Hæstiréttur íslands

Mál nr. 187/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Skilyrði kæru
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                     

Þriðjudaginn 27. mars 2012.

Nr. 187/2012.

Joshua Reuben David

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

gegn

Kaupþingi banka hf.

(enginn)

Kærumál. Skilyrði kæru. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu J við slit K hf. að fjárhæð 549.347 krónur. Þar sem höfuðstóll kröfunnar var undir áfrýjunarfjárhæð 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., brast skilyrði til kæru í málinu og var því vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. mars 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila við slit varnaraðila. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. „sbr. 3. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991.“ Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu hans að fjárhæð 549.347 krónur verði skipað í réttindaröð við slit varnaraðila samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, en til vara sem kröfu samkvæmt 113. gr. laganna. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með hinum kærða úrskurði var hafnað kröfu sóknaraðila að höfuðstól 549.347 krónur. Samkvæmt 3. málslið 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 verða ekki kærðir úrskurðir héraðsdómara sem fela í sér lokaákvörðun hans um ágreiningsefni, nema fullnægt sé almennum skilyrðum til áfrýjunar dóms í einkamáli. Þegar málið var kært til Hæstaréttar var áfrýjunarfjárhæð samkvæmt 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála 705.325 krónur. Samkvæmt þessu brestur skilyrði til kæru og verður málinu því vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. febrúar 2012.

Mál þetta, sem þingfest var 20. apríl 2011, var tekið til úrskurðar 27. janúar sl.

Sóknaraðili gerði þær kröfur í greinargerð sinni að krafa hans yrði samþykkt eins og henni væri lýst samkvæmt kröfulýsingu, dags. 1. júlí 2009. Jafnframt krafðist hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt mati dómsins. Í tilvitnaðri kröfulýsingu sóknaraðila kemur fram að lýst sé eftirgreindri kröfu á hendur varnaraðila „að fjárhæð kr. 950.420,00 auk dráttarvaxta skv. vaxtalögum, innheimtuþóknun kr. 93.943,00 og kröfulýsingarkostnaði, kr. 12.552,00 + 24,5% vsk. af kröfulýsingarkostnaði kr. 3.075,00, samtals kr. 15.627,00“.

Varnaraðili krafðist þess að kröfum sóknaraðila yrði hafnað og að honum yrði ákveðinn málskostnaður að mati dómsins.

Við upphaf aðalmeðferðar málsins lögðu lögmenn aðila fram bókun um afmörkun á sakarefni málsins og kemur þar fram eftirfarandi: „Aðilar eru sammála um að afmarka ágreining málsins alfarið við orlof sem féll til fyrir 1. maí 2007 og er vegna orlofsáranna 2005 og 2006 og rétthæð kröfu um orlof sem féll til fyrir 1. maí 2007 við slitameðferð varnaraðila samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Aðilar eru jafnframt sammála um að umþrætt fjárhæð málsins sé kr. 549.347.“

Málsatvik

Sóknaraðili hóf störf hjá varnaraðila í desember 2004. Starfaði hann sem sölumaður á viðskiptabankasviði og var á þeim tíma sem hér um ræðir lausráðinn. Var um það samið að sóknaraðila væru greidd laun í samræmi við vinnuframlag auk sölulauna. Á því tímabili sem ágreiningur aðila snýr nú að samanstóðu laun sóknaraðila annars vegar af tímalaunum og hins vegar sölulaunum.

