Hæstiréttur íslands
Mál nr. 291/2003
Lykilorð
- Fiskveiðibrot
- Vigtun sjávarafla
|
|
Fimmtudaginn 18. desember 2003. |
|
Nr. 291/2003. |
Ákæruvaldið (Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Jónasi Kristjánssyni og Ásgeiri Ásgeirssyni (Gunnar Sólnes hrl.) |
Fiskveiðibrot. Vigtun sjávarafla.
J og Á voru sakfelldir fyrir brot gegn 9., sbr. 23. gr., laga nr. 57, 1996 um umgengni um nytjastofna sjávar, en brot þeirra leiddu til þess að 2.180 kíló af þorski voru við löndun vigtuð sem hlýri. Að virtu umfangi brotanna og atvikum að öðru leyti voru J og Á hvor um sig dæmdir til að greiða í ríkissjóð 800.000 krónur í sekt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. júlí 2003 að fengnu áfrýjunarleyfi í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds. Krefst ákæruvaldið þess að staðfest verði sakfelling ákærðu samkvæmt 1. og 3. tölulið ákæru og að refsing þeirra verði þyngd.
Ákærðu krefjast aðallega sýknu, en til vara að refsing verði eins væg og lög leyfa.
Svo sem nánar er rakið í héraðsdómi er ákærðu gefið að sök að hafa við löndun úr fiskiskipinu Kristjáni ÓF 51 þann 1. október 1999 brotið gegn lögum nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar og reglugerðum, sem settar hafa verið meðal annars með stoð í þeim lögum. Með héraðsdómi voru þeir sakfelldir fyrir hluta þeirra brota, sem þeim voru gefin að sök. Þriðji maðurinn, sem einnig var sakfelldur í umrætt sinn, unir héraðsdómi. Verður niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærðu staðfest með vísan til forsendna hans.
Brot ákærðu leiddu til þess að 2.180 kíló af þorski voru við löndun úr skipinu vigtuð sem hlýri. Var þannig um að ræða verulegt magn af fiski, sem brot ákærðu lutu að. Enda þótt nokkur dráttur hafi orðið á meðferð málsins eru ekki efni til að það hafi áhrif á ákvörðun refsingar ákærðu. Að virtu umfangi brotanna og atvikum að öðru leyti verða ákærðu hvor um sig dæmdir til að greiða í ríkissjóð 800.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en ella skulu þeir hvor um sig sæta fangelsi í 75 daga.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærðu, Jónas Kristjánsson og Ásgeir Ásgeirsson, greiði hvor um sig í ríkissjóð 800.000 króna sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 75 daga.
Ákærðu greiði óskipt allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Gunnars Sólnes hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 18. nóvember 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 25. september s.l., hefur sýslumaðurinn í Ólafsfirði höfðað með ákæruskjali, útgefnu 14. febrúar 2002, á hendur Jónasi Kristjánssyni, kt. 151259-3839, Seljabraut 72, Reykjavík, Ásgeiri Ásgeirssyni, kt. 050137-3849, Hlíðarvegi 51, Ólafsfirði og J.
Í ákæruskjalinu er sakargiftum lýst með eftirfarandi hætti:
„1. Á hendur ákærða Jónasi fyrir að hafa þann 1. október 1999, við löndun úr Kristjáni ÓF-51 (skipaskr.nr. 76) á Ólafsfirði, á 15 kg. á djúpkarfa, 5.942 kg. á slægðum hlýra, 650 kg. á slægðri keilu, 800 kg. á slægðum steinbít og 38.538 kg. á slægðum þorsk, ekki sinnt þeirri skyldu sinni að tryggja að réttar og fullnægjandi upplýsingar um aflann bærist vigtarmanni en með vanrækslu þessari voru 2.180 kg. af þorski vigtuð sem hlýri og stuðlaði ákærði þannig að því að umræddur þorskur var ekki dreginn frá þorskaflamarki skipsins hjá Fiskistofu.
Telst þetta varða við 9. gr. sbr. 23. gr. laga nr. 57, 1996 um umgengni um nytjastofna sjávar, 2. og 43. gr. sbr. 44. gr. rgl. nr. 522, 1998 um vigtun sjávarafla svo og 12. sbr. 15. gr. rgl. nr. 516, 1999 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 1999/2000.
2. Fyrir að hafa ekki tryggt að réttar og fullnægjandi upplýsingar voru gefnar upp á hafnarvog við löndun og vigtun í ofangreint sinn og þannig stuðlað að því að 1.526 kg. af þorski voru gefin upp við vigtun sem undirmálsþorskur án þess að hafa verið með undirmálsþorsk í umræddri veiðiferð og þannig átt aðild að því að fá ofangreint magn dreginn frá þorskaflamarki skipsins hjá Fiskistofu.
Telst þetta varða við 9. sbr. 23. gr. laga nr. 57, 1996 um umgengni um nytjastofna sjávar og 5. mgr. 7. gr. sbr. 15. gr. rgl. nr. 516, 1999 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 1999/2000.
3. Á hendur ákærða, Ásgeiri Ásgeirssyni sem framkvæmdastjóra útgerðarfyrirtækisins A ehf., er gerði út Kristján ÓF-51 og ökumanni fisksins við löndun úr Kristjáni ÓF-51 (skipaskr.nr.76) þann 1. október 1999, fyrir fiskveiðibrot með því að hafa í umrætt sinn tekið við körum við löndun upp úr Kristjáni ÓF-51 á Ólafsfirði, raðað þeim þannig að kar með hlýra var efst á stæðu með þremur körum í ferð og látið flytja þau þannig á hafnarvogina til vigtunar í nokkrum ferðum, í þeim tilgangi að vigta þorsk sem hlýra og með því komið 2.180 kg. af þorski fram hjá vigt, í þeim tilgangi að þorskurinn drægist ekki frá þorskaflamarki skipsins hjá Fiskistofu.
Telst þetta varða við 10. sbr. 23. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar nr. 57, 1996, 2. mgr. 5. gr. sbr. 44. gr. rgl. nr. 522, 1998 um vigtun sjávarafla.
4. Á hendur Ásgeiri fyrir að hafa gefið upp á hafnarvog undirmálsþorsk þann 1. október 1999, án þess að hafa verið með undirmálsþorsk í körum og þannig reynt að fá 1.526 kg. af þorski dreginn frá þorskaflamarki skipsins hjá Fiskistofu við ofangreinda löndun.
Telst þetta varða við 9. og 10. gr. sbr. 23. gr. laga nr. 57, 1996 og 5. mgr. 7. gr. rgl. sbr. 15. gr. nr. 515, 1999.
5. [ . . . ]
6. [ . . . ]
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.“
I.
Á dómþingi þann 20. ágúst s.l., líkt og við aðalmeðferð málsins 25. september s.l., leiðrétti sækjandi misritanir í ákæruskjali. Að því er varðaði 4. og 6. tl. ákærunnar var vísað til 10. gr. sbr. 23. gr. laga nr. 57, 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar og var því fallið frá tilvísun til 9. gr. laganna. Þá var leiðrétt misritun á númeri reglugerðar um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 1999/2000 til samræmis við 6. tl. ákærunnar, þ.e. nr. 516/1999.
Af hálfu skipaðs verjanda ákærðu, Jónasar Kristjánssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar, voru hafðar uppi þær dómkröfur að þeir yrðu sýknaðir af öllum kröfum ákæruvalds. Til vara var þess kafist að ákærðu yrðu dæmdir til vægustu refsingar sem lög leyfa. Loks var þess krafist að allur sakarkostnaður, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun, yrði greiddur úr ríkissjóði.
[ . . . ]
Ofangreind leiðrétting ákæruvalds á sakarefni 6. tl ákæruskjals að því er varðar heimfærslu til lagaákvæða er í samræmi við heimfærslu í 5. tl. Að mati dómsins er um augljósa ritvillu að ræða, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála og raskaði á engan hátt grundvelli málsins. Að mati dómsins gildir hið sama um aðrar þær ritvillur sem sækjandi leiðrétti við meðferð málsins. Þá er verknaðarlýsing að mati dómsins á ætluðu broti ákærða, J samkvæmt 6. tl. ákæruskjals nægjanlega ljós þegar litið er til þeirra laga- og reglugerðaákvæða sem vísað er til.
Að framangreindu virtu er að mati dómsins skilyrði til að taka þátt ákærða J, til efnisdóms, og er frávísunarkröfu hans því hafnað.
II.
Málavextir.
1. Samkvæmt rannsóknargögnum eru málsatvik þau að aðfaranótt 1. október 1999, um kl. 02:00 kom línubátur A ehf., Kristján ÓF-51, til hafnar í Ólafsfirði. Hófst löndun aflans sem var ísaður í kör þá um morguninn. Ágreiningslaust er að skipstjórinn, ákærði Jónas Kristjánsson, fór frá borði um það leyti er löndunin hófst, á milli klukkan 06:00-07:00.
Fyrir liggur í málinu að landað var úr bátnum þannig að tvö til fjögur fiskkör voru hífð úr lestinni í einu og tóku tveir starfsmenn fyrirtækisins, ákærðu Ásgeir Ásgeirsson framkvæmdastjóri og [ . . . ], við aflanum á bryggjunni. Var verkaskipting með þeim hætti að ákærði Ásgeir færði fiskkörin frá skipshliðinni í opnum gaffallyftara fáeina metra, en ákærði J tók þar við þeim og ók tveimur til þremur körum í einu yfir hafnarvog og síðan inn í fiskmóttöku fyrirtækisins, þar sem vitnið S raðaði þeim í stæður eftir fisktegundum. Var þorskur hafður aðskilinn frá steinbít, hlýra og keilu.
Samkvæmt staðfestri vigtunarnótu Ólafsfjarðarhafnar var landað 122 körum úr Kristjáni ÓF-51 í umræddri löndun, því síðasta kl. 09:01. Var samsetning aflans sem hér segir: Þorskur-slægt 39.135 kíló (86 kör), þorskur-slægt/undirmál 4.465 kíló (11 kör), keila-slægt 1.440 kíló (3 kör), hlýri-slægt 7.000 kíló (17 kör), steinbítur-slægt 1.875 kíló (4 kör), djúpkarfi-óslægt 15 kíló.
Samkvæmt skýrslu Matthíasar Sigurpálssonar veiðieftirlitsmanns, sem send var Fiskistofu þann 4. október 1999, tilkynnti hafnarvörður Ólafsfjarðarhafnar Ólafur Sæmundsson þann 1. október að hann hefði við vigtun úr Kristjáni ÓF-51, um klukkan 8:00 „staðreynt að ranglega hefði verið sagt til um fisktegundir, þar sem að komið hefði í ljós að í þremur fiskkörum þar sem tilkynnt hafði verið á hafnarvog að væri hlýri hefði komið í ljós að tvö karanna voru með þorski og ofan á þeim eitt kar með hlýra“. Vegna þessa hafi endurvigtun verið ákveðin þennan sama dag klukkan 13:00. Í skýrslu eftirlitsmannsins er aðstæðum á vettvangi lýst nánar þannig: „Undirritaður kom í móttöku A hf. um klukkan 11:45 og sá þá að í áðurgreindum stæðum, sem í átti að vera steinbítur, hlýri og keila, voru a.m.k. 3 kör af þorski. Löndun og brúttóvigtun var þá lokið og skipstjóri skipsins farinn frá staðnum. Allur þorskur sem að tilkynntur var með brúttóvigtun á hafnarvog var hafður sér í stæðum í móttökunni. Við endurvigtunina sem undirritaður var viðstaddur og framkvæmd var af Ólafi Sæmundssyni hafnarverði kom í ljós að fimm 660 lítra kör og eitt 200 lítra kar voru með þorski í innan um kör þar sem vera átti annað en þorskur. Áðurgreindur þorskur var þá endurvigtaður sérstaklega og reyndist samtals vera 2.180 kg. Ákveðið var af hálfu Ólafsfjarðarhafnar að bæta nettóvigt þess þorsks sem ranglega var tilkynntur á hafnarvog við nettóvigt þess þorsks sem réttilega var tilkynntur.“ Reyndist endanleg vigtun aflans samkvæmt framlagðri vigtunarnótu það magn sem tilgreint er í ákæruskjali.
Í skýrslu eftirlitsmannsins er greint frá því að við endurvigtun á þorski hafi komið í ljós að undirmál í þorski sem tilkynnt hafði verið á hafnarvog fannst ekki og er haft eftir starfsmanni í móttöku, vitninu S að sá afli hafi ekki verið aðgreindur frá öðrum þorski. Síðan segir í skýrslunni: „Þess má geta að vinnsla á þorski úr áðurgreindri löndun hófst á vinnutíma og gæti því hluti undirmáls hafa farið í vinnslu áður en til endurvigtunar á því kom“.
Samkvæmt bréfi Fiskistofu sem dagsett er 3. nóvember 1999 var ákærðu Jónasi Kristjánssyni og J svo og fyrirtækinu A ehf. gerð grein fyrir málavöxtum og veittur andmælaréttur til 11. nóvember s.á., áður en að ákvörðun yrði tekin um frekari framvindu málsins svo sem „hvort mál þetta verði kært til lögreglu og/eða hvort og þá til hversu langs tíma Kristján ÓF-51 verði sviptur rétti til að veiða í atvinnuskyni “. Ákærðu Ásgeir Ásgeirsson og J nýttu sér rétt sinn og svöruðu með bréfum dagsettu 8. og 11. nóvember s.á. Með bréfi dagsettu 8. desember s.á. til áðurgreindra aðila tilkynnir Fiskistofa þá ákvörðun að málið yrði afhent sýslumanninum í Ólafsfirði „til opinberrar rannsóknar og til ákvörðunar um saksókn“. Jafnframt var tilkynnt að línubáturinn Kristján ÓF-51 yrði sviptur veiðileyfi í 3 vikur frá 15. desember 1999.
Samkvæmt gögnum málsins var A ehf. úrskurðað gjaldþrota þann 7. desember 1999.
Þann 29. mars 2000 sendi Fiskistofa kæru á hendur ákærðu til sýslumannsins í Ólafsfirði vegna rangrar tilkynningar á afla við vigtun á hafnarvog. Í tilefni kærunnar voru ákærðu kallaðir til skýrslutöku hjá lögreglu, ákærði J þann 14. maí 2000 en þann sama dag var einnig tekin skýrsla af eiginkonu hans áðurnefndri S og var gætt undanþáguréttar samkvæmt 50. gr. laga nr. 19, 1991. Ákærði Ásgeir var yfirheyrður af lögreglu þann 27. júlí 2001 og ákærði Jónas 6. nóvember s.á.
