Hæstiréttur íslands
Mál nr. 327/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 1. september 2003. |
|
Nr. 327/2003. |
Íslenskur markaður hf. (Hákon Árnason hrl. gegn Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. og (Kristján Þorbergsson hrl.) samkeppnisráði (Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.) |
Kærumál. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Vara- og þrautavarakröfu Í hf. var vísað frá dómi þar sem þær þóttu fela í sér málsástæður fyrir aðalkröfu félagsins en ekki sjálfstæða kröfugerð, auk þess sem þær hefðu að engu leyti verið reifaðar eða skýrðar í stefnu, en það var í andstöðu við meginreglu laga nr. 91/1991 um glöggan málatilbúnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. ágúst 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. ágúst 2003, þar sem vísað var frá dómi varakröfu og þrautavarakröfu sóknaraðila í máli hans á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka varakröfu hans og þrautavarakröfu til efnismeðferðar ef aðalkrafa hans í málinu verður ekki tekin til greina. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.
Varnaraðilinn samkeppnisráð krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Íslenskur markaður hf., greiði varnaraðilum, Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. og samkeppnisráði, hvorum fyrir sig 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. ágúst 2003.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 28. júlí síðastliðinn um frávísunarkröfur stefndu, er höfðað 25. júní 2003 af Íslenskum markaði hf., Leifsstöð, Keflavíkurflugvelli, gegn Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf., Keflavíkurflugvelli, og samkeppnisráði.
Stefnandi gerir þær dómkröfur aðallega, að felldur verði úr gildi úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála 7. apríl 2003 í málinu nr. 1/2003, Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. gegn samkeppnisráði.
Til vara er krafist, að forsendur úrskurðarins verði felldar úr gildi „að því leyti sem í forsendunum felst að val stefnda Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. á húsnæði til eigin verslunar- eða þjónusturekstrar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og á vöru- og þjónustuúrvali þar sé undanskilið ákvæðum samkeppnislaga nr. 8/1993.”
Til þrautavara krefst stefnandi, að „ákveðnir hlutar úr forsendum úrskurðarins verði felldir úr gildi, nánar tiltekið:
(a) 2. - 5. mgr. 3. liðar IV. kafla sem hljóða svo:
„Í máli áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 4/1997, Tryggingarstofnun ríkisins gegn samkeppnisráði (sbr. einnig mál 2/1994 og 24/1995), kemur fram að sérlög gangi framar ákvæðum samkeppnislaga ef þær réttarheimildir hafa að geyma ósamrýmanleg ákvæði á gildissviði laganna. Samkvæmt 7. gr. fyrrgreindra laga nr. 76/2000 er tilgangur hins nýja félags að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, þ.m.t. rekstur verslana með tollfrjálsar vörur á Keflavíkurflugvelli og hvers konar aðra starfsemi sem þessu tengist.
Samkvæmt þessu er það undir FLE hf. sjálfri komið hvort og að hvaða marki hún felur öðrum aðilum að annast þjónustu við farþega í flugstöðinni. Af þessu leiðir að félaginu er heimilt að ákveða sjálft það húsnæði í fríhöfninni sem það tekur til notkunar undir verslunarrekstur eða þjónustu svo og að ákveða hvaða vörur eða þjónustu það tekur til sölumeðferðar.
Áfrýjunarnefndin lítur hins vegar svo á að hvorki fyrrgreind lög nr. 76/2000 né reglugerð nr. 766/2000 hafi að geyma nein ákvæði sem lúta að öðru fyrirkomulagi verslunarreksturs og tengdri starfsemi sem fela í sér frávik frá reglum samkeppnislaga. Því verður að telja að samkeppnislög eigi við í öðrum tilvikum en um var rætt í málsgreininni að framan. Telur áfrýjunarnefndin að tilgangi laga nr. 76/2000 verði einnig náð þótt starfsemin fari fram innan ramma samkeppnislaga að þessu leyti.
