Hæstiréttur íslands

Mál nr. 664/2013


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Gjöf


                                     

Fimmtudaginn 27. febrúar 2014.

Nr. 664/2013.

Þrotabú Jafets Ólafssonar

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

gegn

Veigi ehf.

(Skúli Bjarnason hrl.)

Gjaldþrotaskipti. Riftun. Gjöf.

Þrotabú J höfðaði mál á hendur V ehf. til riftunar á gjafagerningum, sem falist hefðu í þeirri ráðstöfun J að afsala til V ehf. fjórum íbúðum, og endurgreiðslu ávinnings vegna þessa. V ehf. bar því við í málinu að afhendingardagur eignanna hefði verið 1. ágúst 2010 en afsöl vegna fasteignanna, sem dagsett voru 15. desember sama ár, voru ekki móttekin til þinglýsingar fyrr en 30. desember það ár. Hæstiréttur lagði til grundvallar að um tímamark ráðstöfunarinnar yrði að miða við móttöku afsalanna til þinglýsingar, sbr. 140. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og að ráðstöfunin hefði því farið fram innan frests samkvæmt 1. mgr. 131. gr. sömu laga. Að öllu virtu taldi rétturinn að V ehf. hefði með ráðstöfuninni auðgast um fjárhæð sem svaraði til andvirðis íbúðanna að frádregnum áhvílandi skuldum og að þrotabú J hefði orðið fyrir samsvarandi skerðingu eigna sinna, svo og að leggja yrði til grundvallar að þetta hefði verið gert í gjafatilgangi. Voru kröfur þrotabús J því teknar til greiða.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. október 2013. Hann krefst þess að rift verði gjafagerningum, sem fólust í þeim ráðstöfunum Jafets Ólafssonar að afsala til stefnda fjórum íbúðum að Ásatúni 38 á Akureyri, merktum 202, 301, 302 og 303. Einnig krefst áfrýjandi þess að stefnda verði gert að greiða sér 8.896.295 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. desember 2010 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Sumarið 2010 keypti Jafet Ólafsson á nauðungarsölu þær fjórar íbúðir að Ásatúni 38 á Akureyri sem riftunarkrafa áfrýjanda beinist að. Á þeim tíma voru íbúðir þessar í smíðum, en Jafet mun hafa átt kröfur er hvíldu á 2. veðrétti eignanna. Kaupverð íbúðanna greiddi hann með því að taka að sér að greiða áhvílandi skuldir við Íbúðalánasjóð á 1. veðrétti. Eftir að Jafet hafði leyst til sín íbúðirnar var hafist handa við að ljúka smíði þeirra.

Með afsölum 15. desember 2010 seldi Jafet íbúðirnar til stefnda, en þar kom fram að kaupverðið hefði að fullu verið greitt, meðal annars með því að kaupandi tæki yfir áhvílandi skuld við Íbúðalánasjóð. Einnig var tekið fram í afsölunum að afhendingardagur eignanna hefði verið 1. ágúst 2010. Afsöl þessi voru móttekin til þinglýsingar 30. desember sama ár og færð í þinglýsingabók degi síðar. Stefndi er einkahlutafélag í eigu eiginkonu Jafets og barna þeirra, en Jafet mun á þessum tíma hafa verið fyrirsvarsmaður félagsins.

Skömmu eftir að íbúðunum hafði verið afsalað til stefnda tók Jafet saman greinargerð 16. janúar 2011 um ástand þeirra, en í upphafsorðum hennar sagði að hann væri eigandi íbúðanna. Þar var síðan greint frá byggingarstigi þeirra þegar hann eignaðist þær og rakið hvaða iðnaðarmenn hefðu verið fengnir til að ljúka verkinu á vegum eiganda íbúðanna. Í niðurlagi greinargerðarinnar kom fram að íbúðirnar væru fullbúnar með eldunartækjum en frágangi utan húss myndi ljúka þá um vorið.

Með úrskurði 6. júní 2011 var bú Jafets tekið til gjaldþrotaskipta og var frestdagur við skiptin 22. mars sama ár.

II

Með beiðni 16. apríl 2012 óskaði áfrýjandi eftir því að metið yrði andvirði íbúðanna í lok árs 2010, þegar afsölum til stefnda var þinglýst, en um ástand eignanna á þessum tíma var vísað til fyrrnefndrar greinargerðar Jafets Ólafssonar 16. janúar 2011. Til starfans var dómkvaddur Sigurður Sigurðsson, löggiltur fasteignasali, og skilaði hann matsgerð sinni 1. september 2012. Samkvæmt henni var andvirði íbúðar 202 metið 11.305.000 krónur, íbúðar 301 metið 17.357.000 krónur, íbúðar 302 metið 11.305.000 krónur og íbúðar 303 metið 16.252.000 krónur. Samtals var verðmæti íbúðanna því talið hafa numið 56.219.000 krónum. Samkvæmt yfirliti Íbúðalánasjóðs voru veðskuldir sem hvíldu á íbúðunum 1. desember 2010 samtals 47.322.705 krónur, en sú fjárhæð sundurliðast þannig að á íbúð 202 hvíldi 9.557.915 krónur, á íbúð 301 hvíldi 14.432.330 krónur, á íbúð 302 hvíldi 9.845.855 krónur og á íbúð 303 hvíldi 13.486.605 krónur. Fjárkrafa áfrýjanda er mismunur á andvirði íbúðanna og áhvílandi skulda.

Stefndi óskaði eftir því með beiðni 20. nóvember 2012 að andvirði íbúðanna yrði metið miðað við afhendingardag samkvæmt afsölum 1. ágúst 2010, en um ástand íbúðanna á þeim tíma var vísað til lýsingar sem Jafet mun hafa tekið saman. (211-214) Til þess var sami maður dómkvaddur og í fyrra sinnið og skilaði hann matinu 1. mars 2013. Samkvæmt því var andvirði íbúðar 202 metið 7.980.000 krónur, íbúðar 301 metið 12.252.000 krónur, íbúðar 302 metið 7.980.000 krónur og íbúðar 303 metið 11.472.000 krónur. Samtals var verðmæti íbúðanna því talið hafa numið 39.684.000 krónum. Samkvæmt yfirliti Íbúðalánasjóðs voru veðskuldir sem hvíldu á íbúðunum á sama tíma samtals 47.309.524 krónur. Telur stefndi að leggja verði þetta tímamark til grundvallar þegar mat sé lagt á þá ráðstöfun sem fólst í afsali íbúðanna til stefnda og því hafi hvorki þrotabúið orðið fyrir tjóni né stefndi haft neinn ávinning af viðskiptunum. Jafnframt bendir stefndi á að hann hafi greitt fyrir allar framkvæmdir eftir að íbúðirnar voru afhentar, eins og ráðið verði af reikningum og úttektum af bankareikningi hans, en samtals nemi þessi kostnaður 16.546.001 krónu.

III

Áfrýjandi heldur því fram að í afsölum 15. desember 2010, þar sem íbúðum þrotamanns var ráðstafað til stefnda, hafi falist gjafagerningur og því sé ráðstöfunin riftanleg samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt því ákvæði má krefjast ritunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Undir þetta fellur hver sú ráðstöfun, sem rýrir eignir þrotamanns og leiðir til eignaaukningar hjá þeim er nýtur góðs af henni, enda hafi búið gjafatilgangur að baki ráðstöfuninni. Þar sem afsöl íbúðanna frá þrotamanni til stefnda 15. desember 2010 voru móttekin til þinglýsingar 30. sama mánaðar telst sú ráðstöfun hafa farið fram innan þess frests sem áður greinir, sbr. 140. gr. laga nr. 21/1991.

Jafnvel þótt lagt verði til grundvallar að stefndi hafi fengið umráð íbúðanna 1. ágúst 2010, eins og sagði í afsölunum, liggur ekkert fyrir um að stefndi hafi fengið eignarráð þeirra fyrr en með afsölunum. Er þess þá einnig að gæta að þrotamaður staðhæfði í greinargerð sinni 16. janúar 2011 að íbúðirnar væru enn í sinni eigu, enda þótt stefndi væri þá orðinn þinglýstur eigandi þeirra. Af þeim sökum verður að leggja til grundvallar að stefndi hafi eignast íbúðirnar við þinglýsingu afsalanna 31. desember 2010.

Í afsölunum kom það eitt fram að fyrir íbúðirnar hefði verið greitt með yfirtöku áhvílandi veðskulda við Íbúðalánasjóð. Er ekki á því byggt í málinu að stefndi hafi að hluta til greitt fyrir íbúðirnar með skuldajöfnuði að því marki sem hann kann að hafa öðlast kröfu á hendur þrotamanni á grundvelli óskráðra reglna um viðskeytingu og smíði, en þess utan liggja engar upplýsingar fyrir í málinu um hvort þrotamaður stóð í skuld við stefnda í árslok 2010. Þá er þess að gæta að stefndi er einkahlutafélag í eigu náinna vandamanna þrotamanns og því eru hann og stefndi nákomnir í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Þegar svo háttar til standa líkindi til að um gjafagerning hafi verið að ræða, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 30. apríl 1998 í máli nr. 309/1997, sem birtur er í dómasafni 1998, bls. 1602, og hefur stefndi ekki hnekkt þeim líkum.

Samkvæmt framansögðu verður talið að stefndi hafi með ráðstöfuninni auðgast um fjárhæð sem svarar til andvirði íbúðanna að frádregnum áhvílandi skuldum og að áfrýjandi hafi orðið fyrir samsvarandi skerðingu á eignum sínum. Jafnframt verður lagt til grundvallar að þetta hafi verið gert í gjafatilgangi. Verður krafa áfrýjanda um riftun á þessari ráðstöfun því tekin til greina og stefnda gert að greiða fjárhæð sem svarar til auðgunar hans, sbr. 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Áfrýjandi lýsti fyrst yfir riftun og krafðist greiðslu úr hendi stefnda með birtingu stefnu í héraði og fer því um upphafstíma dráttarvaxta eftir 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

Eftir þessum úrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Rift er gjafagerningi sem fólst í afsölum Jafets Ólafssonar til stefnda, Veigs ehf., 15. desember 2010 fyrir íbúðum að Ásatúni 38 á Akureyri, merktum 202, 301, 302 og 303.

Stefndi greiði áfrýjanda, þrotabúi Jafets Ólafssonar, 8.896.295 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. september 2012 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. október 2013.

I

Mál þetta, sem var dómtekið 16 september sl., er höfðað af þrotabúi Jafets Ólafssonar, Aðalstræti 6, Reykjavík, á hendur Veigi ehf., Langagerði 26, 108 Reykjavík, með stefnu birtri 12. september 2012.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að rift verði gjafgerningum sem fólust í þeim ráðstöfunum Jafets Ólafssonar, að afsala til stefnda, Veigs ehf. eftirtöldum fasteignum: Íbúð merkt 03-0202 við Ásatún 38, Akureyri, með fastanúmeri 228-3869,

íbúð merkt 03-0301 við Ásatún 38, Akureyri, með fastanúmeri 228-3871, íbúð merkt 03-0302 við Ásatún 38, Akureyri, með fastanúmeri 228-3872 og íbúð merkt 03-0303 við Ásatúni 38, Akureyri, með fastanúmeri 228-3873. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 8.896.295 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. desember 2010 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara lækkunar á dómkröfum. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda.

II

Málavextir

Bú Jafets Ólafssonar var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 6. júlí 2011. Frestdagur við skiptin var 22. mars 2011, er héraðsdómi barst krafa um gjaldþrotaskipti á búinu. Við rannsókn skiptastjóra kom í ljós að þrotamaður hafði árið 2010 ráðstafað til stefnda fjórum íbúðum við Ásatún 38, Akureyri. Afsöl vegna íbúðanna eru dagsett 15. desember 2010 og móttekin til þinglýsingar 30. desember 2010. Fram kemur í afsölunum að afhendingardagur eignanna sé 1. ágúst 2010. Þá kemur fram að umsamið kaupverð fasteignanna sé að fullu greitt með því að stefndi hafi yfirtekið greiðslu veðkrafna Íbúðalánasjóðs áhvílandi á fyrsta veðrétti fasteignanna. Í afsölunum er ekki getið um stöðu lánanna heldur einungis nafnvirði þeirra.

Með bréfi dagsettu 26. apríl 2011 lýsti skiptastjóri yfir riftun á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 á framangreindum greiðslum til stefnda og krafðist endurgreiðslu. Stefndi hafnaði riftun með bréfi dagsettu 26. maí 2011.

Skýrslu fyrir dóminum gáfu Jafet Ólafsson, fyrirsvarsmaður stefnda, Sigurður Sveinn Sigurðsson, matsmaður og Arnþór Jónsson, húsasmiður.

Matsgerðir

Í málinu liggja fyrir tvær matsgerðir dómkvadds matsmanns, Sigurðar Sveins Sigurðsson, löggilts fasteignasala, um verðmæti íbúðanna.

Annars vegar er matsgerð sem stefnandi aflaði áður en máls þetta var höfðað en í henni er metið verðmæti íbúðanna 31. desember 2010. Er niðurstaða matsmanns um verðmætið þann dag eftirfarandi:

Íbúð 03 0202 fastanr. 228-3869                    kr. 11.305.000

Íbúð 03 0301 fastanr. 228-3871                    kr. 17.357.000

Íbúð 03 0302 fastanr. 228-3872                    kr. 11.305.000

Íbúð 03 0303 fastanr. 228-3873                    kr. 16.252.000

Samtals                                                                kr. 56.219.000

Hins vegar liggur fyrir matsgerð sem stefndi aflaði eftir höfðun máls þessa þar sem metið er verðmæti íbúðanna miðað við byggingastig þeirra 1. ágúst 2010. Er niðurstaða matsmanns um verðmætið þann dag eftirfarandi:

Íbúð 03 0202 fastanr. 228-3869                    kr. 7.980.000

Íbúð 03 0301 fastanr. 228-3871                    kr. 12.252.000

Íbúð 03 0302 fastanr. 228-3872                    kr.  7.980.000

Íbúð 03 0303 fastanr. 228-3873                    kr. 11.472.000

Samtals                                                                kr. 39.684.000

Staða lánanna mun hinn 1. desember 2010 hafa verið 9.557.915 kr. á íbúð merkta 03-0202, 14.432.330 kr. á íbúð merkta 0-0301, 9.845.855 kr. á íbúð nr. 03-0302 og 13.486.605 kr. á íbúð 03-0303, þ.e. samtals 47.332.705 kr. Miðar stefnandi fjárkrörfu sína við stöðu lánanna þann dag. Hinn 1. ágúst 2010 námu áhvílandi veðskuldir á íbúðunum samtals 47.309.524 kr.

III

Málsástæður stefnanda

Af hálfu stefnanda er á því byggt að þrotamaður hafi afsalað umræddum íbúðum til stefnda fyrir lægra verð en nam raunverði þeirra. Hafi hann þannig fært stefnda gjafir, sem nemi mismun á kaupverði (yfirtekinna lána) og matsverði samkvæmt matsgerð Sigurðar Sveins Sigurðssonar miðaða við verðmæti íbúðanna 30. desember 2010. Stefnandi telur að miða beri við að fasteignirnar hafi þann dag verið í því ástandi sem þrotamaður lýsi í greinargerð sinni til Akureyrarbæjar þann 16. janúar 2011. Umræddir gjafagerningar séu riftanlegir með vísan til 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Stefnandi telur að engu hafandi ákvæði í afsölunum um að fasteignir hafi verið afhentar stefnda þann 1. ágúst 2010, enda skuli miða við þann dag er afsölum hafi verið þinglýst, sbr. 140. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti.

Stefnandi byggir jafnframt á því að framangreindar ráðstafanir fasteigna þrotamanns séu riftanlegar á grundvelli hinnar almennu riftunarreglu 141. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991. Vegna náinna tengsla stefnda og þrotamanns hafi stefndi, eigendur stefnda og forsvarsmenn, vitað eða mátt vita um ógjaldfærni þrotamanns eða að ógjaldfærni myndi leiða af ráðstöfun fasteignanna. Þá hafi stefnda verið ljóst að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg eða mátti a.m.k. vita að svo væri.

Stefnandi telur augljóst að þrotamaður hafi verið ógjaldfær á þeim tíma er hann afsalaði eignunum til stefnda en þá hafi rétt rúmir tveir mánuðir verið til frestdags. Þá liggi fyrir framburður þrotmanns sjálfs um að gjaldþrot hans megi rekja til verðfalls hlutabréfa og annarra verðbréfa í kjölfar bankahrunsins. Stefnandi vísar til þess að lýstar kröfur í bú þrotamanns nemi 958.166.856 kr.

Fjárkrafa stefnanda byggist á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 þar sem krafa um riftun sé reist á 131. gr. þeirra laga og 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, þar sem krafa um riftun er reist á 141. gr. þeirra laga. Stefnandi telur ljóst að stefndi hafi haft hag af ráðstöfun eignanna, sem nemi mismun raunvirðis þeirra samkvæmt mati dómkvadds matsmanns og söluverðs, alls 8.896.295 kr. Sú fjárhæð svari einnig til þess tjóns sem þrotabúið hafi orðið fyrir vegna ráðstafananna, þar sem samsvarandi eign sé ekki til reiðu í búinu til fullnustu kröfuhöfum. Einnig telur stefnandi ljóst að stefnda hafi vegna tengsla við þrotamann verið kunnugt um riftanleika ráðstöfunarinnar og beri því að greiða búinu skaðabætur, vegna þess tjóns sem það hafi orðið fyrir.

Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 21/1991, einkum 3. gr., 131. gr., 141. gr., 142. gr., 148. gr. og 194. gr. laganna. Þá vísar stefnandi til reglna kröfuréttar og skaðabótaréttar. Krafa um dráttarvexti byggir á ákvæðum laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Um varnarþing vísast til 33. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um málskostnað styðst við ákvæði XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda

Af hálfu stefnda er á því byggt að hann hafi keypt umræddar eignir af Jafeti Ólafssyni þann 1. ágúst 2010 og borið allan kostnað og áhættu af eignunum frá þeim tíma, sbr. ákvæði þar að lútandi í afsölunum. Afsöl hafi hins vegar ekki verið gefin út fyrr en 15. desember 2010 og send í þinglýsingu þann 30. sama mánaðar. Þrátt fyrir þetta hafi stefnandi kosið að miða kröfur sínar við 30. desember 2010. Á þeim tíma hafi ástand íbúðanna verið allt annað en í ágúst sama ár enda hafi stefndi lagt í umtalsverðan kostnað við að fullgera þær.         

Um aðdragandann að viðskiptunum vísar stefndi til þess að Jafet hafi átt veð í umræddum íbúðum. Þær hafi verið á byggingarstigi og þegar veðsettar Íbúðalánasjóði á undan veðum Jafets. Byggingaraðilinn hafi komist í þrot og íbúðirnar lent á nauðungarsölu eftir að þær höfðu staðið hálfkaraðar og niðurníddar um nokkurt skeið. Hafi Jafet keypt íbúðirnar á uppboði sumarið 2010 og greitt kaupverð með yfirtöku áhvílandi veðskulda við Íbúðalánasjóð. Mun Jafet hafa eygt einhverja um von að með þessum gerningi mætti komast hjá tjóni. Fljótlega hafi þó komið í ljós að þar hafði hann misreiknað sig. Fasteignamarkaðurinn á Akureyri fyrir sambærilegar eignir hafi reynst dauður og ástand íbúðanna miklum mun lakara en ráð hafði verið fyrir gert. Þá hafi fyrirséður kostnaður við að koma þeim í söluhæft horf verið meiri en áætlað hafði verið við kaup þeirra. Hafi íbúðirnar því verið seldar áfram til stefnda með sömu kjörum 1. ágúst 2010, þ.e. með yfirtöku áhvílandi skulda við Íbúðalánasjóð. Stefndi hafi borið allan framkvæmda- og endurbyggingarkostnað bæði vegna íbúðanna sem og sameignar hússins frá þeim tíma.

Stefndi mótmælir því að miða beri við fyrri matsgerðir Sigurðar Sveins Sigurðssonar um verðmæti fasteignanna 30. desember 2010. Rétt sé að miða við hina síðari matsgerð hans um verðmæti fasteignanna miðað við byggingarstig á raunverulegum söludegi, 1. ágúst 2010. Þá hafi ástand íbúðanna verið allt annað en í lok árs 2010. Þær hafi verið tæplega tilbúnar undir tréverk sem og húsið í heild. Allar framkvæmdir í íbúðunum og sameign hafi verið framkvæmdar eftir kaup stefnda á þeim og kostnaður greiddur af honum. Hafi því ekki verið um að ræða neina raunverulega nettó eign í umræddum íbúðum í ágúst 2010 og þannig hafi stefndi greitt sannvirði fyrir íbúðirnar og raunverulega rúmlega það.

Stefndi telur fráleitt að um gjöf í skilningi 131. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 hafi verið að ræða og enn síður raunar ótilhlýðilega ráðstöfun í skilningi 141. gr. sömu laga. Raunar sé krafan á grunni 141. greinarinnar ódómtæk og beri annaðhvort að vísa henni frá af sjálfsdáðum (ex officio) eða sýkna af henni þar sem í sjálfri kröfugerðinni í stefnunni sé einungis krafist riftunar á meintum gjafagerningum. Riftunarskilyrði séu ekki fyrir hendi og enn síður bóta- eða endurgreiðsluskilyrði 142. greinar laganna þar sem hvorki hafi verið um að ræða auðgun né hagsbætur af neinu tagi fyrir stefnda heldur í rauninni hið öndverða.

Vaxtakröfu er mótmælt sérstaklega sem tilhæfulausri og rangri og án lagastoðar. 

Þá telur stefndi að taka beri tillit til þess við málskostnaðarákvörðun, tapi hann málinu, að stefnandi reki nú þrjú riftunarmál samtímis gegn stefnda sem unnt hefði verið að reka í einu máli. Vísar hann til 4. mgr. 130. gr. eml. í því sambandi, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna.

Um lagarök vísar stefndi til laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 með síðari breytingum, einkum 131., 141 og 142. gr. laganna og vaxtalaga nr. 38/2001, einkum III. og IV. kafla laganna. Þá er vísað til meginreglna fjármuna-, skaðabóta og kröfuréttarins. Loks er vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en krafan um málskostnað er byggð á 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr. laganna. Áður er vísað um lækkun kostnaðar til 4. mgr. 130. gr. eml. í því sambandi, sbr. 2. mgr. 27. gr. laganna.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu gerir stefnandi þá kröfu að rift verði þeirri ráðstöfun Jafets Ólafssonar að afsala til stefnda fjórum íbúðum við Ásatún 38, Akureyri. Eins og getið er í málavaxtalýsingu afsalaði Jafet íbúðunum til stefnda 15. desember 2010. Voru afsöl þar að lútandi afhent til þinglýsingar 30. desember 2012. Bú Jafets var tekið til gjaldþrotaskipta 22. mars 2011. Greiðsla stefnda fyrir íbúðirnar fór, samkvæmt ákvæðum í afsölunum, fram með þeim hætti að stefndi yfirtók áhvílandi lán við Íbúðalánasjóð sem á þeim hvíldu. Byggir stefnandi á því að Jafet hafi með afsölunum fært stefnda gjafir, að verðmæti samtals 8.896.295 kr., í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og tekur fjárkrafa stefnanda mið af því. Kröfuna reiknar stefndi sem mismun kaupverðs, samtals 47.332.705 kr. (yfirtaka áhvílandi lána), og matsverðs Sigurðar Sveins Sigurðssonar um verðmæti íbúðanna 30. desember 2010, samtals 56.219.000 kr. Stefndi vísar hins vegar til þess að er hann hafi í raun fengið íbúðirnar afhentar, 1. ágúst 2010, hafi þær verið yfirveðsettar. Því til stuðnings vísar stefndi til síðari matsgerðar framangreinds Sigurðar Sveins þar sem fram kemur að verðmæti íbúðanna, miðað við byggingarstig þeirra 1. ágúst 2010, hafi numið samtals 39.684.000 kr. Áhvílandi skuldir við Íbúðalánasjóð hafi þann dag numið samtals 47.309.524 kr. Stefndi hafi eftir afhendingu íbúðanna farið í viðamiklar framkvæmdir á íbúðunum en þær hafi verið tæplega tilbúnar undir tréverk sem og húsið í heild er hann hafi fengið þær afhentar. Hefur stefndi því til stuðnings lagt fram reikninga, stílaða á stefnda, vegna efniskaupa og vinnu iðnaðarmanna í íbúðunum á tímabilinu 1. ágúst til 31. desember 2010, samtals að fjárhæð 13.793.599 kr. Stefnandi hefur ekki vefengt réttmæti reikninganna en telur þá ekki hafa áhrif á niðurstöðu í málinu.

Með hliðsjón af ákvæði 140. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti ber að miða við að eigandaskipti á íbúðunum hafi farið fram þegar afsöl vegna fasteignanna voru afhent til þinglýsingar 30. desember 2010.

Samkvæmt 131. gr. laga nr. 21/1991 má krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Sú ráðstöfun Jafets að afsala umræddum fasteignum til stefnda í desember 2010 fór því fram innan tímamarka ákvæðisins, en frestadagur við skiptin var 22. mars 2011.

Þótt gjafahugtak 131. gr. laga nr. 21/1991 byggi fremur á hlutlægum sjónarmiðum verður að leggja til grundvallar að það feli m.a. í sér að tilgangurinn með gerningnum sé að gefa, þ.e. afhenda til eignar verðmæti án þess að fyrir það komi endurgjald. Óumdeilt er að 1. ágúst 2010, er stefndi kveðst hafa fengið íbúðirnar afhentar, voru þær yfirveðsettar. Styðja framlagðir reikningar þá staðhæfingu stefnda að eftir það hafi hann farið út í kostnaðarsamar framkvæmdir á íbúðunum til að koma þeim í söluhæft ástand. Í framburði fyrirsvarsmanns stefnda kom fram að mannleg mistök hefðu valdið því að ekki var gengið frá skjölum vegna kaupanna fyrr. Að virtu framangreindu er að mati dómsins ekki unnt að leggja til grundvallar að að baki þeirri ráðstöfun Jafets að afsala fasteignunum til stefnda í desember 2010 hafi falist gjafatilgangur. Þvert á móti var um að ræða gjörning viðskiptalegs eðlis. Skiptir þá ekki máli þótt um viðskipti milli tengdra aðila hafi verið að ræða. Önnur niðurstaða myndi enn fremur leiða til þess að búið auðgaðist á kostnað stefnda. Eru skilyrði riftunar á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 því ekki uppfyllt. Með sömu rökum verður ekki talið að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991. Verður stefnandi því sýknaður af kröfu stefnanda um riftun og þar með kröfu um endurgreiðslu.

Við ákvörðun málkostnaðar ber að horfa til þess að stefndi lagði ekki fram fullnægjandi gögn til stuðnings sýknukröfu sinni fyrr en undir rekstri málsins þrátt fyrir að stefnandi hefði með yfirlýsingu til stefnda í apríl 2011 lýst yfir riftun á hinum umdeildu gjörningum. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir því rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu. Í máli þessu liggja ekki fyrir upplýsingar um önnur mál sem stefnandi hefur höfðað gegn stefnda og verður því ekki litið til 4. mgr. 130. gr., sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991 við ákvörðun málskostnaðar eins og stefndi krefst.

Af hálfu stefnanda flutti málið Guðbjörg Benjamínsdóttir hdl. vegna Þorsteins Einarssonar hrl.

Af hálfu stefnda flutti málið Erla Skúladóttir hdl. vegna Skúla Bjarnasonar hrl.

Dóminn kvað upp Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Veigur ehf., er sýknaður af kröfum stefnanda, þrotabús Jafets Ólafssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.