Hæstiréttur íslands
Mál nr. 331/2012
Lykilorð
- Framsal sakamanns
- Kærumál
|
|
Föstudaginn
18. maí 2012. |
|
Nr.
331/2012. |
Ákæruvaldið (Sigríður
J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari) gegn X (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) |
Kærumál. Framsal
sakamanns.
Staðfestur
var úrskurður héraðsdóms þar sem ákvörðun innanríkisráðherra um framsal X til
Póllands var staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson
og Jón Steinar Gunnlaugsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. maí
2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er
úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2012, þar sem staðfest var ákvörðun
innanríkisráðherra 17. febrúar sama ár um að framselja varnaraðila til
Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og
aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði
felldur úr gildi og honum dæmdur kærumálskostnaður. Þá krefst hann hækkunar á þóknun
réttargæslumanns frá því sem ákveðið var í úrskurði héraðsdóms.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði hafa pólsk yfirvöld
krafist framsals á varnaraðila vegna ætlaðra fíkniefnalagabrota. Er varnaraðila
meðal annars gefið að sök að hafa í Póllandi á tímabilinu desember 2000 til
janúar 2001 keypt ásamt öðrum nafngreindum einstaklingi 800 g af amfetamíni og
1,2 kg af marihuana og síðar selt efnin. Sú háttsemi
myndi hér á landi varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ætlað brot var framið fyrir setningu laga nr. 32/2001 sem þyngdu refsingu við
slíkum brotum úr 10 í 12 ára fangelsi. Sök fyrnist því á 10 árum, sbr. 3.
tölulið 1. mgr. 81. gr. laganna.
Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 13/1984 er framsal óheimilt
ef sök er fyrnd samkvæmt íslenskum lögum. Þegar beiðni berst frá ríki sem tekur
þátt í Schengen-samstarfinu skulu lög þess ríkis gilda um rof fyrningarfrests,
sbr. 2. mgr. sömu greinar. Pólland á aðild að nefndu samstarfi og gilda því lög
þess lands um rof sakarfyrningar. Af hálfu ákæruvaldsins hafa verið lögð fram
gögn um reglur pólskra refsilaga þar sem fram kemur að fyrningarfrestur rofnar
og lengist um 10 ár við ákvörðun yfirvalda um að bera grunaðan mann sökum.
Ákvörðun af því tagi lá í síðasta lagi fyrir í mars 2007 þegar lýst var eftir
varnaraðila. Samkvæmt þessu stendur fyrning sakar ekki í vegi fyrir framsali.
Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar
verður hann staðfestur um framsal varnaraðila.
Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila vegna meðferðar
málsins í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr.
16. gr. laga nr. 13/1984 og ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur
um framsal varnaraðila, X.
Þóknun skipaðs réttargæslumanns
varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins
í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11.
maí 2012.
Með bréfi ríkissaksóknara 27. mars
2012, var vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur kröfu varnaraðila um að úrskurðað
yrði um það hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi vegna ákvörðunar
innanríkisráðuneytisins 17. febrúar 2012, um að fallast á beiðni pólskra
dómsmálayfirvalda um að framselja varnaraðila til Póllands. Er í þessu sambandi
vísað til II. kafla laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum nr.
13/1984 og 1. mgr. 2. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Af hálfu
sóknaraðila er krafist staðfestingar á ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 17.
febrúar 2012, um að framselja varnaraðila til Póllands.
Varnaraðili krefst þess að
framsalskröfunni verði hafnað. Þá er krafist réttargæsluþóknunar úr ríkissjóði
að mati dómsins.
I
Með bréfi pólska dómsmálaráðuneytisins
22. júlí 2011 barst innanríkis-ráðuneytinu framsalsbeiðni saksóknara í Póllandi
frá 21. júní 2011. Samkvæmt beiðninni og gögnum er henni fylgdu var framsals
varnaraðila beiðst vegna gruns um fíkniefnalagabrot.
1.Var varnaraðili í fyrsta lagi grunaður um að hafa á
tímabilinu desember 2000 til janúar 2001 í Póllandi, ásamt A, keypt af B og
síðar selt ótilgreindum einstaklingum, a.m.k. 800 g af amfetamíni og 1,2 kg af marihuana. Var háttsemin heimfærð undir 3. mgr. 56. gr.
pólskra fíkniefnalaga frá 29. júlí 2005, sbr. 12. gr. pólskra hegningalaga.