Niðurstaðan er því sú að líta ber svo á að umrædd starfsemi teljist háð ákvæðum samkeppnislaga nema varðandi val FLE hf. á húsnæði til eigin verslunar- eða þjónusturekstrar og vöru- og þjónustuúrvali þar.”
(b) Eftirfarandi orð úr 7. lið IV. kafla:
„Með þeim fyrirvara sem fram kemur í 3. málsgrein í kafla 3 ... .”
Í öllum tilvikum er þess krafist, að stefndu greiði stefnanda málskostnað.
Stefndi, Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf., krefst sýknu af aðalkröfu stefnanda og að vara- og þrautavarakröfu stefnanda verði vísað frá dómi, en ella, að hann verði sýknaður af vara- og þrautavarakröfu stefnanda. Í öllum tilvikum gerir stefndi þær kröfur að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað.
Stefndi, samkeppnisráð, krefst þess, að stefndi verði sýknaður af aðalkröfu stefnanda og að vara- og þrautavarakröfu stefnanda verði vísað frá dómi, en til vara að stefndi verði sýknaður af vara- og þrautavarakröfu stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Stefnandi gerir þá kröfu, að frávísunarkröfum stefndu verði hafnað og tekið verði tillit til málskostnaðar í þessum þætti málsins í efnisdómi.
Að beiðni stefnanda féllst dómstjóri á 20. júní síðastliðinn, að málið sætti flýtimeðferð eftir ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
I.
Með bréfi, dagsettu 5. september 2002, kvartaði stefnandi til Samkeppnisstofnunar yfir forvali um aðgang og afnot af verslunar- og þjónusturými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem kynnt var 15. ágúst 2002 með forvalsgögnum stefnda, Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. (FLE hf.). Í erindinu kom fram, að stefnandi ræki verslun með íslenskar vörur í flugstöðinni og leigði þar húsnæði af stefnda, FLE hf., en stefndi rekur þar verslun (Fríhöfnina). Kvartaði stefnandi yfir því, að stefndi væri viðsemjandi stefnanda um verslunarrými jafnframt því að vera keppinautur stefnanda í verslunarrekstri í flugstöðinni. Áður en til forvals hafi komið hafi stefndi valið til sölu í eigin verslun arðvænlegustu vöruflokkana og þar að auki tekið frá besta húsnæðið fyrir starfsemina. Þá vísaði stefnandi til þess, að samkvæmt forvali muni stefndi stýra bæði vöru- og þjónustuframboði annarra rekstraraðila á fríhafnarsvæðinu og enn fremur verði þeim aðilum skylt að veita stefnda daglega upplýsingar um rekstur sinn.
Á fundi stefnda, samkeppnisráðs, 29. janúar 2003 var tekin sú ákvörðun, að háttsemi stefnda, FLE hf., sem tengist forvali á viðskiptatækifærum í flugstöðinni í ágúst 2002, bryti í bága við 11. gr. samkeppnislaga og hefði skaðleg áhrif á samkeppni í skilningi 17. gr. laganna.
Málið fór fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála, sem kvað upp úrskurð 7. apríl síðastliðinn. Var ofangreind ákvörðun samkeppnisráðs staðfest, en með breyttum forsendum. Í úrskurðinum segir meðal annars, að í máli áfrýjunarnefndarinnar nr. 4/1997, sbr. einnig mál 2/1994 og 24/1995, komi fram að sérlög gangi framar ákvæðum samkeppnislaga, ef þær réttarheimildir hafa að geyma ósamrýmanleg ákvæði á gildissviði laganna. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 76/2000, um Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf., sé tilgangur félagsins að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, þar með talið rekstur verslana með tollfrjálsar vörur á Keflavíkurflugvelli og hvers konar aðra starfsemi, sem þessu tengist. Samkvæmt því sé það undir FLE hf. sjálfri komið, hvort og að hvaða marki hún feli öðrum aðilum að annast þjónstu við farþega í flugstöðinni. Af þessu leiði, að félaginu sé heimilt að ákveða sjálft það húsnæði í fríhöfninni, sem það tekur til notkunar undir verslunarrekstur eða þjónustu, svo og að ákveða hvaða vörur eða þjónustu það tekur til sölumeðferðar.
Áfrýjunarnefndin líti hins vegar svo á, að hvorki lög nr. 76/2000 né reglugerð nr. 766/2000 hafi að geyma nein ákvæði, sem lúta að öðru fyrirkomulagi verslunarreksturs og tengdri starfsemi, sem fela í sér frávik frá reglum samkeppnislaga. Því verði að telja, að samkeppnislög eigi við í öðrum tilvikum en áður greindi. Taldi áfrýjunarnefndin, að tilgangi nefndra laga yrði einnig náð þótt starfsemin færi fram innan ramma samkeppnislaga að þessu leyti. Var niðurstaða nefndarinnar því sú, að líta bæri svo á, að umrædd starfsemi teldist háð ákvæðum samkeppnislaga, nema varðandi val FLE hf. á húsnæði til eigin verslunar- eða þjónusturekstrar og vöru- og þjónustuúrvali þar.
Stefnandi er ósáttur við framangreinda niðurstöðu og röksemdafærslu áfrýjunar-nefndarinnar og hefur því höfðað mál þetta.
II.
Stefndi, Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf., reisir kröfu um frávísun á vara- og þrautavarakröfu stefnanda á því, að samkvæmt 2. mgr. 5. gr. samkeppnislaga sé hlutverk meðstefnda, samkeppnisráðs, að framfylgja boðum, bönnum og aðgerðum, er gripið sé til á grundvelli samkeppnislaga. Samkvæmt því taki meðstefndi ákvarðanir og grípi til aðgerða og annarra úrræða, sem samkeppnislög mæla fyrir um og stefndi, Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf., hafi lögvarða hagsmuni af. Í kröfu stefnanda felist, að dómur breyti forsendum, sem liggja til grundvallar stjórnvaldsákvörðun sjálfstæðs stjórnvalds, þar sem kveðið sé á um réttindi og skyldur þess, sem stjórnvaldsákvörðun beinist að. Sé ekki á valdsviði dómstóla að leggja stjórnvaldi til forsendur fyrir ákvörðunum sínum eða breyta þeim. Þó svo að stefnandi geti samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar fengið úrlausn um, hvort lögmætra aðferða hafi verið gætt við meðferð máls hjá stjórnvaldi og hvort endanlegur úrskurður þess sé í samræmið við lög, verði dómstóll hvorki krafinn um að breyta úrskurði stjórnvalds á tiltekinn hátt né að breyta forsendum fyrir úrskurði.
Þá séu vara- og þrautavarakrafa stefnanda óframkvæmanlegar og af þeim sökum ódómtækar. Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála sé lagt til grundvallar, að 7. gr. laga nr. 76/2000 sé sérlagaákvæði, sem gangi framar ákvæðum samkeppnislaga. Af þeim sökum sé stefnda heimilt að velja húsnæði til eigin verslunar- og þjónustureksturs og velja vöru- og þjónustu í húsnæði sínu. Verði fallist á kröfu stefnanda, sé úrskurðurinn í raun marklaus með öllu og stefndi í algerri óvissu um réttarstöðu sína. Verði með öllu óljóst, hvernig stefndi geti og megi haga framangreindri starfsemi sinni í flugstöðinni, þar með töldu forvali um viðskiptatækifæri þar
Að lokum verði ekki séð, hvernig meðstefnda í máli þessu eigi að vera kleift að framfylgja úrskurði, sem breytt yrði á þann veg, er stefnandi krefst í samræmi við 2. mgr. 5. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993.
Krafa stefnda, samkeppnisráðs, um frávísun á vara- og þrautavarakröfu stefnanda, er reist á því, að kröfurnar séu ódómtækar, auk þess sem þau sakarefni, sem þar eru borin undir dóm, eigi ekki undir dómstóla. Vísar stefndi meðal annars til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 og meginreglna einkamálaréttarfars og stjórnsýsluréttar því til stuðnings. Með lögum nr. 8/1993 sé valdið til að taka ákvarðanir um, hvort ákvæði laganna hafi verið brotin, svo og til að meta, hvort hegðun fyrirtækja sé andstæð ákvæðum samkeppnislaga, falið sérstökum stjórnvöldum. Á neðra stjórnsýslustigi sé það samkeppnisráð, sem sé hið valdbæra stjórnvald og á því efra áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Sé heimildum dómstóla til að breyta ákvörðunum þessara stjórnvalda, eða til að taka ákvarðanir fyrir þau, þröngar skorður settar. Bæri dómstól þannig, teldi hann úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála reistan á ólögmætum grundvelli, að ógilda úrskurðinn í heild sinni. Sé dómstólnum ekki heimilt að breyta úrskurðinum eða taka í raun nýja ákvörðun.
Augljóst sé, að með vara- og þrautavarakröfum sínum sé stefnandi að freista þess að fá úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 1/2003 breytt með því að krefjast þess, að tilteknir hlutar úr honum verði ógiltir, en úrskurðurinn og úrskurðarorðin standi áfram að öðru leyti. Fái þessir kröfuhættir ekki staðist.
Þá telur stefndi, að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af vara- og þrautavarakröfum sínum. Þau efnisatriði í úrskurðinum, sem stefnandi virðist telja ólögmæt, feli í sér mat áfrýjunarnefndar á því, hvort líta beri á lög nr. 76/2000 sem sérlög gagnvart samkeppnislögunum, er gangi framar þeim, þar sem þau rekist á. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála túlki annars vegar lög nr. 76/2000 og hins vegar lög nr. 8/1993 þannig, að hin fyrrnefndu gangi framar hinum síðarnefndu um sérgreind atriði. Hafi stefnandi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá ummæli áfrýjunarrnefndar um þessa lagatúlkun dæmd ógild þótt vera kunni, að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá hnekkt því réttarástandi, sem af afstöðu áfrýjunarnefndar leiðir eða geti leitt. Dómkröfur stefnanda lúti hins vegar ekki að því fá slíku réttarástandi hnekkt.
Enn fremur sé afar óljóst, hvaða réttarstaða skapist, verði fallist á annaðhvort vara- eða þrautavarakröfu stefnanda. Það eitt hefði gerst, að tiltekin orð hefðu verið dæmd ógild úr úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem stæði að öðru leyti óhaggaður. Með þessu hefði ákveðnu álitamáli ekki verið ráðið til lykta né tiltekin réttindi stefnanda viðurkennd. Sé stefnda ekki ljóst, hvaða skylda muni hvíla á honum, verði fallist á vara- eða þrautavarakröfu stefnanda. Líkist þessar kröfur stefnanda frekar svonefndri lögspurningu en ákveðinni dómkröfu. Virðist stefnandi óska álits dómsins um þá lögfræðilegu spurningu, hvort lög nr. 76/2000 skuli teljast rétthærri að einhverju leyti en lög nr. 8/1993. Séu kröfuhættir af þessu tagi andstæðir l. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála.
Að lokum sé varakrafa stefnanda svo óljós og óákveðin, að dómur verði ekki á hana felldur, en kröfugerðin sé andstæð meðal annars d-lið 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Stefnandi byggir kröfu sína um, að frávísunarkröfum stefndu verði hafnað aðallega á því, að það séu forsendur áfrýjunarnefndar sem séu bindandi og hafi lagalega þýðingu. Hafi stefnandi lögvarða hagsmuni af dómi um kröfurnar, verði aðalkrafan ekki til greina, og þá séu vara- og þrautavarakrafan dómtækar, enda miði þær að því að fá hnekkt ákveðnum hlutum úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem myndi þann ramma, er umrætt forval muni fara eftir.
III.
Svo sem áður greinir er úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli því, er hér um ræðir, reistur á því, að sérlög gangi framar ákvæðum samkeppnislaga, hafi réttarheimildir að geyma ósamrýmanleg ákvæði á gildissviði laganna. Kemur fram í úrskurðinum, að samkvæmt 7. gr. laga nr. 76/2000, um Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf., sé tilgangur félagsins að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, þar með talið rekstur verslana með tollfrjálsar vörur á Keflavíkurflugvelli og hvers konar aðra starfsemi, sem þessu tengist. Samkvæmt því sé það undir Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. sjálfri komið, hvort og að hvaða marki hún feli öðrum aðilum að annast þjónustu við farþega í flugstöðinni. Af þessu leiði, að félaginu sé heimilt að ákveða sjálft það húsnæði í fríhöfninni, sem það tekur til notkunar undir verslunarrekstur eða þjónustu, svo og hvaða vörur eða þjónustu það tekur til sölumeðferðar, en að öðru leyti ættu samkeppnislögin við um þessa starfsemi í húsnæðinu. Undir þessi sjónarmið er tekið af hálfu stefndu í máli þessu.
Stefnandi er ósammála ofangreindri lagatúlkun og byggir aðalkröfu sína um ógildingu úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála á því, að lög nr. 76/2000 feli aðeins í sér almennt orðaðan lagaramma um starfsemi stefnda Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. og skuli sú starfsemi vera rekstur, viðhald og uppbygging á flugstöðinni samkvæmt 7. gr. laganna. Í lögunum sé á hinn bóginn ekki rakið, hvernig umræddur stefndi skuli skipuleggja eða annast verslunarrekstur eða skylda starfsemi í flugstöðinni og honum aðeins veitt almenn heimild til að reka verslun með tollfrjálsar vörur og aðra tengda starfsemi. Þá sé hvorki í lögunum sjálfum né lögskýringargögnum að því vikið, að lögin beri að túlka sem sérlög gagnvart samkeppnislögum. Sé því ekki unnt að líta svo á, að 7. gr. laga nr. 76/2000 feli í sér sérreglu, sem víki til hliðar almennum reglum samkeppnislaga.
Ágreiningur málsaðila lýtur samkvæmt framansögðu að mismunandi túlkun þeirra á, hvort virða beri lög nr. 76/2000 sem sérlög, er gangi framar almennum ákvæðum samkeppnislaga að því leyti, sem mælt er fyrir um í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála.
Að áliti dómsins eru vara- og þrautavarakrafa stefnanda að efni til mismunandi útfærsla á sömu kröfugerð.
Dómstólar eru almennt ekki bærir að taka efnislega ákvörðun um þau málefni, sem eiga undir stjórnvöld. Eru engin efni til að víkja frá þeirri meginreglu í máli þessu. Á hinn bóginn er á valdi dómsins að kveða upp úr um það, hvort lögmætra aðferða hafi verið gætt við meðferð máls hjá umræddu stjórnvaldi og hvort niðurstaða þess sé í samræmi við lög. Samkvæmt því myndi viðurkenning dómsins á réttmæti þeirrar kröfugerðar stefnanda, sem hér er til umfjöllunar, einungis geta leitt til ógildingar úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála, svo sem aðallega er krafist af hálfu stefnanda, en ekki efnislegrar ákvörðunar dómsins. Verður því að telja, að í vara- og þrautavarakröfu stefnanda felist málsástæður fyrir aðalkröfu hans, en ekki sjálfstæð kröfugerð.
Þá er þess að gæta, að kröfurnar eru að engu leyti reifaðar eða skýrðar í stefnu, en það er í andstöðu við meginreglu e- og f-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um glöggan málatilbúnað.
Með vísan til framanritaðs ber að taka frávísunarkröfur stefndu til greina, en rétt er, að ákvörðun um málskostnað bíði efnisdóms.
Úrskurðinn kvað upp Helgi I. Jónsson dómstjóri.
Úrskurðarorð:
Vara- og þrautavarakröfu stefnanda, Íslensks markaðar hf., er vísað frá dómi.
Málskostnaðarákvörðun bíður efnisdóms.