Hæstiréttur íslands

Mál nr. 291/2004


Lykilorð

  • Veðréttindi
  • Tryggingarbréf
  • Sýkna að svo stöddu


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. desember 2004.

Nr. 291/2004.

Jóhannes H. Steingrímsson

(Þorbjörg Inga Jónsdóttir hrl.)

gegn

Sparisjóði Hafnarfjarðar

(Valgarður Sigurðsson hrl.)

 

Veðréttindi. Tryggingarbréf. Sýkna að svo stöddu.

J keypti íbúðarhúsnæði af B ehf., en á eigninni hvíldu tvö tryggingarbréf sem B ehf. hafði gefið út til SH. Skömmu eftir gerð kaupsamningsins gaf SH út yfirlýsingu þess efnis að SH myndi aflétta áhvílandi veðskuldum á fasteigninni í takt við innborganir samkvæmt kaupsamningnum og myndi „aflétta öllum sínum skuldum“ þegar allar greiðslur hefðu borist inn á nánar tiltekinn sparisjóðsreikning í eigu SH. Talið var að  yfirlýsinguna bæri að túlka svo að SH væri skylt að aflétta veðinu þegar J hefði að fullu efnt kaupsamninginn að teknu tilliti til efnda B ehf. á skyldum sínum samkvæmt honum. J taldi sig hafa efnt kaupsamninginn að fullu að teknu tilliti til bótakröfu sem hann taldi sig hafa öðlast á hendur B ehf. vegna viðskiptanna. B ehf. var úrskurðar gjaldþrota 21. febrúar 2003 og lýsti J kröfu sinni í búið 12. mars sama árs. Þar sem afstaða skiptastjóra til kröfunnar lá ekki fyrir var SH sýknaður að svo stöddu af kröfu J.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. júlí 2004. Hann krefst þess að stefnda verði gert skylt að aflýsa tryggingarbréfum nr. 3123 og nr. 3124, útgefnum 5. febrúar 1998 af Byggðaverki ehf. til stefnda, hvoru um sig að fjárhæð 2.000.000 krónur, tryggðum með fyrsta veðrétti í Básbryggju 47 í Reykjavík. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málavöxtum er rétt lýst í hinum áfrýjaða dómi að öðru leyti en því, að það mun hafa verið við undirskrift kaupsamnings 17. janúar 2000, sem áfrýjandi greiddi 500.000 krónur inn á kaupverð eignarinnar en ekki 17. febrúar það ár, svo sem sagt er í héraðsdómi. Þar er rakinn ágreiningur aðila um túlkun á yfirlýsingu stefnda 7. mars 2000 um að hann muni aflétta áhvílandi veðskuldum á umræddri fasteign „í takt við innborganir skv. kaupsamningi“ áfrýjanda og Byggðaverks ehf. og „þegar allar greiðslur hafa borist“ inn á tilgreindan sparisjóðsreikning hjá stefnda muni stefndi „aflétta öllum sínum skuldum.“ Í ljósi óskýrs orðalags yfirlýsingarinnar og þess að áfrýjandi er einstaklingur en stefndi bankastofnun verður yfirlýsing stefnda ekki túlkuð á annan veg en að honum hafi verið skylt að aflétta veðinu þegar áfrýjandi hefði að fullu efnt framangreindan kaupsamning af sinni hálfu að teknu tilliti til efnda Byggðaverks ehf. á skyldum sínum samkvæmt honum, sbr. dóm Hæstaréttar 30. september 2004 í máli nr. 87/2004. Eins og fram kemur í héraðsdómi hefur áfrýjandi talið sig hafa efnt kaupsamninginn að fullu að teknu tilliti til bótakröfu sem hann telur sig hafa öðlast á hendur Byggðaverki ehf. vegna viðskiptanna. Það félag var úrskurðað gjaldþrota 21. febrúar 2003 og lýsti áfrýjandi skaðabótakröfu sinni í búið 12. mars 2003. Afstaða skiptastjóra til kröfunnar liggur ekki fyrir. Ekki verður lagður dómur á bótakröfu þessa án þess að þrotabúið eigi aðild að máli. Með því að afstaða þess til kröfunnar liggur enn ekki fyrir er ekki tímabært leysa úr því hvort áfrýjandi telst hafa efnt kaupsamninginn af sinni hálfu. Samkvæmt þessu ber að sýkna stefnda að svo stöddu af kröfu áfrýjanda, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Stefndi, Sparisjóður Hafnarfjarðar, skal að svo stöddu vera sýkn af kröfu áfrýjanda, Jóhannesar H. Steingrímssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 27. apríl 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 30. mars sl., var höfðað 16. desember 2003.

