Hæstiréttur íslands
Mál nr. 459/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 21. nóvember 2005. |
|
Nr. 459/2005. |
Orkuveita Reykjavíkur(Hjörleifur B. Kvaran hrl.) gegn Toshiba International (Europe) Ltd. (Gunnar Jónsson hrl.) |
Kærumál. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður staðfestur.
T tók þátt í samningskaupaferli sem O stofnaði til vegna byggingar orkuvers á Hellisheiði. T taldi að O hefði ekki farið að réttum reglum við samningskaupaferlið og bar ágreininginn undir kærunefnd útboðsmála, sem starfar samkvæmt lögum nr. 94/2001 um opinber innkaup. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu í úrskurði að það væri álit hennar að O hefði bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart T og einnig kvað nefndin á um skyldu O til að greiða T kostnað vegna flutnings málsins fyrir nefndinni. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að vísa bæri frá dómi af sjálfsdáðum kröfu T að því marki sem hún fæli í sér kröfu um ógildingu á áliti kærunefndarinnar á skaðabótaskyldu O gagnvart T, enda væri álit nefndarinnar ekki bindandi fyrir málsaðila að lögum. Gætu þeir því ekki haft lögvarða hagsmuni af því að fá slíkri álitsgerð hnekkt með dómi, sbr. dóm Hæstaréttar 17. nóvember 2005 í máli nr. 182/2005.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. október 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. nóvember sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2005, þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila um ógildingu úrskurðar kærunefndar útboðsmála 4. desember 2004 að því er varðaði álit hennar um að sóknaraðili væri skaðabótaskyldur gagnvart varnaraðila vegna kostnaðar hans við að undirbúa tilboð og að taka þátt í nánar tilgreindum samningskaupum sóknaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfuna til efnislegrar meðferðar.
Varnaraðili krefst kærumálskostnaðar.
Úrskurður kærunefndar útboðsmála, sem hefur að geyma álitsgerð hennar um skaðabótaskyldu samkvæmt 2. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup, hefur ekki áhrif að lögum gagnvart aðilum máls. Geta þeir því ekki haft lögvarða hagsmuni af því að fá slíkri álitsgerð hnekkt með dómi, sbr. dóm Hæstaréttar 17. nóvember 2005 í máli nr. 182/2005. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. október 2005.
I
Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 11. október sl. höfðaði Orkuveita Reykjavíkur, kt. 551298 3029, Bæjarhálsi 1, Reykjavík gegn Toshiba International (Europe) með stefnu birtri 9. febrúar 2002.
Dómkröfur stefnanda eru þær að felldur verði úr gildi úrskurður kærunefndar útboðsmála í kærumálinu nr. 22/2004: Toshiba International (Europe) Ltd. gegn Orkuveitu Reykjavíkur, sem kveðinn var upp 4. desember 2004, og að stefndi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að úrskurður kærunefndar útboðsmála frá 4. desember í kærumáli 22/2004 verði staðfestur með dómi. Þá krefst stefndi málskostnaðaar samkvæmt málskostnaðarreikningi.
II
Úrskurðarorð framangreinds úrskurðar er svohljóðandi:
„Það er álit kærunefndar útboðsmála að kærði, Orkuveita Reykjavíkur, sé skaðabótaskyldur gagnvart kæranda, Toshiba International (Europe) Ltd, vegna kostnaðar kæranda við að undirbúa tilboð og taka þátt í samningskaupum kærða nr. HH-103, auðkenndum „Hellisheiði Geothermal Power Plant 2x40 MW Turbine/Generators Units and/or Condensers and Cooling Towers.
Orkuveita Reykjavíkur greiði Toshiba International (Europe) Ltd. kr. 600.000 að meðtöldum virðisaukaskatti, vegna kostnaðar við að hafa kæruna uppi.“
Í úrskurði kærunefndarinnar segir m.a. þetta:
„Með vísan til þess sem að framan greinir verður að telja að við framkvæmd hinna kærðu samningskaupa hafi í ákveðnum efnum verið brotið gegn hinni almennu jafnræðisreglu útboðsréttar. Þar sem þegar hefur verið samið við Mitsubishi/Balce Dürr kemur eingöngu til álita hvort nefndin telji að kærði hafi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart kæranda samkvæmt 1. mgr. 84. gr. laga nr. 94/2001. ... Því hefur þegar verið slegið föstu að framkvæmd hinna kærðu samningskaupa hafi í sumum atriðum brotið gegn hinni almennu jafnræðisreglu útboðsréttar sem birtist m.a. í lögum nr. 24/2001, sbr. 1. og 11. gr. Þá verður talið miðað við gögn málsins að kærandi hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valinn og þeir möguleikar kæranda skertust ótvírætt við umrædd brot. Með vísan til þessa lætur nefndin uppi það álit sitt að kærði sé skaðabótaskyldur gagnvart kæranda vegna kostnaðar við að undirbúa tilboð og taka þátt í hinum kærðu samningskaupum, sbr. 1. mgr. 84. gr. og 2. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001, en samkvæmt síðarnefnda ákvæðinu tjáir nefndin sig ekki um fjárhæð bótanna. ... .“
III
Dómarinn ákvað með vísan til 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 að gefa aðilum málsins kost á því að tjá sig munnlega um það hvort sá hluti kröfu stefnanda sem lýtur að því að ógiltur verði sá hluti framangreinds úrskurðar kærunefndar útboðsmála, þar sem kveðið er á um skaðabótaskyldu stefnanda, kynni að sæta frávísun án kröfu. Hann tók fram að ákvörðun nefndarinnar um kærumálskostnað væri þar undanþegin. Lögmenn aðila tjáðu sig um álitaefnið í þinghaldi 11. október sl. og var málið tekið til úrskurðar að svo búnu.
