Hæstiréttur íslands
Mál nr. 313/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
|
|
Þriðjudaginn 13. júní 2006. |
|
Nr. 313/2006. |
Ragnar Orri Benediktsson (Sigmundur Hannesson hrl.) gegn Símanum hf. (Andri Árnason hrl.)
|
Kærumál. Gjaldþrotaskipti.
Úrskurður héraðsdóms um að bú R væri tekið til gjaldþrotaskipta var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. júní 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. maí 2006, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu varnaraðila verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að henni verði hafnað. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Ragnar Orri Benediktsson, greiði varnaraðila, Símanum hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. maí 2006.
Mál þetta var tekið til úrskurðar 3. maí 2006.
Sóknaraðili er Síminn hf. og gerir hann þá kröfu að bú varnaraðila, Ragnars Orra Benediktssonar, verði tekið til gjaldþrotaskipta. Málskostnaðar er einnig krafist.
Varnaraðili, Ragnar Orri Benediktsson, gerir þá kröfu aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að synjað verði um kröfu sóknaraðila um töku bús hans til gjaldþrotaskipta. Þá er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað.
I.
Með bréfi sóknaraðila, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 10. janúar 2006, krafðist sóknaraðili þess að bú varnaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Við þingfestingu málsins 2. febrúar 2006 var mætt af hálfu varnaraðila og kröfu sóknaraðila mótmælt. Vegna þessa ágreinings var ákveðinn rekstur þessa máls.
Meðfylgjandi gjaldþrotaskiptabeiðni sóknaraðila er dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 23. júní 2004 í máli ákæruvaldsins gegn varnaraðila og fleirum svo og dómur Hæstaréttar Íslands frá 28. apríl 2005 í málinu nr. 347/2004 en varnaraðili áfrýjaði dómi héraðsdóms. Með dómi Hæstaréttar var varnaraðili sakfelldur fyrir brot gegn 4. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og dæmdur í þriggja mánaða fangelsi.
Um refsimat segir meðal annars í dómi Hæstaréttar: „Þegar allt framangreint er virt þykir ekki verða fullyrt að ákærði Ragnar Orri hafi haft skýra mynd af því sem fram fór og þannig haft ásetning til að hylma yfir með fjárdráttarbroti dómfellda Sveinbjörns. Þegar hins vegar er litið til þess hversu verulegar fjárhæðir runnu um hendur ákærða frá dómfellda, sem hann vissi að voru frá Landssímanum komnar, hefði það ekki átt að dyljast honum að atferli dómfellda var ekki eðlilegt og það jafnvel þótt hann hafi ekki í upphafi verið vanur viðskiptum. Það verður því að meta það honum til stórfellds gáleysis að taka við þessum fjárhæðum og fara með þær á þann hátt sem hann gerði. Varðar þessi háttsemi hans við 4. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga.“
Um sakarefnið segir meðal annars í dómi Hæstaréttar að það varði „ ... í fyrsta lagi viðtöku og notkun á mánaðarlegum greiðslum á tímabilinu 5. júlí 2001 til 7. júní 2002. Fjárhæð hverrar greiðslu nam 300.000 krónum og voru þær alls 3.300.000 krónur. Í annan stað er um að ræða framsal á 15 tékkum samtals að fjárhæð 22.216.315 krónur á tímabilinu 31. ágúst 2001 til 28. október 2002. Greiðslur eftir framsal þessara tékka runnu inn á reikninga einkahlutafélaganna Hanans og Lífstíls, að frátalinni einni greiðslu, sem fór inn á reikning ákærða Kristjáns Ragnars, og tveimur inn á reikninga annarra manna. Loks varðar sakarefnið viðtöku á tveimur greiðslum, sem runnu inn á reikning einkahlutafélagsins Hafskips, félags í eigu ákærða Ragnars Orra. Námu þær greiðslur samtals 5.964.632 krónum og fóru fram í tvennu lagi í maí 2003, skömmu áður en fjárdráttur dómfellda Sveinbjörns uppgötvaðist.“
Með fyrrnefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var bótakröfu sóknaraðila vísað frá dómi með vísan til 5. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991.
