Hæstiréttur íslands
Mál nr. 54/2001
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Líkamstjón
- Skóli
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 7. júní 2001. |
|
Nr. 54/2001. |
Stefanía Arnardóttir(Lára V. Júlíusdóttir hrl.) gegn íslenska ríkinu (Skarphéðinn Þórisson hrl.) |
Skaðabótamál. Líkamstjón. Skóli. Gjafsókn.
S missti framan af fingri annarrar handar er hún sagaði í hann í kennslutíma í iðnhönnun. Krafði hún Í um bætur og bar við að eftirliti og aðstoð kennara hafi verið ábótavant auk þess sem öryggisbúnaður hafi verið rangt stilltur. S, sem var 23 ára á slysdegi, var við nám á þriðju önn í iðnskóla. Er slysið varð hafði hún þegar lokið áfanga í trésmíði. Var talið að hún hefði haft nægan þroska og þekkingu til að gera sér grein fyrir þeim hættum sem stafað gæti af vélum eins og þeirri sem um ræddi. Var því ekki talið að öðrum en S sjálfri yrði kennt um hvernig fór, enda hefði hún getað forðað slysinu ef hún hefði beitt þeim aðferðum sem ætlast hefði mátt til af henni. Var Í því sýknað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. febrúar 2001. Hún krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.410.647 krónur með 2% ársvöxtum frá 24. október 1997 til 16. desember 1999 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 969.516 krónur með vöxtum eins og í aðalkröfu. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar, sem henni var veitt fyrir báðum dómstigum.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en gjafsóknarkostnað.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti verður ákveðinn í einu lagi eins og greinir í dómsorði.
D ó m s o r ð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en gjafsóknarkostnað.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, samtals 500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 11. október sl., er höfðað með stefnu, áritaðri um birtingu 29. desember 1999, af Stefaníu Arnadóttur, Grettisgötu 56, Reykjavík gegn íslenska ríkinu.
Dómkröfur
Stefnandi krefst greiðslu skaðabóta að fjárhæð 2.410.647 krónur. Þá er krafist greiðslu vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 24. október 1997 til 16. desember 1999 og dráttarvaxta á grundvelli III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður að mati réttarins.
Til vara er gerð krafa um stórfellda lækkun á dómkröfum stefnanda og í því tilviki verði málskostnaður látinn falla niður.
Málavextir
Hinn 24. október 1997 varð stefnandi fyrir slysi í Iðnskóla Hafnarfjarðar. Missti hún framan af vísifingri hægri handar.
Stefnandi var við nám í iðnhönnun við skólann og var á þriðju önn er slysið varð, en nám í iðnhönnun er samtals 3 annir. Hún var við vinnu í smíðastofu verkdeildar við að saga MFD efni í hjólsög í borði þegar hún rak hægri vísifingur í sagarblaðið og tók sundur fingurinn um miðja miðkjúku. Ekki var hægt að græða fingurinn á þar sem stúfurinn sem sagaðist af var alltættur og illa farinn. Því var sárinu lokað.
Fulltrúi Vinnueftirlits ríkisins var kvaddur á vettvang. Í skýrslu hans kemur fram að hann telur orsök slyssins vera þá að ekki hafi verið notuð eftirreka við vinnuna og einnig það að sagarblað hafi verið of hátt stillt auk þess sem slasaða, sem verið hafi nemi með takmarkaða reynslu, hafi verið látin vinna verkið ein og án leiðbeininga.
Stefanía, sem var nemi í hönnun, kveðst hafa haft takmarkaða reynslu af vélavinnu og telur sjálf að kennslu í vélavinnu sé ábótavant og hættur samfara vélavinnu séu ekki nægilega brýndar fyrir nemendum. Nemendur í iðnhönnun fái ekki sérstaka kennslu í öryggisfræði, sem sé skyldufag í flestum iðngreinum í iðnskólum landsins.
Hinn 28. september 1999 ályktaði örorkunefnd samkvæmt 10. gr. laga 50/1993 í máli stefnanda. Þar kemur fram að sár hennar hafi gróið vel og hún verið óþægindalítil í fingrinum en fái einungis slæma verki ef hún reki fingurinn í. Það er álit örorkunefndar að eftir 1. apríl 1998 hafi hún ekki getað vænst frekari bata vegna afleiðinga slyssins. Nefndin taldi varanlega miska vegna afleiðingar óhappsins hæfilega metinn 8%. Nefndin tekur það fram að ekki séu skilyrði til að meta varanlega
örorku tjónþola miðað við þær forsendur sem búi að baki 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og bendir á að stefnandi hafi verið nemandi í Iðnskólanum og ekki verið úti á vinnumarkaði í skilningi skaðabótalaga. Þar af leiðandi telur örorkunefnd að varanleg örorka sé einnig 8%.
Ríkislögmanni var sent erindi 21. mars 1998 þar sem óskað var eftir afstöðu embættisins til bótaskyldu ríkisins á slysinu. Samkvæmt bréfi ríkislögmanns dags. 4. maí 1998 telur hann að orsakir slyssins verði ekki rakta til atvika sem ríkissjóður beri bótaábyrgð á.
Stefnandi fékk leyfi til gjafsóknar í málinu. Ríkislögmanni var send krafa um skaðabætur með bréfi 16. nóvember 1999 þegar búið var að reikna út örorku stefnanda og bótakröfuna. Ríkislögmaður hafnaði bótakröfunni með vísan til fyrri afstöðu hans í bréfinu 4. maí 1998.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi reisir kröfur sínar í málinu á því að stefndi beri bótaábyrgð á tjóni hennar. Svo sem að framan sé lýst hafi stefnandi slasast við nám í iðnskóla. Hún hafi verið þar við nám í iðnhönnun, sem sé þriggja anna nám í Iðnskólanum í Hafnarfirði, og hafi hún verið á síðustu önn í náminu. Hún hafi verið við vinnu í smíðastofu verkdeildar við að saga MFD- plötu u.þ.b. 60 sm, langa, 11 sm, breiða og 12 mm þykka. Hún hafi ætlað að saga af plötunni ca. eins cm renning. Þegar hún hafi verið búin að saga tæplega helming hafi ræman fest í raufinni við blaðið og hún þá dregið plötuna til baka og snúið henni við og byrjað að saga hinum megin frá. Þá hafi hið sama gerst og hafi verið þungt að ýta plötunni áfram. Hafi hún því ýtt fastar á og þá hafi slysið orðið. Hún hafi rekið hægri vísifingur í sagarblaðið og við það hafi fremsti köggullinn farið framan af fingrinum og hálfur næsti.
Stefnandi hafi verið ein að vinna við vélina og hafi engrar tilsagnar notið þegar slysið varð. Við rannsókn Vinnueftirlits ríkisins hafi komið fram að við vélina hafi verið eftirreka sem nota eigi til þess að þurfa ekki að koma of nærri blaðinu með fingurna. Stefnandi hafi haft takmarkaða reynslu af vélavinnu og telji sjálf að kennslu í vélavinnu sé ábótavant í hönnunarnáminu og hættur samfara vélavinnu séu ekki nægilega brýndar fyrir nemendum. Til dæmis sé hönnunarnemum ekki kennd öryggisfræði, sem sé námsgrein á flestum námsbrautum iðnskóla. Í skýrslu Vinnueftirlitsins komi einnig fram að á vélinni, sem olli slysinu, hafi verið kleyfur með áfastri blaðhlíf. Talið sé hæfilegt að blaðið sé ca. tannhæðina upp fyrir efnið við sögun, en það hafi verið 2-3 sinnum hærra er slysið varð.
Að mati Vinnueftirlits ríkisins hafi orsök slyssins verið sú að ekki hafi verið notuð eftirreka við vinnuna og einnig að sagarblaðið hafi verið of hátt stillt auk þess sem stefnandi hafi verið nemi með takmarkaða reynslu sem hafi verið látin vinna verkið ein og án leiðbeininga.
Stefnandi reisir kröfur sínar á því að stefndu beri bótaábyrgð á tjóni hennar vegna þess að kennari hafi hvorki haft eftirlit með vinnubrögðum stefnanda né hafi hann leiðbeint henni. Enn fremur hafi öryggisbúnaðar vélarinnar, þ.e.a.s. blaðhlíf og kleyfur, verið ranglega stillt. Skyldur kennara séu að stilla þetta rétt. Kennari hafi þannig sýnt af sér vangæslu og beri því stefndu húsbóndaábyrgð á tjóni stefnanda. Kennslu hönnunarnema í meðferð véla sé ábótavant og sé þeim ekki kennd öryggisfræði, sem sé skyldufag víðast í iðnnámi. Atvik að slysinu og ábyrgð á því verði að meta í ljósi þess að í skólum beri að kosta kapps um að vernda nemendur fyrir slysahættu og gæta ýtrasta öryggis í því skyni. Það hafi ekki verið gert í umrætt sinn.
Örorkunefnd hafi sent frá sér álitsgerð 28. september 1999. Þar sé varanlegur miski stefnanda vegna afleiðinga slyssins metinn 8% og varanleg örorka hennar vegna afleiðinga slyssins metin 8% sömuleiðis.
Í útreikningi á bótakröfu sem gerður sé á grundvelli ofangreindrar álitsgerðar samkvæmt reglum skaðabótalaga nr. 50/1993 sundurliðist skaðabótakrafan þannig:
Þjáningarbætur per dag 127.980 kr.
Varanlegur miski (100% miðast við 4.615.500)369.240 kr.
Varanleg örorka skv. 5. og 6, gr. skaðabótalaga1.913.427 kr.
Samtals 2.410.427 kr.
Auk þess sé krafist vaxta frá slysdegi 24. október 1997 og til 16. desember 1999 og dráttarvaxta á grundvelli III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Þá hafi mánuður verið liðinn frá því að útreiknuð bótakrafa hafi verið send ríkislögmanni.
Jafnframt er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum reikningi.
Vísað er í meginreglur skaðabótaréttarins, sakarregluna, regluna um húsbóndaábyrgð og ákvæði skaðabótalaga nr. 50/1993. Jafnframt er vísað í dómaframkvæmd, t.d. Hrd. 1996:3683.
Kröfur um dráttarvexti styðjast við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. 1. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísast til 3. mgr. 33. gr, nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður stefnda og lagarök
Af hálfu stefnda er því mótmælt að kennari stefnanda, Hallgrímur Guðmundsson, hafi sýnt af sér vanrækslu í starfi og á því byggt að tjón stefnanda sé alfarið að rekja til eigin sakar hennar.
Stefnandi málsins sé fædd 1974 og hafi því verið rúmlega 23 ára er óhappið átti sér stað. Hún hafi lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1995. Hún hafi innritast í heimspeki í Háskóla Íslands og hafi verið þar í eitt ár en haustið 1996 hafi hún horfið að námi á hönnunarbraut við Iðnskólann í Hafnarfirði. Stefnandi hafi því verið á þriðju önn í námi sínu. Af kennsluáætlun í trésmíði hönnun megi sjá að fyrir óhappið hafi stefnandi stundað nám í TRH 103 (trésmíði hönnun), í MÁH 103 (málmsmíði hönnun), PLH 103 (plastsmíði hönnun) og STH 103 (steinslípun hönnun). Í öllum þessum áföngum hafi Stefanía notað vélar. Til dæmis málmsmíðarennibekk í MÁH 103 og í PLH 103 hafi hún notað hjólsög líkri þeirri sem hún hafi orðið fyrir óhappinu í. Í STH 103 sitji nemar löngum við vélar sem snúist. Stefnandi hafi því verið búin að vera um 320 kennslustundir í verklegu námi og þ.m.t. við vinnu í vélum áður en hún hóf nám á þriðju önn. Stefnandi verði fyrir óhappinu er rúmar sex vikur hafi verið liðnar af þeirri önn. Á þeirri önn hafi hún stundað nám í SMH 106 (smíði hönnunarhluta) þ.e. 72 kennslustundir og auk þess í TRH 203 um 36 kennslustundir. Þannig hafi stefnandi verið rúmlega 400 kennslustundir af námi sínu í verklegum tímum.
Varðandi TRH 203 þá sé undanfari þess áfanga TRH 103. Ýmis verkefni sem unnin séu í TRH 103 liggi fyrir á dskj. 24 svo og próf úr áfanganum á dskj. 23. Kennsluáætlanir fyrir þessa áfanga liggi og fyrir. Námið sé þannig uppbyggt að kennslugögnin séu fyrst og fremst vélar, tæki og efni sem séu í smíðastofunni. Einungis einföldustu atriði á hverja vél séu kennd en alla flóknari vinnu vinni kennari eða nemandi að kennara ásjáandi. Stefnandi hafi lært og notað eftirfarandi vélar: bútasög, afréttara, þykktarhefil, sleðasög (líka kölluð hjólsög eða borðsög), súluborvél og bandpússivél. Til viðbótar hafi verið notaðar ýmsar handvélar þ.e. borvélar, handfræsarar, stingsög, hristipússvél ( juðari), flögufræsari og bandslípivél. Þá hafi verið notuð ýmis handverkfæri. Ljóst megi vera að stefnandi hafi þegar í lok TRH 103 fengið víðtæka reynslu varðandi umgengni og notkun véla.
Í TRH 203 sé byrjað á því að rifja upp helstu atriði varðandi vinnu við trésmíðavélar, þau sömu og í TRH 103 og sé það m.a. gert með sérstöku verkefni. Þar sé einnig mikil áhersla lögð á að viðeigandi handtök séu notuð sem hæfi vél og því efni sem verið sé að vinna með. Í ljósi aldurs stefnanda og þeirrar kennslu og verklegrar reynslu sem hún hafi hlotið þá hafi hún haft næga færni til að vinna við vélina og nægan þroska til að gera sér grein fyrir hættum sem af svona vélum geti stafað, sé ekki gætt ítrustu varfærni.
Stefnandi hafi verið ein af 12 nemendum í námsgreininni TRH 203. Þann dag er óhappið átti sér stað hafi stefnandi komið töluvert of seint í kennslustundina. Þrátt fyrir það hafi Hallgrímur Guðmundsson kennari notað talsverðan tíma til að skoða með henni verkið sem hún hafi verið að vinna og koma henni áfram með það. Þegar óhappið átti sér stað hafi stefnandi verið að meðhöndla tiltölulega litla MDF trjátrefjaplötu. Stærð hennar muni hafa verið um 60 cm að lengd, 11 cm breið og 12 mm þykk. Stefnandi hafi verið að saga þessa plötu. Um einfalda aðgerð hafi verið að ræða sem stefnandi hafi oft gert áður hjálparlaust. Því hafi enga nauðsyn borið til að kennari stæði yfir stefnanda. Meðal annars hafi hún verið búin að saga flesta aðra hluti í hillu þá sem hún var að smíða.
Við sögunina hafi stefnandi ætlað að saga ca. 1 cm renning af plötunni. Muni hann hafa sveigst niður í rifu milli sagarblaðs og plastplötu í borði. Við þetta hafi myndast fyrirstaða. Þá hafi stefnandi dregið plötuna til baka og snúið henni við og sagaði hinum megin frá. Á sömu leið hafi farið. Hafi stefnandi þá beitt afli og ýtt á plötuna og klárað sögunina. Ekki hafi stefnandi óskað leiðbeiningar kennara eða aðstoðar frá honum. Ekki hafi stefnandi heldur notað eftirreku við verkið, sem þó hafi verið innan seilingar, en hún hafi verið á sérstaklega útbúinni hillu sem sé á hlið vélarinnar svo auðvelt hafi verið fyrir notendur vélarinnar að nálgast hana. Eðlileg viðbrögð hefðu einfaldlega verið þau, að slökkva á vélinni og athuga ástæður fyrir tregðunni. Því hafi hér fyrst og fremst verið um um óeðlilega hegðun að ræða hjá stefnanda og óeðlileg handtök. Bent sé á að eftirrekan hafi það hlutverk, eins og nafnið bendi til, að ýta á eftir því efni sem verið sé saga, þannig að fingurnir komi hvergi nálægt blaðinu.
Ekkert liggi fyrir um það hver hæð sagarblaðsins hafi verið né hver hún eigi að vera. Þar fyrir utan eigi hæð sagarblaðsins ekki að skipta máli ef sá sem er að saga noti eftirreku og eða rétt handtök þar sem fingurnir komi þá aldrei nálægt sagarblaðinu.
Samkvæmt úttekt Vinnueftirlits ríkisins hafi engar athugsemdir verið gerðar við öryggistæki vélarinnar, heldur bent á að orsök óhappsins hafi verið sú að eftirrekan hafi ekki verið notuð og bent á stillingu sagarblaðsins. Ítrekað sé að um vanreifun sé að ræða varðandi stillingu sagarblaðsins.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að ástæðu óhappsins sé einungis að leita í hegðun stefnanda, sem hafi ekki farið eftir þeim leiðbeiningum sem hún hafi fengið í námi sínu og hafi ekki notað tiltæk öryggistæki. Hún hafi haft næga reynslu og þekkingu til að framkvæma þessa einföldu aðgerð og hafi oft sagað þannig áður. Þá hafi hún haft nægan þroska til að átta sig á hættueiginleikum vélarinnar, yrði óvarlega farið.
Varðandi Hallgrím Guðmundsson þá sé hann húsasmíðameistari og jafnframt með próf í uppeldis- og kennslufræði. Hann eigi yfir tuttugu ára farsælan og slysalausan starfsferil að baki og nemendur hans séu lauslega áætlað komnir yfir þúsund. Því er hafnað að hann hafi sýnt af sér vanrækslu í starfi. Engin nauðsyn hafi borið til að standa yfir stefnanda. Um hópkennslu hafi verið að ræða og stefnandi hafi margsinnis unnið samsvarandi verk hjálparlaust. Þar fyrir utan hafi stefnandi ekki óskað eftir aðstoð hans. Einungis þurfi að standa yfir nemendum ef um ný eða flókin atriði sé ræða. Kennarinn hafi því ekki sýnt vanrækslu í starfi.
Stefndu telja að ekki sé þörf á að breyta námsskipan hönnunarbrautarinnar og taka þar upp kennslu í sérstökum áfanga í öryggisfærðum svo sem kennd sé í námsbraut fyrir trésmiði. Nægilega sé farið yfir öryggisatriði í þessum áfanga og öðrum þar sem vélavinna sé. Það sé nú einnig þannig, að óhöpp geti orðið þótt öryggisfræði hafi verið kennd, sérstaklega svona óhöpp eins og hér um ræði þegar röng handtök séu notuð og öryggisbúnaður látinn óhreyfður. Því verði tjón stefnanda einungis rakið til eigin sakar hennar.
Verði talið að um bótaskyldu sé að ræða hjá stefndu er gerð krafa um verulega
lækkun á dómkröfum stefnanda. Við ákvörðun bóta er þess krafist að tekið verið tillit til eigin sakar stefnanda sem sé veruleg, sbr. framanritað.
Fjárhæð bótakröfu í heild er harðlega mótmælt. Í niðurstöðu örorkunefndar á dskj. 7 segir: "Þegar tjónþoli lenti í slysinu var hún nemandi í Iðnskólanum. Hún telst því ekki hafa verið úti á vinnumarkaðinum í skilningi skaðabótalaga nr. 50/1993. Að mati örorkunefndar eru því ekki skilyrði til að meta varanlega örorku tjónþola miðað við þær forsendur sem búa að baki 5. gr. skaðabótalaganna. Nefndin telur þess vegna að ekki sé til annar eða betri mælikvarði á örorkustig hennar en að það sé hið sama og miskastigið. Varanleg örorka tjónþola vegna afleiðinga vinnuslyssins 24. október 1997 er metin 8% -átta af hundraði-. "
Í ljósi þessa er mótmælt sem rangri þeirri fullyrðingu sem komi fram í stefnu að útreikningur bótakröfu sé gerður á grundvelli álitsgerðarinnar samkvæmt reglum skaðabótalaganna. Stefnandi eigi ekki rétt til bóta skv. 5. og 6. gr. skaðabótalaga auk þess sem vanreifað sé við hvaða árstekjur sé miðað.
Þá er þjáningarbótum mótmælt. Bent sé á að stefnandi hafi verið fjarverandi í 3 daga.
Samkvæmt gögnum málsins hafi stefnandi ekki orðið fyrir miklum óþægindum nema þegar hún rak sig í.
Þá er vöxtum og upphafstíma vaxta mótmælt.
Varðandi málskostnað er vísað til 130. gr. eml.
Niðurstaða
Samkvæmt umsögn Guðbrands Árnasonar hjá Vinnueftirliti ríkisins telur hann orsök slyssins, sem stefnandi varð fyrir í október 1997, vera að ekki hafi verið notuð eftirreka við vinnuna auk þess sem sagarblað hafi verið of hátt stillt og einnig að slasaða sé nemi með takmarkaða reynslu sem hafi verið látin vinna verkið ein og án leiðbeininga.
Guðbrandur bar fyrir dómi að eðlilegt væri og almenna reglan væri sú að stilla sagarblaðið þannig að það næmi tannhæð yfir efnið. Því hærra sem blaðið sé upp úr borðinu, því stærri hluti af því sé nakinn og meiri líkur á því að maður geti rekið fingur eða hendi í það, því hlífin fylgi blaðinu og því lægra sem sagarblaðið sé stillt því minna af blaðinu sé bert. Varðandi þá fullyrðingu að stefnandi hefði unnið verkið ein og án leiðbeininga kvaðst Guðbrandur byggja á því sem fram komi í skýrslu stefnanda hjá lögreglu.
Stefnandi gaf aðilaskýrslu fyrir dómi. Þá kom og fyrir dóminn Hallgrímur Guðmundsson kennari.
Fyrir liggur að í umræddu námi eru ekki sérstakir tímar þar sem fjallað er um öryggisfræðslu en öryggisfræði eru kennd samhliða verklegri kennslu. Samkvæmt framburði stefnanda fyrir dómi er í byrjun vetrar farið í gegnum vélarnar og hvernig þær virka og hvernig eigi að meðhöndla þær. Síðan hjálpi kennarinn nemendum þegar þeir eru að vinna í vél og að verkefninu.
Stefnanda og Hallgrími ber ekki alveg saman um atvik máls þennan dag sem slysið varð.
Stefnandi bar fyrir dómi að hún hefði komið of seint í skólann þennan dag. Hún hafi ákveðið að halda áfram með kryddhillu sem hún var að smíða og hafi ætlað að reyna að klára hana. Kennarinn hafi ekki leiðbeint henni sérstaklega við það sem hún var að gera þennan dag og hafi hún ekki óskað eftir leiðbeiningu kennarans. Bar hún að sér hefði ekki verið kennt sérstaklega að stilla tannhæðina á hjólsöginni og þegar hún kom að vélinni hafi hún ekki stillt neitt.
Hallgrímur bar hins vegar að hann hefði gefið sér tíma til þess að ganga í gegnum það verk sem stefnandi var að vinna og þau hafi rætt um það. Síðan hafi hún farið að vinna það sem þurfti að gera. Hann taldi sig ekki þurfa að leiðbeina henni neitt við þessa venjubundnu aðgerð sem hún hafi oft gert áður þannig að hann hafi farið að sinna öðrum nemendum. Hafi hann ekki talið þörf á að leiðbeina henni sérstaklega við vinnu við vélsögina þennan dag þar sem hún hafi verið búin að vinna þetta í tímanum áður, hliðstæða vinnu. Hann hafi ekki farið yfir stillingu á sagarblaðinu. Það hafi átt að vera löngu liðin tíð að þess þyrfti.
Fyrir liggur að stefnandi var á þriðju önn á hönnunarbraut. Áður en slysið varð hafði stefnandi stundað nám í TRH 103, trésmíði hönnun. Í kennsluáætlun varðandi markmið í þessum áfanga segir m.a. að nemendur öðlist þekkingu og færni í notkun helstu trésmíðavéla og fái þannig yfirsýn yfir þá möguleika sem hægt sé að nýta sér með notkun þeirra. Nemendur öðlist þekkingu á og kynnist helstu notkunarmöguleikum á smíðavið og plötum. Nemendur öðlist þekkingu og færni í notkun handverkfæra og véla. Í kennsluáætlun vegna áfanga TRH 203, sem stefnandi var í, segir m.a. að viðfangsefni séu valin til þess að auka við þekkingu á verkfærum, vélum, aðferðum og efni.
Fyrir liggur að þegar slysið varð var ekki um hópkennslu að ræða heldur vann hver nemandi að sínu verkefni og leiðbeindi kennari þeim hverjum og einum. Fram er komið að stefnandi var að vinna við kryddhillu sem hún hafði unnið að áður og taldi sig ekki þurfa leiðbeiningar frá kennara sínum áður en hún hóf verkið þennan dag.
Sé litið til aldurs stefnanda, sem var 23 ára þegar slysið varð, og þeirrar kennslu og verklegrar reynslu sem hún hafði hlotið verður að telja að stefnandi hafi haft nægan þroska og þekkingu til þess að gera sér grein fyrir hættum sem af svona vélum geta stafað sé ekki gætt ítrustu varfærni. Þegar litið er til þess að um tiltölulega einfalda vélsög var að ræða þykir ekki trúverðugt að stefnandi hafi ekki, eftir það nám sem hún hafði gengið í gegnum, kunnað á vélina eða getað stillt sagarblaðið væri þess þörf. Hún hirti ekki um að nota eftirreku, sem nemendur höfðu verið hvattir til að nota, og sem hugsanlega hefði getað afstýrt slysinu. Er fyrirstaða varð við sögunina beitti hún afli sem hún mátti vita að gæti skapað hættu fyrir hana í stað þess að slökkva á vélinni og leita aðstoðar kennara, sem var á næstu grösum. Ekkert þykir fram komið í málinu er styðji það að kennarinn hafi í umrætt sinn sýnt af sér vanrækslu gagnvart stefnanda, sem hafi átt þátt í slysinu. Þykir stefnandi með háttsemi sinni hafa sýnt gáleysi og þykir ekki sýnt fram á annað en að hún ein hafi átt sök á því slysi sem hún varð fyrir.
Ber samkvæmt framansögðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 212.884 krónur, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Láru V. Júlíusdóttur hrl., 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun lögmannsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Stefaníu Arnardóttur.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 212.884 krónur, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Láru V. Júlíusdóttur hrl., 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.