slysið en veikur í skilningi skaðabótalaga frá 13. apríl 1999 til 27. september 1999. Eftir þann tíma telst ástand hans hafa verið orðið stöðugt og var þá ekki að vænta frekari bata.
c) Umferðarslysið 27. september 1999.
Tímabundið atvinnutjón 100% til 15. apríl 2000.
Stefnandi telst ekki hafa verið rúmfastur eftir slysið en veikur í skilningi skaðabótalaga frá 27. september 1999 til 15. apríl 2000. Eftir þann tíma telst ástand hans hafa verið orðið stöðugt og var þá ekki að vænta frekari bata.
d) Umferðarslysið 20. maí 2000.
Tímabundið atvinnutjón 100% frá 20. maí 2000 til 31. ágúst 2001.
Stefnandi telst ekki hafa verið rúmfastur eftir slysið en veikur í skilningi skaðabótalaga frá 20. maí 2000 til 31. ágúst 2001. Eftir þann tíma telst ástand hans hafa verið orðið stöðugt og var þá ekki að vænta frekari bata.
Lögmaður stefnanda setti fram sundurliðaða, rökstudda kröfugerð á hendur hinu stefnda tryggingafélagi með bréfi 15. ágúst 2002. Krafist var: a) Þjáningabóta vegna 177 daga án rúmlegu, 138.060 kr. b) Bóta vegna 5% varanlegs miska 223.000 kr. c) Bóta vegna 10% varanlegrar örorku, “meðaltal 5.350.000x10x7139 = kr. 3,819,365” d) Bóta fyrir tímabundið atvinnutjón 4.550.510 kr. og er sú fjárhæð fundin sem hlutfallið 177/365 af launatekjum 1. vélstjóra á m/b Snorra Sturlusyni árið 1999, eða 9.383.820 krónum. Samtals var gerð krafa um greiðslu 8.730.935 króna.
Hið stefnda tryggingafélag greiddi stefnanda 5.074.646 krónur 10. október 2002. Fjárhæðin var þannig sundurliðuð, auk vaxta, innheimtukostnaðar og virðisaukaskatts: Þjáningabætur 167 dagar 155.310 krónur. Varanlegur miski 5% 266.905 krónur. Varanleg örorka 6.748.003 krónurlækkun vegna aldurs 2.429.281 kr. Stefnandi tók við greiðslunni með áskilnaði um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón og fyrirvara um frekari bætur, vexti og kostnað.
II
Dómkrafa stefnanda er þannig sundurliðuð:
a) Þjáningabætur 167 dagar x 930, 155.310 krónur.
b) Miskabætur 5%, 266.905 krónur.
c) Bætur v/varanlegrar örorku er sögð reist á tekjugrundvelli sem málsaðila greini ekki á um, 4.740.937 krónur.
d) Tímabundið atvinnutjón. Stefnandi hafi, samkvæmt niðurstöðu mats, verið óvinnufær frá slysdegi til og með 27. september eða í 167 daga og eigi hann rétt á bótum fyrir tímabundið atvinnutjón samkvæmt gildandi ákvæði 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 1. gr. a-lið laga nr. 37/1999. Til þess er vísað að stefnandi hafi starfað sem 1. vélstjóri á m/b Snorra Sturlusyni þegar hann varð fyrir slysi og var á leið til starfa að nýju. Krafist er staðgengilslauna en samkvæmt upplýsingum Granda hf. hafi laun vélstjóra á árinu 1999 numið 9.383.820 krónum. Á grundvelli starfshlutfallsins 167/265 er krafist 4.293.419 króna.
Stefnandi gerir kröfu til þess að fá dráttarvexti á bætur þar sem hér hafi verið um launakröfu að ræða sem stefnandi hafi þegar sett fram kröfur um haustið 1999.
Í stefnu segir að stefnandi ætli að ágreiningur málsaðila lúti einungis að bótaskyldu stefndu hvað varðar vexti, kostnað og bætur vegna tímabundinnar örorku en ekki að grundvelli kröfugerðar.
Af hálfu stefndu er litið svo á að eingöngu sé deilt um hvort stefnandi eigi rétt til bóta samkvæmt 2. gr. laga nr. 50/1993, eins og hún var á slysdegi, sem afleiðingu óhappsins 13. apríl 1999.
Sýknukröfu sína byggja stefndu í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi ekki sannað að hann hafi orðið fyrir tekjutapi sem afleiðingu af slysinu 13. apríl 1999. Hann hafi á þeim tíma þegar verið “sjúkraskrifaður” vegna fyrra slyss, sem hann hafi hvergi nærri verið búinn að jafna sig á, og ekki þegið laun. Hvergi sé að finna neina áætlun um hvenær hafi mátt ætla að stefnandi væri orðinn svo heill heilsu af áverkum þeim sem hann hlaut í fyrsta slysinu að hann hafi mátt vænta þess að geta snúið aftur til starfa. Þá er sýknukrafan byggð á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi rétt til frekari bóta en þeirra sem hann hafi þegar þegið með slysagreiðslum frá vátryggjanda þeim, sem greiðsluskyldur hafi verið vegna afleiðinga slyssins 8. janúar 1999, og með greiðslu bóta frá stefndu.
