Hæstiréttur íslands

Mál nr. 668/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slitameðferð


                                                         

Þriðjudaginn 17. janúar 2012.

Nr. 668/2011.

Íslandsbanki hf.

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

gegn

SPB hf.

(Tómas Jónsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð.

Í hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu sem félagið lýsti við slitameðferð S hf. Deilan átti rætur að rekja til þess að Í hf., A hf. og S yfirtóku tilteknar skuldbindingar S hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og áttu að fá um 12,4 milljarða króna sem endurgjald. Í dómi Hæstaréttar sagði að í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 17. apríl 2009 hefðu þessir þrír aðilar átt að annast uppgjör greiðslunnar sín í milli, en í málinu hefðu ekki verið lögð fram gögn um hvort slíkt uppgjör hefði farið fram. Í hf. hefði því ekki sýnt fram á að hann væri vanhaldinn í fyrrgreindum lögskiptum og hefði þannig eignast kröfu þá í bú S hf. sem hann lýsti. Þá bæru gögn málsins heldur ekki með sér að Í hf. ásamt A hf. og S hefði með ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins „eignast allar eignir varnaraðila, sem honum beri skilyrðislaust að afhenda“, svo sem Í byggði á í málatilbúnaði sínum. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar þótti Í hf. ekki hafa sýnt fram á að hann ætti kröfu þá sem hann lýsti við slit S hf. Var niðurstaða hins kærða því úrskurðar staðfest.

                                                              Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili, sem áður hét Byr hf. en hefur nú sameinast Íslandsbanka hf. og starfar undir nafni hans, skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. desember 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2011 þar sem kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila var hafnað. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og viðurkennd verði krafa hans að fjárhæð 7.729.985,75 evrur og 111.621.858 krónur við slitameðferð varnaraðila, og að henni verði skipað í réttindaröð aðallega sem sértökukröfu samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, til vara sem veðkröfu samkvæmt 111. gr. laganna en að því frágengnu sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. sömu laga. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Ágreiningur málsaðila lýtur í fyrsta lagi að því, hvort sóknaraðili eigi kröfu í bú varnaraðila vegna skuldbindinga þess síðarnefnda sem sóknaraðili yfirtók á grundvelli ákvarðana Fjármálaeftirlitsins svo sem nánar greinir í hinum kærða úrskurði. Í öðru lagi er ágreiningur um hver sé rétthæð slíkrar kröfu við slit varnaraðila teljist krafan á annað borð vera fyrir hendi.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði áttu Seðlabanki Íslands, Nýi Kaupþing banki hf. sem nú heitir Arion banki hf., og sóknaraðili að fá samtals um 12,4 milljarða króna sem endurgjald fyrir þær skuldbindingar varnaraðila sem þeir yfirtóku samkvæmt framansögðu. Í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 17. apríl 2009 áttu þessir þrír aðilar að annast uppgjör greiðslunnar sín í milli, en í málinu hafa ekki verið lögð fram gögn um hvort slíkt uppgjör hefur farið fram. Samkvæmt þessu hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á að hann sé vanhaldinn í fyrrgreindum lögskiptum og hafi þannig eignast kröfu þá í bú varnaraðila sem hann lýsti, en á þeim grunni virðist krafa hans aðallega reist. Þá bera gögn málsins heldur ekki með sér að sóknaraðili ásamt Seðlabanka Íslands og Arion banka hf. hafi með fyrrnefndum ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins „eignast allar eignir varnaraðila, sem honum beri skilyrðislaust að afhenda“, svo sem sóknaraðili byggir á í málatilbúnaði sínum. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar þykir sóknaraðili ekki hafa sýnt fram á að hann eigi kröfu þá sem hann lýsti við slit varnaraðila. Verður því niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Íslandsbanki hf., greiði varnaraðila, SPB hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. nóvember 2011.

Mál þetta var þingfest 24. janúar 2011 og tekið til úrskurðar 9. nóvember sl.

