Hæstiréttur íslands

Mál nr. 461/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsvist


Miðvikudaginn 23

 

Miðvikudaginn 23. ágúst 2006.

Nr. 461/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Ingimundur Einarsson varalögreglustjóri)

gegn

X

(Jón Jónsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhaldsvist.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að tilhögun á gæslu X skyldi sæta takmörkunum samkvæmt b., c. og d. liðum 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Jóns Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. ágúst 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. ágúst 2006, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að gæsluvarðhald, sem hann sætir, verði án takmarkana eða að dregið verði með tilteknum hætti úr þeim takmörkunum sem hann sætir í gæsluvarðhaldinu. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður um fyrirkomulag gæsluvarðhalds verði felldur úr gildi. Til vara krefst hann að gæsluvarðhaldið verði einungis með þeim takmörkunum sem greinir í c. lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991, en til þrautavara einungis þeim sem greinir í d. lið ákvæðisins. Að þessu frágengnu krefst hann að gæsluvarðhaldið verði aðeins með þeim takmörkunum sem greinir í c. og d. liðum sama ákvæðis.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

         

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. ágúst 2006.

          Ár 2006, föstudaginn 18.. ágúst, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur í málini: R-425/2006. Kærandi, X, gerir aðallega þær kröfur að fyrirkomulag gæsluvarðhalds verði án takmarkana, en til vara að takmörkunum verði fækkað. Í báðum tilfellum er krafist úrskurðar dómara í samræmi við 2. mgr. 75. gr. laga nr. 19/1991.

          Í kæru er málsatvikum lýst svo að kærandi, sem sé litháenskur ríkisborgari, hafi komið til landsins með ferjunni Norrænu þann 6. júlí s.l. Við komuna hafi fundist í  bifreið hans um 12 kíló ætlaðs amfetamíns. Kærandi hafi í yfirheyrslum fyrir lögreglu játað að hafa vitað af efnunum í bílnum, en neitað að hafa vitað að um fíkniefni hafi verið að ræða heldur talið að efnin væru sterar fyrir hross. Kærandi hafi allar götur síðan setið í gæsluvarðhaldi og fyrirkomulag þess verið með þeim takmörkunum sem lög frekast heimili. Upphaflegur gæsluvarðhaldsúrskurður hafi runnið út þann 4. ágúst s.l. og gæsluvarðhaldsvist kæranda sama dag verið framlengt með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-400/2006, en takmarkanir skv. e-lið 108. gr. laga nr. 19/1991 felldar niður. Úrskurðurinn hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar nr. 431/2006.  Í dómi Hæstaréttar hafi kröfu um að fyrirkomulag gæsluvarðhaldsvistar væri án takmarkana vísað frá dómi. Kærandi krefjist því úrskurðar um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar með heimild í 75. gr. laga nr. 19/1991.

          Kærandi telur að í engu hafi verið sýnt fram á að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að hann verði enn látinn sæta þeim takmörkunum á gæsluvarðhaldsvistinni sem ákveðnar voru í upphafi rannsóknarinnar, þ.e. takmarkanir skv. b., c., og d-lið 1. mgr. 108. gr. laga nr. 19/1991. Engin raunveruleg hætta sé á að kærandi geti torveldað rannsókn málsins ef hann hefur samneyti við aðra fanga eða fái að senda eða móttaka bréf, enda væri þá rannsóknara heimilt að athuga efni þeirra bréfa.  Kærandi telur að ekki hafi verið sýnt fram á að sama markmiði megi ekki ná með öðru og vægara móti en algerri einangrunarvist. Einangrun og svipting réttar t.d. til heimsókna eða móttöku og sendingu bréfa sem og samskipta kæranda við sína nánustu byggir á undantekningu frá meginreglu um réttindi gæsluvarðhaldsfanga en svo gríðarlega íþyngjandi skerðing persónufrelsis sem alger einangrunarvist er, þarf að styðjast við sérlega haldgóð rök. Miðað við framgang rannsóknarinnar, sem komin er á lokastig, verður ekki séð, að svo veigamiklar takmarkanir á rétti kæranda eigi við slík rök að styðjast.

          Af hálfu ákæruvaldsins er kröfu kæranda mótmælt og á það bent að rannsókn á innflutningi á 12 kílóum af amfetmíni sem kærandi hafi átt aðild að standi enn yfir. Beðið sé upplýsinga frá erlendum lögregluyfirvöldum, en þann 26. júlí 2006 hafi verið send út beiðni um réttaraðstoð (Rogatory letter) til lögregluyfirvalda í Litháen þar sem óskað sé eftir aðstoð við rannsókn málsins hvað varðar þátt meintra samverkamanna í Litháen.

          Rannsókn málsins miðist nú að því að upplýsa nánar um sendingu fíkniefnanna til Íslands og aðdraganda þess að kærandi og félagi hans hafi haldið af stað til Íslands með fíkniefnin í bifreiðinni. Upplýsa þurfi um möguleg tengsl þeirra innbyrðis vegna hins meinta brots og möguleg tengsl við annan aðila. Einnig þurfi að rannsaka aðra mögulega vitorðsmenn í Litháen. Upplýsa þurfi hvar, hvenær og hvernig fíkniefnunum hafi verið komið fyrir í bifreiðinni og hverjir hafi komið þeim fyrir. Þá miðist rannsóknin að því að upplýsa um hvort kærandi og félagi hans hafi vitað af fíkniefnunum og hvort þeir hafi átt að fá þóknun fyrir að flytja þau til landsins. Jafnframt þurfi að upplýsa um hverjir hafi átt að taka á móti fíkniefnunum á Íslandi og hvernig afhending hafi átt að fara fram.   

          Af hálfu lögreglu er talin hætta á því að verði gæsluvarhaldsvist kæranda án takmarkana þeirra sem nú gildi um hana sé hætt við að kærandi geti eftir atvikum með milligöngu annarra komið upplýsingum til annarra grunaðra og haft áhrif á rannsókn málsins.

          Kærði sætir nú gæsluvarðhaldi til 25. ágúst nk. skv. a. lið 103. gr. laga nr. 19/1991 samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 4. ágúst sl. sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 9. ágúst sl. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 7. júlí sl. vegna þess að 12 kíló af amfetamíni fundust í bifreið hans er hann kom til landsins 6. júlí sl.

          Rannsókn málsins er ekki lokið enda beðið upplýsinga frá erlendum lögregluyfirvöldum vegna ætlaðra samverkamanna í Litháen. Fallist er á það með lögreglustjóra að rannsóknarnauðsynjar krefji að kærandi sé áfram látinn vera í einrúmi sbr. b- lið 108. gr. laga nr. 19/1991 eins og hér háttar til um umfang rannsóknar. Þá þykja ekki efni til að aflétta  banni við heimsóknum skv. c-lið nefndrar lagagreinar eða samskiptabanni skv. d-lið sömu greinar. Þykir ella hætta á að kærandi geti haft áhrif á rannsókn málsins svo sem haldið er fram af lögreglu.

          Samkvæmt þessu verður kröfu um breytingu á fyrirkomulagi gæsluvarðhalds kæranda synjað.

ÚRSKURÐARORÐ

          Kröfu X um að fyrirkomulag gæsluvarhalds sem hann sætir verði án takmarkana eða að takmörkunum verði fækkað er hafnað.