Hæstiréttur íslands
Mál nr. 655/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Kröfulýsing
- Skuldabréf
- Gjalddagi
- Dráttarvextir
|
|
Föstudaginn 27. nóvember 2009. |
|
Nr. 655/2009. |
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda(Ragnar Baldursson hrl.) gegn þrotabúi Samsonar eignarhaldsfélags ehf. (Helgi Birgisson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Kröfulýsing. Skuldabréf. Gjalddagi. Dráttarvextir.
SL kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans um að viðurkenndar yrðu að fullu kröfur hans á grundvelli skuldabréfa í þrotabú SE ehf. í samræmi við kröfulýsingar. Fram kom að í skilmálum skuldabréfanna hafi verið heimild til gjaldfellingar þeirra vegna nánar tilgreindra aðstæðna. Til að neyta vanefndaúrræðis eins og þessa verði kröfuhafi að beina tilkynningu um það til skuldara og hafi slík ákvöð áhrif gagnvart skuldaranum frá því að hún berist honum. Engin ákvæði hafi verið í skilmálum skuldabréfanna sem hafi heimilað SL að víkja frá þeirri almennu reglu. Í málinu liggi ekkert fyrir um að SL hafi beint slíkri tilkynningu til SE ehf. áður en bú félagsins hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Væri því ekki unnt að líta svo á að kröfur samkvæmt skuldabréfunum hafi verið gjaldfelldar fyrr en við úrskurð um gjaldþrotaskipti SE ehf. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2009, þar sem leyst var úr ágreiningi um viðurkenningu á tveimur kröfum, sem sóknaraðili lýsti við gjaldþrotaskipti varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að tvær nánar tilgreindar kröfur hans á hendur varnaraðila verði viðurkenndar sem almennar kröfur, annars vegar að fjárhæð 209.221.831 króna og hins vegar 181.822.815 krónur. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt gögnum málsins gaf Samson eignarhaldsfélag ehf. út samtals 1000 skuldabréf 12. apríl 2005 í flokki, sem nefndur var 1. flokkur 2005, og var hvert þeirra að nafnverði 10.000.000 krónur. Skuldabréfin voru bundin vísitölu neysluverðs og báru 5,3% ársvexti, en höfuðstóll þeirra skyldi greiðast ásamt verðbótum í einu lagi 12. apríl 2010. Áfallnir vextir áttu á hinn bóginn að greiðast 12. apríl ár hvert, í fyrsta sinn á árinu 2006. Í skilmálum fyrir þessum skuldabréfum voru eftirfarandi ákvæði um heimildir til að gjaldfella kröfu samkvæmt þeim: „Kröfuhöfum er heimilt að gjaldfella skuldina komi í ljós við birtingu uppgjörs í Kauphöll Íslands að virkt eiginfjárhlutfall hafi farið niður fyrir 30% og útgefandi bætir ekki úr innan 60 daga frá birtingardegi. Einnig er kröfuhöfum heimilt að gjaldfella skuldina sinni útgefandi ekki upplýsingaskyldu samkvæmt reglum Kauphallar Íslands á hverjum tíma. ... Greiði útgefandi ekki á gjalddaga skuldabréfanna ... er skuldabréfaeiganda heimilt að innheimta dráttarvexti í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands ... Hafi greiðsla ekki verið innt af hendi 14 dögum eftir gjalddaga ... er skuldabréfaeiganda heimilt að fella skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar. ... Sama gildir ef skuldari leitar nauðasamninga eða bú hans tekið til gjaldþrotaskipta.“ Þá gaf Samson eignarhaldsfélag ehf. út 200 skuldabréf 14. september 2007 í nýjum flokki, 4. flokki 2007, og var nafnverð hvers 10.000.000 krónur. Þessi skuldabréf voru einnig bundin vísitölu neysluverðs, en ársvextir 8%. Höfuðstóllinn átti að greiðast í einu lagi með áföllnum verðbótum 14. september 2012, en vextir á hinn bóginn á sama degi árlega, í fyrsta sinn 2008. Skilmálar skuldabréfa í þessum flokki liggja ekki fyrir í málinu, en af framlagðri lýsingu skuldabréfanna á ensku má ráða að hliðstæð ákvæði við þau, sem að framan er getið, hafi gilt um heimildir til að gjaldfella kröfu samkvæmt þeim að því er varðar áskilnað um eiginfjárhlutfall útgefandans og afleiðingar greiðslufalls. Af sömu lýsingu verður séð að um þennan flokk skuldabréfa hafi að auki gilt heimildir til að gjaldfella þau ef verulegar breytingar yrðu á starfsemi Samsonar eignarhaldsfélags ehf. frá því, sem greint var um tilgang félagsins í samþykktum þess, hlutur þess í Landsbanka Íslands hf. yrði minni en 20% þrjá mánuði í röð eða mikils háttar breytingar yrðu á eignarhaldi að félaginu og þær leiddu til þess að nýr eigandi næði beint eða óbeint ráðum yfir því.