Sóknaraðili er Byr hf., Borgartúni 18, Reykjavík.

Varnaraðili er SPB hf., Rauðarárstíg 27, Reykjavík.

Dómkröfur sóknaraðila eru þær aðallega að krafa hans nr. 188 á kröfuskrá þrotabús varnaraðila að fjárhæð 7.729.958,75 evrur og 111.621.858 krónur verði viðurkennd sem krafa utan skuldaraðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Til vara krefst sóknaraðili þess að krafa hans verði viðurkennd sem veðkrafa samkvæmt 111. gr. laganna. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Dómkröfur varnaraðila eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum sóknaraðila, en til vara krefst varnaraðili þess að kröfurnar verði lækkaðar verulega. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

I

Hinn 15. desember 2008 veitti Fjármálaeftirlitið varnaraðila undanþágu til 28. janúar 2009 frá reglum um eigið fé, í því skyni að gefa honum kost á því, í samvinnu við kröfuhafa sína, að koma nýrri skipan á fjárhag sinn. Fresturinn var framlengdur tvívegis, fyrst til 28. febrúar 2009, en síðan til 31. mars 2009.

Í bréfi Seðlabanka Íslands, sem barst Fjármálaeftirlitinu 21. mars 2009, fjallaði bankaráð Seðlabankans um neikvæða eiginfjárstöðu og óviðunandi lausafjárstöðu varnaraðila og lýsti því mati að staða varnaraðila væri óviðunandi og gæti að auki haft neikvæð keðjuverkandi áhrif á önnur fjármálafyrirtæki. Seðlabankinn sæi sér ekki annað fært en að óska eftir því við Fjármálaeftirlitið að það gripi til þeirra úrræða sem stofnuninni væri veitt í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 125/2008. Sama dag tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar varnaraðila og ákvað ráðstöfun tiltekinna eigna og skuldbindinga til Seðlabanka Íslands og Nýja Kaupþings banka hf. Hinn 28. mars 2009 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar varnaraðila, vék stjórn hans frá og skipaði honum skilanefnd. Þetta var gert með vísan til þágildandi ákvæða 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Í millitíðinni, eða 23. mars 2009, var varnaraðila veitt greiðslustöðvun sem standa átti til 15. júní 2009, en áður en sá tími var á enda var honum skipuð slitastjórn 19. maí 2009 samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða við þau lög.

Í fyrrnefndri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. mars 2009 er jafnframt kveðið á um ráðstöfun tiltekinna skuldbindinga og eigna varnaraðila. Þar kemur meðal annars fram í 1. til 3. tölulið að Seðlabanki Íslands og Nýi Kaupþing banki hf. yfirtaki tilteknar skuldbindingar varnaraðila vegna innstæðna. Í 5. tölulið segir að sem endurgjald fyrir yfirtöku umræddra skuldbindinga vegna innstæðna framselji varnaraðili útlán sín til sparisjóða alls að fjárhæð u.þ.b. 10,7 milljarðar króna auk skuldabréfakröfu á hendur Byr sparisjóði að fjárhæð 2,75 milljarðar króna, eða samtals um 13,45 milljarða króna. Seðlabanki Íslands og Nýi Kaupþing banki hf. taki við umræddri greiðslu, annist uppgjör vegna hennar sín á milli og standi varnaraðila skil á mismun milli yfirtekinna skuldbindinga og eigna. Fram kemur í 7. tölulið að yfirfærsla innlána skyldi fara fram eigi síðar en mánudaginn 23. mars 2009, en framsal krafna vegna endurgjalds samkvæmt 5. tölulið skyldi fara fram eigi síðar en kl. 12:00 mánudaginn 6. apríl 2009.

