Hæstiréttur íslands
Mál nr. 83/2014
Lykilorð
- Skaðabætur
- Vinnuslys
- Vinnuveitendaábyrgð
|
|
Fimmtudaginn 20. nóvember 2014. |
|
Nr. 83/2014.
|
Karl Jónsson (Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) gegn Jarðborunum hf. (Kristín Edwald hrl.) |
Skaðabætur. Vinnuslys. Vinnuveitandaábyrgð.
K höfðaði mál gegn J hf. og krafðist skaðabóta vegna slyss sem hann varð fyrir þegar hann var að koma fyrir göngupalli meðfram glussastöð jarðbors í starfi sínu fyrir J hf. Verkið fólst í því að losa um einingar, sem voru áfastar hlið glussastöðvar borsins, og leggja þær niður þannig að þær mynduðu göngupall meðfram honum. Atvik voru með þeim hætti að þegar K var að búa sig undir að fara upp á einingu eins göngupallsins, sem búið var að leggja niður, greip hann með hægri hönd í þá einingu sem fella átti næst, en við það féll einingin niður með þeim afleiðingum að vinstri hönd K varð á milli hennar og þeirrar einingar sem búið var að leggja niður. Í dómi Hæstaréttar kom fram að göngupallseiningin, sem féll á hönd K, hefði losnað við það að pinni sem hélt henni uppi hrökk skyndilega úr stæði sínu, en það hefði ekki getað gerst nema vegna þess að hann hefði ekki verið festur á tryggilegan hátt. Orsakir slyssins yrðu því raktar til saknæmrar vanrækslu starfsmanns eða starfsmanna J hf. en á því bæri hann vinnuveitandaábyrgð. Voru K því dæmdar bætur úr hendi J hf. Ekki var talið að víkja ætti frá meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um að árslaun til ákvörðunar bóta fyrir varanlega örorku væru meðalatvinnutekjur að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir tjónsdag uppreiknuðu samkvæmt launavísitölu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. febrúar 2014. Hann krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 10.848.547 krónur, til vara 10.265.137 krónur, en að því frágengnu 9.462.638 krónur, í öllum tilvikum með 4,5% vöxtum af 3.627.614 krónum frá 16. mars 2008 til 20. maí 2009 og af fyrrgreindum fjárhæðum frá 20. maí 2009 til 10. júlí 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæðum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 1.028.756 krónur 29. janúar 2010. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.
Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.
I
Aðdragandi slyss þess, er hér um ræðir, var sá að áfrýjandi var ásamt vinnufélaga sínum, Jóni Val Einarssyni, að koma fyrir göngupalli meðfram jarðbor í eigu stefnda að Nesvegi 5 í Höfnum. Fólst verkið í því að losa um einingar, sem voru áfastar hlið glussastöðvar borsins, og leggja þær niður þannig að þær mynduðu göngupall meðfram honum. Einingarnar voru í um 1,7 metra hæð frá jörðu og samanbrjótanlegar þannig að unnt var að leggja þær að hlið glussastöðvarinnar þegar verið var að flytja borinn milli staða. Óumdeilt er að fyrir flutning borsins á fyrrnefndan verkstað skyldi festa einingarnar með þeim hætti að pinna væri komið fyrir í gegnum eininguna sjálfa og festingar, sem voru áfastar glussastöðinni, og síðan sett splitti í pinnann til að koma í veg fyrir að hann færi úr stæði sínu.
Áfrýjandi lýsti atvikum svo í héraðsdómsstefnu að hann hafi verið að búa sig undir að fara upp á einingu göngupalls, sem búið var að leggja niður meðfram jarðbornum, en einingarnar voru eins og áður sagði áfastar honum. Hafi áfrýjandi gripið með hægri hönd í þá einingu, sem fella átti, en við það hafi hún fallið niður með þeim afleiðingum að vinstri hönd áfrýjanda varð milli hennar og þeirrar einingar, sem búið var að leggja niður. Áfrýjandi skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi lagt höndina á pallinn, sem var niðri, og tekið „aðeins“ í hinn pallinn til að „vippa mér upp á“. Um leið og hann gerði það hafi pallurinn hrunið niður, en það hafi ekki átt að vera mögulegt. Nefndi áfrýjandi sem hugsanlega ástæðu þess að það gerðist að vantað hafi splitti í pinna sem hélt pallinum uppi, og að við flutning borsins hafi viðkomandi pinni verið orðinn tæpur í og hann hrokkið úr um leið og áfrýjandi tók í eininguna. Áfrýjandi kvaðst ekki vita hverjir af starfsmönnum stefnda gengu frá borpallinum til flutnings frá Hellisheiði á Reykjanes, en kvað þá Jón Val ávallt hafa gengið vel frá þegar þeir önnuðust það verk.
Vitnið Jón Valur, sem vann samkvæmt framansögðu umrætt verk með áfrýjanda, kvað þá vinnufélaga hafa verið búna að taka niður tvo eða þrjá göngupalla. Hafi áfrýjandi ákveðið að taka pinna úr handriðinu á þeim palli, sem fella átti. Hafi hann gripið í pallinn, sem þeir ætluðu að taka niður, en þá hafi smollið í og pallurinn fallið. Hafi pallurinn stoppað á handlegg vitnisins, sem fengið hafi stóran marblett, en ekki meiðst meira en það. Kvað vitnið að áfrýjandi hefði misst handlegginn hefði vitnið ekki tekið mesta fallið af honum. Vitnið kvaðst hafa verið búið að starfa hjá stefnda í vel á annað ár er slysið átti sér stað og margsinnis hafa unnið umrætt verk. Kvað hann fallþunga pallsins mjög mikinn og myndi vitnið aldrei vera undir honum væri búið að taka úr pinnann, sem héldi pallinum uppi, enda myndi hann þá umsvifalaust falla niður. Vitnið sagði að til að taka slíkan pall niður þyrfti að lágmarki tvo menn. Þyrfti að þrýsta pallinum að glussagámnum til þess að losa um „þannig að þú getir tekið splittin úr og síðan þarftu að taka pallinn rólega niður“. Á umræddum pinnum hafi verið göt, sem setja hafi átt splitti í, en þau verið farin að týnast. Hafi hann oft verið búinn að nefna þetta við verkstjóra hjá stefnda og þá fengið að heyra að splittin væru ekki til og þau þyrfti að sérpanta. Vitnið kvaðst hafa þá einu skýringu á slysinu að pinninn hafi verið svo tæpur í að við það að áfrýjandi tók í pallinn hafi pinninn smollið úr. Vitnið kvaðst ekki vita hverjir starfsmanna stefnda gengu frá göngupöllunum til flutningsins á Reykjanes og ekki minnast þess að hann og áfrýjandi hefðu verið þar að verki.
Með skírskotun til greinargóðs vættis Jóns Vals Einarssonar, sem hefur engra hagsmuna að gæta af úrslitum málsins og er ekki í neinum slíkum tengslum við áfrýjanda að varpað geti rýrð á framburð hans, er ekki önnur haldbær skýring tæk á orsök slyssins en sú að göngupallseiningin, sem féll á hönd áfrýjanda, hafi losnað við það að pinni, er hélt henni uppi eins og lýst hefur verið, hrökk skyndilega úr stæði sínu, en það gat ekki gerst nema fyrir þær sakir að hann hafi ekki verið festur á tryggilegan hátt áður en jarðborinn var fluttur í Hafnir. Verður orsök slyssins því rakin til saknæmrar vanrækslu starfsmanns eða starfsmanna stefnda, annars eða annarra en áfrýjanda og Jóns Vals, en hvorugur þeirra kannast við að hafa annast umrætt verk. Ber stefndi því bótaábyrgð á tjóni áfrýjanda á grundvelli óskráðrar reglu skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð. Verður það ekki virt áfrýjanda til sakar að hann lagði aðra hönd sína á einingu, sem búið var að fella niður, enda mátti hann treysta því að einingin, sem hann hugðist losa, væri fest við glussastöðina með þeim hætti sem að framan greinir.
II
Í málinu liggur fyrir matsgerð Magnúsar Páls Albertssonar, sérfræðings í bæklunar- og handarskurðlækningum, 18. nóvember 2010. Komst hann að þeirri niðurstöðu að stöðugleikapunktur vegna slyssins væri 20. maí 2009 og tímabundið atvinnutjón áfrýjanda væri frá 16. mars 2008 til 20. maí 2009. Tímabil þjáningabóta væri frá 16. mars til 1. júní 2008 og 1. janúar til 20. maí 2009 og að áfrýjandi hafi verið veikur í 217 daga án þess að vera rúmfastur. Varanlegur miski væri 12 stig og varanleg örorka 15%. Matsgerðinni hefur ekki verið hnekkt og verður hún því lögð til grundvallar við ákvörðun bóta til handa áfrýjanda.
