Hæstiréttur íslands

Nr. 2018-94

Gunnar Árnason (sjálfur)
gegn
Landsbankanum hf. (enginn)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Hæfi dómara
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 7. maí 2018 leitar Gunnar Árnason eftir leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 23. apríl 2018 í málinu nr. 305/2018: Gunnar Árnason gegn Landsbankanum hf.,  með vísan til 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsbankinn hf. lét málið ekki til sín taka fyrir Landsrétti.

Mál þetta lýtur að kröfu Gunnars Árnasonar um að Boga Hjálmtýssyni héraðsdómara verði gert að víkja sæti í máli sem Landsbankinn hf. hefur höfðað á hendur Gunnari. Héraðsdómur hafnaði kröfunni og var úrskurður héraðsdóms staðfestur með ofangreindum úrskurði Landsréttar.  

Samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 er unnt að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar í kærumálum þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum. Ágreiningsefni málsins lýtur að því hvort skilyrðum g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 sé fullnægt í málinu þannig að héraðsdómara sem fer með málið verði gert að víkja sæti í því. Úrskurði um slíkan ágreining er heimilt að kæra til Landsréttar á grundvelli a. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 en úrskurður Landsréttar í kærumáli samkvæmt framangreindu sætir ekki kæru til Hæstaréttar á grundvelli 1. mgr. 167. gr. laganna. Þá er ekki mælt fyrir um heimild til að sækja um leyfi Hæstaréttar til kæru á úrskurði Landsréttar hvað þetta varðar í öðrum lögum svo sem áskilið er í 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þegar af þeirri ástæðu er beiðninni hafnað.