Þá hefur verið lagt fram í málinu endurrit fjárnámsgerðar sem fram fór hjá varnaraðila 29. nóvember 2005 að kröfu Húsasmiðjunnar hf. til tryggingar kröfu að fjárhæð 215.232 krónum. Við fjárnámið mætti faðir varnaraðila og lýst yfir eignaleysi varnaraðila. Var gerðinni lokið án árangurs.
II.
Kröfu sína byggir sóknaraðil aðallega á því að félagið eigi skaðabótakröfu á hendur varnaraðila vegna þess fjárhagslega tjóns sem sóknaraðili hafi orðið fyrir vegna brota varnaraðila. Byggir sóknaraðili á því að varnaraðili beri skaðabótaábyrgð samkvæmt almennu skaðabótareglunni sem fyrirsvarsmaður og stjórnandi þeirra einkahlutafélaga sem dregnir fjármunir hafi runnið til. Þá felist tjón sóknaraðila einnig í þeim kostnaði sem félagið hafi orðið fyrir við rannsókn á fjárdrættinum og ráðstöfunum fjármuna. Til vara byggir sóknaraðili á sjónarmiðum um endurheimtu á fé.
Sóknaraðili sundurliðar kröfu sína þannig:
|
Höfuðstóll |
kr. 45.463.405 |
|
Dráttarvextir til 10.6.2006 |
kr. 36.221.947 |
|
Málskostnaður |
kr. 50.000 |
|
Gjaldþrotaskiptakostnaður kr. 3.900 |
kr. 81.739.252 |
Sóknaraðili segir höfuðstól kröfunnar samanstanda af eftirfarandi þáttum:
,,a) Krafa vegna viðtöku og ráðstöfunar skuldarans í eigin þágu á dregnum fjármunum úr sjóðum Landssíma Íslands hf., á alls kr. 3.300.000, árin 2001-2002, sbr. meðf. yfirlit og framangreint.
b) Krafa vegna viðtöku, framsals og ráðstöfunar á dregnum fjármunum úr sjóðum Landssíma Íslands hf., á alls kr. 22.216.315, árin 2001-2002, sbr. meðf. yfirlit og framangreint.
c) Krafa vegna viðtöku og ráðstöfunar skuldarans í eigin þágu og einkahlutafélags hans á dregnum fjármunum úr sjóðum Landssíma Íslands hf., á alls kr. 5.964.632, árið 2003, sbr. meðf. yfirlit og framangreint.
d) Krafa vegna útlagðs kostnaðar, kr. 12.985.419, sem Landssími Íslands hf. hefur hlotið af rakningu fjárdráttarliða og hvert fjármunir runnu, sem fólst í sérhæfðri rannsókn á bókhalds- og tölvukerfum félagsins, sbr. nánar meðf. gögn.
e) Krafa vegna lögmannskostnaðar, kr. 997.040, sem Landssími Íslands hf. hefur hlotið af því að halda fram kröfum félagsins á hendur skuldara, sbr. nánar reikning dags. 3. júní 2004.“
Kröfu sína um dráttarvexti styður sóknaraðili við ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að til þess að geta krafist gjaldþrotaskipta þurfi krafan, sem liggi til grundvallar beiðni kröfuhafa um gjaldþrotaskipti, ekki að vera í ákveðnu lögskipuðu formi. Hún þurfi aðeins að njóta lögverndar. Krafan geti verið lögvarin þó hún sé ekki dæmd. Sóknaraðili þurfi aðeins að leiða nægilegar líkur að því að varnaraðili standi í skuld við sóknaraðila. Sama niðurstaða leiði raunar af 4. mgr. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o. fl. nr. 21/1991 en samkvæmt ákvæðinu sé almennt unnt að krefjast gjaldþrotaskipta enda þótt krafa sé ekki fallin í gjalddaga. Kröfu sóknaraðila hafi ekki verið vísað frá dómi í áðurgreindu ákærumáli vegna þess að kröfurnar hafi ekki notið lögverndar. Frávísunin hafi byggst á 5. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 þar sem það hafi verið mat dómsins að meðferð krafna sóknaraðila hefði orðið til verulegra tafa eða óhagræðis í málinu. Öll skilyrði skaðabótaábyrgðar séu fyrir hendi eins og fram komi í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar.