Með ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins frá 24. mars 2009, 31. mars 2009 og 7. apríl 2009 voru frestir á yfirfærslu innlána framlengdir. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 17. apríl 2009 var ákvæði 2. töluliðar fyrri ákvörðunar þess frá 21. mars 2009 breytt á þann veg að Byr sparisjóður tæki yfir skuldbindingar varnaraðila vegna innstæðna Allianz og viðskiptavina þess. Þá var 5. tölulið ákvörðunarinnar breytt á þann veg að sem endurgjald fyrir yfirtöku innlánsskuldbindinga samkvæmt 1. til 3. tölulið framselji varnaraðili útlán sín til sparisjóða alls að fjárhæð u.þ.b. 10,9 milljarðar króna auk skuldabréfakröfu á hendur Byr sparisjóði að fjárhæð u.þ.b. 1,5 milljarðar króna, eða samtals um 12,4 milljarða króna. Seðlabanki Íslands, Nýi Kaupþing banki hf. og Byr sparisjóður væru viðtakendur umræddrar greiðslu.

Hinn 28. apríl 2009 tók Seðlabanki Íslands við greiðslu samkvæmt 5. tölulið ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 21. mars 2009. Um var að ræða útlán og skuldabréf, samtals að verðmæti 12.463.918.942 krónur. Hinn 21. október 2009 tilkynnti Fjármálaeftirlitið varnaraðila að viðtakendur endurgjaldsins hefðu talið það ófullnægjandi og að embættið hefði í hyggju að endurskoða fyrri ákvörðun sína um endurgjald. Með bréfi dagsettu 24. nóvember 2009 var þessu erindi Fjármálaeftirlitsins svarað og kom þar fram að varnaraðili teldi það ekki í samræmi við meginreglur gjaldþrotaréttar og aðrar reglur sem gildi um slitameðferðina að ráðstafa meira af eignum varnaraðila til að bæta viðtakendum endurgjaldsins mögulegan mismun á endurgjaldinu. Hinn 23. desember 2009 svaraði Fjármálaeftirlitið erindi varnaraðila. Þar kom fram að Fjármálaeftirlitið teldi ekki forsendur fyrir því að endurupptaka fyrri ákvörðun sína, en lagt var fyrir varnaraðila að framselja viðtakendum endurgjaldsins öll útlán til Sparisjóðsins í Keflavík og öll útlán til sparisjóða sem ekki hefðu áður verið framseld, ekki síðar en 15. janúar 2010. Varnaraðili svaraði bréfi Fjármálaeftirlitsins með bréfi dagsettu 13. janúar 2011 og hafnaði framsalinu.

Byr sparisjóður lýsti kröfu í bú varnaraðila að fjárhæð 7.729.958,75 evrur og 111.559.608 krónur auk kröfu að fjárhæð 62.250 krónur fyrir ritun kröfulýsingar, sem móttekin var 2. nóvember 2009 af slitastjórn varnaraðila. Byr sparisjóður lýsti kröfunni sem sértökukröfu sem skipað skyldi í réttindaröð samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunni 8. desember 2009 en Byr sparisjóður mótmælti þeirri afstöðu 20. janúar 2010. Hinn 2. febrúar 2010 var haldinn fundur vegna ágreinings Byrs sparisjóðs og varnaraðila um viðurkenningu á kröfu sparisjóðsins. Hvorki tókst að jafna ágreininginn á þeim fundi né á framhaldsfundum sem haldnir voru 23. mars, 22. júní og 29. september 2010. Með bréfi slitastjórnar varnaraðila dagsettu 8. desember 2010 og mótteknu sama dag var ágreiningi málsaðila um kröfuna beint til Héraðsdóms Reykjavíkur til úrlausnar, sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991.

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 22. apríl 2010 tók sóknaraðili, Byr hf., yfir öll kröfuréttindi Byrs sparisjóðs nema þau sem voru sérstaklega undanskilin.

II

Sóknaraðili kveðst vísa til þess að hann hafi enga greiðslu fengið vegna þeirra skuldbindinga sem fluttar hafi verið frá varnaraðila til sóknaraðila. Þær skuldbindingar hafi verið sóknaraðila með öllu óviðkomandi og á honum hafi engin skylda hvílt að axla þessa byrði við gjaldþrot varnaraðila. Það hafi verið ákvörðun stjórnvalds að færa þessar skuldbindingar á milli aðila og liggi fyrir skýr afstaða þess stjórnvalds að varnaraðili skuli halda sóknaraðila skaðlausum af þessari aðgerð. Hið sama myndi leiða af almennum reglum, burtséð frá því hvort yfirlýsing Fjármálaeftirlitsins lægi fyrir eða ekki. Um sé að ræða gríðarmikla fjárhagslega skuldbindingu sem lögð hafi verið á sóknaraðila löngu eftir að varnaraðili hafi verið kominn í eiginlegt þrot.

Sóknaraðili kveðst byggja aðalkröfu sína á því að hann, ásamt Seðlabanka Íslands og Nýja Kaupþingi banka hf. hafi með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins eignast allar eignir varnaraðila, sem honum beri skilyrðislaust að afhenda. Þeim beri síðan að standa varnaraðila skil á því sem verði umfram yfirteknar skuldbindingar, verði um slíkan mismun að ræða.

Sóknaraðili byggi varakröfu sína á því að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi stofnað tryggingarréttindi í öllum eignum varnaraðila til handa þeim aðilum sem hafi tekið yfir skuldbindingar varnaraðila.

Sóknaraðili styðji kröfur sína við lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og lög nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Jafnframt vísi sóknaraðili til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Krafa um málskostnað byggi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 178. gr. laga nr. 21/1991.

III

Varnaraðili kveðst í fyrsta lagi byggja kröfur sínar á því að sóknaraðili geti ekki átt frekari rétt til endurgjalds úr hendi varnaraðila á grundvelli ákvarðana Fjármálaeftirlitsins eða annarra málsatvika. Skilanefnd varnaraðila hafi uppfyllt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 17. apríl 2009 með því að flytja innlánsskuldbindingar að fjárhæð u.þ.b. 12,34 milljarðar króna og sem endurgjald framselt útlán og skuldabréf, samtals 12.463.918.942 krónur, að viðbættum yfirdrætti á veltureikningum til Nýja Kaupþings banka hf. að fjárhæð 975 milljónir króna, eða samtals u.þ.b. 13,4 milljarða króna. Móttaka endurgjaldsins hafi verið staðfest af Seðlabanka Íslands fyrir hönd allra viðtakenda 28. apríl 2008 án fyrirvara um fjárhæð eða réttmæti endurgjaldsins.

Orðalag 5. töluliðar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins staðfesti þennan skilning varnaraðila. Samkvæmt ákvörðuninni hafi viðtakendur greiðslunnar átt að annast uppgjör vegna hennar sín á milli og standa varnaraðila skil á mismuninum, ef einhver yrði. Engin slík kvöð hafi verið á varnaraðila samkvæmt ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins, enda ljóst að endurgjaldið hafi verið metið ríflegt.

Varnaraðili vísi til þess að hafi raunverulega staðið til að hann greiddi sóknaraðila og/eða öðrum viðtakendum greiðslunnar aukið endurgjald hefði þurft skýr lagafyrirmæli til þess, enda raski allar greiðslur úr búi fjármálafyrirtækis í slitameðferð til einstaka kröfuhafa jafnræði kröfuhafa. Þetta hafi Fjármálaeftirlitinu verið ljóst þegar umræddar ákvarðanir hafi verið teknar. Fyrirséð hafi verið að skipa þyrfti varnaraðila slitastjórn samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og Fjármálaeftirlitið hafi með 6. tölulið upprunalegrar ákvörðunar sinnar frá 21. mars 2009 lagt fyrir stjórn varnaraðila að leita heimildar til greiðslustöðvunar.

Varnaraðili byggi á því að hann hafi farið eftir ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Engar athugasemdir hafi borist frá Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlitinu, sóknaraðila eða öðrum við afhendingu endurgjaldsins. Hvergi hafi komið fram að fjárhæð þessara útlána standist ekki eða að fjárhæð skuldabréfakröfunnar sé röng. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi lagt þær skyldur á herðar varnaraðila að staðreyna þau innlán sem fallið hafi undir gildissvið 1.-3. töluliðar ákvörðunarinnar og útbúa þau skjöl sem nauðsynleg séu til að tryggja endurgjaldið samkvæmt 5. tölulið og tryggingaréttindi sem því fylgi, og hafa samráð við móttakendur endurgjaldsins um nánari framkvæmdaratriði. Ekki hafi verið lögð sú skylda á varnaraðila að staðreyna sérstaklega hvort verðmæti þeirra krafna sem Fjármálaeftirlitið hafði sjálft valið að taka sem endurgjald væri ofmetið eða vanmetið.

Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og sex breytingum á henni á tímabilinu 21. mars til 24. apríl 2009 sé hvergi vikið að því að varnaraðili eigi að hlutast til um að auka við endurgjald sitt. Hafi Fjármálaeftirlitið talið endurgjaldið of lágt hefði embættinu verið í lófa lagið að breyta ákvörðun sinni. Hafi Fjármálaeftirlitið talið ákvörðun sína byggja á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik hafi embættið einnig átt þann kost að endurupptaka ákvörðun sína áður en formleg slitameðferð varnaraðila hafi byrjað og honum skipuð slitastjórn, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Varnaraðili kveðst vísa til þess að Fjármálaeftirlitinu hafi verið kunnugt um að skuldabréfakrafa á hendur Byr sparisjóði hafi ekki verið 2,75 milljarðar króna, líkt og talið hafi verið í upphaflegu ákvörðuninni, heldur um 1,5 milljarðar króna, sbr. fimmtu breytingu ákvörðunarinnar frá 17. apríl 2009. Heildarendurgjaldið hafi þannig lækkað úr u.þ.b. 13,45 milljörðum króna í u.þ.b. 12,4 milljarða án þess að Fjármálaeftirlitið eða aðrir hafi krafist frekara endurgjalds.

Varnaraðili kveðst hafna því að endurgjaldið hafi ekki verið fullnægjandi og að upphaflegar forsendur ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins hafi breyst með þeim hætti að sóknaraðili eigi kröfu á hendur varnaraðila. Í fimmtu breytingu Fjármálaeftirlitsins á ákvörðun sinni frá 17. apríl 2009 hafi verið tilgreint að afhenda ætti útlán til sparisjóða að fjárhæð u.þ.b. 10,9 milljarðar króna. Endanleg afhending útlána sparisjóða hafi verið u.þ.b. 11,1 milljarður króna. Þá hafi skuldabréf á Byr sparisjóð upp á u.þ.b. 1,5 milljarða króna verið afhent samkvæmt ákvörðuninni og þar að auki hafi verið fluttir til Nýja Kaupþings banka hf. yfirdrættir á veltureikningum að fjárhæð u.þ.b. 975 milljónir króna, þrátt fyrir að ekki hafi verið vikið að því í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Endanlegt endurgjald hafi þannig hækkað um u.þ.b. 1,2 milljarða króna umfram þá 12,4 milljarða sem hafi verið tilgreindir í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 17. apríl 2009. Að mati varnaraðila séu það viðtakendur endurgjaldsins sem taki alfarið áhættuna á þeim forsendubreytingum sem kunni að hafa orðið eftir framkvæmd ákvörðunarinnar.

Varnaraðili bendi á að Fjármálaeftirlitið hafi haft frumkvæði að því hvaða eignir hafi verið valdar sem endurgjald. Fjármálaeftirlitið hafi t.d. sérstaklega valið að sleppa kröfum á hendur Sparisjóði Keflavíkur. Fjármálaeftirlitið hafi fengið allar þær upplýsingar frá varnaraðila sem embættið hafi óskað eftir. Varnaraðili kveði að eftir afhendingu endurgjaldsins hafi hann ekki getað varið umræddar eignir með tiltækum aðgerðum þar sem þær hafi ekki verið á forræði hans og megi e.t.v. rekja meinta verðrýrnun eignanna til þess.

Varnaraðili telur bréf Fjármálaeftirlitsins til varnaraðila í desember 2009 ekkert gildi hafa varðandi ágreiningsefnið. Réttarstaðan hafi verið orðin önnur, enda hafi lagaheimildir Fjármálaeftirlitsins til íhlutunar um málefni varnaraðila verið fallnar úr gildi. Eftir skipun slitastjórnar ráðstafi hún hagsmunum fjármálafyrirtækis eftir sömu reglum og gildi um bústjórn skiptastjóra við gjaldþrotaskipti, sbr. 1. mgr. 103. gr. laga nr. 162/2002 um fjármálafyrirtæki. Í því felist m.a. að slitastjórn verði að gæta jafnræðis milli allra kröfuhafa og breyti afstaða opinberrar stofnunar til ætlaðra krafna á hendur varnaraðila þar engu um.

Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. mars 2009 og breytingum á henni sé ekki vikið að því að viðtakandi endurgjaldsins eigi að vera skaðlaus af ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið láti fyrst í ljós þá skoðun sína að viðtakandi greiðslu eigi að vera skaðlaus um níu mánuðum eftir að upphafleg ákvörðun hafi verið tekin. Þetta sjónarmið hefði þurft að koma skýrt fram í ákvörðunum embættisins í öndverðu en ekki löngu síðar.

Varnaraðili vísi til þess að afar sérstakar ástæður hafi verið fyrir hendi þegar Fjármálaeftirlitið hafi tekið sína ákvörðun og verði ákvörðuninni ekki jafnað við samning á milli tveggja aðila. Ekkert hafi verið athugunarvert við greiðsluna sem slíka. Hún hafi óumdeilanlega haft fjárhagslegt gildi og verið hæf til að greiða fyrir þær skuldbindingar sem teknar hafi verið yfir, á þeim tíma þegar hún hafi verið afhent. Fjármálaeftirlitið hafi metið endurgjaldið bæði hæfilegt og eðlilegt. Það sé varnaraðila óviðkomandi ef andlag greiðslunnar sé mögulega ekki jafn verðmætt nú og Fjármálaeftirlitið hafi gert ráð fyrir. Telji sóknaraðili ákvörðunina hafa brotið gegn lögvörðum réttindum sínum verði hann að krefja Fjármálaeftirlitið eða ríkissjóð um skaðabætur.

Sóknaraðili haldi því fram að hann hafi ekkert fengið í sinn hlut af endurgjaldinu. Það hafi þó verið afhent Seðlabanka Íslands, sem hafi tekið við því fyrir hönd allra viðtakenda. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skyldu þeir hafa samráð um skiptingu þess. Telji sóknaraðili sig hafa verið hlunnfarinn í þeim skiptum verði hann að snúa sér að Seðlabankanum eða Arion banka hf. Varnaraðili hafi hvorki haft né getað haft afskipti af skiptingu endurgjaldsins á milli viðtakenda þess.

Varnaraðili byggi einnig á því að kröfulýsing sóknaraðila sé verulega vanreifuð, hvað varði fjárhæð, rétthæð og rökstuðning. Nánast engin gögn fylgi kröfunni og engin sönnun þess að skuldbindingin, sem sóknaraðili hafi tekið yfir, hafi numið lýstum fjárhæðum. Ekki sé gerð grein fyrir því á hvaða grundvelli krafan eigi að njóta rétthæðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 þó að sönnunarbyrði um það hvíli á sóknaraðila. Engin sönnun um eignarrétt liggi fyrir, hvað þá sérgreindan eignarrétt. Meint eign eða eignarréttindi sóknaraðila séu ekki í vörslum varnaraðila. Beinist krafa sóknaraðila að meintum eignarrétti á eignasafni varnaraðila almennt þá sé þeim skilningi hafnað. Í ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins frá mars og apríl 2009 sé ekki vísað til annarra eigna varnaraðila. Tilvísun í bréfi Fjármálaeftirlitsins frá desember 2009 til útlána til Sparisjóðsins í Keflavík og annarra sparisjóða hafi ekkert gildi. Varnaraðili bendi þó á að verðmæti þeirra eigna hafi rýrnað mjög verulega og niður í ekki neitt hvað varði Sparisjóðinn í Keflavík.

Varnaraðili telji að engin veðréttindi hafi stofnast samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, eða með öðrum hætti og sé því hafnað að útlánasafn eða eignasafn varnaraðila hafi átt að standa til tryggingar á innstæðuskuldbindingum. Varnaraðili byggi á að ef í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi átt að felast að útlánasafn varnaraðila stæði til tryggingar hefði slíkt staðið berum orðum í ákvörðuninni. Sá háttur hafi m.a. verið hafður á í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins varðandi ráðstafanir skuldbindinga Straums–Burðaráss fjárfestingarbanka hf. til Íslandsbanka hf. og ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda SPRON. Að öðru leyti hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á með hvaða hætti veðréttindi sóknaraðila eigi að hafa stofnast í eignum varnaraðila eða á hvaða grundvelli krafan eigi að njóta rétthæðar samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991.

Varakrafa varnaraðila byggi á sömu sjónarmiðum og aðalkrafa hans. Varnaraðili vísi sérstaklega til þess að upplýsingar um meinta yfirtöku skuldbindinga séu af skornum skammti og verulega vanreifaðar. Krafa sóknaraðila byggi á heildartölu þeirra skuldbindinga, sem haldið sé fram að Byr sparisjóður hafi yfirtekið. Sannanlegt verðmæti endurgjaldsins, hvort sem miðað sé við 28. apríl 2009 eða eitthvert annað tímamark, ætti að dragast frá kröfu sóknaraðila. Auk þess hafi sóknaraðili haft verulegan ávinning af yfirtöku viðskipta og viðskiptasambanda við Allianz og því væri rétt að sá ávinningur kæmi til frádráttar kröfu sóknaraðila.

Varnaraðili vísar til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., almennra reglna samninga- og kröfuréttar, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála o.fl. Málskostnaðarkrafa byggi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt byggi á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV

Ágreiningur málsaðila lýtur að því hvort sóknaraðili eigi kröfu á hendur varnaraðila og ef svo er hvaða stöðu hún eigi að hafa í skuldaröð við slitameðferð á búi varnaraðila.

Fyrir liggur að með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. mars 2009, eins og henni var breytt með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 17. apríl 2009, var Byr sparisjóði gert að yfirtaka skuldbindingar varnaraðila vegna innstæðna Allianz og viðskiptavina þess. Þá áttu Nýi Kaupþing banki hf. (nú Arion banki hf.) og Seðlabanki Íslands að yfirtaka tilteknar skuldbindingar varnaraðila vegna innstæðna. Sem endurgjald skyldi varnaraðili framselja útlán sín til sparisjóða, alls að fjárhæð um 10,9 milljarða króna og skuldabréfakröfu á hendur Byr sparisjóði að fjárhæð um 1,5 milljarð króna, eða samtals um 12,4 milljarða króna. Seðlabanki Íslands, Nýi Kaupþing banki hf. og Byr sparisjóður voru viðtakendur umræddrar greiðslu og skyldu annast uppgjör vegna hennar sín í milli og standa varnaraðila skil á mismun á milli yfirtekinna skuldbindinga og eigna ef slíkur mismunur væri til staðar.