2. Í öðru lagi var varnaraðili grunaður um að hafa á
árinu 2001 flutt a.m.k. 70 g af amfetamíni og a.m.k. 80 g af kókaíni, frá
Póllandi til Íslands, en fíkniefnin hafi hann keypt í Póllandi, í gegnum B af C,
og síðar selt þau ótilgreindum einstaklingum á Íslandi. Var háttsemin heimfærð
undir 3. mgr. 55. gr. og 3. mgr. 56. gr. pólskra fíkniefnalaga frá 29. júlí
2005, sbr. 2. mgr. 11. gr. og 12. gr. pólskra hegningalaga.
3. Í þriðja lagi var varnaraðili grunaður um að hafa í
desember 2001 keypt a.m.k. 180 g af afmetamíni í gegnum
B af C, sem hafi verið flutt til Íslands af D, og að hafa selt fíkniefnin
ótilgreindum einstaklingum á Íslandi. Var háttsemin heimfærð undir 3. mgr. 56.
gr. pólskra fíkniefnalaga frá 29. júlí 2005, sbr. 12. gr. pólskra
hegningarlaga.
Grunur um brot varnaraðila er sagður
byggður á fyrirliggjandi sönnunargögnum, fyrst og fremst á framburði
nafngreinds sakbornings, eins og nánar er lýst í beiðninni. Tvö nafngreind
vitni voru sögð styðja hvort sinn hluta framburðar hans. Þá segir í beiðninni
að sök sé ekki fyrnd og að rannsókninni sé ekki lokið þar sem varnaraðili hafi
leynst pólsku ákæruvaldi. Dómari hafi gefið út handtökuskipun á hendur
varnaraðila 6. mars 2007, á þeim grundvelli að varnaraðili hafi leynst
yfirvöldum, og að hann hafi verið eftirlýstur vegna málsins frá marsmánuði
2007.
Varnaraðila var kynnt
framsalsbeiðnin hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 11. október 2011.
Aðspurður kvaðst hann kannast við að framsalsbeiðnin ætti við hann en hafnaði
framsali. Hann neitaði sök samkvæmt öllum þremur liðum framsalsbeiðninnar og
kvað sakirnar ósannar og upplognar. Var varnaraðila kynnt efni 7. gr. laga nr.
13/1984 og lýsti hann persónulegum aðstæðum sínum hér á landi.
Ríkissaksóknari sendi
innanríkisráðuneytinu gögn málsins ásamt álitsgerð varðandi lagaskilyrði framsals
21. desember 2011. Voru skilyrði framsals samkvæmt lögum nr. 13/1984 talin
uppfyllt, að undanskildum hluta háttseminnar samkvæmt tveimur liðum
framsalsbeiðninnar, eins og nánar er gerð grein fyrir í álitsgerðinni. Tekið er
fram að samkvæmt 4. mgr. 3. gr. laganna sé framsal til meðferðar máls eða
fullnustu refsingar fyrir fleiri verknaði heimilt þótt skilyrði samkvæmt 1.-3.
mgr. 3. gr. séu aðeins uppfyllt að því er varðar einn verknað.
Tók innanríkisráðuneytið ákvörðun í
málinu með bréfi 17. febrúar 2012. Niðurstaða ráðuneytisins var sú að
persónulegar aðstæður varnaraðila vægu ekki nægilega þungt til að
mannúðarsjónarmið 7. gr. laga nr. 13/1984 stæðu í vegi fyrir framsali. Ákvörðun
ráðuneytisins var kynnt varnaraðila 7. mars sl. hjá lögreglustjóranum á
höfuðborgarsvæðinu. Krafðist hann úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur samdægurs.
Varnaraðili sætir farbanni vegna
málsins til 22. maí nk. kl. 16:00.
II
Um skilyrði framsals samkvæmt I. og II. kafla laga nr.
