Hæstiréttur íslands

Mál nr. 437/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kærufrestur
  • Frávísun frá Hæstarétti


Þriðjudaginn 4

 

Þriðjudaginn 4. desember 2001.

Nr. 437/2001.

Sýslumaðurinn í Keflavík

(Ásgeir Eiríksson fulltrúi)

gegn

Arnari Helga Lárussyni

(Nökkvi Már Jónsson hdl.)

 

Kærumál. Kærufrestur. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Kæra barst ekki héraðsdómi fyrr en að liðnum kærufresti og samkvæmt því var málinu vísað frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. nóvember 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 20. nóvember 2001, þar sem Landssíma Íslands hf. var gert skylt að veita lögreglunni í Keflavík upplýsingar um hringingar og boð til og frá tilgreindum símanúmerum varnaraðila frá 1. janúar 2001 til 9. nóvember sama árs, auk upplýsinga um símkort varnaraðila og notkun á öðrum símanúmerum, sem kunna að hafa verið nýtt í tilteknu símtæki hans á greindu tímabili. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi. Hann krefst jafnframt kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili leitaði 19. nóvember 2001 eftir úrskurði Héraðsdóms Reykjaness um heimild til að krefja Landssíma Íslands hf. um þær upplýsingar varðandi varnaraðila, sem áður er getið, svo og um sambærilegar upplýsingar í sambandi við símnotkun annars nafngreinds manns. Héraðsdómari tók þessa kröfu sóknaraðila fyrir á dómþingi næsta dag án þess að varnaraðili væri kvaddur fyrir dóm. Var hinn kærði úrskurður kveðinn upp í því þinghaldi.

Í kæru, sem verjandi varnaraðila ritaði til Héraðsdóms Reykjaness 23. nóvember 2001, sagði meðal annars eftirfarandi: „Undirrituðum lögmanni barst í hendur hinn kærði úrskurður fyrir tilviljun degi eftir uppkvaðningu hans er hann var staddur á embætti lögreglustjórans í Keflavík í erindagjörðum alls óviðkomandi máli kæranda. Mun fulltrúi lögreglustjórans í Keflavík hafa afhent honum afrit úrskurðarins.“ Þessi ummæli verður að skilja svo að verjanda varnaraðila hafi orðið kunnugt um efni hins kærða úrskurðar 21. nóvember 2001. Samkvæmt áritun Héraðsdóms Reykjaness á kæruna barst hún dóminum 27. sama mánaðar. Var þá liðinn frestur til kærunnar samkvæmt 2. mgr. 144. gr. laga nr. 19/1991. Verður því ekki komist hjá að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Kærumálkostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.