2. Framburður ákærðu og vitna.
Ákærði Jónas Kristjánsson skýrði frá því fyrir dómi að hann hefði í starfi sínu sem skipstjóri þekkt til þeirra lagareglna sem í gildi voru er mál þetta kom til, þ.á.m. um meðferð afla og skráningu hans. Kvaðst ákærði þannig hafa skráð í afladagbók áætlaðan afla línubátsins Kristjáns ÓF-51 í veiðiferð er stóð frá 22. september til 29. september 1999 svo og áætlaðan heildarafla sem landað var í Ólafsfirði þann 1. október 1999, þ.e. 37.500 kílóum af þorski, 3.350 kílóum af hlýra, 1.650 af steinbít og 1.200 af keilu. Ákærði bar að það hefði ekki tíðkast að skrá undirmálþorsk sérstaklega í afladagbók, einungis áætlaðan heildarkílóafjölda.
Fyrir dómi vísaði ákærði til þess að langt væri um liðið frá framangreindum atburði, en sérstaklega aðspurður kvað hann ávallt einhvern undirmálsþorsk hafa verið í veiðiferðum skipsins. Hann treysti sér hins vegar ekki til að fullyrða um magn smáþorsks í veiðiferðinni, en vísaði til þess að hann hefði jafnan sent útgerðinni tilkynningu um aflabrögð sundurliðað eftir tegundum.
Ákærði bar að í veiðiferðum bátsins hefði fisktegundum verið haldið aðskildum í körum. Hins vegar hefði ekki verið unnt að halda fiskkörunum aðskildum eftir tegundum. Við löndum kvað ákærði þrjú til fjögur fiskkör hafa verið hífð í einu úr lestinni og lýsti hann því nánar þannig: „Það verður síðan að vera starfsmaður á bryggju sem að sér um að aðgreina tegundir áður en körin fara á vigtina.“
Fyrir dómi staðhæfði ákærði að löndun úr Kristjáni ÓF-51 þann 1. október 1999 hefði hafist um klukkan 06-07:00. Ákærði minntist þess að þá hefði verið vont veður en hann kvaðst hafa farið frá borði um það leyti er löndunin hófst sökum þess að hann hafi átt bókað flug til Reykjavíkur. Ákærði kvaðst því ekki hafa haft umsjón með lönduninni og staðhæfði að það hefði í raun ekki verið hefð fyrir því hjá fyrirtækinu. Ákærði kvaðst ekki hafa falið öðrum aðila umsjón með lönduninni. Þá minntist ákærði þess ekki að hafa haft samskipti við meðákærðu áður en hann hvarf frá Ólafsfirði umræddan morgun.
Ákærði Ásgeir Ásgeirsson skýrði frá því fyrir dómi að hann hefði sem framkvæmdastjóri A ehf. oft gripið í tilfallandi verkefni og bar að sú hefði verið raunin er hann hóf löndun úr línubát fyrirtækisins, Kristjáni ÓF-51, ásamt meðákærða J að morgni 1. október 1999. Ákærði bar að löndun úr bátnum hefði gengið vel og á hefðbundinn hátt þrátt fyrir að aðstæður hefðu verið erfiðar, kalsaveður og rigning. Fyrir dómi vísaði ákærði til þess að langt væri um liðið frá þessum atburði og bar við minnisleysi af þeim sökum, en einnig vegna höfuðhöggs er hann hefði orðið fyrir í slysi árið 1996.
Ákærði kvaðst við löndunina hafi verið á opnum gaffallyftara og haft þann starfa að færa karastæður sem hífðar voru úr lest skipsins frá skipshliðinni u.þ.b. 20 metra þannig að löndunin gæti gengið sem greiðast fyrir sig. Ákærði kvað ákærða J hafa tekið við körunum eftir nefnda tilfærslu og ekið þeim á lokuðum lyftara yfir hafnarvog og síðan inn í fiskmóttöku fyrirtækisins. Nánar lýsti ákærði lönduninni þannig að yfirleitt hefðu þrjú kör verið hífð í einu úr lestinni og staðfesti hann jafnframt þá frásögn skipstjórans hér að framan að ekki hefðu verið aðstæður í lestinni til að flokka körin eftir fisktegundum og orðaði hann það þannig: „ þess vegna hefðu getað komið upp hlýri í efstu stæðunni og maður sá ekki vel til og ég man ekki eftir því að ég hafi farið út úr lyftaranum og gætt að því hvað var í hverju keri fyrir sig.“ Ákærði staðhæfði að í raun hefði hann ekki haft „sérstakt skipulag á hlutunum þegar að hann ók kerjunum frá skipshliðinni og í flestum tilfellum ekki raðað kerjunum á bryggjuna eftir fisktegundum“. Í nokkrum tilfellum kvaðst ákærði hins vegar hafa séð hverskyns var m.a. á sporðum er stóðu upp úr ísnum í körunum. Ákærði kvað körin ekki hafa verið merkt eftir fisktegundum. Ákærði staðhæfði að löndun úr bátnum hefði í raun farið fram með hefðbundnum hætti og bar að samskipti þeirra J hefðu aðallega farið fram með handabendingum. Kvaðst ákærði fyrst hafa heyrt að mistök hefðu verið gerð við löndun og vigtun aflans eftir að eftirlistmenn Fiskistofu voru komnir á vettvang og höfðu komið auga á að þorskur var innan um aðrar fisktegundir í fiskverkunarhúsinu.
