Hæstiréttur íslands

Mál nr. 479/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Gagn
  • Vitni


Mánudaginn 19. september 2011. 

Nr. 479/2011.

Vignir Rafn Gíslason

(Helgi Jóhannesson hrl.)

gegn

Landsbanka Íslands hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Gögn. Vitni.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á beiðni slitastjórnar L hf. um að endurskoðandinn V yrði kvaddur fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar vegna slitameðferðar L hf. og honum gert skylt að afhenda tiltekin vinnugögn. Hæstiréttur taldi að V væri skylt að gefa skýrslu fyrir héraðsdómi vegna slitameðferðar L hf. samkvæmt 81. og 82. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Um kröfu L hf. um afhendingu gagna segir meðal annars í dómi Hæstaréttar að kröfunni væri beint að V einum, en ekki endurskoðunarfélaginu sem V starfaði hjá. Krafa L hf. væri víðtækari en svo að V gæti einn uppfyllt hana þótt á honum hvíldi skylda samkvæmt 1. mgr. 81. gr. laga nr. 21/1991. Með þessum fyrirvara var V gert að láta L hf. í té vinnugögn vegna starfa hans í þágu félagsins. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. ágúst 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júlí 2011, þar sem fallist var á beiðni varnaraðila um að sóknaraðili yrði kvaddur fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur til skýrslugjafar vegna slitameðferðar varnaraðila og sóknaraðila gert að afhenda varnaraðila öll vinnugögn vegna endurskoðunar á ársreikningum varnaraðila og könnunar á árshlutareikningum hans á nánar tilgreindu tímabili. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfum varnaraðila hafnað. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Varnaraðili sætir slitameðferð samkvæmt XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Sóknaraðili er löggiltur endurskoðandi og stjórnarformaður PricewaterhouseCoopers ehf. og annaðist hann ásamt öðrum endurskoðendum og starfsmönnum félagsins endurskoðun ársreikninga Landsbanka Íslands hf. vegna rekstraráranna 2006 og 2007 og könnun á árshlutareikningi fyrstu sex mánaða ársins 2008.

Með bréfi skilanefndar og slitastjórnar varnaraðila 26. janúar 2010 til PricewaterhouseCoopers ehf. var þess óskað að afhent yrðu „öll gögn er PwC hefur undir höndum í tengslum við vinnu sína fyrir LBI við gerð ársreikninga fyrir árin 2005, 2006 og 2007“ og „öll gögn er varða könnunaráritun PwC fyrir árið 2008.“ Með bréfi 4. febrúar 2010 hafnaði félagið beiðninni. Í bréfinu segir meðal annars: „Þau gögn sem PwC hefur undir höndum vegna fyrrgreindrar vinnu fyrir LBI eru vinnugögn sem útbúin hafa verið af PwC í tengslum við vinnu sína sem slíka og eingöngu til afnota fyrir endurskoðendurna sjálfa, en ekki aðra. Er hluti þeirra jafnframt í sérstökum hugbúnaðarkerfum, sem ekki eru öðrum en PwC aðgengileg eða ætluð til notkunar annarra.“

Með bréfi félagsins til varnaraðila 26. febrúar 2010 var vísað til fundar fulltrúa PricewaterhouseCoopers ehf. með fulltrúum slitastjórnar varnaraðila 19. sama mánaðar og niðurstaða fundarins rakinn þess efnis að „PwC myndi senda LBI lista yfir bréf og skýrslur sem afhent voru LBI og eftirlitsaðilum í tengslum við ytri endurskoðun, könnun og aðra staðfestingarvinnu árin 2005, 2006, 2007 og 2008“ og lista yfir „bréf sem voru send frá  endurskoðunarnefnd og æðstu stjórnendum LBI til PwC sömu ár.“

Í bréfi slitastjórnar varnaraðila 29. mars 2010 kemur fram að eftir athugun gagna á umræddum lista sé það álit slitastjórnar að gögnin séu ekki fullnægjandi og var ítrekuð krafa, með vísun til 1. mgr. 81. gr. og 82. gr. laga nr. 21/1991, um að „PwC afhendi slitastjórn LBI öll rafræn vinnuskjöl, vinnuskjöl á hörðum diskum og á pappír.“ Með vinnuskjölum væri átt við „öll gögn (þ.m.t. tölvupósta, fundarbeiðnir, dagbækur, fundarplön, fundargerðir og minnispunkta) sem gerð voru eða safnað var við endurskoðunina eða könnunina í þeim tilgangi að fá fram og varðveita nauðsynlegar upplýsingar og gögn PwC og starfsmanna þess sem lágu til grundvallar endurskoðunar eða könnunar á reikningsskilum LBI.“ Jafnframt var tekið fram að ofangreind upptalning væri til viðmiðunar og ekki bæri að líta svo á að um tæmandi talningu væri að ræða. Í lok bréfsins segir að verði gögnin ekki afhent eigi síðar en 12. apríl 2010 sjái „slitastjórn og skilanefnd sér ekki annað fært en að fara þess skriflega á leit við héraðsdómara að [framkvæmdastjóri PricewaterhouseCoopers ehf.] verði kvaddur fyrir dóm til að gefa skýrslu um málefnið sem vitni, sbr. heimild í 3. mgr. 81. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Yrði samhliða farið fram á að dómari úrskurðaði um skyldu félagsins til afhendingar gagnanna.“

Með bréfi félagsins 12. apríl 2010 var farið yfir samskipti aðila eins og þau horfðu við félaginu og sá skilningur látinn í ljós að framangreind ákvæði laga nr. 21/1991 um skyldu til afhendingar gagna yrðu ekki túlkuð jafn rúmt og varnaraðili kysi.

Í tölvubréfi varnaraðila til lögmanns PricewaterhouseCoopers ehf. 30. september 2010 kemur fram að slitastjórn varnaraðila hefði hug á að taka skýrslur af þremur nafngreindum endurskoðendum hjá félaginu vegna endurskoðunarstarfa þeirra fyrir varnaraðila. Þessu tölvubréfi svaraði lögmaður félagsins 6. október sama ár með hugleiðingum um tilhögun skýrslugjafar. Varnaraðili svaraði með tölvubréfi degi síðar þar sem ítrekað var að stefnt væri að því að skýrslur yrðu gefnar fyrir héraðsdómi jafnframt því sem skorað var á félagið að láta í té umbeðin gögn.

Með bréfi varnaraðila 29. nóvember 2010 til PricewaterhouseCoopers ehf. komu fram margvíslegar athugasemdir um ætlaða vanrækslu vegna starfa félagsins í þágu varnaraðila. Var óskað eftir athugasemdum við efni bréfsins og afstöðu til bótaskyldu félagsins og starfsmanna þess, jafnframt því sem ítrekuð var krafa um afhendingu gagna. Með bréfi lögmanna félagsins 23. desember 2010 var þessum athugasemdum varnaraðila andmælt jafnframt því sem ítrekuð var synjun um afhendingu frekari gagna.

Með tölvubréfi 23. maí 2011 til lögmanns félagsins ítrekaði varnaraðili enn og aftur að yrði ekki fallist á skýrslugjöf hjá slitastjórn með þeirri tilhögun sem áður hafði verið kynnt myndi verða óskað eftir skýrslum fyrir héraðsdómi á grundvelli heimildar í 81. gr. laga nr. 21/1991 af sóknaraðila og tveimur öðrum nafngreindum endurskoðendum hjá félaginu. Með bréfi lögmanns félagsins 30. maí 2011 til slitastjórnar varnaraðila voru enn gerðar athugasemdir við boðaða framkvæmd skýrslutöku og dregin í efa heimild til hennar, nú meðal annars vegna framangreinds bréfs varnaraðila 29. nóvember 2010. Þá voru með öðru bréfi sama dag einnig ítrekuð andmæli félagsins við afhendingu gagna.

Með bréfi sem barst héraðsdómi 6. júní 2011 var loks send krafa sú sem um ræðir í máli þessu.

Málavöxtum er að öðru leyti lýst í hinum kærða úrskurði og eru málsástæður og lagarök aðila þar nægilega rakin.

II

Eins og að framan greinir er kröfugerð varnaraðila tvíþætt. Annars vegar krefst hann þess að sóknaraðila verði gert skylt að mæta fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar í því skyni að veita upplýsingar vegna slitameðferðar varnaraðila en hins vegar að sóknaraðili afhendi varnaraðila „öll vinnugögn vegna endurskoðunar á ársreikningum Landsbanka Íslands hf. árin 2007 og 2008 vegna rekstraráranna 2006 og 2007 og öll vinnugögn vegna könnunar á árshlutareikningum rekstrarárið 2008.“

Fram er komið að sóknaraðili mun meðal annars hafa unnið við gerð ársreikninga og árshlutareikninga og endurskoðun fyrir varnaraðila áður en varnaraðili var tekinn til slitameðferðar. Fallist er á með héraðsdómi að ákvæði 81. gr. og 82. gr. laga nr. 21/1991 gildi við slitameðferð varnaraðila, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002. Af 1. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991 leiðir meðal annars að löggiltum endurskoðendum sem sýslunarmönnum svo og öðrum sem geta haft vitneskju um eignir og skuldir varnaraðila vegna viðskiptatengsla við hann eða af öðrum sambærilegum ástæðum er skylt að mæta á fund slitastjórnar, veita upplýsingar og láta í té gögn um málefni búsins sem krafist er. Á sóknaraðila hvílir skylda samkvæmt lagaákvæðinu sem ekki verður séð að hann hafi fullnægt. Því hefur varnaraðili það úrræði að krefjast skýrslugjafar sóknaraðila fyrir héraðsdómi samkvæmt 2. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 81. gr. sömu laga, en samkvæmt síðastgreindu ákvæði fer eftir ákvæðum laga um meðferð einkamála um kvaðningu vitnis, skyldu til vitnisburðar, viðurlög á hendur vitni og skýrslutökuna sjálfa, eftir því sem átt getur við. Verður hinn kærði úrskurður staðfestur um þennan þátt málsins.

Eins og rakið hefur verið hefur varnaraðili í aðdraganda málsins krafist þess að félag það sem sóknaraðili starfar hjá, PricewaterhouseCoopers ehf., afhendi öll gögn sem eru í vörslu þess og varða varnaraðila. Þrátt fyrir það hefur varnaraðili valið þann kostinn að beina dómkröfu um þetta að sóknaraðila einum, en ekki félaginu. Fyrir liggur að sóknaraðili vann ekki einn að þeim verkum sem krafa varnaraðila lýtur að heldur unnu fleiri starfsmenn PricewaterhouseCoopers ehf. að þeim. Krafa varnaraðila, eins og hún er orðuð, er víðtækari en svo að sóknaraðili geti einn uppfyllt hana þótt á honum hvíli skylda samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 81. gr. laga nr. 21/1991 um afhendingu gagna. Samkvæmt þessu verður sóknaraðili dæmdur til að láta varnaraðila í té vinnugögn sín vegna starfa sinna í þágu varnaraðila. Með vísan til þessa verður fallist á þessa kröfu varnaraðila á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Sóknaraðila, Vigni Rafni Gíslasyni, er skylt að gefa skýrslu fyrir héraðsdómi vegna slitameðferðar varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., og afhenda varnaraðila vinnugögn sín vegna starfa við endurskoðun á ársreikningum varnaraðila árin 2007 og 2008 vegna rekstraráranna 2006 og 2007 og vegna könnunar á árshlutareikningum rekstrarárið 2008.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júlí 2011.

Með beiðni móttekinni í dóminum 22. júní 2011 fór sóknaraðili, slitastjórn Landsbanka Íslands hf., þess á leit að kvaddur yrði fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur, varnaraðili, Vignir Rafn Gíslason endurskoðandi, til skýrslugjafar til að veita slitastjórn upplýsingar vegna slitameðferðar Landsbanka Íslands hf.

Þá var þess jafnframt krafist að varnaraðila yrði gert skylt að afhenda öll vinnugögn vegna endurskoðunar á ársreikningum Landsbanka Íslands hf. árin 2007 og 2008 vegna rekstraráranna 2006 og 2007 og öll vinnugögn vegna könnunar á árshlutareikningum rekstrarárið 2008.

Sóknaraðili krafðist einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess aðallega að beiðni sóknaraðila um skýrslutöku fyrir dómi verði hafnað. Til vara er þess að krafist ,,að einvörðungu dómskipuðum meðlimum slitastjórnar, ásamt lögmanni sem kann að gæta hagsmuna sóknaraðila í máli þessu, verði heimilað að vera viðstaddir skýrslutöku af varnaraðila. Til þrautavara er þess krafist að einungis dómskipuðum meðlimum slitastjórnar, ásamt lögmanni sem kann að gæta hagsmuna sóknaraðila í máli þessu verði heimilað að taka þátt í skýrslutöku af varnaraðila fyrir dómi“.

Jafnframt krefst varnaraðili þess að framangreindri beiðni sóknaraðila um afhendingu vinnugagna verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar að mati dómsins.

Málflutningur um kröfu sóknaraðila fór fram 6. júlí 2011 og var beiðni sóknaraðila að því búnu lögð í úrskurð dómsins.

Málsatvik

Landsbanki Íslands hf. er í slitameðferð samkvæmt XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Slitameðferð bankans hófst 22. apríl 2009 með gildistöku laga nr. 44/2009, um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 með síðari breytingum. Samkvæmt lögum þessum gilda helstu reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um slit bankans.

Varnaraðili er löggiltur endurskoðandi og starfar hjá PriceWaterhouseCoopers, (hér eftir nefnt PWC) sem annaðist endurskoðun á ársreikningum Landsbanka Íslands hf., vegna áranna 2006 og 2007 og könnun á árshlutareikningi fyrstu 6 mánuði ársins 2008. Varnaraðili er jafnframt einn af eigendum PWC.

Af hálfu sóknaraðila hefur þess verið óskað að varnaraðili gæfi skýrslu hjá slitastjórn og afhenti þar tilgreind gögn. Hefur sú beiðni sóknaraðila grundvallast á 81. og 82. gr. laga nr. 21/1991. Hefur sóknaraðili farið þess á leit að skýrslutakan færi fram í húsnæði slitastjórnarinnar og að skýrslutakan væri tekin upp í hljóð og mynd. Einn slitastjórnarmaður hefur stýrt þeim skýrslutökum sem farið hafa fram, auk þess sem sérfræðingur sem slitastjórn hefur haft í þjónustu sinni, hefur verið slitastjórn til aðstoðar, þegar þörf hefur verið á. Hefur aðkoma þessa sérfræðings verið reist á 1. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991.

Fyrir liggur að varnaraðili hefur neitað að verða við ósk slitastjórnar um að skýrslutaka fari fram með þeim hætti sem slitastjórn hefur óskað eftir. Hefur varnaraðili fallist á að mæta til skýrslutöku, sem yrði hljóðrituð og færi að öðru leyti fram í samræmi við ákvæði 81. gr. laga nr. 21/1991, en hann hefur neitað að gefa skýrslu fyrir slitastjórn, sem yrði tekin upp í mynd. Þá hefur hann mótmælt því að viðstaddur skýrslutökuna séu aðrir en slitastjórnarmenn. Jafnframt liggur fyrir að varnaraðili hefur neitað að afhenda gögn þau sem slitastjórn hefur óskað eftir.            

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili kveður að á grundvelli 81. og 82. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið teknar skýrslur af um 40 fyrrum stjórnarmönnum, bankastjórum og starfsmönnum Landsbanka Íslands hf. Hafi skýrslutökur í öllum tilvikum nema í einu þeirra, farið fram í húsnæði slitastjórnar. Til þess að unnt væri að staðreyna réttmæti endurrita af skýrslutökum, sem í sumum tilvikum hafi staðið í 1-3 daga, hafi þær verið teknar upp í mynd og hljóðritaðar. Þá hafi að minnsta kosti einn slitastjórnarmaður verið viðstaddur skýrslutökur og stýrt þeim, auk þess sem sérfræðingur sem slitastjórn hafi haft í þjónustu sinni, hafi verið til aðstoðar, þar sem þörf hafi krafist. Slitastjórn hafi talið mikilvægt að eitt gengi yfir alla í þessum efnum og hafi hún því kynnt að frávik frá þessu fyrirkomulagi yrðu ekki samþykkt.

Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa verið endurskoðanda hjá PWC og hafi hann unnið að gerð ársreikninga og árshlutareikninga Landsbanka Íslands hf. á því tímabili sem um ræði.

Þess hafi verið farið á leit við hann að hann mætti til skýrslugjafar og gæfi þar skýrslu í samræmi við 81. gr. laga nr. 21/1991. Hann hafi sett ákveðin skilyrði fyrir því, sem slitastjórn geti ekki samþykkt. Þannig hafi hann sett þau skilyrði að skýrslutakan verði ekki tekin upp í mynd, að ekki verði viðstaddur sérstakur aðstoðarmaður slitastjórnar, sem sé samkeppnisaðili PWC og þá hafi hann krafist þess að starfsmenn PWC gæfu sameiginlega skýrslu fyrir slitastjórn.

Sóknaraðili telur ekki unnt að verða við óskum varnaraðila og kveðst ekki hafa séð annan kost, en að óska eftir að varnaraðili yrði kvaddur fyrir dóm í samræmi við 3. mgr. 81. gr. laga nr. 21/1991.

Þá hafi sóknaraðili óskað eftir því að fá afhent vinnugögn vegna endurskoðunar ársreikninga bankans á grundvelli 1. mgr. 81. og 1. mgr. 82. gr. laga nr. 21/1991. Telur sóknaraðili sig eiga rétt á að fá afhent vinnuskjöl endurskoðanda í því skyni að geta lagt mat á réttmæti reikningsskila bankans. Einnig til þess að sóknaraðila sé fært að leggja mat á hvort endurskoðun og könnun ársreikninga og árshlutareikninga hafi verið í samræmi við lagaskyldur. Engar takmarkanir sé að finna í ákvæðum 1. mgr. 81. gr. og 82 gr. laga nr. 21/1991 á því hvaða gagna slitastjórn geti krafist, aðrar en þær að gögnin varði slitameðferð bankans. Einungis hafi verið krafist afhendingar gagna er snerti slitameðferð bankans með beinum hætti. Með vinnugögnum sé átt við öll gögn sem gerð hafi verið eða safnað hafi verið við endurskoðunina eða könnunina í þeim tilgangi að fá fram og varðveita nauðsynlegar upplýsingar og gögn um endurskoðun sem legið hafi til grundvallar endurskoðun og könnun á reikningsskilum Landsbanka Íslands hf. tilgreind ár.

Í svarbréfi PWC frá 30. maí 2011 hafi því verið hafnað að afhenda öll þau gögn og því haldið fram að hluti þeirra sé eign endurskoðandans sjálfs. Jafnvel þótt á það yrði fallist leiddi það ekki til þess að óskylt væri að láta þau af hendi til slitastjórnar, enda sé ljóst að vinnugögnin varði slitameðferðina og þá hagsmuni sem slitastjórn fari með fyrir kröfuhafa bankans lögum samkvæmt.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili kveður í fyrsta lagi, að ekki séu fyrir hendi lagaskilyrði til að tekin verði af honum skýrsla fyrir dómi. Hann kveður að skilyrðum 81. gr. laga nr. 21/1991 sé ekki fullnægt. Hann hafi aldrei hafnað því að gefa skýrslu hjá sóknaraðila, eingöngu mótmælt fyrirhugaðri framkvæmd skýrslutökunnar. Í mótmælum hans felist ekki synjun varnaraðila á að verða við ósk um skýrslugjöf. Hann sé reiðubúinn til þess að gefa skýrslu, enda fari skýrslutakan fram á grundvelli 81. gr. laga nr. 21/1991. 

Í öðru lagi byggir varnaraðili mótmæli sín á því að hann hafi í reynd stöðu aðila máls í skilningi laga og því verði hann ekki skyldaður til að gefa skýrslu fyrir dómi sem vitni. Samkvæmt 3. mgr. 81. gr. laga nr. 91/1991 skuli fara eftir reglum um meðferð einkamála um kvaðningu, skyldu til vitnisburðar, viðurlög á hendur vitni og skýrslutökuna sjálfa. Gögn málsins beri skýrlega með sér að sóknaraðili hafi tekið ákvörðun um málshöfðun á hendur varnaraðila og PWC, þar sem varnaraðili sé helsti fyrirsvarsmaður sem stjórnarformaður félagsins, til heimtu skaðabóta. Þá bendi sömu gögn til þess að sóknaraðili sé enn í gagna- og upplýsingaöflun til að undirbyggja slíka málssókn. Vísar varnaraðili þessu til stuðnings til bréfs sóknaraðila frá 29. nóvember 2010, svo og til fjölmiðlaumfjöllunar.

Varnaraðili bendir á að í 1. mgr. 51. gr. laga nr. 91/1991 komi skýrt fram að vitni sé hver sá maður sem ekki er aðili máls eða fyrirsvarsmaður aðila. Ekki séu heimildir til að taka vitnaskýrslu af þeim sem njóti í reynd aðilastöðu eða muni gera það í fyrirhuguðu dómsmáli, sem vitnaskýrslunni sé ætlað að undirbyggja. Sé því engin lagaheimild til þess að fallast á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili gefi skýrslu fyrir dómi.

Verði ekki fallist á kröfu varnaraðila um synjun á skýrslugjöf fyrir dómi, er þess til vara krafist, að ekki verði aðrir en dómskipaðir slitastjórnarmenn og eftir atvikum lögmaður slitastjórnar viðstaddir skýrslutöku. Til þrautavara er þess krafist að einungis dómskipuðum slitastjórnarmönnum, ásamt lögmanni slitastjórnar verði heimilað að taka þátt í skýrslutöku af varnaraðila fyrir dómi. Varnaraðili kveður óviðeigandi og ósiðlegt að sérstakir ráðgjafar slitastjórnar, þar með talið endurskoðandi frá Deloitte hf. sem sé einn helsti samkeppnisaðili PWC og varnaraðila, séu viðstaddir skýrslutöku af varnaraðila og veiti til slíkrar skýrslutöku atbeina sinn. Eins og fram komi í bréfi PWC til sóknaraðila 23. desember 2010 hafi störf PWC og varnaraðila m.a. falist í því að láta í té álit á ársreikningum og ályktanir um árshlutauppgjör bankans. Í því hafi falist umsögn um hvort reikningsskilin, sem unnin hafi verið og lögð fram á ábyrgð stjórnenda bankans, hafi verið í samræmi við lög og settar reikningsskilareglur. Niðurstöður PWC og varnaraðila þar að lútandi hafi tekið mið af þeim gögnum og upplýsingum sem þeir hafi haft aðgang og legið hafi fyrir á þeim tíma þegar vinna þeirra fór fram. Meðal annars hafi margir ársreikningar stærstu skuldara Landsbanka Íslands hf. verið áritaðir fyrirvaralausri endurskoðunaráritun af hálfu Deloitte hf., sem og önnur gögn frá hinum sömu fyrirtækjum. Réttmæti þeirra endurskoðuðu reikningsskila hafi varnaraðili eða PWC engar forsendur haft til að draga í efa. Um fyrrgreinda stöðu Deloitte hf. hljóti sóknaraðila að hafa verið kunnugt. Þrátt fyrir það hafi sóknaraðili einmitt fengið Deloitte hf. sér til aðstoðar til að yfirfara og meta hvort varnaraðili og PWC sem jafnframt sé einn helsti samkeppnisaðili þeirra á markaði, hafi sinnt starfsskyldum sínum sem endurskoðandi bankans. Sé óhjákvæmilegt að draga í efa hæfi Delottie hf. til að koma að þeim störfum með hliðsjón af framangreindu.

 Telji varnaraðili þannig ekki lagaheimild fyrir hendi til að skýrslutaka verði framkvæmd með fyrrgreindum hætti. Slíkt sé sérlega íþyngjandi í því tilviki sem hér um ræði og því ljóst að fyrir hendi þurfi að vera skýr lagaheimild ef heimila ætti viðveru og þátttöku annarra en skiptastjóra við skýrslutökuna.

Varðandi kröfu sóknaraðila um afhendingu skjala bendir varnaraðili á að sú krafa sé óskýr og í raun ódómtæk. Beri því að hafna kröfunni þegar af þeirri ástæðu. Hvorki liggi fyrir endurskoðaður ársreikningur fyrir bankann vegna ársins 2008 né heldur einskorðist vinnugögn vegna endurskoðunar hvers árs við gögn sem verði til árið á eftir. Þá sé farið fram á afhendingu ótilgreinds og verulegs fjölda gagna. Samræmist það ekki ákvæði 2. mgr. 67. gr. laga nr. 21/1991 um meðferð einkamála. Þá sé öðrum skilyrðum þess ákvæðis ekki fullnægt.

Þá byggir varnaraðili á því að kröfu um afhendingu gagna sé beint að röngum aðila. Varnaraðili sé ekki eigandi gagnanna og verði því aldrei krafinn um afhendingu á þeim. Beri að beina slíkri kröfu að PWC, en félagið sé önnur persóna að lögum og eigandi allra gagna sem tengist endurskoðunarvinnu fyrir Landsbanka Íslands hf., en ekki varnaraðili. Þetta komi skýrt fram í ráðningarbréfum þeim sem sé að finna í málinu. Þetta megi sóknaraðila jafnframt vera ljóst.

Enn fremur byggir varnaraðili á því að sóknaraðili eigi ekki lögvarða kröfu á því að fá vinnugögn endurskoðanda afhent. Felist slík heimild hvorki í 81. né í 82. gr. laga nr. 21/1991. Vinnugögnin séu skýr eign PWC og ekki ætluð öðrum. Þau hafi verið útbúin af PWC í tengslum við vinnu þeirra og eingöngu til afnota fyrir endurskoðendurna sjálfa, en ekki aðra. Sé hluti þeirra jafnframt í sérstökum hugbúnaðarkerfum, sem ekki séu öðrum en PWC aðgengileg eða ætluð til notkunar annarra. Í 9. gr. laga nr. 79/2008 um endurskoðendur sé mælt fyrir um að endurskoðendur ræki störf sín í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla. Í 73. gr. alþjóðlega endurskoðunarstaðalsins ISQC1 komi skýrt fram að vinnugögn endurskoðenda séu eign þeirra, nema annað sé sérstaklega tekið fram í landslögum viðkomandi lands. Slíku sé ekki fyrir að fara í íslenskum lögum. Í samræmi við það sé jafnframt ótvírætt kveðið á um í 18. gr. ráðningarbréfs frá 16. október 2007 og 32. gr. ráðningarbréfs frá 23. apríl 2008 að vinnugögnin séu eign PWC.

Hafa beri í huga að úrræði skiptastjóra til að óska eftir atbeina dómstóla vegna heimilda skiptastjóra samkvæmt lögum, séu mjög íþyngjandi í garð þeirra sem þau beinist að. Því beri að skýra þær heimildir þröngt, eða a.m.k. ekki víðtækara en leiði af orðum viðkomandi lagaákvæða. Bent sé á, að hvorki varnaraðili, samstarfsmenn hans né PWC hafi eignir eða skjöl undir höndum sem tilheyri þrotabúi Landsbanka Íslands hf. Sóknaraðili hafi engar eignarheimildir yfir þeim vinnugögnum sem kunni að vera til staðar hjá PWC til að krefjast afhendingar þeirra á grundvelli 81. eða 82. gr. laga nr. 21/1991. Þá hafi PWC nú þegar afhent sóknaraðila öll þau gögn og upplýsingar sem eðlilegt sé að gerð sé krafa um, vegna endurskoðunar- og könnunarvinnu fyrir Landsbanka Íslands hf. Þá hafi sóknaraðili ekki rökstutt hvernig þau gögn sem krafist er afhendingar á, hafi þýðingu við sjálfa slitameðferðina. Öll bókhalds- og uppgjörsgögn séu í vörslu sóknaraðila enda hafi gerð ársreikninga og árshlutareikninga verið á ábyrgð stjórnenda bankans. Þá hafi sóknaraðili ekki fært að því haldbær rök að varnaraðila væri skylt að bera vitni um efni gagnanna, væri hann ekki aðili málsins, sbr. 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991. Öðru fremi verði ráðið af málatilbúnaði sóknaraðila að hann ætli sér gögnin til að undirbyggja enn frekar málssókn á hendur PWC og varnaraðila um heimtu skaðabóta. Verði ekki séð að sóknaraðili geti byggt slíka gagnaöflun á þeim ákvæðum laga sem krafa hans sé studd við.

Niðurstaða.

Í máli þessu hefur slitastjórn Landsbanka Íslands hf. krafist þess að varnaraðila, Vigni Rafni Gíslasyni, verði gert að koma fyrir dóm til skýrslugjafar og til að veita slitastjórn upplýsingar vegna slitameðferðar Landsbanka Íslands hf. Þess hefur verið krafist að varnaraðila verði gert skylt að afhenda ákveðin vinnugögn, eins og nánar greinir í beiðni sóknaraðila til dómsins.

Slitameðferð bankans hófst 22. apríl 2009 með gildistöku laga nr. 44/2009, um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 með síðari breytingum.

Í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 44/2009 er kveðið svo á um, að þegar dómsúrlausn hefur gengið um að fjármálafyrirtæki sé tekið til slita, skipi héraðsdómari því slitastjórn. Að því leyti sem ekki sé mælt fyrir um á annan veg í lögum nr. 44/2009 gildi reglur um skiptastjóra við gjaldþrotaskipti um slitastjórn, störf hennar og þá menn sem eigi sæti í henni.

Í XIII. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. er fjallað um skiptastjóra, en þar eru skiptastjórum færðar mikilvægar og víðtækar heimildir til þess að sýsla með málefni þrotabús og  fara með skiptin. Þar á meðal eru mjög íþyngjandi heimildir eins og þær sem fram koma í 83. gr. laganna. Einnig er þar að finna heimildir skiptastjóra til þess að kalla á sinn fund þrotamann til upplýsingagjafar um málefni þrotabúsins, sbr. 81. gr. laga nr. 21/1991. Í 1. mgr. 81. gr. laganna er kveðið á um að þrotamanni sé skylt að verða við slíkri kvaðningu skiptastjóra til þess að veita upplýsingar og láta skiptastjóra í té gögn sem skiptastjóri krefst vegna gjaldþrotaskiptanna. Sama skylda hvílir samkvæmt ákvæðinu á stjórnarmönnum, endurskoðanda, framkvæmdastjóra, deildarstjóra og öðrum samsvarandi forráðamönnum félagsins eða stofnunarinnar.

Ágreiningur málsins snýst m.a. um það hvort skilyrði 81. gr. laga nr. 21/1991 um skyldu varnaraðila til að vera kvaddur fyrir dóm til skýrslu- og upplýsingagjafar séu uppfyllt.

Í málinu er fram komið að varnaraðili er tilbúinn til þess að gefa skýrslu hjá slitastjórn Landsbanka Íslands hf., verði skýrslan einungis hljóðrituð og verði skýrslan tekin aðeins að viðstöddum slitastjórnarmanni og eftir atvikum lögmanni slitastjórnar. Varnaraðili hefur hins vegar neitað afhenda þau gögn sem slitastjórn hefur óskað eftir að afhent yrðu.

Eins og greinir í 3. mgr. 81. gr. laga nr. 21/1991 má skiptastjóri fara þess á leit við héraðsdómara að hlutaðeigandi verði kvaddur fyrir dóm til þess að gefa skýrslu um málefni búsins sem vitni, ef sá hinn sami verður ekki við kröfu skiptastjóra um að koma á fund skiptastjóra til upplýsingagjafar um málefni búsins. Skal þá fara eftir reglum einkamála í héraði um kvaðningu vitnis, skyldu til vitnisburðar, viðurlög á hendur vitni og skýrslutökuna sjálfa, eftir því sem við getur átt.

Í 81. gr. laga nr. 21/1991 kemur skýrlega fram að þeir sem þar eru tilgreindir, séu skyldir að koma á fund skiptastjóra til þess að veita upplýsingar og láta í té gögn sem skiptastjóri krefst vegna gjaldþrotaskiptanna. Verði þeir ekki við kröfu skiptastjóra um upplýsingar eða gögn, megi skiptastjóri óska eftir því að þeir verði kvaddir fyrir dóm til að gefa skýrslu um málefnið sem vitni. Þannig eru þeir sem tilgreindir eru í 81. gr. laga nr. 21/1991 ekki einungis skyldir til þess að veita munnlega upplýsingar vegna gjaldþrotaskiptanna, heldur eru þeir einnig skyldir til að láta skiptastjóra í té gögn sem hann krefst vegna gjaldþrotaskiptanna. Neiti þeir að afhenda slík gögn, á úrræði það sem fram kemur í 3. mgr. 81. gr. laganna við, sbr. og 2. mgr. 82. gr. laganna og er þá skiptastjóra heimilt að krefjast þess að hlutaðeigandi verði kvaddur fyrir dóm.

Af hálfu varnaraðila hefur verið á því byggt að hann hafi í reynd stöðu aðila máls og verði hann því ekki skyldaður til að gefa skýrslu fyrir dómi sem vitni.

Í gögnum málsins er að finna bréf sóknaraðila til PWC, en varnaraðili er stjórnarformaður þess félags. Í bréfinu kemur fram að sóknaraðili hafi í hyggju að höfða mál á hendur því félagi og eftir atvikum starfsmönnum þess félags, til heimtu skaðabóta.

Eins og að framan greinir hafa slitastjórnir sömu víðtæku heimildir til að sýsla með málefni bús og skiptastjórar hafa. Heimildir þessar eru þeim nauðsynlegar til þess að þeim sé kleift að gæta hagsmuna þrotabúsins á sem víðtækastan hátt, m.a. svo að unnt sé tryggja jafnræði kröfuhafa. Þar á meðal er heimild sú sem skiptastjórum er færð með 81. gr. laga nr. 21/1991.

Jafnvel þótt fyrir liggi að sóknaraðili hafi látið uppi skoðanir sínar á því að hugsanlegt sé að höfðað verði skaðabótamál á hendur félagi því sem endurskoðaði ársreikninga Landsbanka Íslands hf. á því tímabili sem um ræðir í máli þessu, verður með engu móti fallist á að varnaraðili hafi í reynd stöðu aðila máls, þannig að hann verði ekki skyldaður til að koma fyrir dóm og veita slitastjórn upplýsingar vegna slitameðferðar sóknaraðila. Sú lagaheimild sem slitastjórn Landsbanka Íslands hf. byggir á til stuðnings kröfu sinni, er 81. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991. Beiðni sóknaraðila er einskorðuð við upplýsingar sem varnaraðili getur veitt vegna slitameðferðar sóknaraðila og beiðnin er ekki grundvölluð á 77. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Sú ályktun verður ekki dregin af því ákvæði laga um meðferð einkamála að skýrsla af varnaraðila verði ekki tekin fyrir dómi um málefni er varða slitameðferð sóknaraðila á grundvelli 81. gr. laga nr. 21/1991.

Í 1. mgr. 77. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. er kveðið svo á um skiptastjóri geti leitað aðstoðar við að leysa af hendi einstök verk á sína ábyrgð. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur slitastjórn fengið sérfræðing á vegum Deloitte hf. endurskoðunar til þess m.a. að vera viðstaddan skýrslutökur þegar þess gerist þörf.

Það er í höndum slitastjórnar að ákveða hvernig skýrslugjöf fer fram, að því gefnu að skýrslugjöfin sé í samræmi við ákvæði laga. Verður ekki séð að það verklag slitastjórnar að hafa sér til fulltingis og aðstoðar sérfræðing á sviði endurskoðunar við skýrslutökur, þegar þörf gerist á slíkri sérfræðikunnáttu, sé andstætt ákvæðum laga nr. 21/1991 eða brjóti í bága við lög að öðru leyti.

 Eins og að framan greinir hefur varnaraðili neitað því að afhenda þau gögn sem slitastjórn hefur krafist afhendingar á.

Í 81. og 82. gr. laga nr. 21/1991 felst víðtæk heimild til handa skipastjórum og slitastjórn til þess að krefjast afhendingar á gögnum vegna slitameðferðar. Hvorki er þar áskilið að gögnin séu sérstaklega tilgreind, né að þau séu í eigu þess sem á að láta í té gögnin, né heldur að þau séu í eigu þess sem krefst þeirra. Þannig getur slitastjórn krafist þess að þeir sem tilgreindir eru í 81. gr. og 82. gr. laga nr. 21/1991 láti slitastjórn í té þau gögn sem slitastjórnin krefst vegna gjaldþrotaskiptanna og varða málefni búsins.

Þegar allt framangreint er virt er fallist á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili, Vignir Rafn Gíslason endurskoðandi verði kvaddur til skýrslugjafar til að veita slitastjórn upplýsingar vegna slitameðferðar Landsbanka Íslands hf.

Þá er fallist á beiðni sóknaraðila um að varnaraðila verði gert skylt að afhenda öll vinnugögn vegna endurskoðunar á ársreikningum Landsbanka Íslands hf. árin 2007 og 2008 vegna rekstraráranna 2006 og 2007 og öll vinnugögn vegna könnunar á árshlutareikningum rekstrarárið 2008.

Jafnframt verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila 150.000 krónur í málskostnað.

Verður varnaraðili boðaður til skýrslugjafar fyrir dóminn í samráði við lögmenn aðila.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Fallist er á beiðni sóknaraðila, slitastjórnar Landsbanka Íslands hf., um að varnaraðili, Vignir Rafn Gíslason endurskoðandi verði kvaddur fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur til skýrslugjafar vegna slitameðferðar Landsbanka Íslands hf.

Þá er varnaraðila skylt að afhenda öll vinnugögn vegna endurskoðunar á ársreikningum Landsbanka Íslands hf. árin 2007 og 2008 vegna rekstraráranna 2006 og 2007 og öll vinnugögn vegna könnunar á árshlutareikningum rekstrarárið 2008.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 150.000 krónur í málskostnað.