Hæstiréttur íslands

Mál nr. 160/2006


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. desember 2006.

Nr. 160/2006.

Óli Bjarni Ólason

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

 

Skaðabætur. Kröfugerð. Frávísun máls frá héraðsdómi.

Ó krafðist viðurkenningar á rétti sínum til skaðabóta úr hendi Í vegna fjárhagslegs tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna setningar 2. töluliðar 2. gr. laga nr. 74/2001 um breytingu á lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Tekið var fram að til að fá viðurkenningu á rétti til skaðabóta samkvæmt 2. mgr. 25. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála yrði Ó að leiða nægum líkum að því að hann hefði orðið fyrir tjóni sem rekja mætti til umræddrar breytingar og í hverju það væri fólgið. Veiðiheimildir samkvæmt lögum nr. 38/1990 væru bundnar við skip og í lögum nr. 74/2004 væri reiknigrunnur báta, sem hefðu haft leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum, verið fundinn út fyrir hvern bát. Talið var að í kröfugerð Ó væru aðrir útgerðarhættir lagðir til grundvallar en hann hefði í raun viðhaft. Hefði hann orðið fyrir tjóni vegna umræddrar lagabreytingar yrði hann að miða kröfugerð sína við tjón á hvern báta sinna út frá raunverulegum veiðiheimildum þeirra þegar breytingin varð. Þar sem Ó hafði ekki hagað kröfugerð sinni með þessum hætti varð ekki hjá því komist að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 22. mars 2006. Hann krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til skaðabóta úr hendi stefnda vegna fjárhagslegs tjóns, sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna setningar 2. töluliðar 2. gr. laga nr. 74/2004 um breytingu á lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða með síðari breytingum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði látinn falla niður.

Lög nr. 38/1990 hafa nú verið endurútgefin sem lög nr. 116/2006.

I.

Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Áfrýjandi reisir mál sitt á því að sú reikniregla, sem lögfest var með 2. tölulið 2. gr. laga nr. 74/2004, hafi brotið gegn jafnræðisreglu og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Áfrýjandi vefengir ekki rétt löggjafans til að breyta fiskveiðistjórnunarkerfi landsins, en beri nauðsyn til að takmarka afla verði að gæta þess að skerðing á hagsmunum eigenda veiðiheimilda, sem af þeim takmörkunum leiðir, sé reist á efnislegum mælikvarða svo jafnræðis sé gætt. Óumdeilt sé að með lögum nr. 74/2004 hafi aflaheimildir áfrýjanda verið skertar langt umfram aðra smábátaeigendur, sem verið höfðu í sóknardagakerfinu. Þá sé einnig ljóst að þeir eigendur sóknardagabáta, sem enga viðmiðunaraflareynslu höfðu, hafi allir fengið lágmarksúthlutun. Áfrýjandi telur það ekki samrýmast viðteknum jafnræðiskröfum að taka afla af þeim, sem mest höfðu fjárfest í atvinnuréttindum sínum, til þess eins að gefa þeim, sem selt eða leigt höfðu frá sér alla sína sóknardaga.

Áfrýjandi byggir jafnframt á því að þó svo að talið yrði að í 2. gr. laga nr. 74/2004 felist lögleg takmörkun á stjórnarskrárvörðum réttindum, þá sé það allt að einu svo að komi slík breyting sérstaklega harkalega niður á ákveðnum einstaklingum verið að líta svo á að 72. gr. stjórnarskrárinnar tryggi þeim bótarétt enda þótt almennt sé ekki um slíkan rétt að ræða. Áfrýjandi telur að 2. gr. laga nr. 74/2004 skerði veiði- og atvinnuréttindi hans umfram það sem hann mátti vænta og að honum sé í raun refsað fyrir að hafa keypt aukasóknardaga á báta sína líkt og lög þess tíma leyfðu.

II.

Upphafsákvæði 2. gr. laga nr. 74/2004 hljóðaði svo: „Bátar sem leyfi hafa til handfæraveiða með dagatakmörkunum skv. 6. gr. laganna skulu stunda veiðar með krókaaflamarki skv. 6. gr. b frá upphafi fiskveiðiársins 2004/2005. Skal úthluta hverjum báti sem varanlegar sóknarheimildir eru bundnar við 10. maí 2004 krókaaflahlutdeild í upphafi fiskveiðiársins 2004/2005. Skal krókaaflahlutdeild hvers báts fundin með tilliti til aflareynslu bátsins á öðru hvoru fiskveiðiárinu 2001/2002 eða 2002/2003, að vali útgerðar, á eftirfarandi hátt.“ Síðan var í 1. tölulið nánar mælt fyrir um hvernig finna ætti viðmiðunaraflareynslu. Í 2. tölulið, sem áfrýjandi reisir mál sitt á, var svo mælt fyrir um að reiknigrunnur hvers báts til krókaaflahlutdeildar skuli ,,byggjast á viðmiðunaraflareynslu í þorski og ufsa þannig að til reiknigrunnsins teljast 91% af upp að 42,5 lesta viðmiðunaraflareynslu, miðað við óslægðan fisk, og 45% af því sem umfram er. Reiknigrunnurinn í þorski skal þó aldrei vera lægri en 15 lestir, miðað við óslægðan fisk. Fyrir aðrar tegundir í krókaaflamarki skal reiknigrunnurinn vera jafn aflareynslu. Taka skal tillit til áætlaðrar aflaaukningar, allt að 20 lestum í þorski á hvern bát, miðað við óslægðan fisk, vegna aukningar afkastagetu sóknardagabáta vegna endurnýjunar þeirra á fiskveiðiárinu 2002/2003 eða á fiskveiðiárinu 2003/2004 fram til 28. maí 2004, enda hafi sóknargetan ekki nýst til myndunar aflareynslu samkvæmt nánari reglum er ráðherra setur.“

Með lögum þessum var sóknardagakerfið endanlega afnumið og skyldu allar sóknarheimildir fiskiskipa eftirleiðis vera bundnar við aflahlutdeild, svo sem verið hafði áður um önnur veiðiskip en handfæraveiðibáta. Áfrýjandi hafði fyrir þennan tíma gert út fimm krókabáta með leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum. Í stefnu til héraðsdóms kveðst hann frá 19. desember 2001 til 15. maí 2002 hafa keypt alls 77 aukasóknardaga á þessa fimm báta fyrir samtals 47.500.000 krónur, sem gera áttu honum kleift að afla mun betur en á venjulega krókabáta. Til þess að fá hugmynd um ætlað tjón sitt hafi hann leitað til Landssambands smábátaeigenda með ósk um að aflatap hans vegna lagabreytinganna yrði metið. Þar sem hann hafi átt mjög marga aukasóknardaga á fjórum til fimm bátum sínum hafi verið ákveðið að kanna hvert úthlutað krókaaflamark hans yrði hefði hann keypt þessa aukasóknardaga ásamt bátnum, sem dagarnir voru skráðir á, en ekki bara sóknardagana eina og sér. Að mati Landssambands smábátaeigenda hefði hann getað veitt 64 tonnum meira af þorski á ári hefði hann skipt upp sóknardögum sínum og gert út átta sóknardagabáta með hefðbundinni veiðigetu og þeim úthlutað krókaaflamarki lögum samkvæmt, í stað þess að gera út fjóra báta með mjög mikla veiðigetu. Samkvæmt verðmati skipasölunnar, Báta og búnaðar, nemi verðmæti þessarar skerðingar alls 55.568.700 krónum, en þessu tapi verði hann að öllum líkindum fyrir á hverju ári.

III.

