Hæstiréttur íslands
Mál nr. 263/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. D. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
- Geðrannsókn
|
|
Fimmtudaginn 12. júlí 2001. |
|
Nr. 263/2001. |
Lögreglustjórinn í Hafnarfirði(enginn) gegn X (Guðmundur Ó. Björgvinsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. Geðrannsókn. d-liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X játaði að hafa ráðist á móður sína með skærum og veitt henni áverka á hálsi. L krafðist gæsluvarðhalds yfir X og að honum yrði gert að sæta sérfræðirannsókn á andlegum og líkamlegum þroska og heilbrigðisástandi. Héraðsdómur féllst á kröfu L um geðrannsókn og úrskurðaði X í gæsluvarðhald með vísan til d-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdómara með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júlí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. júlí 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til kl. 16.00 föstudaginn 27. júlí 2001 og sæta jafnframt geðrannsókn. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara er þess krafist að varnaraðili verði aðeins látinn sæta gæsluvarðhaldi fram að þeim tíma sem geðrannsókn liggur fyrir og eigi lengur en til föstudagsins 13. júlí 2001. Til þrautavara er þess krafist að varnaraðili verði aðeins látinn sæta gæsluvarðhaldi fram að þeim tíma sem geðrannsókn liggur fyrir en ella verði gæsluvarðhaldinu markaður mun skemmri tími.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Hinn kærði úrskurður er staðfestur með vísan til forsendna hans.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. júlí 2001.
Í máli þessu, sem tekið var til úrskurðar 5. þessa mánaðar, hefur lögreglustjórinn í Hafnarfirði krafist þess, að X, kt. [ ], til lögheimilis að [ ], verði með dómsúrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi til fimmtudagsins 16. ágúst 2001, kl. 16:00, og að honum verði gert að sæta sérfræðirannsókn á andlegum og líkamlegum þroska og heilbrigðisástandi.
Við fyrirtöku málsins í gær var gæsluvarðhaldskröfunni andmælt af hálfu kærða, en til vara gerð sú krafa að gæsluvarðhaldinu verði markaður styttri tími en krafist er. Af hálfu kærða var kröfunni um geðrannsókn ekki andmælt og lýsti kærði sig samþykkan slíkri rannsókn.
Samkvæmt játningu kærða, vitnaskýrslum og öðrum gögnumm málsins mun kærði hafa komið heim til sín miðvikudagskvöldið 4. júli s.l. Hann kom fyrst við í hjólageymslu þar sem hann reykti hasspípu. Þaðan fór hann upp í íbúðina og fór þar inn á baðherbergi þar sem hann tók sér í hendur skæri sem þar voru. Hann fór fram í eldhús íbúðarinnar, en þar var móðir hans, Y að mata 8 mánaða gamla dóttur sína. Kærði kom henni að óvörum, tók undir höku hennar og skar hana með skærunum á framanverðan hálsinn. Henni tókst að standa á fætur en kærði hélt utan um hana. Hún hrasaði á gólfið og reyndi kærði þá aftur að skera hana á hálsinn. Henni tókst að verjast atlögunni með því að grípa utan um skærin en við það skarst hún á hendi. Við það missti kærði skærin og náði móðir hans þeim á undan kærða. Í framhaldi af þessu var lögregla kvödd á staðinn og kærði handtekinn. Kærði hefur játað verknaðinn fyrir dómi en ekki getað gefið neina rökræna skýringu á verknaðinum.
Farið var með móður kærða á Slysa-og bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur í Fossvogi. Í læknisvottorði Einars Hjaltasonar læknis er ávekum móður kærða svo lýst, að hún sé með ca 10 cm skáskurð á hálsi, sem sé rétt í gegnum húð. Engar stærri blæðingar séu og allar sinar heilar. Þar kemur einnig fram að húnn sé með sár á vinstri hendi. Kemur fram í vottorðinu að hún hafi verið í dálítilli geðshræringu við komu en að öðru leyti eðlilega vakandi og áttuð.
Í gögnum málsins kemur fram að kærði hefur átt við fíkniefnavanda að etja. Þá kemur fram í framlögðu sakavottorði kærða að hann hefur áður hlotið dóma fyrir líkamsárásir og er einnig upplýst að hann hefur nýverið verið ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni með árásum á lögreglumenn. Þrátt fyrir nokkurn sakarferil og alvarleg brot verður kærði ekki talinn vanaafbrotamaður í skilningi c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Verður gæsluvarðhald ákærða því eigi byggt á því ákvæði. Á hinn bóginn má ljóst vera að nánustu ættingjar kærða óttast nú eftir verknað hans að hann muni aftur ráðast til atlögu verði hann látinn laus. Með vísan til þessa svo og til upplýsinga sem hafðar eru eftir Magnúsi Skúlasyni geðlækni um að kærði sé á mörkum þess að vera sakhæfur í skilningi íslenskrar refsilöggjafar verður að telja vafa leika á sakhæfi kærða, sbr. 15. og 16. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kærði hefur samþykkt að sæta geðrannsókn og ber að fallast á þá kröfu rannsóknara að kærði sæti geðrannsókn samkvæmt d-lið 1. mgr.71. gr. laga nr. 19/1991.
Kærði er undir rökstuddum grun um brot er varðar við 218. gr. almennra hegningarlaga og getur varðað fangelsi allt að 16 árum.
Með hliðsjón af því, sem að framan er rakið svo og rannsóknargögnum málsins verður að telja hættu vera fyrir hendi á frekari líkamsárásum af hendi kærða. Þykir því nauðsyn bera til með vísan til d-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að kærði sæti gæsluvarðhaldi um tíma. Rétt þykir Þó að takmarka gæsluvarðhaldstímann við þann tíma sem ætla má að taki sérfræðing að framkvæma þá geðrannsókn sem kærði hefur samþykkt að gangast undir. Þykir því rétt að ákveða að kærði skuli sæta gæsluvarðhaldi, en þó eigi lengur en til föstudagsins 27. júlí nk. kl. 16:00.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 27. júlí nk. kl. 16:00. Kærði X sæti og geðrannsókn.