13/1984 vísar sóknaraðili til þess að varnaraðili sé grunaður um að hafa brotið
gegn pólskum fíkniefnalögum. Með ákvæði 42. og 43. gr. pólskra fíkniefnalaga
frá 24. apríl 1997, sbr. 55. og 56. gr. núgildandi laga, hafi háttsemi
varnaraðila skv. 1. tl. verið refsiverð á
verknaðartíma. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 sé framsal á manni
aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður geti varðað fangelsi í
meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum. Háttsemin sem lýst sé varðandi brot skv.
1. tl., sem varði kaup og sölu á 800 g. af amfetamíni
og 1.200 g. af marihuana, myndi varða við 173. gr. a
laga nr. 19/1940. Háttsemi skv. 2. og 3. tl., sem
varði annars vegar kaup og sölu á 70 g. af amfetamíni og 80 g af kókaíni og
hins vegar 180 g af amfetamíni myndi varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr.
65/1974, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 233/2001. Brot samkvæmt lögum nr. 19/1940
varði allt að 12 ára fangelsi. Refsirammi hafi verið 10 ára fangelsi til 30.
apríl 2001 þegar breytingalög nr. 32/2001 hafi tekið gildi. Brot gegn lögum nr.
65/1974 og reglugerð nr. 233/2001 varði fangelsi allt að 6 árum. Þar sem
reglugerðin hafi tekið gildi 23. mars 2001 sé rétt að taka fram að fyrri
reglugerð nr. 26/1986 hafi verið sambærileg að því er varði refsinæmi háttsemi,
efni og refsiramma.
Háttsemi skv. 2. og 3. tl. feli í
sér ætluð kaup á fíkniefnum í Póllandi og flutning þeirra til Íslands þar sem
þau hafi verið seld ótilgreindum einstaklingum. Samkvæmt 2. gr. laga nr.
65/1974 sé varsla og meðferð ávana- og fíkniefna, sem talin séu upp í 6. gr.
laganna, óheimil á íslensku forráðasvæði. Ekki sé hins vegar kveðið á um
refsinæmi þess að selja efnin á yfirráðasvæði annars ríkis. Sá hluti verknaðar
sem lýst sé í 2. og 3. tl. að selja efni ótilgreindum
einstaklingum í öðru ríki sé því ekki refsiverður samkvæmt íslenskum lögum.
Með vísan til þessa teljist skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr.
13/1984 uppfyllt, að því undanskildu að hið tvöfalda refsinæmi sé ekki fyrir
hendi varðandi þann hluta háttseminnar sem taki til sölu efna í erlendu ríki.
Fyrir liggi handtökuskipun dómara og eftirlýsing vegna
varnaraðila, sbr. skilyrði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984. Þá séu uppfyllt
skilyrði 8. gr. laganna. Í 102. gr. pólskra hegningarlaga sé kveðið á um að
fyrningarfrestur rofni þegar málsmeðferð gegn viðkomandi hafi verið hafin. Af
gögnum málsins verði ráðið að málsmeðferð hafi verið hafin fyrir marsmánuð
2007, er varnaraðili hafi verið eftirlýstur, þ.e. innan fyrningarfrests
samkvæmt ákvæðum liða 2-a og 3 í 1. mgr. 101. gr. pólskra hegningarlaga.
Teljist sök varnaraðila vegna háttseminnar ekki fyrnd, sbr. 9. gr. laga nr.
13/1984. Þá standi ákvæði 10. gr. og 12. gr. laganna ekki í vegi framsals.
Samkvæmt þessu séu efnisskilyrði framsals uppfyllt að undanskildu hluta
háttsemi samkvæmt 2. og 3. tl. Samkvæmt 4. mgr. 3.
gr. laganna sé framsal til meðferðar máls eða fullnustu refsingar fyrir fleiri
en einn verknað heimilt þótt skilyrði samkvæmt 1. - 3. mgr. 3. gr. séu aðeins
uppfyllt að því er varði einn verknað.
III
Varnaraðili vísar til þess að hann hafi komið til Íslands í
atvinnuleit ásamt barnsmóður sinni A sumarið 2000. Frá komu sinni til landsins hafi
varnaraðili ávallt stundað vinnu og nú síðastliðin þrjú ár hjá [...],
Reykjavík. Hafi allir vinnuveitendur
verið ánægðir með störf varnaraðila. Í dag búi varnaraðili í Reykjavík, ásamt
eiginkonu og tvítugum syni. Þá búi
fyrrgreind A einnig á Íslandi ásamt tveimur börnum hennar og varnaraðila og séu
börnin tólf og fimm ára. Eins og sakavottorð varnaraðila beri með sér þá hafi
varnaraðili komist í kast við lögin hér á landi, en frá árinu 2008 hafi
varnaraðili fetað hina beinu braut og ekki gerst brotlegur við íslensk lög eða
reglur.
Í allítarlegri skýrslu hjá lögreglu 20. september 2011 hafi
varnaraðili lýst samskiptum sínum við pólsku lögregluna svo og samskipti hans
við pólska glæpamenn. Þar hafi varnaraðili verið í hlutverki uppljóstrara fyrir
lögregluna og orðið þess valdandi að nokkur sakamál hafi upplýst og glæpamenn verið
handteknir. Þegar tekið hafi að hitna undir varnaraðila í Póllandi vegna
uppljóstrana hans hafi varnaraðili ákveðið að flytja til Íslands ásamt
barnsmóður sinni A. Bæði hafi það verið vegna hugsanlegra refsiaðgerða
glæpamanna svo og einnig vegna framkomu einstakra lögreglumanna í garð
varnaraðila. Ísland hafi orðið fyrir valinu þar sem þar hafi verið hægt að fá
vinnu og einnig þar sem systir varnaraðila hafði búið á Íslandi um langt skeið.
Þegar varnaraðili hafi yfirgefið Pólland hafi ekki nein sakamál verið í gangi
gagnvart honum enda hafi varnaraðili ekki gerst brotlegur þar í landi. Það hafi
komið varnaraðila í opna skjöldu þegar lögregla á Íslandi hafi haft samband við
hann og tilkynnti honum að hann væri eftirlýstur af pólskum yfirvöldum.
Varnaraðili kannist ekki við að hafa framið nokkur afbrot í Póllandi, sem væru
óleyst og því hafi varnaraðili ekki talið sig vera að flýja réttvísina í
Póllandi. Varnaraðili kannist þó við að hafa farið til Íslands m.a. til þess að
losna við hótanir og hugsanlegar meiðingar af völdum tiltekinna lögreglumanna.
Í framsalsbeiðni pólskra yfirvalda séu tiltekin þrjú ætluð
brot varnaraðila á pólskum hegningarlögum. Í fyrsta lagi fyrir að hafa á
tímabilinu desember 2000 til janúar 2001 ásamt A keypt í Póllandi 800 gr. af
amfetamíni og 1,2 kg. af marijuana af aðila að nafni
B og síðar selt það ótilgreindum aðila.
Í öðru lagi fyrir að hafa á árinu 2001 keypt í Póllandi a.m.k. 70. gr.
af amfetamíni og a.m.k. 80 gr. af kókaíni af C með milligöngu greinds B, flutt
efnin til Íslands og selt þau þar ótilgreindum aðila. Í þriðja lagi að hafa
keypt af sama aðila með sama millilið a.m.k. 180 gr. af amfetamíni og sem samlandi
hans D hafi flutt til Íslands þar sem varnaraðili seldi efnið ótilteknum aðila.
Í meðförum íslenskra stjórnvalda hafi tvö síðari tilvikin ekki verið talin
refsinæm samkvæmt íslenskum lögum og stjórnvöld því samþykkt framsalsbeiðnina
eingöngu á grundvelli ætlað brots varnaraðila samkvæmt fyrsta lið.
Varnaraðili neiti harðlega að hafa brotið af sér eins og
lýst sé í fyrsta brotalið. Veki varnaraðili athygli á því að hann hafi
yfirgefið Pólland sumarið 2000 og komið næst til Póllands í stutta heimsókn vorið
2001 vegna andláts móður hans. Síðan hafi varnaraðili ekki komið til Póllands. Samkvæmt
þessu hafi varnaraðili ekki verið staddur í Póllandi þegar ætluð brot hafi átt
sér stað. Þessu til viðbótar vilji varnaraðili vekja athygli varðandi meinta
hlutdeild A sem tilgreind sé í brotalýsingu pólskra stjórnvalda. A hafi, frá
því hún hafi flutt til Íslands, farið á hverju ári til Póllands. Er hún hafi
heimsótt landið á árinu 2007 hafi hún verið handtekin og hún borin þessum
sökum. Til að losna frá lögreglu hafi hún undir hótunum verið látin skrifa
undir yfirlýsingu um sekt sína og varnaraðila. Þrátt fyrir þetta hafi hún ekki
verið lögsótt af pólskum yfirvöldum og ekki hafi verið krafist framsals á
henni, sem ætti að liggja beinast við í ljósi framsalskröfu á hendur
varnaraðila.
Telji varnaraðili að áður getinn B hafi verið að reyna að
koma sök á sig þar sem varnaraðili hafi unnið sem uppljóstrari lögreglunnar og
aðilinn hafi vitað um það. Eins og að framan sé getið þá hafi varnaraðili ekki
verið í felum frá pólskum yfirvöldum með dvöl sinni á Íslandi. Þegar A hafi
verið handtekin hafi varnaraðili verið í sambandi við saksóknara í Póllandi og gefið
upp heimilisfang sitt á Íslandi, jafnframt því sem varnaraðili hafi gefið upp
nafn og pólskt heimilisfang föður varnaraðila. Það sé ekki fyrr en rétt tæpum
ellefu árum frá því að varnaraðili hafi átt að hafa framið hinn meinta glæp að
hann fái vitneskju frá lögreglunni á Íslandi um að hann sé eftirlýstur af pólskum
yfirvöldum vegna þessa. Aldrei hafi borist boð eða tilkynningar frá pólskum
yfirvöldum vegna þessara mála, sem séu tilefni framsalsbeiðninnar, þrátt fyrir
að yfirvöldunum hafi mátt vera fullkunnugt um flutning varnaraðila til Íslands
og þrátt fyrir að þeim hafi jafnframt átt að vera kunnugt um heimilisfang
varnaraðila á Íslandi. Varnaraðili hafi verið í góðri trú er hann hafi yfirgefið
Pólland að hann ætti þar engin óuppgerð mál.
Ljóst megi vera að pólsk yfirvöld hafi á engan hátt staðið
sig gagnvart varnaraðila hvað varði títtnefnt meint afbrot hans, sem
varnaraðili hafi átt að hafa framið á tímabilinu frá desember árið 2000 til
desember árið 2001. Sú skylda hvíli á pólskum sem og íslenskum yfirvöldum að
lögsækja og dæma í sakamálum án ástæðulauss dráttar. Eins og gögnin í málinu
frá yfirvöldum í Póllandi beri með sér þá sé ekki fyrr en í mars 2007, sem
pólsk yfirvöld gefi út handtökuskipun og eftirlýsingu á varnaraðila. Þá hafi
verið liðin tæp sjö ár frá fyrsta meinta broti varnaraðila. Varnaraðili telji að pólsk stjórnvöld hafi
með seinagangi sínum brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála
Evrópu, sem kveði á um að rétt sakborninga um opinbera málsmeðferð innan
hæfilegs tíma. Bæði Ísland og Pólland hafi lögfest sáttmálann. Fram komi í
greinargerð með lögfestingu sáttmálans, að við mat á því hvort ákvæði þetta
hafi verið brotið, þá skuli horfa til þriggja þátta. Hversu flókið málið sé,
hegðun aðila við meðferð málsins og hvernig dómstólar og stjórnvöld hafi staðið
að meðferð málsins. Ljóst megi vera að hið meinta sakamál og ekkert í hegðun varnaraðila
frá broti og þar til hann hafi fengið vitneskju um málið síðla árs 2011 geti
talist ámælisvert. Hann sé til staðar á Íslandi allan tímann og hafi pólsk
stjórnvöld haft upplýsingar um dvalarstað hans á Íslandi, a.m.k. frá árinu 2007.
Megi af málavöxtum álykta að bæði stjórnvöld og dómstólar í Póllandi hafi á
engan hátt staðið rétt að málum gagnvart varnaraðila. Pólsk stjórnvöld hafi því
brotið á lögvörðum mannréttindum varnaraðila til réttlátrar málsmeðferðar og
því beri með vísan til 7. gr. laga nr. 13/1984 að hafna framkominni
framsalskröfu.
Þá telji varnaraðili að héraðsdómi beri, þegar hann taki
ákvörðun í málinu, að vega og meta hagsmuni pólskra yfirvalda af því að fá
varnaraðila framseldan, annars vegar, og hins vegar hagsmuni varnaraðila, verði
fallist á framsalskröfuna. Aðstæður varnaraðila séu þannig að hann eigi þrjú
börn með tveimur konum, sem öll séu búsett hér á landi og greiði varnaraðili
meðlög með tveim barnanna, sem séu fimm og tólf ára. Varnaraðili, sem hafi
verið búsettur á Íslandi í rétt tæp tólf ár, stundi samviskusamlega sína vinnu
og hafi ekki komist í kast við lögin síðastliðin fjögur ár. Framsal nú myndi raska aðstæðum varnaraðila
allverulega, sem og börnum og barnsmæðrum hans og hljóti það að vega þyngra en
hagsmunir pólskra yfirvalda að fá varnaraðila framseldan vegna meints glæps sem
á að hafa verið framinn fyrir tæpum tólf árum og varnaraðili hafi neitað að
gangast við. Með vísan til þessa, svo og til meðalhófsreglu 12. gr.
stjórnsýslulaga nr. 37/1993 beri að hafna framkominni framsalskröfu.
Til stuðnings kröfum sínum vísar varnaraðili til laga nr.
13/1984, 12. gr. laga nr. 37/1993 og til 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála
Evrópu.
IV
Í 1. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra
aðstoð í sakamálum kemur fram að þann sem í erlendu ríki er grunaður, ákærður
eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað sé heimilt að framselja samkvæmt lögunum.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. er framsal á manni aðeins heimilt ef verknaður eða
sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum
lögum.
Svo sem að framan er rakið hafa
pólsk yfirvöld krafist framsals á varnaraðila vegna ætlaðra fíkniefnabrota
hans. Sú háttsemi varnaraðila sem honum er gefin að sök í heimalandi sínu myndi
hér á landi varða við 173. gr. a laga nr. 19/1940 og 2. gr., sbr. 5. og 6. gr.
laga nr. 65/1974. Við slíkum brotum liggur allt að 12 ára fangelsi og því
fyrnist sök á 15 árum, sbr. 4. tl. 1. mgr. 81. gr.
laga nr. 19/1940. Ákvæði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 girðir ekki fyrir
framsal á varnaraðila.
Samkvæmt gögnum málsins var
varnaraðili eftirlýstur í Póllandi í marsmánuði 2007 vegna brotanna sem sögð
eru hafa átt sér stað á árunum 2000 og 2001. Samkvæmt því stendur fyrning sakar
ekki í vegi fyrir framsali.
Innanríkisráðuneytið hefur í
ákvörðun sinni frá 17. febrúar 2012 metið annars vegar hagsmuni pólskra
yfirvalda af því að fá varnaraðila framseldan með tilliti til grófleika
brotsins sem beiðnin er reist á og hversu langt er um liðið síðan það var
framið og hins vegar hagsmuna varnaraðila af því að synjað verði um framsal. Verður ekki annað séð en að það mat hafi verið
framkvæmt með réttum og málefnalegum hætti. Verður það mat ekki endurskoðað í
máli þessu. Hefur dráttur á kröfu um framsal ekki áhrif á niðurstöðu dómsins.
Þegar allt framangreint er virt eru
uppfyllt skilyrði um framsal á varnaraðila og er staðfest ákvörðun innanríkisráðherra
17. febrúar 2012 eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 greiðist
þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila úr ríkissjóði og með hliðsjón af
umfangi málsins þykir þóknun réttargæslumanns, að teknu tilliti til
virðisaukaskatts, hæfilega ákveðin 238.450 krónur.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Ákvörðun innanríkisráðherra frá 17. febrúar 2012, um að
framselja varnaraðila, X, kt. [...], til Póllands, er
staðfest.
Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Brynjólfs
Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 238.450 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
.