Hinn 9. október 2008 skipaði Fjármálaeftirlitið varnaraðila skilanefnd í samræmi við þágildandi ákvæði 100. gr. a laga nr. 161/2002, eins og þeim hafði verið breytt með 5. gr. laga nr. 128/2008. Í kjölfarið var sóknaraðila sagt upp störfum og hann leystur undan vinnuskyldu. Hinn 24. nóvember 2008 fékk varnaraðili heimild til greiðslustöðvunar og 25. maí 2009 var honum skipuð slitastjórn í samræmi við 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tl. bráðabirgðaákvæðis II sömu laga. Varnaraðili birti í fyrsta sinn innköllun til kröfuhafa í Lögbirtingablaði hinn 30. júní 2009. Lýsti sóknaraðili í kjölfarið kröfu sinni fyrir slitastjórn, innan kröfulýsingarfrests. Slitastjórnin hafnaði kröfunni eins og henni var lýst. Sóknaraðili mótmælti afstöðu varnaraðila og eftir árangurlausan fund aðila í því skyni að jafna ágreining þeirra tilkynnti varnaraðili um breytta afstöðu til kröfunnar sem þó var enn mótmælt af hálfu sóknaraðila. Þar sem ekki tókst að leysa allan ágreining aðila var málinu beint til héraðsdóms, í samræmi við 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Málsástæður og lagarök aðila

Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðila hafi borið, við uppgjör launa við starfslok, að reikna honum og greiða lágmarksorlof af heildarlaunum samkvæmt útgefnum launaseðlum í samræmi við 8. gr. orlofslaga nr. 30/1987, en samkvæmt 4. kafla kjarasamnings VR og SA, sem gerður hafi verið í febrúar 2008, skuli lágmarksorlof vera 10,17%. Slíkt orlof hafi ekki verið greitt af launum sóknaraðila á því tímabili sem hér um ræði, en um sé að ræða orlof sem fallið hafi til fyrir 1. maí 2007, vegna orlofsársins 2006.  Aðilar séu sammála um að hin umdeilda fjárhæð nemi alls 549.347 krónum.

Varnaraðili hafnar því að sóknaraðili eigi kröfu um orlof sem fallið hafi til fyrir 1. maí 2007, eða frá því sóknaraðili hafi hafið störf fyrir varnaraðila í desember 2004, því krafan hafi verið greidd. Sóknaraðili hafi frá ráðningu verið lausráðinn og hafi vinnuframlag hans verið mjög mismunandi milli mánaða. Launafyrirkomulagi hans hafi verið þannig háttað að heildarlaunin hafi falið í sér tímalaun, sölulaun og orlofslaun. Hafi orlofið því verið greitt með launum. Varnaraðili bendi einnig á að eftir að ráðningarsamningur hafi verið gerður við sóknaraðila í apríl 2008 hafi launakjör hans breyst og sóknaraðili þá farið að ávinna sér orlof á yfirstandandi orlofsári, sem fastráðinn starfsmaður varnaraðila, með fastan vinnutíma, vinnuskyldu og föst mánaðarlaun. Samkvæmt þessu sé ljóst að orlofslaun sóknaraðila fyrir tímabilið fyrir maí 2007 hafi verið greidd og sé fullyrðingu sóknaraðila um annað því mótmælt.

Varnaraðili bendi á að framangreint launafyrirkomulag hafi verið viðhaft í rúmt ár, eða allt þar til aðilarnir undirritaðu ráðningarsamning í apríl 2008, án þess að sóknaraðili hafi gert neina athugasemd um að hann ætti inni ógreidd orlofslaun. Hafi sóknaraðili því sýnt af sér tómlæti við að hafa uppi kröfu um ógreitt orlof. Verði að skýra þetta honum í óhag, enda hafi hann staðfest það í verki að heildarlaun á umræddu tímabili fælu í sér orlofslaun.

Framangreint launafyrirkomulag, þegar sóknaraðili hafi verið lausráðinn starfsmaður hjá varnaraðila, hafi verið í fullu samræmi við lög um orlof nr. 30/1987 þar sem hvorki lögin né ákvæði kjarasamnings standi því í vegi að laun feli í sér tímalaun, sölulaun og orlofslaun.

Verði ekki fallist á framangreint telji varnaraðili að 13. gr. laga um orlof leiði til þess að árlegur réttur sóknaraðila til orlofs, sem fallið hafi til fyrir 1. maí 2007, sé fallinn niður. Verði að skilja framangreint lagaákvæði svo að réttur til orlofsgreiðslna falli niður við lok hvers orlofsárs, nema sérstakar ástæður leiði til annars í skilningi 6. gr. laganna. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að slíkar lögmætar ástæður séu fyrir hendi.