Lögmaður stefnanda kvað engan þann galla á málatilbúnaði stefnanda sem varðað gæti frávísun. Stefnandi hefði lögvarða hagsmuni af því að fá fellt úr gildi það álit kærunefndar að hann væri skyldur til að greiða stefnda skaðabætur vegna brota á lögum gagnvart honum. Álit kærunefndar byggðist á röngum og ólögmætum forsendur, en nefndin hefði ekki gætt lögmætra sjónarmiða við ákvörðun sína. Þetta álit hefði réttarverkanir fyrir stefnanda, hann gæti ekki setið undir þeim ávirðingum sem í úrskurðinum fælust, og honum því nauðsyn á að fá hann felldan úr gildi. Því beri ekki að vísa hluta kröfu stefnanda frá dómi.
Lögmaður stefnda kvaðst ekki hafa farið fram á að málinu yrði vísað frá dómi og væri enginn akkur í því. Hann kvaðst gera kröfu um að fá dæmdan málskostnað í þessum þætti málsins.
IV
Í 1. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001 er kærunefnd útboðsmála fengin heimild til þess að fella úr gildi eða breyta ákvörðun kaupenda vegna opinberra innkaupa og getur hún fylgt ákvörðunum sínum eftir með því að leggja dagsektir á þann sem ekki fer eftir þeim. Ákvarðanir nefndarinnar hafa því réttarverkanir að þessu leyti.
Samkvæmt 2. mgr. 81. gr. getur kærunefndin látið uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kaupanda gagnvart kæranda en er óheimilt að tjá sig um fjárhæð skaðabóta.
Í skýringum við 81. gr. í frumvarpi til laga nr. 94/2001 segir m.a. eftirfarandi:
„Samkvæmt 4. mgr. 13. gr. núgildandi starfsreglna fyrir kærunefnd útboðsmála nr. 517/1996 getur nefndin látið uppi álit á meintri bótaskyldu kærða, en tjáir sig ekki um fjárhæð bóta. Með hliðsjón af því að úrræði kæranda, eftir að samningur hefur verið gerður, eru í raun takmörkuð við skaðabætur vegna ákvæða 83. gr. frumvarpsins er heppilegt að nefndin geti áfram látið uppi álit um þetta atriði. Álit nefndarinnar um skaðabótaábyrgð er á engan hátt bindandi fyrir kærða og hefur fyrst og fremst þá þýðingu að skapa grundvöll fyrir sáttum aðilanna og minnka þörfina á því að kærandi þurfi að sækja skaðabætur fyrir almennum dómstólum. Úrlausn um fjárhæð skaðabóta er háð sönnunarfærslu sem almennt getur ekki farið fram með viðhlítandi hætti á grundvelli þeirrar málsmeðferðar sem kveðið er á um í XIII. kafla. Kemur því ekki til álita að nefndin tjái sig um fjárhæð skaðabóta.“
Af framangreindum lagatexta og skýringum við hann má sjá að álit kærunefndarinnar um skaðabótaskyldu verður á engan hátt bindandi fyrir kærða og af því leiðir sjálfkrafa að gagnaðili getur heldur ekki byggt rétt að lögum á sama áliti. Hvert sem álit kærunefndarinnar kann að vera þá skiptir það ekki máli um rétt aðila, annars vegar til þess að krefjast greiðslu bóta í dómsmáli og hins vegar að fá viðurkennt fyrir dómi að bótaskylda sé ekki fyrir hendi. Sá réttur raskast ekki við álit kærunefndarinnar og álit hennar um skaðabótaskyldu hefur enga beina þýðingu í slíkum dómsmálum. Enda þótt álitið geti valdið þeim óþægindum, sem talinn er vera skaðabótaskyldur samkvæmt skoðun nefndarinnar, verður sá hinn sami að búa við þau óþægindi svo lengi sem hann leitar ekki ásjár dómstólanna. Álit kærunefndarinnar um skaðabótaskyldu lýsir einvörðungu skoðunum þeirra sem í nefndinni sitja án þess að þær hafi nokkrar réttarverkanir og að lögum er ekki hægt að ógilda skoðanir manna.
Með vísan til þess sem að framan segir ber að vísa frá dómi þeirri kröfu stefnanda sem nær til þess að ógilt verði það álit kærunefndar útboðsmála að Orkuveita Reykjavíkur sé skaðabótaskyld gagnvart Toshiba International (Europe) Ltd, vegna kostnaðar kæranda við að undirbúa tilboð og taka þátt í samningskaupum kærða nr. HH-103, auðkenndum „Hellisheiði Geothermal Power Plant 2x40 MW Turbine/Generators Units and/or Condensers and Cooling Towers.“
Stefnandi gerði ekki kröfu um málskostnað í þessum þætti málsins. Stefndi gerði kröfu um málskostnað. Rétt þykir eins og atvikum er háttað að stefndi beri sinn kostnað af þessum þætti málsins.
Friðgeir Björnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð.
Vísað er frá dómi þeirri kröfu stefnanda, Orkuveitu Reykjavíkur, að ógilt verði það álit kærunefndar útboðsmála að stefnandi sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnda, Toshiba International (Europe) Ltd, vegna kostnaðar stefnda við að undirbúa tilboð og taka þátt í samningskaupum stefnanda nr. HH-103, auðkenndum „Hellisheiði Geothermal Power Plant 2x40 MW Turbine/Generators Units and/or Condensers and Cooling Towers.“
Málskostnaður fellur niður.