Stefnandi er Jóhannes Steingrímsson, Básbryggju 47 í Reykjavík.

Stefndi er Sparisjóður Hafnarfjarðar, Strandgötu 8-10 í Hafnarfirði.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði með dómi gert skylt að aflýsa neðangreindum tveimur veðbréfum af fasteigninni Básbryggju 47 í Reykjavík, fastanr. 223-9027:

Annars vegar tryggingarbréfi nr. 3123, útgefnu þann 5. febrúar 1998 af Byggðaverki ehf. til stefnda, Sparisjóðs Hafnarfjarðar, að fjárhæð kr. 2.000.000 til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuldum Byggðaverks ehf. við stefnda, tryggðu með 1. veðrétti í fasteigninni Básbryggju 47 í Reykjavík.

Hins vegar tryggingarbréfi nr. 3124, útgefnu þann 5. febrúar 1998 af Byggðaverki ehf. til stefnda, Sparisjóðs Hafnarfjarðar, að fjárhæð kr. 2.000.000 til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuldum Byggðaverks ehf. við stefnda, tryggðu með 1. veðrétti í fasteigninni Básbryggju 47 í Reykjavík.

Af hálfu stefnanda er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst alfarið sýknu af dómkröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I.

Þann 10. maí 1999 gerði stefnandi Byggðaverki ehf. tilboð í raðhús að Básbryggju 47 í Reykjavík, sem Byggðaverk ehf. var með í byggingu. Í tilboðinu var kaupverð tilgreint 13.700.000 krónur. Byggðaverk ehf. samþykkti kauptilboðið þann 11. maí s. á. og voru þar með komin á kaup milli þessara aðila. Kaupsamningur var ekki undirritaður fyrr en 17. janúar 2000. Umsamið kaupverð var 13.700.000. Var svo um samið í kaupsamningi að kaupverðið skyldi greiða þannig:

1. Við undirritun kaupsamnings                                              500.000 krónur

2. Fyrir 28.02.2000                                                                      7.500.000 krónur

3. Hinn 1. apríl 2000, þ. e. við afsal eða lokafrágang            5.700.000 krónur.

Er kaupsamningur var undirritaður hvíldu á 1.-5. veðrétti í fasteignunum að Básbryggju 23-47 óverðtryggð tryggingarbréf, útgefin af Byggðaverki ehf., upp­haflega að fjárhæð 254.000.000 krónur. Þann 17. febrúar 2000 leysti stefndi, sem handhafi þessara tryggingarbréfa, fasteign stefnanda að Básbryggju 47 úr veðböndum að undanskyldum þeim tveimur tryggingarbréfum er mál þetta varðar.

Með yfirlýsingu dagsettri 7. mars 2000 lýsir stefndi því yfir að hann muni aflétta áhvílandi veðskuldum á fasteigninni Básbryggju 47, íb. 0101 í Reykjavík í takt við innborganir samkvæmt kaupsamningi stefnanda og Byggðaverks ehf., dagsettum 17. janúar 2000 og þegar allar greiðslur hafi borist inn á sparisjóðsreikning nr. 1101-05-400228 muni stefndi aflétta öllum sínum skuldum. Stefnandi kveðst hafa skilið yfirlýsinguna svo að fjárhæð áhvílandi veðskulda lækkaði í samræmi við fjárhæð innborgana inn á kaupverðið.