Samkvæmt gögnum málsins tók Seðlabanki Íslands 28. apríl 2009 við greiðslu frá varnaraðila, samtals að fjárhæð 12.463.918.942 krónur. Í skjali, dagsettu þann dag, með fyrirsögnina ,,Móttaka endurgjalds skv. 5. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, dags. 21. mars 2009“, kemur fram að varnaraðili ,,afhendir Seðlabanka Íslands / Nýja Kaupþing banka hf. / Byr sparisjóð, hér með sem endurgjald eftirfarandi útlán og skuldabréf, sbr. 5. tölul. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, dags. mars 2009, um ráðstöfun eigna og skulda Sparisjóðabanka Íslands hf., kt. 681086-1379, til Nýja Kaupþings banka hf., kt. 581008-0150 og Seðlabanka Íslands, sbr. 4. tölul. Fjármálaeftirlitsins um fimmtu breytingu á ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 17. apríl 2009“. Í kvittuninni eru kröfurnar taldar upp og fram kemur að Seðlabanki Íslands staðfesti ,,móttöku framsalssamninga ásamt undirliggjandi skjölum og samningum“. Skjalið er undirritað fyrir hönd Seðlabanka Íslands og skilanefndar varnaraðila og af aðstoðarmanni varnaraðila í greiðslustöðvun. Þau skjöl sem vísað er til í skjalinu eru ekki meðal gagna málsins.

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 22. apríl 2010 tók sóknaraðili, Byr hf., yfir öll kröfuréttindi Byrs sparisjóðs nema þau sem voru sérstaklega undanskilin. Hefur sóknaraðili því tekið við aðild málsins af Byr sparisjóði. Krafa sóknaraðila er vegna framangreindrar greiðslu, að fjárhæð 7.729.958,75 evrur og 111.621.858 krónur. Sóknaraðili byggir á því að hann hafi ekkert fengið af greiðslunni til Seðlabanka Íslands.

Ekki er tekið fram berum orðum í framangreindum ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins hvernig greiðsla samkvæmt þeim skyldi framkvæmd, þ. á m. hvort einhver einn viðtakandi greiðslunnar væri til þess bær að taka við henni allri fyrir hönd hinna viðtakendanna. Af ákvæði 4. töluliðar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 17. apríl 2009, sem breytti 5. tölulið ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 21. mars 2009, virðist þó mega ráða að um sé að ræða eina greiðslu, en þar er orðið ,,greiðsla“ notað í eintölu og ekkert vikið að skiptingu hennar milli viðtakenda. Það styður þessa ályktun að viðtakendum er falið að annast uppgjör hennar sín á milli. Af þeirri ástæðu var það ekki í ósamræmi við umræddar ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins þótt einn viðtakandi, Seðlabanki Íslands, tæki við greiðslu fyrir hönd þeirra allra. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins hvort eða hvernig samráð hafi verið haft milli viðtakendanna fyrir móttöku Seðlabankans á greiðslunni, en ekki verður ráðið af gögnum málsins að Byr sparisjóður eða sóknaraðili hafi mótmælt þessum hætti á afhendingu fyrr en við munnlegan málflutning þessa máls. Þessari málsástæðu var mótmælt sem of seint fram kominni af lögmanni varnaraðila. Að mati dómsins er þessi málsástæða sóknaraðila of seint fram komin, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og kemur hún því ekki til álita í málinu.

Samkvæmt því sem að framan er rakið, hefur varnaraðili þegar réttilega afhent þá fjármuni sem krafa sóknaraðila tekur til. Ekki verður ráðið af gögnum málsins, að sóknaraðili, eða forveri hans, hafi krafið Seðlabanka Íslands, eða eftir atvikum Arion banka hf., um uppgjör greiðslunnar. Þykir sóknaraðili því ekki eiga kröfu á hendur varnaraðila og verður kröfum hans í málinu hafnað.

Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir, eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins, vera hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

Barbara Björnsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfum sóknaraðila, Byrs hf., á hendur varnaraðila, SPB hf., er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað.