Hæstiréttur íslands
Mál nr. 670/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Framlagning skjals
|
|
Föstudaginn
9. nóvember 2012. |
|
Nr.
670/2012. |
Ákæruvaldið (Helgi
Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn X (Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) |
Kærumál.
Framlagning skjala.
Hafnað var kröfu X um að ákæruvaldinu
yrði gert að afla nánar tilgreindra gagna í sakamáli, sem höfðað hafði verið á
hendur honum.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir
Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5.
nóvember 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður
er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 2012, þar sem
hafnað var kröfu varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að afla upplýsinga um
gögn og nánar tiltekin viðskipti Landsbanka Íslands hf. við A ehf. í máli sem
sóknaraðili hefur höfðað á hendur honum. Kæruheimild er í p. lið 1. mgr. 192.
gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Varnaraðili krefst þess að lagt
verði fyrir sóknaraðila að afla gagna þeirra sem lýst er í hinum kærða
úrskurði.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði
staðfestur.
Varnaraðili hefur ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að þau
gögn og upplýsingar, sem hann fer fram á að héraðsdómari leggi fyrir
sóknaraðila að afla, geti haft þýðingu við
málsvörn varnaraðila. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til
forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2.
nóvember 2012.
Með ákæru ríkissaksóknara 19. júlí 2012 er ákærðu gefið að
sök brot gegn þagnarskyldu framin í Reykjavík 23. febrúar 2012. Eru brotin
talin varða við 1. mgr. 13. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert
eftirlit með fjármálastarfsemi, sbr. 138. gr. og 136. gr. almennra
hegningarlaga nr. 19/1940 að því er ákærða, X, varðar, en við 1. mgr. 58. gr.,
sbr. 22. tl. 1. mgr. 112. gr. b laga nr. 161/2002 um
fjármálafyrirtæki, að því er ákærða, Y, varðar.
Í þinghaldi 10. október sl. lagði verjandi ákærða, X, fram
bókun á dskj. nr. 9 þar sem skorað var á sækjanda að
afla tiltekinna gagna undir töluliðum 1-9 og vörðuðu nánar tilgreindar
upplýsingar um gögn og viðskipti Landsbanka Íslands hf. við A ehf. frá í júní
2003. Í þinghaldi 17. október sl. lýsti sækjandi yfir að ekki yrði orðið við
áskorun verjandans. Gerði verjandinn þá kröfu, með vísan til 2. mgr. 110. gr.
laga nr. 88/2008, að dómari myndi leggja fyrir sækjanda að afla hinna umbeðnu
gagna. Var því mótmælt af hálfu sækjanda og var málið flutt um þann ágreining
1. nóvember sl. Var málið tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi.
Ákærði, X, sem í þessum þætti er varnaraðili, krefst þess að
dómari leggi fyrir sækjanda að afla upplýsinga um gögn og viðskipti Landsbanka
Íslands hf. við A ehf. frá í júní 2003 er fram koma í bókun á dskj. nr. 9, tl. 1-9.
Ríkissaksóknari, sem í þessum þætti er sóknaraðili málsins,
krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað.
Varnaraðili byggir kröfu sína á því að ákærða sé þörf á
umræddum gögnum til að hann geti hagað vörnum sínum í málinu með fullnægjandi
hætti. Um sé að ræða gögn er máli geti skipt um sakfellingu ákærða, auk þess
sem gögnin geti sýnt fram á hvatir ákærða, sem áhrif geti haft á bæði
sakaráfelli og refsiákvörðun. Stjórnarskrá, mannréttindasáttmáli Evrópu og lög
um meðferð sakamála, nr. 88/2008, gangi út frá grunnforsendu um jafnræði á
milli ákæruvalds og ákærða í sakamáli. Um það megi vísa til 1. mgr. 70. gr.
stjórnarskrár, 1. og 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem hér hafi
lagagildi. Máli skipti fyrir ákærðan einstakling að geta aflað sönnunargagna í
þágu máls. Meginreglan um jafnræði stuðli að því. Þá hafi svonefnd
sannleiksregla í 53. gr. laga nr. 88/2008 þau áhrif að upplýsa þurfi um öll
atvik málsins. Þannig þurfi að leysa úr máli á grundvelli allra þeirra
upplýsinga er máli skipta. Á þann veg eigi lögregla og ákæruvald að sinna
ábendingum sakborninga um frekari rannsókn og frekari gögn í máli. Þá leiði
svonefnd hlutlægnisregla í 3. mgr. 18. gr., sbr. 2. mgr. 53. gr. laga nr.
88/2008 til hins sama, en horfa þurfi jafnt til gagna sem leiði í ljós sekt og
sýknu í sakamáli. Á þessum grunni sé unnt að mæla fyrir um, samkvæmt 2. mgr.
110. gr. laga nr. 88/2008, að dómari geti lagt fyrir sækjanda að afla gagna.
Dómafordæmi leiði í ljós að ákæruvaldi beri að leggja fram gögn í sakamálum um
atriði er varði atvik máls. Sé það í raun ákæruvald sem þurfi að leiða í ljós
að gögnin séu þarflaus í máli til að því sé hafnað. Það hafi ákæruvald ekki
gert í þessu máli. Á meðal rannsóknargagna málsins liggi fyrir úrskurður Héraðsdóms
Reykjavíkur í máli nr. R-[...]/2012 þar sem fallist hafi verið á kröfu lögreglu
um að Landsbanka Íslands hf. hafi verið skylt að afhenda öll gögn er bankinn
hefði undir höndum varðandi viðskipti bankans og A ehf. frá í júní 2003.