Samkvæmt samkomulagi stefnanda og Byggðaverks ehf. innti stefnandi kaup­samningsgreiðslur af hendi til fasteignasölunnar Borga sem ráðstafaði þeim til stefnda. Stefnandi greiddi 500.000 krónur þann 17. febrúar 2000, 7.500.000 krónur þann 3. mars 2000, 2.000.000 krónur þann 11. júlí 2000 og 2.200.000 krónur þann 29. nóvember 2001. Með yfirlýsingu dagsettri 16. október 2002 lýsti stefnandi yfir skuldajöfnuði við eftirstöðvar kaupverðsins, 1.500.000 krónur með skaðabótakröfu sem hann taldi sig eiga á á hendur Byggðaverki ehf.

Samkvæmt kaupsamningi skyldi stefnanda afhent fasteignin þann 1. apríl 2000. Stefnandi kveður það ekki hafa gengið eftir og hafi hann fyrst getað farið að búa á eigninni í byrjun nóvember sama ár og hafi framkvæmdum þá ekki verið lokið af hálfu seljanda. Af þessum sökum hafi stefnandi gert greiðslukröfu á seljanda þann 16. september 2000 svo og vegna affalla af húsbréfum og hafi hann jafnframt ítrekað að ýmsum verkþáttum væri ólokið. Þann 21. janúar 2001 hafi stefnandi fengið boðun í afsal frá fasteignasölunni og þá leitað til lögmanns þar sem hann hafi talið frágangi eignarinnar ólokið og því ekki komið að afsalsgreiðslu. Lögmaður stefnanda krafði Byggðaverk ehf. um lokafrágang með bréfi dagsettu 23. mars 2001 og óskaði jafnframt eftir viðræðum um skaðabótakröfur vegna vanefnda. Á árinu 2001 kveður stefnandi samninga hafa verið reynda án þess að niðurstaða fengist. Til að liðka fyrir sáttum hafi stefnandi þann 29. nóvember 2001 greitt til fasteignasölunnar 2.200.000 krónur umfram skyldu af eftirstöðvum kaupverðsins, en ekki hafi hafi verið gengið frá samkomulagi vegna krafna hans. Með bréfi lögmanns stefnanda dagsettu 16. október 2002 var lýst yfir skuldajöfnuði við Byggðaverk ehf. vegna skaðabótakröfu stefnanda og bárust stefnanda engin mótmæli við þeirri yfirlýsingu.

Þann 21. febrúar 2003 var bú Byggðaverks ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Stefnandi lýsti sem búskröfu í þrotabúið kröfu um skaðabætur vegna vanefnda Byggðaverks ehf. á kaupsamningi aðila um Básbryggju 47, alls að fjárhæð 3.498.585 krónur. Stefnandi kveður skiptastjóra ekki hafa tekið endanlega afstöðu til kröfunnar.

Að kröfu stefnanda var Freyr Jóhannesson byggingatæknifræðingur dóm­kvaddur til að meta frágang á eign stefnanda. Hann skilaði matsgerð dagsettri 24. september 2003. Niðurstaða matsmanns var að gera þyrfti endurbætur á íbúð stefnanda sem kostuðu 1.042.300 krónum vegna ófullnægjandi frágangs af hálfu Byggðaverks ehf. Stefnandi kveðst hafa verið búinn að láta vinna á eigin kostnað hluta af úrbótum á eigninni til að fyrirbyggja skemmdir og hafi því ekki verið unnt að óska mats á öllu því tjóni er hann varð fyrir vegna vanefnda Byggðaverks ehf.

Stefnandi kveður bæði stefnda og skiptastjóra Byggðaverks ehf. hafa verið gefinn kostur á að vera viðstaddir matið og koma að athugasemdum sínum auk þess sem báðir hafi verið tilgreindir sem matsþolar. Þá hafi lögmaður stefnanda sent lögmanni stefnda og skiptastjóra erindi þann 15. október 2003 ásamt eintaki af mats­gerðinni með beiðni um að kröfugerð stefnanda vegna vanefnda Byggðaverks ehf. yrði tekin til greina og veðkröfu stefnda á eign stefnanda þar með aflýst. Þessari kröfu hafi lögmaður stefnda alfarið hafnað með bréfi 20. október 2003 og tekið fram að nauðungarsölu yrði óskað á eigninni án tafar. Stefnandi kveður skiptastjóra hafa boðið sér afsal fyrir eigninni með athugasemd um áhvílandi veðrétti stefnda.