Áfrýjandi vísar til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um heimild til að höfða málið til viðurkenningar á rétti sínum til skaðabóta vegna greindra breytinga á lögum nr. 38/1990. Til þess að fá viðurkenningu fyrir rétti til skaðabóta samkvæmt ákvæðinu verður áfrýjandi að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni sem rekja megi til umræddrar breytingar og í hverju það sé fólgið. Veiðiheimildir samkvæmt lögum nr. 38/1990 eru samkvæmt 5. gr. laganna bundnar við skip. Í lögum nr. 74/2004, sem reynir á í máli þessu, er reiknigrunnur báta, sem leyfi höfðu til handfæraveiða með dagatakmörkunum, fundinn út fyrir hvern bát. Við kröfugerð eru aðrir útgerðarhættir lagðir til grundvallar en áfrýjandi viðhafði í raun. Hafi hann orðið fyrir tjóni vegna gildistöku 2. töluliðar 2. gr. laga nr. 74/2004 verður hann að miða kröfugerð sína við tjón á hvern báta sinna út frá raunverulegum veiðiheimildum hvers þeirra, þegar breytingin varð, í stað þess að fá Landssamband smábátaeigenda til að reikna út hugsanlegt tjón á tilbúnum forsendum. Þar sem áfrýjandi hefur ekki hagað kröfugerð sinni með þessum hætti og með því lagt fullnægjandi grunn að málshöfðun sinni á þann veg að metið verði hvort hann hafi orðið fyrir tjóni miðað við útgerð hvers báts um sig verður ekki hjá því komist að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Rétt er að hvor aðili beri kostnað sinn af málinu í héraði og  fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2006.

Dómkröfur stefnanda eru að viðurkenndur verði réttur stefnanda til skaðabóta úr hendi stefnda vegna fjárhagslegs tjóns sem leiddi af setningu 2. tl. 2. gr. laga nr. 74/2004, um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati réttarins.  Til vara er þess krafist að málskostnaður verði látinn niður falla.

Helstu málavextir eru að sett voru lög nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða 15. maí 1990.  Í fyrstu grein þeirra laga er kveðið á um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar en markmið laganna sé að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.  Þá segir að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.  Í þriðju grein laganna segir að sjávarútvegs-ráðherra skuli, að fengnum tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar, ákveða með reglugerð þann heildarafla, sem veiða megi á ákveðnu tímabili eða vertíð úr þeim einstöku nytjastofnum við Ísland sem nauðsynlegt sé talið að takmarka veiðar á, og heimildir til veiða samkvæmt lögunum skuli miðast við það magn.  Þá kveður fjórða grein laganna á um að enginn megi stunda veiðar í atvinnuskyni við Ísland nema hafa fengið til þess almennt veiðileyfi.

Með lögum var eigendum báta, 6. brl. og minni, gefinn kostur á að velja milli veiðileyfis með aflahlutdeild og veiðileyfis til línu- og handfæraveiða með dagatakmörkunum.  Jafnframt var staðfest sú skipan sem gilt hafði að aðeins væri heimilt að veita nýjum skipum veiðileyfi í atvinnuskyni að flutt væri til þess veiðileyfi af öðru skipi sem hefði haft veiðileyfi fyrir.  Þá voru til loka árs 1998 ýmsar breytingar gerðar á kerfi sem beitt var við stjórnun veiða báta, 6. brl. og minni, svonefndra krókabáta, þar sem eigendur höfðu valið leyfi til línu og handfæraveiða með dagatakmörkunum en botnfiskveiðar þeirra voru takmarkaðar með ýmsum sóknar- og magntakmörkunum.

Með lögum nr. 1/1999 um breytingu á lögum nr. 38/1990 voru m.a. gerðar þær breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu að ákveðið var að frá og með fiskveiðiárinu 2000/2001 skyldi úthluta meginhluta krókabáta krókaaflahlutdeild í þorski, ýsu, ufsa og steinbít, en útgerðum krókabáta er tækju þann kost sem í boði var - að stunda veiðar í 23 daga með handfærum eingöngu á tímabilinu 1. apríl til 31. október án takmörkunar á heildarafla - skyldu jafnframt eiga kost á veiðileyfi með sóknardögum til handfæraveiða.  Sóknardagarnir voru framseljanlegir og áttu þeir að hafa sama eða svipað gildi og aflahlutdeild í almenna fiskveiðistjórnarkerfinu.

