Hæstiréttur íslands

Mál nr. 74/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 24

 

Fimmtudaginn 24. febrúar 2005.

Nr. 74/2005.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Jón Höskuldsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur. Að virtum gögnum málsins voru ekki næg efni til þess að X sætti í stað gæsluvarðhalds vistun á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun samkvæmt 110. gr. laga nr. 19/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. febrúar 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 1. apríl 2005. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að í stað gæsluvarðhalds verði hann vistaður á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun samkvæmt 110. gr. laga nr. 19/1991.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur, þó þannig að gæsluvarðhaldið standi eigi lengur en til kl. 16.00 föstudaginn 1. apríl 2005.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að uppfyllt séu skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi.

Í málinu hafa verið lögð fram gögn um geðhagi varnaraðila, þar á meðal vottorð Magnúsar Skúlasonar geðlæknis á réttargeðdeildinni að Sogni. Að þeim virtum eru ekki næg efni til þess að varnaraðili sæti í stað gæsluvarðhalds vistun á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun samkvæmt 110. gr. laga nr. 19/1991. Til þess er að líta að samkvæmt V. kafla reglugerðar nr. 179/1992 um gæsluvarðhaldsvist með síðari breytingum á gæsluvarðhaldsfangi kost á að njóta viðeigandi sérfræðilegrar læknisþjónustu. Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur, þó þannig að gæsluvarðhald yfir varnaraðila, X, standi eigi lengur en til föstudagsins 1. apríl 2005 kl. 16.00.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2005.

Lögreglustjórinn í Reykjavíkur hefur krafist þess að X, verði á grundvelli 2 mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991 úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 1. apríl 2005 kl. 16.00.

             Í greinargerð lögreglu kemur fram að kærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarhald á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991 föstudaginn 11. febrúar sl.  Hann hafði þá verið handtekinn kvöldið áður, fimmtudaginn 10. febrúar kl. 21:15, vegna gruns um 5 vopnuð rán á tímabilinu frá mánudeginum 7. febrúar til fimmtudagsins 10. febrúar.

Rannsókn málanna sé nú á lokastigi  og hafi kærði játað aðild sína að 5 vopnuðum ránum, ölvunarakstri og einu húsbroti eða tilraun til þjófnaðar.  Mál þessu munu send ríkissaksóknara til ákvörðunar næstkomandi mánudag 21. febrúar.

Brot þau sem um sé ræða hafi verið framin á eftirtöldum stöðum og á eftirtöldum tímum:

 

1.        [...]

2.        [...]

3.        [...]

4.        [...]

5.        [...]

6.        [...]

7.        [...]

 

             Kærði sé atvinnulaus og eigi við áfengisvandamál að stríða.  Þá hafi kærði að eigin sögn verið búinn að vera í neyslu örvandi efna í einhvern tíma fyrir handtöku.

             Tilgangurinn með ránunum hafi verið að verða sér úti um peninga til að svala spilafíkn sem hrjái kærða.  Kærði hafi hreinan sakarferil, sjá meðfylgjandi sakarvottorð.

 

Um sé  að ræða 5 rán sem heimfærð verði sem brot á 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.  Brotin hafi öll verið framin með hættulegum vopnum og séu til þess fallin að vekja mikinn ótta hjá þeim sem fyrir hafi orðið.  Brot gegn 252. gr. geti varðað fangelsisrefsingu allt að 10 árum og allt að 16 árum ef mikil hætta hafi verið samfara brotinu.  Hér sé ekki um eitt brot gegn 252. gr. að ræða heldur 5 og hafi brotin verið framin á 4 dögum.  Þetta sýni einbeittan brotavilja kærða.  Þegar allt þetta sé virt verði að telja að eðli brotanna, sem sakborningur hafi játað að hafa framið, sé slíkt að almannahagsmunir standi til þess að hann verði látinn sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991.

             Þá verði einnig að telja að ef sakborningur, sem orðið hafi uppvís að jafn alvarlegum brotum og kærði, gangi laus strax að rannsókn lokinni valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings en um þetta sjónarmið megi vísa til rits Evu Smith, Straffeprocess, 1999.

             Einnig sé vísað til hjálagðra Hæstaréttardóma nr. 223/2004 od 377/2004 varðandi gæsluvarðhald á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 fyrir vopnuð rán.

             Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991 sé þess farið á leit að krafa þessi nái fram að ganga.

 

             Kærði er orðinn uppvís að 5 ránsbrotum og var hann vopnaður í þeim.   Þá hefur hann einnig orðið uppvís að innbroti í söluturn og ölvunarakstri.  Ránsbrot getur varðað allt að 10 ára fangelsi og allt að 16 ára fangelsi ef mjög mikil hætta hefur verið samfara brotinu.  Teljast skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 því vera uppfyllt. Verður krafa lögreglustjórans í Reykjavík um gæsluvarðhald kærða því tekin til greina eins og hún er fram sett.  Ekki verður séð að aðrar ráðstafanir en gæsluvarðhald séu viðhlítandi eins og hér stendur á.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarð­haldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til föstudagsins 1. apríl 2005.