Hæstiréttur íslands

Mál nr. 482/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá Hæstarétti


Miðvikudaginn 30

 

Miðvikudaginn 30. nóvember 2005.

Nr. 482/2005.

Hermann Eyjólfsson

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

Landmati Íslandi ehf.

Landmati International ehf. og

Landmati Inc.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Kærumál. Kröfugerð. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Héraðsdómur vísaði frá dómi máli, sem H hafði höfðað á hendur LÍ, LI og L og kærði H þá úrlausn til Hæstaréttar. Í kæru krafðist H þess að úrskurður héraðsdóms yrði felldur úr gildi og kröfur þær sem vísað var frá dómi yrðu teknar til greina fyrir Hæstarétti. Var talið að kröfugerð með þessum hætti í kærumáli vegna úrskurðar um frávísun fengi ekki staðist og væri af þeim sökum óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. nóvember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember 2005, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili gerir þær kröfur „að hinum kærða úrskurði verði hrundið og fallist verði á kröfur sóknaraðila fyrir héraðsdómi sem eru þær að varnaraðilar greiði sóknaraðila, in solidum, kr. 18.962.665,- auk dráttarvaxta frá 1. 1. 2004 til greiðsludags, allt að frádregnum kr. 7.174.823,- og varnaraðilum verði gert skylt með dómi að viðlögðum dagsektum að framselja til stefnanda 96.211,- hluti en til vara 67.200 í Landmati Inc. allt gegn greiðslu kaupverðs sem nemur USD 0,40 pr. hlut, auk málskostnaðar. Þá er krafist kærumálskostnaðar í öllum tilvikum.“

Varnaraðilar krefjast þess hver fyrir sig að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.

Í framangreindri kröfugerð sinni til Hæstaréttar krefst sóknaraðili efnislegrar úrlausnar um þær dómkröfur sínar á hendur varnaraðilum, sem sættu frávísun í hinum kærða úrskurði, en gerir ekki kröfu til þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Kröfugerð með þessum hætti í kærumáli vegna úrskurðar um frávísun fær ekki staðist og er af þeim sökum óhjákvæmilegt að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Sóknaraðili greiði varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, Hermann Eyjólfsson, greiði varnaraðilum,  Landmati Íslandi ehf., Landmati International ehf. og  Landmati Inc., hverjum fyrir sig 70.000 krónur í kærumálskostnað.

 

         

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember 2005.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 26. október sl. er höfðað með stefnu birtri 13. september 2004.

Stefnandi er Hermann Eyjólfsson, Brautarlandi 16, Reykjavík.

Stefndu eru Landmat Ísland ehf., Landmat International ehf., báðir til lögheimilis að Skaftahlíð 24, Reykjavík og Landmat Inc, skráð með lögheimili í Bandaríkjunum en með aðsetur á Íslandi að Skaftahlíð 24, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru

1.      Að stefndu greiði stefnanda, in solidum, 18.962.665 krónur auk dráttarvaxta skv. III kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2004 til greiðsludags, allt að frádregnum 7.174.823 krónum.

2.      Að stefndu verði, in solidum, gert skylt með dómi að viðlögðum dagsektum að framselja til stefnanda 96.211 hluti en til vara 67.200 hluti í Landmati Inc. allt gegn greiðslu kaupverðs sem nemur USD 0,40 pr. hlut.

3.            stefndi      greiði      stefnanda      málskostnað.

Stefndu krefjast þess aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar.

Krafa stefndu um frávísun er til úrlausnar hér.

Af hálfu allra stefndu er á því byggt að skilyrði 1. mgr. 19. gr. laga um meðferð einkamála fyrir samlagsaðild til varnar séu ekki uppfyllt og leiði af því að vísa beri málinu í heild sinni frá dómi. Ekkert ráðningarsamband sé á milli stefnanda og Landmats Inc. eða Landmats Ísland ehf. Þá hafi stefndi tekist á hendur ábyrgð á skuldbindingum Landmats Ísland ehf., en hvorki skuldbindingum Landmats Inc. eða Landmats International ehf. Geti sá hluti kröfu undir tölulið nr. 1 í stefnu sem varði laun, kaupauka og orlof því ekki verið sóttur á hendur Landmati Inc. eða Landmati Ísland ehf., og sá hluti sem varði ábyrgðarþóknun ekki verið sóttur á hendur Landmati International ehf. eða Landmati Inc. Kröfu undir tölulið nr. 2 í stefnu sé ekki hægt að sækja á hendur Landmati International ehf. og Landmati Ísland ehf., enda sé valréttarsamningur sá sem krafan sé reist á milli stefnanda og Landmats Inc. Um tvenns konar, aðskilin samningssambönd sé að ræða hvað varði annars vegar ráðningarsamning og hins vegar valréttarsamning, og til viðbótar ætlað kröfuréttarsamband vegna ábyrgðarþóknunar. Ekki séu sömu aðilar að þessum samningssamböndum og kröfuréttarsambandi. Þessar tvær dómkröfur eigi því ekki rætur til sama atviks, aðstöðu eða löggernings og beri því að vísa málinu frá dómi.

Þá séu kröfur stefnanda vanreifaðar og leiði af því að vísa beri málinu í heild sinni frá dómi, ellegar einstökum kröfuliðum. Engin tilraun sé gerð til að rökstyðja hvers vegna stefndu ættu að bera solidaríska ábyrgð á dómkröfum stefnanda. Með engum hætti sé reynt að rökstyðja hvernig stefnandi geti gert þann hluta kröfu sem varðar laun, kaupauka og orlof á hendur Landmati Ísland ehf. og Landmati Inc., og með engum hætti reynt að rökstyðja hvernig stefnandi geti átt kröfu vegna ábyrgðarþóknunar á hendur Landmati International ehf. og Landmati Inc. Engin tilraun sé gerð til að rökstyðja hvernig stefnandi geti átt kröfu vegna valréttar á hendur Landmati International ehf. og Landmati Ísland ehf. Krafa vegna valréttar fari að lögum Delaware - ríkis í Bandaríkjunum, en engin tilvísun sé gerð í lög Delaware - ríkis sem krafa sé byggð á eða sýnt fram á hvernig lög þess ríkis eigi að leiða til þess að stefnandi fái kröfu sinni framgengt. Dagsektakrafa sú sem sett sé fram vegna kröfu undir tölulið nr. 2 sé ekki að tiltekinni fjárhæð og hvorki sé kveðið á um upphafsdag eða lokadag þeirra. Hún sé því vanreifuð og krafan í heild ódómtæk. Engin leið sé að átta sig á hvers vegna orlofskrafa vegna ársins 2002 miði við 750.000 króna mánaðarlaun eða hvers vegna miðað er við 63% af 750.000 krónum vegna ársins 2003.

Um kröfu undir tölulið nr. 2 í stefnu sé það sérstaklega að athuga, að skilyrði 1. mgr. 27. gr. fyrir kröfusamlagi séu ekki uppfyllt í málinu, enda séu kröfur undir 1. og 2. tölulið í stefnu ekki samkynja né eigi þær rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, eins og áður hafi verið rakið í rökstuðningi fyrir frávísun málsins á þeim grundvelli að skilyrði um samlagsaðild séu ekki uppfyllt í málinu. Beri þegar af þeirri ástæðu að vísa þessari kröfu frá dómi.

Af hálfu stefnanda er kröfu stefndu um frávísun máls þessa mótmælt og krafist málskostnaðar í þessum þætti málsins.

Ljóst sé að kröfurnar eigi sér rót í ráðningarsamningi stefnanda við Landmat International ehf. en hin félögin taki að sér skyldur sem leiði af samningnum. Gerður hafi verið skriflegur samningur við Landmat International ehf. sem sé íslenskt félag með varnarþing á Íslandi. Í samningnum komi fram að vinna stefnanda sé í þágu allra hinna þriggja stefndu. Ljóst sé af gögnum málsins að vinnusambandið hafi ekki aðeins verið við Landmat International heldur einnig Landmat Ísland og Landmat Inc.

NIÐURSTAÐA

Stefnandi gerir hér kröfu um vangoldin laun á hendur samningsaðila sínum Landmati International ehf. Þá gerir hann kröfu um á hendur Landmat Inc. um framsal á hlutabréfum vegna valréttarsamnings og loks gerir hann kröfu á hendur Landmati Ísland ehf. til greiðslu þóknunar vegna ábyrgðar sem hann hafi tekist á hendur gagnvart viðskiptabaka þessa stefnda.

Krafan vegna launa, orlofsgreiðslna og launaauka á sér rót í ráðningarsambandi því sem var með stefnanda og stefnda Landmat International ehf. Krafa um greiðslu þóknunar vegna ábyrgðar sem stefnandi var í vegna yfirdráttar stefnda, Landmats Ísland ehf., á sér aðra rót, þ.e.a.s. stefnandi byggir hér á því að samkomulag hafi verið um að hann fengi þóknun vegna þess að hann gekk í ábyrgð fyrir þennan stefnda. Kröfu um að stefnda Landmati Inc. verði gert skylt að gefa út tiltekinn fjölda hluta í þessum stefnda byggir stefnandi á sérstökum samningi þar að lútandi. Samkvæmt þessu eiga kröfur stefnanda ekki rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings og skilyrði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um samlagsaðild varnarmegin því ekki uppfyllt, og með því að allir stefndu hafi krafist frávísunar verður ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi þegar af þessari ástæðu.

Samkvæmt 2. mgr. 130 gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefndu 150.000 krónur í málskostnað.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

             Máli þessu er vísað frá dómi.

             Stefnandi, Hermann Eyjólfsson, greiði stefndu, Landmati Inc., Landmati International ehf. og Landmati Ísland ehf., 150.000 krónur í málskostnað.