Með lögum nr. 1/1999 var einnig ákveðið að á fiskveiðiárunum 1998/1999 og 1999/2000 skyldu útgerðir krókabáta eiga kost á, varðandi botnfiskveiðar báta sinna, að velja milli eftirfarandi aðferða:

a.    Að stunda veiðar með handfærum eingöngu í 40 daga á hvoru fiskveiðiári með þeirri takmörkun að þorskafli fari ekki yfir 30 lestir, miðað við óslægðan fisk.

b.   Að stunda veiðar með línu og handfærum í 32 daga á hvoru fiskveiðiári með þeirri takmörkun að þorskafli fari ekki yfir 30 lestir, miðað við óslægðan fisk.

c.    Að stunda veiðar í 23 daga með handfærum eingöngu á tímabilinu 1. apríl til 31. október, án takmörkunar á heildarafla.

d.   Að stunda veiðar með þorskaflahámarki sem byggist á veiðireynslu viðkomandi báts, án takmörkunar á sókn og afla í öðrum tegundum.

Á fiskveiðiárinu 2000/2001 var lögákveðin sú breyting að bátum sem stunduðu veiðar samkvæmt því sem segir í a-, b- og d- lið, yrði úthlutað krókaaflahlutdeildum og síðan árlegu krókaaflamarki í þorsk, ýsu, ufsa og steinbít.  Krókaaflamark mætti aðeins nýta til línu- og handfæraveiða.  Bátar sem stunduðu veiðar samkvæmt c- lið áttu hins vegar kost á sóknardögum til handfæraveiða á tímabilinu 1. apríl til 31. október.  Ákveðið var að sóknardagar þessir yrðu framseljanlegir milli báta samkvæmt ákveðnum reglum í þá veru, en afli á einu fiskveiðiári ákvarðaði fjölda sóknardaga á næsta ári samkvæmt reiknireglu er 3. mgr. 6. gr. laga nr. 1/1999 kvað á um.

Af hálfu stefnda segir að í upphafi fiskveiðiársins 2001/2002 hafi verið ljóst að útgerðir rúmlega 200 báta höfðu valið framseljanlega sóknardaga, en sameiginlegur viðmiðunarþorskafli þeirra báta var ákveðið fast hlutfall af leyfilegum heildarafla í þorski skv. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 3/2002 um breytingu á lögum nr. 38/1990.  Í þeirri grein sé miðað við að afli dagabáta sé 0,67% af leyfilegum heildarþorskafla auk þeirrar viðbótar sem leiðir af því að þakbátum var gefinn kostur á því að velja dagakerfið, sbr. 5. mgr. a- liðar 7. gr. laga nr. 129/2001.  Niðurstaðan hafi orðið sú að teknu tilliti til viðmiðunarafla dagabáta sem var rétt rúmlega 1% (1,0047%), sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 603/2002 (fyrir fiskveiðiárið 2002/2003) og 7. gr. reglugerðar nr. 595/2003 (fyrir fiskveiðiárið 2003/2004).  Í lagagreininni sé þess jafnframt getið að leyfilegir sóknardagar skuli vera 23 er síðar skuli ákveðnir fyrir hvert fiskveiðiár á grundvelli hlutfalls milli raunafla sóknardagabáta í þorski á næstliðnu fiskveiðiári og sóknardögum fækka eða fjölga í sama hlutfalli.  Sóknardögum skuli fækka um heila daga og broti sleppt en aldrei fækka um meira milli ára en 10%.  Raunar hafi verið miðað við 25% í lögum nr. 1/1999 en því hafi verið breytt í 10% í lögum nr. 9/1999.

Þá segir af hálfu stefnda að á fiskveiðiárinu 2001/2002 hafi viðmiðunarþorskafli dagabáta verið 1,273 lestir en afli þeirra það ár orðið 12.418 lestir.  Hafi því sóknardögum fækkað í 21 dag á fiskveiðiárinu 2002/2003.  Á fiskveiðiárinu 2002/2003 hafi viðmiðunarþorskafli verið 1.798 lestir en heildarþorskaflinn farið í 11.023 lestir.  Hafi því sóknardögum fækkað í 19 á fiskveiðiárinu 2003/2004.

