Hæstiréttur íslands

Mál nr. 170/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hjón
  • Fjárskipti
  • Lífeyrisréttindi


Föstudaginn 26

 

Föstudaginn 26. apríl 2002.

Nr. 170/2002.

Reynir Örn Ólafsson

(Atli Gíslason hrl.)

gegn

Sædísi Arndal Sigurðardóttur

(Helgi Jóhannesson hrl.)

 

Kærumál. Hjón. Fjárskipti. Lífeyrisréttindi.

S og R slitu samvistum í júlí 2001 og fóru fram opinber skipti til fjárslita milli þeirra. S krafðist hlutdeildar í lífeyrisréttindum R. Þau höfðu verið samvistum í um 18 ár, þar af tæp 15 ár í hjúskap, og hafði S verið heimavinnandi á samvistartímanum og sinnt heimilisstörfum og uppeldi barna þeirra. Hafði S því nánast engra tekna aflað á tímabilinu né lífeyrisréttinda sér til handa. R var hins vegar í öruggu starfi, með háar tekjur og veruleg lífeyrisréttindi. Talið var ósanngjarnt að halda lífeyrisréttindum R utan skipta og var S því dæmd hlutdeild í þeim. Við ákvörðun fjárhæðar var litið til hagræðis af eingreiðslu hennar og skattfrelsis auk aldurs S, sem var 44 ára, og þeirra kosta sem gera yrði ráði fyrir að henni myndu nýtast til öflunar eigin lífeyrisréttinda.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. mars 2002, þar sem fallist var á rétt varnaraðila til hlutdeildar í lífeyrisréttindum sóknaraðila hjá Eftirlaunasjóði FÍA (Félags íslenskra atvinnuflugmanna) með fjárgreiðslu samkvæmt 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 við opinber skipti til fjárslita milli þeirra. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. XIV. kafla laganna um opinber skipti til fjárslita milli hjóna o.fl. Sóknaraðili krefst aðallega sýknu af kröfum varnaraðila en til vara, að kröfur hennar verði lækkaðar verulega. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega, að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða sér 4.254.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. janúar 2002 til greiðsludags. Til vara er þess krafist, að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms er fallist á, að ósanngjarnt sé að halda lífeyrisréttindum sóknaraðila utan skipta. Þegar fjárgreiðsla til varnaraðila er ákveðin á grundvelli 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga verður auk þeirra atriða, sem héraðsdómur tilgreinir, að líta til aldurs varnaraðila og þeirra kosta, sem gera verður ráð fyrir, að henni muni nýtast til öflunar eigin lífeyrisréttinda. Við svo búið verður að telja, að lækkun héraðsdóms á kröfu varnaraðila sé réttmæt, og verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðili skal greiða varnaraðila kærumálskostnað, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Reynir Örn Ólafsson, greiði varnaraðila, Sædísi Arndal Sigurðardóttur, 75.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. mars 2002.

Málið var höfðað 8. janúar 2002 og tekið til úrskurðar 6. mars 2002.  Sóknar­aðili er Sædís Arn­dal Sigurðardóttir, kt. 030457-2349, Blómvangi 12, Hafnarfirði.  Varnaraðili er Reynir Örn Ólafsson, kt. 270352-2519, Hraunteigi 14, Reykjavík.

Ágreiningur í málinu lýtur að því hvort sóknaraðili eigi rétt til hlutdeildar í lífeyris­réttindum varnaraðila hjá Eftir­launasjóði FÍA (Félags íslenskra atvinnuflug­manna) í formi fjárgreiðslu samkvæmt 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 við opinber skipti til fjárslita milli máls­aðila.

Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða henni krónur 4.254.000 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá 8. janúar 2002 til greiðsludags.  Þá er krafist máls­kostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en sóknaraðili fékk gjafsóknarleyfi 6. mars 2002.

Varnaraðili krefst aðallega sýknu af kröfu sóknaraðila, en til vara að krafa hennar verði stórlega lækkuð.  Jafnframt er krafist málskostnaðar.

I.