Lögregla og ákæruvald hafi því getað haft öll þessi gögn undir höndum. Heimildin
hafi hins vegar verið illa nýtt.
Sóknaraðili hefur mótmælt málatilbúnaði varnaraðila. Kveður
hann augljóst að þau gögn sem varnaraðili geri kröfu um að lögð verði fram hafa
enga þýðingu við efnisúrlausn þess máls sem hér sé til meðferðar. Ákærða sé
gefið að sök að hafa afhent tilteknar upplýsingar sem háðar hafi verið
þagnarskyldu. Umbeðnar upplýsingar séu í sjálfu sér aukaatriði fyrir brotið sem
slíkt og hafa enga þýðingu varðandi það brot sem ákærðu sé gefið að sök. Eins
og ákæra sé úr garði gerð skipti huglægar hvatir ákærðu ekki máli við úrlausn
málsins. Til þess að gagna verði aflað í skjóli þessarar heimildar þurfi þau að
hafa eitthvert gildi fyrir vörn málsins. Því sé ekki þannig háttað í máli
þessu.
Niðurstaða:
Í máli því sem hér er til meðferðar er ákærðu gefið að sök
brot gegn þagnarskyldu með því að hafa aflað tiltekinna gagna úr bókhaldi
Landsbanka Íslands hf. um viðskipti A ehf. sem sýndu að Landsbanki Íslands hf.
greiddi 32.700.000 krónur inn á bankareikning A ehf. 13. júní 2003, og komið
þeim upplýsingum áfram til fréttastjóra DV sem nýtti upplýsingarnar við ritun
fréttar. Í ákæru er háttseminni nánar lýst að því er varðar ákærðu hvorn um sig
og við það miðað að umræddar upplýsingar hafi verið bundnar þagnarskyldu. Er
háttsemin talin varða við tilgreind ákvæði laga nr. 87/1998 um opinbert
eftirlit með fjármálastarfsemi, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og
almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í bókun á dskj.
nr. 9 er í töluliðum 1 til 9 farið fram á að aflað verði gagna um viðskipti A
ehf. og Landsbanka Íslands hf. sem séu samningar um kaup á tilgreindu umboði
til sölu lífs- og sjúkdómatrygginga, verðmöt og gögn til grundvallar
viðskiptunum, upplýsingar um hvernig greiðsla fyrir samninginn hafi verið færð
í bókhaldi bankans og hvernig umboðið og/eða hlutafé A ehf. hafi verið fært í
bókhaldi bankans. Að fengnum framangreindum upplýsingum er miðað við að lagt
verði mat á hvort afla þurfi frekari gagna um tilfærslu greinds umboðs til sölu
líf- og sjúkdómatrygginga frá Búnaðarbanka Íslands í maí eða júní 2003, verðmat
og önnur gögn til grundvallar þeim viðskiptum, upplýsingar um hvenær Landsbanki
Íslands hf. hafi hætt sölu tilgreindra líf- og sjúkdómatrygginga og hver afkoma
bankans hafi verið á meðan á sölu trygginganna hafi staðið. Jafnframt
upplýsingar um tilteknar færslur í bókhaldi bankans og afrit af ársreikningi A
ehf.
Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 er rannsókn
sakamáls í höndum lögreglu, nema örðuvísi sé fyrir mælt í lögum. Er markmið
rannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna til að ákæranda sé fært að ákveða
að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til
undirbúnings málsmeðferð fyrir dómi, sbr. 53. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr.
134. gr. laganna leggja aðilar síðan fram þau skjöl og önnur sýnileg
sönnunargögn sem þeir vilja að tekið sé tillit til við úrlausn máls.
Frumkvæðisskylda dómara við öflun sönnunargagna er að íslenskum rétti verulega
takmörkuð og sú undantekning ein gerð í 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 að
dómara er unnt að beina því til ákæranda að afla gagna til að upplýsa mál eða
skýra ef það verður talið nauðsynlegt. Styðst þetta við þau grunnrök að það er
ákæruvalds að sýna fram á sekt ákærða og verður skynsamlegur vafi í þeim efnum
metinn ákærða í hag, sem aftur getur leitt til sýknu í máli, sbr. 108. og 1.
mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008. Með samsvarandi hætti er ákærða að benda á
veikleika í málatilbúnaði ákæruvalds, m.a. að því er framlögð gögn varðar, sem
kann að leiða til skynsamlegs vafa í máli. Í ljósi þeirra sjónarmiða er hér
hafa verið rakin um afskiptaleysi dómara af sönnunarfærslu í sakamáli telur
dómurinn að gögn þau sem verjandi ákærða, X, gerir kröfu um að aflað verði séu
ekki slík að augljóst sé að nauðsynleg séu fyrir málsvörn ákærða á því stigi
sem málið er nú og svo sem ákæruefni málsins er úr garði gert. Verður kröfu
verjandans því hafnað.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú
r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu varnaraðila, X, um að dómari leggi fyrir sækjanda að
afla upplýsinga um gögn og viðskipti Landsbanka Íslands hf. við A ehf. frá í
júní 2003 er fram koma í bókun á dskj. nr. 9, tl. 1-9., er hafnað.