Hæstiréttur íslands
Mál nr. 347/2004
Lykilorð
- Hylming
- Peningaþvætti
- Fjárdráttur
- Ákæra
|
|
Fimmtudaginn 28. apríl 2005. |
|
|
|
Nr. 347/2004. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Árna Þór Vigfússyni (Gestur Jónsson hrl.) Kristjáni Ragnari Kristjánssyni og(Ásgeir Þór Árnason hrl.) Ragnari Orra Benediktssyni(Sigmundur Hannesson hrl. Steinunn Guðbjartsdóttir hdl.) |
|
|
Hylming. Peningaþvætti. Fjárdráttur. Ákæra.
Á og K voru sakfelldur fyrir hylmingu, með því að hafa veitt viðtöku fé, sem S hafði dregið sér í starfi sínu hjá L hf., haldið því ólöglega fyrir eiganda þess og hagnýtt það í eigin þágu og félaga sem þeir áttu að hluta eða öllu leyti. Þá var R sakfelldur fyrir peningaþvætti, með því að hafa á sama hátt veitt viðtöku fé, sem S hafði dregið sér, og hagnýtt það í eigin þágu eða ráðstafað því til annarra. Á, K og R höfðu verið ákærðir fyrir að „hafa mátt vera ljóst“ að vörslur fjárins í höndum S hefðu ekki stofnast með löglegum hætti. Af því tilefni tók Hæstiréttur fram að lög um meðferð opinberra mála áskildu ekki að í ákæru væri lýst huglægri afstöðu ákærða til verknaðarins sem ákært væri fyrir, enda skæru dómstólar en ekki ákæruvald úr um saknæmi. Við ákvörðun refsingar Á og K var litið til þess að brot þeirra vörðuðu fjölmargar greiðslur, sem spönnuðu yfir talsverðan tíma, og voru flestar að verulegri fjárhæð. Námu brotin alls stórfelldri fjárhæð, sem átti sér ekki hliðstæðu í öðrum dómsmálum. Með því að K hafði á hendi fjárvörslur þeirra að megin stofni og átti ríkari þátt í verknaðinum var nokkur munur gerður á refsingu þeirra. Var Á gert að sæta fangelsi í 15 mánuði, en K í 18 mánuði. Refsing R var ákveðin fangelsi í 3 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 26. júlí 2004 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst staðfestingar á héraðsdómi.
Ákærðu krefjast allir aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins. Ákærði Árni Þór Vigfússon krefst til vara að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað en til þrautavara mildunar refsingar. Ákærði Kristján Ragnar Kristjánsson krefst til vara að refsing hans verði ákveðin sem fésekt. Ákærði Ragnar Orri Benediktsson krefst til vara mildunar refsingar.
I.
Í héraðsdómi er frá því skýrt að Sveinbjörn Kristjánsson, sem var ákærður ásamt ákærðu Árna Þór, Kristjáni Ragnari og Ragnari Orra, hafi komist yfir verulega fjármuni með fjárdrætti frá Landssíma Íslands hf., þar sem hann starfaði sem aðalféhirðir frá 4. maí 1999 til 31. desember 2002 og eftir það sem aðalgjaldkeri til 20. maí 2003. Sveinbjörn gekkst við þessum brotum og með dómi héraðsdóms var hann sakfelldur samkvæmt ákæru fyrir að hafa dregið sér í 137 tilvikum alls 261.146.944 krónur. Hann var dæmdur í 4 ára og 6 mánaða fangelsi og unir þeim dómi. Brot þessi voru talin stórfelld og eiga sér enga hliðstæðu.
Ákærði Árni Þór er í málinu ákærður fyrir hylmingu með því að hafa veitt viðtöku frá dómfellda Sveinbirni, haldið og ráðstafað 9. mars 2000 einni greiðslu inn á reikning sinn hjá Landsbanka Íslands hf., sem hann notaði að mestu leyti til kaupa á hlutafé, og síðan þremur greiðslum, einni 31. júlí 2001 og tveimur 12. desember sama ár, inn á reikning sinn hjá Sparisjóði Siglufjarðar, sem hann hafi notað til lækkunar á yfirdrætti. Samtals námu greiðslur þessar 8.666.000 krónum. Ákærði Kristján Ragnar er ákærður fyrir hylmingu með því að hafa 4. maí 1999 veitt viðtöku frá dómfellda Sveinbirni 560.250 krónum inn á bankareikning sinn í Íslandsbanka hf. til ráðstöfunar í eigin þágu. Sameiginlega eru þeir ákærðir fyrir hylmingu, en til vara peningaþvætti, fyrir að hafa veitt viðtöku frá Sveinbirni, haldið, flutt og notað í eigin þágu og einkahlutafélags síns Alvöru lífsins frá 12. maí 1999 til 2. ágúst 2000 samtals 22 greiðslur að fjárhæð 129.211.536 krónur og í þágu Íslenska sjónvarpsfélagins hf., sem þeir voru í forsvari fyrir, þremur greiðslum 1. og 23. september 1999 og 1. október 1999, samtals 25.144.182 krónur. Ákærði Ragnar Orri er á sama hátt ákærður fyrir hylmingu og til vara peningaþvætti fyrir að hafa í fyrsta lagi frá 5. júlí 2001 til 7. júní 2002 veitt viðtöku á bankareikning sinn í Íslandsbanka hf. og notað í eigin þágu samtals 11 greiðslur hverja að fjárhæð 300.000 krónur eða samtals 3.300.000 krónur frá dómfellda Sveinbirni, í öðru lagi tekið við, haldið, flutt og ráðstafað samtals 15 greiðslum að fjárhæð 22.216.315 krónum sem fengnar voru hjá Sveinbirni frá 31. ágúst 2001 til 28. október 2002, og loks að hafa tekið við, haldið, flutt og notað í eigin þágu og einkahlutafélags síns Hafskips tvær greiðslur 2. og 20. maí 2003 frá Sveinbirni samtals að fjárhæð 5.964.632 krónur.
Í ákæru er því haldið fram að öllum ákærðu „hafi mátt vera ljóst” að vörslur fjárins í höndum dómfellda Sveinbjörns hafi ekki stofnast með lögmætum hætti. Brot þeirra eru talin varða við 254. gr. en til vara 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Féllst héraðsdómur á að þeim hafi hlotið að vera þetta ljóst. Ákærðu gera athugasemd við þessa niðurstöðu héraðsdóms og halda því fram að ásetningsbroti sé ekki lýst í ákæru. Telja þeir að tilvitnað orðalag ákærunnar feli í sér lýsingu á gáleysisverknaði, sem sé ekki refsiverður samkvæmt 254. gr. almennra hegningarlaga. Ákvæði 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála áskilja ekki að í ákæru sé lýst huglægri afstöðu ákærða til þess verknaðar sem ákært er fyrir, enda skera dómstólar en ekki ákæruvaldið úr um saknæmi. Í ákæru eru ætluð brot ákærðu nefnd hylming og peningaþvætti, og sem áður segir heimfærð til 254. gr. almennra hegningarlaga, sem tekur aðeins til ásetningsbrota, en til vara 264. gr. sömu laga, sem tekur auk ásetningsbrota til gáleysisbrota. Málflutningur ákæruvaldsins er að öðru leyti en að framan greinir miðaður við að um ásetningsbrot sé að ræða. Mátti ákærðu þess vegna vera ljóst að þeir væru ákærðir fyrir ásetningsbrot. Verður því ekki talið að framangreint orðalag ákærunnar hafi skaðað vörn þeirra, sem hefur bæði tekið mið af því að verjast sakargiftum um ásetningsbrot og gáleysisbrot.
II.
Málsatvikum er ítarlega lýst í héraðsdómi. Þar er einnig rakinn framburður allra ákærðra svo og vitna. Ákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar hafa báðir lýst því yfir fyrir héraðsdómi að þeir hafi á þeim tíma, sem ákæran tekur til, rekið fjármál sín að mestu sem eina heild og ekki gert greinarmun á þeim og fjármálum einkahlutafélags síns Alvöru lífsins. Ekkert bókhald var fært fyrir einkahlutafélagið og er erfitt að gera nokkurn greinarmun á því hvort fjármunirnir, sem frá dómfellda Sveinbirni komu, runnu til annars hvors þeirra eða einkahlutafélagsins. Þá voru þeir báðir í forsvari fyrir Íslenska sjónvarpsfélagið hf. Með vísan til þessa og hversu samofin sakarefni þeirra eru þótti héraðsdómi rétt að fjalla um þátt þeirra beggja í einu lagi. Ákærði Árni Þór hefur gert athugasemdir við þessar forsendur dómsins. Heldur hann því fram að enda þótt fjármálum sínum, ákærða Kristjáns Ragnars og Alvöru lífsins ehf. hafi verið blandað saman felist ekki í því að ákærðu hafi stýrt fjármálunum í sameiningu. Í reynd telur ákærði Árni Þór sig ekkert hafa komið að stjórn fjármála Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. eða Alvöru lífsins ehf. og reyndar ekki heldur eigin fjármála að mestum hluta.
Ákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar eru um það sammála að upphaf máls þessa megi rekja til þess að fyrrihluta árs 1999 hafi þeir fengið þá hugmynd að stofna fyrsta auglýsingasjónvarpið hér á landi. Í því skyni hafi þeir ætlað að kaupa Skjá 1, sem þá hafi verið lítið annað en skjámyndir. Þeir hafi leitað eftir fé til þess að koma stöðinni á laggirnar og hafi borist til eyrna að Landssími Íslands hf. stæði að lánveitingum. Hafi það leitt til þess að þeir hafi leitað til dómfellda Sveinbjörns, bróður ákærða Kristjáns Ragnars, sem þar var aðalféhirðir og borið upp við hann hvort Landssíminn myndi lána þeim til þess að koma stöðinni af stað. Hann hafi sagst ætla skoða það. Ákærði Árni Þór segir að síðan hafi ákærði Kristján Ragnar sagt sér að þeir myndu fá lánsfé hjá Landssímanum. Ákærði Kristján Ragnar bar fyrir dómi að þeir hafi skipt með sér verkum þannig að hann hafi séð um fjármál tengd fyrirtækjum þeirra en ákærði Árni Þór séð um markaðsmál. Hann sagði að ákærði Árni Þór hafi þó vitað um þessi lán frá Landssímanum. Hann hafi komið að upphafinu, þeir hafi haft sameiginlega skrifstofu og rætt hlutina saman, svo að ekki hafi farið hjá því að ákærði Árni Þór hafi heyrt allt sem fram fór. Þá segir hann að þeir hafi báðir fengið lán frá Alvöru lífsins ehf. til íbúðakaupa að Skúlagötu 44 af þessum fjármunum og hafi ákærða Árna Þór verið fullkunnugt um það. Dómfelldi Sveinbjörn sagði fyrir dómi að greiðslu- eða millifærslubeiðnir hafi borist til sín annað hvort með tölvupósti eða símleiðis frá ákærða Kristjáni Ragnari og skýrði það með því að Kristján Ragnar hafi séð um öll fjármál þeirra ákærða Árna Þórs. Hann sagðist hafa litið svo á að allir fjármunirnir rynnu til einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
Ákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar halda því fram að þeim hafi ekki verið um annað kunnugt en að það fé, sem þeir tóku við frá dómfellda Sveinbirni, væri komið frá Landssíma Íslands hf. með lögmætum hætti. Samkvæmt hlutafélagaskrá var ákærði Árni Þór stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Alvöru lífsins ehf. og ákærði Kristján Ragnar þar stjórnarformaður. Báðir höfðu prókúru fyrir félagið. Á þeim tíma sem um getur í ákæru mun ekki hafa verið um annan rekstur að ræða hjá félaginu en umsýslu fyrir þá sjálfa. Ákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar keyptu 16. ágúst 1999 ásamt öðrum alla hlutafjáreign Fofna ehf. fjárfestingafélags í Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf. Samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár 20. ágúst 1999 var félaginu breytt í hlutafélag og hlutafé þess aukið úr 10.000.000 krónum í 11.000.000 krónur. Þá var ákærði Kristján Ragnar kosinn stjórnarformaður og ákærði Árni Þór í stjórn auk annars nafngreinds manns. Auk þess var ákærði Árni Þór ráðinn framkvæmdastjóri á fyrsta fundi nýkjörinnar stjórnar og ákærða Kristjáni Ragnari fengin prókúra. Með kaupsamningi 20. september sama ár keypti Suðurljós ehf. 22,5% hlutafjár í Íslenska sjónvarpsfélaginu en ákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar keyptu síðan af því félagi 13,66% af heildarhlutafénu 17. október þetta ár. Á hluthafafundi sama dag voru þeir ásamt þriðja manni endurkjörnir í stjórn félagsins og ákveðið að auka hlutafé í 15.400.000 krónur. Á hluthafafundi 1. nóvember sama ár var samþykkt að auka hlutafé félagsins með útgáfu jöfnunarhlutabréfa í 88.550.000 krónur og var tilkynning þar um móttekin hjá hlutafélagaskrá 1. mars 2000. Kjörin var ný stjórn og munu nýir hluthafar hafa gengið til liðs við félagið. Með tilkynningu til hlutafélagaskrár 15. ágúst 2000 var boðuð aukning í 125.000.000 krónur og hlutafé enn aukið 26. október 2000 og 9. apríl 2001. Eftir þessar hækkanir nam heildarnafnverð hlutafjár 141.575.000 krónum. Samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár 20. desember 2002 leysti stjórn félagsins ákærða Árna Þór frá störfum framkvæmdastjóra og jafnframt var afturkölluð prókúra hans og ákærða Kristjáns Ragnars. Vitnið Theodór Sigurbergsson, sem annaðist endurskoðun á reikningum Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. á árunum 1999 og 2000, bar fyrir dómi að ákærði Árni Þór hafi að mestu séð um dagskrárgerð en ekkert tengst fjármálum félagsins þótt hann hafi verið skráður framkvæmdastjóri. Auk þessara félaga áttu ákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar á því tímabili, sem ákæran tekur til, saman aðild að eftirfarandi einkahlutafélögum: Hananum, sem þeir stofnuðu ásamt þriðja manni 14. ágúst 1999 og seldu síðar dómfellda Sveinbirni, Lífstíl, sem þeir stofnuðu 11. júlí 2001, en þar virðist Sveinbjörn hafa verið í stjórn á tímabili, Japis-markaði, en samþykktir þess eru frá 28. febrúar 2001, Kvikmyndafélaginu Nýja Bíó, samþykktir frá 30. apríl 1999, Ísafoldarhúsinu, sem stofnað var 26. mars 2002 en Sveinbjörn virðist hafa átt í því félagi ásamt þeim og verið í stjórn, og Prisa-Iceland, sem þeir stofnuðu ásamt Sveinbirni 11. júlí 2001, en síðar var nafni þessa félags breytt í Prisa-Trading.
Að framan hefur það verið rakið hversu samtvinnuð fjármál ákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars voru á því tímabili, sem ákæran tekur til, og hvernig hagað var störfum þeirra og ábyrgð á greindum félögum. Verður að fallast á það með héraðsdómi að þeim fjárhæðum, sem bárust inn á reikninga ákærðu og félaga þeirra frá dómfellda Sveinbirni, hafi verið ráðstafað í þágu þeirra beggja og því sé óhjákvæmilegt að fjalla um þátt þeirra í málinu í einu lagi. Engu að síður verður að taka afstöðu til refsiábyrgðar hvors þeirra um sig.
III.
Heildarfjárhæð greiðslna sem bárust frá dómfellda Sveinbirni til ákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars og einkahlutafélagsins Alvöru lífsins og Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. samkvæmt ákæru nam 163.581.968 krónum. Auk þessa runnu til einkahlutafélaganna Hanans og Lífstíls samtals 19.468.000 krónur. Að þeim áttu ákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar aðild samkvæmt framansögðu, en þeir eru ekki ákærðir vegna þeirra framlaga Sveinbjörns. Því er áður lýst að líta verður svo á að þeir fjármunir, sem bárust ákærðu Árna Þór og Kristjáni Ragnari frá Sveinbirni úr vörslum Landssíma Íslands hf., og ákært er út af, hafi í raun runnið til þeirra sjálfra og verið ráðstafað í þeirra þágu. Þeir neita því báðir að hafa nokkuð um það vitað að fjármunir þessir voru ekki fengnir með lögmætum hætti. Ræðst niðurstaða málsins af því hvað telst sannað um vitneskju þeirra um heimildir Sveinbjörns til að ráðstafa þessu fé. Fyrir dómi gerðu þeir báðir lítið úr þekkingu sinni á rekstri fyrirtækja og fjármögnun á þessum tíma, enda hafi þeir þá aðeins verið 23 ára. Báðir höfðu þeir lokið stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands og ákærði Kristján Ragnar auk þess hafið nám erlendis. Þeir höfðu sett upp og staðið fyrir leiksýningum og tónlistarviðburðum, sem að þeirra sögn höfðu gengið vel og miklar tekjur verið af, að minnsta kosti sumum. Þá höfðu þeir saman ráðist í stofnun fyrirtækja og héldu því áfram eftir að peningaframlög þessi hófust. Þeir fóru saman til dómfellda Sveinbjörns og föluðust eftir fé að láni að því er þeir segja til þess að kaupa Íslenska sjónvarpsfélagið ehf. og þróa í framhaldi af því Skjá 1 sem auglýsingasjónvarp. Fyrstu greiðslurnar frá Sveinbirni runnu til ákærða Kristjáns Ragnars og einkahlutafélags ákærðu Alvöru lífsins í maí 1999. Þær voru verulegar og notaðar til greiðslu skuldar á greiðslukortareikningi ákærða Kristjáns Ragnars og lækkunar á yfirdrætti á bankareikningi hans. Samkvæmt gögnum málsins hófu þeir kaup sín á Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf. 16. ágúst þetta ár, þremur mánuðum eftir að fyrstu greiðslur bárust þeim. Þeir hafa engar upplýsingar veitt um það hver endurgreiðslukjör lánveitinga Landssímans áttu að vera eða hvort og hvaða tryggingar þeir hafi átt að veita eða getað veitt fyrir efndum skuldbindinganna. Því er að framan lýst að fjármunirnir sem þeim bárust voru verulegir og þeir fengu þá aðallega á tímabilinu frá 4. maí 1999 til 2. ágúst 2000. Dómfelldi Sveinbjörn sagði fyrir dómi að ekki hafi verið rætt um neinar ábyrgðir en út frá því gengið að fjármunirnir yrðu greiddir til baka við sölu á hlutafé á árinu 2000. Hlutafé hafi verið aukið síðari hluta árs 1999 og þá komið greiðsla frá þeim en svo hafi enn átt að auka hlutaféð eða selja hlutafé en það ekki tekist. Samkvæmt ákærunni runnu 25.000.000 krónur til Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. síðari hluta árs 1999 og það er nær sama fjárhæð og var endurgreidd samkvæmt gögnum málsins. Sveinbjörn sagðist hafa krafið þá um endurgreiðslu í töluverðan tíma, en svo áttað sig á því að þeir gátu ekki greitt. Ákærði Kristján Ragnar bar einnig að fyrirgreiðsla Sveinbjörns hafi átt að vera til skamms tíma og greiðast við hlutafjáraukningu. Þá sagði hann að undir lok ársins 2000 hafi honum verið orðið ljóst að þeir gætu ekki endurgreitt þessi lán frá Landssímanum. Á árinu 2001 bárust engu að síður verulegar fjárhæðir inn á reikning ákærða Árna Þórs við Sparisjóð Siglufjarðar til lækkunar á yfirdrætti. Samkvæmt framburði ákærða Kristjáns Ragnars var hann notaður til fjármögnunar framkvæmda í Asíu á vegum einkahlutafélagsins Prisa-Iceland, sem síðar varð Prisa-Trading, en Sveinbjörn átti einnig aðild að því félagi. Ákærði Kristján Ragnar heldur því fram að Sveinbjörn hafi séð um þessi fjármál á þeim tíma, sem hér um ræðir, en ákærði Árni Þór var reikningseigandi og ákærði Kristján Ragnar viðurkennir að hafa haft aðgang að reikningi þessum og ráðstafað af honum fjármunum.
Engin yfirlit eða önnur gögn bárust ákærðu Árna Þór og Kristjáni Ragnari yfir skuldastöðu þeirra hjá Landssíma Íslands hf., svo sem þeir hljóta sem aðrir að hafa fengið frá öðrum lánveitendum. Bókhald einkahlutafélags þeirra Alvöru lífsins var ekki fært og á þann hátt var ekki haldið utan um skuldastöðuna. Ákærði Kristján Ragnar sagðist fyrir dómi nokkurn veginn hafa vitað hvað þeir skulduðu Landssímanum og ákærði Árni Þór sagði ákærða Kristján Ragnar hafa að minnsta kosti tvisvar minnst á það við sig hvað þeir skulduðu nokkurn veginn.
Héraðsdómur, sem skipaður var þremur dómurum, mat það svo með vísun til alls þess, sem að framan er talið, að það hafi engan veginn getað farið fram hjá ákærðu Árna Þór og Kristjáni Ragnari að dómfelldi Sveinbjörn væri ekki kominn að þessum fjármunum með lögmætum hætti og framburður þeirra um annað fengi á engan hátt staðist. Samkvæmt 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, endurmetur Hæstiréttur ekki niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar. Verður þá að taka til athugunar hvort niðurstaða héraðsdóms kunni að vera röng um þetta efni. Er þess þar að gæta að ákærða Kristjáni Ragnari gat ekki dulist sem stjórnanda allra fjármála fyrirtækjanna Alvöru lífsins ehf. og Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. að fjárstreymi til þeirra félaga frá Landssímanum var ekki venjulegt fjárstreymi frá lánastofnun. Þegar frá leið stóðu ákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar að fleiri fyrirtækjum sem dómfelldi Sveinbjörn kom einnig að og enn var fjár aflað frá Landssímanum. Fjárhæðir þessar voru verulegar og greiðslurnar fjölmargar. Ákærði Árni Þór heldur því að vísu fram að hann hafi ekki komið nærri fjármálum fyrirtækja þeirra félaga. Hefur það að nokkru stoð í framburði endurskoðanda Íslenska sjónvarpsfélagsins hf., að því er það félag varðar, og ákærða Kristjáns Ragnars að nokkru leyti varðandi aðra fjársýslu þeirra félaga. Ákærði Árni Þór var hins vegar framkvæmdastjóri Alvöru lífsins ehf., stóð sem sjónvarpsstjóri að uppbyggingu Íslenska sjónvarpsfélagsins hf., ræddi við dómfellda Sveinbjörn um upphaf þessara lánsviðskipta og fylgdist með fyrir atbeina ákærða Kristjáns Ragnars hvernig fjárframlögin jukust. Hann eignaðist íbúðarhúsnæði og jók hlutabréfaeign sína á þessum tíma og auk þess fóru verulegir fjármunir um reikninga, sem hann var skráður eigandi að hjá lánastofnunum. Ganga verður út frá að hann hafi fengið yfirlit yfir þessa reikninga og getað fylgst með þeim. Þá eru ákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar sammála um að sá fyrrnefndi hafi fengið þá hugmynd að kaupa hlutabréf í félaginu Urði-Verðandi-Skuld. Samkvæmt gögnum málsins voru í þessu skyni fengnar 5.121.000 krónur frá Sveinbirni úr sjóðum Landssíma Íslands hf. og lagðar inn á reikning ákærða Árna Þórs 9. mars 2000. Það verður því að teljast algjörlega útilokað að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því að öll þessi viðskipti þeirra ákærða Kristjáns Ragnars við Sveinbjörn voru þeim síðastnefnda óheimil. Verður því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar hafi gerst sekir um hylmingu, sem varðar við 254. gr. almennra hegningarlaga, með því að veita viðtöku umræddu fé, halda því ólöglega fyrir eiganda þess, Landssíma Íslands hf., og hagnýta það í eigin þágu og áðurgreindra félaga.
IV.
Að framan er því lýst að ákæruefnið gagnvart ákærða Ragnari Orra lýtur einnig að hylmingu samkvæmt 254. gr. almennra hegningarlaga. Sakarefnið varðar í fyrsta lagi viðtöku og notkun á mánaðarlegum greiðslum á tímabilinu 5. júlí 2001 til 7. júní 2002. Fjárhæð hverrar greiðslu nam 300.000 krónum og voru þær alls 3.300.000 krónur. Í annan stað er um að ræða framsal á 15 tékkum samtals að fjárhæð 22.216.315 krónur á tímabilinu 31. ágúst 2001 til 28. október 2002. Greiðslur eftir framsal þessara tékka runnu inn á reikninga einkahlutafélaganna Hanans og Lífstíls, að frátalinni einni greiðslu, sem fór inn á reikning ákærða Kristjáns Ragnars, og tveimur inn á reikninga annarra manna. Loks varðar sakarefnið viðtöku á tveimur greiðslum, sem runnu inn á reikning einkahlutafélagsins Hafskips, félags í eigu ákærða Ragnars Orra. Námu þær greiðslur samtals 5.964.632 krónum og fóru fram í tvennu lagi í maí 2003, skömmu áður en fjárdráttur dómfellda Sveinbjörns uppgötvaðist.
Við mat á því hvaða vitneskju ákærði hafði um heimildir dómfellda Sveinbjörns til að ráðstafa fé úr vörslum Landssíma Íslands hf. er til þess að líta að upphaf að skiptum ákærða við dómfellda Sveinbjörn, sem ákært er út af, voru að frumkvæði dómfellda en hann er móðurbróðir ákærða. Ákærði hafði þá samkvæmt því sem upplýst er litla sem enga reynslu af viðskiptum og takmarkaða menntun á því sviði. Greiðslurnar ellefu, sem ákært er fyrir og námu 300.000 krónum hver, áttu að vera laun hans, sem hann samdi um við dómfellda Sveinbjörn, fyrir vinnu í hans þjónustu og fleiri aðila. Segir ákærði að dómfelldi hafi gefið þá skýringu á því að greiðslurnar komu frá Landssímanum að þeir félagarnir væru í viðskiptum með timbur í Laos og væru þess vegna með fyrirgreiðslu frá Landssímanum en hentugra væri fyrir dómfellda að launin væru greidd með þessum hætti. Lét ákærði sér þetta engu frekara varða. Hann taldi tekjur þessar ekki fram til skatts. Það var staðfest af dómfellda Sveinbirni að hann hafi gefið ákærða skýringu á þessum greiðslumáta en skýring hans var þó með nokkuð öðrum hætti. Ákærði sagðist hafa verið í námi erlendis og komið heim í sumarvinnu og ætlað sér aftur utan þótt ekkert yrði af því. Tékkana 15 hafi hann framselt samkvæmt fyrirskipunum dómfellda og verið gefin sú skýring á þeim að þetta væri lánveiting frá Landssímanum til þeirra sem áttu þá reikninga sem lagt var inn á. Í því tilviki er hann tók við fé til Hafskips ehf. hafi hann talið að það væri frá dómfellda sjálfum komið og væri framlag hans til sameiginlegs reksturs þeirra, en ekki fyrirgreiðsla til sín persónulega. Þeir hafi á þessum tíma verið sameiginlega með þrenns konar rekstur, fasteign að Klapparstíg 17, Prikið kaffihús og Papriku ehf. og um hafi verið um að ræða fé til þessarar starfsemi. Þetta staðfesti dómfelldi Sveinbjörn ekki, heldur sagði fénu hafa verið varið til fasteignar ákærða við Klapparstíg. Fjárdráttur dómfellda uppgötvaðist fljótlega eftir þessi síðustu framlög og lögregla lagði hald á öll gögn sem um þetta var að hafa. Sagði ákærði fyrir dómi að ekki hafi gefist tími til að gera grein fyrir þessu í bókhaldi og starfsemi Hafskips ehf. hafi legið niðri eftir þetta.
Þegar allt framangreint er virt þykir ekki verða fullyrt að ákærði Ragnar Orri hafi haft skýra mynd af því sem fram fór og þannig haft ásetning til að hylma yfir með fjárdráttarbroti dómfellda Sveinbjörns. Þegar hins vegar er litið til þess hversu verulegar fjárhæðir runnu um hendur ákærða frá dómfellda, sem hann vissi að voru frá Landssímanum komnar, hefði það ekki átt að dyljast honum að atferli dómfellda var ekki eðlilegt og það jafnvel þótt hann hafi ekki í upphafi verið vanur viðskiptum. Það verður því að meta það honum til stórfellds gáleysis að taka við þessum fjárhæðum og fara með þær á þann hátt sem hann gerði. Varðar þessi háttsemi hans við 4. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga.
V.
Að framan hafa ákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar verið sakfelldir fyrir hylmingu með því að hafa veitt viðtöku og ráðstafað í eigin þágu og Alvöru lífsins ehf. og Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. alls 163.581.968 krónum á tímabilinu 4. maí 1999 til 12. desember 2001. Ákærði Árni Þór hefur ekki áður sætt refsingum svo að kunnugt sé og ákærði Kristján Ragnar ekki að því marki að máli skipti. Brot ákærðu varða hins vegar fjölmargar greiðslur, sem spanna yfir talsverðan tíma, og eru flestar að verulegri fjárhæð. Alls nema brot þeirra stórfelldri fjárhæð, sem ekki á sér hliðstæðu í öðrum dómsmálum. Þegar litið er til þess að ákærði Kristján hafði á hendi fjárvörslur þeirra að megin stofni og átti þannig ríkari þátt í verknaðinum verður nokkur munur gerður á refsingu þeirra. Er refsing ákærða Kristjáns hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði, en ákærða Árna Þórs fangelsi í 15 mánuði. Til frádráttar komi 11 daga gæsluvarðhaldsvist ákærðu beggja frá 23. maí til 2. júní 2003.
Ákærði Ragnar Orri hefur ekki áður sætt refsingu er máli skiptir. Hann hefur að framan verið sakfelldur fyrir brot á 4. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Varða brot hans háum fjárhæðum og er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði. Til frádráttar refsingunni komi 7 daga gæsluvarðhald ákærða frá 27. maí til 2. júní 2003.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest. Ákærðu greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði Árni Þór Vigfússon sæti fangelsi í 15 mánuði. Til frádráttar refsingunni komi 11 daga gæsluvarðhaldsvist hans.
Ákærði Kristján Ragnar Kristjánsson sæti fangelsi í 18 mánuði. Til frádráttar refsingunni komi 11 daga gæsluvarðhaldsvist hans.
Ákærði Ragnar Orri Benediktsson sæti fangelsi í 3 mánuði. Til frádráttar refsingunni komi 7 daga gæsluvarðhaldsvist hans.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði Árni Þór greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 500.000 krónur.
Ákærði Kristján Ragnar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Ásgeirs Þórs Árnasonar hæstaréttarlögmanns, 500.000 krónur.
Ákærði Ragnar Orri greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 350.000 krónur.
Annan áfrýjunarkostnað sakarinnar greiði ákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar sameiginlega að ¾ hlutum og ákærði Ragnar Orri að ¼ hluta.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var 3. júní sl., er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra 31. mars 2004 á hendur Sveinbirni Kristjánssyni, kt. 310866-4829, Huldubraut 33, Kópavogi, Árna Þór Vigfússyni, kt. 040576-4019, Grundarstíg 24, Reykjavík, Kristjáni Ragnari Kristjánssyni, kt. 090176-5289, Hverfisgötu 52, Reykjavík, Ragnari Orra Benediktssyni, kt. 200178-5139, Bæjargili 26, Garðabæ og Auði Hörpu Andrésdóttur, kt. 081277-3039, Efstasundi 100, Reykjavík, fyrir eftirtalin hegningarlagabrot framin í Reykjavík.
I.
Á hendur ákærða Sveinbirni fyrir fjárdrátt með því að hafa í starfi sínu hjá Landssíma Íslands hf., sem aðalféhirðir á tímabilinu frá 4. maí 1999 til 31. desember 2002, og eftir það sem aðalgjaldkeri til 20. maí 2003, dregið sér frá félaginu samtals kr. 261.146.944,00 svo sem rakið verður í hverju tilviki fyrir sig :
A.
Með því að hafa dregið sér kr. 34.964.948,00 sem var andvirði eftirtalinna 13 tékka sem ákærði gaf út á tékkareikning Landssíma Íslands hf. númer 0513 26 40001 hjá Íslandsbanka hf., svo sem hér greinir :
1. Hinn 4. júlí 2001 dregið sér og nýtt í eigin þágu andvirði tékka númer 4057791, að fjárhæð kr. 638.100,00 útgefinn til handhafa og ákærði hafði fengið samstarfsmann sinn til að gefa út.
2. Hinn 5. júlí 2001 dregið sér andvirði tékka númer 4057794, að fjárhæð kr. 548.657,00, sem ákærði gaf út og ráðstafaði til Tollstjórans í Reykjavík til greiðslu bifreiðagjalda, virðisaukaskatts og opinberra gjalda nafngreinds manns.
3. Hinn 31. júlí 2001 dregið sér andvirði tékka númer 4057820, að fjárhæð kr. 1.800.000,00, sem ákærði gaf út og ráðstafaði inn á bankareikning meðákærða Árna Þórs númer 1102 26 4019.
4. Hinn 12. desember 2001 dregið sér andvirði tékka númer 4027597, að fjárhæð kr. 880.000,00, sem ákærði gaf út og ráðstafaði í nafni einkahlutafélagsins Hanans, kt. 670899-2339, sem var í eigu meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars og ákærði var framkvæmdastjóri fyrir ásamt því að vera varamaður í stjórn, inn á bankareikning meðákærða Árna Þórs númer 1102 26 4019.
5. Hinn 12. desember 2001 dregið sér andvirði tékka númer 4027598, að fjárhæð kr. 865.000,00, sem ákærði gaf út og ráðstafaði í nafni einkahlutafélagsins Hanans, kt. 670899-2339, sem var í eigu meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars og ákærði var framkvæmdastjóri fyrir ásamt því að vera varamaður í stjórn, inn á bankareikning meðákærða Árna Þórs númer 1102 26 4019.
6. Hinn 31. október 2002 dregið sér andvirði tékka númer 4139598, að fjárhæð kr. 1.113.000,00, sem ákærði gaf út og ráðstafaði til Tollstjórans í Reykjavík til greiðslu vangoldinna opinberra gjalda, tryggingagjalds og virðisaukaskatts tveggja nafngreindra einstaklinga.
7..Hinn 31. desember 2002 dregið sér andvirði tékka númer 4139599, að fjárhæð kr. 6.490.462,00, sem ákærði gaf út og ráðstafaði inn á bankareikning félagsins Fjárverndar-Verðbréf hf. númer 301 13 121935 og var fjárhæðin að fyrirmælum ákærða greidd honum til baka sama dag með bankatékka.
8. Hinn 14. febrúar 2003 dregið sér andvirði tékka númer 4155835, að fjárhæð kr. 1.743.000,00, sem ákærði gaf út og ráðstafaði til greiðslu húsaleiguskuldar einkahlutafélagsins Ísafoldarhússins, kt. 670302-4230, sem var í eigu ákærða og meðákærða Árna Þórs, vegna leigu á húsnæði að Þingholtsstræti 5 í Reykjavík.
9. Hinn 27. febrúar 2003 dregið sér andvirði tékka númer 4155847, að fjárhæð kr. 9.689.890,00, sem ákærði gaf út og ráðstafaði inn á bankareikning númer 513 26 9077 hjá Íslandsbanka hf., í eigu Faktor einkaleyfaskrifstofu, vegna kaupa ákærða á hlutabréfum í einkahlutafélaginu Timburfélaginu að fjárhæð kr. 4.000.000. Það sem eftir stóð af andvirði tékkans kr. 5.689.890 var að fyrirmælum ákærða millifært daginn eftir inn á bankareikning hans númer 1155 26 8025.
10.Hinn 4. mars 2003 dregið sér andvirði tékka númer 4155850, að fjárhæð kr. 3.313.824,00, sem ákærði gaf út og ráðstafaði inn á bankareikning númer 1150 26 103 til greiðslu ýmissa vangoldinna gjalda einkahlutafélagsins Hanans, kt. 670899-2339, vegna áranna 2000 og 2001, en ákærði annaðist daglega stjórn félagsins og var varamaður í stjórn þess.
11.Hinn 11. apríl 2003 dregið sér andvirði tékka númer 4174774, að fjárhæð kr. 1.918.383,00, sem ákærði gaf út og ráðstafaði til greiðslu húsaleiguskuldar einkahlutafélagsins Bankastrætis 12, kt. 660202-2340, sem ákærði átti í félagi við meðákærða Ragnar Orra, vegna húseignarinnar að Bankastræti 12 í Reykjavík, að fjárhæð kr. 918.383,00, eftirstöðvarnar af andvirði tékkans, kr. 1.000.000,00 voru að fyrirmælum ákærða millifærðar þremur dögum síðar inn á bankareikning einkahlutafélagsins Bankastrætis 12 númer 513 26 22340.
12. Hinn 2. maí 2003 dregið sér andvirði tékka númer 4174784, að fjárhæð kr. 2.982.316,00, sem ákærði gaf út og ráðstafaði inn á bankareikning einkahlutafélags meðákærða Ragnars Orra, Hafskip kt. 600203-4520 númer 301 26 60020.
13. Hinn 20. maí 2003 dregið sér andvirði tékka númer 4174807, að fjárhæð kr. 2.982.316,00, sem ákærði gaf út og ráðstafaði inn á bankareikning einkahlutafélags meðákærða Ragnars Orra, Hafskip kt. 600203-4520, númer 301 26 60020.
B.
Með því að hafa dregið sér kr. 1.837.952,10 með 5 millifærslum um bankalínu Landssíma Íslands hf. hjá Íslandsbanka hf. af eftirtöldum bankareikningum félagsins og ráðstafað í eigin þágu eða annarra einstaklinga eða félaga óviðkomandi Landsíma Íslands hf. svo sem hér greinir :
14. Hinn 6. mars 2001 millifært kr. 350.000,00 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40007 inn á bankareikning nr. 304 26 899 í eigu einkahlutafélagsins Hanans sem var í eigu meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars en ákærði var framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess.
15. Hinn 29. júní 2001 millifært kr. 38.286,70 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40007 til greiðslu afborgunar af skuldabréfi í nafni ákærða við Landsbanka Íslands hf.
16. Hinn 22. febrúar 2002 millifært kr. 200.000,00 af bankareikningi félagsins númer 513 26 40040 inn á bankareikning númer 322 26 44840 í eigu nafngreinds einstaklings.
17. Hinn 22. febrúar 2002 millifært kr. 55.209,40 af bankareikningi félagsins númer 513 26 40040 inn á bankareikning Húsasmiðjunnar hf. númer 111 26 311278 til greiðslu kröfu vegna vöruúttekta nafngreinds einstaklings.
18. Hinn 6. mars 2002 millifært kr. 1.194.456,00 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 42500 til greiðslu víxilskuldar í nafni ákærða við Íslandsbanka hf.
C.
Með því að hafa dregið sér kr. 7.101.495,10 af bankareikningi Landssíma Íslands hf. númer 513 26 40007 með því að breyta í rafrænu greiðslukerfi félagsins eftirtöldum textaskrám, sem innihéldu upplýsingar um viðtakendur greiðslna frá félaginu og sendar voru rafrænt til viðskiptabanka þess til afgreiðslu, ýmist með því að breyta áður gerðum færslum eða með því að bæta inn færslum og með því gefið fyrirmæli um ráðstöfun fjármuna í eigin þágu eða til einstaklinga óviðkomandi Landssíma Íslands hf., svo sem hér greinir :
19. Hinn 4. júní 1999 breytt textaskrá númer SE9906041915.01 með því að bæta inn færslu sem kvað á um greiðslu kr. 50.000,00 inn á bankareikning ákærða númer 0513 26 7716.
20. Hinn 21. desember 1999 breytt textaskrá númer SE99121700.01 með því að bæta inn færslu sem kvað á um greiðslu kr. 550.000,00 inn á bankareikning númer 301 26 81277 í eigu meðákærðu Auðar Hörpu.
21. Hinn 28. febrúar 2000 breytt textaskrá númer SE000225BS32.01 með því að bæta inn færslu sem kvað á um greiðslu kr. 180.000,00 inn á bankareikning númer 513 26 6886 í eigu meðákærðu Auðar Hörpu.
22. Hinn 6. september 2000 breytt textaskrá númer SE000905SK1.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 601.858,00 til kröfuhafa númer 15085 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 406.430,00 til Landsbanka Íslands hf. vegna kröfu frá Byko hf. sem ákærði var greiðandi að.
23. Hinn 28. september 2000 breytt textaskrá númer SE000921BS4.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 108.000,00 til kröfuhafa númer 16509 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 354.000,00 inn á bankareikning ákærða númer 1152 26 15878.
24. Hinn 27. október 2000 breytt textaskrá númer SE001009BSPRUFA með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 1.261,00 til kröfuhafa númer 12053 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 389.858,00 inn á bankareikning ákærða númer 1152 26 15878.
25. Hinn 9. nóvember 2000 breytt textaskrá númer SE001108SK1.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 45.000,00 til kröfuhafa númer 800063 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 350.000,00 inn á bankareikning númer 537 26 170161 í eigu nafngreinds einstaklings.
26. Hinn 5. janúar 2001 breytt textaskrá númer SE010105BS.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 15.372,00 til kröfuhafa númer 12388 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 138.117,00 til greiðslu greiðslukortaskuldar nafngreinds einstaklings við Kreditkort hf.
27. Hinn 3. júlí 2002 breytt textaskrá númer SE020701BS2.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 21.377,00 til kröfuhafa númer 13755 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 806.859,00 til Íslandsbanka hf. vegna víxilskuldar í nafni ákærða.
28. Hinn 21. ágúst 2002 breytt textaskrá númer SE020821SK.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 49.800,00 til kröfuhafa númer 13755 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 103.736,00 til Landsbanka Íslands hf. vegna kröfu frá Byko hf. sem ákærði var greiðandi að.
29. Hinn 15. október 2002 breytt textaskrá númer SE021016BS.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 5.463,00 til kröfuhafa númer 14292 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 282.063,00 til Landsbanka Íslands hf. vegna kröfu frá Byko hf. sem ákærði var greiðandi að.
30. Hinn 14. nóvember 2002 breytt textaskrá númer SE021111AES2.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 160.000,00 til kröfuhafa númer 13755 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 907.184,00 til Íslandsbanka hf. vegna víxilskuldar í nafni ákærða.
31. Hinn 5. desember 2002 breytt textaskrá númer SE021203SK.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 160.325,00 til kröfuhafa númer 13755 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 43.876,30 til Íslandsbanka hf. vegna afborgunar af skuldabréfi sem ákærði var greiðandi að.
32. Hinn 5. desember 2002 breytt textaskrá númer SE021203SK.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 49.800,00 til kröfuhafa númer 13755 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 42.119,60 til Íslandsbanka hf. vegna afborgunar af skuldabréfi sem ákærði var greiðandi að.
33. Hinn 5. desember 2002 breytt textaskrá númer SE021203SK.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 108.315,00 til kröfuhafa númer 13755 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 37.611,00 til Búnaðarbanka Íslands hf., vegna kröfu frá Gámaþjónustunni hf. sem ákærði var greiðandi að.
34. Hinn 6. desember 2002 breytt textaskrá númer SE021203SK1.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 160.000,00 til kröfuhafa númer 13755 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu á kr. 183.104,10 til Landsbanka Íslands hf. vegna kröfu frá Byko hf. sem ákærði var greiðandi að.
35. Hinn 6. desember 2002 breytt textaskrá númer SE021203SK1.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 160.325,00 til kröfuhafa númer 13755 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 129.539,00 til Landsbanka Íslands hf. vegna kröfu frá Byko hf. sem ákærði var greiðandi að.
36. Hinn 11. mars 2003 breytt textaskrá númer SE030309BS.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 160.325,00 til kröfuhafa númer 13755 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 1.256.720,10 til Íslandsbanka hf., vegna víxilskuldar sem ákærði var greiðandi að.
37. Hinn 11. mars 2003 breytt textaskrá númer SE030309BS.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 49.800,00 til kröfuhafa númer 13755 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 40.703,20 til Íslandsbanka hf. vegna greiðslu afborgunar af skuldabréfi sem ákærði var greiðandi að.
38. Hinn 11. mars 2003 breytt textaskrá númer SE030309BS.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 108.315,00 til kröfuhafa númer 13755 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 723.367,60 til Landsbanka Íslands hf. vegna kröfu frá Byko hf. sem ákærði var greiðandi að.
39. Hinn 11. mars 2003 breytt textaskrá númer SE030309BS.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 49.800,00 til kröfuhafa númer 13755 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 51.756,20 til Landsbanka Íslands hf. vegna kröfu frá Byko hf. sem ákærði var greiðandi að.
40. Hinn 11. mars 2003 breytt textaskrá númer SE030309BS.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 160.000,00 til kröfuhafa númer 13755 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 74.451,00 til Landsbanka Íslands hf., vegna kröfu frá lögmannsstofunni Lex ehf. sem ákærði var greiðandi að.
D.
Með því að hafa dregið sér kr. 2.855.390,60 af bankareikningi Landssíma Íslands hf. númer 513 26 40007 með því að breyta í rafrænu greiðslukerfi félagsins eftirtöldum textaskrám sem innihéldu upplýsingar um viðtakendur greiðslna frá félaginu og sendar voru rafrænt til viðskiptabanka þess til afgreiðslu og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu á eftirtöldum fjárhæðum til VISA Íslands hf. til greiðslu skulda vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4543-3700-0025-6407, svo sem hér greinir :
41. Hinn 6. september 2000 breytt textaskrá númer SE000905SK1.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 16.717,00 til kröfuhafa númer 13184 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 413.222,90 til Visa Íslands hf.
42. Hinn 6. október 2000 breytt textaskrá númer SE001006SK.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 3.177,00 til kröfuhafa númer 13184 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 393.106,00 til Visa Íslands hf.
43. Hinn 10. nóvember 2000 breytt textaskrá númer SE001109BS1*01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 29.812,00 til kröfuhafa númer 12871 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 286.067,90 til Visa Íslands hf.
44. Hinn 30. nóvember 2000 breytt textaskrá númer SE000704RBJA.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 5.000,00 til kröfuhafa númer 13550 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 348.939,20 til Visa Íslands hf.
45. Hinn 5. janúar 2001 breytt textaskrá númer SE010105BS.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 15.372,00 til kröfuhafa númer 12388 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 334.420,00 til Visa Íslands hf.
46. Hinn 1. febrúar 2001 breytt textaskrá númer SE010201BS4.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 9.078,00 til kröfuhafa númer 16147 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 757.834,80 til Visa Íslands hf.
47. Hinn 2. mars 2001 breytt textaskrá númer SE020226SK2.01 með því að bæta inn færslu sem kvað á um greiðslu kr. 321.792,80 til Visa Íslands hf.
E.
Með því að hafa dregið sér kr. 14.850.060,50 með 27 millifærslum um bankalínu Landssíma Íslands hf. hjá Íslandsbanka hf. af eftirtöldum bankareikningum félagsins til greiðslu skulda vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukortum svo sem hér greinir:
48. Hinn 5. apríl 2001 millifært kr. 365.306,80 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40007 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4543 3700 0025 6407.
49. Hinn 2. maí 2001 millifært kr. 433.815,10 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40001 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4543 3700 0025 6407.
50. Hinn 29. júní 2001 millifært kr. 329.988,50 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40007 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4543 3700 0025 6407.
51. Hinn 31. maí 2001 millifært kr. 163.330,00 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40007 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0006 4735.
52. Hinn 5. júlí 2001 millifært kr. 437.587,30 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40001 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0006 4735.
53. Hinn 1. ágúst 2001 millifært kr. 498.045,40 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40007 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0006 4735.
54. Hinn 4. september 2001 millifært kr. 876.805,80 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40004 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0006 4735.
55. Hinn 3. október 2001 millifært kr. 400.301,40 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40007 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0006 4735.
56. Hinn 6. nóvember 2001 millifært kr. 542.278,20 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40040 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0006 4735.
57. Hinn 7. desember 2001 millifært kr. 759.253,80 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40013 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0006 4735.
58. Hinn 11. janúar 2002 millifært kr. 362.914,70 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40001 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0006 4735.
59. Hinn 5. febrúar 2002 millifært kr. 424.151,40 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 42500 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0006 4735.
60. Hinn 6. mars 2002 millifært kr. 790.679,00 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 42500 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0006 4735.
61. Hinn 5. apríl 2002 millifært kr. 370.096,80 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 42500 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0006 4735.
62. Hinn 6. maí 2002 millifært kr. 817.033,90 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40013 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0006 4735.
63. Hinn 7. maí 2002 millifært kr. 51.065,00 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40013 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0007 1011.
64. Hinn 7. júní 2002 millifært kr. 331.146,80 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 42500 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0007 1011.
65. Hinn 12. júlí 2002 millifært kr. 487.799,80 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 42500 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0007 1011.
66. Hinn 6. ágúst 2002 millifært kr. 807.493,90 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40013 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0007 1011.
67. Hinn 13. september 2002 millifært kr. 904.259,80 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40040 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0007 1011.
68. Hinn 4. október 2002 millifært kr. 946.982,83 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40013 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0007 1011.
69. Hinn 8. nóvember 2002 millifært kr. 564.398,52 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40040 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0007 1011.
70. Hinn 5. desember 2002 millifært kr. 703.850,77 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40013 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0007 1011.
71. Hinn 5. febrúar 2003 millifært kr. 768.938,63 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40040 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0007 1011.
72. Hinn 11. mars 2003 millifært kr. 492.122,11 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40040 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0007 1011.
73. Hinn 7. apríl 2003 millifært kr. 472.799,12 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40040 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0007 1011.
74. Hinn 5. maí 2003 millifært kr. 747.615,12 af bankareikningi félagsins númer 0513 26 40040 til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0007 1011.
F.
Með því að hafa dregið sér kr. 10.983.815,00, sem var andvirði þátttökugjalda vegna svonefndra „Skjálftamóta“ sem Landssími Íslands hf. stóð fyrir og ákærði móttók í starfi sínu til vörslu að loknu hverju móti, svo sem hér greinir :
75. Dregið sér andvirði þátttökugjalda að fjárhæð kr. 950.000,00 sem ákærði tekjufærði í bókhaldi félagsins hinn 1. júlí 2001.
76. Dregið sér andvirði þátttökugjalda að fjárhæð kr. 1.145.783,00 sem ákærði tekjufærði í bókhaldi félagsins hinn 31. ágúst 2001.
77. Dregið sér andvirði þátttökugjalda að fjárhæð kr. 1.185.000,00 sem ákærði tekjufærði í bókhaldi félagsins hinn 1. desember 2001.
78. Dregið sér andvirði þátttökugjalda að fjárhæð kr. 1.521.412,00 sem ákærði tekjufærði í bókhaldi félagsins hinn 31. mars 2002.
79. Dregið sér andvirði þátttökugjalda að fjárhæð kr. 1.531.620,00 sem ákærði tekjufærði í bókhaldi félagsins hinn 1. júní 2002.
80. Dregið sér andvirði þátttökugjalda að fjárhæð kr. 1.477.000,00 sem ákærði tekjufærði í bókhaldi félagsins hinn 31. ágúst 2002.
81. Dregið sér andvirði þátttökugjalda að fjárhæð kr. 1.568.000,00 sem ákærði tekjufærði í bókhaldi félagsins hinn 29. nóvember 2002.
82. Dregið sér andvirði þátttökugjalda að fjárhæð kr. 1.605.000,00 sem ákærði tekjufærði í bókhaldi félagsins hinn 28. mars 2003.
G.
Með því að hafa dregið sér kr. 129.211.536,00 af bankareikningi Landssíma Íslands hf. númer 513 26 40007 með 22 millifærslum inn á bankareikning einkahlutafélags meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars, Alvöru lífsins, kt. 481097-2159, númer 515 26 6066 hjá Íslandsbanka hf., ýmist um bankalínu eða með því að breyta í rafrænu greiðslukerfi félagsins textaskrám sem innihéldu færslur með upplýsingum um viðtakendur greiðslna frá félaginu og sendar voru rafrænt til viðskiptabanka þess til afgreiðslu, ýmist með því að breyta áður gerðum færslum eða með því að bæta inn færslum, svo sem hér greinir:
83. Hinn 12. maí 1999 breytt textaskrá númer SE1205991228.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 2.090.255,00 til kröfuhafa númer 13327 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu sömu fjárhæðar inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
84. Hinn 28. maí 1999 breytt textaskrá númer SE2805991655.01 með því að bæta inn færslu sem kvað á um greiðslu kr. 892.831,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
85. Hinn 23. júní 1999 millifært um bankalínu félagsins hjá Íslandsbanka hf. kr. 7.299.495,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
86. Hinn 13. ágúst 1999 breytt textaskrá númer SE990813BS4.01 með því að bæta inn færslu sem kvað á um greiðslu kr. 10.000.000,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
87. Hinn 15. september 1999 breytt textaskrá númer SE990915SK1.01 með því að bæta inn færslu sem kvað á um greiðslu kr. 7.090.000,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
88. Hinn 7. október 1999 breytt textaskrá númer SE991007BS3.01 með því að bæta inn færslu sem kvað á um greiðslu kr. 10.000.000,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
89. Hinn 19. október 1999 breytt textaskrá númer SE991014BS1.01 með því að bæta inn færslu sem kvað á um greiðslu kr. 9.751.650,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
90. Hinn 26. október 1999 breytt textaskrá númer SE991026BS3.01 með því að bæta inn færslu sem kvað á um greiðslu kr. 9.751.650,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
91. Hinn 2. desember 1999 breytt textaskrá númer SE991202BS1.01 með því að bæta inn færslu sem kvað á um greiðslu kr. 11.751.650,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
92. Hinn 30. desember 1999 breytt textaskrá númer SE991230SK2.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 1.000.000,00 til kröfuhafa númer 800608 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu á sömu fjárhæðar inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
93. Hinn 4. janúar 2000 breytt textaskrá númer SE000104SK.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 2.437.930,00 til kröfuhafa númer 13306 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu sömu fjárhæðar inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
94. Hinn 4. janúar 2000 breytt textaskrá númer SE000104SK.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 7.055.312,00 til kröfuhafa númer 13306 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu sömu fjárhæðar inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
95. Hinn 6. janúar 2000 breytt textaskrá númer SE000106BS1.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 183.015,00 til kröfuhafa númer 16025 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 9.731.903,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
96. Hinn 13. janúar 2000 breytt textaskrá númer SE000113BS.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 1.469,00 til kröfuhafa númer 13313 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 5.144.182,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
97. Hinn 19. janúar 2000 breytt textaskrá númer SE000119SK1.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 4.435.904,00 til kröfuhafa númer 15085 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu sömu fjárhæðar inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
98. Hinn 19. janúar 2000 breytt textaskrá númer SE000119SK1.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 667.283,00 til kröfuhafa númer 15085 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu sömu fjárhæðar inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
99. Hinn 19. janúar 2000 breytt textaskrá númer SE000119SK1.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 54.282,00 til kröfuhafa númer 15085 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu sömu fjárhæðar inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
100. Hinn 19. janúar 2000 breytt textaskrá númer SE000119SK1.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 54.282,00 til kröfuhafa númer 15085 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu sömu fjárhæðar inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
101. Hinn 3. febrúar 2000 breytt textaskrá númer SE000125SBS2.01 með því að bæta inn færslu sem kvað á um greiðslu kr. 2.001.951,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
102. Hinn 8. febrúar 2000 breytt textaskrá númer SE000206BS.01 með því að bæta inn færslu sem kvað á um greiðslu kr. 7.049.976,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
103. Hinn 8. mars 2000 breytt textaskrá númer SE000104BS12.01 með því að bæta inn færslu sem kvað á um greiðslu kr. 951.000,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
104. Hinn 2. ágúst 2000 breytt textaskrá númer SE000802SK.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 1.750,00 til kröfuhafa númer 12659 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 20.000.000 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins.
H.
Með því að hafa dregið sér kr. 25.144.182,00 af bankareikningi Landssíma Íslands hf. númer 513 26 40007 með 3 millifærslum inn á bankareikning Íslenska sjónvarpsfélagsins hf., kt. 640593-2029, númer 1136 26 3442, sem meðákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar voru í forsvari fyrir, meðákærði Árni Þór sem sjónvarpsstjóri og meðákærði Kristján Ragnar sem fjármálastjóri, með því að breyta í rafrænu greiðslukerfi félagsins textaskrám sem innihéldu færslur með upplýsingum um viðtakendur greiðslna frá fyrirtækinu og sendar voru rafrænt til viðskiptabanka þess til afgreiðslu, ýmist með því að breyta áður gerðum færslum eða með því að bæta inn færslum svo sem hér greinir :
105. Hinn 1. september 1999 breytt textaskrá númer SE990901BS1.01 með því að bæta inn færslu sem kvað á um greiðslu kr. 10.000.000,00 inn á bankareikning Íslenska sjónvarpsfélagsins hf.
106. Hinn 23. september 1999 breytt textaskrá númer SE990923BS3.01 með því að bæta inn færslu sem kvað á um greiðslu kr. 5.144.182,00 inn á bankareikning Íslenska sjónvarpsfélagsins hf.
107. Hinn 1. október 1999 breytt textaskrá númer SE991001SK.01 með því að breyta færslu sem kvað á um greiðslu kr. 26.753.197,00 til kröfuhafa númer 14964 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu kr. 10.000.000,00 inn á bankareikning Íslenska sjónvarpsfélagsins hf.
I.
108. Með því að hafa hinn 9. mars 2000 dregið sér kr. 5.121.000,00 af bankareikningi Landssíma Íslands hf. númer 513 26 40007 með millifærslu inn á bankareikning meðákærða Árna Þórs númer 324 26 4019, með því að bæta inn færslu í rafrænu greiðslukerfi félagsins, með breytingu á textaskrá númer SE000104BS12.01 sem innihélt upplýsingar um viðtakendur greiðslna frá félaginu og sendar voru rafrænt til viðskiptabanka þess til afgreiðslu.
J.
109. Með því að hafa hinn 4. maí 1999 dregið sér kr. 560.250,00 af bankareikningi Landssíma Íslands hf. númer 513 26 40007 með millifærslu um bankalínu félagsins hjá Íslandsbanka hf. inn á bankareikning meðákærða Kristjáns Ragnars númer 515 26 403350.
K.
Með því að hafa dregið sér kr. 22.216.315,00 sem var andvirði eftirtaldra 15 tékka sem ákærði gaf út á tékkareikning Landssíma Íslands hf. númer 513 26 40001 hjá Íslandsbanka hf., svo sem hér greinir :
110. Hinn 31. ágúst 2001 dregið sér andvirði tékka nr. 4057827 að fjárhæð kr. 2.200.000 sem ákærði gaf út til meðákærða Ragnars Orra sem framseldi tékkann og lagði andvirðið inn á bankareikning einkahlutafélags meðákærðu, Árna Þórs og Kristjáns Ragnars, Hanans, númer 304 26 899, en ákærði var framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess.
111. Hinn 7. september 2001 dregið sér andvirði tékka nr. 4027594 að fjárhæð kr. 450.000,00 sem ákærði gaf út til handhafa og meðákærði Ragnar Orri framseldi og lagði andvirðið inn á bankareikning einkahlutafélags meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars, Hanans, númer 0513 26 2993, en ákærði var framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess.
112. Hinn 7. september 2001 dregið sér andvirði tékka nr. 4027595 að fjárhæð kr. 2.455.000,00 sem ákærði gaf út til meðákærða Ragnar Orra sem framseldi tékkann og lagði andvirðið inn á bankareikning einkahlutafélags meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars, Hanans, númer 304 26 899, en ákærði var framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess.
113. Hinn 19. október 2001 dregið sér andvirði tékka nr. 4027596 að fjárhæð kr. 1.850.000,00 sem ákærði gaf út hinn 18. október 2001 til meðákærða Ragnars Orra sem framseldi tékkann og lagði andvirðið inn á bankareikning einkahlutafélags meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars, Hanans, númer 301 26 200899, en ákærði var framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess.
114. Hinn 23. nóvember 2001 dregið sér andvirði tékka nr. 4084077 að fjárhæð kr. 1.000.000,00, sem ákærði gaf út til handhafa og meðákærði Ragnar Orri framseldi og lagði andvirðið, í nafni einkahlutafélags meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars, Hanans, en ákærði var framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess, inn á bankareikning einkahlutafélagsins Nýju Kaffibrennslunnar númer 162 26 11.
115. Hinn 23. nóvember 2001 dregið sér andvirði tékka nr. 4084078 að fjárhæð kr. 400.000,00 sem ákærði gaf út til handhafa og meðákærði Ragnar Orri framseldi og lagði andvirðið inn á bankareikning einkahlutafélags meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars, Hanans, númer 513 26 2993, en ákærði var framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess.
116. Hinn 26. nóvember 2001 dregið sér andvirði tékka nr. 4084079 að fjárhæð kr. 750.000,00 sem ákærði gaf út til handhafa hinn 23. nóvember 2001 og meðákærði Ragnar Orri framseldi og lagði andvirðið inn á bankareikning einkahlutafélags meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars, Hanans, númer 301 26 200899, en ákærði var framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess.
117. Hinn 3. desember 2001 dregið sér andvirði tékka nr. 4084075 að fjárhæð kr. 1.620.000,00 sem ákærði gaf út til handhafa hinn 2. desember 2001 og meðákærði Ragnar Orri framseldi og lagði andvirðið, í nafni einkahlutafélagsins Lífstíls sem ákærði átti í félagi við meðákærðu Árna Þór og Kristján Ragnar, inn á bankareikning númer 567 26 1788 í eigu nafngreinds einstaklings.
118. Hinn 5. desember 2001 dregið sér andvirði tékka nr. 4084087 að fjárhæð kr. 900.000,00 sem ákærði gaf út til handhafa og meðákærði Ragnar Orri framseldi og lagði andvirðið inn á bankareikning meðákærða Kristjáns Ragnars númer 515 26 403350.
119. Hinn 25. janúar 2002 dregið sér andvirði tékka nr. 4098784 að fjárhæð kr. 560.000,00 sem ákærði gaf út til handhafa og meðákærði Ragnar Orri framseldi og lagði andvirðið inn á bankareikning einkahlutafélags meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars, Hanans, númer 301 26 200899, en ákærði var framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess.
120. Hinn 12. febrúar 2002 dregið sér andvirði tékka nr. 4098799 að fjárhæð kr. 3.555.000,00 sem ákærði gaf út til handhafa og meðákærði Ragnar Orri framseldi og lagði andvirðið inn á bankareikning einkahlutafélagsins Lífstíls, númer 1102 26 6307, sem ákærði átti í félagi við meðákærðu Árna Þór og Kristján Ragnar.
121. Hinn 12. febrúar 2002 dregið sér andvirði tékka nr. 4098796 að fjárhæð kr. 998.000,00 sem ákærði gaf út til handhafa og meðákærði Ragnar Orri framseldi og lagði andvirðið inn á bankareikning einkahlutafélags meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars, Hanans, númer 301 26 200899, en ákærði var framkvæmdastjóri og varamaður í stjórn þess.
122. Hinn 14. febrúar 2002 dregið sér andvirði tékka nr. 4098800 að fjárhæð kr. 3.200.000,00 sem ákærði gaf út til handhafa hinn 12. febrúar 2002 og meðákærði Ragnar Orri framseldi og lagði andvirðið inn á bankareikning einkahlutafélags meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars, Hanans, númer 301 26 200899, en ákærði var framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess.
123. Hinn 4. mars 2002 dregið sér andvirði tékka nr. 4098816 að fjárhæð kr. 1.150.000,00 sem ákærði gaf út til handhafa og meðákærði Ragnar Orri framseldi og lagði andvirðið inn á bankareikning einkahlutafélags meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars, Hanans, númer 301 26 200899, en ákærði var framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess.
124. Hinn 28. október 2002 dregið sér andvirði tékka nr. 4139596 að fjárhæð kr. 1.128.315,00 sem ákærði gaf út hinn 25. október 2002 til meðákærða Ragnars Orra sem framseldi tékkann og lagði andvirðið inn á eigin bankareikning númer 547 26 60150 hvaðan meðákærði Ragnar Orri ráðstafaði andvirðinu samdægurs að öllu leyti inn á bankareikning nafngreinds einstaklings.
L.
Með því að hafa dregið sér kr. 3.300.000,00 af eftirgreindum bankareikningum Landssíma Íslands hf. og ráðstafað inn á bankareikning meðákærða Ragnars Orra númer 547 26 60150 með 10 millifærslum í gegnum bankalínu félagsins hjá Íslandsbanka hf. og með því að breyta í eitt skipti í rafrænu greiðslukerfi félagsins textaskrá sem kvað á um tiltekin greiðslufyrirmæli sem send voru rafrænt til viðskiptabanka þess til afgreiðslu, svo sem hér greinir :
125. Hinn 5. júlí 2001 millifært kr. 300.000,00 um bankalínu af bankareikningi félagsins númer 513 26 40001.
126. Hinn 22. ágúst 2001 millifært kr. 300.000,00 af bankareikningi félagsins númer 513 26 40007.
127. Hinn 3. október 2001 millifært kr. 300.000,00 af bankareikningi félagsins númer 513 26 40007.
128. Hinn 6. nóvember 2001 millifært kr. 300.000,00 af bankareikningi félagsins númer 513 26 40040.
129. Hinn 31. janúar 2002 millifært kr. 300.000,00 af bankareikningi félagsins númer 513 26 40040.
130. Hinn 5. febrúar 2002 millifært kr. 300.000,00 af bankareikningi félagsins númer 513 26 42500.
131. Hinn 22. febrúar 2002 millifært kr. 300.000,00 af bankareikningi félagsins númer 513 26 40040.
132. Hinn 6. mars 2002 millifært kr. 300.000,00 af bankareikningi félagsins númer 513 26 42500.
133. Hinn 5. apríl 2002 millifært kr. 300.000,00 af bankareikningi félagsins númer 513 26 42500.
134. Hinn 7. maí 2002 millifært kr. 300.000,00 af bankareikningi félagsins númer 513-26-40013.
135. Hinn 7. júní 2002 millifært kr. 300.000,00 af bankareikningi félagsins númer 513 26 40007 með því að breyta í rafrænu greiðslukerfi þess færslu í textaskrá númer SE020607SK.01 sem kvað á um greiðslu sömu fjárhæðar til kröfuhafa númer 18152 í bókhaldi félagsins og setja í staðinn texta sem kvað á um greiðslu fjárhæðarinnar inn á bankareikning meðákærða Ragnars Orra.
M.
Með því að hafa dregið sér kr. 3.000.000,00 sem var andvirði eftirtaldra tékka sem ákærði gaf út á tékkareikning Landssíma Íslands hf. númer 513 26 40001 hjá Íslandsbanka hf., svo sem hér greinir :
136. Hinn 10. apríl 2001 dregið sér andvirði tékka nr. 4027592 að fjárhæð kr. 1.597.933,00 sem ákærði gaf út til handhafa hinn 9. mars 2001 og meðákærða Auður Harpa framseldi og lagði andvirðið inn á eigin bankareikning númer 513 26 6886 hvaðan hún ráðstafaði andvirðinu samdægurs inn á bankareikning einkahlutafélagsins Hanans, kt. 670899-2339, sem var í eigu meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars og ákærði var framkvæmdastjóri fyrir ásamt því að vera varamaður í stjórn þess.
137. Hinn 11. apríl 2001 dregið sér andvirði tékka nr. 4027593 að fjárhæð kr. 1.402.067,00 sem ákærði gaf út til handhafa hinn 10. mars 2001 og meðákærða Auður Harpa framseldi og lagði andvirðið inn á eigin bankareikning nr. 513 26 6886 hvaðan hún ráðstafaði andvirðinu samdægurs inn á bankareikning einkahlutafélagsins Hanans, kt. 670899-2339, sem var í eigu meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars og ákærði var framkvæmdastjóri fyrir ásamt því að vera varamaður í stjórn þess.
II.
Á hendur ákærða Árna Þór fyrir hylmingu, með því að hafa veitt viðtöku, haldið og ráðstafað í eigin þágu kr. 8.666.000,00, sem meðákærði Sveinbjörn komst yfir með fjárdrætti frá Landssíma Íslands, þrátt fyrir að ákærða hafi mátt vera ljóst að vörslur fjárins í höndum meðákærða Sveinbjörns höfðu ekki stofnast með löglegum hætti þar sem ákærði hafði enga samninga gert við eiganda fjárins Landssíma Íslands hf., svo sem hér greinir :
138. Hinn 9. mars 2000 veitt viðtöku kr. 5.121.000,00 inn á bankareikning sinn númer 324 26 4019, sbr. 108. tölulið í I. kafla I hluta ákæru, sem ákærði notaði að nær öllu leyti til hlutafjárkaupa í eigin nafni.
139. Hinn 31. júlí 2001 veitt viðtöku kr. 1.800.000,00 inn á bankareikning sinn númer 1102 26 4019, sbr. 3. tölulið í I. kafla A hluta ákæru, sem ákærði notaði til lækkunar á yfirdrætti bankareikningsins.
140. Hinn 12. desember 2001 veitt viðtöku kr. 880.000,00 inn á bankareikning sinn númer 1102 26 4019, sbr. 4. tölulið í I. kafla A hluta ákæru, sem ákærði notaði til lækkunar á yfirdrætti bankareikningsins.
141. Hinn 12. desember 2001 veitt viðtöku kr. 865.000,00 inn á bankareikning sinn númer 1102 26 4019, sbr. 5. tölulið í I. kafla A hluta ákæru, sem ákærði notaði til lækkunar á yfirdrætti bankareikningsins.
III.
142. Á hendur ákærða Kristjáni Ragnari fyrir hylmingu með því að hafa hinn 4. maí 1999 veitt viðtöku inn á bankareikning sinn númer 515 26 403350, haldið og ráðstafað í eigin þágu kr. 560.250,00, sem meðákærði Sveinbjörn komst yfir með fjárdrætti frá Landssíma Íslands, sbr. 109. tölulið í I. kafla J hluta ákæru, sem ákærði notaði að nær öllu leyti til greiðslu skuldar vegna úttekta ákærða með Visa greiðslukorti númer 4539 8300 0004 4935, þrátt fyrir að ákærða hafi mátt vera ljóst að vörslur fjárins í höndum meðákærða Sveinbjörns höfðu ekki stofnast með löglegum hætti þar sem ákærði hafði engan samning gert við eiganda fjárins, Landssíma Íslands hf.
IV.
Á hendur ákærðu Árna Þór og Kristjáni Ragnari sameiginlega fyrir hylmingu og peningaþvætti í eftirgreindum tilvikum :
A.
Með því að hafa veitt viðtöku, haldið, flutt og notað í eigin þágu og einkahlutafélags ákærðu, Alvöru lífsins, kt. 481097-2459, kr. 129.211.536,00 sem meðákærði Sveinbjörn komst yfir með fjárdrætti frá Landssíma Íslands hf., þrátt fyrir að ákærðu hafi mátt vera ljóst að vörslur fjárins í höndum meðákærða Sveinbjörns höfðu ekki stofnast með löglegum hætti þar sem ákærðu höfðu enga samninga gert við eiganda fjárins Landssíma Íslands hf., svo sem hér greinir :
143. Hinn 12. maí 1999 veitt viðtöku kr. 2.090.255,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins nr. 515 26 6066, sbr. 83. tölulið í I. kafla G hluta ákæru, sem ákærðu notuðu til lækkunar á yfirdrætti bankareiknings ákærða Kristjáns Ragnars númer 515 26 490176.
144. Hinn 28. maí 1999 veitt viðtöku kr. 892.831,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins nr. 515 26 6066, sbr. 84. tölulið í I. kafla G hluta ákæru, sem ákærðu fluttu síðar að mestu inn á bankareikning meðákærða Sveinbjörns jafnframt því að nota hluta í eigin þágu og einkahlutafélagsins.
144. Hinn 23. júní 1999 veitt viðtöku kr. 7.299.495,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins nr. 515 26 6066, sbr. 85. tölulið í I. kafla G hluta ákæru, sem ákærðu notuðu að hluta í eigin þágu og einkahlutafélagsins jafnframt því að flytja hluta inn á bankareikning meðákærða Sveinbjörns nokkru síðar.
146. Hinn 13. ágúst 1999 veitt viðtöku kr. 10.000.000,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins nr. 515 26 6066, sbr. 86. tölulið í I. kafla G hluta ákæru, sem ákærðu notuðu að hluta í eigin þágu og einkahlutafélagsins jafnframt því að flytja hluta inn á bankareikning meðákærða Sveinbjörns nokkru síðar.
147. Hinn 15. september 1999 veitt viðtöku kr. 7.090.000,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins nr. 515 26 6066, sbr. 87. tölulið í I. kafla G hluta ákæru, sem ákærðu notuðu að hluta í eigin þágu og einkahlutafélagsins jafnframt því að flytja hluta inn á bankareikning meðákærða Sveinbjörns.
148. Hinn 7. október 1999 veitt viðtöku kr. 10.000.000,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins nr. 515 26 6066, sbr. 88. tölulið í I. kafla G hluta ákæru, sem ákærðu notuðu í nafni einkahlutafélagsins og ráðstöfuðu að öllu leyti til hlutafélagsins Íslenska sjónvarpsfélagsins þar sem ákærðu voru í forsvari.
149. Hinn 19. október 1999 veitt viðtöku kr. 9.751.650,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins nr. 515 26 6066, sbr. 89. tölulið í I. kafla G hluta ákæru, sem ákærðu notuðu í þágu einkahlutafélagsins og ráðstöfuðu meðal annars til hlutafélagsins Íslenska sjónvarpsfélagsins þar sem ákærðu voru í forsvari jafnframt því að flytja hluta inn á bankareikning meðákærða Sveinbjörns.
150. Hinn 26. október 1999 veitt viðtöku kr. 9.751.650,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins nr. 515 26 6066, sbr. 90. tölulið í I. kafla G hluta ákæru, sem ákærðu notuðu í þágu einkahlutafélagsins og ráðstöfuðu að mestu til hlutafélagsins Íslenska sjónvarpsfélagsins þar sem ákærðu voru í forsvari jafnframt því að flytja hluta inn á bankareikning meðákærða Sveinbjörns.
151. Hinn 2. desember 1999 veitt viðtöku kr. 11.751.650,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins nr. 515 26 6066, sbr. 91. tölulið í I. kafla G hluta ákæru, sem ákærðu notuðu í þágu einkahlutafélagsins og ráðstöfuðu að mestu til hlutafélagsins Íslenska sjónvarpsfélagsins þar sem ákærðu voru í forsvari.
152. Hinn 30. desember 1999 veitt viðtöku kr. 1.000.000,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins nr. 515 26 6066, sbr. 92. tölulið í I. kafla G hluta ákæru, sem ákærðu notuðu að öllu leyti í þágu einkahlutafélagsins.
153. Hinn 4. janúar 2000 veitt viðtöku kr. 2.437.930,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins nr. 515 26 6066, sbr. 93. tölulið í I. kafla G hluta ákæru, sem ákærðu notuðu í þágu einkahlutafélagsins jafnframt því að ráðstafa til hlutafélagsins Íslenska sjónvarpsfélagsins þar sem ákærðu voru í forsvari.
154. Hinn 4. janúar 2000 veitt viðtöku kr. 7.055.312,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins nr. 515 26 6066, sbr. 94. tölulið í I. kafla G hluta ákæru, sem ákærðu notuðu í þágu einkahlutafélagsins jafnframt því að ráðstafa til hlutafélagsins Íslenska sjónvarpsfélagsins þar sem ákærðu voru í forsvari.
155. Hinn 6. janúar 2000 veitt viðtöku kr. 9.731.903,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins nr. 515 26 6066, sbr. 95. tölulið í I. kafla G hluta ákæru, sem ákærðu notuðu í þágu einkahlutafélagsins jafnframt því að ráðstafa til hlutafélagsins Íslenska sjónvarpsfélagsins þar sem ákærðu voru í forsvari.
156. Hinn 13. janúar 2000 veitt viðtöku kr. 5.144.182,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins nr. 515 26 6066, sbr. 96. tölulið í I. kafla G hluta ákæru, sem ákærðu notuðu í eigin þágu og einkahlutafélagsins jafnframt því að ráðstafa til hlutafélagsins Íslenska sjónvarpsfélagsins þar sem ákærðu voru í forsvari.
157. Hinn 19. janúar 2000 veitt viðtöku kr. 4.435.904,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins nr. 515 26 6066, sbr. 97. tölulið í I. kafla G hluta ákæru, sem ákærðu notuðu í þágu einkahlutafélagsins jafnframt því að ráðstafa til hlutafélagsins Íslenska sjónvarpsfélagsins þar sem ákærðu voru í forsvari.
158. Hinn 19. janúar 2000 veitt viðtöku kr. 667.283,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins nr. 515 26 6066, sbr. 98. tölulið í I. kafla G hluta ákæru, sem ákærðu notuðu í þágu einkahlutafélagsins jafnframt því að ráðstafa til hlutafélagsins Íslenska sjónvarpsfélagsins þar sem ákærðu voru í forsvari.
159. Hinn 19. janúar 2000 veitt viðtöku kr. 54.282,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins nr. 515 26 6066, sbr. 99. tölulið í I. kafla G hluta ákæru, sem ákærðu notuðu í þágu einkahlutafélagsins jafnframt því að ráðstafa til hlutafélagsins Íslenska sjónvarpsfélagsins þar sem ákærðu voru í forsvari.
160. Hinn 19. janúar 2000 veitt viðtöku kr. 54.282,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins nr. 515 26 6066, sbr. 100. tölulið í I. kafla G hluta ákæru, sem ákærðu notuðu í þágu einkahlutafélagsins jafnframt því að ráðstafa til hlutafélagsins Íslenska sjónvarpsfélagsins þar sem ákærðu voru í forsvari.
161. Hinn 3. febrúar 2000 veitt viðtöku kr. 2.001.951,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins ehf. nr. 515 26 6066, sbr. 101. tölulið í I. kafla G hluta ákæru, sem ákærðu fluttu að nær öllu leyti inn á bankareikning meðákærða Sveinbjörns.
162. Hinn 8. febrúar 2000 veitt viðtöku kr. 7.049.976,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins nr. 515 26 6066, sbr. 102. tölulið í I. kafla G hluta ákæru, sem ákærðu notuðu í þágu einkahlutafélagsins og ráðstöfuðu að nær öllu leyti til hlutafélagsins Íslenska sjónvarpsfélagsins þar sem ákærðu voru í forsvari.
163. Hinn 8. mars 2000 veitt viðtöku kr. 951.000,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins nr. 515 26 6066, sbr. 103. tölulið í I. kafla G hluta ákæru, sem ákærðu fluttu að stærstum hluta inn á bankareikning meðákærða Sveinbjörns jafnframt því að nota hluta í þágu einkahlutafélagsins.
164. Hinn 2. ágúst 2000 veitt viðtöku kr. 20.000.000,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins Alvöru lífsins nr. 515 26 6066, sbr. 104. tölulið í I. kafla G hluta ákæru, sem ákærðu notuðu í þágu einkahlutafélagsins og ráðstöfuðu að öllu leyti til hlutafélagsins Íslenska sjónvarpsfélagsins þar sem ákærðu voru í forsvari.
B.
Með því að hafa veitt viðtöku, haldið og notað kr. 25.144.182,00, sem meðákærði Sveinbjörn komst yfir með fjárdrætti frá Landssíma Íslands hf., í þágu hlutafélagsins Íslenska sjónvarpsfélagsins, kt. 640593-2029, þar sem ákærðu voru í forsvari, þrátt fyrir að ákærðu hafi mátt vera ljóst að vörslur fjárins í höndum meðákærða Sveinbjörns höfðu ekki stofnast með löglegum hætti þar sem ákærðu höfðu enga samninga gert við eiganda fjárins Landssíma Íslands hf., svo sem hér greinir :
165. Hinn 1. september 1999 veitt viðtöku kr. 10.000.000,00 inn á bankareikning Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. nr. 1136 26 3442, sbr. 105. tölulið í I. kafla H hluta ákæru, og notað í þágu hlutafélagsins.
166. Hinn 23. september 1999 veitt viðtöku kr. 5.144.182,00 inn á bankareikning Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. nr. 1136 26 3442, sbr. 106. tölulið í I. kafla H hluta ákæru, og notað í þágu hlutafélagsins.
167. Hinn 1. október 1999 veitt viðtöku kr. 10.000.000,00 inn á bankareikning Íslenska sjónvarpsfélagsins hf. nr. 1136 26 3442, sbr. 107. tölulið í I. kafla H hluta ákæru, og notað í þágu hlutafélagsins.
V.
Á hendur ákærða Ragnari Orra fyrir hylmingu og peningaþvætti í eftirgreindum tilvikum :
A.
Með því að hafa veitt viðtöku á bankareikningi sínum nr. 547 26 60150 og notað í eigin þágu kr. 3.300.000,00 sem meðákærði Sveinbjörn komst yfir með fjárdrætti frá Landssíma Íslands hf., þrátt fyrir að ákærða hafi mátt vera ljóst að vörslur fjárins í höndum meðákærða Sveinbjörns höfðu ekki stofnast með löglegum hætti, svo sem hér greinir :
168. Hinn 5. júlí 2001 veitt viðtöku á bankareikningi sínum kr. 300.000,00, sbr. 125. tölulið í I. kafla L hluta ákæru, sem ákærði notaði í eigin þágu.
169. Hinn 22. ágúst 2001 veitt viðtöku á bankareikningi sínum kr. 300.000,00, sbr. 126. tölulið í I. kafla L hluta ákæru, sem ákærði notaði í eigin þágu.
170. Hinn 3. október 2001 veitt viðtöku á bankareikningi sínum kr. 300.000,00, sbr. 127. tölulið í I. kafla L hluta ákæru, sem ákærði notaði í eigin þágu.
171. Hinn 6. nóvember 2001 veitt viðtöku á bankareikningi sínum kr. 300.000,00, sbr. 128. tölulið í I. kafla L hluta ákæru, sem ákærði notaði í eigin þágu.
172. Hinn 31. janúar 2002 veitt viðtöku á bankareikningi sínum kr. 300.000,00, sbr. 129. tölulið í I. kafla L hluta ákæru, sem ákærði notaði í eigin þágu.
173. Hinn 5. febrúar 2002 veitt viðtöku á bankareikningi sínum kr. 300.000,00, sbr. 130. tölulið í I. kafla L hluta ákæru, sem ákærði notaði í eigin þágu.
174. Hinn 22. febrúar 2002 veitt viðtöku á bankareikningi sínum kr. 300.000,00, sbr. 131. tölulið í I. kafla L hluta ákæru, sem ákærði notaði í eigin þágu.
175. Hinn 6. mars 2002 veitt viðtöku á bankareikningi sínum kr. 300.000,00, sbr. 132. tölulið í I. kafla L hluta ákæru, sem ákærði notaði í eigin þágu.
176. Hinn 5. apríl 2002 veitt viðtöku á bankareikningi sínum kr. 300.000,00, sbr. 133. tölulið í I. kafla L hluta ákæru, sem ákærði notaði í eigin þágu.
177. Hinn 7. maí 2002 veitt viðtöku á bankareikningi sínum kr. 300.000,00, sbr. 134. tölulið í I. kafla L hluta ákæru, sem ákærði notaði í eigin þágu.
178. Hinn 7. júní 2002 veitt viðtöku á bankareikningi sínum kr. 300.000,00, sbr. 135. tölulið í I. kafla L hluta ákæru, sem ákærði notaði í eigin þágu.
B.
Með því að hafa veitt viðtöku, haldið flutt og ráðstafað kr. 22.216.315,00, sem var andvirði eftirtaldra 15 tékka sem meðákærði Sveinbjörn gaf út á tékkareikning Landssíma Íslands hf. númer 513 26 40001, þrátt fyrir að ákærða hafi mátt vera ljóst að vörslur fjárins í höndum meðákærða Sveinbjörns höfðu ekki stofnast með löglegum hætti, svo sem hér greinir :
179. Hinn 31. ágúst 2001 framselt tékka nr. 4057827 að fjárhæð kr. 2.200.000 og ráðstafað andvirðinu að fyrirmælum meðákærða Sveinbjörns inn á bankareikning einkahlutafélagsins Hanans númer 304 26 899 sem var í eigu meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars en meðákærði Sveinbjörn var framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess, sbr. 110. tölulið í I. kafla K hluta ákæru.
180. Hinn 7. september 2001 framselt tékka nr. 4027594 að fjárhæð kr. 450.000,00 og ráðstafað andvirðinu að fyrirmælum meðákærða Sveinbjörns inn á bankareikning einkahlutafélagsins Hanans númer 0513 26 2993 sem var í eigu meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars en meðákærði Sveinbjörn var framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess, sbr. 111. tölulið í I. kafla K hluta ákæru.
181. Hinn 7. september 2001 framselt tékka nr. 4027595 að fjárhæð kr. 2.455.000,00 og ráðstafað andvirðinu að fyrirmælum meðákærða Sveinbjörns inn á bankareikning einkahlutafélagsins Hanans númer 304 26 899 sem var í eigu meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars en meðákærði Sveinbjörn var framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess, sbr. 112. tölulið í I. kafla K hluta ákæru.
182. Hinn 19. október 2001 framselt tékka nr. 4027596 að fjárhæð kr. 1.850.000,00 og ráðstafað andvirðinu að fyrirmælum meðákærða Sveinbjörns inn á bankareikning einkahlutafélagsins Hanans númer 301 26 200899 sem var í eigu meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars en meðákærði Sveinbjörn var framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess, sbr. 113. tölulið í I. kafla K hluta ákæru.
183. Hinn 23. nóvember 2001 framselt tékka nr. 4084077 að fjárhæð kr. 1.000.000,00 og ráðstafað andvirðinu að fyrirmælum meðákærða Sveinbjörns, í nafni einkahlutafélagsins Hanans, sem var í eigu meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars en meðákærði Sveinbjörn var framkvæmdastjóri þess og varamaður í stjórn, inn á bankareikning einkahlutafélagsins Nýju Kaffibrennslunnar númer 162 26 11, sbr. 114. tölulið í I. kafla K hluta ákæru.
184. Hinn 23. nóvember 2001 framselt tékka nr. 4084078 að fjárhæð kr. 400.000,00 og ráðstafað andvirðinu að fyrirmælum meðákærða Sveinbjörns inn á bankareikning einkahlutafélagsins Hanans númer 513 26 2993 sem var í eigu meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars en meðákærði Sveinbjörn var framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess, sbr. 115. tölulið í I. kafla K hluta ákæru.
185. Hinn 26. nóvember 2001 framselt tékka nr. 4084079 að fjárhæð kr. 750.000,00 og ráðstafað andvirðinu að fyrirmælum meðákærða Sveinbjörns inn á bankareikning einkahlutafélagsins Hanans númer 301 26 200899 sem var í eigu meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars en meðákærði Sveinbjörn var framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess, sbr. 116. tölulið í I. kafla K hluta ákæru.
186. Hinn 3. desember 2001 framselt tékka nr. 4084075 að fjárhæð kr. 1.620.000,00 og ráðstafað andvirðinu að fyrirmælum meðákærða Sveinbjörns, í nafni einkahlutafélagsins Lífstíls sem meðákærði Sveinbjörn átti í félagi við meðákærðu Árna Þór og Kristján Ragnar, inn á bankareikning númer 567 26 1788 í eigu nafngreinds einstaklings, sbr. 117. tölulið í I. kafla K hluta ákæru.
187. Hinn 5. desember 2001 framselt tékka nr. 4084087 að fjárhæð kr. 900.000,00 og ráðstafað andvirðinu að fyrirmælum meðákærða Sveinbjörns inn á bankareikning meðákærða Kristjáns Ragnars númer 515 26 403350, sbr. 118. tölulið í I. kafla K hluta ákæru.
188. Hinn 25. janúar 2002 framselt tékka nr. 4098784 að fjárhæð kr. 560.000,00 og ráðstafað andvirðinu að fyrirmælum meðákærða Sveinbjörns inn á bankareikning einkahlutafélagsins Hanans númer 301 26 200899 sem var í eigu meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars en meðákærði Sveinbjörn var framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess, sbr. 119. tölulið í I. kafla K hluta ákæru.
189. Hinn 12. febrúar 2002 framselt tékka nr. 4098799 að fjárhæð kr. 3.555.000,00 og ráðstafað andvirðinu að fyrirmælum meðákærða Sveinbjörns inn á bankareikning einkahlutafélagsins Lífstíls númer 1102 26 6307 sem meðákærði Sveinbjörn átti í félagi við meðákærðu Árna Þór og Kristján Ragnar, sbr. 120. tölulið í I. kafla K hluta ákæru.
190. Hinn 12. febrúar 2002 framselt tékka nr. 4098796 að fjárhæð kr. 998.000,00 og ráðstafað andvirðinu að fyrirmælum meðákærða Sveinbjörns inn á bankareikning einkahlutafélagsins Hanans númer 301 26 200899 sem var í eigu meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars en meðákærði Sveinbjörn var framkvæmdastjóri og varamaður í stjórn þess, sbr. 121. tölulið í I. kafla K hluta ákæru.
191. Hinn 14. febrúar 2002 framselt tékka nr. 4098800 að fjárhæð kr. 3.200.000,00 og ráðstafað andvirðinu að fyrirmælum meðákærða Sveinbjörns inn á bankareikning einkahlutafélagsins Hanans númer 301 26 200899 en meðákærði Sveinbjörn var framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess, sbr. 122. tölulið í I. kafla K hluta ákæru.
192. Hinn 4. mars 2002 framselt tékka nr. 4098816 að fjárhæð kr. 1.150.000,00 og ráðstafað andvirðinu að fyrirmælum meðákærða Sveinbjörns inn á bankareikning einkahlutafélagsins Hanans númer 301 26 200899 en meðákærði Sveinbjörn var framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess, sbr. 123. tölulið í I. kafla K hluta ákæru.
193. Hinn 28. október 2002 framselt tékka nr. 4139596 að fjárhæð kr. 1.128.315,00 og ráðstafað andvirðinu inn á eigin bankareikning númer 547 26 60150 hvaðan ákærði, að fyrirmælum meðákærða Sveinbjörns, ráðstafaði andvirðinu samdægurs inn á bankareikning í eigu nafngreinds einstaklings, sbr. 124. tölulið í I. kafla K hluta ákæru.
C.
Með því að hafa veitt viðtöku, haldið, flutt og notað í eigin þágu og einkahlutafélags ákærða Hafskips, kt. 600203-4520, kr. 5.964.632,00 sem meðákærði Sveinbjörn komst yfir með fjárdrætti frá Landssíma Íslands hf., þrátt fyrir að ákærða hafi mátt vera ljóst að vörslur fjárins í höndum meðákærða Sveinbjörns höfðu ekki stofnast með löglegum hætti, svo sem hér greinir :
194. Með því að hafa hinn 2. maí 2003 veitt viðtöku kr. 2.982.316,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins númer 301 26 60020, sbr. 12. tölulið í I. kafla A hluta ákæru, sem ákærði ráðstafaði í eigin þágu og einkahlutafélagsins og í þágu einkahlutafélagsins Bankastrætis 12, sem var í eigu ákærða og meðákærða Sveinbjörns.
195. Með því að hafa hinn 20. maí 2003 veitt viðtöku kr. 2.982.316,00 inn á bankareikning einkahlutafélagsins númer 301 26 60020, sbr. 13. tölulið í I. kafla A hluta ákæru, sem ákærði ráðstafaði í eigin þágu og einkahlutafélagsins og í þágu einkahlutafélagsins Bankastrætis 12, sem var í eigu ákærða og meðákærða Sveinbjörns.
VI.
Á hendur ákærðu Auði Hörpu fyrir peningaþvætti með því að hafa veitt viðtöku, flutt og ráðstafað kr. 3.000.000,00 sem var andvirði eftirtaldra tékka sem meðákærði Sveinbjörn gaf út á tékkareikning Landssíma Íslands hf. númer 513 26 40001, þrátt fyrir að ákærðu hafi mátt vera ljóst að ráðstöfun fjárins með þessum hætti í höndum meðákærða Sveinbjörns var ekki með löglegum hætti, svo sem hér greinir :
196. Hinn 10. apríl 2001 framselt tékka nr. 4027592, að fjárhæð kr. 1.597.933,00, sem meðákærði Sveinbjörn gaf út til handhafa hinn 9. mars 2001 á tékkareikning Landssíma Íslands hf. nr. 513 26 40001, sbr. 136. tölulið í I. kafla M hluta ákæru, og ráðstafað andvirðinu inn á bankareikning sinn nr. 513 26 6886 hvaðan ákærða að fyrirmælum meðákærða Sveinbjörns ráðstafaði andvirðinu að öllu leyti samdægurs inn á bankareikning einkahlutafélagsins Hanans nr. 513 26 2993, en meðákærði Sveinbjörn var framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess og meðákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar eigendur.
197. Hinn 11. apríl 2001 framselt tékka nr. 4027593, að fjárhæð kr. 1.402.067,00, sem meðákærði Sveinbjörn gaf út til handhafa hinn 10. mars 2001 á tékkareikning Landssíma Íslands hf. nr. 513 26 40001, sbr. 137. tölulið í I. kafla M hluta ákæru, og ráðstafað andvirðinu inn á bankareikning sinn nr. 513 26 6886 hvaðan ákærða að fyrirmælum meðákærða Sveinbjörns ráðstafaði andvirðinu að öllu leyti samdægurs inn á bankareikning einkahlutafélagsins Hanans nr. 513 26 2993, en meðákærði Sveinbjörn var framkvæmdastjóri félagsins og varamaður í stjórn þess og meðákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar eigendur.
VII.
Heimfærsla til refsiákvæða.
Eru brot ákærða Sveinbjörns Kristjánssonar samkvæmt I. kafla ákæru talin varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Brot ákærða Árna Þórs samkvæmt II. og IV. kafla ákæru eru talin varða við 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, til vara við 264. gr. sömu laga.
Brot ákærða Kristjáns Ragnars samkvæmt III. og IV. kafla ákæru eru talin varða við 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, til vara við 264. gr. sömu laga.
Brot ákærða Ragnars Orra samkvæmt V. kafla ákæru eru talin varða við 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, til vara við 264. gr. sömu laga.
Brot ákærðu Auðar Hörpu samkvæmt VI. kafla ákæru eru talin varða við 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
VII.
Kröfur.
Af hálfu ákæruvalds er þess krafist, að ákærðu verði dæmd til refsingar fyrir framangreind brot.
Af hálfu Landssíma Íslands hf., kt. 500269-6779, er gerð krafa um að ákærðu verði dæmd til greiðslu skaðabóta svo sem hér greinir :
A.
Sveinbjörn Kristjánsson, verði dæmdur til að greiða Landssíma Íslands hf. kr. 63.084.024, auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 25/1987 af kr. 50.000 frá 4.6. til 21.12.1999, en af kr. 600.000 frá 21.12.1999 til 28.2.2000, en af kr. 780.000 frá 28.2. til 6.9.2000, en af kr. 1.599.653 frá 6.9. til 28.9.2000, en af kr. 1.953.653 frá 28.9. til 6.10.2000, en af kr. 2.346.759 frá 6.10. til 27.10.2000, en af kr. 2.736.617 frá 27.10. til 9.11.2000, en af kr. 3.086.617 frá 9.11. til 10.11.2000, en af kr. 3.372.685 frá 10.11. til 30.11.2000, en af kr. 3.721.624 frá 30.11.2000 til 5.1.2001, en af kr. 4.194.161 frá 5.1. til 1.2.2001, en af kr. 4.951.996 frá 1.2. til 2.3.2001, en af kr. 5.273.789 frá 2.3. til 6.3.2001, en af kr. 5.623.789 frá 6.3. til 5.4.2001, en af kr. 5.989.096 frá 5.4. til 2.5.2001, en af kr. 6.422.911 frá 2.5. til 31.5.2001, en af kr. 6.586.241 frá 31.5. til 29.6.2001, en af kr. 6.954.517 frá 29.6. til 1.7.2001, en skv. IV. kafla, sbr. III. kafla, laga nr. 38/2001 af kr. 7.904.517 frá 1.7. til 4.7.2001, en af kr. 8.542.617 frá 4.7. til 5.7.2001, en af kr. 9.528.861 frá 5.7. til 1.8.2001, en af kr. 10.026.906 frá 1.8. til 31.8.2001, en af kr. 11.172.689 frá 31.8. til 4.9.2001, en af kr. 12.049.495 frá 4.9. til 3.10.2001, en af kr. 12.449.796 frá 3.10. til 6.11.2001, en af kr. 12.992.074 frá 6.11. til 1.12.2001, en af kr. 14.177.074 frá 1.12. til 7.12.2001, en af kr. 14.936.328 frá 7.12.2001 til 11.1.2002, en af kr. 15.299.243 frá 11.1. til 5.2.2002, en af kr. 15.723.394 frá 5.2. til 22.2.2002, en af kr. 15.978.603 frá 22.2. til 6.3.2002, en af kr. 17.963.738 frá 6.3. til 31.3.2002, en af kr. 19.485.150 frá 31.3. til 5.4.2002, en af kr. 19.855.247 frá 5.4. til 6.5.2002, en af kr. 20.672.281 frá 6.5. til 7.5.2002, en af kr. 20.723.346 frá 7.5. til 1.6.2002, en af kr. 22.254.966 frá 1.6. til 7.6.2002, en af kr. 22.586.113 frá 7.6. til 3.7.2002, en af kr. 23.392.972 frá 3.7. til 12.7.2002, en af kr. 23.880.772 frá 12.7. til 6.8.2002, en af kr. 24.688.266 frá 6.8. til 21.8.2002, en af kr. 24.792.002 frá 21.8. til 31.8.2002, en af kr. 26.269.002 frá 31.8. til 13.9.2002, en af kr. 27.173.262 frá 13.9. til 4.10.2002, en af kr. 28.120.245 frá 4.10. til 15.10.2002, en af kr. 28.402.308 frá 15.10. til 31.10.2002, en af kr. 29.515.308 frá 31.10. til 8.11.2002, en af kr. 30.079.707 frá 8.11. til 14.11.2002, en af kr. 30.986.891 frá 14.11. til 29.11.2002, en af kr. 32.554.891 frá 29.11. til 5.12.2002, en af kr. 33.382.349 frá 5.12. til 6.12.2002, en af kr. 33.694.992 frá 6.12. til 31.12.2002, en af kr. 40.185.454 frá 31.12.2002 til 5.2.2003, en af kr. 40.954.393 frá 5.2. til 14.2.2003, en af kr. 42.697.393 frá 14.2. til 27.2.2003, en af kr. 52.387.283 frá 27.2. til 4.3.2003, en af kr. 55.701.107 frá 4.3. til 11.3.2003, en af kr. 58.340.227 frá 11.3. til 28.3.2003, en af kr. 59.945.227 frá 28.3. til 7.4.2003, en af kr. 60.418.026 frá 7.4. til 11.4.2003, en af kr. 62.336.409 frá 11.4. til 5.5.2003, en af kr. 63.084.024 frá þeim degi til greiðsludags.
B.
Sveinbjörn Kristjánsson og Árni Þór Vigfússon verði in solidum dæmdir til að greiða Landssíma Íslands hf., kr. 8.666.000, auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 25/1987 af kr. 5.121.000 frá 9.3.2000 til 1.7.2001, en skv. IV. kafla, sbr. III. kafla, laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð, frá 1.7. til 31.7.2001, en af kr. 6.921.000 frá 31.7. til 12.12.2001, en af kr. 8.666.000 frá þeim degi til greiðsludags.
C.
Sveinbjörn Kristjánsson og Kristján Ragnar Kristjánsson verði in solidum dæmdir til að greiða Landssíma Íslands hf., kr. 560.250, auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 25/1987 af þeirri fjárhæð frá 4.5.1999 til 1.7.2001, en skv. IV. kafla, sbr. III. kafla, laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð, frá 1.7.2001 til greiðsludags.
D.
Sveinbjörn Kristjánsson, Árni Þór Vigfússon og Kristján Ragnar Kristjánsson verði in solidum dæmdir til að greiða Landssíma Íslands hf., kr. 129.429.567, auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 25/1987 af kr. 2.090.255 frá 12.5. til 28.5.1999, en af kr. 2.983.086 frá 28.5. til 23.6.1999, en af kr. 10.282.581 frá 23.6. til 13.8.1999, en af kr. 20.282.581 frá 13.8. til 1.9.1999, en af kr. 30.282.581 frá 1.9. til 15.9.1999, en af kr. 37.372.581 frá 15.9. til 23.9.1999, en af kr. 42.516.763 frá 23.9. til 1.10.1999, en af kr. 52.516.763 frá 1.10. til 7.10.1999, en af kr. 62.516.763 frá 7.10. til 19.10.1999, en af kr. 72.268.413 frá 19.10. til 26.10.1999, en af kr. 82.020.063 frá 26.10. til 2.12.1999, en af kr. 93.771.713 frá 2.12. til 30.12.1999, en af kr. 74.771.713 frá 30.12. til 31.12.1999, en af kr. 69.845.562 frá 31.12.1999 til 4.1.2000, en af kr. 79.338.804 frá 4.1. til 6.1.2000, en af kr. 89.070.707 frá 6.1. til 13.1.2000, en af kr. 94.214.889 frá 13.1. til 19.1.2000, en af kr. 99.426.640 frá 19.1. til 3.2.2000, en af kr. 101.428.591 frá 3.2. til 8.2.2000, en af kr. 108.478.567 frá 8.2. til 8.3.2000, en af kr. 109.429.567 frá 8.3. til 2.8.2000, en af kr. 129.429.567 frá 2.8.2000 til 1.7.2001, en skv. IV. kafla, sbr. III. kafla, laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð, frá 1.7.2001 til greiðsludags.
E.
Sveinbjörn Kristjánsson og Ragnar Orri Benediktsson verði in solidum dæmdir til að greiða Landssíma Íslands hf., kr. 31.480.947, auk dráttarvaxta skv. IV. kafla, sbr. III. kafla, laga nr. 38/2001 af kr. 300.000 frá 5.7. til 22.8.2001, en af kr. 600.000 frá 22.8. til 31.8.2001, en af kr. 2.800.000 frá 31.8. til 7.9.2001, en af kr. 5.705.000 frá 7.9. til 3.10.2001, en af kr. 6.005.000 frá 3.10. til 19.10.2001, en af kr. 7.855.000 frá 19.10. til 6.11.2001, en af kr. 8.155.000 frá 6.11. til 23.11.2001, en af kr. 9.555.000 frá 23.11. til 26.11.2001, en af kr. 10.305.000 frá 26.11. til 3.12.2001, en af kr. 11.925.000 frá 3.12. til 5.12.2001, en af kr. 12.825.000 frá 5.12.2001 til 25.1.2002, en af kr. 13.385.000 frá 25.1. til 31.1.2002, en af kr. 13.685.000 frá 31.1. til 5.2.2002, en af kr. 13.985.000 frá 5.2. til 12.2.2002, en af kr. 18.538.000 frá 12.2. til 14.2.2002, en af kr. 21.738.000 frá 14.2. til 22.2.2002, en af kr. 22.038.000 frá 22.2. til 4.3.2002, en af kr. 23.188.000 frá 4.3. til 6.3.2002, en af kr. 23.488.000 frá 6.3. til 5.4.2002, en af kr. 23.788.000 frá 5.4. til 7.5.2002, en af kr. 24.088.000 frá 7.5. til 7.6.2002, en af kr. 24.388.000 frá 7.6. til 28.10.2002, en af kr. 25.516.315 frá 28.10.2002 til 2.5.2003, en af kr. 28.498.631 frá 2.5. til 20.5.2003, en af kr. 31.480.947 frá þeim degi til greiðsludags.
F.
Sveinbjörn Kristjánsson og Auður Harpa Andrésdóttir verði in solidum dæmd til að greiða Landssíma Íslands hf., kr. 3.000.000, auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 25/1987 af kr. 1.597.933 frá 10.4. til 11.4.2001, en af kr. 3.000.000 frá 11.4. til 1.7.2001, en skv. IV. kafla, sbr. III. kafla, laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð, frá 1.7.2001 til greiðsludags.
G.
Gerð er krafa um að Sveinbjörn Kristjánsson, Árni Þór Vigfússon, Kristján Ragnar Kristjánsson, Ragnar Orri Benediktsson og Auður Harpa Andrésdóttir verði dæmd in solidum til að greiða Landssíma Íslands hf., kr. 12.985.418 í bætur vegna útlagðs kostnaðar sem félagið hefur hlotið af því að upplýsa umræddan fjárdrátt, en til vara hlutfallslega. Í báðum tilvikum er gerð krafa um greiðslu dráttarvaxta af þeirri dæmdu fjárhæð skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. október 2003 til greiðsludags.
H.
Þá er gerð krafa um að Sveinbjörn Kristjánsson, Árni Þór Vigfússon, Kristján Ragnar Kristjánsson, Ragnar Orri Benediktsson og Auður Harpa Andrésdóttir verði dæmd in solidum til að greiða Landssíma Íslands hf., lögmannsþóknun við að halda fram bótakröfum Landssíma Íslands hf., en til vara hlutfallslega. Áskilinn er réttur til að leggja fram málskostnaðarreikning við aðalmeðferð málsins.
Ákæruvald hefur leiðrétt tilgreiningu á bankareikningi í 197. tölul. ákæru, úr reikningi nr. 513 26 2993, í reikning nr. 301 26 200889.
Ákærði Sveinbjörn Kristjánsson neitar sök samkvæmt 75.-82. tölul. í ákæru. Að öðru leyti játar hann sakarefnið. Af hálfu verjanda er þess krafist, að ákærði verði sýknaður að því marki er hann neitar sök en að honum verði ákvörðuð vægasta refsing er lög leyfa að öðru leyti. Þá er krafist lækkunar á skaðabótakröfu. Loks er krafist hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.
Ákærði Árni Þór Vigfússon neitar sök. Af hálfu verjanda er þess krafist, að ákærði verði sýknaður af refsikröfu og skaðabótakröfu. Þá er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði.
Ákærði Kristján Ragnar Kristjánsson neitar sök. Af hálfu verjanda er þess aðallega krafist, að ákærði verði sýknaður. Til vara er gerð krafa um vægustu refsingu og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi. Þá er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði.
Ákærði Ragnar Orri Benediktsson neitar sök. Af hálfu verjanda er þess aðallega krafist, að ákærði verði sýknaður, en til vara er gerð krafa um vægustu refsingu er lög leyfa. Þá er þess krafist, að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi. Loks er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði.
Ákærða Auður Harpa Andrésdóttir neitar sök. Af hálfu verjanda er þess krafist, að ákærða verði sýknuð og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi. Þá er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði.
Málsatvik:
Með bréfi 22. maí 2003 var þess óskað af hálfu fyrirsvarsmanna Landssíma Íslands hf., að fram færi opinber rannsókn vegna gruns um stórfelld brot tiltekinna einstaklinga gagnvart Landssíma Íslands hf. Er rakið, að skattstjórinn í Reykjavík hafi með bréfi 8. maí 2003 lagt fyrir Landssíma Íslands hf. að láta í té gögn í þágu skattrannsóknar og skatteftirlits gagnvart einkahlutafélaginu Alvöru lífsins, vegna peningagreiðslna til einkahlutafélagsins á árunum 1999 og 2000. Við fyrstu könnun á erindi skattstjóra hafi virst sem engin viðskipti hafi farið fram á milli félaganna. Skattstjóri hafi 19. maí 2003, til frekari skýringa, sent yfirlit yfir greiðslur frá Landssíma Íslands hf. til Alvöru lífsins ehf., samtals að fjárhæð 129.211.536 krónur. Í kjölfarið hafi frekari rannsókn hafist hjá innri endurskoðun og fjármálasviði Landssíma Íslands hf. Í ljós hafi komið að aðalgjaldkeri félagsins, ákærði Sveinbjörn Kristjánsson, hafi dregið sér fjármuni úr vörslum félagsins. Ákærði hafi horfið af starfsstöð sinni 21. maí, eftir að hafa orðið var við athafnir innra eftirlits og fjármálasviðs. Í kjölfar ítrekaðra skilaboða, hafi ákærði haft samband við forstöðumann innra eftirlits, og gert grein fyrir brotum sínum og lýst yfir samstarfsvilja. Lögmaður ákærða hafi boðað til fundar 22. maí, en þann fund hafi setið lögmaðurinn, ákærði, Ólafur Karlsson forstöðumaður innri endurskoðunar, Ester Jónatansdóttir aðalféhirðir og Páll Ásgrímsson lögfræðingur Landssíma Íslands hf. Á þeim fundi hafi ákærði gengist við því að hafa frá árinu 1999 veitt óheimil lán í nafni Landssíma Íslands hf. til Alvöru lífsins ehf. Auk þess hafi hann persónulega dregið sér fé. Lánveitingar til Alvöru lífsins ehf. hafi byrjað á árinu 1999 og staðið fram á árið 2000 og numið alls rösklega 100.000.000 króna, að frádregnum endurgreiðslum að fjárhæð um 23.000.000 króna. Hafi ákærði tekið fram, að fyrirsvarsmenn Alvöru lífsins ehf. hafi verið í góðri trú um heimildir sínar til lánveitinga. Þá hafi ákærði greint frá því, að nýlega hafi átt sér stað greiðsla til einkahlutafélagsins Hafskipa, að fjárhæð 8.000.000 króna, en fyrirsvarsmaður þess félags, ákærði Ragnar Orri Benediktsson, hafi einnig verið í góðri trú um heimildir sínar til lánveitinga í nafni Landssíma Íslands hf. Að síðustu hafi ákærði greint frá persónulegum fjárdrætti sínum, er hafi numið um 10.000.000 króna.
Fram kemur í kæru Landssíma Íslands hf., að ákærði Sveinbjörn hafi lýst aðferðum sínum við hinar ólögmætu aðgerðir. Þannig hafi beiðnir Landssíma Íslands hf. um greiðslur til lánadrottna verið á rafrænu formi. Hafi ákærði lýst því hvernig hann hafi gripið inn í greiðslur á svokölluðu útisvæði í hinni vélrænu færslu áður en greiðslubeiðnir hafi borist viðskiptabanka Landssíma Íslands hf. til framkvæmda. Þegar svarskrá hafi borist til baka frá viðskiptabankanum að lokinni greiðslu, hafi ákærði á ný gripið inn og breytt lánadrottnum til fyrra horfs. Með því að hafa leynt Landssíma Íslands hf. um greiðslurnar og beitt blekkingum í bókhaldi, hafi félagið ekki orðið vart við aðgerðir ákærða. Rannsókn innri endurskoðunar og fjármálasviðs hafi eingöngu leitt í ljós greiðslur til Alvöru lífsins ehf. Að öðru leyti væri rannsókn málsins á frumstigi, en ljóst væri að verulegar rangfærslur hafi átt sér stað í bókhaldi Landssíma Íslands hf. Enn hafi ekki tekist að sannreyna greiðslur til ákærða persónulega, né til Hafskipa ehf. Þá bæri að geta þess, að í upphafi dags 22. maí 2003 hafi Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmaður og löggiltur endurskoðandi óskað eftir fundi með forstjóra Landssíma Íslands hf., í umboði ákærða Kristjáns Ragnars Kristjánssonar. Ákærði Kristján Ragnar hafi verið formaður stjórnar Alvöru lífsins ehf., jafnframt því að vera bróðir ákærða Sveinbjarnar Kristjánssonar. Hafi lögmaðurinn lýst því svo, að ákærði Kristján Ragnar hafi orðið þess áskynja að ákærði Sveinbjörn væri að lenda í vandræðum vegna láns til Alvöru lífsins ehf. Til að greiða fyrir lausn hafi hann boðið fram hlutabréf ákærðu Kristjáns Ragnars og Árna Þórs Vigfússonar í Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf., ýmist sem tryggingu eða sem greiðslu á fyrrnefndu láni, sem lögmaðurinn hafi sagt umbjóðanda sinn hafa tekið hjá Landssíma Íslands hf. í góðri trú um heimildir ákærða Sveinbjarnar.
Í kjölfar kæru Landssíma Íslands hf. var ákærði Sveinbjörn handtekinn á heimili sínu að kvöldi fimmtudagsins 22. maí 2003. Var hann þegar færður til yfirheyrslu hjá lögreglu. Næsta dag var ákærði færður fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur vegna kröfu ríkislögreglustjóra um gæsluvarðhald yfir honum. Með úrskurði héraðsdóms þann dag var ákærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 6. júní 2003. Var hann látinn laus úr gæsluvarðhaldsvistinni að lokinni yfirheyrslu lögreglu 5. júní 2003. Laugardaginn 24. maí 2003 framkvæmdi lögregla leit á skrifstofu ákærða hjá Landssíma Íslands hf. Á skrifstofunni var lagt hald á nokkurt magn skjala, auk þess sem hald var lagt á tölvu ákærða. Þá var lagt hald á peningakassa, sem innihélt reiðufé og útfyllta tékka.
Aðfaranótt föstudagsins 23. maí 2003 voru ákærðu Árni Þór Vigfússon og Kristján Ragnar Kristjánsson handteknir. Föstudaginn 23. maí voru þeir færðir fyrir héraðsdóm vegna kröfu um gæsluvarðhald, og í kjölfarið úrskurðaðir í gæsluvarðhald allt til mánudagsins 2. júní 2003. Voru þeir leystir úr gæsluvarðhaldsvistinni 2. júní 2003. Föstudaginn 23. maí 2003 fór lögregla á skrifstofu Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf. að Skipholti 31 í Reykjavík og lagði þar hald á hlutabréf ákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars í Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf. Á föstudeginum lagði lögregla hald á ýmis bókhaldsgögn á skrifstofu ákærða Kristjáns Ragnars að Skúlagötu 44 í Reykjavík, er talin voru tengjast einkahlutafélaginu Alvöru lífsins. Sama dag lagði lögregla hald á ýmsan tölvubúnað á skrifstofu einkahlutafélagsins Lífstíls, að Mýrargötu 2 í Reykjavík.
Mánudaginn 26. maí 2003 handtók lögregla ákærða Ragnar Orra Benediktsson, sem þá var nýkominn til landsins frá útlöndum. Síðar sama dag var ákærði færður fyrir héraðsdóm vegna kröfu um gæsluvarðhald á hendur honum og næsta dag var ákærði úrskurðaður í gæsluvarðhald allt til mánudagsins 2. júní 2003. Var hann leystur úr gæsluvarðhaldsvistinni þann dag. Mánudaginn 26. maí 2003 hélt lögregla að Bankastræti 12 í Reykjavík og lagði þar hald á ýmis gögn er talin voru tengjast einkahlutafélögunum Bankastræti 12 og Hafskipum. Að auki voru haldlögð gögn er talin voru tengjast ákærða Ragnari Orra. Þá var lagt hald á gögn er tengdust Lífstíl ehf. og einkahlutafélaginu Hananum. Sama dag var farið að dvalarstað ákærða Ragnars Orra að Vesturgötu 5a í Reykjavík og lagt hald á gögn í vörslum hans er talin voru tengjast einkahlutafélaginu Hafskipum
Ákærða Auður Harpa Andrésdóttir var fyrst yfirheyrð um sakarefnið hjá lögreglu 4. júní 2003.
Við meðferð málsins fyrir dómi báru ákærðu öll um sakarefnið. Þá gáfu skýrslu Kristján Indriðason forstöðumaður fjármála hjá Landssíma Íslands hf., Kristín Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Landssíma Íslands hf., Eyþór Arnalds framkvæmdastjóri, Theódór Sigurbergsson endurskoðandi, Sveinn Arason skrifstofustjóri hjá Ríkisendurskoðun, Aðalsteinn Garðarsson endurskoðandi, Ragnar Þór Guðgeirsson endurskoðandi hjá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG og Sigurgeir Sigurgeirsson forstöðumaður hjá Landssíma Íslands hf. Loks kom fyrir dóminn Róbert Bjarnason lögreglufulltrúi. Verður nú gerð grein fyrir framburðum ákærðu og vitna.
Sveinbjörn Kristjánsson
Ákærði kvað upphaf lánafyrirgreiðslna sinna fyrir hönd Landssíma Íslands hf. mega rekja til þess, að á fyrri hluta árs 1999 hafi meðákærðu Árni Þór Vigfússon og Kristján Ragnar Kristjánsson komið að máli við sig um mögulegar lánveitingar Landssíma Íslands hf. til Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf. í tengslum við uppbyggingu á auglýsingasjónvarpinu Skjá 1. Ákærði hafi á þeim tíma staðið að ávöxtun fjár Landssíma Íslands hf. Ákærði kvaðst í fyrstu hafa vísað slíkum hugmyndum frá sér, en síðar hafa tekið ákvörðun um að verða við umleitunum meðákærðu. Í kjölfar þessara viðræðna hafi meðákærðu fylgt þessum umleitunum sínum eftir og óskað eftir tilteknum lánveitingum. Kvaðst ákærði telja að á þessum tíma hafi þeir ekki verið búnir að ná samkomulagi við fjárfesta um að leggja fjármuni til Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf. Áformað hafi verið að lánin kæmu til endurgreiðslu á árinu 2000. Hafi ákærði rætt endurgreiðslur við meðákærðu, en ekki hafi reynst unnt að koma þeim við, fyrir utan að Íslenska sjónvarpsfélagið ehf. hafi endurgreitt lán að fjárhæð 25.144.182 krónur, með greiðslum samtals að fjárhæð 24.926.151 króna.
Engar skriflegar reglur hafi verið til hjá Landssíma Íslands hf. á þessum tíma um hvernig staðið skyldi að ávöxtun fjár félagsins. Ekki hafi ákærði einn getað tekið ákvarðanir um ávöxtun fjár, en sér hafi ekki hafa verið kunnugt um að slík ávöxtun yrði að fara fram í gegnum viðurkennd verðbréfafyrirtæki eða bankastofnanir. Það hafi engu að síður verið almenna reglan. Engin lánsskjöl hafi verið útbúin vegna lánveitinga til meðákærðu og ekki hafi verið rætt um ábyrgðir af þeirra hálfu, hvorki veðsetningar né sjálfskuldarábyrgðir. Af hálfu ákærða hafi staðið til að skuldaviðurkenningar yrðu útbúnar, en til þess hafi aldrei komið. Hafi það verið skilningur ákærða, að þau fyrirtæki er tækju við lánveitingunum, Alvara lífsins ehf. og Íslenska sjónvarpsfélagið ehf., myndu halda saman yfirliti um lánsfjárhæðir. Þeir fjármunir er runnið hafi til Alvöru lífsins ehf. hafi gengið áfram til Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf., annað hvort sem lánsfé eða í formi aukins hlutafjár. Lánsfé það er Landssími Íslands hf. hafi lagt til Alvöru lífsins ehf. og Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf. hafi verið lagt inn á tvo bankareikninga í eigu Alvöru lífsins ehf. Hafi ætlunin verið að endurgreiða lánin með fé er kæmi til með auknu hlutafé í Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf. Ekki hafi ákærði komið nærri rekstri Alvöru lífsins ehf. né heldur hafi hann átt nokkurn eignarhlut í því félagi.
Ákærði kvað bróður sinn, meðákærða Kristján Ragnar, hafa haft samband við sig og gert sér viðvart um að málefni Alvöru lífsins ehf. hafi verið tekin til meðferðar hjá skattstjóranum í Reykjavík. Hafi ákærði ákveðið að fara snemma heim úr vinnunni þann dag og í kjölfarið haft samband við lögmann sinn. Hafi þá verið ákveðið að koma á sameiginlegum fundi með þeim og yfirmanni innri endurskoðunar Landssíma Íslands hf., þar sem ákærði myndi veita fullar upplýsingar um fjártökur sínar. Það hafi verið fyrst á þessum degi, sem ákærði hafi greint meðákærða Kristjáni Ragnari frá því að hann hafi með ólögmætum hætti ráðstafað fjármunum frá Landssíma Íslands hf. til Alvöru lífsins ehf. og víðar.
Ákærði kvað færslur við fjártökur sínar hafa verið illrekjanlegar í bókhaldi Landssíma Íslands hf. Hafi hann tekið þátt í að hanna greiðslukerfi félagsins á sínum tíma og því þekkt það vel. Greiðslukerfið hafi verið hannað með þeim hætti, að upplýsingar um greiðslur hafi verið sendar á rafrænt útsvæði í bókhaldi, þar sem tölvukerfi viðskiptabanka hafi nálgast þær. Í kjölfarið hafi bankinn greitt viðkomandi lánadrottni í samræmi við beiðni Landssíma Íslands hf. Tölvukerfi viðskiptabankans hafi því næst sent staðfestingarskrá á tiltekið rafrænt svæði, sem tölvukerfi Landssíma Íslands hf. hafi notað í bókhaldi sínu. Hafi ákærða tekist að breyta viðkomandi skrám, fyrst eftir að þær hafi verið settar inn á svæði viðskiptabankans, áður en bankinn hafi sótt þær og síðan aftur eftir að bankinn hafi sent frá sér staðfestingarskrárnar. Með þeim hætti hafi t.a.m. greiðslur til Alvöru lífsins ehf. aldrei komið fram í bókhaldi Landssíma Íslands hf. Bókhald félagsins hafi verið í slæmu ásigkomulagi á þessum tíma og reikningar ekki verið skráðir fyrr en við greiðslu. Að auki hafi verið til margir óstemmdir biðreikningar. Ekki hafi verið vitað um hvaða reikningar hafi verið á leiðinni til félagsins og því hafi lítil yfirsýn verið yfir reksturinn. Þetta hafi leitt til þess að ekki hafi verið tekið eftir villum í keyrslum frá viðskiptabankanum. Villa hafi komið fram í keyrslu bókhaldsins eftir að ákærði hafi breytt staðfestingarskránum eftir að þær hafi borist frá viðskiptabankanum, því þá hafi komið fram að greiðsla hafi ekki borist tilteknum lánardrottni. Bókhaldið hafi þá sjálfkrafa endursent greiðsluna og hafi það í flestum tilvikum verið næsta dag. Við það hafi lánardrottnar fengið greiðslur sínar og ekki orðið varir við neitt óvenjulegt. Ákærði kvaðst einnig hafa millifært fjármuni um bankareikninga á einstaka lánadrottna. Hafi hann tekið fé af bankareikningi Landssíma Íslands hf. og bókað færslurnar á biðreikning erlendra viðskipta. Hafi hann vitað til þess að ákveðin skekkja hafi verið á reikningnum og hafi hann notfært sér það.
Ákærði kvað mismunandi aðferðir hafa verið viðhafðar hverju sinni við millifærslur til Alvöru lífsins ehf. Hafi meðákærði Kristján Ragnar að jafnaði haft samband við sig símleiðis eða með tölvupóstsendingu og upplýst um inn á hvaða reikning skyldi greiða, en öll fjármálaleg samskipti við Alvöru lífsins ehf. hafi verið milli ákærða og meðákærða Kristjáns Ragnars. Meðákærði Árni Þór hafi ekki verið milliliður um einstaka færslur og í raun ekki komið að einstökum lánveitingum. Hafi það einnig átt við um greiðslur er runnið hafi inn á reikning meðákærða Árna Þórs. Ákærði staðfesti að greiðslur hafi í einhverjum tilvikum runnið af reikningi Landssíma Íslands hf. inn á reikning Alvöru lífsins ehf. og þaðan áfram að hluta til inn á reikning ákærða sjálfs. Ekki kvaðst ákærði muna af hvaða tilefni það hafi verið, en taldi það að einhverju leyti hafa tengst viðskiptum ákærða og Kristjáns Ragnars. Hafi þeir verið með ýmsan sameiginlegan rekstur og hafi ákærði t.a.m. lánað bróður sínum veð í fasteign sinni að Huldubraut 33 í Kópavogi. Að öðru leyti kvaðst ákærði ekki geta gert grein fyrir viðskiptum sínum og bróður síns.
Ákærði kvaðst hafa keypt tiltekna hlutafjáreign meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars í einkahlutafélaginu Hananum. Þau viðskipti hafi farið fram 31. desember 2002. Hafi hann með því keypt rekstur veitingastaðarins Priksins í Bankastræti. Með þeim samningi hafi ákærði tekið yfir fjárhagslegar skuldbindingar Hanans ehf., en þær hafi komið fram í viðauka við kaupsamning. Hafi kaupverðið í raun verið greitt með yfirtöku þeirra fjárskuldbindinga. Þær hafi í reynd ekki verið til staðar, heldur hafi ákærði útbúið þær til að villa um fyrir viðsemjendum sínum til að þeim yrðu síður ljósar óheimilar fjártökur ákærða hjá Landssíma Íslands hf.
Tölul. 1-74 og 83-137 í ákæru.
Ákærði kvaðst viðurkenna að hafa dregið sér fjárhæðir undir tölul. 1-74 og 83-137 í ákæru. Þær hafi runnið til ýmissa aðila, sem ákærði kvaðst ekki hafa haft fullkomna yfirsýn yfir. Þó væri unnt að fullyrða, að þær hafi að verulegu leyti runnið til Alvöru lífsins ehf. og þaðan áfram til Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf. Í einhverjum tilvikum hafi greiðslur runnið beint til Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf. Er undir ákærða voru bornar framhaldsráðstafanir fjárins, kvaðst hann ekki þekkja hvernig hverri og einni greiðslu hafi verið ráðstafað. Í einhverjum tilvikum hafi fjárhæðir ef til vill runnið til ákærða sjálfs, svo sem áður hafi komið fram.
Tölul. 75-82 í ákæru.
Ákærði kvað Landssíma Íslands hf. hafa staðið fyrir tölvuleikjamótum, sem hafi verið kölluð ,,Skjálftamótin”. Kvaðst ákærði telja að um hafi verið að ræða 4 mót, þar sem þátttakendur hafi skráð sig fyrirfram til leiks. Einhver dæmi hafi verið um að þátttakendur hafi ekki gert það, heldur mætt beint á mótsstað. Slíkt hafi verið fremur fátítt. Haldið hafi verið utan um fjölda þátttakenda í sérstöku tölvukerfi. Auk þátttökugjalda hafi komið inn greiðslur vegna sölu á tölvubúnaði á mótunum. Kvaðst ákærði sjálfur hafa tekjufært öll þátttökugjöldin. Kvaðst hann viðurkenna að hafa dregið sér stærsta hluta þeirra, en efast um þær fjárhæðir er ákæra miði við. Væri það vegna þess að útilokað væri að sannreyna fjárhæðirnar, þar sem hann hafi lagt einhver þátttökugjöld inn á reikning hjá Landssíma Íslands hf. Erfitt væri að finna þær færslur, þar sem gjöldin hafi verið tekjufærð á annan hátt en til hafi staðið.
Tölul. 138-141 í ákæru.
Ákærði kvaðst viðurkenna að hafa millifært 8.666.000 krónur inn á einkareikning meðákærða Árna Þórs Vigfússonar. Kvaðst ákærði á sínum tíma hafa litið svo á, að hann hafi verið að færa umrædda fjárhæð til Alvöru lífsins ehf. og hafi hann talið að hún hafi í framhaldinu átt að renna til Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf. Svo sem venja hafi verið hafi komið beiðni um greiðslu væntanlega frá meðákærða Kristjáni Ragnari. Kvaðst ákærði ekki geta skýrt þau rannsóknargögn sem gæfu til kynna að greiðsla skv. tölul. 140-141 hafi runnið inn á reikning ákærða Árna Þórs í nafni Hanans ehf. Fyrir lögreglu greindi ákærði frá því að féð hafi verið lagt til Hanans ehf. til að villa um fyrir meðákærða Árna Þór um uppruna fjárins. Ákærði endurtók ekki þá skýringu sína fyrir dómi.
Tölul. 142 í ákæru.
Ákærði kvað sig ekki reka minni til greiðslu 4. maí 1999 inn á reikning meðákærða Kristjáns Ragnars, að fjárhæð 560.250 krónur. Kvaðst hann þó telja, að um hafi verið að ræða greiðslu sem átt hafi að renna til Alvöru lífsins ehf. Ekki kvaðst hann kannast við framhaldsráðstöfun fjárins út af reikningi meðákærða Kristjáns Ragnars. Er undir ákærða var borið skjal um millifærslu 465.000 króna 26. apríl 1999 af reikningi ákærða inn á reikning meðákærða Kristjáns Ragnars, kvaðst ákærði kannast við þá millifærslu. Kvað hann meðákærða Kristján Ragnar sennilega hafa verið að endurgreiða ákærða einhverja fjármuni. Hafi hann lánað meðákærðu Kristjáni Ragnari og Árna Þór veð í fasteign sinni vegna uppsetninga á Hellisbúanum, til að koma leiksýningunni af stað. Endurgreiðslan geti eftir atvikum hafa komið til vegna þeirrar fyrirgreiðslu.
Tölul. 143-164 í ákæru.
Ákærði kvaðst kannast við að hafa dregið sér fjármuni og í framhaldi af því veitt Alvöru lífsins ehf. samsvarandi lán, er nemi fjárhæðum er 143.-164. tölul. í ákæru miði við. Staðfesti ákærði, að samtala þeirra fjárhæða geti hafa numið alls 129.211.536 krónum. Er undir ákærða voru bornar framhaldsráðstafanir fjárins, m.a. til ákærða sjálfs, meðákærðu og til Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf., kvaðst ákærði lítið geta skýrt þær ráðstafanir. Kvað hann þó sem fyrr fjárhagsleg tengsl sín við meðákærðu að ákveðnu marki geta skýrt það að einhverjar greiðslur hafi runnið til ákærða persónulega.
Tölul. 165-167 í ákæru.
Ákærði staðfesti að hann hafi greitt 25.144.182 krónur inn á reikning Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf. Kvaðst ákærði telja, að um hafi verið að ræða greiðslu sem hafi átt að renna til Alvöru lífsins ehf., en hún hafi í þessu tilviki runnið beint inn á reikning Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf. Kvað hann meðákærðu Árna Þór og Kristján Ragnar sem fyrr hafa staðið í þeirri trú að um hafi verið að ræða lánveitingar frá Landssíma Íslands hf. sem ákærði hafi haft fullt umboð til að standa að. Jafnframt staðfesti ákærði, að Íslenska sjónvarpsfélagið ehf. hafi endurgreitt lánið með tveimur afborgunum og hafi endurgreiðslan numið samtals 24.926.151 krónum.
Tölul. 168-178 í ákæru.
Ákærði kvað meðákærða Ragnar Orra hafa starfað fyrir sig við rekstur veitingastaðarins Priksins í Bankastræti í Reykjavík. Hafi hann samið við meðákærða um launagreiðslur því tengdar. Samkvæmt því samkomulagi hafi meðákærði átt að fá 300.000 krónur í laun á mánuði. Hafi ákærði ákveðið að láta hluta af launum sínum hjá Landssíma Íslands hf. renna sem launagreiðslur til meðákærða og hafi hann gert meðákærða grein fyrir þeirri tilhögun sinni. Ekki hafi verið rætt um hvernig standa skyldi að greiðslu lífeyrissjóðsiðgjalda eða staðgreiðslu launa. Þá hafi heldur ekki verið rætt um að launamiðar yrðu útbúnir vegna þessara launagreiðslna. Í skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst ákærði hafa gefið meðákærða ,,mjög slappa skýringu” á uppruna fjárins, sem meðákærði hafi látið sér lynda. Ákærði endurtók ekki þessa frásögn sína fyrir dómi.
Tölul. 179-192 í ákæru.
Ákærði kvaðst hafa séð um rekstur einkahlutafélagsins Hanans á seinni hluta ársins 2001. Í starfi hjá ákærða hafi m.a. verið meðákærði Ragnar Orri. Ákærði kvaðst hafa leitað til meðákærða um að aðstoða sig við að framselja 15 tékka, alls að fjárhæð 22.216.315 krónur, sem ákæra í tölul. 179-192 lúti að. Kvaðst ákærði telja meðákærða Ragnar Orra hafa staðið í þeirri trú, að um hafi verið að ræða lán frá Landssíma Íslands hf. til einkahlutafélagsins Hanans og annarra félaga tengdum ákærða Sveinbirni og meðákærðu Árna Þór og Kristjáni Ragnari. Í þessum tilvikum, sem öðrum, hafi engin lánsskjöl verið útbúin.
Tölul. 193 í ákæru.
Ákærði kvaðst hafa dregið sér 1.128.315 krónur samkvæmt 124. tölul. í ákæru, svo sem hann hafi áður viðurkennt. Sú ráðstöfun hafi komið til með þeim hætti, að tilgreindur einstaklingur hafi óskað eftir liðsinni sínu við að selja víxil að fjárhæð 1.200.000 krónur. Sá víxill hafi verið framlengdur einu sinni með útgáfu nýs víxils að fjárhæð 1.250.000 krónur. Hafi ákærði ekki getað selt þann víxil. Hafi hann þá ákveðið að draga sér samsvarandi fjárhæð frá Landssíma Íslands hf. og notið liðsinnis meðákærða Ragnars Orra við að færa þá fjárhæð inn á reikning viðkomandi einstaklings. Hafi sá aðili ekki vitað annað en að hann hafi verið að fá í hendur andvirði umrædds víxils.
Tölul. 194-195 í ákæru.
Ákærði kvaðst kannast við að hafa dregið sér fjármuni og í framhaldi af því veitt meðákærða Ragnari Orra samsvarandi lán sem hafi runnið til einkahlutafélagsins Hafskipa, alls að fjárhæð 5.964.632 krónur. Hafi þær fjárhæðir verið millifærðar í tveimur greiðslum frá Landssíma Íslands hf. Sem fyrr hafi ekki verið gengið frá lánsskjölum vegna þessara ráðstafana, en til hafi staðið að gera það síðar. Ákærði kvað meðákærða hafa staðið í þeirri trú, að greiðsla inn á bankareikninga Hafskipa ehf. hafi verið lán sem ákærði hafi útvegað, en ákærði hafi boðist til að aðstoða meðákærða við fasteignakaup félagsins. Hafi ekki annað staðið til en að lánin yrðu endurgreidd og þá innan 6 mánaða. Ekkert hafi verið rætt um ábyrgðir vegna þessara lána, að sumu leyti þar sem endurgreiða hafi átt þau fljótlega. Kvaðst ákærði telja að meðákærði hafi samhliða þessu fengið einhverja fyrirgreiðslu í bönkum vegna fasteignakaupa einkahlutafélagsins. Er undir ákærða voru bornar framhaldsráðstafanir fjárins út af reikningi Hafskipa ehf., m.a. til Bankastrætis 12 ehf., Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf. og meðákærða Ragnars Orra, kvaðst ákærði ekki geta skýrt þær færslur.
Tölul. 196-197 í ákæru.
Í apríl 2001 kvaðst ákærði hafa haft með höndum rekstur veitingastaðarins Priksins í Bankastræti. Hafi hann leitað til meðákærðu, Auðar Hörpu, sem hafi unnið fyrir ákærða á veitingastaðnum, um að sinna tilteknum erindum fyrir sig. Í þeim hafi m.a. falist að framselja tvo tékka í banka, 9. og 10. mars 2001. Hafi meðákærða staðið í þeirri trú, að 3.000.000 króna, sem hún hafi ráðstafað inn á eigin bankareikning og þaðan áfram inn á bankareikning Hanans ehf., hafi í raun verið lán Landssíma Íslands hf. til einkahlutafélagsins Hanans, vegna reksturs veitingastaðarins Priksins. Hafi meðákærða að öllu leyti farið að fyrirmælum ákærða um ráðstöfun fjárins. Kvaðst ákærði að öllum líkindum hafa sagt henni að leggja fjárhæðirnar fyrst inn á eigin reikning til að auka veltu á honum. Meðákærða hafi verið í talsverðum fjárhagsvandræðum á þessum tíma og hafi hann verið að aðstoða hana við að komast út úr þeim.
Árni Þór Vigfússon
Ákærði kvaðst fyrst hafa kynnst meðákærða Kristjáni Ragnari í sameiginlegri skólagöngu þeirra í Verslunarskóla Íslands. Eiginlegt samstarf þeirra hafi síðan farið af stað við uppfærslu á leiksýningunni Evítu. Hafi þeir stofnað einkahlutafélagið Alvöru lífsins í kringum ýmiss konar verkefnavinnu, eins og uppsetningar leiksýninga. Ákærði hafi verið skráður framkvæmdastjóri félagsins, en ákærðu hafi skipt með sér verkum þannig að ákærði hafi séð um að markaðssetja leiksýningar, en í verkahring meðákærða Kristjáns Ragnars hafi verið að sjá um öll fjármál tengd félaginu. Það hafi því verið í verkahring meðákærða að annast færslu bókhalds og skattskil Alvöru lífsins ehf.
Snemma árs 1999 hafi ákærði fengið þá hugmynd að setja á laggirnar fyrsta raunverulega auglýsingasjónvarpið á Íslandi. Hafi ákærði fært þá hugmynd sína í tal við meðákærða Kristján Ragnar. Til að sú hugmynd fengi framgang hafi ákærðu eignast hlutafé í Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf. Í október 1999 hafi sjónvarpsstöðin Skjár 1 verið sett á laggirnar af þeim félögum og byrjað útsendingar. Ákærði hafi þróað þá hugmynd sem Skjár 1 hafi orðið og mótað dagskrá stöðvarinnar. Kristján Ragnar hafi annast öll fjármál tengd rekstrinum. Í tengslum við þessi umsvif hafi ákærðu leitað eftir fjármagni til að kaupa hlutabréf í Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf. Hafi þeim borist til eyrna að Landssími Íslands hf. hafi staðið að lánveitingum. Í kjölfarið hafi þeir leitað til meðákærða Sveinbjarnar um hvort Landssími Íslands hf. væri reiðubúinn að veita ákærðu fyrirgreiðslu í formi lána. Á fundi er ákærði Árni Þór, Kristján Ragnar og Sveinbjörn hafi átt hafi komið fram, að ákærði Sveinbjörn myndi kanna hvort til greina kæmi að Landssími Íslands hf. myndi veita slík lán. Eftir það hafi ákærðu fengið lánafyrirgreiðslur frá Landssíma Íslands hf. Á sama tíma hafi ákærðu leitað annað um fjármögnun og hafi nýir hluthafar komið inn í reksturinn. Á þeim forsendum hafi 3p fjárhús ehf. komið inn í reksturinn haustið 1999. Allan þennan tíma hafi það verið í verkahring meðákærða Kristjáns Ragnars að annast fjármál tengd þessum umsvifum. Ákærði hafi á sama tíma eytt öllum sínum tíma í að móta hina nýju sjónvarpsstöð. Ekki kvaðst ákærði muna eftir því hvort farið hafi verið yfir fjárþörf hins nýja félags á fundi ákærða og meðákærðu Kristjáns Ragnars og Sveinbjarnar. Kvaðst ákærði telja, að í raun hafi hann ekki áttað sig á hve mikið fjármagn myndi vanta inn í slíkan rekstur, en í ljósi skýrrar verkaskiptingar ákærða og meðákærða Kristjáns Ragnars hafi ákærði í raun lítið hugað að fjármálalegri umsýslu verkefnisins. Er undir ákærða voru borin yfirlit um fjármuni er hafi runnið frá Landssíma Íslands hf. til einkahlutafélagsins Alvöru lífsins og þaðan áfram til Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf., þá kvaðst ákærði almennt ekki þekkja þær færslur. Kvaðst hann hafa verið í stjórn Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf. á þessum tíma.
Ákærði kvað sér fyrst í maí 2003 hafa orðið ljóst, að meðákærði Sveinbjörn hafi með ólögmætum hætti staðið að lánveitingum fyrir hönd Landssíma Íslands hf. Upplýsingar um það hafi borist ákærða frá meðákærða Kristjáni Ragnari, eftir símtal meðákærðu Kristjáns Ragnars og Sveinbjarnar. Ákærði kvaðst hafa verið boðaður á fund hjá skattstjóranum í Reykjavík 19. maí 2003. Ekkert óeðlilegt hafi komið fram á þeim fundi. Næsta dag hafi þáverandi lögmaður sinn viljað óska eftir fundi með forstjóra Landssíma Íslands hf., þar sem lögmaðurinn hafi viljað koma á framfæri tilboði um að hlutafé ákærða í Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf. myndi ganga upp í lánveitingar Landssíma Íslands hf. til Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf.
Ákærði kvaðst hafa fest kaup á íbúð að Skúlagötu 44 í Reykjavík. Hefði meðákærði Kristján Ragnar annast þau viðskipti fyrir sína hönd og hafi sér því ekki verið kunnugt um hvernig kaupin hafi verið fjármögnuð.
Tölul. 138 í ákæru.
Ákærði kvaðst kannast við að hafa fjárfest í hlutabréfum í hlutafélaginu Urður, Verðandi, Skuld. Hafi ákærði fært hlutafjárkaup í tal við meðákærða Kristján Ragnar, er hafi tekið að sér að ræða við meðákærða Sveinbjörn um lánafyrirgreiðslu. Í kjölfarið hafi ákærði fengið lán frá Landssíma Íslands hf. sem hafi verið notuð til hlutafjárkaupa ákærða. Slík kaup hafi einnig átt sér stað af hálfu meðákærða Kristjáns Ragnars, en meðákærði hafi annast kaupin fyrir ákærðu báða.
Tölul. 139-141 í ákæru.
Ákærði kvaðst hafa verið hluthafi í einkahlutafélaginu Scandic Timber á Íslandi, en félagið hafi staðið að innflutningi á timbri til landsins. Meðákærði Kristján Ragnar hafi rekið félagið og hafi hann að öllum líkindum útvegað yfirdrátt á reikning ákærða í Sparisjóði Siglufjarðar í þágu félagsins. Hafi meðákærði getað millifært fjármuni af þeim reikningi, en ákærði hafi sjálfur ekkert notað hann. Um líkt leyti hafi staðið til að kaupa kaffiverksmiðju á Akureyri og hafi yfirdráttur tékkareikningsins m.a. verið notaður í þeim tilgangi. Í ljósi þess að meðákærði Kristján Ragnar hafi haft öll fjármál tengd ákærðu með höndum, hafi sér ekki verið kunnugt um að reikningurinn hafi verið notaður með þessum hætti. Af sömu ástæðum hafi honum ekki verið kunnugt um að fjármunir hafi runnið inn á reikninginn, svo sem 139.-141. tölul. ákæru geri ráð fyrir. Er undir ákærða voru borin gögn til grundvallar ákæruliðum 139-141 kvaðst hann ekki hafa séð þau áður en rannsókn málsins hafi farið af stað.
Tölul. 143-164 í ákæru.
Er undir ákærða voru bornar greiðslur frá Landssíma Íslands hf. til einkahlutafélagsins Alvöru lífsins, að fjárhæð 129.211.536 krónur, kvaðst ákærði ekki þekkja til þeirra greiðslna í smáatriðum, þar sem það hafi verið í verkahring meðákærða Kristjáns Ragnars að halda utan um fjármálin. Á einhverjum tíma hafi meðákærði greint sér frá því að lánveitingar Landssíma Íslands hf. hafi verið komnar í um 70.000.000 króna. Síðar hafi meðákærði upplýst að fjárhæðin hafi verið komin í um 100.000.000 króna. Ákærði kvaðst hafa litið svo á, að hlutafjáreign ákærðu í Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf. hafi verið slík, að tryggt hafi verið að Landssími Íslands hf. fengi lán sín endurgreidd. Hlutabréfin hafi um tíma verið metin á um 400.000.000 króna. Hafi meðákærði upplýst ákærða um að einhver lán Landssíma Íslands hf. hafi verið endurgreidd.
Ákærði kvaðst hafa verið á launaskrá hjá Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf. frá í maí 1999 allt til í maí 2003. Launagreiðslur hafi borist óreglulega. Hann hafi að auki fengið greiðslur vegna sýninga á Hellisbúanum. Launagreiðslurnar og greiðslur fyrir leiksýningar hafi verið þeir fjármunir er ákærði hafi notað til að framfleyta sér. Þrátt fyrir þetta fyrirkomulag hafi ákærði í raun lítið hugað sjálfur að fjármálum sínum. Þannig hafi Kristján Ragnar annast allt er hafi tengst fjármálum ákærða, Alvöru lífsins ehf. og Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf. Þó svo að hann hafi formlega verið í stöðu framkvæmdastjóra Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf. hafi hann t.a.m aldrei komið að ársuppgjörum félagsins. Hafi hann ekki heldur átt nein samskipti við endurskoðendur félagsins. Öll slík samskipti hafi verið á herðum meðákærða Kristjáns Ragnars. Þá kvaðst ákærði ekki hafa annast skattskil fyrir sjálfan sig, en eftir að samstarf hans og meðákærða Kristjáns Ragnars hafi komist á, hafi meðákærði annast frágang þeirra.
Tölul. 165-167 í ákæru.
Er undir ákærða voru bornar greiðslur frá Landssíma Íslands hf. til einkahlutafélagsins Íslenska sjónvarpsfélagsins, samtals að fjárhæð 25.144.182 krónur, kvaðst ákærði ekki þekkja til þeirra færslna, þar sem það hafi verið í verkahring meðákærða Kristjáns Ragnars að hafa umsjón með fjármálum þess félags.
Kristján Ragnar Kristjánsson
Ákærði kvaðst hafa verið við nám í Bandaríkjunum á árunum 1998 og 1999. Meðákærði Árni Þór hafi haft samband við sig og skýrt sér frá hugmynd um að koma á laggirnar fyrsta raunverulega auglýsingasjónvarpinu á Íslandi. Hafi ákærði komið heim vorið 1999 og þá þegar hafið störf hjá Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf. Áður hafi ákærði verið í samstarfi við meðákærða í tengslum við Alvöru lífsins ehf. Það félag hafi á árunum 1998 til 2000 staðið fyrir ýmiss konar verkefnavinnu og uppfærslu á leiksýningum, t.a.m. Hellisbúanum. Ákærði hafi verið stjórnarformaður þess félags. Hafi ákærðu skipt með sér verkum, þar hann hafi séð um fjármál tengd fyrirtækjum þeirra, á meðan meðákærði Árni Þór hafi séð um markaðsmál.
Ákærðu hafi borist til eyrna orðrómur um hugsanlegar lánafyrirgreiðslur hjá Landssíma Íslands hf. Á þeim forsendum hafi þeir snúið sér til meðákærða Sveinbjarnar, sem hafi verið aðalféhirðir félagsins, þar sem lánafyrirgreiðsla Landssíma Íslands hf. hafi verið rædd. Hafi þeir félagar hist einu sinni þar sem þessar hugmyndir hafi almennt verið ræddar. Engar ákvarðanir hafi þar verið teknar, þar sem meðákærði Sveinbjörn hafi þurft að ganga úr skugga um hvort slík lánafyrirgreiðsla kæmi til álita af hálfu Landssíma Íslands hf. Skömmu síðar hafi ákærði einn hitt meðákærða Sveinbjörn vegna þessara hugmynda. Á því stigi hafi ekki verið búið að reikna út fjárþörf hins nýja fyrirtækis, en hún hafi að verulegu leyti tengst tækjum og búnaði. Fyrsta lánveiting Landssíma Íslands hf. hafi átt sér stað í maí 1999. Ákærði kvaðst ekki minnast þess hvort rætt hafi verið um lánsform í viðræðum ákærðu, en lánsskjöl hafi ekki verið útbúin vegna lánveitinga Landssíma Íslands hf. Ekki kvaðst ákærði heldur minnast þess að rætt hafi verið um ábyrgðir vegna lána. Allar færslur hafi verið rafrænar og því hafi í huga ákærða verið auðvelt að sannreyna allar lánveitingar Landssíma Íslands hf. til Alvöru lífsins ehf. Fjármunir frá Alvöru lífsins ehf. hafi runnið til og verið bókfærðir hjá Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf. sem skuld þess félags við Alvöru lífsins ehf. Fyrirgreiðsla Landssíma Íslands hf. hafi verið í formi skammtímafjárfestinga, en til hafi staðið að auka hlutafé í Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf. til að standa straum af lánveitingum Landssíma Íslands hf. Hlutafjáraukningin hafi átt að fara fram í maí 2000 og hafi verið stefnt að 200.000.000 króna hlutafjáraukningu. Ekki hafi tekist að safna því hlutafé. Þá hafi staðið til að standa að hlutafjáraukningu haustið 2000 og enn á ný vorið 2001. Verðmæti bréfa í félaginu hafi aukist verulega á þessum tíma.
Ákærði kvað engan greinarmun hafa verið gerðan á fjármálum sínum, meðákærða Árna Þórs og einkahlutafélagsins Alvöru lífsins. Hafi ákærði annast allar færslur þessu tengdar, en fjármunir hafi runnið á milli ákærðu og einkahlutafélagsins. Hafi það m.a. verið ástæða þess að samkvæmt bókhaldi og hluthafaskrá Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf. hafi Alvara lífsins ehf. ekki átt hlutafé eða aðrar eignir í Íslenska sjónvarpsfélaginu. Meðákærði hafi lítið verið inni í fjármálunum. Hafi ákærði þó annað veifið rætt lauslega við hann um fjármál þeim tengd og félögum þeirra, en ákærðu hafi t.a.m. haft sameiginlega skrifstofu á þessum tíma. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað nákvæmlega um skuldastöðu Alvöru lífsins ehf. gagnvart Landssíma Íslands hf. þegar hann hafi verið handtekinn. Bókhaldsgögn Alvöru lífsins ehf. hafi verið til staðar en bókhald hafi ekki verið fært eftir 1998. Af þeim ástæðum hafi lánveitingar Landssíma Íslands hf. til félagsins ekki komið fram. Það hafi verið í verkahring ákærða að annast bókhaldið, en skipulag þess og færsla hafi ekki verið í góðu horfi. Kvaðst ákærði engu að síður hafa dregið fjárhæðir lauslega saman á ákveðnum tímum. Ekki geti hann fullyrt hvort hann hafi gert meðákærða grein fyrir þeim yfirlitum. Skattskil hafi ekki farið fram vegna Alvöru lífsins ehf. eftir árið 1998. Ákærði kvaðst telja, að svo til einu tekjur Alvöru lífsins ehf., frá og með árinu 1999, hafi fallið til vegna sýninga á Hellisbúanum.
Ákærði kvaðst hafa keypt íbúð að Skúlagötu 44 í Reykjavík. Hafi hann og meðákærði Árni Þór farið í sameiningu að skoða eignir í húsinu. Í framhaldi hafi ákærðu báðir ákveðið að kaupa sitt hvora íbúðina. Í tengslum við þau kaup hafi ákærði m.a. selt hlutabréf er hann hafi átt í DeCode. Ekki hafi verið útilokað að eitthvað af fjármunum, er upprunalega hafi komið frá Landssíma Íslands hf., hafi runnið til kaupa á eignunum, en talsverð fjármálaleg umsvif hafi verið hjá ákærðu um þetta leyti. Þá kvaðst ákærði hafa fengið lán í erlendri mynt, að fjárhæð 14.000.000 króna, sem að hluta til hafi fjármagnað kaup á eigninni. Meðákærði hafi fengið samsvarandi lán til að fjármagna kaup á sinni eign.
Með kaupsamningi 16. júlí 1999 kvaðst ákærði hafa fest kaup á hlutabréfum í Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf, en viðræður um kaup hafi þá átt sér stað um talsverðan tíma. Hlutafénu hafi verið afsalað til ákærða 20. ágúst 1999. Með samningi 20. september 1999 hafi fleiri hlutir í félaginu verið seldir og þá til Suðurljósa ehf. Gengi bréfa í félaginu hafi þá verið 4,85. Suðurljós ehf. hafi selt ákærða og meðákærða Árna Þór hlut í félaginu 17. október 1999. Með samningi 27. apríl 2000 hafi verið gerður samningur milli Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf. og Burnham International á Íslandi hf. um sölu á hlutafé í Íslenska sjónvarpsfélaginu. Í kjölfarið hafi hlutafé selst á genginu 5,5. Með samningi 30. október 2000 hafi Suðurljós ehf., ákærði og meðákærði Árni Þór gert samning um sölu á hluta bréfa til Burnham International á Íslandi hf. Þá hafi gengi bréfa í félaginu verið orðið 6,5. Þessi viðskipti varpi ljósi á hvernig gengi bréfa í Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf. hafi þróast frá því áform urðu til um stofnun Skjás 1. Gengi bréfanna hafi síðar tekið að síga og með samningi í september 2001 hafi verið gefin út skuldabréf í nafni félagsins þar sem tilraunir hafi verið gerðar til að ná hlutafé inn í félagið. Þá hafi gengi bréfanna verið orðið umtalsvert lægra.
Ákærði kvað meðákærða Sveinbjörn alla tíð hafa gefið í skyn að lánveitingar Landssíma Íslands hf. til Alvöru lífsins ehf. hafi verið eðlilegar í alla staði. Á árinu 2001 hafi ákærði og meðákærði Árni Þór þó velt fyrir sér af hverju ekki hafi verið gengið harðar fram í kröfum um endurgreiðslur lána. Hafi ákærði reiknað með að vextir og dráttarvextir myndu leggjast við lánsfjárhæðir. Óformleg samskipti hafi talsvert einkennt viðskiptalíf á þessum tíma og hafi lánsfjárhæðir gengið á milli einstaklinga og fyrirtækja án þess að frá tryggilegum skjölum hafi verið gengið hverju sinni. Ákærði staðfesti að þáverandi verjandi sinn hafi 22. maí 2003, í umboði sínu, boðið Landssíma Íslands hf. hlutafé ákærða og Árna Þórs í Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf. sem tryggingu eða greiðslu vegna lánveitinga Landssíma Íslands hf. til Alvöru lífsins ehf. Hafi það orðið í kjölfar fundar ákærða og Árna Þórs með skattstjóranum í Reykjavík 19. maí 2003. Eftir þann fund hafi ákærði rætt símleiðis við Sveinbjörn. Fyrst þá hafi ákærða orðið ljóst, að meðákærði Sveinbjörn hafi ekki haft heimildir innan Landssíma Íslands hf. til lánafyrirgreiðslu til ákærðu.
Tölul. 138-141 í ákæru.
Ákærði kvað greiðslu á 5.121.000 krónum frá Landssíma Íslands hf. inn á reikning meðákærða Árna Þórs, hafa tengst hinum almennu fjárhagslegu tengslum sem hafi verið með ákærðu og Alvöru lífsins ehf. Kvaðst ákærði telja, að fjárhæðinni hafi verið varið til hlutafjárkaupa ákærða og meðákærða, sem ákærði kvaðst ekki muna hver hafi verið.
Ákærði kvað Prisa Trading ehf. hafa breytt um félagaform og orðið að Prisa Trading hf. Það félag hafi síðar fengið nafnið Lífstíll ehf., en það félag hafi verið hluthafi í félaginu Prisa Co Ltd., sem hafi rekið timburvinnslu í Laos. Ákærði kvað reikning meðákærða Árna Þórs í Sparisjóði Siglufjarðar hafa verið notaðan vegna viðskipta ákærðu í Laos. Þá hafi á þessum tíma einnig staðið yfir fyrirhuguð kaup á kaffiverksmiðju hér á landi. Reikningurinn í Sparisjóði Siglufjarðar hafi einnig verið notaður vegna þeirra viðskipta. Meðákærði Sveinbjörn hafi á þeim tíma annast rekstur veitingastaðarins Priksins í Bankastræti. Fjármunir úr þeim rekstri hafi komið inn í kaup á kaffiverksmiðjunni og viðskiptin í Laos. Hafi það verið ástæða þess að fjármunir hafi verið lagðir inn á reikning meðákærða Árna Þórs í Sparisjóði Siglufjarðar, í nafni einkahlutafélagsins Hanans.
Tölul. 142 í ákæru.
Ákærði kvaðst ekki muna sérstaklega eftir að hafa veitt viðtöku 560.250 krónum frá Landssíma Íslands hf. inn á bankareikning sinn 4. maí 1999. Vera kunni að unnt hafi verið að skýra þá færslu með vísan til þess að ákærði hafi millifært yfir á meðákærða Sveinbjörn 465.000 krónur 26. apríl 1999. Sennileg skýring þeirrar millifærslu hafi verið fólgin í því að meðákærði hafi með greiðslunni 4. maí verið að endurgreiða ákærða nefnda fjárhæð.
Tölul. 143-164 í ákæru.
Ákærði kvaðst geta staðfest, að greiðsla að fjárhæð 2.090.255 krónur, skv. 143. tölul. í ákæru, hafi runnið frá Landssíma Íslands hf. 12 maí 1999, en þaðan hafi henni verið ráðstafað inn á bankareikning ákærða til lækkunar á yfirdrætti. Ákærði kvað töluverð umsvif hafa verið á ýmsum reikningum ákærðu á þessum tíma. Sem dæmi mætti nefna að stuttu eftir þetta hafi tæplega 3.000.000 króna runnið á annan reikning í eigu Alvöru lífsins ehf., en þeir fjármunir hafi verið notaðir til að greiða fyrir sýningarrétt á leiksýningunni Hellisbúanum. Ákærði kvaðst á þessum tíma einnig hafa greitt 3.300.000 krónur fyrir hlut sinn í rekstri Skjás 1, en fyrir það hafi m.a. verið greitt með fjármunum, er hafi komið til vegna sýninga á Hellisbúanum. Öll þessi fjárhagslegu umsvif hafi verið mikil og því væri erfitt að leggja mat á hvaða fjármunir hafi nákvæmlega verið notaðir í hvaða viðskipti. Hafi þessi skýring átt við um margar færslur, t.a.m. undir 144. tölul. í ákæru. Hafi nánast verið útilokað að gera nákvæma grein fyrir hvaða peningar hafi runnið í hvaða átt. Allar fjárhæðir, er hafi borist frá Landssíma Íslands hf., hafi runnið inn á bankareikning Alvöru lífsins ehf., nr. 515 26 6066. Ýmsir aðrir fjármunir er hafi tengst rekstri Alvöru lífsins ehf., hafi einnig runnið inn á sama reikning. Aðspurður um ástæður þess að hluti fjármuna, sem hafi borist frá Landssíma Íslands hf. inn á reikning í eigu Alvöru lífsins ehf., hafa í framhaldinu verið færðir yfir á reikning meðákærða Sveinbjörns, þá kvað ákærði meðákærða Sveinbjörn hafa verið með fjármálaleg tengsl við sig og meðákærða Árna Þór. Þannig hafi fasteign ákærða og meðákærða Sveinbjarnar við Laugaveg verið seld. Öllu andvirði sölu eignarinnar hafi verið ráðstafað til ákærða. Það kunni að vera ástæða þess að fjármunir hafi síðar verið færðir inn á reikning meðákærða Sveinbjarnar. Þá hafi meðákærði lánað sér og meðákærða Árna Þór veð í eign sinni vegna uppsetninga á leiksýningunni Hellisbúanum. Einhverjar greiðslur kunni að skýrast með vísan til þess að um endurgreiðslur vegna þess hafi verið að ræða.
Tölul. 165-167 í ákæru.
Ákærði kvað greiðslur, að fjárhæð 25.144.182 krónur, sem færðar hafi verið í þrennu lagi frá Landssíma Íslands hf. til Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf., hafa verið af sama toga og aðrar greiðslur frá Landssíma Íslands ehf. til Alvöru lífsins ehf. Um hafi verið um að ræða lánveitingar til Alvöru lífsins ehf., þó svo þær hafi runnið beint inn á reikning Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf.
Ragnar Orri Benediktsson
Ákærði kvað meðákærðu Árna Þór, Kristján Ragnar og Sveinbjörn hafa rekið nokkur fyrirtæki í sameiningu. Einkahlutafélagið Haninn hafi rekið veitingastaðinn Prikið í Bankastræti. Í febrúar 2002 hafi nýtt félag verið stofnað um þann rekstur, einkahlutafélagið Bankastræti 12. Hafi ákærði verið skráður framkvæmdastjóri og prókúruhafi þess félags og eigandi að hlut frá stofnun, án þess þó að hafa verið raunverulegur eigandi. Kvaðst ákærði hafa verið starfsmaður á veitingastaðnum Prikinu í Bankastræti og starfað þar sem vaktstjóri og rekstrarstjóri. Ekki hafi hann komið nálægt bókhaldi veitingastaðarins. Á miðju ári 2003 hafi ákærði annast rekstur félaganna Bankastræti 12 ehf. og Hafskipa ehf., en einkahlutafélagið Hafskip hafi verið stofnað til að hafa með höndum eignaumsýslu um íbúð á Klapparstíg 17 í Reykjavík. Í lok árs 2002 hafi ákærði ætlað að hætta vinnu á Prikinu. Meðákærði Sveinbjörn hafi þá innt ákærða eftir því hvort hann hefði ekki áhuga á því að kaupa rekstur staðarins. Hafi meðákærði Sveinbjörn lýst því yfir að hann gæti útvegað fjármuni og boðist til að vera fjárhagslegur bakhjarl ákærða. Ákærði hafi ákveðið að taka yfir reksturinn, en sú yfirtaka hafi eingöngu falist í yfirtöku áhvílandi skulda, sem hafi numið um 25.000.000 króna. Meðákærði Sveinbjörn hafi einnig verið ábyrgur fyrir þeim kaupum, en ekki hafi verið unnt að skrá hann fyrir sínum hluta vegna starfa hans hjá Landssíma Íslands hf.
Tölul. 168-178 í ákæru.
Ákærði kvaðst hafa hafið störf á veitingastaðnum Prikinu á árinu 2001 og hafi meðákærði Sveinbjörn annast greiðslu launa til sín. Hafi þau numið 300.000 krónum á mánuði, en þau hafi meðákærði lagt inn á reikning ákærða. Um hafi verið samið að ákærði fengi greiðslur fyrir vinnu sína með þeim hætti að þær yrðu ekki gefnar upp til skattyfirvalda. Ákærði hafi verið í námi og því hafi verið hagfellt fyrir hann að fá launagreiðslur með þeim hætt vegna námslána sinna. Hafi hann tekið eftir því í heimabanka sínum, að greiðandi hafi verið tilgreindur Landssími Íslands hf. Kvaðst ákærði hafa innt meðákærða eftir skýringu á því og hafi hann svarað því til að fyrirtæki meðákærðu Sveinbjarnar, Árna Þórs og Kristjáns Ragnars, sem hafi verið í viðskiptum með timbur í Laos, hafi verið með fyrirgreiðslu hjá Landssíma Íslands hf. Í tengslum við það hafi verið hagfellt fyrir meðákærða Sveinbjörn að haga launagreiðslum með þessum hætti. Hafi ákærði ekki leitað eftir frekari skýringum þar sem engu hafi skipt fyrir sig hvaðan hann fengi launagreiðslur. Aðspurður kvaðst ákærði ekki kannast við þá frásögn meðákærða Sveinbjarnar, að meðákærði hafi gert ákærða grein fyrir því að hluti launa sinna hjá Landssíma Íslands hf. yrði færður yfir á ákærða.
Tölul. 179-193 í ákæru.
Ákærði kvaðst margsinnis, að beiðni meðákærða Sveinbjarnar, hafa farið á skrifstofu hans í húsnæði Landssíma Íslands hf. Þar hafi meðákærði afhent ákærða tékka og um leið gert honum grein fyrir með hvaða hætti hann skyldi ráðstafa hverjum og einum í banka. Í öllum tilvikum hafi tékkunum verið ráðstafað í þágu fyrirtækja á vegum meðákærðu Sveinbjarnar, Árna Þórs og Kristjáns Ragnars. Kvaðst ákærði einhverju sinni hafa innt meðákærða Sveinbjörn eftir skýringum á því af hvaða ástæðum hann væri að leggja þessa fjármuni inn á reikninga fyrirtækja tengdum meðákærðu og hafi meðákærði Sveinbjörn gefið þá skýringu að um væri að ræða fjármuni frá Landssíma Íslands hf. sem hafi verið teknir að láni í þágu þessara félaga. Ákærði kvaðst ekki muna nákvæmlega eftir tilviki nr. 193 og af hvaða ástæðum hann hafi lagt fjárhæðina inn á eigin reikning áður en hann hafi ráðstafað henni inn á reikning tilgreinds einstaklings. Kvaðst hann þó telja að hann hafi með ráðstöfun sinni ákveðið að nota tækifærið til að auka veltu á eigin reikningi, sem hafi þótt skynsamleg ráðstöfun.
Tölul. 194-195 í ákæru.
Ákærði kvað einkahlutafélagið Hafskip hafa verið stofnað á árinu 2003. Hafi félagið enga starfsstöð haft, en heimili þess hafi verið skráð á lögheimili ákærða. Meðákærði Sveinbjörn hafi átt félagið á móti ákærða og útvegað fjármuni til reksturs þess. Til hafi staðið að hagnaði af rekstri félagsins yrði skipt á milli ákærða og meðákærða. Ákærði kvað sér ekki hafa verið kunnugt um að fjármunir er runnið hafi til Hafskipa ehf. hafi komið frá Landssíma Íslands hf. Hafi ákærði staðið í þeirri trú að þeir hafi komið frá meðákærða sjálfum og verið hluti hans í rekstri félagsins. Kvaðst ákærði ekki hafa litið svo á, að um hafi verið að ræða fyrirgreiðslu til sín. Fjármunirnir hafi runnið inn á reikninga félagsins í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Engin lánsskjöl hafi verið útbúin vegna þessara greiðslna. Það hafi ákærða ekki þótt óeðlilegt þar sem hann hafi talið að peningarnir hafi komið frá meðákærða persónulega. Fjármunum Hafskipa ehf. hafi verið ráðstafað í endurgerð og uppbyggingu á húseign félagsins að Klapparstíg 17 í Reykjavík, en um töluverðan efniskostnað hafi verið að ræða. Einhverjir fjármunir geti þó hafa farið í rekstur veitingastaðarins Priksins, með því að þeir hafi verið færðir inn á reikning Bankastrætis 12 ehf. Kvaðst ákærði er þarna var komið sögu hafa verið launalaus um talsverðan tíma og því hafa ákveðið að greiða sjálfum sér laun. Hafi hann tekið þau út af reikningi Hafskipa ehf.
Ákærði kvað bókhald Hafskipa ehf. ekki hafa verið fært, en það hafi verið í vörslu tilgreinds aðila, sem og bókhaldsgögn Bankastrætis 12 ehf. Hafi sá einstaklingur tekið við bókhaldi þessara félaga um miðjan apríl 2003. Ákærði kvaðst ekki hafa komið nálægt daglegri fjármálastjórn Bankastrætis 12 ehf. fyrr en um áramótin 2002 til 2003. Til þess tíma hafi dagleg fjármálastjórn verið í höndum Lífstíls ehf.
Auður Harpa Andrésdóttir
Ákærða kvaðst hafa kynnst meðákærða Sveinbirni þegar þau hafi unnið saman á útvarpsstöðinni Fínum miðli. Hafi meðákærði starfað þar sem fjármálastjóri. Á sama tíma og meðákærði hafi orðið yfirmaður hjá Landssíma Íslands hf., hafi fjármál ákærðu verið í ólestri. Hafi meðákærði boðist til að aðstoða hana við að koma þeim á réttan kjöl og í þeim tilgangi m.a. farið í Íslandsbanka hf. og rætt við þjónustufulltrúa ákærðu. Jafnframt hafi meðákærði boðist til að lána ákærðu peninga sem og að útvega henni bankalán. Það hafi meðákærði gert á árinu 2000. Þá hafi hann boðið ákærðu starf á veitingastaðnum Prikinu í Bankastræti. Ákærða hafi þegið það boð og starfað þar í 8 mánuði á árinu 2001.
Ákærða kvaðst í tengslum við störf sín á veitingastaðnum Prikinu hafa sinnt ýmsum verkefnum fyrir meðákærða Sveinbjörn. Hafi hún t.a.m. farið í banka fyrir hann til að greiða reikninga vegna veitingarekstursins. Að því er varðaði þá tvo tékka, er ákæruefni í tölul. 196-197 lyti að, kvaðst ákærða hafa tekið við þeim tékkum að beiðni ákærða og framselt þá í banka. Í báðum tilvikum hafi hún hitt meðákærða eftir að hann hafi hringt í hana. Hafi hún í einu og öllu farið að fyrirmælum meðákærða um ráðstöfun tékkanna og fengið upplýsingar um inn á hvaða reikninga skyldi leggja andvirði þeirra o.s.frv. Hafi hún í upphafi lagt fjárhæðirnar inn á eigin reikning til að auka veltu á þeim. Það hafi verið heppilegt í ljósi þess hvernig fjármálum hennar hafi verið háttað á þeim tíma. Ekki hafi ákærða veitt því athygli að tékkarnir hafi verið áritaðir Landssíma Íslands hf. Þó svo hafi verið, kvaðst ákærða ekki mundu hafa sett það í samhengi við óeðlileg viðskipti, þar sem hún hafi treyst meðákærða að öllu leyti.
Vitni
Kristján Indriðason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landssíma Íslands hf., kom fyrir dóminn sem vitni. Vitnið kvaðst vera yfirmaður fjármálasviðs, en undir það svið heyri fjárstýring. Yfir því sviði væri forstöðumaður, sem ákærði Sveinbjörn hafi heyrt undir er hann hafi verið við störf hjá Landssíma Íslands hf. Vitnið kvað upphaf grunsemda um fjárdrátt ákærða Sveinbjarnar hafa vaknað eftir að erindi hafi borist frá skattstjóranum í Reykjavík í maí 2003. Í því hafi verið leitað eftir upplýsingum frá Landssíma Íslands hf. um greiðslur félagsins til einkahlutafélagsins Alvöru lífsins og tilefni þeirra. Engin gögn hafi fundist í fórum Landssíma Íslands hf. um slíkar greiðslur og hafi skattstjóra verið gerð grein fyrir því. Jafnframt hafi verið leitað eftir frekari upplýsingum um greiðslur til að unnt hafi verið að sinna erindinu frekar. Eftir að ítarlegri upplýsingar hafi borist frá skattstjóra hafi starfsmenn félagsins komist að raun um að umtalsverðar greiðslur hafi runnið til Alvöru lífsins ehf. Færslur hafi þá verið skoðaðar nánar, en þá hafi komið í ljós að rafrænum greiðslum í bókhaldi Landssíma Íslands hf. hafði verið breytt. Þegar það hafi komið í ljós hafi ákærði horfið af starfsstöð sinni. Það kvöld hafi hann haft samband við endurskoðanda Landssíma Íslands hf. og játað að hafa dregið sér fjármuni úr sjóðum félagsins. Hafi ákærði í því símtali ekki getað gert grein fyrir umfangi fjárdráttarins. Vitnið kvað ákærða hafa verið fúsan til að varpa ljósi á umfang fjárdráttarins og hvert greiðslur hafi runnið. Færslur hafi hins vegar verið flóknar og hafi ákærði átt erfitt með að einbeita sér við að upplýsa um fyrirkomulag færslna. Ekki hafi þó skort vilja af hans hálfu. Framhald málsins hafi verið það að endurskoðunarfyrirtækið KPMG, tölvuþjónustufyrirtækið Nýherji og Ríkisendurskoðun hafi verið fengin til samstarfs til að varpa ljósi á fjárdrátt ákærða. Þegar hafi orðið ljóst að umfangið hafi verið gríðarlegt. Tölvuþjónustufyrirtækinu hafi verið falið að keyra saman færslur úr bókhaldi Landssíma Íslands hf. við bókhald viðskiptabanka félagsins. Við þá samkeyrslu hafi hinar mismunandi færslur fundist. Endurskoðunarfyrirtækinu og Ríkisendurskoðun hafi síðan verið falið að finna mismunandi færslur í bókhaldi Landssíma Íslands hf. Öll verk þessara aðila hafi beinst að því að upplýsa um fjárdrátt ákærða.
Vitnið kvað Landssíma Íslands hf. hafa staðið að skammtímaávöxtun fjár félagsins. Um slíka ávöxtun hafi gilt ákveðnar reglur, sem þó hafi ekki verið skriflegar. Hafi ávöxtunin átt að fara í gegnum bankastofnanir eða viðurkenndar verðbréfastofur, til að lágmarka tapsáhættu. Í engum tilvikum hafi verið haft samband við tiltekna aðila án milligöngu bankastofnana eða verðbréfastofa. Vitnið kvað ákærða hafa á árinu 1998 verið starfsmann í fjárstýringardeild Landssíma Íslands hf. Hlutverk ákærða þar hafi m.a. verið að annast ávöxtun skammtímafjárfestinga fyrir hönd félagsins. Ákærði hafi ekki átt að hafa samband við einstaka viðskiptamenn án milligöngu banka eða verðbréfastofu. Vitnið kvaðst hafa haft af því spurnir, að fyrirsvarsmenn Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf. hafi komið á fund í Landssíma Íslands hf. og kynnt félagið. Hafi þeir jafnframt óskað eftir því að Landssími Íslands hf. myndi kaupa hlutafé í félaginu. Kvaðst vitnið telja að ákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar hafi verið þeir er mætt hafi á þann fund fyrir hönd sjónvarpsfélagsins. Eftir þann fund hafi verið tekin ákvörðun um að fjárfesta ekki í hlutabréfum í félaginu.
Vitnið kvað Landssíma Íslands hf. hafa staðið fyrir tölvuleikjamótum fyrir ungt fólk. Hafi mótin fengið heitið ,,Skjálftamót”, en fyrsta mótið hafi verið haldið á árinu 1999. Ákærði Sveinbjörn hafi móttekið greiðslur vegna þessara móta og tekið að sér að leggja þær inn á reikning Landssíma Íslands hf. Hafi hann jafnframt útbúið viðeigandi færslur í bókhaldi félagsins vegna þessara greiðslna. Af hálfu Landssíma Íslands hf. hafi verið farið skipulega yfir bókhald félagsins til að finna færslur er hafi getað tengst slíkum innborgunum. Þær hafi engar fundist. Landssími Íslands hf. hafi haldið tölvufærða skrá um fjölda þátttakenda á mótunum.
Vitnið Kristín Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Landssíma Íslands hf., kom fyrir dóminn. Um ástæður þess að yfirmann Landssíma Íslands hf. hafi orðið þess áskynja að ákærði Sveinbjörn hafi dregið sér fé úr sjóðum félagsins og þær ráðstafanir er gripið hafi verið til í kjölfarið, bar vitnið með sama hætti og vitnið Kristján Indriðason. Bar vitnið einnig um að erfiðlega hafi gengið að staðreyna fjárdrátt ákærða, þar sem færslur í bókhaldi hafi verið margar og flóknar. Um hafi verið að ræða alls 137 tilvik, en færslur að baki hverju og einu tilviki hafi verið á bilinu 50-70 talsins. Fjárhæðir hafi verið færðar á milli fjölmargra reikninga innan Landssíma Íslands hf., bankareikninga og biðreikninga, en með því m.a. hafi fjárhæðir verið stemmdar af með rafrænum hætti. Hafi því þurft að fara yfir fleiri þúsund færslur til að upplýsa um fjárdrátt ákærða. Kvað vitnið yfirferð Landssíma Íslands hf. um ætlaðan fjárdrátt ákærða hafa leitt til þeirrar kæru er Landssími Íslands hf. hafi lagt til lögreglu 22. maí 2003. Vitnið staðfesti að ákærði hafi annast frágang bókhaldsgagna í tengslum við hin svokölluðu ,,Skjálftamót”, en þær fjárhæðir sem færðar hafi verið til tekna fyrir mótin hafi verið skráðar af ákærða. Hafi tekjur verið skoðaðar í viðskiptabanka Landssíma Íslands hf. á móti tekjum sem leggja hafi átt inn. Þær hafi engar fundist. Gjald fyrir hvern þátttakanda hafi verið 500 krónur og hafi tekjufærslur ákærða nánast stemmt við þátttökuskrá mótanna. Tölvubúnaður hafi verið seldur á mótunum og hafi greiðslur fyrir slíkan búnað einnig átt að leggjast inn samhliða þátttökugjöldum.
Vitnið Eyþór Arnalds kvaðst hafa átt hlut í einkahlutafélaginu Suðurljósum, er keypt hafi hlut í Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf. Hafi vitnið átt helmings hlut í Suðurljósum ehf. á móti föður sínum. Er Suðurljós ehf. hafi keypt hlut í Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf. á árinu 1999, hafi sjónvarpsfélagið verið í rekstri. Á sama tíma hafi ákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar einnig keypt hlut í Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf. Síðar hafi aðrir fjárfestar komið að, svo sem 3p fjárhús ehf. Þessum fjárfestingum hafi lokið með því að öll hlutabréf í Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf. hafi verið keypt. Kvaðst vitnið hafa tekið þátt í þessum viðskiptum ásamt öðrum með það í huga að útvega hlutafé. Suðurljós ehf. hafi komið að fjármögnun sem fjárfestir. Ekki kvaðst vitnið minnast þess að hafa séð nákvæmar kostnaðaráætlanir um rekstur Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf. Félagið hafi verið lítið er hlutafé þess hafi verið keypt. Vitnið kvað Skjá 1 hafa haft yfir að ráða einu lausu sjónvarpsrásinni á þeim tíma. Hafi þau réttindi að mati vitnisins á þeim tíma verið einhverra milljóna króna virði. Vitnið staðfesti að gengi hlutabréfa í Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf. hafi farið hratt vaxandi og hafi það um tíma á árinu 2000 náð genginu 6,5. Fjárfesting í bréfum félagsins hafi þó ekki reynst góð því gengið hafi farið dvínandi og hafi Suðurljós ehf. tapað á fjárfestingu sinni.
Vitnið Theodór Sigurbergsson endurskoðandi kvaðst hafa annast endurskoðun reikninga Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf. á árunum 1999 og 2000. Í tengslum við þá endurskoðun hafi vitnið þekkt til starfa ákærða Árna Þórs. Staðfesti vitnið að ákærði hafi að mestu haft með dagskrárgerð að gera, en ekkert hafa tengst fjármálahlið félagsins, þótt hann hafi verið skráður framkvæmdastjóri þess.
Vitnið Sveinn Arason skrifstofustjóri hjá Ríkisendurskoðun staðfesti að Ríkisendurskoðun hafi komið að yfirferð um bókhald Landssíma Íslands hf. til að varpa ljósi á fjárdrátt ákærða Sveinbjarnar. Sú vinna hafi átt sér stað frá í lok maí 2003 og út júlí það ár. Í vinnu Ríkisendurskoðunar hafi falist greining á efnahagsliðum og viðskiptamannaliðum í bókhaldi Landssíma Íslands hf. Hafi allri vinnu verið haldið aðskilinni frá annarri vinnu sem hafi tengst félaginu. Hafi 3 starfsmenn komið að verkinu fyrir hönd Ríkisendurskoðunar.
Vitnið Aðalsteinn Garðarsson ráðgjafi hjá Nýherja hf. kom fyrir dóminn. Kvaðst vitnið hafa komið að vinnu fyrir Landssíma Íslands hf. við yfirferð á bókhaldi félagsins. Hafi vitnið á árinu 1998 starfað hjá Nýherja hf. við gerð bókhaldskerfa fyrir Landssíma Íslands hf. Hafi sérfræðivinna vitnisins falist í að finna umfang þeirra fjárhæða er ákærði Sveinbjörn hafi verið grunaður um að hafa dregið sér. Fengnar hafi verið tölvufærðar skrár frá viðskiptabanka Landssíma Íslands hf. og þær keyrðar saman við bókhaldsgögn frá félaginu. Sú vinna hafi tekið talsverðan tíma, en hún hafi fyrst og fremst beinst að því að finna rangfærslur í bókhaldi Landssíma Íslands hf. Færslur í bókhaldi hafi verið gríðarlega margar. Leita hafi þurft eftir útjöfnunum á einstakar færslur, sem rekja hafi þurft til baka til einstaka reikninga og lánadrottna. Þá hafi greiðslur verið geymdar á biðreikningum, sem leita hafi þurft eftir. Vinnu vitnisins hafi lokið í júní 2003, en þá hafi stjórnendur Landssíma Íslands hf. verið orðnir sáttir við þau tölvukerfi er vitnið hafi búið til í þeim tilgangi að finna rangfærslur í bókhaldi. Í kjölfarið hafi starfsmenn félagsins unnið með þau kerfi.
Vitnið Ragnar Þórir Guðgeirsson kvaðst hafa starfað sem endurskoðandi hjá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG. Vinnu fyrirtækisins fyrir Landssíma Íslands hf. í tengslum við ætlaðan fjárdrátt ákærða Sveinbjarnar hafi verið skipt í tvennt. Annars vegar hafi verið um að ræða vinnu KPMG endurskoðunar og hinsvegar KPMG ráðgjafar. Verkinu hafi verið skipt þannig, að tilteknir starfsmenn hafi leitað að færslum milli kerfislykla í bókhaldi Landssíma Íslands hf. Aðrir starfsmenn hafi komið að því að stemma bókhaldið af. Öll þessi vinna hafi miðað að því að finna endastöð einstakra færslna í bókhaldi. Flókið hafi verið að finna færslur, en vélrænar aðferðir hafi verið notaðar til að slétta þær út. Ákærði hafi notað biðreikninga til að fresta tilteknum færslum þar til síðar. Mikið af færslum hafi farið út úr greiðslukerfi til einstakra lánadrottna. Hafi verið erfitt að finna hvar einstaka fjárhæðir hafi setið eftir.
Vitnið Sigurgeir Sigurgeirsson forstöðumaður hjá Landssíma Íslands hf. kvaðst ásamt þáverandi forstjóra félagsins hafa setið fund, er forsvarsmenn þess hafi átt með fyrirsvarsmönnum Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf., ákærðu Árna Þór og Kristjáni Ragnari. Fram hafi komið óskir frá ákærðu um að kynna starfsemi Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf. með það í huga að Landssími Íslands hf. myndi fjárfesta með kaupum á hlutabréfum í félaginu. Ekki hafi á þeim fundi verið rætt um einstök atriði í slíkum fjárfestingum. Að fundi loknum hafi verið tekin ákvörðun um að fjárfesta ekki í hlutabréfum í Íslenska sjónvarpsfélaginu ehf.
Róbert Bjarnason lögreglufulltrúi kom fyrir dóminn. Staðfesti vitnið að Sveinbjörn hafi í upphafi lýst yfir vilja sínum við að aðstoða við rannsókn málsins og sýnt góða samvinnu.
Niðurstaða:
I.
Sveinbjörn Kristjánsson
Ákærði Sveinbjörn Kristjánsson hefur fyrir dómi skýlaust játað háttsemi er fellur undir 1.-74. og 83.-137. tölul. í ákæru. Með því hefur ákærði viðurkennt að hafa, í starfi sínu hjá Landssíma Íslands hf. sem aðalféhirðir, á tímabilinu 4. maí 1999 til 31. desember 2002 og eftir það sem aðalgjaldkeri til 20. maí 2003, dregið sér frá félaginu samtals 250.163.129 krónur. Háttsemi ákærða í þessum tilvikum fólst í útgáfu tékka á reikning Landssíma Íslands hf. í Íslandsbanka hf. og millifærslum um bankalínu út af reikningi félagsins hjá Íslandsbanka hf. Í öðrum tilvikum fólst háttsemi ákærða í því að draga sér fjármuni af bankareikningi Landssíma Íslands hf. hjá Íslandsbanka hf., með því að breyta textaskrám í rafrænu greiðslukerfi, sem leiddi til þess að greiðslur runnu inn á reikninga ákærða eða aðila tengdum honum. Ákærði hefur með þessari háttsemi sinni dregið sjálfum sér og öðrum fjármuni er hann hafði í vörslum sínum sem aðalgjaldkeri og síðar aðalféhirðir Landssíma Íslands hf. Hefur hann með þessu gerst sekur um brot gegn 247. gr. laga nr. 19/1940.
Ákærði hefur viðurkennt að hafa dregið sér fjármuni er hafi stofnast með þátttökugjöldum af svonefndum ,,Skjálftamótum”, skv. 75.-82. tölul. í ákæru. Ákærði hefur neitað sök í þessum ákæruliðum, þar sem hann dregur í efa að samanlögð fjárhæð liðanna sé rétt. Hefur hann borið því við að hafa að einhverju leyti lagt þátttökugjöld inn á reikning Landssíma Íslands hf. án þess þó að hann hafi getað tilgreint nákvæmar fjárhæðir í því sambandi. Þegar til þess er horft að ákærði hefur játað að hafa dregið sér stóran hluta þátttökugjalda tölvuleikjamótanna, að hann annaðist sjálfur tekjuskráningu gjaldanna og að ítarleg rannsókn á bókhaldi Landssíma Íslands hf. hefur ekki leitt í ljós að þátttökugjöld hafi verið lögð inn á reikning félagsins, þykir ekki varhugavert að miða við að ákærði hafi dregið sér þátttökugjöld í samræmi við fjárhæðir í ákæru. Með vísan til þessa er sannað að ákærði hafi dregið sér 10.983.815 krónur skv. 75.-82. tölul. í ákæru. Varðar háttsemi hans við 247. gr. laga nr. 19/1940.
II.
Árni Þór Vigfússon og Kristján Ragnar Kristjánsson
Ákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar eru ákærðir aðallega fyrir hylmingu skv. 254. gr. laga nr. 19/1940, það er eftirfarandi hlutdeild í auðgunarbroti meðákærða Sveinbjarnar Kristjánssonar. Til vara eru þeir báðir ákærðir fyrir peningaþvætti á grundvelli 264. gr. sömu laga, með því að hafa tekið við ólögmætum ávinningi af broti meðákærða Sveinbjarnar. Byggir ákæran á því að ákærðu hafi báðum verið kunnugt um að meðákærði Sveinbjörn hafi með refsiverðum hætti, á árunum 1999 til 2001, komist yfir og ráðstafað fjármunum Landssíma Íslands hf. til ákærðu og félaga þeim tengdum.
Ákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar hafa báðir lýst yfir, að þeir hafi á þeim tíma er ákæra í máli þessu taka til, rekið fjármál sín sem eina heild og ekki gert greinarmun á þeim og fjármálum einkahlutafélagsins Alvöru lífsins. Í því ljósi og með vísan til þess hve sakarefni ákærðu eru samofin og lýsa samkynja háttsemi, þykir rétt að fjalla um þátt þeirra beggja í einu lagi.
Ákærðu neita báðir sök. Byggja þeir varnir sínar í fyrsta lagi á því að ákæra í málinu fullnægi ekki áskilnaði 116. gr. laga nr. 19/1991. Brotum ákærðu sé lýst sem gáleysisbrotum í verknaðarlýsingu ákæru, en þau séu heimfærð aðallega undir 254. gr. laga nr. 19/1940, en til vara undir 264. gr. sömu laga. Hylming skv. 254. gr. laga nr. 19/1940 sé ásetningsbrot, sbr. 18. gr. laganna. Því sé einungis unnt að sakfella ákærðu fyrir hylmingu framda með gáleysisbroti skv. 263. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 117. gr. laga nr. 19/1991. Þar sem gáleysisverknaður skv. 263. gr., svo og 4. mgr. 264. gr. laga nr. 19/1940 geti að hámarki varðað fangelsisrefsingu í 6 mánuði, séu sakir á hendur ákærðu fyrndar með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 81. gr. laga nr. 19/1940. Beri því að sýkna þá af refsikröfu ákæruvalds.
Í ákæru á hendur Árna Þór og Kristjáni Ragnari er háttsemi þeirra lýst sem hylmingu, með því að þeim er gefið að sök að hafa veitt viðtöku, haldið og ráðstafað fjármunum, ,,þrátt fyrir að ákærðu hafi mátt vera ljóst” að vörslur fjárins í höndum meðákærða Sveinbjarnar hafi ekki stofnast með löglegum hætti. Í þeim tilvikum er ákæruefnið varðar fjármuni er runnu til Alvöru lífsins ehf. og Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf. er háttseminni lýst með sambærilegum hætti. Þrátt fyrir hin tilvitnuðu orð í ákæru verður að skilja verknaðarlýsingu hennar að öðru leyti þannig að hún lýsi ásetningsbroti. Þá miðar tilvísun til refsiákvæða í ákærunni við slíka heimfærslu en ekki gáleysisákvæði 263. gr. laga nr. 19/1940. Loks hefur lögreglurannsókn og málsókn ákæruvalds frá upphafi miðað við að háttsemi ákærðu sé ásetningsbrot og vörn ákærðu ekki orðið áfátt að því leyti. Verður því við það miðað, að ákæra í málinu fullnægi áskilnaði 116. gr. laga nr. 19/1991 til að um háttsemi ákærðu verði fjallað sem ásetningsbrot.
Að öðru leyti beinast varnir ákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars að því, að þeir hafi talið sig þess fullvissa, að meðákærði Sveinbjörn hafi haft viðhlítandi heimildir til að ráðstafa fjármunum úr vörslum Landssíma Íslands hf. til ákærðu eða félaga á þeirra vegum. Það hafi ekki verið fyrr en í símtali meðákærða Sveinbjarnar og ákærða Kristjáns Ragnars í maí 2003 að ákærðu hafi orðið heimildarskorturinn ljós. Meðákærði Sveinbjörn hefur frá upphafi staðfastlega haldið því fram að hann hafi frá fyrstu tíð látið í það skína, að hann hafi haft fullt umboð Landssíma Íslands hf. til að annast lánafyrirgreiðslur til ákærðu.
Óþarft er að rekja hér einstakar ráðstafanir fjármuna undir tölul. 138-167 í ákæru og framhaldsráðstafanir fjárins í einstaka liðum. Ákæra í málinu byggir á huglægri afstöðu ákærðu við viðtöku fjárins inn á eigin reikninga, reikninga Alvöru lífsins ehf. og Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf. og hagnýtingu þess. Skiptir þá ekki máli í því sambandi hvernig einstaka fjármunum var ráðstafað í framhaldinu, svo sem til lækkunar á yfirdrætti reikninga ákærðu í bönkum. Allar þessar ráðstafanir styðja framburð ákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars, um að slík fjárhagsleg eining hafi verið með ákærðu og einkahlutafélaginu Alvöru lífsins, að ekki hafi verið gerður greinarmunur á hvort fjármunir hafi runnið til þeirra eða einkahlutafélagsins. Fjárhagsleg umsvif ákærðu voru mikil á þessum tíma og tengd mörgum verkefnum. Samkvæmt 138.-141. tölul. í ákæru er ákærða Árna Þór gefið að sök að hafa veitt viðtöku, haldið og ráðstafað í eigin þágu 8.666.000 krónum, sem meðákærði Sveinbjörn hafi komist yfir. Ráðstafanir þessara fjármuna eftir að þeir bárust inn á bankareikning ákærða Árna Þórs bera þess merki, að þeim hafi einnig verið ráðstafað í þágu ákærða Kristjáns Ragnars. Þá hefur meðákærði Sveinbjörn lýst því að hann hafi talið þessa fjármuni renna til Alvöru lífsins ehf. Með samsvarandi hætti taldi meðákærði að greiðsla skv. 142. tölul. í ákæru, að fjárhæð 560.250 krónur, sem fór inn á bankareikning ákærða Kristjáns Ragnars, hafi einnig runnið til Alvöru lífsins ehf. Heildarfjárhæð greiðslna til ákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars og einkahlutafélaganna Alvöru lífsins og Íslenska sjónvarpsfélagsins nemur 163.581.968 krónum. Er þá ekki tekið tillit til greiðslna er runnu til einkahlutafélaganna Hanans og Lífstíls, er ákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar áttu hluti í á þeim tíma. Fjárhæð þeirra greiðslna nemur 19.468.000 krónum.
Við mat á því hvaða vitneskju ákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar höfðu um heimildir meðákærða Sveinbjarnar til að ráðstafa fé úr vörslum Landssíma Íslands hf. er fyrst til þess að líta að þær fjárhæðir sem runnu til ákærðu eða einkahlutafélaga á þeirra vegum voru stórfelldar, en svo sem áður er rakið runnu 163.581.968 krónur til ákærðu, Alvöru lífsins ehf. og Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf., auk þess sem 21.088.000 krónur runnu til einkahlutafélaganna Hanans og Lífstíls. Í öðru lagi stóð yfirfærsla fjármuna frá Landssíma Íslands hf. til ákærðu eða félaga þeim tengdum yfir frá 4. maí 1999 til 4. mars 2002 eða nærfellt þriggja ára tímabil. Í þriðja lagi var í engu tilvika gengið frá undirritun lánsskjala, einnar eða annarrar gerðar, eða rætt um ábyrgðir eða tryggingar tengdar fyrirgreiðslum til ákærðu eða félaga þeirra, svo sem gera varð ráð fyrir miðað við þær fjárhæðir er um var að ræða. Í fjórða lagi verður að líta til þess að yfirlit eða önnur skrifleg gögn um skuldastöðu ákærðu og félaga þeirra hjá Landssíma Íslands hf. bárust þeim aldrei. Að lokum er það til að taka að ákærðu gerðu enga tilraun til þess að halda utan um þær fjárhæðir sem þeir og félög þeirra fengu frá Landssíma Íslands hf. Var bókhald Alvöru lífsins ehf. þannig ekki fært og höfðu lögmælt skattskil félagsins síðast átt sér stað fyrir rekstrarárið 1998. Var þetta til þess fallið að leyna viðtöku fjár frá Landssíma Íslands hf.
Þegar til alls þessa er litið er það niðurstaða dómsins, að framburðir ákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars fái engan veginn staðist. Enda þótt ákærðu kunni í upphafi að hafa litið á umræddar greiðslur sem lán sem þeim bar að endurgreiða, gat þeim ekki dulist að meðákærða Sveinbirni var óheimilt að ráðstafa fé Landssíma Íslands hf. til ákærðu og fyrirtækja þeirra með þeim hætti sem áður er lýst. Án tillits til þess hvort og þá hvenær ákærðu varð ljós ásetningur meðákærða Sveinbjarnar til fjárdráttar hlaut þeim að vera ljós heimildarskortur hans að þessu leyti og þar með refsiverð háttsemi hans. Með því að veita viðtöku umræddu fé, halda því ólöglega fyrir eiganda þess, Landssíma Íslands hf., og hagnýta það í eigin þágu og áðurgreindra félaga, hafa ákærðu Árni Þór og Kristján Ragnar gerst sekir um hylmingu, sem varðar við 254. gr. laga nr. 19/1940.
III.
Ragnar Orri Benediktsson
Ákæruefnið gagnvart ákærða Ragnari Orra lýtur einnig að hylmingu skv. 254. gr. laga nr. 19/1940. Með vísan til þess er áður er rakið um þátt meðákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars er við það miðað, að ákæra í málinu fullnægi skilyrðum laga nr. 19/1991 til að um þátt ákærða Ragnars Orra verði fjallað sem ásetningsbrot.
Sakarefnið varðar í fyrsta lagi viðtöku og notkun á mánaðarlegum greiðslum á tímabilinu 5. júlí 2001 til 7. júní 2002. Fjárhæð hverrar greiðslu nemur 300.000 krónum og nema þær því alls 3.300.000 krónum. Í annan stað varðar sakarefnið framsal á 15 tékkum, samtals að fjárhæð 22.216.315 krónur. Greiðslur eftir framsal þessara tékka runnu inn á reikninga einkahlutafélaganna Hanans og Lífstíls, auk þess sem ein greiðsla rann inn á reikning meðákærða Kristjáns Ragnars og tvær inn á reikninga nafngreindra einstaklinga. Ákærði hefur lýst því svo að hann hafi í þessum tilvikum framselt og ráðstafað hverjum og einum tékka að fyrirmælum meðákærða Sveinbjarnar. Loks varðar sakarefnið viðtöku á tveimur greiðslum, sem runnu inn á reikning einkahlutafélagsins Hafskipa, félags í eigu ákærða. Nema þær greiðslur samtals 5.964.632 krónum og runnu inn á reikning félagsins í tvennu lagi í maí 2003. Báðum þessum greiðslum var í framhaldinu ráðstafað í þágu Hafskipa ehf., ákærða sjálfs og einkahlutafélagsins Bankastrætis 12, sem þá var í eigu ákærða.
Við mat á því hvaða vitneskju ákærði hafði um heimildir meðákærða Sveinbjarnar til að ráðstafa fé úr vörslum Landssíma Íslands hf. er fyrst til þess að líta að þær fjárhæðir er runnu til ákærða, einkahlutafélags hans Hafskipa og einkahlutafélaganna Hanans og Lífstíls fyrir tilstilli ákærða voru umtalsverðar, en þær námu alls 31.480.947 krónum. Í öðru lagi bárust 3.300.000 krónur í 11 reglulegum færslum inn á reikning ákærða merktar Landssíma Íslands hf. í heimilisbanka hans. Bárust þær inn á reikninginn á sama tíma og ákærði framseldi 15 tékka merkta Landssíma Íslands hf., samtals að fjárhæð 22.216.315 krónur. Í þriðja lagi var í hvorugu þeirra tilvika er greiðslur voru inntar af hendi til fyrirtækis ákærða Hafskipa ehf., undirrituð lánsskjöl eða rætt um ábyrgðir, svo sem gera varð ráð fyrir. Að lokum er til þess að líta að bókhald Hafskipa ehf. var ekki fært, en það var til þess fallið að leyna viðtöku fjár frá Landssíma Íslands hf.
Þegar til alls þessa er litið er það niðurstaða dómsins, að framburður ákærða fái engan veginn staðist. Gat honum ekki dulist að meðákærða Sveinbirni var óheimilt að ráðstafa fé Landssíma Íslands hf. til ákærða, Hafskipa ehf., Hanans ehf. og Lífstíls ehf. með þeim hætti sem áður er lýst. Án tillits til þess hvort og þá hvenær ákærða varð ljós ásetningur meðákærða Sveinbjarnar til fjárdráttar hlaut honum að vera ljós heimildarskortur hans að þessu leyti og þar með refsiverð háttsemi hans. Með því að veita viðtöku umræddu fé, halda því ólöglega fyrir eiganda þess, Landssíma Íslands hf., og hagnýta það í eigin þágu og áðurgreindra félaga, hefur ákærði gerst sekur um hylmingu, sem varðar við 254. gr. laga nr. 19/1940.
IV.
Auður Harpa Andrésdóttir
Ákæruefnið gagnvart ákærðu Auði Hörpu er peningaþvætti skv. 264. gr. laga nr. 19/1940, með því að hafa framselt 2 tékka, samtals að fjárhæð 3.000.000 króna, í apríl 2001, þrátt fyrir að hafa verið ljóst að meðákærði Sveinbjörn hafi ekki haft lögheimilar vörslur þeirra fjármuna. Ákærða hefur lýst atvikum svo að hún hafi á þeim tíma starfað á veitingastaðnum Prikinu í Bankastræti. Hafi hún ráðstafað þessum tveimur greiðslum samkvæmt fyrirmælum meðákærða Sveinbjarnar, sem hafi verið vinnuveitandi hennar á þeim tíma. Um ástæður þess að hafa lagt þessar fjárhæðir fyrst inn á eigin tékkareikning, áður en þeim var ráðstafað á aðra staði, hafði ákærða uppi þá skýringu að það hafi verið gert að ráði meðákærða Sveinbjarnar til að auka veltu á tékkareikningi hennar.
Með ákærðu Auði Hörpu og meðákærða Sveinbirni var vinskapur og eru þau á einu máli um að meðákærði hafi veitt henni ýmis ráð varðandi fjármál hennar. Ekki er fram komið að ákærða hafi átt hlut í félögum er aðrir ákærðu í máli þessu tengjast eða að hún hafi borið ábyrgð á rekstri þeirra eða rekstrareiningum þeim tengdum. Gögn málsins leiða heldur ekki í ljós önnur tengsl ákærðu Auðar Hörpu og meðákærða Sveinbjarnar en framburðir þeirra gefa til kynna. Í því ljósi er varhugavert að telja sannað, að ákærða hafi haft vitneskju um ólögmæta tilurð þeirra fjármuna er hún í apríl 2001 ráðstafaði að fyrirmælum meðákærða Sveinbjarnar. Verður hún því ekki sakfelld fyrir peningaþvætti framið af ásetningi, sbr. 1. mgr. 264. gr. laga nr. 19/1940.
Brot gegn 264. gr. laga nr. 19/1940 verður framið af gáleysi, sbr. 4. mgr. greinarinnar. Ákærða veitti ólögmætum ávinningi viðtöku á bankareikning sinn og ráðstafaði honum í framhaldinu að fyrirmælum meðákærða Sveinbjarnar. Sú ráðstöfun var ekki tilviljun, þar sem ákærða hafði tekið þá ákvörðun að aðstoða meðákærða við að framselja tékka er óumdeilanlega stöfuðu frá Landssíma Íslands hf., en ekki meðákærða svo sem ljósrit af þeim báðum bera skýrlega með sér. Verður að meta þá ráðstöfun ákærðu til gáleysis. Með þessari háttsemi hefur ákærða því gerst sek um brot gegn 4. mgr. 264. gr. laga nr. 19/1940.
Refsing vegna brota á ákvæðum 4. mgr. 264. gr. laga nr. 19/1940 varðar fangelsi allt að 6 mánuðum. Slík brot fyrnast á 2 árum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 81. gr. laga nr. 19/1940. Brot ákærðu voru framin í apríl 2001, en hún var fyrst yfirheyrð af lögreglu 4. júní 2003. Voru þá liðin meira en 2 ár frá því refsiverðum verknaði hennar lauk. Eru sakir á hendur henni því fyrndar og verður hún sýknuð af refsikröfu ákæruvalds í málinu.
Refsingar:
Ákærði Sveinbjörn Kristjánsson hefur ekki áður sætt refsingum er máli skipta um niðurstöðu þessa máls. Hefur hann hér að framan verið sakfelldur samkvæmt ákæru, fyrir að hafa í 137 tilvikum dregið sér frá Landssíma Íslands hf. 261.146.944 krónur. Brot þessi eru stórfelld og eiga sér enga hliðstæðu. Ákærði leyndi brotum sínum frá fyrstu tíð með skipulögðum hætti. Brotahrina hans var langvinn og samfelld, allt frá fyrstu ráðstöfun hans 4. maí 1999, til þeirrar síðustu, 20. maí 2003, en ákærði var handtekinn vegna málsins að kvöldi 22. maí 2003. Brotin framdi ákærði með ýmsu móti. Leyndi hann fjárdrættinum kerfisbundið í bókhaldi vinnuveitanda síns með því að færa einstakar færslur á milli reikninga, en reikningskerfi Landssíma Íslands hf. var mikið að umfangi. Ákærði missti fljótlega yfirsýn yfir fjártökur sínar og gat við rannsókn málsins ekki upplýst með vissu um fjárdrátt sinn. Skeikaði verulegu í fjárhæðum er hann taldi sig hafa dregið sér og þeim er rannsókn málsins leiddi í ljós. Fjártökur ákærða uppgötvuðust ekki innan fyrirtækisins og varð þeirra ekki vart fyrr en skattstjórinn í Reykjavík hóf athugun á greiðslum frá því til Alvöru lífsins ehf.
Ákærði hefur aðstoðað við rannsókn málsins og skýrt frá fjárdrætti sínum að því marki er hann man hann. Það var þó ekki á færi annarra en sérfræðinga að upplýsa um fjárdrátt ákærða í heild sinni og var þar um verulega vinnu að ræða. Eins og málið liggur fyrir verður að miða við að ákærði hafi ekki nema að hluta notið ávinnings af brotum sínum. Hins vegar var brotavilji hans styrkur og einbeittur. Í ljósi alls framangreinds er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 4 ár og 6 mánuði. Til frádráttar refsingunni komi 14 daga gæsluvarðhaldsvist ákærða, frá 23. maí til 5. júní 2003.
Ákærði Árni Þór Vigfússon hefur ekki áður sætt refsingum svo kunnugt sé og ákærði Kristján Ragnar Kristjánsson ekki að því marki er máli skiptir um niðurstöðu þessa máls. Ákærðu hafa verið fundnir sekir um að hafa veitt viðtöku og ráðstafað í eigin þágu og í þágu Alvöru lífsins ehf. og Íslenska sjónvarpsfélagsins ehf. alls 163.581.968 krónum á tímabilinu 4. maí 1999 til 12. desember 2001. Samkvæmt því hafa þeir og félög þeirra notið ávinnings af stærsta hluta þeirra fjárhæða er meðákærði Sveinbjörn hefur verið sakfelldur fyrir að hafa dregið sér úr vörslum Landssíma Íslands hf. Er þá ekki tekið tillit til 19.468.000 króna er meðákærði Sveinbjörn dró sér og runnu til einkahlutafélaganna Hanans og Lífstíls, er þá voru m.a. í eigu ákærðu Árna Þórs og Kristjáns Ragnars. Varða brot ákærðu þannig stórfelldar fjárhæðir, auk þess sem brotastarfsemi þeirra spannar umtalsverðan tíma. Er refsing ákærðu beggja hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár. Til frádráttar refsingu komi 11 daga gæsluvarðhaldsvist ákærðu beggja, frá 23. maí til 2. júní 2003.
Ákærði Ragnar Orri Benediktsson hefur ekki áður sætt refsingum er máli skipta um niðurstöðu þessa máls. Ákærði hefur verið fundinn sekur um hylmingu, með því að honum hafi verið ljós tilurð þess fjár er meðákærði Sveinbjörn ráðstafaði til ákærða og Hafskipa ehf. Þá hafi honum einnig verið ljós tilurð 22.216.315 króna, er ákærði ráðstafaði aðallega til einkahlutafélaganna Hanans og Lífstíls í kjölfar framsals 15 tékka. Varða brot ákærða þannig háar fjárhæðir. Í ljósi alls framangreinds er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 8 mánuði. Til frádráttar refsingunni komi 7 daga gæsluvarðhaldsvist ákærða, frá 27. maí til 2. júní 2003
Skaðabætur:
Ákærði Sveinbjörn hefur verið sakfelldur fyrir fjárdrátt. Hefur hann viðurkennt bótaskyldu en gert fyrirvara um bótafjárhæð. Ákærðu Árni Þór, Kristján Ragnar og Ragnar Orri hafa verið sakfelldir fyrir hylmingu. Þeir hafa allir neitað bótaskyldu. Þá hefur ákærða Auður Harpa einnig neitað bótaskyldu.
Á grundvelli XX. kafla laga nr. 19/1991 er tjónþola unnt að koma að einkaréttarlegri kröfu í opinberu máli, er stafar af þeirri háttsemi er til meðferðar hefur verið í sakamálinu. Samkvæmt 5. mgr. 172. gr. laganna skal dómari gefa tjónþola kost á að tjá sig um kröfuna og skýra hana ef slíkt getur orðið án verulegra tafa eða óhagræðis í máli. Telji dómari slíks málflutnings þörf um kröfuna, en ekki unnt að láta hann fram fara, skal vísa henni frá dómi.
Skaðabótakrafa Landssíma Íslands hf., alls að fjárhæð 246.206.206 krónur, ásamt kostnaði við að halda frammi bótakröfu, beinist að ákærðu öllum, en þó með mismunandi hætti. Svo sem áður er rakið beinist hún í öllum tilvikum að ákærða Sveinbirni, en í öðrum tilvikum að honum og meðákærðu sameiginlega. Við mat á því hvort skaðabótakrafa Landssíma Íslands hf. sé í því horfi að unnt sé að dæma um hana í þessu máli er fyrst til þess að líta að bótakrafan er margskipt og nemur umtalsverðum fjárhæðum. Í annan stað hafa ákærðu krafist þess, með vísan til 24. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, að bótafjárhæðir verði lækkaðar án þess þó að málið hafi verið flutt með þeim hætti að unnt sé að taka viðunandi afstöðu til slíkrar málsástæðu. Að lokum liggur fyrir að umræddir fjármunir runnu meðal annars til tiltekinna einkahlutafélaga, en málið hefur ekki verið reifað um það atriði hvort Landssími Íslands hf. hafi leitast við að takmarka tjón sitt að einhverju leyti, m.a. með kröfum gegn þessum félögum.
Með vísan til þess er hér hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins, að skaðabótakrafa Landssíma Íslands hf. þurfi aðra og frekari umfjöllun en hér verður komið við. Með vísan til niðurlags 5. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991, verður henni því vísað frá dómi.
Sakarkostnaður:
Um málsvarnarlaun og sakarkostnað fer svo sem í dómsorði greinir. Hefur þá verið tekið tillit til framlagðra tímaskýrslna verjenda og vinnu á rannsóknarstigi málsins.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Jón H. Snorrason saksóknari.
Símon Sigvaldason, Helgi I. Jónsson og Skúli Magnússon héraðsdómarar kváðu upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Sveinbjörn Kristjánsson, sæti fangelsi í 4 ár og 6 mánuði. Til frádráttar refsingu komi 14 daga gæsluvarðhaldsvist ákærða.
Ákærði, Árni Þór Vigfússon, sæti fangelsi í 2 ár. Til frádráttar refsingu komi 11 daga gæsluvarðhaldsvist ákærða.
Ákærði, Kristján Ragnar Kristjánsson, sæti fangelsi í 2 ár. Til frádráttar refsingu komi 11 daga gæsluvarðhaldsvist ákærða.
Ákærði, Ragnar Orri Benediktsson, sæti fangelsi í 8 mánuði. Til frádráttar refsingu komi 7 daga gæsluvarðhaldsvist ákærða.
Ákærða, Auður Harpa Andrésdóttir, er sýkn af kröfum ákæruvalds í málinu.
Skaðabótakröfu Landssíma Íslands hf. er vísað frá dómi.
Ákærði Sveinbjörn greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 450.000 krónur.
Ákærði Árni Þór greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 700.000 krónur. Þá greiði ákærði útlagðan kostnað vegna réttagæsluþóknunar Einars S. Hálfdánarsonar hæstaréttarlögmanns, 700.000 krónur.
Ákærði Kristján Ragnar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Þórs Árnasonar hæstaréttarlögmanns, 1.500.000 krónur.
Ákærði Ragnar Orri greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 400.000 krónur.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu Auðar Hörpu, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 330.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Annan sakarkostnað greiði ákærðu Sveinbjörn, Árni Þór, Kristján Ragnar og Ragnar Orri sameiginlega.