Hæstiréttur íslands

Mál nr. 721/2017

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Súsanna Björg Fróðadóttir saksóknarfulltrúi)
gegn
X (Halldóra Aðalsteinsdóttir hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. nóvember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. nóvember 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 20. nóvember 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og varnaraðila ekki gert að sæta einangrun.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur,

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness, miðvikudaginn 15. nóvember 2017

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, f.d. [...], verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 22. nóvember 2017, kl. 16:00 og að á þeim tíma verði kærðu gert að sæta einangrun.

Kærða mótmælir kröfunni og krefst þess aðallega að kröfu lögreglustjóra verði hafnað, en til vara að vægara úrræðum verði beitt svo sem farbanni.

I

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglu hafi borist tilkynning frá tollgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þann 9. nóvember 2017, um að meðkærði kærðu, Y, hefði verið stöðvaður á tollhliði vegna gruns um að hann kynni að hafa fíkniefni falin í fórum sínum, við komu hingað til lands með flugi [...] frá Barcelona, Spáni. Hafi meðkærði verið færður í leitaraðstöðu tollgæslunnar þar sem leit hafi verið framkvæmd. Við leit hafi fundist 339,31 g af kókaíni sem hann hafði innanklæða í nærfatnaði. Í kjölfarið hafi meðkærði verið handtekinn og færður á lögreglustöð. Kærða hafi jafnframt verið grunuð um að eiga aðild að innflutningi fíkniefnanna þar sem hún hafi ferðast með meðkærða hingað til lands og verið handtekin á sama tíma og meðkærði.

Kærða kvaðst hafa komið fyrst hingað til lands árið 2013 í viðskiptaerindum og þá keypt hótel í samstarfi við nafngreinda konu. Samstarfið hafi ekki gengið eftir og hafi hún komið til landsins í því skyni að innheimta skuld vegna þeirra viðskipta.  Kærða kveðst hafa kynnst meðkærða Y hér á landi, þau eigi í einhverju sambandi og hittist reglulega á Spáni þar sem hann hafi verið að túlka fyrir hana.  Fyrir þessa ferð hafi þau hist á flugvellinum á Barcelona á Spáni.

Teknar hafa verið skýrslur af kærðu og meðkærða og ber verulega í milli í framburði aðila og hafa framburðir beggja jafnframt verið afar reikulir. Þá telji lögregla rökstuddan grun til að ætla að mál þetta tengist öðrum málum er varði innflutning fíkniefna hingað til lands og að um skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða eins og nánar sé greint um í meðfylgjandi greinargerð og gögnum málsins

Rannsókn máls þessa er á frumstigi. Verið sé að rannsaka aðdraganda að ferð kærðu og meðkærða utan og til landsins og tengsl þeirra innbyrðis og við ætlaða vitorðsmenn á Íslandi og erlendis auk annarra atriða. Telji lögregla að þau fíkniefni sem meðkærði hafi borið á sér við komuna til landsins bendi til þess að efnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og háttsemi kærðu og meðkærða kunni að varða við ákvæði 173. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæða laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telji að ætla megi að kærða kunni að spilla sakargögnum, torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hún laus.

Þess er einnig krafist að kærðu verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. 

Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 22. nóvember 2017, kl. 16:00, og að kærða sæti einangrun á þeim tíma.

II

Með vísan til framangreinds svo og gagna málsins er fallist á það með lögreglustjóra að kærða sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Rannsókn málsins er á viðkvæmu stigi og hugsanlega tengjast skipulagðri glæpastarfsemi. Framburði kærðu og meðkærða ber ekki saman. Innan við vika er síðan mál þetta kom upp og ætla verður lögreglu frekara ráðrúm til þess að rannsaka aðdragandann að ferð kærðu og eftir atvikum möguleg tengsl hennar við vitorðsmenn hér á landi og erlendis. Samkvæmt þessu telst skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála fullnægt til þess að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, en ekki verður talið að markmiðum gæsluvarðhaldsins verði náð með öðru og vægara úrræði.

Með vísan til framangreinds er jafnframt fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur, sbr. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt því og öðru framangreindu verður krafa lögreglustjóra tekin til greina, þó með þeim hætti að henni verður markaður skemmri tími eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærða, X, f.d. [...], skal áfram sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 20. nóvember 2017, kl. 16:00.

Kærða sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.