Hæstiréttur íslands

Mál nr. 452/2008


Lykilorð

  • Bifhjól
  • Umferðarlagabrot
  • Hraðakstur
  • Líkamsmeiðing af gáleysi
  • Svipting ökuréttar
  • Upptaka


Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. febrúar 2009.

Nr. 452/2008.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir

vararíkissaksóknari)

gegn

Ásmundi Jespersen

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.

Skarphéðinn Pétursson hdl.)

 

Bifhjól. Umferðarlagabrot. Hraðakstur. Líkamsmeiðing af gáleysi. Svipting ökuréttar. Upptaka.

 

Á var ákærður fyrir hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifhjóli of hratt, ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglu, ekið gegnum vegartálma og yfir á öfugan vegarhelming og að hafa ekið án nægilegrar aðgæslu og varúðar á flótta undan lögreglu, of hratt miðað við aðstæður og án þess að hafa nægilegt bil yfir í annað bifhjól, þannig að hann gat ekki brugðist við er hitt hjólið féll eftir að aka aftan á bifreið, heldur ekið yfir ökumann bifhjólsins, F. Voru brot Á talin varða við 219. gr. almennra hegningarlaga, auk nánar tilgreindra ákvæða umferðarlaga. Var Á talinn hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök að öðru leyti en því að ekki þótti sannað að hann hafi ekið yfir F. Að gögnum málsins virtum og því að F hafði fallið í götuna eftir að hafa ekið aftan á bifreið var ekki talin komin fram sönnun þess að afleiðingar slyssins mætti rekja til þess að ákærði ók á F. Var Á því sýknaður af sakargiftum fyrir brot gegn 219. gr. almennra hegningarlaga, en sakfelldur fyrir brot gegn umferðarlögum. Við mat á refsingu hans var m.a. tekið mið af því að háttsemi hans var stórkostlega hættuleg öðrum vegfarendum og þess að hann hafði tvisvar áður hlotið sektarrefsingu fyrir of hraðan akstur á bifhjóli. Var refsing Á ákveðin fangelsi í 4 mánuði, en þar sem hann hafði tvívegis áður verið dæmdur fyrir háskalegan akstur þótti ekki fært að skilorðsbinda refsinguna. Þá var Á sviptur ökurétti í 3 ár og bifhjól hans gert upptækt.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. ágúst 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og honum ákveðin frekari svipting ökuréttar, en ákvæði héraðsdóms um upptöku staðfest.

Ákærði krefst þess að II., III. og IV. lið ákæru verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af þeim svo og VI. lið hennar. Að því frágengnu krefst hann að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess að svipting ökuréttar verði stytt og kröfu um upptöku á bifhjóli sínu YJ-959 verði hafnað.

Í II. til IV. lið ákæru er ákærða gefið að sök að hafa eftir miðnætti 11. júní 2007 ekið of hratt vestur Suðurlandsveg við Kambabrún í Ölfusi, áfram þann veg og sem leið lá að Breiðholtsbraut og eftir henni, ekki sinnt stöðvunarmerkjum, ekið gegnum vegartálma og yfir á öfugan vegarhelming, ekki sinnt merkjum lögreglu og bendingum, allt eins og nánar er greint frá í þessum liðum ákæru, sem tekin er orðrétt upp í héraðsdómi. Kröfu sína um að vísað verði frá dómi II., III. og IV. lið reisir ákærði á því að ekki geti verið um að ræða þrjú hraðakstursbrot á þessari samfelldu leið sem hann ók, eins og gert sé ráð fyrir í ákæru, heldur sé þar lýst einu broti.  Fallist er á með ákærða að betur hefði farið á að lýsa ætluðu hraðakstursbroti hans í einni samfellu, en þó sá háttur hafi ekki verið hafður á í ákæru varðar það ekki frávísun þessara liða hennar, heldur verður tekið tillit til þess við refsiákvörðun verði ákærði sakfelldur fyrir of hraðan akstur. Er óumdeilt að vörn ákærða hafi ekki að þessu leyti verið áfátt. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfelling ákærða samkvæmt þessum liðum ákæru.

Ákærði hefur neitað þeirri háttsemi sem lýst er í VI. kafla ákæru en þar er honum gefið að sök að hafa ekið áðurgreindu bifhjóli suður Breiðholtsbraut „án nægilegrar aðgæslu og varúðar á flótta undan lögreglu, of hratt miðað við aðstæður og án þess að hafa nægilegt bil yfir í bifhjól meðákærða Frosta, þannig að ákærði gat ekki brugðist við er meðákærði Frosti féll af bifhjóli sínu eftir að hafa ekið aftan á bifreiðina PT-345 við Víðidal, heldur ekið yfir meðákærða Frosta“ með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir. Eru brot ákærða talin varða við nánar tilgreind ákvæði umferðarlaga  nr. 50/1987 og 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði sagði fyrir dómi að þeir félagar hafi ekið bifhjólum sínum suður Breiðholtsbraut skömmu áður en slysið varð á 60 til 80 km hraða á klukkustund. Eftir að Frosti hafi ekið aftan á bifreið hafi ákærði lagt hjól sitt í götuna til að reyna að koma í veg fyrir að rekast á Frosta og verið gæti að „dekkið hafi farið í hjálminn“, sem Frosti var með. Hann hafi ekki náð að forðast hjól Frosta þar sem það hafi komið þvert í veg fyrir akstursstefnu hans og hafi hann þurft að sveigja „tiltölulega harkalega til hægri ... í áttina að miðlínu vegarins til að sleppa við hjólið“. Kvaðst hann ekki vita hvernig hjólið lenti nákvæmlega á Frosta, en hann væri alveg viss um að hann hefði „lent á honum“. Þegar til þessa framburðar ákærða er litið og forsendna héraðsdóms er sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er að sök gefin í þessum lið að öðru leyti en því að ekki er nægilega í ljós leitt að hann hafi ekið yfir Frosta. Fram er komið að Frosti féll af bifhjóli sínu í götuna eftir að hafa ekið aftan á bifreiðina PT-345. Að því virtu og þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu er ekki fram komin sönnun þess að líkamstjón Frosta af völdum slyssins megi rekja til þess að ákærði ók á hann. Verður ákærði því sýknaður af sakargiftum um brot gegn 219. gr. almennra hegningarlaga, en önnur brot hans eru rétt heimfærð í ákæru, þó þannig að hraðakstursbrot hans ber að virða sem eitt brot án tillits til þess að hann hafi ekið á mismunandi hraða á þeim vegarköflum, sem nánar eru tilgreindir í I. til og með VI. lið ákæru.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til þess að hann ók á gríðarlegum hraða og samsíða öðru bifhjóli langa leið þar sem umferð var nokkur, sinnti ekki stöðvunarmerkjum og vegartálma lögreglu, ók yfir á rangan vegarhelming gegnt umferð og skeytti ekki um að hafa nægilegt bil milli bifhjólanna á Breiðholtsbraut skömmu fyrir slysið með þeim afleiðingum að hann ók á ökumann hins bifhjólsins. Var þessi háttsemi hans stórkostlega hættuleg öðrum vegfarendum. Ákærði hefur tvívegis áður hlotið sektarrefsingu fyrir of hraðan akstur á bifhjóli og jafnframt verið sviptur ökurétti vegna þeirra brota. Í annað skiptið ók hann auk þess með 13 ára gamlan farþega aftan á hjólinu. Að öllu framangreindu virtu er refsing hans ákveðin 4 mánaða fangelsi, en þar sem ákærði hefur tvívegis áður verið dæmdur fyrir háskalegan akstur er ekki fært að skilorðsbinda refsinguna. Þá er rétt að ákærði verði sviptur ökurétti í 3 ár frá 12. júní 2007, en þann dag var hann sviptur ökurétti til bráðabirgða. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest ákvæði hans um upptöku bifhjóls ákærða YJ-959.

         Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

         Ákærði, Ásmundur Jespersen, sæti fangelsi í 4 mánuði.

         Ákærði er sviptur ökurétti í 3 ár frá 12. júní 2007.

         Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 361.775 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 7. júlí 2008.

Mál þetta, sem þingfest var þann 5. maí sl. og dómtekið 19. júní sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 25. apríl 2008, á hendur Ásmundi Jespersen, Kópavogsbraut 78, Kópavogi, og Frosta Þórðarsyni, Sléttuvegi 3, Reykjavík,

gegn ákærðu báðum fyrir umferðarlagabrot og brot á lögreglulögum:

I.

með því að hafa skömmu eftir miðnætti mánudaginn 11. júní 2007 ekið bifhjólunum YJ-959 og VE-086 með 174 km hraða vestur Suðurlandsveg við Kambabrún í Ölfusi og fyrir að hafa umrætt sinn ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglu, sem gefin voru bæði með forgangsljósum og hljóðmerkjum heldur ekið áfram á ofsahraða vestur Suðurlandsveg, sbr. ákærulið II.   Leyfður hámarkshraði á vegarkaflanum var 90 km á klukkustund.  Hraði bifhjólanna var mældur með ratsjá nr. GE-016 , sem staðsett var í lögreglubifreið nr. 33-258 er samstundis sneri við og hóf eftirför eftir bifhjólunum. 

Teljast brot ákærðu varða við 2. mgr. 37. gr. og 3. mgr. 5. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga og 19. gr. sbr. 1. mgr. 41. gr. lögreglulaga nr. 90, 1996.

II.

fyrir að hafa eftir að hafa mætt lögreglubifreiðinni 33-258 á Kambabrún, sbr. ákærulið I., ekið bifhjólum sínum [YJ-959 og VE-086] áfram vestur Suðurlandsveg, alls 23,073 km vegalengd, með 196 km meðalhraða á klukkustund, að tveimur lögreglubifreiðum er mynduðu vegartálma rétt vestan við Gunnarshólma í Kópavogi.  Leyfður hámarkshraði á vegarkaflanum var 90 km á klukkustund. 

Teljast brot ákærðu varða við 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

III.

með því að hafa, farið í gegnum vegartálma þann er frá greinir í ákærulið II, rétt vestan við Gunnarshólma í Kópavogi með því að aka bifhjólum sínum [YJ-959 og VE-086] yfir á öfugan vegarhelming og þannig virt endurtekin fyrirmæli lögreglu um stöðvun bifhjólanna algerlega að vettugi, en umrædd fyrirmæli voru gefin með forgangsljósum, hljóðmerkjum sem og bendingum lögreglumanna við umræddan vegartálma. 

Teljast brot ákærðu varða við 1. mgr. 14. gr. og 3. mgr. 5. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga og 19. gr. sbr. 1. mgr. 41. gr. lögreglulaga nr. 90, 1996.

IV.

með því að hafa, eftir að atvik samkvæmt III. ákærulið gerðist, ekið bifhjólum sínum [YJ-959 og VE-086]  áfram vestur Suðurlandsveg og þaðan upp Breiðholtsbraut í Reykjavík, alls 5,780 km vegalengd með 159 km meðalhraða á klukkustund, þar til árekstur varð með ákærða Frosta og bifreiðinni PT-345 við Víðidal og ákærðu báðir féllu í framhaldi af hjólum sínum, sbr. VI. ákæruliður. Leyfður hámarkshraði á umræddum vegarkafla var 90 km á klukkustund á Suðurlandsvegi að Hafravatnsafleggjara, þaðan var hámarkshraði 80 km á klukkustund að gatnamótum Suðurlandsvegar og Breiðholtsbrautar og síðan 70 km á klukkustund á Breiðholtsbraut. 

Teljast brot ákærðu varða við 2. mgr. 37. gr., 2. mgr., sbr. 4. mgr. 37. gr.  og 1. mgr., sbr. 3. mgr. 37. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr.

 

gegn ákærða Frosta  fyrir umferðarlagabrot

V.

Með því að hafa  ekið bifhjólinu VE-086 svo sem frá greinir í I. til IV. ákærulið með skráningarnúmer bifhjólsins staðsett undir farþegasæti bifhjólsins, milli afturhjóls og afturbrettis þannig að skráningarmerkið var ógreinilegt.

Telst brot ákærða varða við c. lið 1. mgr. 64. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 sbr. 1. mgr. 35. gr. reglugerðar um skráningu ökutækja nr. 751/2003, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

 

gegn ákærða Ásmundi fyrir hegningarlaga- og umferðarlagabrot.

VI.

Með því að hafa ekið bifhjólinu YJ-959 suður Breiðholtsbraut í Reykjavík, án nægilegrar aðgæslu og varúðar á flótta undan lögreglu, of hratt miðað við aðstæður og án þess að hafa nægilegt bil yfir í bifhjól meðákærða Frosta, þannig að ákærði gat ekki brugðist við er meðákærði Frosti féll af bifhjóli sínu eftir að hafa ekið aftan á bifreiðina PT-345 við Víðidal, heldur ekið yfir meðákærða Frosta með þeim afleiðingum að Frosti hlaut alvarlegt brot á 2. hálslið með mænuáverka og lömun, opið brot á öðrum upphandlegg, mar á heila og lunga. 

Teljast brot ákærða varða við 1. mgr. 4. gr., 3. mgr. 14. gr. 1. mgr., sbr. a. lið 2. mgr. 36. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga og 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

Þess er krafist að;

a)      ákærðu báðir verði dæmdir til refsingar,

b)      ákærða Frosta verði gert að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 1. mgr. 101. gr.

       umferðarlaga nr. 50, 1987,

c)      ákærða Ásmundi verði gert að sæta sviptingu ökuréttar ævilangt frá 12. júní 2007

       að telja, samkvæmt 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987,

d)      að bifhjólin YJ-959 og VE-086 verði gerð upptæk til ríkissjóðs samkvæmt 1. mgr.

