Hæstiréttur íslands
Mál nr. 496/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Mánudaginn 18. september 2006. |
|
Nr. 496/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Katrín Hilmarsdóttir fulltrúi) gegn X (Guðmundur Ómar Hafsteinsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.
Ekki var talið að skilyrði væru uppfyllt til að X sætti gæsluvarðhaldi samkvæmt a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. september 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 20. september 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði rökstyður sóknaraðili kröfu sína um gæsluvarðhald með því að mikið beri á milli í frásögn varnaraðila og kæranda um samskipti þeirra að morgni sunnudagsins 10. september. Fyrir liggi að yfirheyra þurfi allmörg vitni auk þess sem vinna þurfi úr þeim gögnum sem tæknideild lögreglunnar hafi aflað á vettvangi ætlaðs brots varnaraðila. Allgott samræmi er í framburði varnaraðila og kæranda um atburði í aðdraganda þess að þau fóru inn í herbergi varnaraðila, þar sem þau atvik urðu sem málið varðar. Sjónarmið sem tengjast þörf fyrir yfirheyrslu yfir þeim vitnum sem voru með þeim fram að þessu gefa því ekki tilefni til að hneppa varnaraðila í gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna. Verður heldur ekki annað séð en sóknaraðili haft nægan tíma til að yfirheyra vitnin. Úrvinnsla gagna sem sóknaraðili aflaði á vettvangi gefur ekki tilefni til gæsluvarðhalds enda eru gögn þessi þegar í vörslum sóknaraðila. Verður samkvæmt þessu ekki fallist á með héraðsdómi að varnaraðili geti torveldað rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni og afmá ummerki á vettvangi haldi hann frelsi sínu. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. september 2006.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur lagt fram kröfu þess efnis að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilsfang], en með dvalarstað að Y, verði með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, gert að sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 20. september 2006 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að mánudaginn 11. þ.m. hafi A, [kt.], komið á lögreglustöð og lagt fram kæru á hendur kærða fyrir nauðgun sem átt hefði sér stað að morgni sunnudagsins 10. þ.m. að Y hér í borg en þar muni kærði vera skráður með dvalarstað. Greindi kærandi svo frá að hún hafi farið á veitingahúsið Dubliners aðfaranótt sunnudagsins ásamt systur sinni og hitt þar kærða og tvo vini hans. Undir morgun hafi hún farið ásamt systur sinni með kærða og vini hans á ofangreindan dvalarstað kærða. Kærandi segir að í fyrstu hafi þau öll setið í stofu íbúðarinnar en kærði hafi beðið hana að koma með sér inn í herbergi. Kærandi segir að kærði hafi farið að láta vel að henni þegar inn í herbergið var komið og hafi byrjað að klæða hana úr fötunum. Skyndilega hafi hann ráðist á hana og beitt hana miklu ofbeldi og síðan haft við hana harkalegt samræði gegn vilja hennar. Fram kemur í skýrslu kæranda að systir hennar hafi síðan komið inn í herbergið og spurt hana hvort þær ættu ekki að fara og hafi kærði þá sleppt henni.
Kærandi fór á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis að kvöldi sunnudagsins. Lögreglan hefur fengið í hendur skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun á kæranda og kemur þar fram að kærandi var með mikla áverka og eymsli í andliti og á líkama við skoðun á neyðarmóttöku. Samkvæmt upplýsingum frá neyðarmóttöku kom kærandi þangað aftur í gær til frekari skoðunar en ekki reyndist unnt að ljúka skoðun á leggöngu hennar á sunnudag vegna þess að kærandi var með mikil eymsli.
Kærði var yfirheyrður síðdegis í gær og játaði hann að haft samræði við kæranda að hennar frumkvæði. Hann viðurkennir að hafa slegið kæranda á afturendann en segir að hún hafi beðið hann um að gera það. Hann kveðst þó ekki hafa slegið hana svo fast að áverkar gætu hafa hlotist af því. Að öðru leyti neitar kærði að hafa veitt kæranda áverka. Fram kom í skýrslu kærða að annar vinur hans hafi komið í íbúðina undir morgun ásamt kærustu sinni.
Rannsókn máls þessa sé á frumstigi en mikið beri í milli í frásögn kæranda og kærða af samskiptum þeirra umræddan morgun. Fyrir liggi að yfirheyra þurfi allmörg vitni, þ.m.t. tvo vini kærða og vinkonu annars þeirra, auk þess sem vinna þurfi úr þeim gögnum sem tæknideild lögreglunnar hafi aflað á vettvangi í gær.
Kærði liggi undir rökstuddum grun um alvarlegt og gróft kynferðisbrot gegn kæranda. Áverkar sem kærandi reyndist vera með hafi verið miklir. Haldi kærði frelsi sínu nú hafi hann tök á að torvelda rannsókn málsins, t.d. með því að hafa áhrif á vitni og afmá ummerki eftir brotið. Beri því að mati lögreglu brýna nauðsyn til að kærði sæti gæsluvarðhaldi meðan rannsókn málsins fer fram.
Lögreglan í Reykjavík hafi nú til rannsóknar ætlað brot kærða gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Brot kærða geti varðað fangelsisrefsingu teljist sök sönnuð. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga.
Fram er komin rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknað sem getur varðað fangelsisrefsingu verði sök sönnuð. Þar sem rannsókn málsins er á byrjunarstigi er hætta á að kærði geti torveldað hana fari hann frjáls ferða sinna, meðal annars með því að hafa áhrif á vitni og afmá ummerki eftir brotið. Þykja því skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála vera uppfyllt og verður krafa lögreglustjórans í Reykjavík því tekin til greina eins og hún er fram sett.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 20. september 2006 kl. 16:00.