Í greinargerð stefnda er m.a. rakið að stefndi hafi veitt Byggðaverki ehf. lána­fyrirgreiðslu vegna framkvæmdanna við Básbryggju í Reykjavík. Hafi félaginu verið heimilað að yfirdraga reikning sinn hjá stefnda í samræmi við framvindu verksins og verðmæti þess. Til tryggingar kröfum stefnda hafi verið gefinn út fjöldi tryggingar­bréfa, samtals að fjárhæð 254.000.000 krónur sem hvíldu á öllum eignunum, þ.á.m. á eign stefnanda. Við kaup stefnanda á eign sinni hafi hann að sjálfsögðu þarfnast þess að fá tryggingu fyrir því að tryggingarbréfunum yrði aflétt þegar kaupverðið væri að fullu greitt. Þessu hafi stefndi lofað og í þeim tilgangi aflétt öllum tryggingarbréfum sínum nema þeim tveimur er enn hvíla á eign stefnda, hvoru að fjárhæð 2.000.000 krónur. Það hafi verið gert að beiðni fasteignasölunnar Borga. Í kjölfar þess, eða þann 7. mars 2000, hafi stefndi gefið frá sér skriflega yfirlýsingu gagnvart stefnanda sem kaupanda eignarinnar, þar sem hann skuldbatt sig til þess að aflétta þessum tveimur tryggingarbréfum þegar kaupverðið hefði verið að fullu greitt. Skuldbinding þessi hafi verið án undantekninga fyrir stefnda og hafi honum borið skilyrðislaust að aflétta bréfum sínum í takt við innborganir, eins og í yfirlýsingunni segir og alfarið þegar kaupverðið hefði verið að fullu greitt inn á sparisjóðsreikning nr. 1101-05-400228, sem stofnaður hafði verið sérstaklega um þessa eign, án tillits til þess hver staðan á skuldum Byggðaverks ehf. var gagnvart stefnda. Stefnda hafi verið gerð sérstök grein fyrir þessari stöðu mála við sölu eignarinnar sbr. ákvæði í kaupsamningi. Stefnanda hafi því verið ljóst við undirritun kaupsamningsins að öllum kaupsamningsgreiðslum var ávísað til stefnda til að tryggja að viðskiptin gætu gengið eftir í samræmi við ætlan aðila og hagsmunir stefnanda sem kaupanda þannig tryggðir. Ávísunin hafi falið í sér að kaupsamningsgreiðslum var með óafturtækum hætti ráðstafað til greiðslu á þeim skuldum sem tryggðar voru með veði í eign stefnanda. Tilgangur hennar var því að gæta hagsmuna stefnanda að þessu leyti um leið og hún þjónaði hagsmunum stefnda. Stefndi kveður skyldu til að aflétta tryggingum sínu af fasteigninni ekki stofnast fyrr en allt kaupaverðið eins og það er tilgreint í kaupsamningi hafi verið greitt til stefnda. Það hafi ekki verið gert.

Við aðalmeðferð málsins komu fyrir dóm og gáfu munnlegar skýrslur stefnandi og vitnið Ægir Breiðfjörð löggiltur fasteignasali.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfur sínar í fyrsta lagi á því að stefndi hafi vanefnt bindandi samkomulag milli aðila um aflýsingu á þeim veðbréfum er í stefnu getur. Stefnandi hafi á hinn bóginn að fullu efnt samkomulagið fyrir sitt leyti og eigi hann því rétt á að fá aðfararhæfan dóm til að knýja stefnda til efnda.

Þá byggir stefnandi á því að á honum hvíli engin greiðsluskylda vegna þeirra veðbréfa er á fasteign hans hvíla. Hann hafi hvorki átt þátt í að afla veðsins, né notið góðs af þeim lánum sem veðbréfin áttu að tryggja. Þá séu veðbréfin til tryggingar skuldum sem honum séu óviðkomandi og eigi því ekki að hvíla á eign hans eftir að hann hefur staðið að fullu við skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi.