Málsaðilar hófu sambúð í september 1983 og gengu í hjúskap 6. september 1986.  Þau eiga saman tvö börn, fædd 1985 og 1989.  Varnaraðili á einnig dóttur frá fyrra hjónabandi, fædda 1980 og sóknaraðili son, fæddan 1980, sem bjó hjá aðilum, en er nú fluttur til Danmerkur.  Á hjúskapartímanum var sóknaraðili heimavinnandi og annaðist börnin þrjú, en varnaraðili var flugmaður og síðar flugstjóri hjá Flug­leiðum hf.  Aðilar slitu samvistum í júlí 2001 og flutti varnaraðili þá út af heimili þeirra.  Tilraunir til að ná sáttum um eignaskiptingu og annað fyrirkomulag vegna hjóna­skilnaðar báru ekki árangur og fór því svo að kveðinn var upp ­úrskurður 13. nóvember 2001 um opinber skipti til fjárslita milli aðila (mál réttarins nr. D-18/2001).  Bjarni Lárusson héraðsdómslögmaður var sama dag skipaður skiptastjóri og er mál þetta rekið sem ágreiningsmál í tengslum við skiptin.

II.

Sóknaraðili byggir á því að það hafi þjónað bestu hagsmunum varnaraðila að hún væri heimavinnandi á meðan á samvistum þeirra stóð, en þannig hafi hann ávallt getað sinnt starfi sínu óhindrað, á hvaða tímum sólarhrings sem var, án tillits til veikinda barnanna og annarra atriða, sem sambúðarfólk og hjón þurfi að eiga náið sam­starf um þegar báðir aðilar vinni utan heimilis.  Varnaraðili hafi í starfi sínu aflað líf­eyris­réttinda í Eftirlaunasjóði FÍA, en eðli máls samkvæmt hafi sóknaraðili ekki áunnið sér nein slík réttindi á samvistatímanum.  Hún hafi til skamms tíma aðeins verið með gagnfræðapróf, en um áramót 2000/2001 hafi hún lokið námi á hönnunar­braut í Iðnskólanum í Reykjavík, sem þó veiti henni engin réttindi til starfa á því sviði án viðbótar­náms.  Atvinnumöguleikar hennar séu því takmarkaðir, en að auki hafi hún enga almenna starfsreynslu vegna 18 ára vinnu á sameiginlegu heimili málsaðila.  Af aug­ljósum ástæðum hafi tekjumunur milli aðila verið gríðarlegur og nefnir sóknaraðili sem dæmi að tekjur hennar á árinu 1999 hafi numið krónum 15.267, en tekjur varnar­aðila krónum 6.853.613 með ökutækjastyrk og dagpeningagreiðslum.  Á árinu 2000 hafi tekjur hennar verið krónur 28.856, en tekjur varnaraðila krónur 8.247.752.  Eftir samvistaslitin hafi sóknaraðili starfað sem forfallakennari (leiðbeinandi) í þremur skólum í Hafnarfirði, en sú vinna sé eðlilega stopul og ótrygg og fái hún aðeins greitt í samræmi við raunverulegt vinnuframlag, svo sem ráða megi af launaseðlum hennar fyrir mánuðina október 2001 til og með janúar 2002.  Heildarlaun fyrir vinnu hennar þessa mánuði hafi verið krónur 31.334 í október, krónur 137.038 í nóvember, krónur 190.730 í desember og krónur 104.975 í janúar.  Sóknaraðili kveður ljóst af framan­sögðu að lífsbarátta hennar sé og verði mun harðari en varnaraðila.  Hún búi nú í leigu­húsnæði og greiði mánaðarlega 75.000 krónur í húsaleigu.  Börn aðila búi hjá henni eftir samvistaslitin með tilheyrandi framfærslukostnaði.  Að mati sóknaraðila muni koma í hennar hlut 6-7.000.000 króna við fjárskiptin, sé miðað við helminga­skipti á eignum aðila.  Muni sú fjárhæð engan veginn nægja til að koma upp skuld­lausu íbúðarhúsnæði.  Því sé fyrirsjánlegt að hún þurfi að takast á hendur veru­legar fjár­­skuldbindingar til að koma þaki yfir höfuðið, en vegna aldurs, menntunar­ og skorts á starfsreynslu verði fjárhagsstaða hennar aldrei neitt í líkingu við stöðu varnar­aðila, auk þess sem hún eigi nú nánast enga lífeyrissjóðsinneign.  Tekjur varnaraðila séu á hinn bógin verulegar og því ljóst að hann sé á allan hátt mun betur í stakk búinn til að takast á við lífið eftir skilnað.  Að því gefnu að hann haldi óbreyttu starfsþreki til 65 ára aldurs sé honum hægur vandi að koma sér upp verulegum lífeyrissjóði og annarri eignamyndun.  Samkvæmt staðfestingu frá FÍA hafi áunnin stigaeign varnar­aðila verið 11,93 stig 1. janúar 2001, sem gæfi honum, miðað við stöðuna þann dag, mánaðarleg eftirlaun að fjárhæð krónur 141.297 eftir 65 ára aldur.  Haldi hann hins vegar áfram að greiða í lífeyrissjóðinn verði mánaðarlegur lífeyrir hans krónur 370.747, miðað við að greitt sé í sjóðinn af 575.468 króna mánaðarlaunum að jafnaði til 65 ára aldurs.

Sóknaraðili styður kröfugerð sína við útreikning Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings frá 29. nóvember 2001, en samkvæmt honum sé höfuðstólsverð­mæti inneignar varnaraðila í Eftirlaunasjóði FÍA krónur 8.508.000, miðað við 4,5% árs­vexti, en ekki sé óeðlilegt að miða við þá vexti, sbr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Fyrir liggi í málinu að framangreind inneign hafi öll orðið til eftir að máls­aðilar hófu sambúð og því beri að miða við þá fjárhæð við úrlausn málsins.  Verði hins vegar talið að aðeins beri að miða við lífeyrissjóðsinneign eftir stofnun hjú­skapar liggi fyrir að inneign um áramót 1986/1987 hafi verið 0,434 stig eða 3,64% af heildar­stiga­eign 1. janúar 2001.  Samkvæmt því myndi nefndur útreikningur lækka hlut­falls­lega þannig að höfuðstólsverðmæti inneignarinnar teldist vera krónur 8.198.308.

Með hliðsjón af framansögðu krefst sóknaraðili þess með vísan til 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 að henni verði ákvarðaðar krónur 4.254.000 vegna nefndrar lífeyris­sjóðs­inneignar.  Telur sóknar­aðili bersýnilega ósanngjarnt, í ljósi allra máls­atvika, að svo miklum verð­mætum sé haldið utan skipta aðila í milli og sé vand­séð í hvaða tilfellum téð lagagrein eigi við, ef ekki í tilviki sem þessu.

III.

Varnaraðili byggir aðalkröfu sína á því að sóknaraðila hafi verið í lófa lagið að fara út á vinnu­markaðinn og afla tekna og lífeyrisréttinda, hefði hún kosið að gera svo, eftir að börn þeirra tvö hafi byrjað í leikskóla og síðar komist á grunnskólaaldur.  Hún hafi fullt starfsþrek og iðnmenntun, sem gefi henni ágæta möguleika á atvinnu.  Þá hafi hún undanfarið unnið sem leiðbeinandi í hlutastarfi og fengið ágætar tekjur fyrir þá vinnu.  Ljóst sé að hún hafi alla möguleika á að auka við þær tekjur og sé líklegt að það muni gerast með auknu starfshlutfalli.  Hún muni því að öllum líkindum afla sér líf­eyris­réttinda í framtíðinni engu síður en varnaraðili.  Þegar til fjárskipta kemur milli máls­aðila muni eignum verða skipt samkvæmt helmingaskiptareglu hjú­skapar­laga og verði sóknaraðili þá jafnsett varnaraðila eftir skilnaðinn.

Varnaraðili bendir hér á að lífeyrisréttindi hans séu persónubundin og ætluð honum til framfærslu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.  Ekki sé um eiginlega eign að ræða heldur rétt til greiðslu.  Lífeyririnn sé ekki kræfur nema ákveðin atvik komi til, svo sem að sjóðþegi nái ákveðnum aldri, falli frá eða hverfi úr starfi vegna heilsu­brests.  Í 11. gr. samþykkta Eftirlaunasjóðs FÍA komi fram að sjóðþegi, sem náð hafi 65 ára aldri, eigi rétt á árlegum ellilífeyri úr sjóðnum, enda hafi hann látið af starfi.  Framangreind skilyrði fyrir útborgun úr sjóðnum séu ekki fyrir hendi í dag.  Falli sjóð­félagi frá áður en hann hefur töku lífeyris séu umræddir fjármunir glataðir, nema réttur hafi skapast til maka eða barnalífeyris.  Inneignin erfist ekki.

Í ljósi framanritaðs krefst varnaraðili þess að áunnum lífeyris­réttindum hans í Eftirlaunasjóði FÍA verði haldið utan við fjárskipti við skilnað hans og sóknaraðila samkvæmt meginreglu 2. töluliðar 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.  Í lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi líf­eyris­sjóða sé gert ráð fyrir að sjóðfélagi og maki hans geti gert með sér gagnkvæmt sam­komulag um skiptingu ellilífeyrisréttinda.  Slíkt samkomulag skuli ná til beggja aðila og fela í sér gagnkvæma og jafna skiptingu þeirra réttinda, sem makarnir hafa áunnið sér á hjúskapartíma.  Samkvæmt gr. 11.4. í samþykktum Eftirlaunasjóðs FÍA þurfi sam­komu­lag hjóna til skiptingar lífeyrisréttinda sjóðfélaga og sé sú regla í fullu sam­ræmi við reglur hjúskaparlaga.  Slíkt samkomulag sé ekki fyrir hendi milli aðila þessa máls og sé því ljóst að lífeyrisréttindi varnaraðila falli utan skipta samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 102. gr. nefndra laga.

Varnaraðili bendir á að við úrlausn málsins þurfi einnig að líta til þess hvernig gera megi ráð fyrir að aðilar verði settir þegar taka lífeyris hefst miðað við réttindi þeirra í lífeyrissjóðum og að teknu tilliti til réttar þeirra beggja til greiðslna frá almanna­tryggingum.  Varnaraðili sé fimmtugur og hafi áunnið sér réttindi í Eftir­launa­sjóði FÍA, sem gefi honum krónur 141.297 á mánuði þegar hann nær 65 ára aldri.  Vegna væntanlegra tekna frá sjóðnum muni hann aðeins fá ellilífeyri frá Trygginga­stofnun ríkisins, sem sé tekjutengdur og því verði um óverulega greiðslu að ræða.  Sóknaraðili sé aðeins 44 ára gömul og eigi réttindi í Lífeyrissjóði verslunar­manna.  Um sé að ræða 5,585 stig í sjóðnum, sem veiti henni rétt til lífeyris að fjár­hæð krónur 8.720 á mánuði.  Við upphaf ellilífeyrisaldurs (67 ára) muni hún njóta lög­bundins elli­líf­­eyris frá Tryggingastofnun ríkisins.  Búi sóknaraðili ein og ógift við það tíma­mark muni hún fá mánaðarlega krónur 19.990 í ellilífeyri, krónur 34.372 í tekju­­tryggingu, krónur 15.257 í tekjutryggingarauka og krónur 16.434 í heimilis­upp­bót.  Þannig muni hún samtals fá í mánuði hverjum krónur 86.053, auk 8.720 króna frá Líf­eyris­sjóði verslunarmanna eða samtals krónur 94.773.

Þá beri að hafa í huga að sóknaraðili eigi lengra eftir af starfsævi sinni en varnar­aðili.  Miklar heilsufarskröfur séu gerðar til atvinnuflugmanna og megi ekkert bera út af í þeim efnum.  Starfsvettvangur varnaraðila sé sérhæfður og sé ljóst að mögu­leikar hans til að afla tekna eru engu betri en sóknaraðila geti hann ekki starfað sem flugmaður. 

Þá sé enn fremur ljóst að við setningu hjúskaparlaga hafi verið haft í huga að réttindi hjóna séu oft ærið misjöfn og að í flestum tilvikum eigi konur minni réttindi en karlar í lífeyrissjóðum vegna barneigna og vinnu við barnauppeldi, auk þess sem það sé viðurkennd staðreynd að konur séu almennt tekjulægri en karlar.  Engu að síður hafi verið lögfest áður nefnd meginregla 2. töluliðar 1. mgr. 102. gr. laganna.

Þegar framangreind atriði séu virt kveðst varnaraðili því ekki geta fallist á að það sé ósanngjarnt í skilningi 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga að hann haldi réttindum sínum í Eftirlaunasjóði FÍA utan skipta.  Í athugasemdum er fylgt hafi frumvarpi til téðrar lagagreinar komi fram að í einstaka tilviki kunni að reynast ósanngjarnt að halda persónubundnum réttindum utan skipta.  Sérstakar aðstæður þurfi þá að vera fyrir hendi og beri að skýra undanþáguheimildina þröngt.

Til stuðnings varakröfu sinni byggir varnaraðili á því að nái hann þeim aldri að taka lífeyris geti hafist, þá verði um að ræða skattskyldar tekjur.  Mat á höfuð­stóls­verð­mæti lífeyrisréttinda hans taki ekki á sjónarmiðum er varða skattskyldu sóknar­aðila eða hvort hún sé til staðar.  Ef krafa sóknaraðila er ekki skattskyld, svo sem framlögð gögn bendi til, þurfi að taka tillit til þess hagræðis við útreikning höfuð­stóls­verð­mætis réttindanna. 

Varnaraðili mótmælir enn fremur útreikningi á höfuðstólsverðmæti inneignar hans hjá Eftirlaunasjóði FÍA, en matið byggi á forsendum, sem ókleift sé að sjá fyrir.  Ávöxtun geti verið neikvæð, svo sem víða hafi verið á árinu 2001.  Þá sé ekki unnt að taka mið af ávöxtun liðinna ára vegna breyttra aðstæðna á fjármálamarkaði, en varnar­aðili hafi enga tryggingu fyrir ávöxtun réttinda sinna í sjóðnum.

Þá telur varnaraðili að ekki sé lagagrundvöllur fyrir því að réttindi, sem hann hafi áunnið sér fyrir stofnun hjúskapar geti komið til skipta, enda hafi sóknaraðili engan þátt átt í myndun þeirra réttinda.

Verði krafa sóknaraðila tekin að einhverju leyti til greina krefst varnaraðili þess á móti að honum verði dæmd fjárkrafa, sem nemi helmingi af höfuðstólsverð­mæti inn­eignar sóknaraðila í Lífeyrissjóði verslunarmanna, þ.e. krónur 205.800.

IV.

Samkvæmt 54. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 verður eign maka hjúskapareign og skiptist til helminga milli maka við hjúskaparslit, sbr. 103. gr. laganna, nema sérstakar heimildir standi til annars.  Í 57. gr. laganna er fjallað um persónubundin réttindi og kveðið á um að reglur um hjúskapareignir eigi við um þau réttindi að svo miklu leyti, sem þær fara ekki í bág við sérreglur þær, sem um réttindin gilda, enda séu þau ekki séreign.  Um fjárskipti þessara réttinda segir í 1. mgr. 102. gr. laganna að maki geti krafist þess að tiltekin verðmæti komi ekki undir skiptin, þar með talin réttindi í opinberum lífeyrissjóðum eða einkalífeyrissjóðum, sbr. 2. töluliður 1. mgr.  Komi fram slík krafa frá öðrum makanum er þó heimilt að bæta hinum makanum það með fjárgreiðslum, sem eftir atvikum má inna af hendi með nánar greindum afborgunum, enda þyki það ósanngjarnt gagnvart þeim maka að lífeyris­réttindum sé haldið utan skipta, sbr. 2. mgr. 102. gr.

Lífeyrisréttindi eru persónubundin réttindi, sem ætluð eru til framfærslu sjóð­félaga.  Eftirlaunasjóður FÍA er í eðli sínu samtryggingarsjóður og starfar samkvæmt lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.  Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. þeirra laga getur sjóðfélagi og maki eða fyrrverandi maki hans gert með sér gagnkvæmt samkomulag um skiptingu ellilífeyrisgreiðslna og áunninna ellilífeyrisréttinda meðan hjúskapur, óvígð sambúð eða staðfest samvist hefur staðið eða stendur, sbr. og grein 11.6. í samþykktum lífeyrissjóðsins.  Slíkt sam­komulag liggur ekki fyrir milli aðila þessa máls og falla því lífeyrisréttindi varnaraðila utan skipta að kröfu hans, sbr. 2. töluliður 1. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga, verði það ekki talið ósanngjarnt gagnvart sóknaraðila, sbr. 2. mgr. 102. gr. laganna.

Eins og rakið er í I. kafla að framan höfðu málsaðilar verið samvistum í um það bil 18 ár, þar af tæp 15 ár í hjúskap, þegar til samvistaslita kom í júlí 2001.  Sóknaraðili var þá 44 ára gömul og varnaraðili 49 ára.  Er óumdeilt að sóknaraðili hafi borið hitann og þungann af heimilisstörfum og uppeldi barna þeirra á samvista­tímanum, þótt deila megi um nauðsyn þess að hún væri heimavinnandi allan tímann, eins og varnaraðili bendir á máli sínu til stuðnings.  Á hitt ber þó að líta að svo virðist sem aðilar hafi verið samhuga um þá tilhögun, á meðan allt lék í lyndi, og verður við það miðað við úrlausn málsins.  Vegna starfa sinna á heimilinu í tæpa tvo áratugi aflaði sóknaraðili nánast engra tekna og þar með lífeyrisréttinda sér til handa.  Sóknar­aðili hefur nú stopular tekjur af forfallakennslu, en óvíst er við hvað hún muni starfa í framtíðinni og hversu mikilla lífeyrisréttinda hún muni afla sér það sem eftir er starfs­ævinnar.  Varnaraðili er á hinn bóginn í öruggri atvinnu, með háar tekjur og mun að óbreyttu verða búinn að afla sér verulegra lífeyrisréttinda þegar hann nær 65 ára aldri.  Aðilar gera ráð fyrir að helmingaskipti verði á eignum þeirra við opinber skipti til fjár­slita við skilnað, en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum munu þá koma 6-7.000.000 króna í hlut þeirra hvors um sig.  Við mat á því hvort halda skuli lífeyrisréttindum varnar­aðila utan skipta, sbr. 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga, verður að líta heildstætt á allar aðstæður aðila, eins og þær eru í raun, sbr. dóm Hæstaréttar frá 18. desember 2001 í máli réttarins nr. 253/2001.  Í röksemdum Hæsta­réttar kemur fram að skýra beri téða lagagrein svo, að í einstaka tilviki kunni að reynast ósanngjarnt að halda líf­eyris­­réttindum utan skipta, en þá þurfi sérstakar aðstæður að vera fyrir hendi.   

Sóknaraðili er aðeins 44 ára gömul og á eftir drjúgan hluta starfsævinnar til að afla sér lífeyrisréttinda.  Hún varði engu að síður 18 árum starfsævinnar í vinnu á sam­eigin­legu heimili málsaðila á meðan varnaraðili aflaði tekna og ávann sér umtalsverð líf­eyris­réttindi.  Má ætla að hann muni að óbreyttu fá greiddan mánaðarlegan lífeyri að fjár­hæð krónur 370.747 þegar hann hefur töku ellilífeyris við 65 ára aldur.  Eins og áður segir er óvíst hversu háan ellilífeyri sóknaraðili muni njóta þegar hún hættir störfum fyrir aldurs sakir, en samkvæmt útreikningum varnaraðila munu mánaðar­legar greiðslur til hennar ekki verða lægri en krónur 94.773, í formi ellilífeyris, tekju­tryggingar, tekjutryggingarauka og heimilisuppbótar, svo sem nánar greinir í III. kafla að framan. 

Þegar allar aðstæður málsaðila eru virtar heildstætt telur dómurinn ósann­gjarnt að lífeyrisréttindum varnaraðila sé haldið utan skipta.  Eru því lagaskilyrði til að beita heimildarákvæði 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga og ákvarða sóknaraðila fjár­greiðslu til að jafna þann aðstöðumun, sem hún býr við í reynd eftir hjúskap við varnar­aðila.  Við ákvörðun fjárhæðarinnar verður miðað við áunnin lífeyrisréttindi varnar­­aðila 1. janúar 2001 og útreikning Jóns Erlings Þorlákssonar trygginga­fræðings, sem ekki hefur verið hnekkt, en samkvæmt honum nam höfuðstólsverðmæti lífeyrisréttindanna krónum 8.508.000, miðað við 4,5% ársvexti.  Sóknaraðili krefst helmings af þeirri fjárhæð eða krónur 4.254.000.  Þegar litið er til þess hagræðis að sóknaraðili fær hlutdeild í líf­eyris­réttindum varnaraðila greidda nú þegar og að sú fjárhæð myndar ekki stofn til greiðslu tekjuskatts hjá henni þykir rétt að lækka fjárhæðina að tiltölu.  Að því virtu og með hliðsjón af öllum aðstæðum aðila þykir rétt að bæta sóknaraðila framan­greindan aðstöðumun með eingreiðslu á krónum 2.500.000, sem beri dráttarvexti sam­kvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá 8. janúar 2002 til greiðslu­dags.

Gagnkrafa varnaraðila til greiðslu á krónum 205.800 vegna hlutdeildar í áunnum lífeyrisréttindum sóknaraðila þykir ekki eiga rétt á sér, sbr. 2. mgr. 102. gr. hjúskaparlaga.  Verður sú krafa því ekki tekin til greina.

Með hliðsjón af greindum málsúrslitum þykir eftir atvikum rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála.  

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin mál­flutnings­­þóknun lögmanns hennar, Helga Jóhannes­sonar hæstaréttar­lög­manns, sem þykir hæfilega ákveðin krónur 275.000, að meðtöldum virðis­auka­skatti.

Úrskurðurinn er kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðili, Reynir Örn Ólafsson, greiði sóknaraðila, Sædísi Arn­dal Sigurðar­dóttur, krónur 2.500.000 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá 8. janúar 2002 til greiðsludags. 

Málskostnaður fellur niður.        

Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 275.000 króna mál­flutnings­þóknun lögmanns hennar.