Til vara sé á því byggt að sóknaraðili eigi endurgreiðslukröfu á hendur varnaraðila vegna umræddrar refsiverðrar háttsemi hans. Fyrir liggi að varnaraðili hafi ráðstafað peningafjárhæð frá sóknaraðila með ólögmætum hætti. Varnaraðili hafi því auðgast á kostnað sóknaraðila án þess að eiga nokkurt tilkall til greiðslunnar.
Sóknaraðili mótmælir þeim sjónarmiðum varnaraðila að sóknaraðili hefði getað takmarkað tjón sitt. Þá mótmælir sóknaraðili einnig þeim sjónarmiðum varnaraðila að nauðsynlegt sé að sóknaraðili eigi kröfu með gjalddaga.
III.
Varnaraðili byggir á því að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. 668/2004 hafi öllum kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila verið vísað frá dómi. Við áfrýjun málsins til Hæstaréttar hafi ákæruvaldið krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms og því hafi skaðabótakrafa sóknaraðila ekki komið til umfjöllunar Hæstaréttar.
Ekkert liggi fyrir í málinu um að sóknaraðili hafi gert tilraun til að innheimta kröfur sínar á hendur varnaraðila. Ekkert liggi fyrir um að sóknaraðili hafi leitast við að takmarka tjón sitt með því til dæmis að reyna innheimtu hjá öðrum en varnaraðila.
Varnaraðili hafi alla tíð alfarið neitað sök og hafnað eindregið bótaskyldu. Sóknaraðili geti því ekki átt lögvarða kröfu á hendur varnaraðila.
Af niðurlagsákvæði 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. verði ráðið að til þess að lánardrottinn geti krafist gjaldþrotaskipta þurfi hann að eiga kröfu á hendur viðkomandi með gjalddaga. Því sé ekki fyrir að fara í þessu tilviki.
IV.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi í málinu nr. S-668/2004 vísað bótakröfu sóknaraðila frá dómi og bótakrafan hafi ekki heldur fengið umfjöllun í Hæstarétti. Frávísun héraðsdóms á bótakröfu sóknaraðila var gerð með vísan til 5. mgr. 172. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og skiptir sú frávísun ekki máli varðandi það álitaefni sem hér er til úrlausnar. Þá verður ekki heldur fallist á að sóknaraðila hafi borið skylda til að reyna innheimtu á kröfu sinni hjá varnaraðila eða reyna innheimtu hjá öðrum en varnaraðila.
Með áðurgreindum dómi Hæstaréttar var varnaraðili sakfelldur fyrir brot gegn 4. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga, nánar tiltekið fyrir að hafa veitt viðtöku fjármunum, dregnum úr sjóðum sóknaraðila, og fyrir að hafa ráðstafað þeim meðal annars í eigin þágu. Sóknaraðili varð fyrir tjóni vegna þessarar háttsemi varnaraðila sem var bæði ólögmæt og saknæm. Meginskilyrði skaðabótaábyrgðar eru því fyrir hendi og því hafið yfir vafa að mati dómsins að sóknaraðili á skaðabótakröfu á hendur varnaraðila.
Vera kann að sjónarmið varnaraðila séu réttmæt að einhverju leyti um að fjárhæð kröfunnar sé umdeilanleg. Það stendur þó ekki í vegi fyrir að krafa sóknaraðila um gjaldþrotaskipti nái fram að ganga enda er það ekki skilyrði að krafan sé lögvarin með gjalddaga.
Ekki þykja efni til að taka frávísunarkröfu varnaraðila til greina en sú krafa hefur ekki verið rökstudd sérstaklega.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið þykir skilyrðum 2. mgr. 1. tl. 65. gr. laga um gjaldþrotaskipti o. fl. nr. 21/1991 fullnægt. Ber því að taka kröfu sóknaraðila til greina en varnaraðili hefur ekki borið fyrir sig að hin árangurslausa fjárnámsgerð gefi ranga mynd af fjárhag hans.
Eftir þessum úrslitum verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða sóknaraðila 100.000 krónur í málskostnað.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Bú varnaraðila, Ragnars Orra Benediktssonar, er tekið til gjaldþrotaskipta.
Varnaraðili greiði sóknaraðila, Símanum hf., 100.000 krónur í málskostnað.