Fyrir liggur að sóknaraðili eignaðist skuldabréf að nafnverði 150.000.000 krónur í hvorum framangreindum flokki. Skuldabréf þessi munu hafa verið í skilum þegar Samson eignarhaldsfélag ehf. fékk heimild til greiðslustöðvunar 7. október 2008, en 4. nóvember sama ár hafnaði Héraðsdómur Reykjavíkur beiðni félagsins um heimild til áframhaldandi greiðslustöðvunar. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 12. nóvember 2008 að beiðni stjórnar þess. Sóknaraðili bar upp við varnaraðila kröfur á grundvelli skuldabréfa sinna með tveimur kröfulýsingum, sem bárust skiptastjóra 14. janúar 2009, og krafðist sóknaraðili þess að þær yrðu viðurkenndar sem almennar kröfur. Í annarri kröfulýsingunni, sem skiptastjóri auðkenndi nr. 23, gerði sóknaraðili kröfu samkvæmt skuldabréfunum í 1. flokki 2005, sem hann sundurliðaði þannig að „höfuðstóll, gjaldfelldur“ næmi 195.962.733 krónum, umsamdir vextir til 4. nóvember 2008 5.827.705 krónum, dráttarvextir til 12. sama mánaðar 1.188.321 krónu og innheimtuþóknun ásamt kostnaði af kröfulýsingu 6.243.072 krónum, en krafan var þannig að fjárhæð samtals 209.221.831 króna. Í hinni kröfulýsingunni, sem fékk auðkennið nr. 24, gerði sóknaraðili kröfu vegna skuldabréfa í 4. flokki 2007, þar sem fram kom að „höfuðstóll, gjaldfelldur“ væri 173.288.169 krónur, umsamdir vextir til 4. nóvember 2008 1.925.422 krónur, dráttarvextir til 12. sama mánaðar 1.031.813 krónur og innheimtuþóknun ásamt kostnaði af kröfulýsingu 5.577.411 krónur, en krafan nam þannig alls 181.822.815 krónum. Í kröfulýsingunum var hvorki greint frá ástæðum fyrir gjaldfellingu höfuðstóls krafnanna né heimild til að krefjast dráttarvaxta. Með báðum kröfulýsingum fylgdu innheimtubréf sóknaraðila 4. nóvember 2008 til Samsonar eignarhaldsfélags ehf., þar sem fram kom kröfuliður með heitinu „höfuðstóll, gjaldfelldur“ og krafist var samningsbundinna vaxta til dagsetningar bréfanna, en fjárhæðir í þeim efnum voru þær sömu og í kröfulýsingum sóknaraðila. Þar var hvorki lýst yfir gjaldfellingu skuldarinnar né greint frá ástæðu þess að svo væri komið. Í skrá um lýstar kröfur á hendur varnaraðila, sem lögð var fram á skiptafundi 20. febrúar 2009, tók skiptastjóri þá afstöðu að viðurkenna kröfu nr. 23 sem almenna kröfu að fjárhæð 202.021.247 krónur og eftirstæða kröfu að fjárhæð 6.243.072 krónur, en af kröfu nr. 24 almenna kröfu að því er varðar 175.521.665 krónur og 5.577.411 krónur sem eftirstæða kröfu. Í báðum tilvikum taldi skiptastjóri til eftirstæðra krafna þær fjárhæðir, sem sóknaraðili hafði krafist vegna innheimtuþóknunar og kostnaðar af kröfulýsingu, en til almennra krafna sömu fjárhæð höfuðstóls og fram kom í kröfulýsingum sóknaraðila að viðbættum umsömdum vöxtum allt til 12. nóvember 2008 og var kröfu um dráttarvexti hafnað. Sóknaraðili bar fram á skiptafundinum andmæli gegn afstöðu skiptastjóra til viðurkenningar