Hæstiréttur íslands
Mál nr. 1/2013
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 30. maí 2013. |
|
Nr. 1/2013.
|
M (Ásbjörn Jónsson hrl.) gegn K (Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.) |
Börn. Forsjá. Gjafsókn.
M og K deildu um forsjá sonar þeirra, A. Talið var að það samræmdist best högum drengsins að K færi með forsjá hans og byggði sú niðurstaða á heilstæðu mati. Var þar aðallega horft til persónulegra eiginleika aðila sem máli skiptu varðandi forsjárhæfni þeirra og skilning þeirra á þörfum drengsins, en í málinu lá fyrir að K hafði nýtt sér aðstoð frá barnaverndaryfirvöldum vegna hegðunarvanda hans. Þá hafði K sinnt uppeldi drengsins meira frá fæðingu en M. Hjá henni bjuggu að auki tvö af þremur systkinum hans og þótti líklegra að drengurinn næði að mynda eðlilegt og sterkt samband við þau, byggi hann hjá K. Enn fremur virtist K hafa stöðugra tengslanet í kringum sig, auk þess sem ljóst var að flutningur drengsins til M myndi hafa í för með sér talsverða röskun á högum hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. janúar 2013. Hann krefst þess að sér verði falin forsjá sonar aðila, A, og að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar stefndu við barnið. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð fram ný gögn, þar á meðal bréf [...]skóla 8. apríl 2013, en þar kemur fram að mæting drengsins í skólann sé góð þótt komið hafi tímabil þar sem hann mæti seint fyrst á morgnana. Á því hafi þó ekki borið frá áramótum. Þá komi hann alltaf vel útbúinn í skólann. Í bréfinu kemur fram að drengurinn standi sig vel námslega en hegðun hans sé oft ábótavant og félagsleg staða ekki góð. Einnig hefur komið fram hér fyrir dómi að stefnda hefur nýtt sér aðstoð frá barnaverndaryfirvöldum vegna drengsins.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 600.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2012.
Mál þetta, sem var dómtekið 8. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af M, nú til heimilis að [...] á [...], með stefnu birtri 10. júní 2011. Stefnda er K, nú til heimilis í [...].
Stefnandi krefst þess að sér verði einum falin forsjá drengsins A, kt.[...]. Verði fallist á þá kröfu stefnanda, krefst hann þess jafnframt að í dómsorði verði mælt fyrir um að áfrýjun dómsins fresti ekki réttaráhrifum hans. Þá krefst stefnandi þess að í dómi verði kveðið á um umgengni barnsins við það foreldri sem ekki fer með forsjána. Loks gerir stefnandi kröfu um greiðslu málskostnaðar úr hendi stefndu að mati réttarins ásamt virðisaukaskatti.
Stefnda krefst þess að kröfu stefnanda verði hafnað og að henni verði einni falin forsjá drengsins til 18 ára aldurs. Jafnframt er þess krafist að dómari kveði á um meðlag í dómi og inntak umgengnisréttar drengsins við það foreldri sem ekki verður falin forsjá hans. Loks er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins eins og málið væri eigi gjafsóknarmál og að við ákvörðun málskostnaðar verði litið til þess að stefndu ber að greiða virðisaukaskatt af lögmannsþóknun
Málavextir
Aðilar málsins kynntust fyrst í bæjarvinnunni árið 1996, en ástarsamband tókst með þeim á árinu 2001. Þau eignuðust drenginn A [...] 2004. Samband aðila var alla tíð stormasamt og slitu þau sambandinu nokkrum sinnum. Síðast bjuggu þau saman á tímabilinu frá því í febrúar og fram í desember 2010 en þá lauk sambandi þeirra endanlega. Stefnda á eitt barn úr fyrra sambandi sem nú er á fjórtánda ári og dreng á öðru ári. Drengurinn hefur ekki verið feðraður en stefnandi heldur því fram að hann sé faðir hans. Stefnandi á dóttur á unglingsaldri sem býr hjá móður sinni.
Aðilar máls hafa farið sameiginlega með forsjá A frá því hann fæddist en hann hefur alltaf haft lögheimili hjá móður. Lengst af hefur hann búið hjá stefndu en stefnandi haft reglulega umgengni við hann milli þess sem aðilar hafa búið saman. Stefnandi heldur því fram að á 15-16 mánaða tímabili á árunum 2008-2010 hafi drengurinn búið hjá sér og á hluta þess tímabils hafi stefnda lítið sinnt umgengni við hann. Þessu mótmælir stefnda en segir að um tíma á árinu 2009 hafi drengurinn dvalið til skiptis viku og viku hjá hvoru foreldra sinna.
Báðir aðilar lýsa því að samband þeirra hafi verið stormasamt og átök alltíð og oft harkaleg og hefur drengurinn orðið vitni að þessum átökum. Samkvæmt gögnum málsins hefur lögregla einu sinni verið kölluð á vettvang á heimili stefndu vegna stefnanda, þegar aðilar voru ekki í sambúð. Sagði stefnda þá að stefnandi hefði komið þangað, hann hefði verið í annarlegu ástandi og framkoma hans ógnandi. Stefnandi kveður stefndu hafa notað umgengnisrétt þeirra feðga sem vopn gegn sér og oft á tíðum tálmað umgengni hans við son sinn. Frá því í apríl og fram í október á síðasta ári hafi stefnda komið í veg fyrir umgengni þeirra og kveðst stefnandi í kjölfar þess hafa höfðað mál þetta. Frá því í október 2011 hefur stefnandi haft reglulega umgengni við son sinn aðra hverja helgi og stundum þess á milli. Drengurinn dvaldi einnig hjá honum í einn mánuð sl. sumar.
Barnavernd Reykjavíkur barst tilkynning frá föður stefnanda þann 3. mars. 2011. Hann hafi lýst verulegum áhyggjum af drengnum hjá stefnanda, þar sem farið hefði að bera á alvarlegum geðrænum einkennum hjá honum og hann hafi ekki fengist til læknis vegna þessa. Af viðtölum við drenginn og gögnum sem aflað var frá skóla í tilefni þessarar tilkynningar kemur fram að drengurinn eigi í talsverðum erfiðleikum og líði ekki vel. Í gögnum frá [...] kemur fram að hann sé viðkvæmur og sagt að líðan hans sé ekki alltaf augljós, hann eigi ekki marga vini og sé oft einn í skólanum. Hann eigi það til að stríða og hrekkja aðra krakka. Hegðun hans á liðnum mánuðum (þ.e. á vormánuðum 2011) hafi versnað til muna, hann sé óhlýðnari og fari illa að fyrirmælum. Þá sé ástundun hans ekki nægilega góð. Í fundagerð af meðferðarfundi þann 17. maí 2011, sem haldin var í kjölfar þessarar tilkynningar, kemur fram að erfitt samband sé milli foreldranna sem ásaki hvort annað um geðræna kvilla og líkamlegt og andlegt ofbeldi og vanhæfni. Þá er greint frá því að báðir foreldrar hafi viðurkennt kannabisneyslu. Mikil togstreita sé á milli foreldra um drenginn, hann hafi sagt frá miklum skapsveiflum móður og því að hann hafi orðið vitni að átökum foreldra sinna. Þá er sagt frá því að faðir hafi ítrekað lýst yfir óánægju með afskipti Barnaverndar og haft í hótunum við starfsmenn hennar. Skólastjóri [...] lýsti svipaðri framkomu hans í tengslum við það þegar starfsmenn skólans hafi hringt heim til að kanna ástæður fyrir fjarveru drengsins frá skóla. Um líðan drengsins kemur fram að hún sé ekki góð, hann hafi ítrekað verið lagður inn á spítala vegna magaverkja og verið greindur með áráttu-þráhyggjuhegðun. Talið var að hann þyrfti á aðstoð og greiningu sálfræðings að halda. Þá eru uppeldsskilyrði hans talin óviðunandi. Í niðurstöðu fundargerðarinnar er lagt til að gerð verði meðferðaráætlun samkvæmt barnaverndarlögum, fylgst verði með líðan drengsins og kannað hvort hann eigi að fara í sk. ofbeldishóp og fylgst með því hvort hann fái aðstoð sálfræðings. Vegna kannabisneyslu móður og í ljósi þess að hún var barnshafandi var í niðurstöðu fundargerðar lagt til að fylgst yrði með henni í gegnum mæðravernd, með óboðuðum heimsóknum á heimili hennar, reglulegum fíkniefnaprófum og viðtölum við hana. Meðferðaráætlun á grundvelli 23. gr. laga nr. 80/2001 var gerð í framhaldi þessa fundar í samræmi við ofangreint. Virðist sumt af því sem lagt var á ráðin um hafa gengið eftir en annað ekki. Þannig var stefnda í reglubundnu eftirliti á meðgöngu, með fíkniefnaprófunum og óboðuðu eftirliti á heimili. Niðurstöður þess eftirlits benda ekki til frekari neyslu hennar og í gögnum málsins kemur fram að móðir hafi verið í ágætri samvinnu við Barnavernd meðan á eftirliti stóð og engar athugasemdir gerðar hvað varðar aðbúnað barnanna.