Varakrafa stefndu er reist á eftirfarandi: Launaviðmið stefnanda sé rangt og er um það vísað til þess að samkvæmt framlögðum upplýsingum vinnuveitanda hafi laun hans á síðustu 12 mánuðum fyrir slys numið um 540.000 krónum á mánuði, launatekjur hans fyrir árið 1998 hafi numið 6.433.600 krónum og fyrir árið 1997 4.531.978 krónum svo og til þess að yfirlit það, sem lagt sé fram af stefnanda, sé einnig rangt vegna þess að að taki til launa fyrsta vélstjóra en stefnandi hafi verið í starfi sem annar vélstjóri. Skerða beri bótagreiðslur, sem stefndu kunni að verða gert að greiða stefnanda, um 20% eða sem svarar mati lækna á varanlegri örorku stefnanda sem afleiðingu af slysinu 8. janúar 1999. Ennfremur er krafan studd með því að frá kröfunni beri að draga laun samkvæmt 36. gr. laga nr. 35/1985 svo og dagpeninga og aðrar bætur sem stefnandi kunni að hafa notið. Verði stefndu gert að greiða stefnanda bætur beri eingöngu að greiða vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga fram til 15. september 2002 en dráttarvexti frá þeim tíma til greiðsludags.
III
Kröfuliðir stefnanda um þjáningabætur og miskabætur nema sömu fjárhæðum og hann hefur þegar fengið greiddar.
Krafa stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku umfram það sem hið stefnda vátryggingafélag hefur þegar greitt honum er ekki studd rökum eða er sýnt fram á réttmæti hennar með útreikningi og hún er í andstöðu við framangreinda yfirlýsingu í stefnu um ágreiningsefni aðila. Verður krafan því ekki tekin til greina.
Ágreiningur aðila um vexti er sá að stefnandi telur upphafstíma dráttarvaxta eiga að vera 13. apríl 1999 en stefndu hins vegar ekki fyrr en 15. september 2002. Fallist er á sjónarmið stefndu varðandi þetta, sbr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Krafa stefnanda um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón verður ekki studd við lög nr. 37/1999 þar sem þau eiga, samkvæmt 15. gr. þeirra, við um skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem rakið verður til bótaskylds atviks eftir gildistöku laganna 1. maí 1999.
Af hálfu stefnanda voru lagðar fram upplýsingar Granda hf. um laun fyrsta vélstjóra á Snorra Sturlusyni RE-219 fyrir árið 1999. Launin námu 8.926.202 krónum. Við aðalmeðferð málsins upplýsti stefnandi að hann hefði gegnt stöðu annars vélstjóra á nefndu skipi og jafnframt að fjórða hver veiðiferð hefði verið “frítúr”. Um laun staðgengils hefur ekki verið upplýst. Framlögð skýrsla læknanna Júlíusar Valssonar og Ragnars Jónssonar, dags. 7. ágúst 2002, hefur, eftir því sem þar greinir, að geyma leiðrétta niðurstöður eftir endurskoðun. Hún var fengin að tilhlutan lögmanns stefnanda án þess að viðkomandi tryggingafélög, sem höfðu óskað eftir mati læknanna, ættu þar hlut að máli. Í skýrslunni er verulega breytt niðurstaða varðandi tímabundið atvinnutjóns stefnanda vegna umferðarslyssins 13. apríl 1999 ekki skýrð eða rökstudd. Í matsgerð, dags. 1. febrúar 2002, segir hins vegar: “Undirritaðir telja að um sé að ræða tímabundið atvinnutjón vegna fyrsta slyssins og tímabil veikinda vegna allra slysanna.” Í stefnu segir að stefnandi muni leiða matsmenn sem vitni. Það gerði hann þó ekki.
Engar viðhlítandi sönnur liggja samkvæmt framangreindu fyrir um að stefnandi hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni sem stefndu beri að bæta vegna umferðarslyssins 13. apríl 1999. Krafan verður því ekki tekin til greina. Með vísun til annars þess sem áður er greint er niðurstaða málsins sú að sýkna beri stefndu af öllum kröfum stefnanda. Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.
Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndu, Heiðrún Jóna Ingólfsdóttir, Guðbjörn Ingólfur Ólafsson og tjónafulltrúi Lloyd´s á Íslandi, eru sýkn af kröfum stefnanda, Hjálmars Þ. Baldurssonar.
Málskostnaður fellur niður.