Áfrýjandi krefst þess að sér verði bætt tímabundið tjón vegna slyssins með 2.246.264 krónum miðað við þann dagafjölda sem dómkvaddur matsmaður taldi áfrýjanda hafa verið óvinnufæran. Tekur krafan mið af meðaltekjum áfrýjanda á árinu 2008 að frádregnum greiðslum frá Vinnumálastofnun og dagpeningum að fjárhæð 520.393 krónur frá réttargæslustefnda. Stefndi mótmælir kröfunni sem ósannaðri og of hárri án þess að færa fram rök því til stuðnings. Verður krafa þessi því tekin til greina eins og hún er fram sett. Krafa áfrýjanda um þjáningabætur að fjárhæð 342.860 krónur og krafa hans um bætur fyrir varanlegan miska, 1.080.360 krónur, sæta ekki andmælum af hálfu stefnda. Áfrýjandi hefur ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að víkja eigi frá meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um að árslaun til ákvörðunar bóta fyrir varanlega örorku skuli teljast vera meðalatvinnutekjur tjónþola að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs þrjú síðustu almanaksárin fyrir tjónsdag, leiðrétt samkvæmt launavísitölu til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við. Samkvæmt því og miðað við launavísitölu á stöðugleikapunkti nema uppreiknuð meðallaun áfrýjanda þrjú síðustu árin fyrir tjónsdag 3.951.973 krónum. Við þá fjárhæð bætist 8% lífeyrissjóðsframlag vinnuveitanda þrjú síðustu almanaksárin fyrir tjónsdag að fjárhæð 316.158 krónur að teknu tilliti til verðlagsbreytinga. Meðalatvinnutekjur áfrýjanda umrætt tímabil eru samkvæmt því 4.268.131 krónur. Þegar sú fjárhæð hefur verið margfölduð með metnu örorkustigi áfrýjanda og hlutfallslega breyttum stuðli samkvæmt 6. gr., sbr. 9. gr., laga nr. 50/1993 nema bætur vegna varanlegrar örorku 6.148.670 krónum. Við meðferð málsins í héraði lækkaði áfrýjandi höfuðstólskröfu sína sem nam greiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands 12. febrúar 2013 vegna örorkubóta að fjárhæð 866.753 krónur.
Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda 8.951.401 krónu krónur með vöxtum eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði að teknu tilliti til innborgunar stefnda 25. janúar 2010 að fjárhæð 1.028.756 krónur.
Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum, sem ákveðinn verður verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir og rennur í ríkissjóð.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Stefndi, Jarðboranir hf., greiði áfrýjanda, Karli Jónssyni, 8.951.401 krónu með 4,5% ársvöxtum af 3.627.614 krónum frá 16. mars 2008 til 20. maí 2009 og af 8.951.401 krónu frá þeim degi til 10. júlí 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 25. janúar 2010 að fjárhæð 1.028.756 krónur.
Stefndi greiði samtals 1.600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem renna í ríkissjóð.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 800.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2013.
Mál þetta, sem var dómtekið 6. nóvember sl., er höfðað 10. júní 2011 af Karli Jónssyni, Eyjalandi 3 á Djúpavogi gegn Jarðborunum hf., Hlíðasmára 1 í Kópavogi, og til réttargæslu Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5 í Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 10.848.547 kr., auk 4,5% vaxta af 3.627.614 kr. frá 16. mars 2008 til 20. maí 2009, en af 10.848.547 kr. frá 20. maí 2009 til 17. apríl 2011, en dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 10.848.547 kr. frá 17. apríl 2011 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 1.028.756 kr. hinn 29. janúar 2010.
Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 10.265.137 kr., auk 4,5% vaxta af 3.627.614 kr. frá 16. mars 2008 til 20. maí 2009, en af 10.265.137 kr. frá 20. maí 2009 til 17. apríl 2011, en dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 10.265.137 kr. frá 17. apríl 2011 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 1.028.756 kr. hinn 29. janúar 2010.
Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 9.462.638 kr., auk 4,5% vaxta af 3.627.614 kr. frá 16. mars 2008 til 20. maí 2009, en af 9.462.638 kr. frá 20. maí 2009 til 17. apríl 2011, en dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 9.462.638 kr. frá 17. apríl 2011 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 1.028.756 kr. hinn 29. janúar 2010.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar í öllum tilvikum, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar. Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður felldur niður.
Af hálfu réttargæslustefnda eru ekki gerðar sjálfstæðar dómkröfur enda engar kröfur gerðar á hendur honum í málinu.
Málsatvik og ágreiningsefni
Þann 16. mars 2008 varð stefnandi fyrir vinnuslysi í Höfnum við störf sín hjá stefnda, en slysið átti sér stað um kl. 17:30. Nánar tiltekið klemmdist vinstri hönd stefnanda á milli tveggja eininga göngupalls, sem stefnandi var að leggja niður með fram glussastöð jarðborsins Óðins, sem er í eigu stefnda, en að verkinu vann stefnandi ásamt Jóni Vali Einarssyni, sem einnig starfaði hjá stefnda.
Umræddur göngupallur samanstendur af einingum, sem eru u.þ.b. tveir metrar að lengd, og á hverri þeirra er handrið. Einingarnar eru samanbrjótanlegar og meðan á flutningi stendur eru þær í lóðréttri stöðu upp við hlið glussastöðvarinnar, en síðan eru þær losaðar og lagðar niður í lárétta stöðu og mynda þá heildstæðan göngupall í kringum jarðborinn, ásamt handriði. Til þess að leggja niður pallaeiningarnar þarf að losa þær frá hlið glussastöðvarinnar. Í stefnu er þessu nánar lýst svo að festingarbúnaður umræddra pallaeininga sé þannig að hver eining sé fest með bolta upp við hlið glussastöðvarinnar og sérstakur pinni skuli ganga í gegnum boltann. Þá séu handrið á einingunum oft fest saman. Til þess að geta lagt niður hverja einingu göngupallsins þurfi að losa pinnann úr bolta þeirrar einingar sem fella skuli niður næst og eftir atvikum losa festingar á handriðum, en til þess þurfi að fara upp á þá einingu sem síðast hafi verið felld niður.
Í stefnu er atvikum að slysinu lýst svo að þegar stefnandi hafi í greint sinn verið að búa sig undir að fara upp á einingu, sem búið var að leggja niður, í því skyni að losa um festingar á handriði þeirrar næstu, hafi hann lagt hendi sína á eininguna sem hann ætlaði upp á. Hafi hann svo reynt að hífa sig upp með því að grípa í eininguna sem fella átti niður. Þá hafi einingin, sem til stóð að losa, fallið niður með þeim afleiðingum að vinstri hendi stefnanda varð á milli einingarinnar sem þegar hafði verið sett upp og þeirrar sem stefnandi ætlaði að losa og féll niður.
Samkvæmt fyrirliggjandi dagbók lögreglu og lögregluskýrslu tilkynnti verkstjóri hjá stefnda lögreglu um slysið með símtali kl. 20:36 á slysdegi. Í umræddri dagbók kemur fram að reynt hafi verið að tilkynna Vinnueftirlitinu um atvikið en fulltrúi þess ekki svarað. Í dagbókinni kemur fram að kl. 8:51 daginn eftir hafi verkstjóri stefnda hringt að nýju og óskað eftir lögreglu á staðinn og að fulltrúi Vinnueftirlitsins hefði hringt kl. 9:15 og þá verið á staðnum. Í málinu liggur fyrir bréf Vinnueftirlitsins til stefnda, dags. 15. apríl 2008, þar sem fram kemur að skrifleg tilkynning um slysið hafi ekki borist og veittur er sjö daga frestur til að skila henni. Var slíkt gert 17. apríl 2008. Fyrir liggur skýrsla Vinnueftirlitsins um slysið. Þar segir að þann 17. mars 2008 hafi borist tilkynning frá stefnda og fulltrúi Vinnueftirlitsins farið á staðinn. Jón Helgason verkstjóri hafi upplýst um tildrög slyssins. Aðstæður á slysstað hafi verið lítið breyttar en búið hafi verið að festa göngupallinn.
Í skýrslunni segir síðan undir fyrirsögninni „Vinnubrögð og starfshættir“: „Karl Jónsson var ásamt vinnufélaga sínum að leggja niður göngupall í lárétta stöðu en pallurinn er áfastur við glussastöð borsins Óðinn. Göngupallurinn er settur niður í nokkrum einingum og hver eining er staðsett í ca. 170 cm. hæð og er ca. 2 metrar á lengd. Við vinnu sína notaði Karl engin áhöld aðeins hendur sínar. Karl og félagi hans höfðu losað festingar af þeirri einingu göngupallsins sem þeir voru að leggja niður. Pallurinn stóð eitthvað á sér og því ætlaði Karl að hoppa upp á næsta göngupall við hliðina til að losa um pallinn sem stóð á sér. Hann setti vinstri hendi sína á kant pallsins og ætlaði að grípa með þeirri hægri í grind pallsins sem var niðri til að hífa sig upp á hann. Í sömu andrá hafði pallurinn losnað og fallið niður á vinstri hendi Karls. Félagi hans sem hafði staðið til hliðar við hann náði að draga úr mesta falli pallsins með því að grípa undir grindina á pallinum. Afleiðingin varð sú að Karl klemmdi vinstri hendi. Vinnufélagar aðstoðuðu hin slasaða.“ Í skýrslunni segir síðan, undir fyrirsögninni „Annað sem skipt gæti máli“: „Hinn slasaði var vanur starfsmaður í flutningateymi.“ Um orsök slyssins segir: „Ætla má að helsta orsök slyssins sé að þegar pallurinn fellur niður var hönd hins slasaða staðsett á sjálfu „klemmusvæði“ göngupallsins.“ Að endingu segir í skýrslunni, undir fyrirsögninni „Tilvitnun í lög og reglur“: „Í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, kafla 4, 14. gr. segir m.a. um Þjálfun starfsmanna. Atvinnurekandi skal sjá um að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun við að framkvæma störf sín á þann hátt að ekki stafi hætta af.“ Skýrslunni fylgdu myndir af slysstað og pallinum. Fyrir liggur að stefnandi hafði starfað hjá stefnda síðan í nóvember 2007.