á lýstum kröfum hans, en með því að ekki tókst að jafna ágreining um þetta leitaði skiptastjóri úrlausnar héraðsdóms um hann með bréfi 28. mars 2009 og var mál þetta þingfest af því tilefni 24. apríl sama ár. Í málinu krefst sóknaraðili þess að kröfur hans verði viðurkenndar sem almennar kröfur með þeim fjárhæðum, sem settar voru fram í áðurgreindum kröfulýsingum hans, en varnaraðili krefst þess á hinn bóginn að afstaða skiptastjóra verði látin standa óröskuð.
Í fyrrgreindum skilmálum skuldabréfa Samsonar eignarhaldsfélags ehf. í 1. flokki 2005, sem ætla verður að skilmálar skuldabréfa í 4. flokki 2007 hafi að þessu leyti svarað efnislega til, var kröfuhafa veitt heimild til að „gjaldfella skuldina“ eða „fella skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar“ vegna nánar tilgreindra ástæðna. Til að neyta vanefndaúrræðis eins og þessa verður kröfuhafi að beina tilkynningu um það til skuldara og hefur slík ákvöð áhrif gagnvart skuldaranum frá því að hún berst honum, en í skilmálum skuldabréfanna voru engin ákvæði, sem heimiluðu sóknaraðila að víkja frá þeirri almennu reglu. Í málinu liggur ekkert fyrir um að sóknaraðili hafi beint slíkri tilkynningu til Samsonar eignarhaldsfélags ehf. áður en bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta og breyta þar engu áðurnefnd innheimtubréf hans, sem dagsett voru 4. nóvember 2008. Er því ekki unnt að líta svo á að kröfur sóknaraðila samkvæmt skuldabréfunum, sem um ræðir í málinu, hafi verið gjaldfallnar fyrr en úrskurður um gjaldþrotaskipti á búi félagsins leiddi til þess samkvæmt 1. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991. Þegar af þessum sökum verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, greiði varnaraðila, þrotabúi Samsonar eignarhaldsfélags ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2009.
Málið barst dóminum með bréfi mótteknu 31. mars 2009. Það var þingfest 24. apríl sama ár og tekið til úrskurðar 30. september s.l.
Sóknaraðili er Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, Borgartúni 29, Reykjavík.
Varnaraðili er Þrotabú Samsonar eignarhaldsfélags ehf., Aðalstræti 2, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að kröfur hans í bú varnaraðila nr. 23 á kröfuskrá samtals að fjárhæð 209.221.831 krónur og nr. 24 á kröfuskrá samtals að fjárhæð 181.822.815 krónur verði viðurkenndar að fullu, sem almennar kröfur í búið, í samræmi við kröfulýsingar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að mati dómsins.
Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði sú ákvörðun skiptastjóra að viðurkenna beri kröfur sóknaraðila sem hér segir:
a) Að krafa sóknaraðila nr. 23 á kröfuskrá verði viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð kr. 202.021.247.
b) Að krafa sóknaraðila nr. 24 á kröfuskrá verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð kr. 175.521.665.