Hins vegar virðist aðstoð við drenginn ekki hafa gengið eftir. Umræddur ofbeldishópur, sem er meðferðarúrræði fyrir börn sem hafa verið beitt eða orðið vitni að ofbeldi, fór aldrei af stað. Í umsögn frá umsjónarkennara drengsins í [...] frá því í nóvember 2011, þar sem drengurinn hóf nám í 2. bekk þá um haustið, kemur fram að námsleg staða hans sé mjög góð en öðru máli gegni um hegðun hans og samskipti við samnemendur. Síðan segir: „A getur verið alveg óútreiknanlegur þegar kemur að hegðun og minnsta áreiti getur algerlega umbylt hegðun hans. Hann getur verið dónalegur í talsmáta, svarað með illilegu augnaráði og grettum, hent til húsgögnum og verið með ofbeldisfulla tilburði. Þetta á bæði við í samskiptum við börn og fullorðna. Sú staða hefur komið upp að samnemendur hafa orðið beinlínis hræddir við hann. A virðist ekki eiga í miklum samskiptum við samnemendur eftir að skóla lýkur.“ Í matslista sem kennari fyllti út í tengslum við matsgerð dómkvadds matsmanns mælast skýr einkenni móþróaþrjóskuröskunar og hegðunarerfiðleika sem koma heim og saman við framangreinda lýsingu. Þá kemur fram í gögnum frá skóla að samskipti við móður hafi verið góð en lítið hafi reynt á samskipti við föður.
Barnavernd Reykjavíkur barst tilkynning frá stefnanda vegna drengsins í apríl 2012. Kvað stefnandi að drengurinn hefði sagt sér að stefnda hefði rassskellt hann og snúið upp á höndina á honum. Þá hefði drengurinn einnig sagt frá því að hann hafi verið farþegi í bíl með stefndu án notkunar viðeigandi öryggisbúnaðar. Af þessu tilefni var stefnda boðuð í viðtal hjá Barnavernd auk þess sem rætt var við drenginn. Hann endurtók frásögnina og sagði þetta vera eina skiptið sem mamma hans hefði gert slíkt. Stefnda viðurkenndi að atvikið hefði átt sér stað en lýsti því jafnframt að hún væri miður sín vegna þessa. Hún skýrði frá því að drengurinn væri erfiður og hún hefði áhyggjur af félagslegri stöðu hans. Þá taldi hún forsjárdeilu sína og stefnanda hafa mikil áhrif á drenginn. Fram kom einnig að stefnda væri í samvinnu við skóla og Þjónustumiðstöð varðandi hegðunarvanda drengsins. Niðurstaða af könnun Barnaverndar var sú að ekki væri ástæða til frekari aðgerða af þeirra hálfu. Hins vegar var talið að drengurinn þyrfti á aðstoð að halda vegna félagslegrar einangrunar og hegðunarvanda og var málinu lokað af hálfu Barnaverndar 9. maí sl. með ósk um viðeigandi þjónustu frá Þjónustumiðstöð.
Fyrir dómi bar stefnandi að hann hefði nýlega sent aðra tilkynningu til Barnaverndar Reykjavíkur vegna harðræðis sem drengurinn sætti af hálfu stefndu. Um væri að ræða tiltekið tilvik þar sem drengurinn kveður hana hafa þvegið sér um munninn með sápu þegar hann viðhafði ljótt orðbragð.
Við aðalmeðferð málsins kvað stefnda þegar hún var spurð um hegðun drengsins og líðan hans í skóla að honum vegnaði betur núna félagslega. Hún bar að drengurinn væri erfiður, sterkur og skapmikill og margt gæti komið honum úr jafnvægi. Hann væri hins vegar komin á frístundaheimili núna eftir skóla, hefði eignast þar félaga og að samskipti hans gengju þar ágætlega. Hegðun hans væri hins vegar áfram erfið og það væri samdóma álit hennar, skólayfirvalda og Barnaverndar að hann þarfnaðist frekari stuðnings. Sótt hefði verið um sálfræðiaðstoð fyrir hann á liðnum vetri á vegum skólans en þeirri umsókn hefði ekki verið svarað. Nýverið hefði Barnavernd aftur verið í sambandi við hana og henni boðin aðstoð fyrir barnið og fjölskylduna í heild. Svo er að skilja á stefndu að í undirbúningi sé ný meðferðaráætlun á vegum Barnaverndar í tilefni af síðari tilkynningu föður sem að framan greinir.
Stefnandi stundaði [...] um árabil og náði góðum árangri í [...]keppni á árunum 2004 til 2008. Hann kveðst að hafa neytt stera í tengslum við þá iðkun. Stefnda telur að neyslu hans hafi fylgt skapsveiflur sem hafi haft veruleg áhrif til hins verra á samband aðila Aðspurður kveðst stefnandi vera á sakaskrá vegna tilraunar til innflutnings lítilsháttar magns af sterum til einkanota. Stefnandi hætti keppni árið 2009 eftir að hann varð fyrir meiðslum um mitt það ár. Upp úr því hafi hann orðið mikið veikur. Að sögn stefnanda gátu læknar hvorki greint veikindi hans né veitt honum fullnægjandi læknismeðferð. Hann hafi þjáðst mikið en honum hafi verið neitað um viðeigandi verkjalyf. Því hafi hann gripið til þess neyðarúrræðis um tíma að neyta kannabisefna til að lina þjáningar. Honum hafi síðan sjálfum tekist að finna aðferð til að vinna bug á meini sínu og alfarið hætt kannabisneyslu um mitt ár 2011. Í fundagerð Barnaverndar frá 17. maí 2011 er haft eftir stefnanda að framangreind meðferð sem hann hafi þróað flokkist undir kraftaverk. Fyrir dómi lýsti hann líka góðum árangri af uppgötvun sinni þótt hann tæki ekki jafnt djúpt í árinni.
Stefnandi býr nú á [...]. Hann leigir þar einbýlishús og býr ásamt móður sinni. Hann vinnur við eigið fyrirtæki í hlutastarfi, þar sem hann veitir fólki óhefðbundna læknismeðferð gegn verkjum og ýmsum kvillum, byggðum á aðferðum sem hann þróaði sjálfur í kjölfar veikinda sinna svo sem að framan er lýst. Þá sinnir hann starfi með börnum á vegum ungmennafélagsins á [...] og kveðst einnig starfa við sjálfboðaliðstörf hjá ýmsum félagasamtökum, m.a. á vegum samtakanna [...] og [...]. Auk þess sinnir hann tilfallandi störfum sem dyravörður og lífvörður.
Stefnda hefur nýlokið fæðingarorlofi og nýtur atvinnuleysisbóta. Hún kveðst nú vera að undirbúa atvinnuþátttöku á ný og hefur í því skyni sóst eftir að komast að í starfsendurhæfingu. Hún býr í fjögurra herbergja félagslegri leiguíbúð í [...] ásamt börnum sínum.
Undir rekstri málsins var aflað matsgerðar B sálfræðings. Matsgerð hans er dagsett 18. júní 2012 og var lögð fram í þinghaldi 2. júní sl. Matsmaður staðfesti matsgerð sína fyrir dómi og svaraði spurningum varðandi mat sitt. Þá gáfu aðilar máls skýrslu. Að auki gáfu skýrslu fyrir dómi vitnin C, móðir stefnanda, D, æskuvinur stefnanda, E, faðir stefnanda og F, bróðir stefnanda. Þá ræddu dómarar við drenginn og er útdráttur úr því viðtali meðal gagna málsins.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir kröfu sína um að honum verði falin forsjá A á því að drengurinn sé mun tengdari honum en stefndu og hann hafi ávallt staðið vörð um hagsmuni hans. Þá hafi hann sinnt uppeldi hans í mun meira mæli en stefnda. Í greinargerð hans segir að á því tímabili sem aðilar hafi verið í föstu sambandi hafi þau sinnt honum til jafns og þegar þau hafi slitið sambandinu hafi stefnda í upphafi takmarkað umgengni hans við drenginn en að endingu hafi drengurinn nánast verið í fullri umsjá stefnanda.
Persónulegir eiginleikar stefnanda sýni að hann sé mun hæfari til að fara með forsjá drengsins en stefnda. Stefnandi er vel þekktur íþróttamaður innan sinnar íþróttagreinar, bæði innanlands og á alþjóðavísu. Stefnandi hefði aldrei náð þeim árangri sem hann hefur náð á íþróttavellinum nema með mikilli vinnu og miklum sjálfsaga. Stefnandi er í góðu andlegu jafnvægi. Hann sé nú sjálfstætt starfandi lífsráðgjafi ásamt því að veiti fólki meðferð vegna meiðsla. Að auki hafi hann í gegnum tíðina unnið mikið og gott sjálfboðaliðastarf, m.a. með samtökunum [...].
Þá byggir stefnandi á því að hann þekki þarfir drengsins og viti hvernig þeim verði mætt. Hann muni leggja sig fram við að viðhalda tengslum drengsins við báðar fjölskyldur foreldra sinna sem sé mikilvægt fyrir þroska hans. Verði stefnanda falin forsjá drengsins muni hann leggja sig í líma við að viðhalda tengslum barnsins við báðar fjölskyldurnar.
Þá hafi stefnandi góða aðstöðu fyrir drenginn og gott tengslanet í kringum sig. Heimilisaðstæður hans séu ákjósanlegri og þroskavænlegri fyrir drenginn. Hann búi í stóru einbýlishúsi á [...] ásamt móður sinni, grunnskóli sé steinsnar frá heimili hans, fjaran innan seilingar og náttúran allt í kring. Aðstæður til barnauppeldis gerist tæpast betri.
Aðstæður stefndu séu á hinn bóginn óásættanlegar, en hún búi í félagslegu húsnæði í stóru fjölbýli. Strákurinn gangi í stóran skóla, þar sem færri kennarar eru um hvern nemanda en þeim skóla sem honum stæði til boða á [...]. Aukinheldur hafi drengurinn orðið fyrir einelti í þeim skóla sem hann sé nú. Þá heldur stefnandi því fram að stefnda beiti drenginn óásættanlegu harðræði. Hann hafi í tvígang tilkynnt slík tilvik til Barnaverndar svo sem rakið er í málavaxtalýsingu. Stefnandi kveðst hafa verulegar áhyggjur af geðheilsu stefndu og telur að hún sé ekki hæf til að fara með forsjá drengsins. Þá hugsi hún ekki nægilega vel um drenginn eða önnur börn sín. Drengurinn hafi til dæmis mætt illa í skóla, sérstaklega eftir sambúð aðila lauk.
Þá neyti stefnda kannabisefna og hafi ekki látið af því á meðgöngu yngsta barnsins. Stefnandi á hinn bóginn hafi einungis neytt slíkra efna í lækningaskyni enda sé það vel þekkt að kannabisefni létti á vöðvakrampa og dragi úr krónískum sársauka. Hvorutveggja hefur stefnandi átt við að etja. Því sé ólíku saman að jafna þegar neysla þeirra sé borin saman.
Krafa um forsjá er reist á V. kafla barnalaga nr. 76/2003, einkum 31. gr. sbr. 34. gr. laganna. Í 2. mgr. 34. gr. sé kveðið á um að dómari skuli ákveða hjá hvoru foreldra forsjá barns verði, eftir því sem barni er fyrir bestu. Þá er byggt á barnalögunum í heild svo og meginreglum þeirra og undirstöðurökum. Krafan um málflutningsþóknun er byggð á ákvæðum í XXI. kafla laga nr. 91/1991 og vísað til ákvæða laga nr. 50/1988 varðandi virðisaukaskatt á þóknunina.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefnda byggir á því að það sé drengnum fyrir bestu að hún fari ein með forsjá hans, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003.
Allar aðstæður stefndu til að búa syni aðila gott heimili eru góðar. Hún búi í fjögurra. herbergja leiguíbúð þar sem A hafi sérherbergi, en einnig sé á heimilinu 14 ára hálfsystir hans, sem jafnframt hafi sérherbergi og ársgamall bróðir. Drengurinn hafi byrjaði í [...]skóla haustið 2011, sem sé nálægt heimili hans og hafi gengið vel þar.
Því sé mótmælt að stefnda sinni því ekki að láta drenginn mæta í skólann. Í framlögðum gögnum frá [...]skóla megi sjá að ástundun hans sé góð. Gögn sem bendi til slakrar mætingar hans séu frá [...]skóla á vorönn 2011 þegar aðilar voru nýlega skilin og í þeim gögnum komi fram að stefnandi hafi brugðist illa við stundum þegar hringt hafi verið frá skólanum en á þessum tíma var drengurinn oft hjá stefnanda. Vísbendingar í þessum gögnum bendi fremur til þess að slakar mætingar séu á ábyrgð stefnanda en stefndu.