Með lögum nr. 74/2004 um breytingu á lögum nr. 38/1990 voru aflögð leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum og ákveðið að úthluta hverjum bát, sem varanlegar sóknarheimildir voru bundnar við 10. maí 2004, krókaaflahlutdeildum með ákveðnum hætti á grundvelli aflareynslu.

Stefnandi byggir á því að lög nr. 74/2004 um breytingu á lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða hafi valdið honum tjóni og brjóti gegn stjórnarskránni nr. 33/1944, einkum 65. og 72. gr.  Kveður stefnandi reiknigrunn 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 74/2004 brjóta gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.  Krókaaflamarkið leiði til þess að í hans hlut komi 91% upp að 42,5 lesta viðmiðunaraflareynslu miðað við óslægðan fisk og 45% af því sem umfram er.  Þessar breytingar komi óeðlilega illa niður á mjög fámennum hópi útgerðarmanna sem veitt hafi mikið umfram 42,5 tonn á hverju ári, en þar fari stefnandi fremstur í flokki.  Samkvæmt áætlun um úthlutun krókaaflaheimilda séu 75 af alls 290 bátum með reiknigrunn umfram 42,5 tonn og sé litið til þess hversu margir séu umfram 50 tonn séu það einungis 21 bátur.  Af þeim síðastnefndu eigi stefnandi 4 báta.

Stefnandi telur að engin hlutlæg skilyrði hafi legið að baki lögum nr. 74/2004.  Sóknardagakerfið hafi verið aflagt án skýringa og án þess að fiskveiðistjórnarsjónarmið væri markmiðið.  Með þessum breytingum á lögum nr. 38/1990 hafi útgerðarmönnum verið mismunað án þess að fyrirfram kunngert markmið réttlætti breytinguna.

Þá byggir stefnandi á því að þau atvinnuréttindi sem honum voru veitt með útgáfu veiðileyfis og gerðu honum kleift að afla sér lífsviðurværis séu varin af 72. gr. stjórnarskrárinnar.  Þessi atvinnuréttindi hafi stefnandi byggt upp með fé sínu, tækjum, þekkingu og vinnuafli í þeirri trú að hann ætti eftir að geta nýtt sér þau.  Stór hluti þessara réttinda hafi nú verið gerður upptækur án þess að nokkur tilraun hafi verið gerð til að bæta honum tjónið, en atvinnuréttindi hans verði ekki skert nema almenningsþörf krefji og fullt verð komi fyrir.

Stefndi byggir á því að tilgangur laga nr. 74/2004 hafi í einu og öllu verið í samræmi við þau markmið 1. gr. laga nr. 38/1990 að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna á Íslandsmiðum sem eru í sameign íslensku þjóðarinnar og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.  Stefndi mótmælir að reiknigrunnur 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laganna feli í sér ólögmæta mismunun eða skerðingu atvinnuréttinda andstætt jafnræðisreglu eða eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar er varðað gæti skaðabótaskyldu að lögum.

Stefndi vísar til þess að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt  forræði yfir veiðiheimildum.  Með ákvæðum 1. gr. laga nr. 38/1990 hafi löggjafinn sett fyrirvara við nýtingarrétt útgerðarmanna á veiðiheimildum þannig að unnt væri að skerða hann og breyta fyrirkomulagi við stjórn fiskveiða án þess að það skapaði þeim rétt til skaðabóta, teldi löggjafinn þess þörf.  Hafi stefnanda mátt vera ljóst að samkvæmt lögum var sýnt að sóknardögum færi fækkandi og sú skipan - að stjórna veiðum á hluta kvótans með sóknartakmörkunum – hlyti að verða tekin til endurskoðunar.

Stefndi bendir á að veigamikil rök hafi verið fyrir lagabreytingunni.  Afli krókabátanna hafi á hverju fiskveiðiári farið langt yfir þær viðmiðanir sem settar höfðu verið.  Ljóst hafi verið að lögbundin fækkun sóknardaga náði að litlu leyti að draga úr afla krókabátanna.  Útgerðarmenn hafi brugðist við fækkun sóknardaga með því að auka afkastagetu bátanna og nýta þannig hvern sóknardag betur.  Afli sóknardagabátanna fram yfir umræddar viðmiðanir hafi haft þau áhrif að fiskveiðikerfið var ómarkvissara auk þess sem mikillar óánægju hafi gætt innan raða útgerðamanna með að sóknardagabátar gætu í raun aukið hlut sinn þegar aðrir útgerðarmenn, sem byggju við aflamarkskerfið, gætu það einungis með kaupum á aflaheimildum.  Raunafli sóknardagabátanna hafi farið langt yfir viðmiðunarafla þeirra og ljóst hafi verið að samkvæmt gildandi reglum myndi sóknardögum fækka um 10% árlega og verða 9 að jafnmörgum árum liðnum eins og fram komi í athugasemdum með frumvarpi til breytingar á lögum nr. 38/1990 er varð að lögum nr. 74/2004.

Stefndi tekur fram að fjallað sé um hvernig reiknigrunnur hvers báts til krókaaflahlutar skuli fundinn í 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 74/2004.  Á valdi löggjafans sé að velja milli kosta um hvernig ákveða eigi veiðireynslu við úthlutun aflaheimilda.  Reglan sé reist á málefnalegum sjónarmiðum og stefni að lögmætum markmiðum.  Nái reglan jafnt til allra sem eins stendur á um og feli ekki í sér ólögmæta mismunun.  Með lögbundnum hætti sé kveðið á um hvernig meta skuli aflareynslu til krókaaflahlutdeildar.  Sama aflareynsla tveggja báta skili þeim sömu aflahlutdeild.

Stefnandi, Óli Bjarni Ólason, gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann væri búinn að vera viðriðinn útgerð frá árinu 1976, fyrst með föður sínum.  Kvaðst hann einnig hafa farið í Stýrimannaskólann á milli og á loðnubát, Grindvíking.  Þá hafi hann verið á krókabátum og stærri bátum og frá 1982 verið algjörlega í smábátaútgerð.

Óli sagði að kostirnir við að vera í gamla sóknardagakerfinu hafi verið þeir að geta veitt ótakmarkað og veiðiheimildir hafi verið ódýrar miðað við það sem unnt var að afkasta.  Hafi hann fjárfest mikið í aukasóknardögum fyrir útgerð sína til að auka aflann og nýta betur bátana, hafi þetta borgað sig vel.  Kvaðst hann einnig hafa látið smíða báta fyrir sig, góða báta búna 29 rúllum er fiskuðu fyrir u.þ.b. sjö til tíu milljónir á viku, þegar þetta gekk á fullu.  Bátarnir hafi allir gengið svona um 25 mílur, búnir bestu tækjum, góður mannskapur hafi verið hjá honum og mikill hraði hefði verið í þessu öllu.  Hann taldi að það hefði kostað sig u.þ.b. hundrað og fimmtíu milljónir að minnsta kosti að koma sér upp bátum og sóknardögum.  Hann kvaðst hafa tekið mikið af lánum til að kaupa aflaheimildir.

Óli kvaðst hafa verið langaflahæsti smábátaútgerðarmaður landsins.  Hafi hann átt langaflahæsta bátinn og þrjá af tíu aflahæstu bátunum.

Óli kvaðst í fyrstu ekki hafa verið á móti því að fara í krókaaflamarkskerfi, þar sem honum hefði verið lofað að hann fengi að veiða það magn, sem hann hefði veitt, miðað við besta árið, en hann hefði verið svikinn um það.  Þeir sem aldrei veiddu neitt hefðu hins vegar fengið stóran hlut, tólf og hálft tonn hver, er var tekið af þeim sem voru bestir.

Ályktunarorð:  Í 2. ml. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 segir að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.  Af þessu leiðir að veiðiheimildir samkvæmt lögunum eru ekki varðar af ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Í 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. laga nr. 97/1995, segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.  Og telur stefnandi að reiknigrunnur, sem fram kemur í 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 74/2004 um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða nr. 38/1990, brjóti í bága við framangreint stjórnskipunarákvæði.

Í 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 74/2004 segir:

Reiknigrunnur hvers báts til krókaaflahlutdeildar skal byggjast á viðmiðunaraflareynslu í þorski og ufsa þannig að til reiknigrunnsins teljast 91% af upp að 42,5 lesta viðmiðunaraflareynslu, miðað við óslægðan fisk, og 45% af því sem umfram er.  Reiknigrunnurinn í þorski skal þó aldrei vera lægri en 15 lestir, miðað við óslægðan fisk.  Fyrir aðrar tegundir í krókaaflamarki skal reiknigrunnurinn vera jafn aflareynslu.  Taka skal tillit til áætlaðrar aflaaukningar, allt að 20 lestum í þorski á hvern bát, miðað við óslægðan fisk, vegna aukningar afkastagetu sóknardagabáta vegna endurnýjunar þeirra á fiskveiðiárinu 2002/2003 eða á fiskveiðiárinu 2003/2004 fram til 28. maí 2004, enda hafi sóknargetan ekki nýst til myndunar aflareynslu samkvæmt nánari reglum er ráðherra setur.

Ljóst er að sóknardögum báta, sem fengið höfðu leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum, fór fækkandi ár frá ári af ástæðum sem raktar hafa verið.  Og raunar er ekki deilt um að nauðsyn bar til að afnema leyfi til handfæraveiða með daga-takmörkunum og taka upp aflamark krókabáta miðað við aflareynslu.  En aðilar eru ekki á einu máli um rétt löggjafans til að mæla fyrir um að krókaaflahlutdeild báta, er höfðu leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum fyrir setningu laga nr. 74/2004, og voru með viðmiðunaraflareynslu fram yfir tiltekin mörk á þann hátt, sem ákvæði 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laganna kveða á um.  Kemur þá til skoðunar hvort reiknigrunnur þessa lagaákvæðis brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Forsendur sóknardagakerfisins voru þær að sóknin væri óbreytt, að afli héldist að mestu stöðugur.  Til að árétta það var að lögum settur viðmiðunarafli fyrir krókabáta og ákveðið, að færi afli þeirra yfir þá viðmiðun, yrði sóknardögum fækkað.  Þá er upplýst að fyrir gildistöku laga nr. 74/2004 var síðast miðað við að afli báta, sem fengið höfðu leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum, næði mest 1,0047% af heildarþorskafla.  Alþingi tók hins vegar þá ákvörðun með setningu laganna að þessum bátum skyldi úthlutað rétt rúmum 4,7% af leyfilegum þorskafla á fiskveiðiárinu 2004/2005.  Guldu útgerðir annarra skipa þess að viðmiðunarafli krókabáta var þannig aukinn.  Þá ákvað Alþingi að tryggja að allir bátar, er höfðu haft leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum fyrir gildistöku laga nr. 74/2004, fengju tiltekna lágmarksúthlutun og jafnframt að þeir, sem mest hefðu aflað, bæru minni hlut frá borði en aðrir, þegar ákveðnum viðmiðunarmörkum væri náð.  Mátti þá líta til þess að það voru fyrst og fremst þeir krókabátar, sem mest höfðu aukið afla sinn milli ára í sóknardagakerfinu - og höfðu valdið því að sóknardagakerfið þjónaði ekki lengur tilgangi sínum - sem voru aflögufærir til að jafna að einhverju leyti krókaaflahlutdeild krókabátanna þegar á heildina var litið.

Að virtu öllu framangreindu verður talið að ákvæði 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 74/2004 séu hvorki ómálefnaleg né andstæð jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.  Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir úrslitum málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst hæfilegur eftir umfangi málsins 200.000 krónur.  Er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Óla Bjarna Ólasonar.

Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.