Hæstiréttur íslands

Mál nr. 199/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gögn
  • Verjandi


Mánudaginn 29

 

Mánudaginn 29. apríl 2002.

Nr. 199/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

 

(Egill Stephensen saksóknari)

 

gegn

 

X

 

(Róbert Árni Hreiðarsson hdl.)

 

Kærumál. Gögn. Verjandi.

Hæstiréttur féllst á kröfu lögreglu um skýrslutöku af X fyrir dómi. Jafnframt var framlengdur í þrjár vikur frestur, sem lögregla hafði til að synja verjanda X um aðgang að öllum gögnum málsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. apríl 2002, þar sem sóknaraðila var veitt heimild til að synja verjanda varnaraðila um aðgang að gögnum varðandi rannsókn opinbers máls, sem beinist að varnaraðila, þar til sá síðastnefndi hefði gefið skýrslu fyrir dómi, þó ekki lengur en til þriðjudagsins 30. apríl nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að héraðsdómari taki skýrslu af varnaraðila og frestur sinn til að synja verjanda hans um aðgang að gögnum verði framlengdur í þrjár vikur.

Varnaraðili krefst þess aðallega að sér verði þegar í stað veittur aðgangur að öllum gögnum málsins, sem orðin séu viku gömul, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti til að fá niðurstöðu úrskurðarins breytt á þann hátt, sem um ræðir í aðalkröfu hans fyrir Hæstarétti. Verður þeirri kröfu því ekki nú komið að í málinu.

Samkvæmt gögnum málsins var varnaraðili handtekinn 15. apríl 2002 vegna gruns um aðild að innflutningi á um 30 kg af hassi. Var honum með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2002, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 19. sama mánaðar, gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 7. maí nk. Áður höfðu tveir menn verið handteknir vegna málsins og úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Þeir hafa báðir borið að varnaraðili eigi hlut að málinu. Því hefur hann neitað.

Með hinum kærða úrskurði var sóknaraðila sem áður segir veitt heimild til að synja verjanda varnaraðila um aðgang að gögnum málsins þar til varnaraðili hefði gefið skýrslu fyrir dómi, þó ekki lengur en til þriðjudagsins 30. apríl nk. Sóknaraðili krefst að frestur til þess verði ákveðinn þrjár vikur. Vísar sóknaraðili til þess að málið sé umfangsmikið og nauðsynlegt að taka frekari skýrslur af varnaraðila og bera undir hann gögn, en því verði ekki lokið þegar frestur sé á enda samkvæmt hinum kærða úrskurði.

Með vísan til þess, sem fram er komið um umfang málsins og framvindu rannsóknar þess, eru ekki efni til annars en að fallast á kröfu sóknaraðila eins og hún er fram sett. Samkvæmt því verður krafa sóknaraðila tekin til greina svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Fallist er á kröfu sóknaraðila, lögreglustjórans í Reykjavík, um skýrslutöku af varnaraðila, X, fyrir dómi. Jafnframt er framlengdur í þrjár vikur frestur, sem sóknaraðili hefur til að synja verjanda varnaraðila um aðgang að öllum gögnum málsins.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. apríl 2002.

Lögreglan krefst þess að framlengdur verið í þrjár vikur frestur sem lögregla hefur til að synja verjanda X um aðgang að gögnum er varða rannsókn máls nr. 010-2002-8307.

Verjandi kærða mótmælir kröfu lögreglu og krefst þess að fá aðgang að öllum gögnum málsins.

Hjá lögreglu er nú til rannsóknar innflutningur á um 30 kílóum af hassi frá Danmörku. Þann 12. mars sl. lagði ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík hald á umrædd fíkniefni og hefur málið verið til rannsóknar síðan, en strax var einn maður handtekinn. Raunar hafði lögregla unnið að málinu nokkurn tíma áður en hald var lagt á efnið, með símhlerunum og öðrum rannsóknaraðferðum.

Tveir menn hafi sætt gæsluvarðhaldi, auk kærða sjálfs, en þeir séu nú lausir. Auk þeirra hafi fleiri gefið skýrslur, bæði fyrir dómi og hjá lögreglu.

Kærði var handtekinn 15. þ.m. og sama dag var honum gert að sæta gæsluvarðhaldi til kl. 16:00 þann 7. maí nk. Úrskurður héraðsdómara var staðfestur í Hæstarétti föstudaginn 19. þ.m.

Kærði hefur ekki kannast aðild að málinu. Fyrir liggur þó að hann þekkir og hefur tengsl við a.m.k. einn grunaðra í málinu. Þá liggur fyrir að aðrir grunaðir í málinu hafa borið nokkrar sakir á kærða.

Lögreglan segir rannsókn miða vel. Miklu sé hins vegar ólokið varðandi þátt kærða og eigi eftir að taka ítarlegri skýrslur af honum og öðrum og afla frekari gagna. Meðal þess sem þurfi að spyrja kærða um er framburður annarra, hljóðrituð símtöl o.fl.

Lögreglan segir að ósamræmis gæti í framburði kærða og annarra sakborninga. Fari svo að kærða yrði heimilað að kynna sér gögn málsins á þessu stigi málsins væri hætta á að hann legði mat á sönnunarstöðu málsins og myndi aðlaga framburð sinn framburði annarra, eftir því sem honum hentaði. Með því móti gæti hann spillt sönnunarfærslu í málinu og torveldað og seinkað rannsókn þess. Sé því nauðsynlegt að krefjast þess að héraðsdómur framlengi þann frest sem lögregla hefur til að kynna verjanda gögn málsins.

Í sömu beiðni hefur lögreglan krafist þess að skýrsla verði tekin af kærða fyrir dómi.

Niðurstaða

Rannsókn beinist að ætluðu broti gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga.

Engu skiptir þó krafa lögreglu sé komin fram eftir að upphaflegur frestur skv. 43. gr. laga nr. 19/1991 rann út, en verjandi hefur enn ekki fengið aðgang að skjölum málsins.

Fallast ber á þá kröfu lögreglunnar að verjanda kærða verði ekki vættur aðgangur að gögnum málsins fyrr en kærði hefur gefið skýrslu fyrir dómi. Sýnist nægilegt að veita frest til 30. þ.m. í því skyni.

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Lögreglunni er heimilt að synja verjanda kærða X, um aðgang að skjölum máls nr. 010-2002-8307, þar til kærði hefur gefið skýrslu fyrir dómi, þó ekki lengur en til þriðjudagsins 30. apríl nk. kl. 16.00.