Verði á það fallist að sóknaraðili eigi inni ógreitt orlof, sem fallið hafi til fyrir 1. maí 2007, kveðst varnaraðili mótmæla því að orlof frá þeim tíma njóti forgangsréttar við slitameðferð varnaraðila þar sem krafan uppfylli ekki hið ófrávíkjanlega tímaskilyrði sem fram komi í 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Tilvitnað lagaákvæði feli í sér undantekningu frá meginreglu laganna um jafnræði kröfu og beri því að túlka það þröngt.

Niðurstaða

Eins og áður hefur verið rakið snýr ágreiningur aðila nú einungis að því hvort sóknaraðili eigi kröfu á hendur varnaraðila vegna ógreidds orlofs „sem féll til fyrir 1. maí 2007 og er vegna orlofsáranna 2005 og 2006“ og þá hvort sú krafa skuli njóta forgangs við slit varnaraðila skv. 3. tl. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Fyrir liggur að ekki var í gildi neinn ráðningarsamningur á milli aðila á því tímabili sem hér um ræðir, frá því í desember 2004 til 30. apríl 2007. Var sóknaraðili á þeim tíma ráðinn tímabundið til sölustarfa hjá varnaraðila og voru honum greidd út laun mánaðarlega í samræmi við fjölda vinnustunda og umsamið hlutfall af sölu. Heldur varnaraðili því í fyrsta lagi fram að lögbundnar orlofsgreiðslur skv. 1. mgr. 7. gr. laga um orlof nr. 30/1987 hafi verið innifaldar í þeim launum sem sóknaraðili fékk þannig greidd og ekki geti því komið til frekari greiðslna vegna þess. Af fyrirliggjandi launaseðlum sóknaraðila, útgefnum af varnaraðila vegna þessa tímabils, kemur ekkert fram um greiðslu orlofslauna, eins og þó er skylt skv. 2. mgr. tilvitnaðrar 7. gr. Ekkert verður heldur um þetta ráðið af öðrum framlögðum gögnum. Enda þótt vitnið Helena Þórðardóttir, starfsmaður í launadeild varnaraðila, hafi fyrir dómi borið að orlof hafi í slíkum tilvikum verið innifalið, og þá einnig í tilviki sóknaraðila, verður ekki talið að varnaraðila hafi tekist sönnun um að svo hafi verið. Eru því engin efni til annars en að fallast á með sóknaraðila að honum hafi borið að fá greitt orlofsfé til viðbótar umsömdum launum fyrir störf sín á greindu tímabili.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 30/1987 skal orlofi alltaf lokið fyrir lok orlofsársins, en orlofsárið stendur frá 1. maí til 30. apríl ár hvert, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna. Vegna launatímabilsins frá desember 2004 til 30. apríl 2005 átti sóknaraðili því rétt á að nýta sér ótekið orlof, eða fá það greitt, allt til 30. apríl 2006, en vegna launatímabilsins frá 1. maí 2005 til 30. apríl 2006 átti hann rétt á að nýta sér ótekið orlof, eða fá það greitt, allt til 30. apríl 2007. Samkvæmt 13. gr. sömu laga er framsal orlofslauna óheimilt og flutningur þeirra á milli orlofsára einnig óheimill. Er ekki unnt að fallast á það með sóknaraðila að unnt sé, með hliðsjón af forsögu tilvitnaðrar 13. gr. eða lögskýringargögnum með lögum nr. 30/1987 að öðru leyti, að víkja frá fortakslausu ákvæði tilvitnaðrar lagagreinar. Með vísan til þess verður að telja að krafa sóknaraðila til orlofslauna fyrir greint tímabil sé niður fallin. Ber því að hafna kröfu sóknaraðila í máli þessu.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem ákveðst hæfilegur 240.000 krónur.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Joshua Reuben David, að fjárhæð 549.347 krónur,  við slit varnaraðila, Kaupþings banka hf.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 240.000 krónur í málskostnað.