Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-80
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Líkamsárás
- Sönnun
- Gáleysi
- Skilorðsrof
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 19. febrúar 2021 leitar Svanur Davíð Helgason eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 22. janúar sama ár í málinu nr. 594/2019: Ákæruvaldið gegn Svani Davíð Helgasyni, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.
Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa veist með ofbeldi að brotaþola rifið í hægri hönd hans og snúið upp á fingur hans með nánar tilgreindum afleiðingum. Við ákvörðun refsingar var litið til þess dráttar sem hefði orðið á málinu sem leyfisbeiðanda yrði ekki kennt um. Með brotinu rauf leyfisbeiðandi skilorð eldri dóms og var dómurinn því tekinn upp og honum gerð refsing í einu lagi samkvæmt 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Var refsing hans ákveðin skilorðsbundið fangelsi í 30 daga. Þá var honum gert að greiða brotaþola bætur.
Leyfisbeiðandi byggir á því að málsmeðferð fyrir Landsrétti og héraðsdómi hafi verið stórlega ábótavant og telur að ómerkja þurfi báða dómana. Vísar hann til þess að hann hafi verið sakfelldur á grundvelli framburðar tveggja vitna en hvorugt þeirra hafi borið um að hafa beinlínis séð andlit þess sem átti að hafa veitt brotaþola áverka umrætt kvöld. Leyfisbeiðandi bendir á að ekki hafi verið gengið úr skugga um hvort vitnin hafi borið kennsl á leyfisbeiðanda á verknaðarstundu eða hvort þau hafi dregið ályktanir af fyrri framgöngu hans. Hann telur því að ómerkja þurfi héraðsdóm svo að unnt sé að skýrslutökur fari fram á ný. Einnig vísar hann til þess að sá galli sé á dómi Landsréttar að ekki sé þar fjallað um hvort skilyrði ásetnings hafi verið fyrir hendi en í átökum sem þessum geti orðið óhöpp sem ekki verði rakin til annars en gáleysis. Leyfisbeiðandi telur að ómerkja þurfi dóma héraðsdóms og Landsréttar af þessum sökum.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að leyfisbeiðni lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. fyrrgreindrar lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt fyrst og fremst á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda, brotaþola og vitna en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.