Í stefnu eru ýmsar aðrar fullyrðingar um stefndu og hennar hagi, sem stefnda mótmæli sem röngum og ósönnuðum þótt ekki sé talin ástæða til að hrekja hverja fullyrðingu lið fyrir lið. Sérstaklega sé þó mótmælt þeirri fullyrðingu að sonur aðila hafi búið samfleytt um 15 mánaða skeið alfarið hjá stefnanda og að stefnda hafi þá umgengist drenginn lítið sem ekkert mánuðum saman eða einn til tvo daga í mánuði. Þetta eigi sér enga stoð í raunveruleikanum, enda hafi A alltaf búið hjá móður sinni, þótt hann hafi dvalist aðra hverja viku hjá stefnanda um nokkurra mánaða skeið á árinu 2009. Öll umönnun drengsins hafi þannig nánast alfarið verið í höndum stefndu frá fæðingu hans.
Skýringin á því að stefnda vildi ekki að drengurinn færi til föður síns á árinu 2011 sé sú að hún hafi haft verulegar áhyggjur af aðstæðum hans þar. Faðir hans hafi neytt kannabisefna og stera, auk þess sem hún hefði vitneskju um að hann ræktaði kannabis og hefði rætt bæði neysluna og ræktunina við drenginn þegar hann var hjá honum í umgengni og neytt kannabis í viðurvist drengsins. Hún hafi notið stuðnings föður stefnda og eiginkonu hans sem deildu áhyggjum stefndu af geðheilsu stefnanda og neyslu hans á kannabis. Auk þess hafi hún verið óviss um hvar stefnandi byggi þegar hann flutti til [...] í apríl það ár án þess að vilja upplýsa sig nánar um aðstæður þar. Það hafi verið mat hennar á umræddum tíma að barninu væri ekki óhætt í umgengni hjá stefnanda.
Stefnda dregur mjög í efa fullyrðingar stefnanda í stefnu um að persónulegir eiginleikar hans sýni að hann sé hæfari til að fara með forsjá drengsins en stefnda. Stefnandi hafi um langt skeið verið í kannabisneyslu, auk þess að nota stera og eins og að framan greini hafi fjölskylda hans haft miklar áhyggjur af andlegri heilsu hans. Jafnvel þótt satt reyndist að stefnandi væri hættur slíkri neyslu, eins og hann haldi nú fram, telji stefnda að neyslan hafi haft þau áhrif á andlega heilsu hans, að hann sé engan veginn hæfur til að sinna uppeldi sonar síns. Faðir stefnanda og eiginkona hans séu sömu skoðunar, enda hafi faðir hans, í tilkynningu til Barnaverndar Reykjavíkur, lýst áhyggjum sínum af velferð barnsins í umsjá stefnanda. Undirstrikað sé að það hafi verið áhyggjur af veru drengsins hjá stefnanda en ekki stefndu. Þau hafi hins vegar ávallt stutt stefndu og talið barninu fyrir bestu að vera hjá móður sinni en ekki föður. Því sé einnig mjög dregið í efa að stefnandi hafi gott tengslanet í kringum sig, líkt og haldið sé fram í stefnu. Eftir því sem stefnda best viti, þá sé stefnandi eingöngu í sambandi við móður sína, en aðrir fjölskyldumeðlimir hafi lítið sem ekkert samband við hann. Stefnda nýtur á hinn bóginn góðs stuðnings móður sinnar, auk föðurafa drengsins og eiginkonu hans.
Þá sé stefnda í góðu sambandi og samstarfi við Barnavernd Reykjavíkur, hafi samþykkt óboðað eftirlit á heimili sitt, sem hafi í alla staði gengið vel og sé hætt allri kannabisneyslu. Stefnda hafi verið að byggja sig upp eftir sambandsslitin við stefnanda og sjái nú hversu rangt það hafi verið af sér að neyta kannabisefna, en það hafi verið stefnandi sem hafi kynnt það fyrir henni upphaflega árið 2010 og haldið því fram að efnið væri skaðlaust með öllu. Stefnda viti nú að það sé alls ekki rétt og ætli sér að vera áfram edrú. Stefnandi hafi hins vegar alla tíð haldið því fram að um náttúrulegt efni sé að ræða og virðist líta á það sem góðan valkost við verkjameðferð.
Af hálfu stefndu er sérstaklega bent á 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003, þar sem segi að dómari skuli kveða á um inntak umgengnisréttar barns og foreldris, eftir því sem barni sé fyrir bestu. Jafnframt segi í sömu málsgrein að dómari geti hafnað því að ákveða inntak umgengnisréttar ef slík úrlausn er barni fyrir bestu. Eins og lýst hefur verið hér að framan, hefur stefnda verulegar efasemdir um að það sé barni aðila fyrir bestu að hafa umgengni við stefnanda eins og sakir standa. Af þessum sökum telji stefnda nauðsynlegt að dómari skipi sérfróðan aðila til að kanna aðstæður aðila og hæfni þeirra til að fara með forsjá drengsins, sbr. 3. mgr. 42. gr. barnalaga og jafnframt til stuðnings mati á því hvernig inntak umgengnisréttar eigi að vera. Stefnda árétti þó, að verði henni dæmd forsjá barnsins og verði kveðið á um umgengnisrétt til handa stefnanda, muni hún virða umgengnisréttinn, enda myndi slík ákvörðun byggjast á mati sérfræðings.
Í ljósi alls framangreinds, telur stefnda það vera syni aðila fyrir bestu og í samræmi við hagsmuni hans að hún fari ein með forsjána, þannig að hún geti búið honum gott heimili þar sem hann njóti áfram umhyggju og ástúðar hennar, með dyggri aðstoð stórfjölskyldunnar. Sérstaklega sé bent á, að A eigi tvö systkini á heimili stefndu. Tengsl A við þau yrðu mun minni ef stefnda yrði falin forsjá hans. Að auki myndi það hafa mikla röskun í för með sér fyrir drenginn, þar sem nauðsynlegt væri að hann skipti um skóla við flutning í nýtt sveitarfélag. Yrði þar um að ræða þriðja skólann sem drengurinn færi í á sinni stuttu skólagöngu. Verði ekki séð að slík röskun geti talist drengnum fyrir bestu, hvernig sem á málin er litið.
Samkvæmt framansögðu er þess krafist af hálfu stefndu, að hafnað verði kröfum stefnanda og að henni verði með dómi falin forsjá drengsins A.
Krafa stefndu um forsjá styðst við 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Krafa stefndu um að dómari kveði á um meðlag og inntak umgengnisréttar í dómi styðst við 4. mgr. 34. gr. barnalaga. Jafnframt sé vísað til barnalaganna í heild sinni, einkum 42. gr. Málskostnaðarkrafa styðst við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. einkum 130. gr. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Forsendur og niðurstaða
Þegar foreldra greinir á um forsjá barns kveður dómari á um hjá hvoru foreldra forsjá barns verði eftir því sem barni er fyrir bestu skv. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Mikilvæga leiðbeiningu er að finna í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi barnalaga þar sem talin eru upp ýmis sjónarmið sem horfa ber til. Meðal þeirra atriða sem skipta máli í þessu sambandi eru persónulegir eiginleikar hvors foreldris um sig, aðstæður þeirra og hagir og hvort þeirra telst hæfara til að sinna uppeldi barnsins, m.a. með hliðsjón af skilningi þeirra á þörfum barnsins, tengslum barnsins við hvort foreldra, óskir þess sjálfs og hvaða áhrif ákvörðun um forsjá getur haft á samskipti og tengsl barns við systkini sín.