Til vara krefst varnaraðili þess að kröfur sóknaraðila vegna innheimtuþóknunar verði lækkaðar. Í báðum tilvikum er gerð krafa um hæfilegan málskostnað.
I.
Þann 12. nóvember 2008 var bú Samson Eignarhaldsfélags ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Helgi Birgisson hrl. var sama dag skipaður skiptastjóri búsins og sendi hann ágreiningsefni það sem mál þetta fjallar um til dómsins til úrlausnar með bréfi mótteknu 31. mars 2009. Í bréfinu kemur fram að meðal lýstra krafna í þrotabúið séu tvær kröfur frá sóknaraðila, sem lýst var sem almennum kröfum í þrotabúið skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, þannig:
|
a) Krafa 23 |
Höfuðstóll, gjaldfelldur |
kr. 195.962.733 |
|
|
Samningsvextir til 04.11.2008 |
kr. 5.827.705 |
|
|
Dráttarvextir til 12.11.2008 |
kr. 1.188.321 |
|
|
Innheimtuþóknun |
kr. 6.233.236 |
|
|
Samtals |
kr. 209.221.831 |
|
|
Kröfulýsing |
kr. 9.836 |
|
|
Heildar samtala |
kr. 209.221.831 |
|
|
|
|
|
a) Krafa 24 |
Höfuðstóll, gjaldfelldur |
kr. 173.288.169 |
|
|
Samningsvextir til 04.11.2008 |
kr. 1.925.422 |
|
|
Dráttarvextir til 12.11.2008 |
kr. 1.031.813 |
|
|
Innheimtuþóknun |
kr. 5.567.575 |
|
|
Samtals |
kr. 181.812.979 |
|
|
Kröfulýsing |
kr. 9.836 |
|
|
Heildar samtala |
kr. 181.822.815 |
Skiptastjóri féllst ekki á kröfur þessar eins og þeim var lýst, taldi að þær ættu ekki að bera dráttarvexti, heldur samningsvexti til 12. nóvember 2008, enda hafi kröfurnar ekki verið komnar á gjalddaga og engin heimild til að gjaldfella þær 5. nóvember 2008. Þá væru kröfur um kröfulýsingargjald og innheimtuþóknun eftirstæðar kröfur samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991. Skiptastjóri hefði því talið að samþykkja bæri kröfu 23 sem almenna kröfu að fjárhæð kr. 202.021.247 og kröfu nr. 24 sem almenna kröfu að fjárhæð kr. 175.521.665.
Á skiptafundi í búinu 20. febrúar s.l. mótmælti kröfuhafinn þessari afstöðu skiptastjóra til krafnanna og tókst ekki að jafna þann ágreining sem var um kröfurnar og var því tekin sú ákvörðun að vísa honum til úrlausnar héraðsdóms samkvæmt 171., sbr. 120. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. 21/1991.
II.
Sóknaraðili byggir á því að með því að óska eftir heimild til greiðslustöðvunar hafi varnaraðili viðurkennt ógjaldfærni sína. Við synjun á framlengingu heimildar til greiðslustöðvunar hafi verið staðfest af héraðsdómi að varnaraðila var ekki aðeins ómögulegt að greiða skuldir sínar á gjalddaga heldur væri ljóst að eignir dygðu ekki fyrir skuldum og hafi sóknaraðili við þetta öðlast heimild til að krefjast gjaldþrotaskipta á búi varnaraðila samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Verði að telja eðlilegt og sanngjarnt að við þær aðstæður hafi sóknaraðila verið heimilt að gjaldfella kröfur sínar og krefjast greiðslu. Því hafi gjaldfelling krafnanna verið heimil 5. nóvember 2008 einum degi eftir að heimild til greiðslustöðvunar lauk.
