Hæstiréttur íslands
Mál nr. 655/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Framsal sakamanns
|
|
Þriðjudaginn 30. nóvember 2010. |
|
Nr. 655/2010.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir settur saksóknari) gegn X (Jón Sigfús Sigurjónsson hdl.) |
Kærumál. Framsal sakamanna.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem ákvörðun dómsmálaráðherra um framsal X til Litháen var staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. nóvember 2010 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2010, þar sem staðfest var ákvörðun dómsmála- og mannréttindaráðherra 3. september 2010 um að framselja varnaraðila til Litháen. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi að öðru leyti en sem varðar þóknun réttargæslumanns. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili reisir kröfu sína í málinu einkum á 1., 2. og 5. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984, svo og á 7. gr. laganna um að mannúðarástæður mæli gegn því að fallist verði á framsalskröfu yfirvalda í Litháen. Fallist er á forsendur og niðurstöðu héraðsdóms um að einstök ákvæði 3. gr. laga nr. 13/1984 standi ekki framsalsbeiðni í vegi. Í ákvörðun dómsmála- og mannréttindaráðherra 3. september 2010 er tekin rökstudd afstaða til þess, hvort mannúðarástæður eigi að leiða til þess að kröfu um framsal verði hafnað. Í ákvörðuninni er fjallað um þær ástæður, sem varnaraðili telur að við eigi og hvernig þær horfa við samkvæmt skýringu á 7. gr. laganna. Þetta mat ráðherra verður ekki endurskoðað í málinu enda engar líkur leiddar að því að það sé ekki framkvæmt með réttum og málefnalegum hætti.
Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila, Jóns Sigfúsar Sigurjónssonar héraðsdómslögmanns, 200.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. nóvember 2010.
I
Með bréfi 11. október síðastliðinn, sem barst dóminum 13. sama mánaðar, vísaði ríkissaksóknari, fyrir hönd íslenska ríkisins, til dómsins kröfu varnaraðila, X, kennitala [...], [...], [...], um úrskurð um hvort skilyrði laga um framsal séu fyrir hendi, en dómsmálaráðuneytið ákvað 3. september síðastliðinn að varnaraðili skyldi framseldur til Litháen.
Varnaraðili krefst þess að framangreind ákvörðun dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins um að framselja hann til Litháen verði felld úr gildi. Þess er krafist að þóknun réttargæslumanns varnaraðila verði greidd úr ríkissjóði.
Af hálfu íslenska ríkisins er krafist staðfestingar ákvörðunar dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins að framselja varnaraðila til Litháen.
II
Í greinargerð ríkissaksóknara er gerð svofelld grein fyrir málavöxtum og lagarökum fyrir því að orðið skuli við kröfu hans: „Þann 14. maí 2010 barst ríkissaksóknara, með bréfi dómsmálaráðuneytisins, beiðni litháískra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila, sem er litháískur ríkisborgari, vegna gruns um refsiverða háttsemi þar í landi. Samkvæmt gögnum sem fylgdu beiðninni úrskurðaði Héraðsdómur í [...] þann 17. febrúar 2010 að varnaraðili skyldi handtekinn þar sem fram væri kominn rökstuddur grunur um að hann hafi þann 7. júlí 2007, í [...], ekki sýnt nægilega aðgæslu er hann ók bifreiðinni [...] of hratt og af rangri akrein yfir gatnamót [...] og [...]. Á gatnamótunum varð árekstur með bifreið varnaraðila og bifreiðinni [...] með þeim afleiðingum að ökumaður síðari bifreiðarinnar lést og farþegar hlutu minniháttar áverka. Telst þessi háttsemi varða við 5. mgr. 281. gr. litháískra hegningarlaga. Þá er varnaraðili einnig grunaður um að hafa í kjölfar árekstursins yfirgefið slysavettvang án þess að tilkynna lögreglu um slysið eða gera ráðstafanir til að koma hinum slösuðu til hjálpar. Telst sú háttsemi varða við 144. gr. litháískra hegningarlaga.
Varnaraðila var formlega kynnt framsalsbeiðnin þann 15. júlí sl. hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Kvaðst hann kannast við að framsalsbeiðnin ætti við hann en hafnaði henni. Ríkissaksóknari sendi dómsmálaráðuneytinu umsögn, dags. 12. ágúst sl., þess efnis að skilyrði framsals teldust uppfyllt, sbr. einkum 3., 9. og 12. gr. laga nr. 13/1984. Þann 3. september sl. féllst dómsmálaráðuneytið á beiðni litháískra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila, sbr. 17. gr. laga nr. 13/1984. Í ákvörðuninni er tekið fram að persónulegar aðstæður varnaraðila teljist ekki nægilegar til að synja um framsal til Litháen á grundvelli 7. gr. laga nr. 13/1984. Var varnaraðila kynnt ákvörðun dómsmálaráðuneytisins þann 30. september sl. Með tölvupósti, sem barst ríkissaksóknara 1. október sl., krafðist varnaraðili úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur um hvort skilyrði laga um framsal væru fyrir hendi, sbr. 14. gr. laga nr. 13/1984 og áréttaði kröfu sína bréflega þann 11. október sl.“
III
Varnaraðili skýrir svo frá málavöxtum að hann hafi verið í heimsókn í Litháen 7. júlí 2007, en hann hafi búið samfellt hér á landi frá [...]. Þennan dag varð umferðarslysið og kveðst varnaraðili hafa rotast við það og muna eftir því en minni hans sé að öðru leyti gloppótt um atburðinn. Hann kvaðst hafa verið á sjúkrahúsi til 13. júlí. Hann hafi síðan verið í Litháen í 8 mánuði að kröfu þarlendra yfirvalda vegna rannsóknar á slysinu og, væntanlega, vegna gruns um refsiverða hegðun. Hann hafi mætt til skýrslutöku ytra, bæði hjá lögreglu og saksóknara, og hafi skilið það svo að málinu væri lokið er hann fékk vegabréf sitt afhent aftur.
Varnaraðili byggir kröfu sína á því að framangreint mál hafi verið til rannsóknar í marga mánuði og ekki leitt til þess að höfðað væri mál á hendur honum. Hann hafi ekki verið talinn bera ábyrgð á slysinu og engin ný gögn hafi komið fram, svo hann viti, sem breyti því mati og réttlæti endurupptöku málsins. Þessu til stuðnings vísar hann til 1. og 5. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984. Einnig byggir hann á því að heilsufari sínu sé svo háttað að ekki sé rétt að framselja sig, sbr. 7. gr. nefndra laga.
IV
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum er heimilt að framselja mann ef hann er í erlendu ríki grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Þær upplýsingar og gögn sem kveðið er á um í 12. gr. laganna að fylgja skuli framsalsbeiðni eru öll til staðar í máli þessu.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 er framsal á manni því aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum. Brot þau sem varnaraðili er grunaður um eru talin varða við 215. gr. og 1. mgr. 220. gr. eða 1. mgr. 221. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing fyrir brot gegn fyrstnefnda ákvæðinu getur varðað allt að 6 ára fangelsi, gegn því næsta allt að 8 ára fangelsi og gegn hinu síðastnefnda allt að 2 ára fangelsi. Skilyrði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 um framsal varnaraðila eru því uppfyllt. Þá liggur fyrir ákvörðun af hálfu dómstóls í Litháen um að varnaraðili skuli handtekinn og er því einnig uppfyllt skilyrði 2. mgr. 3. gr. laganna. Þeirri málsástæðu varnaraðila að mál gegn honum sé ekki til meðferðar í Litháen er því hafnað. Þá er ekkert það komið fram sem gefur ástæðu til að ætla að einhver þeirra atriða sem um getur í 5. mgr. 3. gr. laganna eigi við og er þeirri málsástæðu varnaraðila hafnað. Loks er þess að geta að sök er ófyrnd og því uppfyllt skilyrði 9. gr. laganna.
Varnaraðili byggir á því að heilsufari hans sé svo háttað að synja beri um framsal með vísun til 7. gr. laganna. Hefur hann lagt fram læknisvottorð þessu til stuðnings. Í vottorðunum kemur fram að varnaraðili hafi fengið höfuðhögg og rotast í slysinu. Í kjölfarið hafi hann þjáðst af vægri minnisskerðingu og áfallastreituröskun. Einnig hafi hann fengið áverka á háls, herðar, bak og mjóbak og eigi enn við vandamál að stríða vegna þeirra. Í nefndri 7. gr. segir að í sérstökum tilfellum megi synja um framsal ef mannúðarástæður mæli gegn því og er heilsufar nefnt meðal þeirra ástæðna. Það er álit dómsins að heilsufari manns, sem óskað er framsals á, þurfi að vera þann veg háttað að beinlínis ómannúðlegt sé að framselja hann til að nefnt lagaákvæði geti átt við. Þannig er heilsufari varnaraðila ekki háttað þótt hann beri vissulega allalvarlegar menjar slyssins. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að ákvæði 7. gr. laganna standi ekki í vegi fyrir því að verða við kröfu ríkissaksóknara.
Samkvæmt öllu framansögðu er kröfum varnaraðila hafnað og staðfest ákvörðun dómsmálaráðherra frá 3. september 2010 um að framselja hann til Litháen. Þóknun réttargæslumanns varnaraðila skal greidd úr ríkissjóði eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun dómsmálaráðherra frá 3. september 2010 um að framselja varnaraðila, X, til Litháen, er staðfest.
Þóknun réttargæslumanns varnaraðila, Jóns Sigfúsar Sigurjónssonar hdl., 399.090 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, skal greidd úr ríkissjóði.