Hæstiréttur íslands
Mál nr. 113/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Afhending gagna
- Skjal
- Réttlát málsmeðferð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Davíð Þór Björgvinsson og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 15. febrúar 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2017 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um afhendingu geisladiska með mynd- og hljóðupptökum. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess að sóknaraðila verði gert skylt að afhenda sér nánar tilgreinda mynd- og hljóðdiska með skýrslutökum af ákærðu og vitnum. Þá krefjast varnaraðilarnir Æ og S kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur ítrekað verið komist að þeirri niðurstöðu að hljóð- eða mynddiskar, sem hafa að geyma skýrslu lögreglu af sakborningum og vitnum, teljist ekki til skjala í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008, sbr. dóma réttarins 12. apríl 2012 í máli nr. 205/2012 og 6. september 2012 í máli nr. 584/2012, auk annarra dóma sem þar er vísað til. Af þeim sökum var synjað um afhendingu þeirra á rannsóknarstigi máls. Þá leiðir af dómi Hæstaréttar 1. nóvember 2010 í máli nr. 614/2010, þar sem fjallað var um synjun lögreglu á afhendingu gagna samkvæmt 3. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008, að sama gildir um aðgang verjenda sakaðra manna að slíkum upptökum eftir að mál hefur verið höfðað.
Af 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 og fyrri málslið 18. gr. reglugerðar nr. 651/2009 um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl. leiðir að verjandi og sakborningur eiga rétt á að hlýða eða horfa á geisladiska sem eru meðal gagna málsins. Eðli máls samkvæmt á þetta bæði við fyrir og eftir málshöfðun. Þá er komið fram að skýrslur af ákærðu og vitnum hafa annað hvort verið skráðar sem samantekt, byggð á upptökunni, eða ritaðar upp því sem næst orðrétt, sbr. a. og c. lið 12. gr. reglugerðarinnar, og hafa þessi gögn verið lögð fram í málinu og afhent verjendum. Þessi tilhögun málsmeðferðarinnar fer ekki í bága við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar eða 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2017.
Málið er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 21. október 2016, á hendur ofangreindum aðilum einkum fyrir fíkniefnalagabrot.
Við fyrirtöku málsins 7. þ.m. gerði Guðmundur St. Ragnarsson héraðsdómslögmaður, verjandi Þ, kröfu um að fá afhenta geisladiska með mynd- og hljóðupptökum er varða ákærðu og vitni í ákæruliðum II og III. Verjendur annarra ákærðu tóku undir kröfugerðina og gerðu kröfu til þess að fá afhent sams konar gögn er varða þeirra skjólstæðinga. Endaleg kröfugerð er sú að verjendur hvers og eins hinna ákærðu fái afhenta geisladiska með mynd- og hljóðupptökum af ákærðu og vitnum að því er varðar sakarefni á hendur viðkomandi. Til stuðnings kröfugerðinni vísa verjendur til 1. mgr. 37.gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, meginreglunnar um réttláta málsmeðferð og jafnræði málsaðila og er í því sambandi vísað til 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannrétttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Vísað er til þess að geisladiskar í málinu væru 77 talsins, aðallega hljóð- og myndupptökudiskar af ákærðu og vitnum. Það geti, er svona standi á, ekki talist réttlát málsmeðferð í skilningi 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannrétttindasáttmála Evrópu að gera verjendum að flytja starfstöð sína dögum saman á lögreglustöð til að kynna sér þessi gögn málsins. Við þá framkvæmd væri ekki gætt jafnræðis að mati verjenda.
Sækjandinn hafnaði kröfu verjanda um að afhenda umbeðin gögn og vísaði til dómaframkvæmdar um sambærileg álitaefni.
Niðurstaða
Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur því verið hafnað að afhenda verjendum hljóð- og mynddiska eins og krafist er. Kjósi verjendur að kynna sér þessi gögn hafa þeir þurft að gera það hjá ákæruvaldinu. Nú má heita regla að skýrslur af sakborningum og vitnum hjá lögreglu séu teknar upp á geisladiska. Í máli þessu hafa skýrslutökurnar verið endurritaðar að hluta og í sumum tilvikum hefur verið gerður útdráttur af skýrslum. Þá liggur fyrir að hluti símhlustana hefur verið endurritaður en ekki liggur fyrir hvað vantar mikið þar upp á. Geisladiskar í máli þessu eru 77 talsins. Augljóst óhagræði er fyrir verjendur að þurfa að sæta því að kynna sér þessi gögn á skrifstofutíma hjá lögreglu. Þá tekur dómurinn undir þau sjónarmið verjanda að það að fá diskana ekki til skoðunar eins og skjöl málsins eftir að ákæra hefur verið gefin út á hendur ákærðu stappi nærri því að geta talist fara í bága við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð. Með nýrri tækni og vinnulagi lögreglu undanfarin ár má heita að hryggjarstykkið í sakamálum séu gögn á mynd- og hljóðdiskum. Það er reyndin í máli þessu þar sem fyrir liggja 77 slíkir diskar, m.a. skýrslur af sakborningum og vitnum. Aðgengi verjanda að þessum gögnum miðað við núverandi réttarframkvæmd er að mati flestra óviðunandi og hefur iðulega verið brugðist við því í framkvæmd með því að afhenda verjendum diska í málum, öðrum en kynferðisbrotamálum. Er þessa m.a. getið í greinargerð sóknaraðila en dómara málsins eru kunn önnur sambærileg tilvik. Samkvæmt þessu væri að mati dómsins réttast að verða við kröfu verjanda með breyttri skýringu á efni 1. mgr. 37. gr. sakamálalaga og þá til samræmis við þá breytingu sem orðin er á samsetningu gagna sem lögð eru fram í sakamálum þar sem mynd- og hljóðdiskar eru hryggjarstykki í þeim gögnum sem mestu varða eins og rakið var. Hins vegar verður ekki litið fram hjá dómaframkvæmd Hæstaréttar í sambærilegum málum og leiðir hún til þess að hafna ber kröfu verjendanna í málinu. Málskostnaður vegna þessa hluta málsins bíður efnisdóms.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kröfum verjanda í málinu um að fá afhenta geisladiska með mynd- og hljóðupptökum er hafnað.