Þá byggir sóknaraðili heimild til gjaldfellingar krafna sinna á ákvæðum skráninga- og útgáfulýsinga skuldabréfanna. Þar sé að finna ákvæði er fela í sér svokallaða eiginfjárkvöð. Samkvæmt þeirri kvöð sé kröfuhafa heimilt að gjaldfella höfuðstóla skuldabréfanna komi í ljós að virkt eiginfjárhlutfall varnaraðila sé komið niður fyrir 30%. Sé ljóst af niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um efnahag varnaraðila að þann 4. nóvember 2008 var eiginfjárhlutfall komið niður fyrir 30% og því hafi verið heimilt samkvæmt ákvæðunum að gjaldfella höfuðstólinn. Sóknaraðili telur engu breyta þó að í lýsingunum sé talað um að upplýsingarnar eigi að stafa frá birtu uppgjöri í Kauphöll Íslands. Þau uppgjör stafi frá varnaraðila sjálfum og í því felist enn mikilvægari og tryggari heimild um fjárhagslega stöðu varnaraðila að upplýsingarnar komu fram í úrskurði dómstóls. Það dugi að upplýsingar um bága eiginfjárstöðu varnaraðila hafi legið fyrir í opinberum gögnum. Það sé varnaraðila að sanna að þetta skilyrði hafi ekki verið til staðar 5. nóvember 2008 með því að sýna fram á að eiginfjárhlutfall hans hafi verið hærra en 30%.
Jafnframt byggir sóknaraðili á almennum reglum kröfuréttar um fyrirsjáanlegar vanefndir er heimili kröfuhafa að grípa til vanefndaúrræða áður en efndatíminn sé kominn ef ljóst sé að efndir muni ekki verða. Sóknaraðila hafi því verið heimilt að gjaldfella kröfu sína og hefja innheimtuaðgerðir þótt efndatíminn væri ekki kominn enda hafi legið fyrir að varnaraðili gæti ekki efnt skuldbindingar sínar.
Að lokum er varðandi kröfu nr. 24 á kröfuskrá byggt á að sóknaraðili hafi haft heimild til gjaldfellingar samkvæmt niðurlagi „Securities Note SAMS 07 4“ þar sem heimilað sé að gjaldfella höfuðstóla þeirra krafna ef eignarhluti varnaraðila í Landsbanka Íslands fari niður fyrir 20% í þrjá mánuði. Ljóst sé af þessu skilyrði að verðmæti eignarhlutar varnaraðila í Landsbanka Íslands hf. var grundvallarforsenda er brast þegar Landsbanki Íslands hf. féll og varð einskis virði fyrir hluthafa. Þar með hafi heimild sóknaraðila til gjaldfellingar orðið virk samkvæmt eðlilegri túlkun á ákvæði skilmálanna að þessu leyti.
Sóknaraðili vísar til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, samningalaga nr. 7/1936, almennra reglna kröfuréttar um greiðslu fjárskuldbindinga og fyrirsjáanlega vanefnd. Kröfur um dráttarvexti styður sóknaraðili við reglur III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988.
III.
Af hálfu varnaraðila er tekið fram að krafa nr. 23 grundvallist á verðtryggðu skuldabréfi (rafrænt) í 1. flokki 2005 gefnu út af Samson 12. apríl 2005, til 5 ára og hafi borið fasta 5,30% vexti. Verðbættur höfuðstóll skuldabréfsins skyldi greiðast í einu lagi 12. apríl 2010, en vaxtagjalddagar skyldu vera einu sinni á ári, í fyrsta skipti 12. apríl 2006 og síðast 12. apríl 2010.
Þegar Samson hafi verið úrskurðar gjaldþrota 12. nóvember 2008 hafi skuldabréfið (vaxtagjalddagar) verið í skilum. Sóknaraðili byggi á því að heimilt hafi verið, þegar Samson var synjað um áframhaldandi greiðslustöðvun 4. nóvember 2008, að gjaldfella kröfur sínar skv. skuldabréfinu. Eins og fyrr segi hafi umrætt skuldabréf þá verið í skilum, en næsti vaxtagjalddagi verið 12. apríl 2009. Í skráningarlýsingu með skuldabréfinu sé fjallað um í hvaða tilvikum kröfuhafa sé heimilt að gjaldfella bréfið. Þannig sé kröfuhafa samkvæmt lýsingunni heimilt að fella skuldina alla í gjalddaga fyrirvaralaust leiti skuldari nauðasamninga eða sé bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta, en hvorttveggja sé í samræmi við ákvæði 30. og 99. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Hvorugt þessara skilyrða hafi verið uppfyllt er sóknaraðili gjaldfelldi kröfu sína. Hvað varðar kröfuna um að virkt eiginfjárhlutfall Samsonar hafi ekki mátt fara niður fyrir 30% þá hafi gjaldfelling í því tilviki verið bundin því skilyrði að skuldari hafi ekki bætt úr innan 60 daga. Sóknaraðili hafi því ekki haft heimild til þess fyrirvaralaust að gjaldfella kröfuna á hendur varnaraðila hinn 5. nóvember 2008. Af framansögðu sé ljóst að krafa sóknaraðila hafi ekki fallið í gjalddaga fyrr en við úrskurðardag gjaldþrotaskipta 12. nóvember 2008, sbr. 99. gr. laga um gjaldþrotaskipti og beri því að hafna kröfu hans.
Krafa nr. 24 sé samkvæmt verðtryggðu skuldabréfi (rafrænu) í flokki SAMS 07 4, útgefnu af Samson 14. nóvember 2007. Það bréf hafi verið með einum gjalddaga 14. september 2012 og árlegum vaxtagjalddögum 14. september ár hvert. Skuldabréfið hafi verið í skilum þegar sóknaraðili gjaldfelldi það 4. nóvember 2008. Um þessa kröfu á hið sama við og um kröfu nr. 23. Heimild til að gjaldfella skuldina hafi verið bundin við að skuldari leitaði nauðasamninga eða bú hans væri tekið til gjaldþrotaskipta. Hvorugt eigi við og ekki heldur gjaldfelling vegna of lágs eiginfjárhlutfalls, sbr. umfjöllun hér að ofan. Hvað varði heimild til gjaldfellingar færi eignarhluti Samson í Landsbanka niður fyrir 20% í þrjá mánuði sé augljóst að það skilyrði eigi ekki heldur við, þar sem sú aðstaða hafi aldrei komið upp. Þegar Samson var úrskurðað gjaldþrota hafi eignarhluti þess í Landsbanka Íslands hf. verið 41,85% og sé enn, þótt vissulega sé hann einskins virði eftir að NIB hafi tekið yfir starfsemina 9. október 2008 og bankinn síðan fengið greiðslustöðvun 6. desember 2008.
Verði fallist á með sóknaraðila að kröfur hans um innheimtuþóknun eigi að viðurkenna sem almennar kröfur í þrotabúið, er byggt á því til vara að kröfurnar séu of háar og ósanngjarnar beri að lækka að álitum af þeim sökum.
IV.
Ágreiningsefni máls þess lýtur að því hvort viðurkenna beri tiltekinn hluta lýstra krafna sóknaraðila í bú varnaraðila, kröfur nr. 23. og 24 í kröfuskrá, eins og nánar er lýst hér að framan. Aðallega er þar um að ræða kröfu um dráttarvexti frá 5. nóvember 2008, sem er dagurinn eftir að úrskurðað var um hafna bæri frekari greiðslustöðvun varnaraðila og til úrskurðardags gjaldþrotaskipta, 12. nóvember 2008. Sóknaraðili byggir kröfu sína um dráttarvexti á því að hann hafi, þann 5. nóvember 2008, gjaldfellt kröfur sínar. Óumdeilt er að kröfurnar voru í skilum á þessum tíma og byggir sóknaraðili gjaldfellingu þeirra á ákvæðum 2. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en auk þess annars vegar á því að um fyrirsjáanlega vanefnd hafi verið að ræða, sem samkvæmt ólögfestum almennum reglum kröfuréttar heimili gjaldfellingu, og hins vegar á skilyrðum í viðkomandi skuldasamningum um eiginfjárhlutfall og að því er varðar kröfu nr. 24 er einnig byggt á því skilyrði í skráningar- og útgáfulýsingu skuldabréfs þess er sú krafa byggist á, að eignarhluti í Landsbanka Íslands hf., fari ekki undir 20% í þrjá mánuði.
