Hæstiréttur íslands

Mál nr. 235/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagn
  • Verjandi


Þriðjudaginn 8

 

Þriðjudaginn 8. júní 2004.

Nr. 235/2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Jón Einar Jakobsson hdl.)

 

Kærumál. Gögn. Verjandi.

L fór fram á að héraðsdómari framlengdi í þrjár vikur frest hans til að synja verjanda X um aðgang að rannsóknargögnum varðandi opinbert mál sem beindist að X, sbr. b. lið 1. mgr. 74. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Féllst héraðsdómur á kröfu L en tók ekki afstöðu til kröfu um skýrslutöku af X og var ekkert bókað um hvenær hún skyldi fara fram. Í Hæstarétti var tekið fram að L hefði ekki leitt X og aðra grunaða í málinu fyrir dómara til að gefa skýrslu. Nægði L ekki að vísa til þess að í ljósi stöðu málsins væri ekki enn tímabært að leiða X fyrir dóm til skýrslugjafar. Var kröfu L um framlengingu frestsins því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. júní 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2004, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að framlengdur yrði í þrjár vikur frestur hans til að synja verjanda varnaraðila um aðgang að gögnum varðandi rannsókn opinbers máls, sem beinist að honum. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu sóknaraðila um framlengingu frests til að synja verjanda varnaraðila um aðgang að rannsóknargögnum málsins.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Samkvæmt gögnum málsins rannsakar sóknaraðili aðild varnaraðila og tveggja annarra manna að ætluðum brotum gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og lögum nr. 96/2002 um útlendinga þar sem þeir hafi framvísað fölsuðum vegabréfum við komu hingað til lands. Hefur sóknaraðila ekki tekist að bera kennsl á varnaraðila. Hefur varnaraðili ásamt áðurnefndum mönnum setið í gæsluvarðhaldi frá 26. maí síðastliðnum, sbr. dóma Hæstaréttar 1. júní 2004 í máli nr. 224/2004 og 7. sama mánaðar í máli nr. 231/2004, en með dómi í síðargreindu máli var varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 16. júní næstkomandi. Þá hefur fjórði maðurinn, sem búsettur er hérlendis, einnig sætt gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að brotum mannanna þriggja, meðal annars með því að hafa skipulagt í hagnaðarskyni komu þeirra hingað til lands. Sóknaraðili fór 3. júní 2004 fram á að héraðsdómari tæki skýrslu af varnaraðila og framlengdi jafnframt í þrjár vikur frest sóknaraðila til að synja verjanda varnaraðila um aðgang að gögnum er málið varða. Féllst héraðsdómur með hinum kærða úrskurði á þá kröfu sóknaraðila að framlengja í þrjár vikur frest, sem lögregla hefði til að veita verjanda varnaraðila aðgang að rannsóknargögnum. Í forsendum hans segir meðal annars að „lögreglan hafi svigrúm til að fá tekna skýrslu af kærða innan frestsins“. Ekki er tekin afstaða til kröfu um skýrslutöku af varnaraðila í úrskurðarorði og ekkert er bókað í þinghaldinu um hvenær hún skuli fara fram.

Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 12. gr. laga nr. 36/1999, skal verjandi fá jafnskjótt og unnt er endurrit af öllum skjölum er mál varða. Frá þessari meginreglu er sú undantekning í 2. málslið ákvæðisins að lögregla getur neitað að veita verjanda aðgang að skjölum eða öðrum gögnum í allt að eina viku frá því að þau urðu til eða komust í vörslu hennar ef hún telur að það geti skaðað rannsókn málsins. Ennfremur er dómara heimilt samkvæmt b. lið 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999, að framlengja frest samkvæmt 1. mgr. 43. gr. sömu laga í allt að þrjár vikur svo unnt verði að ljúka því að taka skýrslur innan frestsins af sakborningi eða vitnum fyrir dómi telji lögregla slíka skýrslutöku nauðsynlega til að upplýsa mál áður en verjandi fær aðgang að einstökum skjölum eða gögnum þess. Eins og áður var getið hefur varnaraðili ekki verið leiddur fyrir dóm til að gefa skýrslu. Heldur sóknaraðili því fram að staða rannsóknar málsins sé slík að ekki sé enn tímabært að taka skýrslu af varnaraðila. Er sérstaklega vísað til þess að rannsóknin sé tímafrek og flókin og háð gagnaöflun hérlendis og erlendis. Ennfremur kemur fram að um síðastliðna helgi hafi verið tekin skýrsla fyrir lögreglu af varnaraðila og mönnunum tveimur, sem komu sama dag og hann hingað til lands.

Sóknaraðili hefur enn ekki leitt varnaraðila og aðra grunaða í málinu fyrir dómara til að gefa skýrslu í samræmi við b. lið 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19/1991. Hefur sóknaraðili þó haft nægt ráðrúm til að fara fram á töku skýrslna yfir þeim fyrir dómi. Nægir sóknaraðila ekki að vísa til þess að í ljósi stöðu málsins sé ekki enn tímabært að leiða varnaraðila fyrir dóm til skýrslugjafar. Ber því að hafna kröfu sóknaraðila um framlengingu frests í þrjár vikur til að synja verjanda varnaraðila um aðgang að rannsóknargögnum málsins.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, lögreglustjórans í Reykjavík, um að verjanda varnaraðila, X, verði um þriggja vikna skeið synjað um aðgang að rannsóknargögnum opinbers máls, sem beinist að honum.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur framlengi í 3 vikur þann frest sem lögregla hefur til að synja verjanda X, um aðgang að gögnum er varða rannsókn málsins.  Beiðni lögreglustjórans er studd þeim rökum að nauðsynlegt sé að kærði verði yfirheyrður nánar um sakarefnið áður en hann fái að kynna sér gögn málsins, þar sem hann gæti að öðrum kosti samræmt framburð sinn framburðum annarra sakborninga í málinu og hagrætt honum eftir þörfum. X situr í gæsluvarðhaldi samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 2. júní sl.  til 16. júní n.k.

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991 skal verjandi fá jafnskjótt og unnt er endurrit af öllum skjölum, sem málið varða, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn sem ekki verða endurrituð. Lögregla getur þó neitað að veita verjanda aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum í allt að eina viku frá því að þau urðu til eða komust í vörslur hennar ef hún telur að það geti skaðað rannsókn málsins. Samkvæmt b. lið 74. gr. a sömu laga getur dómari framlengt þennan frest í allt að þrjár vikur ef lögregla telur nauðsynlegt að skýrsla verði tekin fyrir dómi af sakborningi áður en verjandi fær aðgang að einstökum gögnum svo að unnt verði að ljúka skýrslutökum innan frestsins. Brotin sem hér um ræðir og sæta rannsókn lögreglu eru óupplýst og misræmis gætir í því sem fyrir liggur í málinu. Verður að ætla að brýnir rannsóknarhagsmunir séu af því að lögreglan fái ráðrúm til að fá tekna skýrslu af kærða fyrir dómi áður en verjandi hans fær gögn málsins í hendur. Verjandi kærða hefur vísað til þess að unnt verði að taka skýrslu af kærða nú þegar og því sé ástæðulaust að veita umbeðinn frest. Dómarinn telur að lögreglan hafi svigrúm til að fá tekna skýrslu af kærða innan frestsins, verði hann veittur. Að öllu þessu virtu þykja lagaskilyrði fyrir því að fallist verði á beiðni lögreglustjórans um að framlengdur verði frestur samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 12. gr. laga nr. 36/1999, sem lögreglan hefur til að veita verjanda aðgang að gögnum málsins, í allt að þrjár vikur í þeim tilgangi að unnt verði að ljúka skýrslutökum innan frestsins.

Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

             Fallist er á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um að framlengja í þrjár vikur þann frest sem lögreglan hefur til að veita verjanda X aðgang að gögnum er varða rannsókn málsins.