Hvað forsjárhæfni hvors foreldris um sig varðar þá liggur fyrir í málinu álitsgerð B sálfræðings sem dómkvaddur var til að láta í ljós álit sitt á forsjárhæfni foreldra og tengslum þeirra við barn sitt. Í niðurstöðu hans kemur fram að báðir foreldrar teljist hæfir. Í skýrslutöku fyrir dómi sagði hann aðspurður að niðurstöðu sína bæri að skilja svo að hann teldi hagmunum drengsins best borgið með því að stefnanda yrði fengin forsjá hans.
Stefnandi er einhleypur og býr með móður sinni. Í skýrslu matsmanns er haft eftir honum að hann hafi alist upp við fremur erfiðar heimilisaðstæður, ósamlyndi foreldra og drykkju föður. Hann hafi sjálfur þótt óstýrilátur, ekki alltaf fallið inn í félagshóp í skóla, á köflum verið einangraður og jafnvel lagður í einelti. Að loknu grunnskólanámi hefur stefnandi fengist við ýmis störf, verið háseti á skipi [...] og síðar á flutningaskipi, verið dyravörður á veitingahúsi, unnið í matvöruverslun og fleira. Hann stundaði [...] af kappi um árabil og vann keppnina „[...]“ nokkur ár í röð, fyrst árið [...]. Keppnisferli hans lauk 2009 eftir að hann lenti í slysi sem leiddi til stoðkerfismeiðsla. Í kjölfar þess kveðst stefnandi hafa breytt um lífsstíl og kveðst sér hafa tekist að lækna meiðsl sín sjálfur. Meðan á veikindum stóð hafi hann neitt kannabisefna til að lina þjáningar en því hafi hann alfarið hætt um mitt síðasta ár. Í tengslum við veikindi sín og síðar bata kveðst stefnandi hafa gert uppgötvun í meðferðartækni sem hann kallar taugakerfisjöfnun. Hann veitir nú þjónustu á þessu sviði í hlutastarfi á eigin vegum. Þá starfar hann einnig fyrir ungmennafélagið á [...] og í ýmiss konar sjálfboðaliðastarfi, m.a. fyrir samtökin [...] og [...].
Matsmaður lagði fyrir aðila fjölmörg sálfræðipróf og eru niðurstöður þeirra raktar í skýrslu hans. Meðal þeirra eru tvö greindarpróf, MMP-persónuleikapróf, PAI, sjálfsmatsspurningalisti, viðbrögð við ögrun (Novacos Anger Scale) og álagspróf fyrir foreldra. Hvað stefnanda varðar benda niðurstöður greindarprófa til þess að stefnandi sé mjög vel greindur. Niðurstöður beggja persónuleikaprófa, MMPI-prófsins og PAI-prófsins, sýna verulegar varnir og sterka tilhneigingu til sjálfsfegrunar og jafnframt afneitunar á almennum göllum og veikleikum. Í skýrslu matsmanns eru upplýsingar um áreiðanleikakvarða fyrra prófsins. Það er mat dómsins, með hliðsjón af marktækri þriggja staðalfrávika hækkun á áreiðanleikakvarða prófsins, sem mælir sjálfsfegrun að niðurstöður prófsins að öðru leyti séu tæpast marktækar. Í skýrslu matsmanns kemur fram að ætla megi að talsvert skorti á innsæi og hefðbundinn sjálfsskilning stefnanda. Aðrar ályktanir matsmanns eru í veigamiklum atriðum óskýrar og byggja að miklu leyti á sjálfsmati stefnanda og lýsingum hans á sjálfum sér sem í ljósi framangreindrar niðurstöðu um áreiðanleika þeirra verður að taka með verulegum fyrirvara. Þá er nokkuð ósamræmi milli ályktana matsmanns og tölulegra niðurstaðna. Af þessum sökum verða niðurstöður matsmanns að því er varðar persónulega eiginleika föður og áhrif þeirra á forsjárhæfni hans ekki lagðar til grundvallar niðurstöðu dómsins þar að lútandi.
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi og bendir framburður hans eindregið til þess að hann skorti allverulega færni til sjálfsgagnrýni og jafnframt innsýn og skilning á þörfum sonar síns. Í sumum tilvikum er eins og stefnandi greini ekki á milli eigin bernsku og bernsku sonar síns. Fram er komið í gögnum málsins að A hefur átt í félagslegum erfiðleikum og sýnir greinileg hegðunarfrávik sem tengjast mótþróaþrjóskuröskum. Í gögnum frá skóla og barnaverndaryfirvöldum og í skýrslu stefndu fyrir dómi er þessum erfiðleikum hans lýst og talin nauðsyn á að bregðast við þeim með viðeigandi hætti. Framburður stefnanda fyrir dómi bendir til þess að hann skorti nokkurt á innsæi og skilning á þessum erfiðleikum sonar síns. Því er alls óvíst hvort honum tækist að veita drengnum þann stuðning sem hann þarf á að halda í þessum efnum. Þá benda gögn eindregið til þess að það sé að frumkvæði stefnanda sem drengurinn hefur dregist inn í forsjárdeilu foreldranna og tekið með virkum hætti þátt í henni. Um er að ræða 8 ára dreng, sem þrátt fyrir góða greind og þroska miðað við aldur, hefur ekki forsendur til að vera þátttakandi í slíkri deilu. Þvert á móti má gera ráð fyrir að virk þátttaka hans í átökum foreldra sinna, ekki síst í ljósi þess að hann hefur orðið vitni að miklum samskiptaerfiðleikum og stundum ofbeldisfullum samskiptum, séu honum beinlínis skaðleg. Stefnandi virðist ekki bera skynbragð á mikilvægi þess að vernda barnið fyrir áhrifum af togstreitu foreldranna í tengslum við forsjárdeilu þeirra.
Á hinn bóginn er samband þeirra feðga náið og hafið yfir vafa að stefnandi vill honum vel. Stefnandi hefur sýnt staðfastan vilja til að sinna uppeldi sonar síns og sinnir honum vel þegar hann dvelur hjá honum. Af viðtölum við drenginn, bæði hjá matsmanni og í skýrslutöku hjá dómurum, kemur fram að þeir feðgar leiki mikið saman þegar hann dvelur hjá honum og drengurinn lýsir samskiptum við föður sinn sem yfirveguðum, nánum og gefandi. Ekki er neinum vafa undirorpið að samskipti við föður eru drengnum mikilvæg og hann lítur mikið upp til föður síns sem er honum fyrirmynd í mörgu.
Stefnda er einstæð móðir og býr í félagslegri leiguíbúð ásamt þremur börnum sínum, sem eru auk A, 14 ára stúlka og eins árs sonur. Hún er fædd í [...] á [...] og á þarlenda foreldra. Þegar stefnda var [...] ára flutti hún til Íslands en móðir hennar kom hingað tveimur árum áður eftir sambúðarslit hennar og föður stefndu. Móðir hennar giftist síðar íslenskum manni og tók stefnda upp nafn hans sem föðurnafn. Fyrir dómi kvaðst stefnda hafa átt í nokkrum erfiðleikum á uppvaxtarárum sínum, það hafi að mörgu leyti verið erfitt að vera innflytjandi hér á landi. Hún hafi verið uppreisnargjarn unglingur og farið snemma að heiman. Í dag kveðst hún eiga góð samskipti við fjölskyldu sína; móður, bróður og frændfólk. Þau séu samheldin og hittist reglulega. Stefnda hefur lokið grunnskólaprófi og hefur síðan fengist við ýmis störf, unnið í verslunum, á leikskóla og á veitingastað sem móðir hennar og stjúpfaðir ráku um tíma. Hún eignaðist sitt fyrsta barn 18 ára gömul með þáverandi sambýlismanni sínum en þau slitu samvistum í ársbyrjun 2001. Stefnda hefur nýlega lokið fæðingarorlofi vegna yngri sonar síns og er án atvinnu og fær atvinnuleysisbætur. Hún kveðst hafa sótt um að komast í sk. atvinnuendurhæfingu til að auðvelda sér að koma til vinnu á ný.
Í skýrslu matsmanns er lýst niðurstöðu sálfræðilegra prófa sem lögð voru fyrir stefndu. Niðurstöður greindarprófa sýna greind í meðallagi og efra meðallagi. Matsmaður lagði fyrir stefndu tvö persónuleikapróf; MMPI-próf og PAI-próf. Samkvæmt þeim upplýsingum sem koma fram í matsgerðinni er prófmynd MMPI-prófsins gild og marktæk sé tekið mið af áreiðanleikakvörðun prófsins. Ekki kemur fram í skýrslu matsmanns hver samsvarandi gildi eru vegna PAI-prófsins. Engu að síður dregur matsmaður þá ályktun af niðurstöðu beggja prófa að þau sýni nokkuð sterkar varnir sem birtist í sjálfsfegrun og afneitun á almennum minni háttar breyskleikum. Aðspurður fyrir dómi gat hann ekki gefið viðhlítandi skýringar á þeirri niðurstöðu, sem, eins og að framan segir, er ekki í samræmi við töluleg gildi prófsins. Þá eru ályktanir sem matsmaður dregur af þessum prófum um persónulega eiginleika stefndu óljósar og í öðrum tilvikum verulega mótsagnarkenndar. Af þessum sökum telur dómurinn ekki unnt að leggja þær til grundvallar niðurstöðu sinni hvað varðar persónulega eiginleika stefndu og forsjárhæfni.
Stefnda gaf skýrslu fyrir dómi og var m.a. spurð um þau tvö tilvik sem hafa orðið stefnanda tilefni til að tilkynna þau barnaverndaryfirvöldum. Fyrra tilvikið snýr að tilkynningu frá því í apríl 2012 þar sem stefnandi tilkynnti Barnavernd að A hefði borið að stefnda hefði rassskellt sig. Sú tilkynning varð tilefni þess að fulltrúi frá Barnavernd ræddi við drenginn á skólatíma. Í skýrslu fyrir dómi gekkst stefnda við því að hafa rassskellt drenginn í umrætt sinn og skýrði frá því hverjar aðstæður hefðu verið. Hún kvaðst ekki ánægð með þessi viðbrögð sín og reyndi ekki að afsaka þau. Framburður hennar fyrir dómi er í öllum atriðum í samræmi við skýrslu Barnaverndar um málið, sem taldi um einstakt tilvik að ræða sem út af fyrir sig gæfi ekki tilefni til frekari aðgerða af þeirra hálfu. Síðara tilvikið hafi stefnandi tilkynnt nokkrum vikum fyrir aðalmeðferð málsins. Tilkynningin laut að atviki þar sem stefnda er sögð hafa þvegið drengnum með sápu um munninn. Fyrir dómi gekkst stefnda við umræddu atviki og sagði tildrög þess vera þau að drengurinn hefði verið afar orðljótur og dónalegur við sig og ekki látið af munnsöfnuði fyrr en hún greip til þessa ráðs. Hún kvaðst vera miður sín vegna þessa og reyndi ekki að réttlæta framkomu sína sem hún segir að hafi verið örþrifaráð.
Þá liggur fyrir að stefnda kom í veg fyrir að stefnandi fengi að umgangast son þeirra um nokkurra mánaða skeið á síðasta ári. Ber hún því við að það hafi hún gert af ótta um velferð barnsins en á umræddu tímabili kveður hún að stefnandi hafi ekki verið í andlegu jafnvægi. Hann hafi verið mikið veikur og varla fær um að sjá um sjálfan sig, hvað þá drenginn. Stefnda kveðst hafa gert sér grein fyrir að þetta yrði erfitt fyrir drenginn en engu að síður hafi hún talið þetta honum fyrir bestu eins og á stóð. Fyrir liggur að á sama tíma deildu faðir stefnanda og bróðir með henni áhyggjum af heilsu stefnanda og færni hans til að sjá um drenginn. Aðspurðir fyrir dómi á hverju þær áhyggjur byggðu báru bæði faðir stefnanda og bróðir að stefnandi hefði lýst upplifunum og staðhæfingum sem þeir töldu sjúklegar.
Hvað sem líður lýsingum á ástandi stefnanda á umræddu tímabili er það mat dómsins að stefnda hafi ekki með réttu getað meinað honum að umgangast son sinn án þess að leita um það atriði úrskurðar sýslumanns eða afla með öðrum hætti haldbærra gagna um hæfni hans til að sinna foreldraskyldum sínum. Á hinn bóginn eru lýsingar hennar á ástandi stefnanda studdar frásögn annarra og koma að sínu leyti heim og saman við lýsingu stefnanda sjálfs á alvarleika veikinda sinna þótt hann hafi að öðru leyti allt aðra mynd af ástandi sínu og telji það ekki hafa skert færni sína til að sjá um drenginn. Að mati dómsins er ekki tilefni til að draga þær ályktanir af framangreindum umgengnistálmunum að stefnda muni í framtíðinni torvelda umgengni þeirra feðga ef henni verður falin forsjá drengins enda verður ekki annað ráðið að frásögn beggja aðila en hann hafi náð mun betri heilsu nú.
Hvað efnahagslega stöðu aðila varðar geta báðir aðilar boðið barninu upp á viðunandi aðstæður að þessu leyti þótt staða þeirra sé ólík. Stefnandi býr í góðu leiguhúsnæði ásamt móður sinni og á eitt stálpað barn fyrir sem býr hjá móður sinni. Hann hefur tekjur af eigin starfsemi auk starfa fyrir ungmennafélagið og tilfallandi starfa sem dyravörður á veitingahúsum og lífvörður. Skuldastaða hans er ekki þannig að hún teljist íþyngja honum að neinu marki þegar til lengri tíma er litið. Stefnda býr í rúmgóðu leiguhúsnæði í [...] í Reykjavík ásamt þremur börnum sínum. Hún nýtur atvinnuleysisbóta og húsaleigubóta og skuldar lítið. Dómurinn telur ekki efni til að álykta um annað en að hún sé vel fær um að stunda atvinnu af ýmsu tagi þegar yngsta barn hennar, sem nú er ársgamalt, hefur náð aldri til að fara í dagvistun. Í málinu liggja ekki fyrir skattframtöl aðila eða önnur gögn varðandi tekjur og skuldir þeirra.
Báðir aðilar hafa gengist við neyslu kannabisefna og stefnandi kveðst einnig hafa neytt stera á meðan hann stundaði keppni í [...]. Báðir aðilar staðhæfa að þau hafi hætt allri slíkri neyslu. Vegna framangreindrar neyslu, sem mældist hjá stefndu í upphafi meðgöngu yngri sonar hennar, var hún undir sérstöku eftirliti á meðgöngunni og reglulega voru gerðar mælingar á efninu í líkama hennar. Ef frá er talin fyrsta mælingin snemma á meðgöngunni hafa ekki komið fram ummerki neyslu hjá stefndu eftir það. Stefnandi mætti sjálfur með rannsóknargögn á Heilbrigðisstofnun [...] í júní 2011 og óskaði eftir að þau yrðu notuð til mælinga á kannabisefnum í þvagi hans. Niðurstaða þess prófs var neikvæð. Önnur gögn hafa ekki verið lögð fyrir dóminn varðandi núverandi neyslu aðila á kannabisefnum eða öðrum fíkniefnum. Að mati dómsins er ekki talið tilefni til að draga í efa fullyrðingar aðila um að neyslu þeirra hafi verið hætt á þeim tíma sem þau halda fram. Þá kveðst stefnda hafa gengist undir meðferð gegn spilafíkn nokkru áður en A fæddist og ekki hafa glímt við vanda vegna þess eftir það. Samkvæmt þessu er það mat dómsins að fíkniefnaneysla aðila í fyrri tíð hafi ekki áhrif á niðurstöðu um mat á forsjárhæfni þeirra.
Drengurinn A er fæddur í [...] 2004 og er því á níunda ári. Hann býr hjá móður sinni og hefur að hennar sögn gert það alla tíð. Svo sem rakið er framar heldur stefnandi því fram að drengurinn hafi búið hjá sér á um 15-16 mánaða tímabili á árunum 2008-2010, þ.e. þegar hann var fjögurra til fimm ára gamall. Ekki hafa verið lögð fram gögn sem styðja eða hrekja þessa fullyrðingu. Hins vegar má af öðrum gögnum og skýrslum aðila ráða að stefnda hefur verið aðaluppalandi drengsins og stefnandi oftast haft reglulega umgengni við hann milli þess sem aðilar hafa verið í sambúð, fyrir utan það tímabil á árinu 2011 sem stefnda kom í veg fyrir umgengnina.
Í viðtölum hjá matsmanni og við dómara kvaðst drengurinn heldur vilja búa hjá föður sínum en móður. Hann lýsti ítarlega fyrirkomulagi umgengni við stefndu ef hann flytti til stefnanda og lagði áherslu á að í raun yrði hann jafnt hjá báðum foreldrum sínum þar sem þeir feðgar áformuðu að hann gæti hitt hana reglulega í miðri viku þegar stefnandi stundaði vinnu í Reykjavík. Ástæðu þess að hann vildi fremur vera hjá stefnanda en stefndu kvað hann vera þá að þar væri skemmtilegra að vera, meiri friður og pabbi hans léki við hann og væri góður félagi. Móður sína kvað hann oft þreytta og upptekna við annað en að leika við hann og sinna honum. Í tengslamati, sem matsmaður lagði fyrir drenginn, kemur jafnframt fram að þótt það sýni góð tengsl við báða foreldra eru tengslin sterkari og jákvæðari við föður en móður og það sýnir neikvæðari tengsl við hana.
Að framan eru rakin gögn og vitnisburður aðila að því er varðar almennt forsjárhæfni þeirra. Af þeim verður dregin sú ályktun að báðir aðilar teljist hæfir til að fara með forsjá A. Báðir aðilar hafa styrkleika sem nýtast þeim í uppeldi sonar þeirra. Hvað stefnanda varðar felst helsti styrkur hans í því hve góðu sambandi hann hefur náð við dreginn, hann sýnir honum óskipta athygli þegar þeir eru saman, leikur við hann og er góður félagi hans. Þá hefur stefnandi stuðning móður sinnar sem hann býr með við uppeldi drengsins. Á hinn bóginn verður að taka mið af því að samskipti þeirra feðga hafa mikið verið í frítíma þeirra beggja þegar eðli málsins samkvæmt er meira svigrúm til leikja og minni þörf á að fara eftir reglum og sinna ýmsu sem drengnum kann að finnast minna skemmtilegt.
Stefnda, á hinn bóginn, sem verið hefur aðaluppalandi drengsins frá fæðingu hugsar um hann á annan hátt. Af framburði hennar og drengsins má ráða að hún leiki ekki eins mikið með honum og pabbi hans. Hún er uppteknari af því að taka á erfiðum hegðunarfrávikum drengsins, aðstoða hann við að ná tökum á hegðunarerfiðleikum í skóla og inni á heimilinu og setja honum mörk. Í því sambandi hefur hún sýnt að hún er reiðubúin að vinna með starfsmönnum skóla og Barnaverndar. Hún hugsar almennt vel um drenginn og ekki er að finna í gögnum málsins vísbendingar sem styðja framburð stefnanda um að hún vanræki barnið á neinn hátt. Engar vísbendingar eru um að stefnda myndi ekki eðlileg tengsl við börn sín, þ.á m. A. Þá hefur stefnda ágætt tengslanet í kringum sig, bæði úr eigin fjölskyldu og hluta fjölskyldu stefnanda þ.e. föður og bróður hans. Drengurinn ber að móðir sín sé ströng og beiti hann stundum hörku, samanber tilkynningar stefnanda þar að lútandi til Barnaverndar. Þótt framangreind viðbrögð stefndu teljist óæskileg og vitni um að hún hafi ekki full tök á aðstæðum verður að mati dómsins að meta þau með hliðsjón af þeim erfiðleikum sem felast í því að setja drengnum mörk. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum frá Barnavernd og skóla drengsins en að stefnda líti einnig á þessi tilvik og önnur lík sem erfið og vilji þiggja aðstoð við að takast á við uppeldi drengsins með betri hætti. Í framburði stefndu kemur einnig fram að hegðunarerfiðleika hans megi einnig að nokkru leyti rekja til þess hve sterka afstöðu hann hefur tekið í forsjárdeilu aðila en eins og að framan er rakið bendir vitnisburður stefnanda til þess að hann beri nokkra ábyrgð á því hvernig drengurinn hefur blandast inn í þá deilu.
Hvað varðar persónulega eiginleika aðila sem hafa áhrif á forsjárhæfni þeirra eru, í tilviki stefnanda, nokkuð áberandi einkenni sjálfsfegrunar og hann dregur upp óraunhæfa mynd af sjálfum sér og samskiptum almennt. Lýsing hans á skaphöfn sinni og persónulegum eiginleikum eru í litlu samræmi við gögn málsins og hann virðist telja að öll gagnrýni annarra á viðhorf hans og viðfangsefni byggi á fordómum og fáfræði. Þetta dregur úr færni stefnanda sem uppalanda og getur ásamt því hve mikið hann beitir sér til að hafa áhrif á viðhorf drengsins dregið úr möguleikum hans til að aðstoða drenginn í að takast á við sinn vanda og setja þarfir hans framar sínum eigin.
Hvað stefndu varðar virðist hún almennt hafa mun jarðbundnari hugmyndir um sjálfa sig en stefnandi og búa yfir meiri færni til að skilja og sinna þörfum drengsins. Á hinn bóginn eru vísbendingar um að hún hafi ekki fulla stjórn á skapi sínu svo sem að framan greinir þannig að það bitnar á færni hennar sem uppalanda. Svo sem að framan er rakið bar A fyrir dómi, og einnig í viðtali við matsmann, að hann vildi fremur búa hjá pabba sínum en mömmu. Óskir barns eru meðal þeirra atriða sem horfa ber til við ákvörðun í forsjárdeilu sem þessari. Niðurstaða málsins veltur hins vegar á heildstæðu mati á þörfum og högum barnsins og því hvað talið verður að sé því fyrir bestu. Það mat verður ekki lagt á barnið sjálft.
Með hliðsjón af öllu ofangreindu verður talið að það samræmist best högum og þörfum barnsins að stefnda fari með forsjá A. Sú niðurstaða byggir á heildstæðu mati á því sem að framan er rakið. Er þar aðallega horft til persónulegra eiginleika aðila sem máli skipta varðandi forsjárhæfni þeirra og skilning þeirra á þörfum barnsins. Það er mat dómsins að stefnda sé hæfari til að fara með forsjá drengsins að þessu leyti. Þá hefur hún sinnt uppeldi hans meira frá fæðingu en stefnandi. Þótt aðila greini á um hvar drengurinn bjó um tíma, liggur fyrir að hann hefur dvalið hjá stefndu bróðurpart lífs síns og hún verið aðaluppalandi hans. Þá skiptir einnig máli að hjá stefndu búa tvö af þremur systkinum drengsins og þykir þessi tilhögun líklegri til að hann nái að mynda eðlilegt og sterkt samband við þau. Enn fremur virðist stefnda hafa stöðugra tengslanet í kringum sig en stefndi. Ekki verður talið að efnahagslegar aðstæður aðila skipti máli varðandi mat á því hvort þeirra skuli hafa forsjána þar sem bæði hafa möguleika á að búa drengnum viðunandi aðstæður að því leytinu til. Loks myndi flutningur til stefnanda, sem býr á [...], hafa í för með sér talsverða röskun á högum drengins, sem óhjákvæmilega fylgja búferlaflutningum og skólagöngu í nýjum skóla. Stefnandi hefur ekki stutt þá fullyrðingu sína neinum gögnum að líklegra sé að drengnum myndi líða betur í skóla á [...] en í Reykjavík.
Með hliðsjón af öllu framansögðu og með vísan til 2. mgr. 34. gr. laga nr. 76/2003 er niðurstaða dómsins því sú að stefnda skuli fara með forsjá [...].
Báðir aðilar hafa gert kröfu um að dómurinn kveði á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki fær forsjá drengsins. Í samræmi við niðurstöðuna um forsjá barnsins verður nú kveðið á um inntak umgengnisréttar stefnanda. Í aðalmeðferð málsins setti stefnandi fram þá tillögu að umgengni, ef forsjáin yrði í höndum stefndu, að drengurinn yrði hjá honum þrjár helgar af fjórum og að skólafrí skiptist jafnt. Tillögur stefndu ganga út á að drengurinn verði aðra hverja helgi hjá föður og eftir atvikum gætu þeir hist þess á milli og skólafríum yrði skipt jafnt.
Svo sem rakið er hér að ofan eru tengsl drengsins við föður sterk og mikilvægt að drengurinn fái tækifæri til eðlilegrar umgengni við föður. Ekki er fallist á þau sjónarmið stefndu sem fram koma í greinargerð að það þjóni hagsmunum drengsins að takmarka umgengnina. Mikilvægt er að báðir foreldrar leggi sig fram um að umgengni drengsins við föður geti orðið án átaka þeirra í milli og jafnframt að þau stuðli að því að drengurinn haldi jákvæðum tengslum við hitt foreldrið. Í ljósi þessa er það niðurstaða dómsins að umgengni föður skuli vera aðra hverja helgi, frá því að skóla lýkur á föstudegi og þar til kl. 19.00 á sunnudegi. Þá viku sem drengurinn er ekki hjá föður sínum um helgi skal umgengni vera einn eftirmiðdag í viku, eftir nánara samkomulagi aðila, frá því að skóla lýkur og fram til kl. 19.00. Í skólafríum, utan jóla- og sumarleyfis, skal dvöl drengsins hjá aðilum vera jöfn. Dvöl um jól og áramót skal hátta þannig að annað árið skal drengurinn vera hjá stefnanda frá hádegi á Þorláksmessu fram á hádegi á jóladag en hjá stefndu frá hádegi á jóladag fram á þriðja dag jóla og svo aftur frá hádegi þann 30. desember fram til hádegis á nýársdag en hjá stefnanda frá þeim degi og fram á síðasta dag jólaleyfis. Þetta fyrirkomulag skal gilda í komandi jólafríi. Næsta ár, þ.e. jólin 2013 snýst umgengnin við og drengurinn verður hjá stefnanda þá daga sem hann var hjá stefndu árið á undan og öfugt. Umgengni í sumarleyfi skal háttað þannig að drengurinn verði hjá stefnanda samfleytt í fjórar vikur eftir nánara samkomulagi aðila.
Stefnandi skal greiða stefndu einfalt meðlag með drengnum þar til hann nær 18 ára aldri.
Með hliðsjón af eðli og atvikum máls þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Báðir aðilar njóta gjafsóknar vegna rekstrar málsins fyrir héraðsdómi samkvæmt bréfum innanríkisráðuneytisins dagsettum 30. september og 18. nóvember 2011. Gjafsókn beggja er samkvæmt framangreindum bréfum takmörkuð við 400.000 kr. Með nýju gjafsóknarleyfi til stefnanda, dags. 22. nóvember sl. eru fjárhæðartakmarkanir felldar niður.
Allur gjafsóknarkostnaður aðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarþóknun lögmanns stefnanda, Leifs Runólfssonar hdl., sem telst hæfilega ákveðin 502.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti og málsvarnarþóknun lögmanns stefndu, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., sem ákveðst 400.000 kr. með hliðsjón af framangreindri takmörkun í gjafsóknarleyfi.
Áfrýjun dómsins frestar ekki réttaráhrifum hans.
Dóm þennan kveður upp Ingibjörg Þorsteinsdóttir, settur héraðsdómari ásamt meðdómsmönnunum Álfheiði Steinþórsdóttur og Gunnar Hrafni Birgissyni sálfræðingum.
Dómsorð
Stefnda, K, skal fara með forsjá drengsins A frá uppkvaðningu dóms þar til hann nær 18 ára aldri.
Umgengni stefnanda við drenginn skal vera aðra hverja helgi, frá því að skóla lýkur á föstudegi og þar til kl. 19.00 á sunnudegi. Þá viku sem drengurinn er ekki hjá föður sínum um helgi skal umgengni vera einn eftirmiðdag í viku, eftir nánara samkomulagi aðila, frá því að skóla lýkur og fram til kl. 19.00. Í skólafríum, utan jóla- og sumarleyfis, skal dvöl drengsins hjá aðilum vera jöfn. Dvöl um jól og áramót skal háttað þannig að annað árið skal drengurinn vera hjá stefnanda frá hádegi á Þorláksmessu fram á hádegi á jóladag en hjá stefndu frá hádegi á jóladag fram á þriðja dag jóla og svo aftur frá hádegi þann 30. desember fram til hádegis á nýársdag en hjá stefnanda frá þeim degi og fram á síðasta dag jólaleyfis. Þetta fyrirkomulag skal gilda í komandi jólafríi. Næsta ár, þ.e. jólin 2013 snýst umgengnin við og drengurinn verður hjá stefnanda þá daga sem hann var hjá stefndu árið á undan og öfugt. Umgengni í sumarleyfi skal háttað þannig að drengurinn verði hjá stefnanda samfleytt í fjórar vikur eftir nánara samkomulagi aðila.
Stefnandi skal greiða stefndu einfalt meðlag með drengnum þar til hann nær 18 ára aldri.
Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður aðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarþóknun lögmanns stefnanda, Leifs Runólfssonar hdl., sem telst hæfilega ákveðin 502.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti og málsvarnarþóknun lögmanns stefndu, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hrl., sem ákveðst 400.000 kr.
Áfrýjun dómsins frestar ekki réttaráhrifum hans.