Þá byggir stefnandi á því að samkvæmt kaupsamningi hans og Byggðaverks ehf. hafi verið samið um að fjárhæð áhvílandi veðskulda í eigu stefnda skyldi lækka í samræmi við innborganir stefnanda á kaupverði. Eftir undirritun kaupsamningsins hafi stefnandi átt eftir að greiða 13.200.000 krónur af kaupverðinu og þar af hafi hann nú greitt alls 11.700.000 krónur. Stefnandi byggir á því að sú fjárhæð hafi átt að lækka áhvílandi veðskuldir sem voru honum óviðkomandi, krónu á móti krónu. Þar sem einungis hafi átt að vera á eigninni áhvílandi veðskuldir frá seljanda eftir frágang kaupsamnings að fjárhæð 4.000.000 krónur, hafi innborganir stefnanda sem séu miklum mun hærri átt að leiða til aflýsingar beggja bréfa stefnda að fullu.

Þá byggir stefnandi á því að aðeins megi líta til höfuðstóls veðskuldabréfanna, veðréttur stefnda eigi að miðast við hann en ekki aðrar ótilgreindar fjárhæðir. Þar sem stefnandi hafi eftir kaupsamninginn greitt nánast tvöfalda þá upphæð sem hafi runnið beint til stefnda eigi hann rétt á að viðkomandi veðskuldum verði aflétt.

Þá byggir stefnandi á því að með yfirlýsingu sinni dagsettri 7. mars 2000 hafi stefndi skuldbundið sig sérstaklega til að lækka höfuðstól áhvílandi veðskulda í jöfnu hlutfalli við innborganir á kaupverð fasteignarinnar. Við gerð yfirlýsingarinnar hafi hvílt á eigninni tvö jafnhá veðskuldabréf, alls að fjárhæð 4.000.000 krónur og eftir að yfirlýsingin var gefin út hafi stefnandi greitt af kaupverði eignarinnar 2.000.000 krónur þann 11. júlí 2000 og 2.200.000 krónur þann 29. nóvember 2001. Þannig hafi stefnandi greitt meira en nam höfuðstól hinna áhvílandi veðbréfa eftir að stefndi hafi skuldbundið sig til að aflýsa þeim við innborganir.

Til vara byggir stefnandi á því að með skuldajöfnun á skaðabótakröfu sinni vegna vanefnda seljanda fasteignarinnar hafi greiðsluskylda hans á eftirstöðvum af kaupverðinu fallið niður. Vegna eðlis kaupsamningsins og viðskipta seljanda við stefnda beri stefnda að taka tillit til gagnkrafa sem stefnandi kunni að eiga á hendur seljanda. Gagnkrafan hafi legið fyrir nánast frá upphafi og hafi hún nú að miklu leyti verið rökstudd með fyrirliggjandi matsgerð. Stefnda beri því skylda til að taka til greina skaðabótarétt stefnanda gagnvart seljanda og að skaðabótakrafan lækki greiðslur stefnanda.

Stefnandi kveður skaðabótakröfuna vera alls að fjárhæð 3.498.585 krónur og byggist hún á tjóni stefnanda vegna vanefnda seljanda s.s. afhendingardrætti og galla í eigninni. Krafan sé að hluta byggð á framlagðri matsgerð.

Þá byggir stefnandi á því að gjalddagi lokagreiðslu hans samkvæmt kaup­samningi sé ekki kominn þar sem ekki sé búið að ljúka lokafrágangi á eigninni, sbr. liður 3 A í kaupsamningi. Vegna gjaldþrots seljanda verði ekki um frekari fram­kvæmdir af hans hálfu að ræða og geti seljandi þar af leiðandi ekki lengur innt af hendi skyldur samkvæmt kaupsamningi er skapi honum rétt á umsaminni afsals­greiðslu. Stefnandi eigi því ótvíræðan rétt á afsali án frekari greiðslu svo og aflýsingu veðbréfa stefnda sem séu honum óviðkomandi.