Að því er varðar síðastnefnda málsástæðu sóknaraðila, liggur fyrir og er ekki umdeilt í málinu, að varnaraðili átti meira en 20% hlut í Landsbanka á þeim tíma er um ræðir. Þó að vafi hafi verið um verðmæti hlutarins er ljóst að skilyrðið um að eignarhlutinn hafi ekki farið undir 20% í þrjá mánuði, er ekki uppfyllt, jafnvel þótt fallist væri á að eftir fall bankans í byrjun október hefðu hlutabréfin orðið verðlaus eða verðlítil.
Skilyrði í skuldabréfunum um eiginfjárhlutfall undir 30% verður heldur ekki talið uppfyllt hér. Sóknaraðili hefur ekki sýnt með óyggjandi hætti fram á hvernig því hlutfalli var háttað á þeim tíma sem um ræðir, auk þess sem skilyrðið um gjaldfellingu er þeim takmörkunum háð að ekki hafi verið bætt úr innan 60 daga, en ekki reyndi á það í þessu tilviki.
Í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, sem sóknaraðili byggir á, eru talin í 4 liðum skilyrði þess að kröfuhafi geti krafist gjaldþrotaskipta hjá skuldara og í 2. tl. er fjallað um heimild til að krefjast gjaldþrotaskipta á þeim grundvelli að greiðslustöðvun hafi lokið innan mánaðar frá því að krafa um skipti berst. Ekki verður fallist á það með sóknaraðila að í þessu felist heimild hans til að gjaldfella skuld sem var í skilum.
Þá er eftir að taka afstöðu til þess hvort gjaldfelling þann 5. nóvember 2008 hafi verið heimil á grundvelli fyrirsjáanlegrar vanefndar. Ekki er að finna í lögum heimild til gjaldfellingar vegna fyrirsjáanlegrar eða fyrirframgefinnar vanefndar, en slíkt er þó nefnt í fræðiritum sem undantekning frá þeirri sjálfsögðu meginreglu að um greiðsludrátt geti einungis verið að ræða eftir að réttur efndatími sé kominn. Þó að fallast megi á það að synjun á kröfu um framlengingu greiðslustöðvunar 4. nóvember 2008 hafi verið skýr vísbending um skerta greiðslugetu skuldara í þessu tilviki, sé það ekki nægjanlegt til að víkja frá meginreglunni um að gjaldfelling sem byggist á vanskilum sé almennt ekki heimil fyrr en vanskilin hafa orðið.
Að atvikum málsins og framangreindu virtu, er það niðurstaða málsins að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann hafi haft heimild til að gjaldfella umræddar kröfur sínar og eigi því ekki kröfu á að fá viðurkennda dráttarvaxtakröfu sína. Fallist er því á aðalkröfu varnaraðila um að staðfest verði ákvörðun skiptastjóra um viðurkenningu á kröfum sóknaraðila eins og nánar greinir í dómsorði.
Eftir þessum úrslitum málsins verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.
Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kröfum sóknaraðila, Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda, er hafnað.
Staðfest er sú ákvörðun skiptastjóra varnaraðila, þrotabús Samsonar eignarhaldsfélags ehf., að krafa nr. 23 á kröfuskrá verði viðurkennd sem almenn krafa að fjárhæð kr. 202.021.247 og krafa nr. 24 á kröfuskrá sem almenn krafa að fjárhæð kr. 175.521.665.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 100.000 krónur í málskostnað.