Með bréfi, dags. 24. mars 2009, krafðist lögmaður stefnanda þess að réttargæslustefndi viðurkenndi skaðabótaskyldu úr frjálsri ábyrgðartryggingu stefnda vegna slyssins. Með bréfi, dags. 5. maí 2009, hafnaði réttargæslustefndi bótaskyldu úr ábyrgðartryggingunni en tók fram að stefnandi ætti bótarétt úr slysatryggingu launþega. Þann 1. júlí 2009 óskuðu stefnandi og réttargæslustefndi eftir því að Magnús Páll Albertsson læknir mæti tímabundna og læknisfræðilega örorku stefnanda vegna slyssins og hvenær heilsufar hans hafi verið orðið stöðugt. Í matsgerð, dags. 16. janúar 2010, komst matsmaðurinn að þeirri niðurstöðu að heilsufar stefnanda hafi verið orðið stöðugt 20. maí 2009, að tímabundin örorka væri 100% í 216 daga og varanleg læknisfræðileg örorka 12%. Þann 25. janúar 2010 greiddi réttargæslustefndi stefnanda 1.028.756 kr. úr slysatryggingu launþega á grundvelli matsgerðarinnar.
Stefnandi skaut höfnun réttargæslustefnda á bótaskyldu úr hinni frjálsu ábyrgðartryggingu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Með úrskurði 29. júní 2010 í máli nr. 140/2010 komst úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að stefnandi ætti ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingunni. Í áliti nefndarinnar segir að af gögnum málsins verði ekki annað ráðið en að um óhappatilvik hafi verið að ræða. Ekkert liggi fyrir um að meiðsli stefnanda hafi orðið vegna saknæmrar háttsemi samstarfsmanna hans eða ófullnægjandi vinnuaðstæðna eða búnaðar eða annars sem stefndi beri ábyrgð á.
Með beiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 29. júlí 2010, óskaði stefnandi eftir því að dómkvaddur yrði hæfur og óvilhallur maður til að meta umfang og afleiðingar þess tjóns sem matsbeiðandi varð fyrir í vinnuslysinu. Þann 1. október 2010 var Magnús Páll Albertsson, læknir, dómkvaddur til verksins og skilaði hann matsgerð, dags. 18. nóvember 2010. Í forsendum og niðurstöðum matsgerðarinnar er því m.a. lýst að stefnandi hafi hlotið slæman maráverka á vinstri hendi og búi enn við afleiðingar slyssins. Hann sé alltaf með verki í vinstri hendi sem versni við allt álag og öll átök. Komst hinn dómkvaddi matsmaður að þeirri niðurstöðu að batahvörf hefðu verið 20. maí 2009, tímabil tímabundins atvinnutjóns væri frá 16. mars 2008 til 20. maí 2009, og tímabil veikinda (án rúmfestu) frá 16. mars 2008 til 1. júní 2008 og 1. janúar 2009 til 20. maí 2009. Þá komst hann að niðurstöðu um 12 stiga varanlegan miska og 15% varanlega örorku. Í málinu liggja ekki fyrir nein samskipti milli aðila eftir að matsgerðin lá fyrir en stefnandi fékk gjafsóknarleyfi 24. janúar 2011 og höfðaði mál þetta 10. júní 2011, þar sem byggt er á niðurstöðu matsgerðarinnar.
Stefnandi gaf aðilaskýrslu fyrir dómi. Þar lýsti hann atvikum að slysinu með samskonar hætti og áður er rakið úr stefnu. Hann hafi sett vinstri höndina á pallaeininguna sem var komin niður en tekið með hægri hönd í handriðið á þeirri einingu sem fella átti niður næst, til að koma sér upp, en þá hafi síðarnefnda pallaeiningin fallið niður. Kvaðst stefnandi ekki skilja það enda eigi slíkt ekki að vera hægt. Sem hugsanlega ástæðu nefndi hann að vantað hafi splitti, sem átt hafi að setja í þá pinna er héldu pöllunum uppi, og að í flutningunum hafi viðkomandi pinni verið orðinn tæpur í og síðan hrokkið úr um leið og hann tók í eininguna. Tók stefnandi fram að stundum hafi splitti ekki fundist og þá hafi því verið reddað öðruvísi, svo sem með rafsuðuvír. Margir hafi hins vegar verið kærulausir og sett einungis pinna í. Síðar í skýrslunni nefndi stefnandi að hugsanlega hefðu eyrun fyrir pinnana verið orðin bogin og pinninn verið tæpur í eða að einhver hafi verið búinn að taka splittið úr eða engin splitti verið í. Stefnandi kvað lýsinguna í skýrslu Vinnueftirlitsins, á því að hann og Jón Valur hafi verið búnir að losa festingar af einingunni, ekki vera rétta. Þeir hafi ekki verið búnir að losa neitt af pallinum enda hefði hann þá sjálfkrafa dottið niður. Kvaðst stefnandi hafa fengið leiðbeiningar vegna starfsins frá Jóni Val en ekki fengið leiðbeiningu eða kennslu frá verkstjórum stefnda. Staðfesti stefnandi að hann hefði oft innt umrætt verk af hendi áður. Lýsti hann verkinu svo að það hafi í sjálfu sér verið einfalt, þeir Jón Valur hafi alveg vitað hvað þeir voru að gera og verið vanir þessum pöllum.
Jón Valur Einarsson gaf vitnaskýrslu fyrir dómi. Lýsti hann atvikum að slysinu svo að hann og stefnandi hafi verið búnir að taka niður tvo til þrjá palla þegar þeir sáu að handriðið á næsta palli sem átti að taka niður var „splittað“. Stefnandi hafi ákveðið að taka splittið úr og stutt hendi á pallinn sem var niðurkominn og gripið í pallinn sem þeir ætluðu að fara að taka niður. Þá hafi smollið í og pallurinn fallið niður. Vitnið hafi verið undir pallinum og náð að bera höndina fyrir sig og þannig tekið mesta fallið af áður en pallurinn lenti á stefnanda. Kvað vitnið lýsingu Vinnueftirlitsins á því að hann og stefnandi hafi verið búnir að losa festingar ekki standast. Vitnið lýsti því að í pinnunum, sem halda göngupöllunum uppi, séu göt sem setja eigi splitti í, til þess að pinnar skrölti ekki úr við flutning. Brotalöm hafi verið orðin á því að slíkt væri gert og splitti verið farin að týnast. Tilfinning hans sé sú að umræddur pinni hafi verið eitthvað tæpur í og svo hafi hann smollið úr þegar stefnandi greip í hlemminn. Kvað vitnið að ekki hafi verið passað alveg „upp á 10 [...] að hafa þetta allt 100% í lagi“. Hann hafi oft verið búinn að nefna það við verkstjóra að það vantaði splitti í þessa pinna. Menn hafi verið að bjarga sér, jafnvel notað rafsuðuvír eða beygt nagla, en hann sé ekki viss um að bormenn hafi alltaf passað upp á það, þegar splitti vantaði, að leita að einhverju til að setja í. Spurður um það hvort honum og stefnanda hafi verið kunnugt um að misbrestur gæti verið þarna á svaraði vitnið því játandi; að hann teldi að stefnandi hefði átt að vera meðvitaður um slíkt, að menn væru að redda sér eitthvað fyrir horn með nöglum eða svoleiðis. Spurður um hvort þetta tiltekna verk hafi þarfnast verkstjóra eða hvort um hafi verið að ræða einfalt verk svaraði vitnið því til að um einfalt verk hafi verið að ræða og þeir verið fullfærir um að gera þetta, enda verið flutningagengi að störfum. Þegar slysið varð hafi hann verið búinn að vera í þessu vel á annað ár og stefnandi í meira en hálft ár, og eingöngu í þessum flutningum. Stefnandi hafi alveg vitað hvað hann var að gera. Spurður um það hvort hann hafi einhvern tímann gefið afslátt af öryggi í sínu verklagi, af tímalegum ástæðum, svaraði Jón Valur því neitandi
Loks gaf Jón Matthías Helgason, verkstjóri hjá stefnda, vitnaskýrslu fyrir dómi. Kvað hann sér ekki hafa verið kunnugt um að splitti hafi vantað í pinna og ekki hafa fengið kvartanir út af því. Þá kvaðst hann ekki hafa skýringu á því hvers vegna pallurinn féll niður eins og hann gerði.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að stefndi beri sakarábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð fyrir í slysinu. Telur stefnandi að tjón sitt verði rakið til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi sem stefndi beri ábyrgð á samkvæmt meginreglum íslensks skaðabótaréttar um sakarábyrgð og vinnuveitandaábyrgð.
Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að slysið verði rakið til þess að óforsvaranlega hafi verið gengið frá festingum umræddrar pallaeiningar. Telur stefnandi ljóst að pinninn, sem ganga átti í gegnum boltann á pallaeiningunni til þess að festa hana við hlið glussastöðvarinnar, hafi ekki verið í þegar stefnandi hugðist fara upp á eininguna við hliðina, eða í öllu falli ekki verið festur nægilega og því hrokkið úr stæði sínu þegar stefnandi kom við pallaeininguna. Stefnandi bendir á að festingarbúnaður eininganna hafi verið þannig búinn að væru einingarnar yfirhöfuð festar kyrfilega hafi verið ómögulegt fyrir þær að falla niður. Í ljósi þess að umrædd eining féll fyrirvaralaust niður verði að telja þá skýringu nærtækasta að skort hafi á að hún væri fest með nægilega tryggum hætti. Slys stefnanda verði þannig rakið til handvammar af hálfu starfsmanna stefnda, enda hafi einhver þeirra af gáleysi valdið stórkostlegri hættu á vinnustaðnum með því að ganga ekki frá festingunni með fullnægjandi hætti eða losa greindan pinna úr stæði sínu án þess að gera stefnanda viðvart. Þá hafi þeir einnig sýnt af sér saknæman aðgæsluskort með því að enginn þeirra hafi athugað festingar pallaeininganna eftir að þeim hafði síðast verið komið upp að hlið glussastöðvarinnar, m.a. hvort pinnar hefðu verið settir í gegnum bolta á festingum þeirra. Verði þannig ekki annað ráðið en að starfsmenn stefnda hafi lagt pallaeiningarnar upp að hlið stöðvarinnar án þess að ganga úr skugga um að þær væru kyrfilega fastar eða a.m.k. upplýst samstarfsmenn um að svo væri ekki. Hafi þeir því látið sér í léttu rúmi liggja hvort einingarnar væru hættulausar þeim sem síðar kæmu að losun þeirra. Verði að telja óaðgætni og yfirsjón starfsmanna stefnda í þessum efnum verulega ámælisverða. Samkvæmt meginreglum íslensks skaðabótaréttar beri stefndi ábyrgð á svokölluðum „nafnlausum mistökum“.
Stefnandi byggir í öðru lagi á því að framkvæmd þess verks að losa pallaeiningar frá hlið glussastöðvarinnar og koma upp göngupallinum hafi verið ófullnægjandi, enda hafi fjölmargir starfsmenn stefnda jafnan komið að verki sem þessu og það verið framkvæmt í miklum flýti án nægilegs skipulags. Hafi því oft verið búið að slá pinna úr boltum án þess að þeir sem á eftir kæmu til að fella niður pallaeiningarnar væru nægilega upplýstir þar um. Því kunni að vera að nefndur pinni hafi ekki verið festur sem skyldi eða þá í öllu falli að pinninn hafi verið losaður án þess að stefnanda væri um það kunnugt með þeim afleiðingum að pallaeiningin hafi fallið niður þegar stefnandi tók í eininguna og hugðist lyfta sér upp á eininguna við hliðina.
Stefnandi byggir í þriðja lagi á því að á hafi skort að verkstjóri stefnda gætti að þeim varúðarráðstöfunum sem nauðsynlegar voru þegar göngupallurinn var settur niður, m.a. í ljósi þess að pallaeiningarnar gátu fallið niður án nokkurs fyrirvara. Hafi þó verið sérstakt tilefni til að huga að slíkum þáttum, enda hafi verkstjóranum mátt vera ljóst að mönnum kynni að vera hætta búin við þessar aðstæður. Telur stefnandi að verkstjórn hafi verið verulega ábótavant greint sinn, enda hafi enginn hlutast til um að gengið væri forsvaranlega frá festingarbúnaðinum eða að festingarnar væru athugaðar áður en starfsmenn færu að vinna við göngupallinn. Bendir stefnandi og á að skort hafi á skýr fyrirmæli um verkaskiptingu við framkvæmd verksins. Hafi slíkur losarabragur verið á verklagsreglum að starfsmenn hafi allir gengið í störf annarra og óljóst hafi verið hver hafi átt að gera hvað. Þannig hafi t.d. aðrir en þeir, sem raunverulega áttu að festa pallaeiningarnar upp við glussastöðina, fest og losað einingarnar óumbeðnir og þannig farið inn á verksvið annarra.
Stefnandi byggir í fjórða lagi á því að verulega hafi skort á að stefndi fullnægði kröfum sem gera verði til atvinnurekanda að því er varðar leiðbeiningarskyldu og þjálfun starfsfólks. Stefnandi hafi eingöngu verið búinn að vinna hjá stefnda í nokkra mánuði þegar slysið átti sér stað. Hafi hann því mátt ætla að stefndi gerði honum ljósar þær hættur sem kynnu að vera á vinnustaðnum, þ.m.t. að mögulegt væri að pallaeiningarnar, sem stefnandi vann við í greint sinn, gætu fallið niður fyrirvaralaust. Stefnandi bendir í þessu sambandi á að samkvæmt 14. gr. laga nr. 46/1980 hafi sú skylda hvílt á stefnda að gera starfsmönnum sínum ljósa slysahættu sem kynni að vera bundin við starf þeirra. Þar sé einnig mælt fyrir um að starfsmann fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma störf sín á þann hátt að ekki stafi hætta af. Til þessa sé sérstaklega vísað í umsögn Vinnueftirlitsins. Telur stefnandi að stefndi hafi með framangreindum hætti vanrækt leiðbeiningarskyldu sína svo verulega að telja verði honum það til stórfellds gáleysis.
Stefnandi byggir í fimmta lagi á því að ef ekki verður fallist á að tjón stefnanda eigi rætur að rekja til saknæmrar háttsemi starfsmanna stefnda, með því að einhver þeirra hafi vanrækt að festa umrædda pallaeiningu eða láta stefnanda vita að búið væri að losa pinna úr bolta, sem festi eininguna, hljóti orsök slyssins að vera sú að festingin hafi gefið sig. Hafi festingarbúnaðurinn því verið haldinn leyndum galla eða bilun sem stefnanda hafi ekki verið kunnugt um. Telur stefnandi ljóst að stefndi hafi, með því að hlutast ekki til um að búnaðurinn væri hættulaus starfsmönnum sínum með forsvaranlegu eftirliti, farið á svig við ákvæði laga og reglna um aðbúnað, öryggi og hollustu á vinnustöðum og valdið stefnanda skaðabótaskyldu tjóni sem stefndi verði að bera ábyrgð á.
Stefnandi byggir í sjötta lagi á því að stefndi beri í öllu falli sjálfstæða ábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli reglna um hlutlæga ábyrgð vinnuveitanda vegna hættulegra aðstæðna á vinnustað. Sem vinnuveitandi beri stefndi hlutlæga ábyrgð á því að aðstæður á vinnustaðnum hafi verið óforsvaranlegar greint sinn og að öryggi starfsmanna hafi verið hætta búin vegna ófullnægjandi aðbúnaðar. Verði ekki fallist á hlutlæga ábyrgð er á því byggt að stefndi hafi ekki gætt þeirra öryggisráðstafana sem honum hafi verið skylt og í engu reynt að draga úr þeirri hættu sem fylgt hafi getað starfi stefnanda. Þannig hafi enginn búnaður verið til að draga úr falli pallaeininga, en slíkum búnaði, t.d. dempurum, blökkum, keðjum eða böndum, hefði hæglega mátt koma upp án vandkvæða. Með þeim hætti hefði mátt koma í veg fyrir þá hættu sem verið hafi því samfara að pallaeiningarnar losnuðu úr stæði sínu og skyllu niður fyrirvaralaust án þess að nokkuð drægi úr falli þeirra. Stefnandi vísar í þessum efnum til 1. mgr. 46. gr. laga nr. 46/1980, og greinar 15.2 og a-liðar greinar 18.3 í viðauka við reglur nr. 553/1996, um öryggisráðstafanir við jarðaefnanám með borunum.
Stefnandi byggir í sjöunda lagi á því að stefndi verði að bera hallann af því að fullnægjandi upplýsingar um orsakir slyssins liggi ekki fyrir, enda hafi hann ekki hlutast til um að tilkynna slysið til Vinnueftirlitsins án ástæðulauss dráttar. Tilkynning um slysið hafi hvorki borist stofnuninni né lögreglu fyrr en daginn eftir og formleg tilkynning stefnda ekki fyrr en 17. apríl 2008. Þegar lögregla og Vinnueftirlitið hafi mætt á vettvang degi eftir slys hafi verið búið að koma umræddum palli fyrir við hlið glussastöðvarinnar. Því hafi verið ómögulegt að greina hvort pinninn á festingum einingarinnar hefði dottið úr eða hvort festingin sjálf hefði gefið sig. Með þessu hafi stefndi brotið gegn 1. mgr. 79. gr., sbr. og 81. gr. laga nr. 46/1980, enda hafi hann vanrækt að láta rannsókn fara fram á orsökum slyssins áður en göngupallurinn var settur upp. Jafnvel þótt litið verði svo á að tilkynningin hafi borist innan frestsins í 2. málsl. 1. mgr. 79. gr. sé ljóst að þess hafi ekki verið gætt af hálfu stefnda að bíða með að setja pallaeininguna upp þar til starfsmenn Vinnueftirlitsins kæmu á vettvang. Stefndi verði að bera hallann af því að hafa spillt vettvangi slyssins með þessum hætti.
Stefnandi telur að stefndi hafi með framangreindum hætti vanrækt skyldur sínar samkvæmt lögum og reglum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Auk þeirra reglna sem að framan greinir bendir stefnandi á 13. gr., 37. gr. og 42. gr. laga nr. 46/1980. Þá vísar stefnandi til a-liðar 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 10. gr. reglna nr. 553/1996, um öryggisráðstafanir við jarðefnanám með borunum, sem og greina 2.1.1, 2.5 og 2.7 í viðauka við reglurnar. Stefnandi vísar jafnframt til 8. gr. reglna nr. 547/1996, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, greinar 2.1 í A-hluta IV. viðauka reglnanna og greina 14.1 og 14.2 í B-hluta sama viðauka. Ljóst sé að stefndi hafi virt að vettugi skýr fyrirmæli í ákvæðum laga og reglugerða um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað stefnanda og við framkvæmd vinnu hans. Mjög hafi skort á skipulag vinnu, leiðbeiningar um framkvæmd starfsins og verkstjórn, auk þess sem vinnuaðstæður hafi verið hættulegar og óforsvaranlegar. Beri stefndi skaðabótaábyrgð á því tjóni sem af þessari vanrækslu hans hafi hlotist.
Við málflutning mótmælti lögmaður stefnanda sérstaklega niðurstöðu Vinnueftirlitsins um orsök slyssins. Lýsing í skýrslu Vinnueftirlitsins sé röng og í ósamræmi við allt annað í málinu. Aldrei hafi verið rætt við stefnanda og stór spurning sé hvernig rannsókn hafi verið háttað. Þá vísaði lögmaðurinn til vitnaskýrslu Jóns Vals Einarssonar um að brotalöm hefði verið á því að splitti væru sett í þá pinna, sem héldu göngupallinum uppi, og að hann hefði oft verið búinn að nefna það við verkstjóra að splitti vantaði.
Aðalkrafa stefnanda sundurliðast í kröfu um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón, kröfu um þjáningabætur, kröfu um bætur fyrir varanlegan miska og kröfu um bætur fyrir varanlega örorku. Um kröfuna vegna tímabundins atvinnutjóns vísar stefnandi til þess að samkvæmt mati hins dómkvadda matsmanns hafi stefnandi verið óvinnufær frá 16. mars 2008 til 20. maí 2009. Stefnandi hafi haldið fullum launum út árið 2008. Frá janúar til maí 2009 hafi hann hins vegar eingöngu fengið tekjur frá Vinnumálastofnun. Krafa stefnanda fyrir greint tímabil miðist við meðaltekjur hans á árinu 2008 að frádregnum greiðslum frá Vinnumálastofnun og dagpeningum að fjárhæð 520.393 kr. frá réttargæslustefnda. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtali hafi meðaltekjur stefnanda verið 782.367 kr. á mánuði árið 2008. Fyrir tímabilið janúar til 20. maí 2009 geri stefnandi því kröfu um 782.367 kr. í fjóra mánuði og 20 daga eða 3.651.046 kr., að frádregnum 884.389 kr., sem stefnandi fékk frá Vinnumálastofnun á greindu tímabili, og áðurnefndum dagpeningum að fjárhæð 520.393 kr. Því sé gerð krafa um 2.246.264 kr. í bætur fyrir tímabundið atvinnutjón.
Um kröfu sína um þjáningabætur vísar stefnandi til þess að samkvæmt mati hins dómkvadda matsmanns hafi stefnandi verið veikur án þess að vera rúmliggjandi í skilningi 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 í alls 217 daga. Að teknu tilliti til verðlagsbreytinga, sbr. 15. gr. skaðabótalaga, sé krafist 1.580 kr. fyrir hvern dag sem hann var veikur án rúmlegu eða samtals 342.860 kr. Um kröfuna um bætur fyrir varanlegan miska vísar stefnandi til þess að í matsgerð hins dómkvadda matsmanns sé varanlegur miski stefnanda metinn til 12 stiga, sbr. 4. gr. skaðabótalaga. Að teknu tilliti til verðlagsbreytinga, sbr. 15. gr. laganna, séu bætur fyrir algeran miska fyrir 49 ára og yngri nú 9.003.000 kr. Stefnandi geri því kröfu um 12% af þeirri fjárhæð eða 1.080.360 kr.
Um kröfuna um bætur fyrir varanlega örorku vísar stefnandi til þess að hinn dómkvaddi matsmaður hafi metið varanlega örorku stefnanda vegna slyssins 15%. Samkvæmt framlögðum skattframtölum hafi árslaun stefnanda verið 3.579.684 kr. árið 2005, 2.028.499 kr. árið 2006 og 4.140.585 kr. árið 2007. Á árinu 2006 hafi hins vegar verið fyrir hendi óvenjulegar aðstæður hjá stefnanda að því er tekjur varðar. Stefnandi hafi lent í slysi í júlí 2006 þegar hann féll og viðbeinsbrotnaði. Brotið hafi ekki gróið og hann orðið að gangast undir læknisaðgerð vegna þessa. Hann hafi verið frá vinnu sinni sem sjómaður í hálft ár vegna slyssins og af þeim sökum haft mun lægri tekjur sem sjómaður en ella. Í ljósi þessa telji stefnandi rétt að framtalin fjárhæð vegna ársins 2006 verði tvöfölduð við útreikning á meðaltali árslauna síðustu þriggja ára fyrir slysið að meðtöldu framlagi vinnuveitanda til lífeyrissjóðs, sbr. 7. gr. skaðabótalaga, enda telji stefnandi skilyrði uppfyllt til að meta árslaun hans sérstaklega við ákvörðun bóta honum til handa, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Miðar stefnandi árslaun sín vegna ársins 2006 við 4.056.998 kr. Að teknu tilliti til verðlagsbreytinga, sbr. 15. gr. skaðabótalaga, verði því miðað við að laun stefnanda hafi verið 5.165.891 kr. árið 2005, 5.344.647 kr. árið 2006 og 5.003.477 kr. árið 2007. Uppreiknuð meðallaun séu því 5.171.338 kr. Að meðtöldu 8% lífeyrissjóðsframlagi, 413.307 kr., og að teknu tilliti til verðlagsbreytinga hafi meðalatvinnutekjur stefnanda umrædd þrjú ár því verið 5.585.045 kr. Sú fjárhæð sé margfölduð með metnu örorkustigi stefnanda og hlutfallslega breyttum stuðli samkvæmt 6. gr., sbr. og. 9. gr. skaðabótalaga. Nemi krafa stefnanda að þessu leyti því 5.585.045 x 15% x 9,604 = 8.045.816 kr.
Samanlagt nemur fjárhæð framangreindra fjögurra bótaliða 11.715.300 kr., sem er hin tölulega fjárhæð sem sett er fram í aðalkröfu í stefnu. Í endanlegri kröfugerð stefnanda hefur sú fjárhæð hins vegar verið lækkuð um 866.753 kr., eða í 10.848.547 kr., en sú lækkun svarar til þeirrar fjárhæðar sem stefnandi fékk greidda sem örorkubætur frá Sjúkratryggingum Íslands þann 12. febrúar 2013. Um vaxtakröfu sína vísar stefnandi til þess að gerð sé krafa um 4,5% vexti af bótum fyrir tímabundið atvinnutjón, þjáningar og varanlegan miska, sbr. 16. gr. skaðabótalaga, frá slysdegi, en af bótum fyrir varanlega örorku miðað við þann dag er matsmaður telur heilsufar stefnanda hafa verið orðið stöðugt, eða 20. maí 2009. Þá geri stefnandi kröfu um dráttarvexti. Í stefnu var krafist dráttarvaxta frá 10. júlí 2011 og vísað til þess að þá hafi mánuður verið liðinn frá birtingu stefnu. Í endanlegri kröfugerð er dráttarvaxta hins vegar krafist frá 17. apríl 2011 en það tímamark var ekki útskýrt sérstaklega í málflutningi lögmanns stefnanda. Til frádráttar komi greiddar örorkubætur úr slysatryggingu, 1.028.756 kr., sem greiddar hafi verið stefnanda 25. janúar 2010.
Varakrafa stefnanda sundurliðast í sömu bótaliði og aðalkrafa og er fjárhæð einstakra liða hin sama nema hvað snertir bætur fyrir varanlega örorku, þar sem byggt er á öðrum árslaunum en í aðalkröfu. Kveður stefnandi varakröfuna miðast við tekjur stefnanda samkvæmt skattframtali fyrir árið 2006, 3.112.194 kr., að viðbættum tekjum vegna eigin atvinnurekstrar, 48.000 kr., og reiknuðu endurgjaldi vegna þess rekstrar, 42.888 kr., árið 2006, eða samtals 3.203.082 kr. Að teknu tilliti til verðlagsbreytinga, sbr. 15. gr. skaðabótalaga, verði því miðað við að laun stefnanda hafi verið 5.165.891 kr. árið 2005, 4.219.708 kr. árið 2006 og 5.003.477 kr. árið 2007. Uppreiknuð meðallaun séu því 4.796.359 kr. Að meðtöldu 8% lífeyrissjóðsframlagi, 383.709 kr., og að teknu tilliti til verðlagsbreytinga hafi meðalatvinnutekjur stefnanda umrædd þrjú ár því verið 5.180.068 kr. Sú fjárhæð sé margfölduð með metnu örorkustigi stefnanda og hlutfallslega breyttum stuðli samkvæmt 6. gr., sbr. og. 9. gr. skaðabótalaga. Nemi krafa stefnanda að þessu leyti því 5.180.068 x 15% x 9,604 = 7.462.406 kr. Samanlagt nemur fjárhæð varakröfu í stefnu 11.131.890 kr. en í endanlegri kröfugerð hefur sú fjárhæð verið lækkuð um 866.753 kr., eða í 10.265.137 kr., vegna fyrrnefndrar greiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands þann 12. febrúar 2013. Um varakröfuna vísar stefnandi að öðru leyti til umfjöllunar um aðalkröfu.
Þrautavarakrafa stefnanda sundurliðast í sömu bótaliði og aðal- og varakrafa og er fjárhæð einstakra liða hin sama nema hvað snertir bætur fyrir varanlega örorku, þar sem byggt er á öðrum árslaunum. Kveður stefnandi þrautavarakröfuna miðast við framtaldar launatekjur stefnanda árið 2006, 2.028.499 kr. Að teknu tilliti til verðlagsbreytinga, sbr. 15. gr. skaðabótalaga, verði því miðað við að laun stefnanda hafi verið 5.165.891 kr. árið 2005, 2.672.324 kr. árið 2006 og 5.003.477 kr. árið 2007. Uppreiknuð meðallaun séu því 4.280.564 kr. Að meðtöldu 8% lífeyrissjóðsframlagi, 342.445 kr., og að teknu tilliti til verðlagsbreytinga hafi meðalatvinnutekjur stefnanda umrædd þrjú ár því verið 4.623.009 kr. Sú fjárhæð sé margfölduð með metnu örorkustigi stefnanda og hlutfallslega breyttum stuðli samkvæmt 6. gr., sbr. og. 9. gr. skaðabótalaga. Nemi krafa stefnanda að þessu leyti því 4.623.009 x 15% x 9,604 = 6.659.907 kr. Samanlagt nemur fjárhæð þrautavarakröfu í stefnu 10.329.391 kr. en í endanlegri kröfugerð hefur sú fjárhæð verið lækkuð um 866.753 kr., eða í 9.462.638 kr., vegna fyrrnefndrar greiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands þann 12. febrúar 2013. Um þrautavarakröfuna vísar stefnandi að öðru leyti til umfjöllunar um aðalkröfu.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna skaðabótaréttar, m.a. um vinnuveitandaábyrgð og sakarábyrgð. Jafnframt vísar stefnandi til ákvæða þágildandi laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum 13., 14., 37., 42., 46., 79. og 81. gr. Enn fremur styður stefnandi kröfur sínar við reglur nr. 553/1996, um öryggisráðstafanir við jarðaefnanám með borunum, einkum a-lið 3. gr. og 1. mgr. 10. gr., svo og greinar 2.1.1, 2.5, 2.7, 15.2 og a-lið greinar 18.3 í viðauka reglnanna. Einnig vísar stefnandi til reglna nr. 547/1996, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, einkum 8. gr. og IV. viðauka við reglurnar. Þá vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 3.-7., 9., 15. og 16. gr. Dráttarvaxtakröfu sína styður stefnandi við ákvæði 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styður hann við lög nr. 50/1998 um virðisaukaskatt.
Málsástæður og lagarök stefnda
Um aðalkröfu sína tekur stefndi fram að hann hafni því alfarið að slys stefnanda sé að rekja til atvika eða aðstæðna sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á. Slysið verði hvorki rakið til saknæmrar háttsemi samstarfsmanna stefnanda, skorts á verkstjórn eða leiðbeiningum, ófullnægjandi vinnuaðstæðna, ófullnægjandi búnaðar eða annarra aðstæðna sem stefndi beri ábyrgð á. Fyrst og fremst hafi verið um óhappatilviljun að ræða og e.t.v. óaðgæslu stefnanda sjálfs. Stefnandi, sem beri sönnunarbyrðina um orsök tjóns síns og umfang þess, hafi ekki fært sönnur á annað.
Í fyrsta lagi mótmælir stefndi því að meiðsli stefnanda hafi orðið vegna saknæmrar háttsemi samstarfsmanna stefnanda. Stefndi mótmælir málatilbúnaði stefnanda er byggir á því að einhver starfsmaður stefnda hafi gengið frá festingum pallaeiningarinnar á óforsvaranlegan hátt. Engir aðrir starfsmenn hafi fengið fyrirmæli um að hefja vinnu við að setja upp pallinn og því engin ástæða til þess að einhver starfsmaður hafi verið búinn að fjarlægja eða losa umræddan pinna í festingunni en gengið svo frá ókláruðu verki og skapað með því slysahættu. Enn ólíklegra sé að starfsmaður hafi tekið upp á því að gera slíkt án fyrirmæla. Ekkert bendi heldur til þess að pinninn hafi ekki verið festur réttilega á pallaeininguna við frágang á bornum. Því sé alfarið mótmælt að aðrir starfsmenn stefnda hafi ekki athugað það sérstaklega og þannig sýnt af sér gáleysi.
Stefndi mótmælir því einnig að um hafi verið að ræða óforsvaranlega framkvæmd vinnu við verkið og að það hafi verið gert í flýti og án skipulags. Slíkar málsástæður séu algjörlega úr lausu lofti gripnar og sé alfarið vísað á bug, enda séu málsástæðurnar með öllu órökstuddar af hálfu stefnanda. Einnig sé rangt að fjölmargir starfsmenn stefnda hafi jafnan komið að verki sem þessu og að oft hafi verið búið að slá pinna úr boltum án þess að þeir sem á eftir kæmu til að fella niður pallaeiningarnar væru nægilega upplýstir um það.
Þá mótmælir stefndi því að um ófullnægjandi verkstjórn hafi verið að ræða. Þetta hafi verið einfalt verk og ekki þörf á að hafa sérstaka verkstjórn á því þar sem verkið hafi verið falið reyndum starfsmönnum í flutningateymi. Enginn losarabragur hafi verið á verklagsreglum eða verkaskiptingu. Stefnandi hafi oft unnið sama verk áður og þekkt vel til þess hvernig festingar á pallinum virkuðu. Í stefnu komi fram að festingarbúnaður eininganna hafi verið þannig að ef þær voru yfirhöfuð festar kyrfilega hafi verið ómögulegt fyrir þær að falla niður. Á hinn bóginn haldi stefnandi því einnig fram að þörf hafi verið á aukinni verkstjórn meðal annars „í ljósi þess að pallaeiningar gátu fallið niður án nokkurs fyrirvara.“ Stefndi telur mótsögnina í málsástæðum stefnanda tala sínu máli og byggir á því að ekki hafi verið sérstök þörf á aukinni verkstjórn í umrætt skipti. Einnig byggir stefndi á því að pallaeiningarnar hafi ekki getað fallið niður án nokkurs fyrirvara án þess að búið væri að losa festinguna á þeim fyrst. Telur stefndi líklegast að stefnandi hafi sjálfur verið búinn að losa festinguna fyrir umrædda einingu þegar hann hugðist fara upp og losa hana því hún hafi staðið á sér, líkt og fram komi í skýrslu Vinnueftirlitsins. Festingabúnaðurinn hafi því verið í fullkomnu lagi, enda ekkert sem sýni að starfsmenn stefnda hafi ekki gengið réttilega frá honum.
Stefndi telur að fullnægjandi leiðbeiningar hafi verið veittar varðandi þjálfun starfsfólks fyrir umrætt verk, enda hafi verið um að ræða einfalt verk við að setja upp pallinn. Stefnandi hafi verið búinn að vinna hjá stefnda í nokkra mánuði og starfað í flutningateymi, sem séð hafi um að flytja borinn milli staða og setja hann upp. Stefnandi hafi því verið alvanur því verki sem honum var falið í umrætt skipti og verið vel þjálfaður til verksins, þrátt fyrir þá tilvísun til 14. gr. laga nr. 46/1980, sem fram komi í skýrslu Vinnueftirlitsins. Líkt og fram komi í skýrslunni megi ætla að helsta orsök slyssins hafi verið að hönd stefnanda hafi verið á sjálfu „klemmusvæði“ göngupallsins þegar hann féll niður. Verði það ekki rakið til þess að stefndi hafi á nokkurn hátt brotið gegn ákvæðum 37. eða 42. gr. laga nr. 46/1980, líkt og stefnandi haldi fram.
Þá mótmælir stefndi því sem röngu að pinni í festingunni hafi gefið sig eða að festingin hafi verið gölluð á einhvern hátt. Þvert á móti megi ætla að festingarnar hafi verið í góðu lagi þar sem unnt hafi verið að ljúka við verkið og setja upp pallinn strax daginn eftir. Ekki hafi verið nein ástæða til þess að draga verkið, enda ekki nein sönnunargögn til staðar sem hægt var að spilla, þar sem ekki hafi verið nein verksummerki um að festingin hefði gefið sig í umrætt skipti. Því sé jafnframt mótmælt sem röngu og ósönnuðu að stefndi hafi á einhvern hátt vanrækt eftirlitsskyldu sína.
Stefndi mótmælir því að vinnuaðstæður hafi verið óforsvaranlegar. Stefnandi byggi á því að stefndi beri hlutlæga ábyrgð vegna hættulegra aðstæðna á vinnustað. Því sé alfarið mótmælt að um hættulegar aðstæður hafi verið að ræða. Jafnframt sé því mótmælt sem röngu að slík hlutlæg ábyrgðarregla sé í gildi að íslenskum rétti. Stefndi telur sig hafa uppfyllt skyldur sínar samkvæmt reglum nr. 553/1996 að öllu leyti. Starfsvettvangurinn hafi verið skipulagður þannig að næg vernd væri gegn hættum. Umrætt verkefni stefnanda hafi ekki falið í sér neinar sérstakar hættur. Um einfalt verk hafi verið að ræða en svo óheppilega hafi viljað til að stefnandi hafi sjálfur staðsett hendi sína á klemmusvæði pallsins og því slasast þegar pallaeiningin féll niður, líkt og hún hafi verið hönnuð til að gera. Ekki hafi verið um að ræða aðstæður sem falli undir gildissvið greinar 2.1 í A-hluta sbr. grein 14.2 í B-hluta í IV. viðauka reglna nr. 547/1996. Stefnandi vísi einnig í grein 14.1 í B-hluta IV. viðauka nefndra reglna og málatilbúnaður hans með þessum tilvísunum virðist byggja á því að hættan af göngupallinum sem fallandi hlut hafi á einhvern hátt verið meiri en stefnandi gerði sér grein fyrir. Þær reglur sem stefnandi vísi í séu hins vegar fyrst og fremst hugsaðar fyrir hluti sem fallið geti úr lausu lofti á starfsmenn, en ekki fyrir grindverk á palli sem verið sé að reisa upp eða leggja niður og fast sé á hjörum. Stefndi mótmælir því einnig að aðstæður á vinnustað hafi verið hættulegar og telur að ekki hafi verið nein þörf á að hafa sérstakan búnað til að draga úr falli pallaeininganna. Helstu orsök slyssins megi rekja til aðgæsluleysis stefnanda, sem sett hafi hendi sína á klemmusvæði, og því sé ómögulegt að segja að hægt hefði verið að koma í veg fyrir slysið með sérstökum búnaði til að draga úr falli pallaeininganna.
Stefndi kveður sig hafa uppfyllt tilkynningarskyldu sína samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980, þar sem slysið hafi verið tilkynnt til lögreglu og Vinnueftirlitsins innan sólarhrings. Samkvæmt dagbókarfærslu lögreglu hafi lögreglu verið tilkynnt um slysið samdægurs. Fram komi í skýrslunni að ákveðið hafi verið að hringt yrði aftur á lögreglustöðina næsta morgun og þá óskað eftir lögreglu á staðinn til skýrslutöku. Reynt hafi verið að tilkynna vinnueftirliti um atvikið sama kvöld en það ekki tekist fyrr en morguninn eftir, þegar fulltrúi Vinnueftirlitsins hafi komið á staðinn.
Með vísan til alls framangreinds telur stefndi ljóst að hann hafi uppfyllt allar lögbundnar skyldur sínar. Stefnandi, sem beri alla sönnunarbyrði um orsök tjóns síns og umfang þess, hafi ekki leitt líkur að öðru. Í ljósi þessa krefst stefndi þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Við málflutning mótmælti lögmaður stefnda því sem of seint fram komnu og röngu, sem lögmaður stefnanda byggði á, um vanhöld á splittum. Þá vísaði lögmaður stefnda til þess að ef slíkt væri lagt til grundvallar væri ljóst að um gáleysi stefnanda hafi verið að ræða, enda hefði hann þá átt að athuga hvort splitti væri í.
Stefndi byggir varakröfu sína í fyrsta lagi á því að stefnandi hafi sjálfur átt sök á tjóni sínu að verulegu leyti og því verði hann sjálfur að bera hluta tjóns síns. Stefnandi hafi í öllu falli ekki sýnt af sér tilhlýðilega aðgæslu í umrætt sinn að teknu tilliti til reynslu hans og þekkingar. Um nánari rökstuðning fyrir eigin sök stefnanda vísar stefndi til umfjöllunar um aðalkröfu eftir því sem við á. Í öðru lagi mótmælir stefndi kröfu stefnanda um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón sem ósannaðri og of hárri. Í þriðja lagi mótmælir stefndi forsendum og útreikningi stefnanda á kröfu um bætur fyrir varanlega örorku. Byggir stefndi á því að leggja eigi 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til grundvallar við útreikning bótanna. Stefndi mótmælir því að skilyrði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga séu uppfyllt og að við útreikning beri að tvöfalda árslaun stefnanda fyrir árið 2006, þar sem hann hafi lent í slysi og viðbeinsbrotnað í júlí 2006, eins og stefnandi byggi á. Spurður um eigið heilsufar í viðtölum hjá Magnúsi Páli Albertssyni lækni hafi stefnandi svarað því að fyrir u.þ.b. tíu árum hefði hann dottið við veiði og brotnaði á vinstra viðbeini. Stefndi telur því ósannað að stefnandi hafi lent í slysi árið 2006, sem og hversu lengi hann hafi verið óvinnufær hafi hann verið frá vinnu, og því beri að horfa á árslaun síðustu þriggja ára líkt og þau komi fram á skattframtölum. Verði ekki á það fallist byggir stefndi á því að miða eigi við annað og lægra tekjuviðmið en stefnandi leggi til grundvallar, en stefnandi beri sönnunarbyrði um að önnur og hærri árslaun gefi réttari mynd af líklegum framtíðartekjum hans.
Stefndi mótmælir jafnframt forsendum stefnanda fyrir útreikningi á verðlagsbreytingum viðmiðunarlauna. Stefndi byggir á því að miða eigi við launavísitölu á stöðugleikapunkti, sem sé 356 stig, en ekki 385,6 stig, eins og stefnandi miði við. Uppreiknuð laun séu því 4.769.339 kr. árið 2005, 2.467.187 kr. árið 2006 og 4.619.393 kr. árið 2007, sem geri meðallaun að fjárhæð 3.951.973 kr. Að viðbættu 8% lífeyrissjóðsframlagi, 316.158 kr., séu viðmiðunartekjur því 4.268.131 kr. Jafnframt er niðurstöðu matsgerðar mótmælt sem of hárri. Að lokum krefst stefndi þess í greinargerð sinni að bætur séu lækkaðar sem nemur greiðslum frá þriðja aðila eða réttindum til greiðslna sem stefnandi kunni að eiga. Þar skorar stefndi á stefnanda að upplýsa um greiðslur frá þriðja aðila sem dragast eigi frá bótum úr hendi stefnda, sbr. 2. mgr. 2. gr., 2. mgr. 3. gr., 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í kjölfarið lagði stefnandi fram upplýsingar um greiðslu frá Sjúkratryggingum og lækkaði dómkröfur sínar sem henni nam, líkt og fyrr greinir.
Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna skaðabótaréttar, einkum um sakarábyrgð og ábyrgð vinnuveitanda, orsakatengsl og sennilega afleiðingu, sönnun tjóns og sönnunarbyrði og eigin sök tjónþola. Þá vísar stefndi til skaðabótalaga nr. 50/1993. Kröfu sína málskostnað styður hann við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Í málinu er deilt um skaðabótakröfu stefnanda vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir í starfi hjá stefnda þann 16. mars 2008. Stefnandi var þá að leggja niður göngupall með fram glussastöð jarðborsins Óðins, ásamt samstarfsmanni sínum Jóni Vali Einarssyni. Göngupallurinn samanstendur af einingum, sem eru u.þ.b. tveir metrar að lengd, og á hverri þeirra er handrið. Meðan á flutningi stendur eru einingarnar í lóðréttri stöðu upp við hlið glussastöðvarinnar, en síðan eru þær losaðar og lagðar niður í lárétta stöðu og mynda þá heildstæðan göngupall í kringum jarðborinn. Til þess að leggja niður pallaeiningarnar þarf að losa þær frá hlið glussastöðvarinnar, auk þess sem stundum þarf einnig að losa handriðið. Þegar slysið varð bjó stefnandi sig undir að fara upp á þá einingu sem síðast hafði verið lögð niður. Hann lagði vinstri hönd sína á eininguna og tók síðan með hægri hönd í þá einingu sem fella átti niður næst, í því skyni að hífa sig upp. Féll síðarnefnda pallaeiningin þá niður með þeim afleiðingum að vinstri hönd stefnanda klemmdist á milli áðurnefndra tveggja eininga.
Stefnandi byggir m.a. á því að stefndi beri ábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli hlutlægrar ábyrgðar. Vísar stefnandi ekki til lagaákvæða um slíka ábyrgð, heldur byggir á ólögfestum reglum um hlutlæga ábyrgð og við málflutning vísaði lögmaður stefnanda til Hrd. 1968, bls. 1051. Af dómaframkvæmd Hæstaréttar verður sú ályktun dregin að hlutlæg ábyrgð af þeim toga sem stefnandi byggir á hafi ekki verið dæmd í áratugi. Þegar af þeirri ástæðu þykja ekki efni til að leggja hér hlutlæga ábyrgð á stefnda. Kemur þá til álita hvort sakarábyrgð verði lögð á stefnda, þ.e. á grundvelli sakarreglunnar eða reglunnar um vinnuveitandaábyrgð.
Til að sakarábyrgð verði lögð á stefnda þarf stefnandi, samkvæmt almennum reglum, að sanna saknæma og ólögmæta háttsemi af hálfu stefnda eða starfsmanna hans. Eins og gögnum málsins og framburði fyrir dómi er háttað verður ekki talið að fyrir liggi af hvaða orsökum áðurnefnd pallaeining féll niður. Þá verður ekki talið að aðstæðum í málinu sé þannig háttað að stefndi eigi að bera hallann af þeirri óvissu sem uppi er að þessu leyti. Í því sambandi athugast að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var lögreglu tilkynnt um slysið kl. 20:36 á slysdegi, en slysið átti sér stað um kl. 17:30. Í dagbók lögreglu kemur fram að reynt hafi verið að tilkynna Vinnueftirlitinu um atvikið á slysdegi en ekki verið svarað. Vinnueftirlitið mætti á slysstað morguninn eftir og fyrir liggur skýrsla þess um slysið, sem og lögregluskýrsla. Samkvæmt þessu er ljóst að Vinnueftirlitinu var tilkynnt um slysið innan þess sólarhringsfrests sem fram kemur í 2. málsl. 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og að rannsókn á slysinu fór fram. Í skýrslu Vinnueftirlitsins kemur fram að aðstæður á slysstað hafi verið lítið breyttar, en búið hafi verið að festa göngupallinn. Ekki er fallist á að síðastgreint atriði geti leitt til þess að stefndi eigi að bera hallann af því að orsakir þess að pallaeiningin féll niður teljist óljósar, enda er ljóst að umrædd eining var komin niður þegar við slysið og ekki verður séð að þetta hafi átt að koma í veg fyrir að fullnægjandi rannsókn gæti farið fram eða að Vinnueftirlitið hafi álitið svo vera.
Í skýrslu Vinnueftirlitsins er eftirfarandi niðurstöðu lýst um orsök slyssins: „Ætla má að helsta orsök slyssins sé að þegar pallurinn fellur niður var hönd hins slasaða staðsett á sjálfu „klemmusvæði“ göngupallsins.“ Þar var bent á 2. málsl. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 46/1980, um að atvinnurekandi skuli sjá um að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun við að framkvæma störf sín á þann hátt að ekki stafi hætta af, en jafnframt tekið fram að hinn slasaði hafi verið vanur starfsmaður í flutningateymi. Þótt stefnandi mótmæli forsendum og niðurstöðu skýrslu Vinnueftirlitsins og hún komi ekki í veg fyrir að bótaábyrgð verði lögð á stefnda, er í öllu falli ljóst að skýrslan er málsástæðum stefnanda, um að slysið sé að rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi sem stefndi ber ábyrgð á, ekki til stuðnings, nema eftir atvikum málsástæðu hans um skort á leiðbeiningu og þjálfun starfsfólks.
Í málatilbúnaði stefnanda eru nefndar fleiri en ein hugsanleg skýring á orsökum þess að pallaeiningin féll niður. Þannig er m.a. byggt á því að óforsvaranlega hafi verið gengið frá festingum pallaeiningarinnar, þ.e. að pinninn sem hélt einingunni uppi hafi ekki verið í eða í öllu falli ekki verið festur nægilega og því hrokkið úr stæði sínu þegar stefnandi kom við pallaeininguna. Þá kunni að vera að pinninn hafi verið losaður án þess að stefnanda væri um það kunnugt. Verði á hvorugt fallist er jafnframt byggt á galla eða bilun í festingarbúnaðinum og vanrækslu stefnda í þeim efnum. Í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi kvaðst stefnandi ekki skilja hvers vegna pallurinn hrundi niður enda eigi slíkt ekki að vera hægt. Sem hugsanlega ástæðu nefndi hann að vantað hafi splitti, sem átt hafi að setja í þá pinna er héldu pöllunum uppi, og að í flutningunum hafi viðkomandi pinni verið orðinn tæpur í og síðan hrokkið úr um leið og hann tók í eininguna. Síðar í skýrslunni tók hann jafnframt fram að það væri eins og að annaðhvort hefðu eyrun fyrir pinnana verið orðin bogin og pinninn verið tæpur í eða að einhver hefði verið búinn að taka splittið úr eða engin splitti hefðu verið í. Þau vitni sem komu fyrir dóminn vissu ekki til þess að sambærilegt atvik hefði átt sér stað áður.
Samkvæmt framansögðu verður ekki fullyrt, eins og málið liggur fyrir, hvað varð þess valdandi að áðurnefnd pallaeining féll niður. Skýrsla Vinnueftirlitsins styður ekki að það hafi gerst fyrir saknæma og ólögmæta háttsemi, sem stefndi ber ábyrgð á, og aðstaðan er ekki með þeim hætti að stefndi verði látinn bera hallann af óvissu um ástæðu þess að einingin féll niður, líkt og fyrr er rakið. Sem fyrr segir ber stefnandi sönnunarbyrði fyrir því að slysið sé að rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi af hálfu stefnda eða starfsmanna hans. Verður ekki talið að honum hafi tekist að sanna að pallaeiningin hafi fallið niður fyrir slíka háttsemi. Hér athugast jafnframt að ekkert liggur fyrir um annað en að stefnandi og Jón Valur hafi komið einir að því að leggja niður umræddan göngupall. Þá er ljóst að jafnvel þótt sú skýring væri lögð til grundvallar, sem ekki er orðuð í stefnu en stefnandi og Jón Valur nefndu við skýrslutökur, að misbrestur hafi verið orðinn á því að splitti væru sett í áðurnefnda pinna, er ljóst af sömu skýrslum að stefnanda var sá misbrestur þá ljós og mátti vita, ef svo var, að gæta þyrfti sérstakrar varúðar. Engu að síður hífði hann sig þá upp á þeirri einingu sem fella átti niður og lagði hina höndina um leið á það svæði sem Vinnueftirlitið nefnir „klemmusvæði“, en Vinnueftirlitið ætlaði helstu orsök slyssins þá að hönd stefnanda hefði verið staðsett á umræddu svæði er einingin féll niður.
Ekki verður heldur fallist á bótaskyldu á þeim grunni að framkvæmd umræddrar vinnu hafi verið óforsvaranleg, verkstjórn verið ófullnægjandi eða skortur verið á viðunandi leiðbeiningum. Þannig liggur ekkert til stuðnings fullyrðingu um að það verk sem stefnandi slasaðist við hafi verið framkvæmt í miklum flýti án nægilegs skipulags. Þá liggur sem fyrr segir ekki annað fyrir en að stefnandi og Jón Valur hafi komið einir að umræddu verki og stefnandi staðfesti í aðilaskýrslu sinni að hann hefði oft innt verkið af hendi áður, að það hafi í sjálfu sér verið einfalt, að hann og Jón Valur hafi alveg vitað hvað þeir voru að gera og verið vanir umræddum pöllum. Jón Valur bar á sama veg fyrir dómi og spurður um það hvort verkið hefði þarfnast verkstjóra, eða hvort um einfalt verk hafi verið að ræða, svaraði hann því til að um einfalt verk hafi verið að ræða. Þeir hafi verið fullfærir um að gera þetta, enda verið flutningagengi að störfum, og stefnandi hafi alveg vitað hvað hann var að gera. Þá svaraði hann spurningu um það hvort hann hefði einhvern tímann gefið afslátt af öryggi í sínu verklagi, af tímalegum ástæðum, neitandi. Stefnandi hefur ekki heldur sannað að vinnuaðstæður hafi verið óforsvaranlegar eða að stefndi hafi á annan hátt brotið gegn lögbundum skyldum sínum. Liggur þannig ekki fyrir að stefndi eða starfsmenn hans hafi brotið gegn þeim settu reglum sem stefnandi styður málsástæður sínar við. Samkvæmt öllu framansögðu verður að sýkna stefnda af kröfu stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins. Stefnandi nýtur gjafsóknar í málinu. Allur gjafsóknarkostnaður hans greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Guðjóns Ólafs Jónssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 800.000 krónur, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Egill Stephensen hdl.
Af hálfu stefnda og réttargæslustefnda flutti málið Kristín Edwald hrl.
Dómari tók við málinu 1. júlí 2013 en hafði fram að þeim tíma ekki haft nein afskipti af meðferð þess.
Dóminn kveður upp Eiríkur Jónsson, settur héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Jarðboranir hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Karls Jónssonar.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Guðjóns Ólafs Jónssonar hrl., 800.000 krónur.