Að síðustu byggir stefnandi á því að tómlæti seljanda við að innheimta eftirstöðvar kaupverðsins leiði til þess að hugsanlega krafa um greiðslu þeirra sé niður fallin, hvort sem sú krafa sé í eigu stefnda eða þrotabús Byggðaverks ehf. Þá hafi yfir­lýsingu stefnanda um skuldajöfnuð á móti eftirstöðvum kaupverðs, dagsettri 16. október 2002, ekki verið mótmælt af hálfu Byggðaverks ehf. og verði því að leggja til grundvallar að hún hafi verið samþykkt áður en bú Byggðaverks ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna samninga-og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og réttar efndir og reglna um kaup og sölu fasteigna og skaðabótarétt kaupanda vegna vanefnda seljanda. Málskostnaðarkröfu byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála og kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á ákvæðum laga nr. 50/1980.

III.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Af hálfu stefnda er sýknukrafa í fyrsta lagi byggð á því að stefndi eigi ekki aðild að þeim viðskiptum er grundvalla kröfu stefnanda, hvorki beint né fyrir framsal kröfuréttinda á grundvelli kaupsamnings stefnanda við Byggðaverk ehf. Dómkröfur stefnanda séu í raun um bætur vegna meintra galla á hinni seldu íbúð og vegna afhendingardráttar seljanda. Stefndi hafi ekki verið aðili að löggerningnum sem mál þetta varðar og ekki ábyrgst hann á nokkurn hátt og hafi ekki stöðu seljanda. Hann hafi ekki lofað stefnda afhendingu íbúðarinnar á réttum tíma eða valdið venefndum hans að öðru leyti.  Hann fái því ekki séð á hverju aðild hans að bótamáli vegna þessara meintu vanefnda seljanda geti byggst. Aðildarskortur hans að málinu leiði til sýknu hans af öllum dómkröfum, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Af hálfu stefnda er einnig byggt á því að vanefndir Byggðaverks ehf. geti ekki raskað veðbundnum hagsmunum stefnda í fasteign stefnanda. Það verði ekki gert nema með samþykki hans. Þá myndi mögulegt samþykki skiptastjóra þrotabús Byggðaverks ehf. á vanefndakröfum stefnanda heldur ekki breyta neinu í þessu efni.

Af hálfu stefnda er ennfremur byggt á því að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu bótaskyldu tjóni og alls ekki vegna afhendingardráttar seljanda. Samkvæmt almennum reglum bótaréttarins beri stefnandi sönnunarbyrðina fyrir tjóni sínu og fjárhæð þess. Ekkert liggi fyrir í málinu um umfang þess meinta tjóns, sem stefnandi krefst bóta fyrir, umfram það sem getur í matsgerð, hvorki vegna smíðagalla á íbúðinni eða að stefnandi hafi þurft að greiða leigu eða hafa annan kostnað af afhendingardrætti seljanda og sé því mótmælt að svo hafi verið. Beri því þegar af þeirri ástæðu að lækka bótakröfur stefnanda.

Bætur vegna afleidds tjóns eins og afhendingardráttar vegna vanefnda samnings séu almennt ekki dæmdar nema fyrir liggi skaðabótaskylda. Ekki verði séð að skaðabótaskylda hafi verið sönnuð. Ekki komi til greina að dæma stefnanda bætur að álitum vegna afnotamissis enda samræmdis það ekki dómaframkvæmd.

Á heildina litið telur stefndi að skortur á sönnun fyrir því að bótaskilyrðum sé fullnægt og fyrir tjóni stefnanda og fjárhæð þess, leiði til þess að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda.

Um lagarök vísar stefndi til 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála varðandi aðild og áhrif aðildarskorts. Einnig er vísað til bótareglna kauparéttarins, einkum 42. gr. kaupalaga nr. 39/1922, svo og almennra reglna bótaréttarins um bótaskilyrði, sönnun þeirra, um sönnun tjóns og fjárhæð þess. Málskostnaðarkröfu sína byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. einkamálalaga.

IV.

Niðurstaða.

Eins og að framan greinir fjármagnaði stefndi byggingarframkvæmdir Byggðaverks ehf. að Básbryggju í Reykjavík með þeim hætti að Byggðaverk ehf. fékk heimild til að yfirdraga tékkareikning sinn hjá stefnda í samræmi við framvindu verksins og verðmæti þess. Til tryggingar kröfum stefnda voru gefin út tryggingarbréf með veði í fasteignunum, m.a. fasteign stefnanda. Í kaupsamningum, m.a. kaup­samningi stefnanda, ávísaði Byggðaverk ehf. kaupsamningsgreiðslum til stefnda og skuldbatt sig jafnframt til að aflétta tryggingarbréfum stefnda í samræmi við ákvæði kaupsamnings. Stefndi gaf út einhliða óskilyrta yfirlýsingu í tengslum við kaup stefnanda þar sem því var lofað að veði samkvæmt þeim tveimur tryggingarbréfum sem mál þetta varðar yrði að öllu leyti aflétt þegar stefnandi hefði greitt allar greiðslur samkvæmt kaupsamningi hans og Byggðaverks ehf. inn á reikning stefnda.

Af hálfu stefnanda hefur ekki verið sýnt fram á að stefndi hafi vanefnt skyldur sínar samkvæmt yfirlýsingu sinni. Skyldan var háð greiðslu stefnanda á öllu kaupverðinu. Ekki er fallist á þau sjónarmið stefnanda að stefnda hafi borið skylda til afléttingar í tengslum við innborganir stefnanda og að þá hafi króna átt að koma á móti krónu.

Ekki er á það fallist að stefndi hafi með yfirlýsingu sinni og með því að fá kaupsamningsgreiðslum ávísað til sín gerst aðili að kaupsamningi stefnanda og Byggðaverks ehf. Stefndi tók hvorki á sig ábyrgð á efndum kaupsamningsins né afleiðingum af hugsanlegum vanefndum Byggðaverks ehf. Þá verður ekki talið að stefndi hafi fengið kröfur Byggðaverks ehf. á hendur stefnanda framseldar í skilningi kröfuréttar þannig að hann þurfi þar af leiðandi að þola takmarkanir á kröfum sínum í samræmi við reglur kröfuréttar vegna hugsanlegra vanefnda Byggðaverks ehf. Krafa stefnda byggist á veðrétti til tryggingar skulda Byggðaverks ehf. og stendur sá veð­réttur óhaggaður meðan Byggðaverk ehf. skuldar stefnda eða stefnandi hefur ekki greitt kaupverðið að fullu inn á reikning stefnda.

Ekki stoðar stefnanda að bera fyrir sig galla í hinni seldu eign eða tjón vegna afhendingardráttar af hálfu Byggðaverks ehf. Þær vanefndir Byggðaverks ehf. tak­marka á engan hátt veðréttindi stefnda, en kunna á hinn bóginn hugsanlega að varða Byggðaverk ehf. bótum eða skyldu til að veita stefnanda afslátt af kaupverði. Það hefði á hinn bóginn engin áhrif á veðrétt stefnda eða skyldu hans til að aflétta veðinu af eign stefnanda.

Stefnandi hefur haldið eftir 1.500.000 krónum af umsömdum kaupsamnings­greiðslum vegna vanefnda Byggðaverks ehf. Hann byggir kröfur sínar m.a. á hendur stefnda á þeim vanefndum. Eins og áður getur var stefndi ekki aðili að kaupsamningi stefnanda og Byggðaverks ehf. og fékk ekki kröfur á hendur stefnanda framseldar sem slíkar. Því verður að telja að stefndi eigi ekki aðild að máli þessu í þeim búningi sem það er höfðað af hálfu stefnanda. Aðildarskortur leiðir til sýknu og með vísan til 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber þegar af framangreindum ástæðum að sýkna stefnda af kröfum stefnanda, enda hefur stefnandi ekki fært fram rök eða málsástæður er leiði til annarrar niðurstöðu.

Eftir úrslitum málsins ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður dóminn upp.

D ó m s o r ð :

Stefndi, Sparisjóður Hafnarfjarðar, er sýkn af kröfum stefnanda, Jóhannesar Steingrímssonar í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað.