Hæstiréttur íslands
Mál nr. 692/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. nóvember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 1. nóvember 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 8. nóvember 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og honum ekki gert að sæta einangrun meðan á því stendur.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 1. nóvember 2017.
Sóknaraðili, lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, krefst þess að varnaraðili, X, kt. [...], [...], [...], verði úrskurðaður í gæsluvarðhald í sjö daga eða til miðvikudagsins 8. nóvember næstkomandi, kl. 16:00. Um lagaheimild er vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þá er þess krafist að varnaraðili sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvistinni stendur samkvæmt b lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga.
Varnaraðili krefst þess að kröfunni verði hafnað, en til vara að varðhaldi verði markaður skemmri tími en krafist er.
Aðfaranótt þriðjudagsins 31. október var brotaþoli, A, stunginn í bak og vinstra megin í brjóstkassa. Að því er hann segir hafði hann samband við varnaraðila til að kaupa af honum fíkniefni. Ákváðu þeir að hittast við [...]. Fór brotaþoli þangað og hitti varnaraðila þar fyrir. Segir brotaþoli að á eftir varnaraðila hafi komið hávaxinn maður, svartklæddur með grímu. Annar maður hafi komið að sunnan. Grímumaður hélt á hnífi og maðurinn sem að sunnan kom á eggvopni. Brotaþoli dró upp hníf og segir að þá hafi sá sem að sunnan kom stungið í hann að framan. Hann hafi lagt á flótta en fengið hníf í bakið á flóttanum. Síðan hafi hann fallið í götuna og grímumaður hoppað ofan á honum og slegið hann með kylfu. Brotaþoli hafi náð að sparka í hreðjar grímumanns, sem hafi farið eftir það.
Varnaraðili kannast við að hafa hitt brotaþola við [...] og segir að þá hafi tveir menn skyndilega birst út úr myrkrinu og ráðist á brotaþola.
Sóknaraðili segir að meintir samverkamenn varnaraðila hafi verið handteknir síðdegis í gær.
Samkvæmt framansögðu beinist rökstuddur grunur að varnaraðila um að hafa skipulagt verknað sem varðað getur fangelsisrefsingu. Svo sem sóknaraðili segir er rannsókn málsins á frumstigi og líkur á að varnaraðili geti torveldað hana gangi hann laus á því stigi, til dæmis með því að samræma framburð við aðra sökunauta, afmá ummerki eftir brot og fleira. Eru skilyrði a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 því uppfyllt. Krafan þykir ekki úr hófi fram varðandi varðhaldstímann og verður hún tekin til greina óbreytt. Jafnframt verður fallist á að varnaraðili sæti einangrun í varðhaldinu.
Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 8. nóvember nk. kl. 16:00 og einangrun í varðhaldinu.