Fyrir dómi staðhæfði ákærði að í afla Kristjáns ÓF-51 hefði verið undirmálsþorskur líkt og skráð hefði verið á vigtunarnótu hafnarvogarinnar. Í því samhengi vísaði ákærði m.a. til þess að báturinn hefði verið að koma af veiðislóð fyrir Norðurlandi, að vinnsla í fiskverkun fyrirtækisins hefði verið í fullum gangi er veiðieftirlitsmennirnir gættu að aflanum í móttökunni og að skýrsla um pökkun þess afla sem unninn hefði verið úr veiðiferðinni, og fylgt hefði áðurgreindu bréfi hans til Fiskistofu þann 8. nóvember 1999, hefði verið í samræmi við að slíkur afli hefði verið unninn þar sem þar hefði komið fram að hlutfall smæstu flakanna hefði verið nokkuð nærri því sem um hefði getið í löndunarskýrslu (vigtunarnótu Ólafsfjarðarhafnar).
Ákærði J kvaðst hafa verið verkstjóri hjá A ehf. þann 1. október 1999 þegar framangreind löndun á afla línubátsins Kristjáns ÓF-51 fór fram. Greindi ákærði frá því að þetta hefði gerst á síðustu starfsdögum hans hjá fyrirtækinu þar sem að hann hefði nokkru áður sagt upp starfi sínu.
Ákærði kvað samstarfsmann við löndunina hafa verið framkvæmdastjóra fyrirtækisins, ákærða Ásgeir Ásgeirsson, og staðhæfði að verkaskipting með þeim hefði verið með heðfbundnum hætti. Þannig kvað hann Ásgeir hafa tekið á móti þeim fiskkörum sem hífð voru upp úr lestinni og raðað þeim með gaffallyftara eftir fisktegundum til hliðar á bryggjunni. Í framhaldi af því kvaðst ákærði hafa tekið körin með öðrum lyftara, ekið þeim yfir hafnarvogina og síðan inn í fiskmóttöku fyrirtækisins þar sem „lyftaramanneskja tók við þeim og raðaði þeim í kæliklefann eins og hann bað um og ætlunin var að vinna aflann“. Ákærði kvað löndunina hafa gengið vel þrátt fyrir slæmt veður, og var það álit hans að veðrið hefði einkum komið sér illa fyrir Ásgeir þar sem hann hefði verið á opnum gaffallyftara.
Ákærði lýsti atvikum máls nánar þannig að við hverja löndun hefði verið viðhaft ákveðið vinnulag og hafi hann treyst því að svo hefði einnig verið þann 1. október 1999. Ákærði kvað þrjú kör hafa verið hífð í einu upp úr lest skipsins og vegna áðurgreindrar verkaskiptingar hefði það verið hlutverk meðákærða Ásgeirs að gæta að því að sama fisktegund væri í hverri stæðu, og ef svo hafi ekki verið hefði hann átt að taka stæðurnar í sundur og raða körunum eftir fisktegundum. Fyrir dómi lýsti ákærði verklaginu nánar þannig: „Annars var þetta yfirleitt mjög óljóst, þorskurinn var hérna og svo voru bara undirtegundir við hliðina og maður gekk að þessu sem vísu, en við flokkum þetta alltaf eins og ég gat ekki séð vel í neðri körin úr lyftaranum, hvaða fiskur var í þeim, ekki nema að hafa fyrir því og stundum gerði ég það, en ekki t.d. þegar þrjú kör komu í stæðu upp úr skipinu og hann (Ásgeir) setur þau vinstra megin, þá bara fer ég, ég veit að það er þorskur þannig er ákveðið verklag haft við hverja löndun“. Ákærði kvaðst enga ástæðu hafa haft til að rengja meðákærða, Ásgeir, en að auki kvaðst hann hverju sinni hafa séð úr lyftaranum ofan í efsta karið. Þá vísaði ákærði til þess að hann hefði haft spurn af því skömmu eftir að löndunin hófst að von væri á eftirlitsmanni frá Fiskistofu er tæki úrtaksvigtun. Loks kvaðst hann hafa þekkt skyldur ökumanna við löndun og vigtun afla „það hvarflaði því ekki að okkur að taka nokkurn skapaðan hlut fram hjá“. Kvaðst ákærði í hverri ökuferð hafa tilkynnt vigtunarmanni á hafnarvoginni hvaða fisktegund hann var með í kerjunum og þ.á.m. þegar hann var með svonefndan undirmálsþorsk.
Við meðferð málsins staðfesti ákærði að við athugun veiðieftirlitsmanns Fiskistofu í fiskverkunarhúsi A ehf. hefði komið í ljós að þorskkör voru undir körum sem í var hlýri. Þá staðfesti ákærði fyrir dómi eftirfarandi niðurlagsorð í skýrslu sem að hann gaf hjá lögreglu þann 14. maí 2000: „Mætti vill taka það fram að ef að hann átti að vera gulltryggður sjálfur með það það hvaða fisktegundir hann væri að flytja til vigtunar þá hefði hann þurft að losa körin til að athuga hvort undir hlýrunum væri þorskur í hverju kari fyrir sig. Að öðrum kosti hefði hann orðið að treysta því sem að Ásgeir sagði að í körunum væri eins og hann segist hafa gert. Mætti vill einnig taka það fram að við frekari skoðun í fiskhúsinu hafi komið í ljós að þorskkörin voru enn undir hlýrakörunum þar sem hlýrinn var geymdur og því sé ljóst að lyftaramaðurinn í húsinu hafi talið að hlýri væri í öllum körunum eins og mætti segist hafa talið að væri.“
Vitnið S, eiginkona ákærða [J], kvaðst hafa verið við störf í fiskhúsi A ehf. er nefnd löndun úr Kristjáni ÓF-51 fór fram. Kvaðst vitnið hafa verið á gaffallyftara og tekið við þeim fiskkörum sem ákærði [J] kom með af hafnarvoginni, en í framhaldi af því kvaðst hún hafa raðað þeim í stæður eftir fisktegundum. Vitnið bar að yfirleitt hefðu tvö til þrjú kör komið í hverri ferð og kvaðst hún hafa treyst fyrirmælum ákærða J hvaða fisktegund var um að ræða.
Vitnið bar að það hefði tíðkast í fyrirtækinu að raða körum með undirmálsþorski í sérstakar stæður, en minntist þess ekki að það hafi verið gert í nefndri löndun. Vitnið minntist þess hins vegar að vinnsla í fyrirtækinu hefði hafist u.þ.b. tveimur til þremur klukkustundum áður en eftirlitsmaður Fiskistofu kom á vettvang. Vitnið minntist þess ekki hvort að fiskur hefði verið fyrir í húsinu áður en löndunin hófst úr Kristjáni ÓF-51,, en staðfesti hins vegar eftirfarandi niðurlagsorð í skýrslu er hún gaf hjá lögreglu þann 14. maí 2000: „Mætta segir aðspurð að hún hafi matað vinnsluna þennan morgun en segist ekki getað sagt til um hvort að einhver kör með undirmálsfiski hafi farið í vinnsluna. Hún segir að mikið hafi verið að gera og því hafi verið erfitt að fylgjast með því hvort að smáþorskur fór í vinnsluna, þó hafi yfirleitt verið byrjað að vinna hann. Mætta segist þó ekki muna til þess að sérstaklega hafi verið talað um að smáþorskur færi í vinnsluna.“
Vitnið Ólafur Sæmundsson hafnarvörður, kvaðst hafa hafið störf um klukkan 08:00 að morgni 1. október 1999. Við komu á hafnarvogina kvaðst hann hafa veitt því eftirtekt að ákærði J ók lyftara yfir vigtina og nefndi við vigtunarmann að hann væri með hlýra. Kvaðst vitnið hafa fylgst með þessu úr 1 ½ meters fjarlægð og ekki séð betur en að þorskur væri í tveimur neðstu körunum. Vegna þessa kvaðst vitnið hafa farið í fiskmóttöku A ehf., þangað sem að körunum hafði verið ekið, og samkvæmt leiðbeiningum vitnisins S séð að í karastæðu með hlýra voru tvö kör með þorski. Af þessum sökum kvaðst vitnið hafa talið sér skylt að tilkynna eftirlitsmanni Fiskistofu, Matthíasi Sigurpálssyni um málsatvik. Vitnið kvaðst hafa fylgst með móttöku aflans í fyrirtækinu eftir þetta allt þar til eftirlitsmaðurinn kom á vettvang, en eftir það verið viðstaddur endurvigtun. Við endurvigtunina kvaðst vitnið ekki hafa séð undirmálsþorsk þrátt fyrir að það hafi í raun verið hagur fyrirtækisins að tína hann fram þar sem annars hefði hann reiknast með þorskkvótanum. Vitnið lýsti að öðru leyti atvikum máls í samræmi við áðurgreinda skýrslu eftirlitsmanns Fiskistofu.