      107. gr. a. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 9. gr. l. nr. 69, 2007.“

 

Ákærði Ásmundur kom fyrir dóminn og játaði háttsemi samkvæmt ákæruliðum I og II en neitaði háttseminni eins og henni er lýst í ákærulið III að því leyti að hann kveðst hafa ekið fram hjá vegartálma en ekki á öfugum vegarhelmingi. Þá játaði hann sök í ákærulið IV en kvað það rangt í ákæru að þeir hafi fallið í framhaldi eins og lýst er í ákæruliðnum. Ákærði neitaði sök í ákærulið VI og mótmælti kröfunni um upptöku á hjólinu. Dómurinn var fluttur á Grensásdeild Landspítalans þar sem ákærði Frosti dvaldi en hann var ófær um að koma fyrir dóminn á annan hátt. Kvaðst hann ekkert muna frá aðdraganda slyssins og gat ekki sagt til um það hvort háttsemin eins og henni er lýst í ákæru sé rétt eða röng. Þá mótmælti hann kröfunni um upptöku á mótorhjóli hans. Aðalmeðferð fór fram þann 19. júní sl. Við aðalmeðferð málsins kvað verjandi ákærða Ásmundar að vísa ætti frá dómi ákærulið II þar sem þar væri um sama brot að ræða og í ákærulið I en um samfelldan akstur hafi verið að ræða án stöðvunar. Þá ætti að sýkna ákærða Ásmund af ákærulið III þar sem um síðari vegatálmann hafi verið að ræða þar og ákærði sannanlega ekið hægra megin framhjá vegatálmanum miðað við hans akstursstefnu. Þá ætti að vísa ákærulið IV frá dómi þar sem ákæruliðurinn væri svo flókinn að ekki væri unnt að leggja dóm á hann en að öðrum kosti bæri að sýkna ákærða af þeim ákærulið. Þá bæri að sýkna ákærða af ákærulið VI. Að öðru leyti krafðist hann vægustu refsingar sem lög leyfa fyrir þá háttsemi sem ákærði hefur játað. Verjandi ákærða Frosta krafðist sýknu af ákærulið V en að öðru leyti vægustu refsingar sem lög leyfa en ekki væri gerð athugasemd við mældan hraða lögreglu við Kambabrún. Þá var krafist málsvarnarlauna og að þau yrðu greidd úr ríkissjóði að tiltölu.

Málsatvik.

Upphaf máls þessa er að lögreglumenn frá Selfossi voru staddir á Suðurlandsvegi við Kambabrún á leið austur er þeir mættu tveimur bifhjólum sem var ekið vestur Suðurlandsveg á móti akstursstefnu þeirra. Var hraði bifhjólanna mældur með ratsjá og mældist hraði þeirra 180 kílómetrar á klukkustund en ekki náðist að festa þá tölu í ratsjánni en hraðinn 179 kílómetrar á klukkustund var festur í ratsjánni. Var ökumönnunum strax gefið merki með forgangsljósum lögreglubifreiðarinnar um að stöðva akstur hjólanna auk þess að eftirför var hafin. Var Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar tilkynnt um aksturinn sem sendi lögreglubifreiðar á móti bifhjólunum. Í framhaldi mynduðu tvær lögreglubifreiðar vegatálma fyrir ofan Gunnarshólma og tvær aðrar lögreglubifreiðar annan vegatálma við Hólmsá. Óku bifhjólin fram hjá báðum vegatálmunum og beygðu inn á Breiðholtsbraut til suðurs við Rauðavatn. Stuttu seinna ók bifhjólið VE-086 aftan á bifreið og við það féll bæði hjól og ökumaður í götuna en bifhjólið YJ-959 virðist hafa ekið yfir ökumann fyrra hjólsins. Komu lögreglubifreiðar og sjúkraflutningamenn á vettvang í sama mund og voru ökumenn bifhjólanna báðir fluttir á sjúkrahús í beinu framhaldi.

Í gögnum málsins liggja fyrir upptökur úr Eye-Witness-búnaði lögreglubifreiðarinnar 33-258, sem mældi hraða bifhjólanna á Kambabrún, lögreglubifreiðunum 07-263 og 07-286, sem mynduðu fyrsta vegatálmann, auk lögreglubifreiðanna 07-273 og 07-216 sem mynduðu seinni vegatálmann.

Skýrslur fyrir dómi.

Ákærði Ásmundur kom fyrir dóminn og kvaðst hafa mætt lögreglubifreið efst í Kömbunum og ekki sinnt stöðvunarmerkjum. Hann hefði verið á undanhaldi í átt að Reykjavík en lítil umferð hefði verið á leiðinni og taldi hann að aðrir vegfarendur hafi ekki verið í hættu vegna aksturslags hans. Hann hefði mætt lögreglubifreið við Bláfjallaafleggjarann en þegar þeir komu að Hólmsá hefði verið búið að setja upp vegatálma. Kvaðst ákærði hafa verið á fremra hjólinu og við Hólmsá hefði hann slakað á en meðákærði Frosti hefði ekið í gegnum vegatálmann og því hefði hann ákveðið að gera það líka. Þeir hefðu ekið áfram að hringtorgi og niður Breiðholtsbrautina. Þeir hefðu komið að bifreið en hægt á sér þar sem lögreglubifreið kom á móti þeim. Eftir að þeir mættu lögreglubifreiðinni ætluðu þeir að fara fram úr bifreiðinni sem var fyrir framan þá en Frosti hefði verið á undan honum og ekið í hægra hjólfarinu en hann í vinstra hjólfarinu á veginum. Kvaðst ákærði hafa ekið út á vinstri akrein og beðið eftir Frosta því ekki væri til siðs við bifhjólaakstur að skera aksturslínur hvor annars. Ákærði kvaðst ekki geta fullyrt nákvæmlega hvað hefði gerst en hann teldi að bifreiðin sem þeir ætluðu fram úr hefði hægt ferðina og sveigt örlítið til vinstri og síðan til hægri og taldi ákærði að Frosta hefði fipast við það og því lent aftan á bifreiðinni. Hjól Frosta hefði kastast nánast þvert yfir veginn og til að lenda ekki á því hefði ákærði þurft að sveigja til hægri og þurft að fleygja sér í götuna til að komast hjá því að lenda á Frosta. Aðspurður um á hvaða hraða þeir hefðu verið á leið til Reykjavíkur kvaðst ákærði telja að þeir hafi verið á svipuðum hraða og þeir voru mældir á. Þeir hefðu eflaust gefið eitthvað í en síðan dólað á svipuðum hraða. Kvaðst ákærði muna til þess að hafa ekið fram úr einhverjum bifreiðum á leiðinni. Ákærði kvað Frosta hafa ekið á milli lögreglubifreiðanna við Gunnarshólma en sjálfur hefði hann ekið á hægri vegöxl fram hjá vegatálmanum. Aðspurður kvaðst ákærði ekki muna eftir fleiri lögreglubifreiðum frá vegatálmanum að slysstað en taldi að þriðja lögreglubifreiðin gæti hafa verið við vegatálmann. Ákærði taldi að þeir hefðu verið á um það bil sextíu til áttatíu kílómetra hraða þegar Frosti ók aftan á bifreiðina eða á sama hraða og bifreiðin. Ákærði taldi það geta verið að dekkið á hjóli hans hafi farið yfir hjálm Frosta eftir að hann féll í götuna. Ákærði kvaðst aðspurður hafa ekið samfellt frá því að hjól hans var mælt á Kambabrún og þar til hann féll í götuna á Breiðholtsbraut. Ákærði kvað þá báða hafa ekið í sitthvoru hjólfarinu í akstri en það væri gert til að tryggja öryggi ökumanna auk þess að þeir þveruðu aldrei akstursleið hvor annars. Ákærði taldi aðspurður að millibil á milli hjólanna í aðdraganda slyssins hafi verið að minnsta kosti fjórar til sex hjólalengdir. Ákærði taldi Frosta hafa verið kominn í vinstra hjólfar á hægri akrein þegar hann ók aftan á bifreiðina. Ákærði kvaðst hafa sveigt tiltölulega harkalega til hægri til að forðast að aka á hjól Frosta en náði ekki að afstýra því að aka á Frosta sjálfan en hann mundi bara eftir því að glerið á hjálminum sínum spýttist af. Næst myndi hann eftir sér við vegriðið. Aðspurður kvaðst ákærði muna eftir því að lögreglan hefði veifað einhverjum ljósum eða prikum við vegatálmann og lögreglumenn hefðu staðið þar fyrir utan bifreiðarnar. Ákærði kvað afleiðingar slyssins hjá sér vera þær að vitlaus taugaboð væru til hægri handleggs, heyrnin hefði skerst og fleira sem hann væri að glíma við.

Magnús Þór Jónsson, kt. 120357-5499, Krosshömrum 17, Reykjavík, prófessor  við Háskóla Íslands, gaf símaskýrslu fyrir dóminum og staðfesti að hann hefði unnið skýrslu sem lægi frammi í málinu þar sem hraði bifhjólsins VE-086 hefði verið reiknaður út þegar það ók á bifreiðina PT-345 á Breiðholtsbraut í Reykjavík. Útskýrði hann þá aðferðarfræði sem notuð væri við útreikning á þeim hraða sem bifhjólið hefði líklega verið á þegar árekstur varð. Í skýrslunni kvað hann ætlaðan hraða koma fram, lágmarkshraða og hámarkshraða og þær forsendur sem notaðar væru við útreikninginn. Kæmi þar fram að lágmarkshraði væri reiknaður 78 kílómetrar á klukkustund, ætlaður hraði væri 95 kílómetrar á klukkustund en hámarkshraði væri 106 kílómetrar á klukkustund. Magnús kvað allar líkur vera fyrir því að ökumaðurinn hafi verið á milli ætlaðs hraða og hámarkshraða. Ef allt væri tekið til til lækkunar á hraðanum, þá gæti hjólið hafa verið á lágmarkshraða en útilokað væri að hjólið hafi verið á minni hraða.

Frímann Birgir Baldursson lögregluvarðstjóri kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í umferðareftirliti á Suðurlandsvegi ásamt Hauki Páli Ægissyni lögreglumanni þegar þeir mættu tveimur bifhjólum á Kambabrún og hafi mælt þau á 180 kílómetra hraða á klukkustund. Kvaðst hann hafa gefið stöðvunarmerki strax en hraði hjólanna hafi verið svo mikill að hann kvaðst ekki geta fullyrt að ökumenn þeirra hafi séð bláu ljósin áður en þeir mættust en þegar þeir sneru lögreglubifreiðinni við hefði hann litið eftir hjólunum og þá séð að annar ökumaðurinn leit við og þá klárlega séð bláu ljósin á lögreglubifreiðinni. Kvaðst hann hafa veitt hjólunum eftirför en aldrei séð þau aftur fyrr en á slysstað. Frímann staðfesti fyrir dóminum lögregluskýrslu sem hann ritaði um aðkomu sína að málinu.

Haukur Páll Ægisson lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið ásamt öðrum lögreglumanni í umferðareftirliti á austurleið þegar þeir mættu tveimur bifhjólum á Kambabrún sem voru mæld á 180 kílómetra hraða. Hefðu bláu ljósin á lögreglubifreiðinni verið kveikt um leið en hjólin hefðu ekið mjög hratt framhjá þeim. Þeir hefðu síðan komið að hjólunum á Breiðholtsbrautinni. Aðspurður kvað hann lögreglubifreiðinni hafa verið ekið á allt að tvö hundruð kílómetra hraða í eftirförinni en þeir ekki séð bifhjólin aftur fyrr en á slysstað.

Páll Sigurðsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið kallaður á vettvang eftir að slysið átti sér stað og ekki komið að málinu að öðru leyti. 

Snjólaug Eyrún Guðmundsdóttir lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa heyrt í fjarskiptum um hraðaksturinn. Kvaðst hún hafa verið í eftirliti ásamt öðrum lögreglumanni og ákveðið að aka Breiðholtsbrautina til aðstoðar og þá mætt báðum hjólunum. Kvaðst hún hafa kveikt á bláu ljósum bifreiðarinnar í þeim tilgangi að stöðva hjólin en taldi að ökumenn bifhjólanna hefðu ekki séð viðvörunarljósin þar sem þeir óku svo greitt framhjá. Kvaðst hún hafa litið í baksýnisspegilinn og þá séð hvar bæði hjólin voru fallin og menn í loftinu sem hefðu horfið í svartan reyk. Þau hefðu hlaupið að slysstað og hefðu ökumennirnir þá báðir enn verið að renna eftir götunni en ákærði Ásmundur hefði stöðvast á vegriðinu. Kvað hún Frosta ekki hafa verið með lífsmarki og lífgunartilraunir strax hafnar sem hefðu borið árangur. Kvaðst hún hafa mætt Skoda-bifreið, rétt áður en bifhjólin komu, sem hefði ekki ekið á mikilli ferð, en annað bifhjólið hefði ekið aftan á Skoda-bifreiðina. Bifhjólin hefðu hins vegar verið á mikilli ferð þegar þau fóru framhjá lögreglubifreiðinni.

Guðmundur Þórir Steinþórsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið á lögreglubifreiðinni 07-273 ásamt Ríkharði Erni Steingrímssyni á Bústaðavegi þegar þeir heyrðu í talstöð um eftirförina. Hefðu þeir ekið á forgangi í átt að Rauðavatni og sett þar upp vegatálma þannig að lögreglubifreiðin hefði lokað umferð úr austri í átt til Reykjavíkur. Hefðu þeir báðir farið út úr lögreglubifreiðinni þegar þeir sáu hjólin koma og gefið rauðu og svörtu bifhjóli merki um að stansa. Svarta bifhjólið hefði ekið framhjá honum í um meters fjarlægð en rauða hjólið hefði ekið framhjá Ríkharði þar sem hann stóð við vegkantinn og hefði hjólið ekið mjög nálægt Ríkharði. Lögreglubifreið sem hefði verið í kjölfari þeirra hefði ætlað að stöðva umferð í austur en ekki náð því þar sem hjólin hefðu ekið framhjá þeim áður. Hefðu þeir síðan ætlað að veita hjólunum eftirför en fengið tilkynningu í framhaldi um slysið.

Bogi Sigvaldason lögreglumaður gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa komið á slysstað og séð um að ljósmynda vettvang. Að öðru leyti hefði hann ekki komið að málinu.

Ríkharður Örn Steingrímsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í eftirliti með Guðmundi Þóri á lögreglubifreiðinni 07-273 þegar þeir fengu tilkynningu um hraðakstur bifhjólanna. Hefðu þeir farið upp á Suðurlandsveg í þeim tilgangi að setja upp lokun. Tvær lögreglubifreiðar hefðu verið á undan þeim og ein á eftir. Hefðu þær bifreiðar verið að setja upp lokun á Suðurlandsvegi fyrir umferð úr austurátt og verið með blá blikkandi ljós. Kvaðst Ríkharður ekki hafa náð að stilla upp vegalokun á báðum akreinum áður en bifhjólin komu og óku framhjá þeim. Bifhjólin hefðu farið framhjá þeim sitt hvorum megin við lögreglubifreiðina þannig að annað hjólið hefði farið hægra megin framhjá bifreiðinni, á réttum vegarhelmingi en hitt hjólið hefði farið framhjá sunnan megin við lögreglubifreiðina sem var staðsett á röngum vegarhelmingi með framendann í austur. Hefði rauða hjólið verið mjög nærri honum þegar það ók framhjá honum og hefði hann þurft að hopa til að hjólið æki ekki á hann. Í framhaldi hefði hann ætlað að veita hjólunum eftirför en fljótlega fengið tilkynningu um slysið.

Arnfríður Hafþórsdóttir lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í eftirliti ásamt Anitu Rut lögreglumanni í bifreiðinni 07-216 og komið að seinni lokun á Suðurlandsvegi. Hefðu þær ætlað að setja upp vegatálma ásamt lögreglubifreiðinni 07-273 en ekki verið búnar að stöðva bifreiðina þegar tvö bifhjól komu á móti þeim og óku framhjá, svarta bifhjólið hefði farið framhjá þeim farþegamegin en hitt hjólið hefði farið framhjá í vegkantinum fyrir ofan lögreglubifreiðina 07-273. Kvað hún hjólin hafa komið mjög hratt að þeim en þau hægt á sér þegar þau óku framhjá en síðan aukið hraðann svo að þau hefðu horfið úr augsýn áður en búið var að snúa lögreglubifreiðunum við.

Anita Rut Harðardóttir lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í eftirliti ásamt Arnfríði Hafþórsdóttur á lögreglubifreiðinni 07-216 þegar tilkynning kom um akstur hjólanna. Hefðu þær ekið ásamt lögreglubifreiðinni 07-273 á Suðurlandsveg til að koma upp lokun og verið með forgangsljósin kveikt. Kvaðst hún hafa þurft að nauðhemla til að forðast árekstur við annað hjólið um leið og hjólið ók framhjá henni. Rauða hjólið hefði farið framhjá fyrri lögreglubifreiðinni en svarta hjólið hefði farið á röngum vegarhelmingi farþegamegin framhjá hennar bifreið.

Martha Sandholt Haraldsdóttir lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið ásamt Róberti Þór lögreglumanni á bifreiðinni 07-286 á leið til Mosfellsbæjar í eftirlit þegar tilkynning kom frá Selfossi um hraðaksturinn. Hefði hún því ekið með forgangi upp á Suðurlandsveg ásamt annarri lögreglubifreið og bifreiðarnar sett upp vegatálma. Kvað Martha annarri lögreglubifreiðinni hafa verið lagt á móti umferð úr austri en hún lagt bifreið sinni í akstursátt í austur á syðri akreininni fyrir umferð úr vestri. Bifhjólin hefðu komið á mikilli ferð en hægt á sér þegar þau óku á röngum vegarhelmingi framhjá lögreglubifreið hennar. Í framhaldi hefði bifhjólunum verið veitt eftirför en hjólin horfið þeim sjónum en tilkynning um slysið þá komið og þau því farið á slysavettvang.

Róbert Þór Guðmundsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í Ártúnsbrekkunni á lögreglubifreiðinni 07-286 ásamt Mörthu Sandholt þegar tilkynning kom um hraðaksturinn. Hefði hann því ekið upp á Suðurlandsveg á móts við Gunnarshólma og sett þar upp vegatálma ásamt annarri lögreglubifreið. Hann hefði lagt sinni bifreið á akrein í austur en hin bifreiðin verið staðsett á röngum vegarhelmingi til að stöðva umferð úr austri. Hjólin hefðu komið akandi úr austri og bæði ekið framhjá sinni lögreglubifreið á röngum vegarhelmingi, farþegamegin við sína bifreið. Hefðu blá aðvörunarljós verið kveikt á bifreiðunum.

Ellert Björn Svavarsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í sérverkefni á leið austur og verið á móts við Bláfjallaafleggjarann þegar hann fékk tilkynningu um hraðaksturinn og um leið séð bifhjól í röð ökutækja á leið til Reykjavíkur. Hefðu ökumenn hjólanna verið greinilega „agressívir“ þar sem þeir hefðu ekið aftur og aftur út á miðlínu eins og þeir væru að eygja smugu til að komast fram úr. Hefði hann því snúið við og veitt bifhjólunum eftirför en ekki séð til þeirra aftur fyrr en hann kom á slysavettvang.

Jón Halldórsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í sérverkefni á lögreglubifreiðinni 07-263 og verið rétt kominn upp á Suðurlandsveg þegar hann fékk tilkynningu um hraðaksturinn. Hefði hann verið kominn að Gunnarshólma þegar hann stöðvaði lögreglubifreiðina á röngum vegarhelmingi með forgangsljósum og önnur lögreglubifreið verið á hinni akreininni þegar bifhjólin komu og óku framhjá þeim, sunnan megin við hina lögreglubifreiðina, bæði á röngum vegarhelmingi.

Hermann Páll Traustason lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið ásamt Snjólaugu lögreglumanni í eftirliti á Breiðholtsbrautinni þegar þau mættu bifhjólunum. Kvaðst hann hafa mætt einni bifreið rétt áður en bifhjólin komu skyndilega í ljós. Hefði hann litið í baksýnisspegilinn og séð seinna hjólið lenda í götunni en taldi að hann hefði ekki séð hjólið lenda á bifreiðinni. Hefðu þau þá strax farið út úr bifreiðinni og veitt ákærðu fyrstu hjálp. Engin lífsmörk hefðu verið með ökumanni svarta hjólsins þegar komið var að honum en hann síðan komið til við skyndihjálpina. Aðspurður um millibil hjólanna, minnti Hermann að stutt bil hefði verið á milli þeirra. Kvaðst hann aðspurður hafa séð bifreiðina sveigja til hægri og stansa í vegkantinum.

Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir lögreglumaður gaf símaskýrslu fyrir dóminum. Kvaðst hún hafa komið á slysstað og gert afstöðuteikningu af vettvangi.

Sigurður Freyr Pétursson, kt. 231086-2939, Hvalskeri við Patreksfjörð, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa ekið eftir Breiðholtsbraut í umrætt sinn á leið heim til sín. Hefði hann mætt lögreglubifreið með blá blikkandi ljós og taldi að lögreglan ætlaði að hafa afskipti af sér og því sveigt út í kant til hægri og þá fengið skell aftan á bifreið sína. Aðspurður um það hvort hann hafi fyrst sveigt til vinstri neitaði hann því. Kvaðst Sigurður ekki hafa orðið var við bifhjólin áður en ekið var aftan á hann.

Ámundi Hjálmar Loftsson, kt. 300553-4869, Hlíðarvegi 23, Kópavogi, gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa verið að aka upp Kambana og verið í síðustu kröppu beygjunni efst í Kömbunum þegar tvö bifhjól óku á gríðarlegum hraða, sitt hvorum megin fram úr bifreið hans. Þriðja hjólið hefði komið nokkuð síðar. Síðan hefði hann ekið fram á vegalokun við Breiðholtsbraut og haft tal af lögreglu þar.

Kristján Erlendsson, kt. 300949-2669, Vaðlaseli 12, Reykjavík, kvaðst hafa ekið í umrætt sinn á Hellisheiði í átt til Reykjavíkur og verið þar sem tvöföldun vegarins lýkur, litið í hliðarspegilinn og séð tvö bifhjól koma á miklum hraða og aka fram úr honum. Hefðu hjólin farið það hratt fram úr að loftbylgja hefði skollið á bifreiðinni eins og að högg hafi komið á bifreiðina. Fljótlega hefði lögreglubifreið komið og ekið fram úr honum með blá ljós.

Dýri Kristjánsson, kt. 100280-6209, Vaðlaseli 12, Reykjavík, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið á leið til Reykjavíkur á móts við Litlu kaffistofuna í umrætt sinn. Hefði móðir hans, sem var á eftir honum á Heiðinni, hringt og varað hann við bifhjólum á leið til Reykjavíkur sem ækju mjög hratt. Á Sandskeiði hefðu tvö bifhjól ekið fram úr honum á mikilli ferð. Hefði högg eða vindhviða komið á bifreið hans um leið og hjólin fóru fram úr.

Jón Matthíasson, kt. 020764-5039, Miðhúsum 22, Reykjavík, sérfræðingur hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa unnið skýrslu sem liggur fyrir í málinu, dómskjal 5, skjal 28. Kvaðst hann hafa tekið bláar efnisleifar af afturdekki bifhjólsins YJ-959 og borið þær leifar saman við sýni sem tekin voru af mótorhjólagalla og mótorhjólahjálmi sem fylgdi með. Niðurstöður hans sýndu að efnisleifarnar sem fundust á dekkinu gætu verið af hjálminum en ólíklegt að þær væru af gallanum. Þá rannsakaði hann svarta rák sem var á hjálminum og niðurstaðan sýndi að það efni sem fannst á hjálminum fannst einnig á dekki hjólsins ásamt fleiri efnum sem fundust einnig í rákinni. Efni úr umhverfinu gætu auðvitað blandast við sýnið og því sé það ekki full sönnun um að sýnin sem voru tekin af hjálminum séu af dekkinu. Þau efni sem hefðu einnig fundist gætu hafa komið frá malbiki eða grjóti.

Guðmundur B. Böðvarsson, mælingamaður hjá byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa reiknað út vegalengdina sem  bifhjólin óku og lýsti fyrir dóminum hvaða forsendur hann hefði stuðst við. Staðfesti hann skýrslu sína sem liggur fyrir í málinu.

Snorri S. Konráðsson, bíltækniskoðunarmaður, kom fyrir dóminn og staðfesti þær skýrslur um tæknirannsókn sem gerð var á bifhjólunum VE-086 og YJ-959. Kvað hann ekkert hafa komið fram við rannsókn á hjólunum sem gæti hafa haft áhrif á akstur hjólanna eða átt þátt í viðkomandi slysi. Kvað hann hemladiskinn að framan á VE-086 hafa skemmst við áreksturinn sem stafaði af hliðarskelli á hjólið. Kvaðst hann einnig hafa rannsakað hjálm og búning ökumanns VE-086 að beiðni lögreglu. Á hjálminum hefðu verið dýpri rispur vegna ákomu eftir hart efni og litarefni hefðu verið neðst í hnakkastykki hjálmsins og á baki við herðablað á búningnum. Hefði það verið svart efni en ekki efni úr malbiki þar sem engin tjöruefni hefðu fundist í því efni.

Sigurlaug Jónsdóttir, kt. 061059-6289, gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa verið stödd í Lögbergsbrekkunni og ætlað að beygja til vinstri inn afleggjarann að Waldorfsskóla þegar tvö bifhjól komu akandi á mikilli ferð með stuttu millibili og óku fram úr henni. Kvaðst hún í sömu andrá hafa séð lögreglubifreiðar nokkuð fyrir framan sig með blá blikkandi ljós.

Niðurstöður.

Ákærðu báðum er gefið að sök að hafa ekið bifhjólunum YJ-959 og VE-086 með 174 kílómetra hraða vestur Suðurlandsveg við Kambabrún í Ölfusi og að hafa ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglu í umrætt sinn. Ákærði Frosti man ekki atvikið en verjandi hans rengdi ekki mælingu lögreglunnar. Ákærði Ásmundur játaði þennan ákærulið einnig réttan og að hafa ekki sinnt stöðvunarskyldu lögreglunnar. Við þingfestingu málsins játaði ákærði Ásmundur einnig háttsemina í ákærulið II en við aðalmeðferð málsins kvað hann það vera sama brot og í ákærulið I og bæri því að vísa þeim ákærulið frá dómi. Dómurinn telur ákæruliði þessa ekki svo óljósa að á þá verði ekki lagður efnisdómur. Sannað er að ákærðu voru mældir með ratsjá á Kambabrún á 180 kílómetra hraða og samkvæmt útreikningum, sem ekki hafa verið véfengdir, var meðalhraði ákærðu, þar til þeir komu að vegatálma við Gunnarshólma fyrir vestan Lögbergsbrekkuna, 196 kílómetrar á klukkustund. Í útreikningum Magnúsar Þórs Jónssonar um meðalhraða frá Kömbum að Hólmsá segir að ætlaður meðalhraði hafi verið 196 kílómetrar á klukkustund, lágmarks-meðaðhraði 192 kílómetrar á klukkustund og hámarks-meðalhraði 200 kílómetrar á klukkustund.Við ákvörðun refsingar þykir rétt að miða við lágmarkshraða samkvæmt útreikningum Magnúsar og verða ákærðu báðir því sakfelldir fyrir þá háttsemi sem lýst er í ákæruliðum I og II þannig að þeim verður gerð refsing fyrir að hafa ekið, frá þeim stað þar sem þeir fyrst voru mældir að fyrsta vegatálmanum, á 192 kílómetra meðalhraða á klukkustund. Er háttsemin í ákærulið I réttilega færð til refsiákvæða. Þá er háttsemin í ákærulið II réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Ákærði Ásmundur kvaðst hafa ekið á réttum vegarhelmingi í gegnum seinni vegatálmann og því bæri að sýkna hann af ákærulið III. Á upptöku úr Eye-Witness-búnaði lögreglubifreiðar 07-286 má greinilega sjá tvö bifhjól aka hægra megin fram hjá lögreglubifreiðinni og á öfugum vegarhelmingi miðað við akstursstefnu bifhjólanna. Þá lýstu vitnin Martha, Róbert og Jón Halldór því á sama hátt og kemur fram á upptökunni. Voru þau staðsett í lögreglubifreiðum sem mynduðu vegatálmann við Gunnarshólma en í ákærulið III er vísað til þess vegatálma. Er háttseminni því réttilega lýst í ákærulið III og verða ákærðu báðir sakfelldir fyrir þá háttsemi sem er réttilega færð til refsiákvæða. Ákærði Ásmundur krafðist frávísunar á ákærulið IV þar sem ekki væri hægt að leggja dóm á þá háttsemi þar sem meðalhraðinn var ýmist á vegarkafla þar sem leyfður  hámarkshraði  var sjötíu, áttatíu eða níutíu kílómetrar á klukkustund. Tekur dómurinn undir þá málsástæðu ákærða að ekki er sannað á hversu miklum hraða ekið var á hverjum vegarkafla fyrir sig og ekki sé hægt að gera ákærðu refsingu eins og um þrjú brot hafi verið að ræða. Í útreikningum Magnúsar Þórs Jónssonar segir að ætlaður meðalhraði frá Hólmsá á Breiðholtsbraut hafi verið 159 kílómetrar á klukkustund, lágmarkmeðalhraði 156 kílómetrar á klukkustund og hámarks-meðalhraði 162 kílómetrar á klukkustund. Þrátt fyrir það telur dómurinn að hægt sé að leggja dóm á þá háttsemi en refsing skuli metin út frá vægasta brotinu. Verða ákærðu því sakfelldir fyrir þá háttsemi og gerð refsing fyrir en brotið er fært undir 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Ákærði Frosti krafðist sýknu vegna ákæruliðar V. Á ljósmynd sem er af bifhjólinu VE-086 sést að skráningarnúmerið er undir farþegasæti bifhjólsins. Ekki sést á ljósmyndinni hvert skráningarnúmerið er en ekki hafa verið bornar brigður á að umrætt bifhjól á ljósmyndinni sé það bifhjól sem ákærði Frosti ók eins og segir í ákæruliðum I-IV. Telur dómurinn, svo hafið sé yfir allan skynsamlegan vafa, lögfulla sönnun fram komna um að skráningarnúmer hjólsins hafi verið eins og greinir í ákæruliðnum. Verður ákærði Frosti því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem er réttilega færð til refsiákvæðis.

Ákærði Ásmundur neitaði þeirri háttsemi sem lýst er í ákærulið VI. Kvaðst hann hafa ekið á um sextíu til áttatíu kílómetra hraða rétt áður en slysið varð, eða á sama hraða og bifreiðin er meðákærði Frosti ók á, auk þess sem engin gögn liggi fyrir í málinu um það á hvaða hraða hann hafi verið. Í útreikningum Magnúsar Þórs Jónssonar komi fram að mögulegur lágmarkshraði Frosta hafi verið sjötíu og átta kílómetrar á klukkustund og dóminum beri að taka mið af þeim hraða. Ákærði neitaði því að hafa verið á flótta undan lögreglu og þá neitaði hann því að of lítið bil hafi verið á milli hjólanna en um fjórar til sex hjólalengdir hafi verið á milli þeirra auk þess sem þeir hafi ekið í sitthvoru hjólfarinu á akreininni í öryggisskyni. Sannað er að ákærði Frosti ók aftan á bifreiðina PT-345 á Breiðholtsbraut eins og segir í ákæru. Ákærði Ásmundur neitaði því ekki að hafa ekið yfir meðákærða Frosta eftir að hann hafði sveigt til hægri til að forðast árekstur við bifhjól Frosta. Rannsókn Jóns Matthíassonar styður þá háttsemi, en í niðurstöðum efnagreiningar koma fram líkur á því að blátt sýni sem tekið var af afturhjóli YJ-959 sé af hjálmi ökumanns VE-086 og að efnagreiningar á svartri rák á hjálminum innihaldi að mestu öll þau efni sem fundust í hjólbarða hjólsins. Þá er ljóst að þar sem ökumaður YJ-959 gat ekki stöðvað hjól sitt áður en það lenti á fyrirstöðu í akstursstefnu hans, hafi  hann ekki tryggt nægjanlegt ökubil  en fjórar til sex hjólalengdir telst afar lítið bil til að hafa svigrúm til að stöðva ökutæki nema um lítinn hraða hafi verið að ræða. Því til stuðnings er bent á að ökutæki á hámarkshraða á slysstað (70 km/klst.) ferðast þrjár til sex hjólalengdir á u.þ.b. 0,3 til 0,6 sekúndum en rannsóknir sýna að almennt er viðbragðstími ökumanna, áður en þeir byrja að hemla, mun lengri. Ákærði Ásmundur stöðvaði heldur ekki bifhjól sitt þegar hann mætti lögreglubifreiðinni á Breiðholtsbraut þrátt fyrir stöðvunarmerki hennar en honum var greinilega fullkunnugt um það að lögreglan veitti honum bæði eftirför og fyrirsát. Verða afleiðingar slyssins því sannanlega raktar til gáleysis ákærða Ásmundar og hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem lýst er í VI. kafla ákærunnar og hún réttilega færð til refsiákvæða.

Samkvæmt sakavottorði ákærða Ásmundar var honum gerð refsing í nóvember 2002 fyrir hraðakstur og gert að greiða 80.000 króna sekt til ríkissjóðs auk þess að vera sviptur ökurétti í fjóra mánuði. Var ákærði þá sakfelldur fyrir að aka á 144 kílómetra hraða þar sem leyfður hámarkshraði var 60 kílómetrar. Þá var hann dæmdur til greiðslu 115.000 króna sektar 17. október 2006 auk þess að vera sviptur ökurétti í fimm mánuði fyrir hraðakstur. Var ákærði sakfelldur fyrir að aka á 181 kílómetra hraða á bifhjólinu YJ-959 þar sem leyfður hámarkshraði var áttatíu kílómetrar á klukkustund, með 13 ára farþega aftan á hjólinu. Hefur ákærði því nú verið sakfelldur í þriðja sinn fyrir vítaverðan ofsaakstur. Samkvæmt ökuferilsskrá ákærða Ásmundar hefur hann þegar sex staðfesta punkta. Með brotum þeim sem hann hefur verið sakfelldur fyrir nú hlýtur hann til viðbótar samtals átta punkta. Í greinargerð Guðrúnar Karlsdóttur, endurhæfingarlæknis á endurhæfingardeild Landspítalans að Grensási, segir í samantekt um slysið að Frosti hafi hálsbrotnað og hlotið mænuskaða með hárri lömun eða frá hálsi með nokkurri hreyfingu í hægri handlegg en með lítilli í vinstri handlegg og engri hreyfingu í ganglimum. Auk lömunar og skynskerðingar í öllum útlimum sé hann með blöðrulömun og að hluta til lömun í meltingarvegi vegna mænuskaðans og skerta öndun auk annarra vandamála sem tengjast mænuáverkanum. Þá hafi hann brotnað á vinstri upphandlegg og hlotið vægan heilaskaða. Sé um varanlegan skaða að ræða og mesti batinn kominn fram. Um horfur Frosta segir að ljóst sé að Frosti búi við varanlegan, háan hálsmænuskaða með spastískri lömum í öllum útlimum. Hann muni til frambúðar búa við mjög skerta sjálfsbjargargetu og hreyfigetu og vera háður hjólastól og þurfa mikla aðstoð við athafnir daglegs lífs. Þá sé öndun skert og hann útsettari fyrir öndunarfærasýkingum og einnig þvagfærasýkingum vegna blöðrulömunar og þvagleggs. Hann verði áfram í mikilli hættu á að fá legusár vegna skertrar hreyfigetu og skynskerðingar. Þá segir ennfremur að vegna vandamála eða afleiðinga mænuskaðans muni hann þurfa á mjög reglulegu eftirliti fagaðila að halda ævilangt, m.a. til að minnka líkur á ýmsum fylgikvillum. Ekki sé að vænta frekari bata.

Ljóst er að afleiðingar slyssins eru hörmulegar og mun Frosti búa við þær alla ævi. Að öllu ofansögðu virtu er refsing ákærða Ásmundar ákveðin fangelsi í átta mánuði. Rétt þykir að skilorðsbinda refsinguna og skal hún niður falla að þremur árum liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærða skal einnig gert að greiða 420.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæta ella fangelsi í tuttugu og sex daga. Þá skal ákærði Ásmundur sviptur ökurétti í þrjú ár frá 12. júní 2007 að telja.

Ákærði Frosti hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Frosti var dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness þann 13. júní 2007 og ber því að gera honum hegningarauka samkvæmt reglum 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til afleiðinga slyssins, þess að Frosti kemur aldrei til með að vera fær um að geta fullnustað þær refsingar sem hann hefur unnið til, þykir rétt að gera honum ekki sérstaka refsingu í máli þessu. Þá ber að svipta ákærða Frosta ökurétti í sex mánuði.

Krafa um upptöku á bifhjólunum.

Í máli þessu er gerð krafa um að bifhjólin YJ-959 og VE-086 verði gerð upptæk til ríkissjóðs samkvæmt 1. mgr. 107. gr. a. umferðarlaga. Eitt af skilyrðum þess að ökutæki megi gera upptækt samkvæmt ofangreindu ákvæði er stórfelldur eða ítrekaður hraðakstur eða akstur sem teljist sérlega vítaverður að öðru leyti. Ákærðu eru báðir skráðir eigendur þeirra bifhjóla sem þeir óku samkvæmt ofansögðu. Eins og að ofan greinir hefur ákærði Ásmundur tvívegis áður verið dæmdur fyrir að aka á yfir tvöföldum leyfðum hámarkshraða og í seinna skiptið á 181 kílómetra hraða á klukkustund með 13 ára barn með sér á hjólinu. Í máli þessu hefur ákærði verið sakfelldur fyrir að hafa ekið á meðalhraðanum 192 kílómetrar á klukkustund og auk þess að hafa orðið valdur að ævarandi lömun og fötlun manns vegna gáleysislegs og vítaverðs aksturs. Verður að telja að skilyrði séu fyrir hendi að taka þá kröfu ákæruvaldsins til greina að bifhjólið YJ-959 verði gert upptækt til ríkissjóðs.

Ákærði Frosti hefur einu sinni verið dæmdur fyrir að aka á 130 til 140 kílómetra hraða þar sem leyfður hámarkshraði var 90 kílómetrar á klukkustund samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness þann 13. júní 2007 og var gert að greiða 45.000 króna sekt til ríkissjóðs. Ekki þykja því skilyrði 1. mgr. 107. gr. a. umferðarlaga vera fyrir hendi, og verður kröfu ákæruvaldsins um að bifhjólið VE-086, verði gert upptækt til ríkissjóðs hafnað.

Sakarkostnaður.

Með vísan til 165. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 ber að dæma ákærðu til greiðslu sakarkostnaðar þannig:

Ákærðu báðir skulu greiða in solidum sakarkostnað samkvæmt yfirliti samtals 209.349 krónur sem er kostnaður við flutning bifhjólanna, kostnaður vegna hraðaútreikninga og vegalengdamælinga. Þá skal ákærða Ásmundi gert að greiða sakarkostnað samtals að fjárhæð 305.987 krónur sem er kostnaður vegna læknisvottorða, kostnaður við efnagreiningu og kostnaður vegna tæknirannsóknar á YJ-959. Ákærða Ásmundi skal einnig gert að greiða allan kostnað verjenda sinna, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns á rannsóknarstigi 115.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns 348.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og ferðakostnað samtals 10.620 krónur.

Ákærða Frosta skal gert að greiða, auk þess sem að ofan greinir, sakarkostnað samkvæmt yfirliti samtals 141.930 krónur, sem er vegna tæknirannsóknar, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gylfa Thorlacíus hæstaréttarlögmanns, 432.264 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar, samtals 21.240 krónur.

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, sótti mál þetta.

                Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra og Þorsteini Rúnari Hermannssyni umferðarverkfræðingi.

Dómsorð :

Ákærði Ásmundur Jespersen skal sæta fangelsi í átta mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði skal sviptur ökurétti í þrjú ár frá 12. júní 2007 að telja.

Ákærði greiði sakarkostnað, 780.207 krónur, þar á meðal málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, á rannsóknarstigi 115.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 348.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og 10.620 krónur í ferðakostnað.

Upptækt skal gert til ríkissjóðs bifhjól ákærða YJ-959.

Ákærða Frosta Þórðarsyni er ekki gerð sérstök refsing í máli þessu.

Ákærði skal sviptur ökurétti í sex mánuði frá birtingu dóms þessa að telja.

Ákærði skal greiða sakarkostnað samtals 595.434 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Gylfa Thorlacíus hæstaréttarlögmanns, 432.264 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og ferðakostnað samtals 21.240 krónur.

Ákærði er sýkn af kröfu ákæruvaldsins um upptöku á bifhjólinu VE-086.

Ákærðu báðir skulu greiða in solidum sakarkostnað, samtals 209.349 krónur.