Hæstiréttur íslands

Mál nr. 349/2002


Lykilorð

  • Frávísun frá héraðsdómi
  • Vanreifun
  • Lífeyrissjóður
  • Evrópska efnahagssvæðið


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. febrúar 2003.

Nr. 349/2002.

Jón Gunnar Þorkelsson

(Bjarni G. Björgvinsson hdl.)

gegn

Lífeyrissjóði sjómanna

(Hörður Felix Harðarson hrl.)

 

Frávísun frá héraðsdómi. Vanreifun. Lífeyrissjóðir. Evrópska efnahagssvæðið.

J stefndi L til viðurkenningar á því að honum bæri að framreikna áunnin stig hans við útreikning örorkubóta vegna slyss sem hann varð fyrir sem sjómaður í Danmörku í september 1996 og að bótaréttur hans í sjóðnum skyldi ekki skerðast að því er framreikning varðaði vegna flutnings hans til Danmerkur á árinu 1995. Jafnframt krafist J að viðurkennt yrði að sjóðurinn hefðu vanefnt skyldu sína gagnvart honum við greiðslu á örorkubótum frá 29. september 1996. Tekið var fram að málið varðaði mikilvæga hagsmuni J og bæri í sér álitaefni um lífeyrisréttindi og réttarstöðu manna á EES-svæðinu sem hefðu ekki áður komið til kasta dómstóla. Með vísan til þess að lýsingu atvika málsins var verulega áfátt af hálfu J og torvelt á grundvelli hennar að meta málsástæður hans var talið að stefna málsins í héraði hefði ekki fullnægt ákvæði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem úr þessu hafði ekki verið bætt undir rekstri málsins bar að vísa því sjálfkrafa frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Haraldur Henrysson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. júlí 2002 og krefst þess að við útreikning örorkubóta, sem hann nýtur frá stefnda, skuli hann njóta framreiknings áunninna stiga samkvæmt grein 11.1. í reglugerð stefnda, sbr. grein 4.5. í „Samkomulagi um samskipti lífeyrissjóða“. Jafnframt er þess krafist að viðurkennt verði að stefndi hafi vanefnt skyldur sínar gagnvart áfrýjanda til framreiknings áunninna stiga vegna örorkubóta frá 29. september 1996. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar hér fyrir dómi.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar sér til handa fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur lagt fram í Hæstarétti nýtt skjal, tekjuyfirlit frá skattstofunni í Hirtshals í Danmörku, en samkvæmt því námu skattskyldar tekjur áfrýjanda 65.701 danskri krónu á árinu 2001.

Áfrýjandi höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi gegn þremur lífeyrissjóðum sameiginlega til viðurkenningar á því að þeim bæri öllum að framreikna áunnin stig hans við útreikning örorkubóta vegna slyss, sem hann varð fyrir sem sjómaður í Danmörku í september 1996 og að bótaréttur hans í sjóðunum skyldi ekki skerðast að því er framreikning varðar vegna flutnings hans til Danmerkur á árinu 1995. Jafnframt var þess krafist að viðurkennt yrði að hinir stefndu sjóðir hafi vanefnt skyldu sína gagnvart áfrýjanda við greiðslu á örorkubótum frá 29. september 1996. Fyrir Hæstarétt hefur áfrýjandi aðeins stefnt einum þessara sjóða með vísan til ákvæða í samkomulagi um samskipti lífeyrissjóða og niðurstöðu héraðsdóms.

Mál þetta varðar mikilvæga hagsmuni áfrýjanda og ber í sér álitaefni um lífeyrisréttindi og réttarstöðu manna á Evrópska efnahagssvæðinu, sem hafa ekki áður komið til kasta dómstóla. Í stefnu er þrátt fyrir þetta að mjög takmörkuðu leyti gerð grein fyrir atvikum málsins, málsástæðum áfrýjanda og réttarheimildum, sem máli skipta. Þannig kemur ekki nægilega fram, hvernig áfrýjandi hafði áunnið sér stig hjá hinum einstöku stefndu lífeyrissjóðum, þar á meðal stefnda hér fyrir dómi, og hvernig staða hans gagnvart hverjum og einum þeirra var með tilliti til réttar til framreiknings. Málsástæður áfrýjanda að því er þetta varðar urðu ekki skýrðar eingöngu með vísan til framlagðrar tölvuútskriftar. Þá var óljóst af málatilbúnaði hans hver tekjuskerðing hans var vegna orkutapsins, sbr. ákvæði í samþykktum stefnda þar að lútandi. Í stefnu var engin grein gerð fyrir því hvernig háttað var störfum áfrýjanda í Danmörku, hvers konar lífeyrissjóður það var, sem hann greiddi til og hve lengi eða hvaða réttinda hann hafði aflað sér. Framlögð gögn málsins gefa heldur ekki fullnægjandi mynd af þessum atriðum. Þá liggur ekkert fyrir um reglur umrædds sjóðs eða danskar réttarreglur, er hann starfaði eftir. Lýsingu atvika málsins var þannig verulega áfátt af hálfu áfrýjanda og torvelt á grundvelli hennar að meta málsástæður hans.

Að öllu þessu virtu verður að telja að stefna málsins í héraði hafi ekki fullnægt ákvæði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Úr þessu hefur ekki verið bætt undir rekstri málsins og ber því að vísa því sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður. Um gjafsóknarkostnað fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Jóns Gunnars Þorkelssonar, í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, samtals 600.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2002.

         Mál þetta, sem dómtekið var 5. þessa mánaðar, er höfðað 28. júní 2001 af Jóni Gunnari Þorkelssyni, Nejstbrinken 2, Hirtshals, Danmörku, gegn Lífeyrissjóði Austurlands, Egilsbraut 25, Neskaupstað, Lífeyrissjóði sjómanna, Þverholti 14, Reykjavík, og Lífeyrissjóði Vestfirðinga, Brunngötu 7, Ísafirði.

         Stefnandi gerir þær kröfur, að viðurkennt verði með dómi, að við útreikning örorkubóta, sem stefnandi á rétt á frá stefndu, skuli stefnandi njóta framreiknings áunninna stiga samkvæmt 75. gr., sbr. 79. gr. samþykkta Lífeyrissjóðs Austurlands, 11. gr. samþykkta Lífeyrissjóðs sjómanna og gr. 12.3. a og b gr. 12.4.1. og 12.4.2. samþykkta Lífeyrissjóðs Vestfirðinga og að bótaréttur hans í viðkomandi sjóðum skuli ekki skerðast að því er framreikninga áunninna stiga varðar við flutning stefnanda til Danmerkur á árinu 1995. Jafnframt er þess krafist, að viðurkennt verði, að stefndu hafi vanefnt skyldu sína gagnvart stefnanda til greiðslu á örorkubótum frá 29. september 1996. Þá er krafist málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

         Stefndu krefjast hver fyrir sig sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

I.

         Stefnandi starfaði við sjómennsku á Íslandi árin 1969 til 1995 og var sjóðfélagi í hinum stefndu lífeyrissjóðum og í fleiri sjóðum. Iðgjöld voru greidd af launum stefnanda til Lífeyrissjóðs Vestfirðinga á árabilinu 1975 til 1987, síðast fyrir október 1987, til Lífeyrissjóðs Austurlands árin 1991 til 1995, síðast fyrir ágúst 1995 og til Lífeyrissjóðs sjómanna á árabilinu 1969 til 1995, síðast fyrir september 1995. Á grundvelli iðgjaldagreiðslna átti stefnandi sjálfstæðan örorkulífeyrisrétt hjá hinum stefndu sjóðum. Stefnandi flutti til Danmerkur haustið 1995 og hóf þar störf og voru iðgjöld greidd af launum hans í Danmörku til þarlendra lífeyrissjóða frá 15. október 1995. Stefnandi mun hafa slasast við vinnu um borð í dönsku skipi 26. september 1996, en engra samtímagagna nýtur við í málinu um slysið. Stefnandi sótti um örorkulífeyri til Lífeyrissjóðs sjómanna 14. maí 1997. Framsendi lífeyrissjóðurinn Sambandi almennra lífeyrissjóða gögn málsins með bréfi, dagsettu 1. júlí 1997, og upplýsti, að stefnandi hefði verið metinn 100% öryrki frá 1. október 1996 og að hann ætti sjálfstæðan rétt hjá Lífeyrissjóði Austurlands og Lífeyrissjóði Vestfirðinga. Með mati Tryggingastofnunar ríkisins 15. júlí 1997 fyrir Lífeyrissjóð Austurlands var örorka stefnanda metin 100% frá 1. október 1996 til 30. september 1997. Með endurmati 15. ágúst 1997 var örorka metin 100% til sjómannsstarfa og erfiðari starfa, en 65% til almennra starfa tímabilið frá 1. september 1997 til 30. september 1999. Frá 1. október 1999 hefur örorka stefnanda verið metin 65% til almennra starfa í samræmi við ákvæði samþykkta stefndu, samanber endurmöt dagsett 30. júlí 1999 og 31. júlí 2000. Rétt er að taka fram, að fyrstu þrjú árin eftir orkutap ber að miða mat orkutapsins við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna því starfi, sem hann hefur gegnt, en eftir það við vanhæfni til að gegna almennum störfum. Stefnandi hefur notið örorkulífeyris hjá hinum stefndu sjóðum í samræmi við stigaeign sína og mat á orkutapi allt frá 1. október 1996. Að mati stefndu hefur stefnandi hins vegar ekki átt rétt á, að örorkulífeyrir hans væri jafnframt ákvarðaður út frá framreiknuðum stigafjölda, það er stigafjölda sem hann hefði getað áunnið sér frá slysdegi til 67 ára aldurs, þar sem hann hafi ekki uppfyllt það skilyrði samþykkta stefndu að hafa greitt iðgjöld til þeirra í að minnsta kosti 6 mánuði undanfarandi 12 mánuði fyrir slysdag. Snýst ágreiningur aðila einvörðungu um rétt til framreiknings, en ekki er deilt um mat á örorku stefnanda, stigainneign eða annað.

         Stefndu kröfðust frávísunar málsins, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 22. janúar síðastliðinn.

         Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dagsettu 4. mars síðastliðinn.

II.

         Stefnandi byggir á því, að frelsi til flutninga manna milli Evrópulanda sé tryggt í 28. gr. og V. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og vegna laganna um skyldutryggingu lífeyrissréttinda sé íslenska lífeyrissjóðakerfið hluti almannatrygginga, eins og það hugtak sé skilgreint í 29. gr. samnings um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. ákvæði viðauka VI. Beri því að leggja saman þau tímabil, sem stefnandi uppfyllir skyldur iðgjaldagreiðslna skyldutrygginga skv. lögum á Íslandi og í Danmörku. Sé þar af leiðandi óheimilt að skerða réttindi stefnanda, meðan hann uppfylli skilyrði um iðgjaldagreiðslur í Danmörku.

         Í III. hluta samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, 1. kafla, 28. gr. og 29. gr. og í V. viðauka og VI. viðauka við samninginn, sem séu til fyllingar 28. gr. og 29. gr. samningsins, komi skýrt fram, að óheimilt sé að skerða réttindi stefnanda, svo sem stefndu hafi gert. Í 2. tl. 28. gr. sé kveðið á um afnám allrar mismununar milli launþega í aðildarríkjum, sem lúti að atvinnu, launakjörum og öðrum starfs- og ráðningar­skilyrðum. Þá tryggi V. og VI. viðauki, að um tilvísanir til réttinda og skyldna aðildarríkja EB, opinberra stofnana þeirra, fyrirtækja eða einstaklinga hvers gagnvart öðrum, gildi bókunin um altæka aðlögun, nema kveðið sé á um annað í viðaukanum.

         Í a. lið 1. tl. 29. gr. EES-samningsins séu síðan tekin af öll tvímæli um tilætlun samningsins, þar sem segi, að með frelsi til flutninga skuli samningsaðilar á sviði almannatrygginga, í samræmi við VI. viðauka tryggja, að lögð verði saman öll tímabil, sem taka ber til greina skv. lögum hinna ýmsu landa til að öðlast og viðhalda bótarétti, svo og að reikna fjárhæð bóta.

         Í VI. viðauka við EES-samninginn, lið O, segi svo: ,,Hafi launaðri vinnu eða sjálfstæðri atvinnu verið lokið á Íslandi, og tilvikið verður þegar launuð vinna eða sjálfstæð atvinnustarfsemi er stunduð í öðru ríki sem reglugerðin tekur til og þar sem örorkulífeyrir, bæði skv. almannatryggingakerfinu og viðbótarlífeyriskerfinu (lífeyrissjóðir), á Íslandi felur ekki lengur í sér tímabilið frá því að tilvikið kemur fram og fram að því að lífeyrisaldri er náð (tímabil sem ekki er liðið), skal tekið tillit til tryggingartímabila sem falla undir löggjöf annars ríkis sem reglugerðin tekur til að því er varðar kröfuna um tímabil sem ekki er liðið eins og um væri að ræða trygginga­tímabil á Íslandi.” Samkvæmt þessu verði að telja, að takmörkunarákvæði 15. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 129/1997 séu ekki gild að lögum að því er stefnanda varðar vegna ákvæða EES-samningsins.

         Stefnandi telur að auki, að ákvæði 15. gr. l. nr. 129/1997 og samþykkta lífeyris­sjóðanna um skerðingu á framreikningi áunninna stiga standist heldur ekki jafnræðisreglur og séu andstæð tilgangi lífeyrissjóða. Stefnandi hafi starfað áfram við sjómennsku eftir búferlaflutninga til Danmerkur, en þar sem hann hafi ekki mátt greiða iðgjald til lífeyrissjóðs á Íslandi, hafi hann tekið að greiða til lífeyrissjóðs í Danmörku. Við það tapi hann að mati íslenskra lífeyrissjóða rétti sínum til framreiknings örorkulífeyris. Þá telur stefnandi, að íslensku lífeyrissjóðirnir hafi sent frá sér villandi upplýsingar um bótarétt, sem stefnandi hafi byggt á, er hann flutti til Danmerkur, en lífeyrissjóðirnir hafi bersýnilega ekki tekið tillit til reglna EES- samningsins í samþykktum sínum, svo sem þeim sé skylt.

         Samkvæmt samningi ríkisstjórna Norðurlandanna nr. 29/1993 skuli lífeyrisréttindi vera bundin því landi, þar sem viðkomandi aðili ávinnur sér réttindin. Því hafi stefnandi ekki getað haldið áfram að greiða í íslenskan lífeyrissjóð eftir að hann flutti til Danmerkur. Vegna ákvæða íslenskra lífeyrissjóða um skerðingu framreiknings áunninna stiga, skerðist áunnin réttindi stefnanda á Íslandi verulega, þegar iðgjalda­greiðslur hans til íslenskra lífeyrissjóða falla niður við flutning milli landanna, en stefnandi hafi haldið áfram óslitið sömu atvinnu eftir flutninginn til Danmerkur.

         Þá er einnig á því byggt, að á grundvelli 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 sé ósanngjarnt í tilviki stefnanda, að stefndu beri fyrir sig það ákvæði samþykkta lífeyrissjóðanna að framreikna ekki áunnin stig við útreikning örorku­lífeyris stefnanda. Ákvæði samþykkta lífeyrissjóðanna um framreikning áunninna stiga séu sett til þess að tryggja réttindi sjóðfélaga sem best. Hefði stefndu borið skylda til að vekja rækilega athygli sjóðfélaga sinna á því, að flytji þeir milli landa, glati þeir áunnum réttindum sínum, a.m.k. að hluta, en það hafi ekki verið gert í tilviki stefnanda. Stefnandi hafði greitt til sjóðanna í hátt í 30 ár og áunnið sér rétt til framreiknings stiga, sem hann er síðan talinn hafa glatað við það eitt að flytjast til Danmerkur, því að eftir flutninginn hafi hann ekki fengið að greiða til íslensks lífeyrissjóðs af launum sínum í Danmörku. Samband almennra lífeyrissjóða hafi í október 1997 hafnað kröfu stefnanda til framreiknings áunninna stiga og með bréfi 12. apríl 1999 hafi Lífeyrissjóður sjómanna hafnað kröfu stefnanda um hið sama. Stefnandi búi því við þá mismunun að hafa tapað réttindum sínum til framreiknings áunninna stiga í lífeyrissjóðunum við það eitt að flytja lögheimili sitt til annars lands. Hljóti slík ákvæði um skerðingu réttinda í samþykktum lífeyrissjóðanna að teljast í hæsta máta ósanngjörn í skilningi 36. gr. samningalaganna.

         Um lagarök er vísað til ákvæða laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997, einkum l. gr. og 15. gr., ákvæða samnings um Evrópska efnahagssvæðið (EES), einkum 28. gr. og 29. gr. og viðauka nr. V. og VI., 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936.

         Stefndu, Lífeyrissjóður Austurlands og Lífeyrissjóður Vestfirðinga, byggja kröfur sínar á ótvíræðum ákvæðum samþykkta sinna um skilyrði fyrir framreikningi örorkulífeyris. Stefnandi hafi ekki greitt iðgjöld til hinna stefndu lífeyrissjóða í að minnsta kosti 6 mánuði á undanfarandi 12 mánuðum fyrir slysdag. Hafi síðasta greiðsla iðgjalda af launum stefnanda borist meðstefnda, Lífeyrissjóði sjómanna, fyrir september 1995, en hann hafi orðið fyrir slysi 29. september 1996. Þetta skilyrði fyrir framreikningi gildi fyrir alla sjóðfélaga, burtséð frá því hvar þeir eru búsettir. Fæli það í sér brot á jafnræðisreglum, ef stefnandi ætti að njóta betri réttar með því að flytjast búferlum til Danmerkur, en sjóðfélagar búsettir á Íslandi. Þá sé til þess að líta, að íslenskir lífeyrissjóðir hafi gert með sér samstarfssamninga, en slíkir samningar hafi ekki verið gerðir við erlenda lífeyrissjóði. Á því sé jafnframt byggt, hvað Lífeyrissjóð Vestfirðinga varðar, að stefnandi uppfylli ekki skilyrði a. liðar gr. 12.1 þágildandi samþykkta frá árinu 1995 þess efnis að hafa greitt iðgjöld til sjóðsins a.m.k. þrjú af undanfarandi fjórum almanaks­árum fyrir orkutap og áunnið sér eigi minna en 0.4 stig hvert þessara þriggja ára. Í samræmi við þetta ákvæði og þágildandi samskiptareglur lífeyrissjóða hefði stefnandi aðeins átt sjálfstæðan rétt til framreiknings gagnvart Lífeyrissjóði Austurlands og Lífeyrissjóði Vestfiðringa að því tilskildu, að hann hefði fullnægt fyrrnefndu skilyrði um iðgjaldagreiðslur a.m.k 6 mánuði af undanfarandi 12 mánuðum fyrir orkutap, en sú hafi ekki verið raunin.

         Vísað sé til þess, að hinir stefndu lífeyrissjóðir séu stofnaðir á grundvelli frjálsra samninga samtaka launamanna og atvinnurekenda. Lög og reglur um Evrópska efnahagssvæðið taki til opinberra reglna, löggjafar um atvinnumál, almannatrygginga og fleira, en ekki frjálsra samninga samtaka vinnumarkaðarins, sbr. einnig III. hluta I. kafla laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Reglum um frjálsa fólksflutninga og launafólk og sjálfstætt starfandi einstaklinga sé ætlað að tryggja afnám allrar mismununar milli launþega í aðildarríkjum EB og EFTA ríkjum. Í tilviki stefnanda snúi þessar reglur að löggjöf og stjórnvöldum í því landi, sem hann flutti til, það er Danmörku. Geti stefnandi á grundvelli þessara reglna, hafi honum á annað borð verið mismunað, sem sé vefengt og mótmælt, sótt rétt á hendur dönskum stjórnvöldum og hugsanlega dönskum lífeyrissjóðum, en geti ekki borið þessar reglur fyrir sig á Íslandi. Stefnanda hafi auk þess ekki verið mismunað á Íslandi. Sitji hann þar við sama borð og aðrir sjóðfélagar hinna stefndu lífeyrissjóða, sem ekki uppfylla nefnt skilyrði um iðgjaldagreiðslur. Stefnandi njóti örorkulífeyris á Íslandi í samræmi við samþykktir stefndu og lög. Upplýst sé, að stefnandi hafi greitt í danska lífeyrissjóði að minnsta kosti 6 mánuði af 12 fyrir slysdag og ætti því að sækja rétt sinn gagnvart þeim, en ekki hinum stefndu sjóðum.

         Því sé eindregið mótmælt, að ákvæði 28. gr., 29. gr. og 30. gr. laga nr. 2/1993 veiti stefnanda þau réttindi, sem hann krefur um í stefnu, sbr. einnig orðalag og tilgang lagagreinanna, meðal annars c. liðar 3. mgr. 28. gr. Ákvæði tilvitnaðra lagagreina fjalli um frelsi til flutninga launamanna og hugsanlega mismunun og komi skýrt fram, að tilgangur samningsaðila sé að tryggja stöðu launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á sviði almannatrygginga. Falli lífeyrissjóðir og lífeyrisgreiðslur frá þeim utan þess sviðs. Færi stefnandi ekki rök að því í stefnu, hvernig tilvitnuð  lagarök gagnist málstað hans.

         Umsókn stefnanda um örorkulífeyri hafi veið afgreidd í samræmi við þágildandi ákvæði samþykkta stefndu og í samræmi við ákvæði laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrissjóða og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. 2. mgr. 15. gr. sem sé svohljóðandi:

         „Örorkulífeyrir skal framreiknaður samkvæmt reglum sem nánar er kveðið á um í samþykktum, enda hafi sjóðfélagi greitt til lífeyrissjóðs í a.m.k. þrjú ár á undanfarandi fjórum árum, þar af a.m.k. sex mánuði á síðasta tólf mánaða tímabili, og ekki orðið fyrir orkutapi sem rekja má til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna.”

         Byggt sé á því, að þetta lagaákvæði sé gild lagaheimild og í fullu samræmi við ákvæði laga og samnings um Evrópska efnahagssvæðið og viðauka, sbr. einnig ákvæði 3. mgr. 15. gr. Kröfugerð stefnanda gangi þvert á fyrirmæli 2. mgr. 15. gr. og sambærileg skilyrði í samþykktum stefndu. Hafi stefnandi ekki fært fram sönnur fyrir því, að ákvæðið, sem feli í sér yngri rétt, sé ekki í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins.

         Stefnandi vísi í stefnu til VI. viðauka við EES samninginn, lið O. Þessi tilvísun sé órökstudd og nefndur stafliður, viðbót O, bæði óskiljanlegur almennt séð og í því samhengi, sem stefnandi setji hann fram. Hér sé um að ræða viðbót eða bókun við rg. EBE/1408171, sbr. rg. EBE/574/72 um framkvæmd á rg. EBE/1408/71. Þessar reglur fjalli um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og fjölskyldum þeirra, sem flytja milli aðildarríkja. Nefndar reglugerðir EBE hafi verið birtar í B-deild stjórnartíðinda með rg. 587/2000, hefti 85 til 86 og ekki verið gildar réttarheimildir að íslenskum rétti, þegar stefndu tóku ákvarðanir um örorku­­lífeyrisrétt stefnanda. Sé því mótmælt, að nefndar reglugerðir og viðbót Íslands merkt nr. O taki til tilviks stefnanda eða sé til þess fallin að hnekkja ákvæðum laga nr. 129/1997. Viðbótin virðist auk þess lúta að tímabili frá því að stefnandi varð fyrir slysi í Danmörku hinn 29. september 1996 og til þess tíma, er stefnandi nær lífeyrisaldri. Varði viðbótin framtíðarbúsetu, en ekki búsetu og lífeyrisiðgjalda­greiðslur stefnanda á Íslandi fram til september 1995. Fjalli viðbótin, eins og tilvitnaðar EB reglur, um réttindi og skyldur stefnanda gagnvart dönskum aðilum að dönskum lögum. Hafi stefnandi ekki fært fram sönnur fyrir því, að viðbótin eigi við í málinu.

         Því er mótmælt sem röngu og ósönnuðu, að stefnandi hafi fengið villandi upplýsingar um bótarétt sinn frá stefndu. Þær upplýsingar, sem stefnandi vísi til, séu  sendar sjóðfélögum með iðgjaldayfirlitum í þeim tilgangi, að þeir gæti að því, að iðgjöld skili sér til viðkomandi sjóða og að réttindi glatist ekki við vanskil. Í nefndum upplýsingum sé fjallað um örfá atriði tengd innheimtu og vanskilum og geti stefnandi  ekki öðlast betri rétt en samkvæmt samþykktum, þó svo að tiltekinna skilyrða framreiknings sé ekki getið í þeim. Sé tekið fram í tilvitnuðum upplýsingum, að sjóðfélagi fái, auk áunninna réttinda, framreiknuð stig eins og hann hefði greitt óslitið áfram. Samkvæmt hefðbundnum og eðlilegum málskilningi sé höfðað til þess, að greiðslur hafi verið óslitnar fram til þess tíma, er réttur til örorkulífeyris hafi orðið virkur.

         Stefndu mótmæla því, að lífeyrisréttindi stefnanda hafi verið skert. Stefnandi fái örorkulífeyri í samræmi við stigaeign sína, en nái ekki viðbótargreiðslum, þar sem hann uppfylli ekki skilyrði framreiknings. Stefnandi hafi starfað í Danmörku, er hann varð fyrir slysi, og átti aðild að lífeyrissjóðum, sem hann verði að sækja rétt til.

         Loks sé því mótmælt, að 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 eigi við í tilviki stefnanda. Fráleitt sé, að mati stefndu, að víkja til hliðar í heild eða hluta ákvæðum laga nr. 129/1997 og samþykktum stefndu á grundvelli greinarinnar. Hvorki lögin né samþykktir stefndu séu ósanngjarnar eða andstæðar góðri viðskiptavenju og ekki sé um löggerninga að ræða í skilningi samningalaga. Stefnandi hafi auk þess vitað eða mátt vita um skilyrði fyrir framreikningi örorkulífeyris.

         Um lagarök vísa stefndu til ákvæða samþykkta sinna um örorkulífeyri, 15. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, einkum 28. gr. og 29. gr., laga nr. 47/1993 um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, einkum I. og II. bálks I. hluta, reglugerðar nr. 587/2000, auglýsingar nr. 29/1993 um Norðurlandasamning um almannatryggingar og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

         Stefndi, Lífeyrissjóður sjómanna, byggir sýknukröfu sína á sömu sjónarmiðum og meðstefndu. Tekur stefndi sérstaklega fram, að reglur Evrópska efnahagssvæðisins gangi ekki að neinu leyti framar þeim reglum, sem lífeyrissjóðir hér á landi setji sér eða séu þeim settar af íslenskum stjórnvöldum. Þá telji stefndi fráleitt að bera fyrir sig 36. gr. samningalaga í máli þessu. Lífeyrissjóðir eins og stefndi, sem séu sameignarsjóðir, bundnir af lagareglum um starfsemi þeirra, eins og t.d. lögum nr. 129/1997, verði að haga réttindum sjóðfélaga sinna í samræmi við eignir sínar, eins og þær séu reiknaðar út af tryggingafræðingum. Geti dómstólar því ekki vikið til hliðar reglum þeirra um réttindi sjóðfélaga, sem settar séu á grundvelli þessara útreikninga á eignum og framtíðar skuldbindingum.

III.

         Svo sem áður greinir starfaði stefnandi við sjómennsku á Íslandi á tímabilinu frá árinu 1969 til ársins 1995 og var sjóðfélagi í hinum stefndu lífeyrissjóðum. Voru iðgjöld greidd af launum stefnanda til stefnda, Lífeyrissjóðs Vestfirðinga, á árunum 1975 til 1987, síðast í október 1987. Til stefnda, Lífeyrissjóðs Austurlands, voru iðgjöld greidd árin 1991 til 1995, síðast í ágúst 1995, og til stefnda, Lífeyrissjóðs sjómanna, á árunum 1969 til 1995, síðast í nóvember 1995. Samkvæmt því átti  stefnandi sjálfstæðan örorkulífeyrisrétt hjá hinum stefndu sjóðum á grundvelli  iðgjaldagreiðslna. Stefnandi flutti til Danmerkur haustið 1995 og vann sjómannsstörf og voru iðgjöld greidd af launum hans í Danmörku til þarlendra lífeyrissjóða frá 15. október 1995.

         Ágreiningslaust er með aðilum, að stefnandi hafi slasast við vinnu um borð í dönsku skipi 26. september 1996. Vegna afleiðinga slyssins var stefnandi metinn  100% öryrki frá 1. október 1996 og  með endurmati 15. ágúst 1997 var örorkan metin 100% til sjómannsstarfa og erfiðari starfa, en 65% til almennra starfa tímabilið frá 1. september 1997 til 30. september 1999. Frá 1. október 1999 hefur örorka stefnanda verið metin 65% til almennra starfa í samræmi við ákvæði samþykkta stefndu samkvæmt endurmötum frá 30. júlí 1999 og 31. júlí 2000.

         Samkvæmt gr. 12.1. reglugerðar fyrir stefnda, Lífeyrissjóð Austurlands, á sjóðfélagi, sem verður fyrir orkutapi, sem telja verður að nemi 40% eða meira, rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum, hafi hann a) greitt iðgjöld að lágmarki þrjú ár af undanförnum fjórum almanaksárum og áunnið sér eigi minna en 0,4 stig hvert þessara þriggja ára, b) greitt iðgjöld til sjóðsins að minnsta kosti 6 mánuði undanfarna 12 mánuði og c) orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir aldrei vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi, sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar. Sambærileg ákvæði er að finna í reglugerð fyrir stefnda, Lífeyrissjóð Vestfirðinga. Samkvæmt gr. 12.3. í reglugerðunum miðast hámark örorkulífeyris við áunnin lífeyrisrétt, að viðbættum lífeyri, er svarar til þess stigafjölda, sem sjóðfélaginn hefði áunnið sér fram til 67 ára aldurs, að uppfylltum ofangreindum skilyrðum. Í reglugerð fyrir stefnda, Lífeyrissjóð sjómanna, segir í gr. 11.1., að sjóðfélagi, sem verður fyrir 40% orkutapi eða meira, eigi rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum, enda hafi hann a) greitt iðgjöld til sjóðsins að minnsta kosti þrjú af undanförnum fjórum almanaksárum og áunnið sér eigi minna en 1 stig hvert þessara þriggja ára, b) greitt iðgjöld til sjóðsins í að minnsta kosti 6 mánuði og að lágmarki 100 daga á undanfarandi 12 mánuðum og c) orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Þá kemur fram í gr. 4.5. í ,,Samkomulagi um samskipti lífeyrissjóða”, sem í gildi var á slysdegi, að ef um sjálfstæðan framreikningsrétt er að ræða og 6 mánaða reglan er uppfyllt, skal einungis sá sjóður framreikna, sem síðast var greitt til, en það var Lífeyrissjóður sjómananna, svo sem að framan greinir.

         Í lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem gildi tóku 1. júlí 1998, segir í 1. mgr. 15. gr., að sjóðfélagi eigi rétt á örorkulífeyri, ef hann verður fyrir orkutapi, sem metið er 50% eða meira, hafi hann greitt í lífeyrissjóð í að minnsta kosti tvö ár og orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Í 2. mgr. segir, að örorkulífeyrir skuli framreiknaður samkvæmt reglum, sem nánar er kveðið á um í samþykktum, enda hafi sjóðfélagi greitt til lífeyrissjóðs í að minnsta kosti þrjú ár á undanförnum fjórum árum, þar af í að minnsta kosti sex mánuði á síðasta tólf mánaða tímabili. Þá segir í 3. mgr., að hafi sjóðfélagi öðlast rétt til framreiknings, sem fallið hefur niður vegna tímabundinnar fjarveru af vinnumarkaði, meðal annars vegna vinnu erlendis, skal framreikningur stofnast á nýjan leik eigi síðar en sex mánuðum frá því að hann hefur aftur störf og greiðslu til lífeyrissjóðsins. Að lokum kemur fram í 4. mgr., að eigi sjóðfélagi ekki rétt á framreikningi, skal fjárhæð örorkulífeyris miðast við áunnin réttindi. Samkvæmt því, sem rakið hefur verið, eru ákvæði reglugerða lífeyrissjóðanna, er í gildi voru á slysdegi, í öllum meginatriðum samræmi við núgildandi lagareglur um framreikning áunninna lífeyrisréttinda sjóðfélaga, sem verða fyrir miklu varanlegu orkutapi.

         Af framansögðu er ljóst, að stefnandi uppfyllti ekki á slysdegi skilyrði reglugerða hinna stefndu lífeyrissjóða um greiðslu í þá síðustu 6 mánuði fyrir slysdag. Þá liggur og fyrir, að stefnandi uppfyllti heldur ekki skilyrði stefnda, Lífeyrissjóðs Vestfirðinga, um greiðslur í sjóðinn undanfarandi þrjú af fjórum almanaksárum fyrir orkutap.

         Samkvæmt 1. tl. 28. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem lögfestur var með lögum nr. 2/1993, skal frelsi launþega til flutninga vera tryggt í aðildarríkjum EB og EFTA-ríkjum og samkvæmt 2. tl. greinarinnar felur umrætt frelsi í sér afnám allrar mismununar milli launþega í viðkomandi aðildarríkjum, sem byggð er á ríkisfangi og lýtur að atvinnu, launakjörum og öðrum starfs- og ráðningarskilyrðum. Þá segir í 3. tl., að með þeim takmörkunum, sem réttlætast af allsherjarreglu, almannaöryggi og almannaheilbrigði, feli það meðal annars í sér rétt til þess að dveljast á yfirráðasvæði aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis eftir að hafa starfað þar. Samkvæmt 29. gr. samningsins skulu samningsaðilar á sviði almannatrygginga, í samræmi við VI. viðauka, einkum tryggja launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum og þeim, sem þeir framfæra, að a) lögð verði saman öll tímabil, sem taka ber til greina samkvæmt lögum hinna ýmsu landa til að öðlast og viðhalda bótarétti, svo og reikna fjárhæð bóta og b) bætur séu greiddar fólki, sem er búsett á yfirráðasvæðum samningsaðila. Þá segir í 30. gr., að til að auðvelda launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum að hefja og stunda starfsemi, skuli samningsaðilar, í samræmi við VII. viðauka, gera nauðsynlegar ráðstafanir varðandi gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi, svo og samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum samningsaðila varðandi rétt launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga til að hefja og stunda starfsemi.

         Hinir stefndu lífeyrissjóðir eru stofnaðir á grundvelli frjálsra samninga samtaka launamanna og atvinnurekenda. Er því ekki unnt að fallast á með stefnanda, að þeir séu hluti almannatrygginga á Íslandi. Þar sem telja verður, að lög og reglur um Evrópska efnahagssvæðið taki að þessu leyti eingöngu til almannatrygginga, þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á, að þau ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem hann vísar til, máli sínu til stuðnings, þar á meðal bókun O, eigi við í máli þessu. Hið sama á við um tilvísun til laga nr. 47/1993 um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins og auglýsingar nr. 29/1993 um Norðurlandasamning um almannatryggingar. Þá þykja gögn, sem stefnandi hefur lagt fyrir dóminn um tekjur hans árið 2000 í Danmörku, fremur benda til þess, að hann njóti í raun betri tekna þar í landi, en verið hefði hérlendis með framreikningi örorkubóta úr hinum stefndu lífeyrissjóðum. Þykir  stefnandi þar af leiðandi ekki sýnt fram á, að réttur hans hafi að þessu leyti í raun skerst við flutninginn til Danmerkur. Að auki skal tekið fram, að ofangreind ákvæði eiga við um rétt manna í því ríki, sem þeir dveljast í, en svo sem áður greinir er stefnandi búsettur í Danmörku.

         Umrædd skilyrði fyrir framreikningi gilda fyrir alla sjóðfélaga hinna stefndu lífeyrissjóða, óháð búsetu þeirra. Verður því ekki fallist á með stefnanda, að 15. gr. nefndra laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrissjóða og fyrrgreindar samþykktir stefndu standist ekki jafnræðisreglur og séu andstæð tilgangi lífeyrissjóða. Þá eru að mati dómsins engin efni til að víkja ákvæðum laga nr. 129/1997 eða samþykkta lífeyrissjóðanna til hliðar á grundvelli 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, sbr. 6. gr. laga nr. 1171986 og 1. gr. laga nr. 14/1995.

         Stefnandi heldur því fram, að hann hafi fengið villandi upplýsingar um bótarétt sinn frá stefndu. Vísar hann í því sambandi til yfirlits frá Reiknistofu lífeyrissjóða, en  á bakhlið þess komi fram, að þegar um örorku- eða makalífeyri sé að að ræða, fái sjóðfélaginn, auk áunninna stiga, framreiknuð stig, eins og hann hefði greitt óslitið áfram til sjóðsins. Þeir, sem verði öryrkjar ungir, fái þannig miklu meira greitt frá lífeyrissjóðnum en greitt hafi verið vegna þeirra til sjóðsins. Enda þótt fallast megi á með stefnanda, að þetta orðalag sé til misskilnings fallið, þykir það eitt og sér engan veginn geta leitt til betri réttar, stefnanda til handa, til framreiknings örorkubóta en reglugerðir viðkomandi lífeyrissjóða til framreiknings örorkubóta segja til um.

         Með vísan til framanskráðs ber að sýkna stefndu af kröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum þykir mega ákveða, að málskostnaður falli niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, útlagður kostnaður að fjárhæð 69.460 krónur og laun lögmanns hans, Bjarna G. Björgvinssonar hdl., sem eru hæfilega ákveðin 400.000 krónur, samtals 469.460 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

         Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

         Stefndu, Lífeyrissjóður Austurlands, Lífeyrissjóður sjómanna og Lífeyrissjóður Vestfirðinga, eru sýknir af kröfum stefnanda, Jóns Gunnars Þorkelssonar, í máli þessu.

         Málskostnaður fellur niður.

         Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, 469.460 krónur, þar með talin laun lögmanns hans, Bjarna G. Björgvinssonar hdl., 400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.