Vitnið Matthías Sigurpálsson eftirlitsmaður Fiskistofu lýsti atvikum máls fyrir dómi í öllum aðalatriðum með sama hætti og áður er rakið úr skýrslu hans frá 1. október 1999 og staðfesti hann efni hennar.
Niðurstaða.
Í III. kafla laga nr. 57, 1996 um umgengni um nytjastofna sjávar og í reglugerðum nr. 522, 1998 um vigtun sjávarafla og reglugerð nr. 516, 1999 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 1999/2000 eru skýrar og nákvæmar reglur um vigtun sjávarafla. Í 9. gr. laganna er þannig mælt fyrir um ábyrgð skipstjóra að halda afla um borð í skipi sínu aðgreindum eftir tegundum, og verði slíku ekki við komið vegna smæðar báts, ber honum við löndun að halda aflanum aðgreindum. Þá er mælt fyrir um að skipstjóra sé skylt að láta vigta hverja fisktegund sérstaklega. Í 10. gr. laganna og 2. mgr. 5. gr. reglugerðar um vigtun sjávarafla er mælt fyrir um að ökumaður, sem flytur óveginn afla skuli kynna sér samsetningu farmsins eins og kostur er, aka rakleiðis frá skipshlið að hafnarvog og gefa vigtarmanni upplýsingar um farminn.
Fyrir liggur í málinu að ákærði, Jónas Kristjánsson, sem var skipstjóri á Kristjáni ÓF-51 sinnti ekki skýlausum skyldum sínum að þessu leyti, heldur hvarf frá borði um það leyti er löndun úr bátnum hófst. Þá liggur það fyrir í málinu að ákærðu, Ásgeir Ásgeirsson framkvæmdastjóri og J verkstjóri, tóku við afla bátsins á bryggjunni í Ólafsfirði og viðhöfðu ákveðið vinnulag við löndun aflans, þ.á.m. með tilfærslu á þeim fiskkörum sem hífð höfðu verið úr lestinni. Var þetta gert áður en aflanum var ekið á hafnarvog. Er þannig upplýst að ákærðu óku ekki aflanum rakleiðis frá skipshlið á hafnarvogina. Samkvæmt frásögn þeirra fyrir dómi kynntu þeir sér heldur ekki í öllum tilvikum eða með fullnægjandi hætti samsetningu aflans, en samkvæmt framburði þeirra gekk löndunin hratt fyrir sig þrátt fyrir óhagstætt veður.
Með afdráttarlausum og trúverðugum skýrslum Matthíasar Sigurpálssonar veiðieftirlitsmanns og Ólafs Sæmundssonar hafnarvarðar fyrir dómi, er stoð hefir í frásögn ákærða, J og vitnisins S, er að mati dómsins upplýst að við löndun úr línubátnum Kristjáni ÓF-51 voru 2180 kg. af þorski vigtuð sem hlýri, líkt og nánar er rakið í 1., 3. og 5. tl. ákæruskjalsins.
Þegar ofangreint er virt í heild er að áliti dómsins nægjanlega sannað að við löndun úr Kristjáni ÓF-51 hafi við vigtun afla eigi verið nægjanlega tryggt að réttar og fullnægjandi upplýsingar bærust til vigtunarmanns Ólafsfjarðarhafnar. Gegn neitun ákærðu, Ásgeirs og J, þykir á hinn bóginn ekki nægjanlega sannað af hálfu ákæruvalds að háttsemi þeirra hafi verið unnin af ásetningi.
Brot ákærðu, Jónasar, Ásgeirs og J, samkvæmt 1., 3. og 5. tl ákæru, þykja að öllu ofangreindu virtu nægjanlega sönnuð og er háttsemi þeirra rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæruskjali. Brot ákærðu eru ekki fyrnd samkvæmt lX. kafla almennra hegningarlaga.
Sakarefni 2., 4., og 6. tl. ákæruskjals lýtur að því að ákærðu hafi ranglega gefið upp á hafnarvog undirmálsþorsk þar sem að slíkur afli hafi alls ekki veiðst eða verið til staðar í áðurgreindri veiðiferð Kristjáns ÓF-51, og að tilgangur þeirra með athæfinu hafi verið að hafa áhrif á þorskaflamark bátsins hjá Fiskistofu. Er í ákæruskjali vísað til ákvæða 5. mgr. 7. gr. reglugerðar um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 1999/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 57, 1996. Er um að ræða heimildarákvæði sem er bundið þeim skilyrðum að afla undir tiltekinni stærð sé haldið aðgreindum frá öðrum afla um borð í veiðiskipi og hann veginn sérstaklega af löggiltum vigtarmanni, sem annast endanlega vigtun aflans.
Samkvæmt brúttóvigtunarnótu Ólafsfjarðarhafnar voru við löndun úr Kristjáni ÓF-51 þann 1. október 1999 gefin upp 4465 kg. af undirmálsþorski. Var þessi afli í 11 fiskkörum og var hann samkvæmt vigtunarnótunni færður yfir vigtina í fjórum ökuferðum. Er þetta í samræmi við eindreginn framburð ákærða J fyrir dómi, en hefur auk þess stoð í frásögn meðákærðu Jónasar Kristjánssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar.
Samkvæmt skýrslum veiðieftirlitsmanns og hafnarvarðar við meðferð málsins var undirmálsþorski ekki framvísað við endurvigtun aflans. Verður og ráðið af gögnum að körum með undirmálsfiski hafi ekki verið haldið aðskildum frá öðrum þorskafla. Hins vegar liggur það í málinu að þegar veiðieftirlitsmaðurinn kom á vettvang í fiskvinnsu A ehf skömmu fyrir hádegi þann 1. október var vinnsla á þeim afla sem landað hafði verið úr bátnum Kristjáni ÓF-51 fyrr um morguninn þegar hafin.
Þegar framangreint er virt þykir ákæruvaldið ekki hafa lagt fram fullnægjandi rannsóknargögn sem hnekkt hafi áðurgreindri frásögn ákærðu, að undirmálsþorski hafi í raun verið landað úr Kristjáni ÓF-51 umræddan morgun og að sá afli hafi verið færður á hafnarvog og síðan í fiskhús. Á sama hátt er að mati dómsins ósannað að ætlan ákærðu hafi staðið til þess að fá tilgreint magn af undirmálsþorski dregið frá þorskaflamarki bátsins hjá Fiskistofu. Ber því að sýkna ákærðu af sakarefni 2., 4. og 6. töluliðar ákærunnar.
III.
Samkvæmt vottorði sakaskrá ríkisins hafa ákærðu ekki áður hlotið refsingu sem áhrif hefur í máli þessu.
Samkvæmt 23. gr. laga nr. 57, 1996 varða brot gegna ákvæðum laganna og reglum settum samkvæmt þeim sektum, hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt 6 árum. Við fyrsta brot skal sekt eigi nema lægri fjárhæð en 400.000 kr. og eigi hærri fjárhæð en 4.000.000 eftir eðli og umfangi brots.
Við ákvörðun refsingar í máli þessu verður ekki fram hjá því litið að allnokkur dráttur varð á allri málsmeðferð rannsóknaraðila, sem ákærðu verður ekki kennt um. Ber að taka tillit til þessa, sbr. 70. gr. Stjórnarskrárinnar svo sem henni var breytt með 8. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97, 1995.
Að ofangreindu virtu og þegar litið er til starfsstöðu ákærða J er hann vanrækti áðurgreindar skyldur sínar við löndun á afla úr Kristjáni ÓF-51 þykir að mati dómsins rétt, eins og hér stendur á, að fresta ákvörðun refsingar hans og láta hana niður falla að liðnum 2 árum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Refsing ákærðu, Jónasar Kristjánssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar, þykir að öllu framangreindu virtu hæfilega ákveðin 400.000 kr. sekt til ríkissjóðs sem ákærðu greiði hvor fyrir sig. Ákærðu greiði sektina innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja, en ella sæti þeir hvor fyrir sig 40 daga fangelsi.
Með vísan til ofangreindra málsúrslita ber að dæma ákærðu til að greiða helming sakarkostnaðar óskipt, þ.m.t. helming málsvarnarlauna skipaðra verjenda. Greiði ákærðu Ásgeir Ásgeirsson og Jónas Kristjánsson, óskipt helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns Jóns Kr. Sólnes hrl. sem ákveðast 150.000 kr. Ákærði J greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda sín Kristins Bjarnasonar hrl. sem ákveðast 125.000 kr. Helmingur sakarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði.
Dómsuppsaga í máli þessu hefur dregist vegna embættisanna dómara. Að höfðu samráði við sakflytjendur var ekki talin þörf á því að endurflytja málið.
Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð :
Ákvörðun refsingar ákærða J skal fresta og hún falla niður að liðnum 2 árum frá dómsuppsögu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.
Ákærði, Jónas Kristjánsson greiði 400.000 kr. sekt til ríkissjóðs sem greiðist innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 40 daga.
Ákærði, Ásgeir Ásgeirsson, greiði 400.000 kr sekt til ríkissjóðs sem greiðist innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 40 daga.
Ákærðu greiði helming sakarkostnaðar óskipt, þ.m.t. helming málsvarnarlauna skipaðra verjenda sinna. Ákærðu Ásgeir Ásgeirsson og Jónas Kristjánsson greiði óskipt helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns Jóns Kr. Sólnes hrl. 150.000 kr., en ákærði J greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns Kristins Bjarnasonar hrl. 125.000 kr. Helmingur sakarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði.