Hæstiréttur íslands

Mál nr. 147/2008


Lykilorð

  • Varnarsamningur
  • Verksamningur
  • Aðild


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. desember 2008.

Nr. 147/2008.

Eykt ehf.

(Othar Örn Petersen hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna. Verksamningur. Aðild.

E ehf. tók þátt í forvali vegna verks sem boðið var út af hálfu varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. E ehf. var samþykkt af forvalsnefnd utanríkisráðuneytisins og tilnefnt af utanríkisráðuneytinu sem hæfur aðili. E ehf. gerði tilboð í verkið sem samþykkt var af varnarliðinu. Varnarliðið tilkynnti E ehf. síðar að verksamningnum væri sagt upp til hægindaauka fyrir bandarísk stjórnvöld. Greiddi varnarliðið E ehf. vangildisbætur samkvæmt ákvæði samningsskilmála sem vísað var til í samningi aðila, en E ehf. hafði ekki verið afhent eintak skilmálanna. E ehf. hafnaði því að sættast á vangildisbætur og krafðist efndabóta vegna missis hagnaðar, ásamt bótum vegna kostnaðar af riftuninni. Var íslenska ríkið krafið um bætur á grundvelli laga um varnarsamning milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess nr. 110/1951 og laga um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna nr. 82/2000. Talið var að í 2. tl. 12. gr. viðbætis um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra, sbr. lög nr. 110/1951, væri skýrt kveðið á um að íslenska ríkinu væri ekki skylt að greiða skaðabætur innan samninga vegna samningsrofa varnarliðsins. Þá var ekki sýnt fram á að íslenska ríkið bæri, þrátt fyrir þetta ákvæði, ábyrgð á tjóni E ehf. Var íslenska ríkið því sýknað af kröfum E ehf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. mars 2008 og krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til skaðabóta úr hendi stefnda vegna missis hagnaðar af verksamningi við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli um verkið: „Contract N62470-01-C-5066, Blds 638, Repair/Alter, U.S. Naval Air Station, Keflavík, Iceland“, að frádregnum þeim skaðabótum sem varnarliðið á Keflavíkurflugvelli greiddi áfrýjanda 24. janúar 2005. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Eykt ehf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2007.

I

Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 16. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Eykt ehf., kt. 560192-2319, Lynghálsi 4, Reykjavík, með stefnu birtri 24. febrúar 2006, á hendur íslenzka ríkinu.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkenndur verði réttur stefnanda til skaðabóta úr hendi stefnda vegna missis hagnaðar af verksamningi við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli um verkið: „Contract N62470-01-C-5066, Bldg 638, Repair/Alter, U.S. Naval Air Station, Keflavik, Iceland“, að frádregnum þeim skaðabótum, sem varnarliðið á Keflavíkurflugvelli greiddi stefnanda þann 24. janúar 2005.  Þá er þess krafizt, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefnda eru þær, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

II

Málavextir

Í maí 2003 var verkið: „Contract N62470-01-C-5066, Bldg 638, Repair/Alter, U.S. Naval Air Station, Keflavik, Iceland“ boðið út af hálfu varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.  Verkið fólst í því að endurnýja íbúðablokk á athafnasvæði varnarliðsins.  Verkið var auglýst í Morgunblaðinu 11. maí 2003, og var jafnframt tekið fram að ýmis smærri verk og verkefni fyrir varnarliðið væru auglýst á tilgreindri  heimasíðu, en inni á þeirri heimasíðu er jafnframt að finna leiðbeiningar um framkvæmd útboða og samningsgerð við varnarliðið.             Stefnandi var einn umsækjenda í forvalinu og var hann samþykktur, af forvalsnefnd utanríkisráðuneytisins, og tilnefndur af utanríkisráðuneytinu sem „hæfur- aðili“ í skilningi 2. mgr. 8. gr. laga nr. 82/2000 til að taka þátt í útboðinu.  Kemur fram í tilkynningu þar um til stefnanda, að útboðsgögn og teikningar verði send honum með tölvupósti.

Þann 26. júní 2003 gerði stefnandi varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli tilboð í verkið á stöðluðu tilboðseyðublaði frá varnarliðinu.  Þann 30. júní 2003 var tilboðið áritað um samþykki af hálfu varnarliðsins og stefnanda veitt verkið.  Skilmálar áritunarinnar hljóðuðu á þann veg að tilboði stefnanda væri tekið og að þar með væri kominn á samningur milli aðila, sem samanstæði af útboðsgögnunum, tilboði stefnanda og yfirlýsingu varnarliðsins um samþykki tilboðsins.  Tekið var fram að frekari samningsskjöl væru óþörf.  Samningurinn vísar til hins áritaða tilboðseyðublaðs og útboðsgagna um samningsskilmála. 

Útboðsgögn, sem þannig voru hluti af samningi aðila, voru á ensku.  Í útboðs- og verklýsingu er að finna ítarlegar leiðbeiningar fyrir tilboðsgjafa.  Er þar m.a. tekið fram hvaða reglur, skilyrði og samningsskilmálar gildi um verkið, og hvar megi nálgast eintök af slíku og fá nánari upplýsingar.  Þannig er í ákvæði 1.2 í yfirkafla 00100 gefinn upp sími samningsstjóra varnarliðsins (ROICC) til að tilboðsgjafar geti haft samband, vilji þeir fá að skoða aðstæður á verkstað.  Í ákvæði 1.4 í sama kafla, sem ber fyrirsögnina EXPLANATION TO PROSPECTIVE BIDDERS (leiðbeiningar fyrir væntanlega tilboðsgjafa), er tilboðsgjöfum gefinn kostur á að senda inn skriflegar fyrirspurnir til samningsstjórans, óski þeir eftir útskýringum varðandi tilboð, teikningar, útboðs- og verklýsingu o.fl.  Er þar jafnframt gefið upp faxnúmer samningsstjórans.  Í ákvæði 1.5 í sama kafla, sem ber fyrirsögnina AVAILABILITY OF DOCUMENTS (aðgengi að gögnum), segir, að eintök af sérskilmálum og stöðlum bandaríska hersins fáist afhent gegn skriflegri beiðni þar að lútandi.  Þá er tekið fram í ákvæði 1.5.c í sama kafla, að hægt sé að fá að skoða útboðsgögn, staðla, áætlanir, teikningar, gögn, lýsingar og önnur mikilvæg skjöl, sem vitnað sé til í útboðs- og verklýsingunni, á skrifstofu samningastjórans í byggingu 506 á Keflavíkurflugvelli.

Í yfirkafla 00200, í útboðs- og verklýsingu, sem ber heitið INSTRUCTIONS TO BIDDERS (leiðbeiningar til tilboðsgjafa), er í ákvæði 1.1 vísað til ákvæða, sem sögð eru tekin upp úr bandarískum alríkisútboðsreglum, svokölluðum FAR-reglum (Federal Aquisiton Regulations), viðbótarútboðsreglum bandaríska varnarmálaráðuneytisins (Department of Defense Federal Aqusition Regulation Supplement (DFARS)) og samningahandbók bandaríska sjóhersins (NAVFAC Contracting Manual (FAC)).  Í ákvæði 1.5 og 1.6 í yfirkafla 00200 er að finna upplýsingar um það, hvar nálgast megi tilvitnaða skilmála gegn greiðslu.  Þá er í ákvæði 1.8 tilgreint að nálgast megi öll gögn, þ.m.t. sérstaka skilmála, sem vísað er til í verklýsingu, á skrifstofu samningastjórans í byggingu 506 á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Í yfirkafla 00720 í útboðs- og verklýsingu er að finna ákvæði 1.10, sem ber fyrirsögnina „FAR 52.252.2 ákvæði sem felld eru inn með tilvísun“.  Segir þar, að samningurinn hafi að geyma eitt eða fleiri ákvæði, sem felld eru inn með tilvísun og hafi sama gildi og áhrif og væru þau felld inn í meginmálið.  Samningsfulltrúinn muni afhenda texta þeirra í heild, verði um það beðið.

Í yfirkafla 00721, í útboðs- og verklýsingu er að finna undirkafla 2, sem ber heitið: “Ákvæði alríkisinnkaupareglna sem teljast hluti samnings samkvæmt tilvísun (e. FEDERAL AQUISITION REGULATION (FAR) CLAUSES INCORPORATED BY REFERENCE).  Í grein 2.31. í undirkafla 2 er að finna tilvísun til ákvæðis FAR 52.249.2-2, sem ber heitið TERMINATION FOR CONVENIENCE OF THE GOVERNMENT (FIXED - PRICE 9) (SEP 1996) - ALTERNATES I (SEP 1996 (Samningsslit vegna hagsmuna [bandarískra] stjórnvalda (Stöðluð bótafjárhæð)).“  Um er að ræða ákvæði, sbr. dskj. nr. 46, sem heimilar bandarískum stjórnvöldum að slíta samningi vegna ástæðna, er varða bandarísk stjórnvöld, gegn greiðslu staðlaðrar bótafjárhæðar (vangildisbóta).

Stefnandi tekur fram, að bjóðendum hafi ekki verið afhent eintak af FAR-reglunum í heild sinni.  Ekki hafi heldur verið vísað til þess í útboðsgögnunum, hvort eða hvar bjóðendur gætu nálgast ofangreindar reglur.  Ákvæði þeirra samningsskilmála, sem ekki hafi verið teknir berum orðum upp í útboðsgögnin, hafi ekki verið kynnt stefnanda sérstaklega fyrir eða við samningsgerðina.

Með tilkynningu til stefnanda, dags. 28. ágúst 2003, tilkynnti stefndi stefnanda, að verksamningi þeirra væri sagt upp í heild sinni og uppgefin ástæða þess var sú, að það væri til hægindaauka fyrir bandarísku stjórnina (for convenience of the Government).  Var stefnanda tilkynnt að uppsögnin væri gerð í samræmi við: “Contract Clause 52.249-2 Termination for Convenience of the Government (Fixed-Price Construction) (SEP 1996)“ og að félaginu bæri að leggja fram tillögu sína um uppgjör vegna samningsslitanna innan 30 daga. 

Stefnandi kveðst hafa verið að ljúka sambærilegu verki vegna annarrar íbúðablokkar, “Contract N62470-01-C-5052, Bldg. 637, Repair/Alter BOQ, U.S. Naval Air Station, Keflavik, Iceland“, þegar samningnum var rift þann 28. ágúst 2003, og verið að undirbúa framkvæmdir á grundvelli hins rifta samnings. 

Stefnandi kveður tilvísun riftunaryfirlýsingarinnar, dags. 28. ágúst 2003, til samningsskilmála nr. 52.249-2 ekki hafa verið samhljóða tilvísun gr. 2.31 í útboðsgögnum til samningsskilmála FAR 52.249-2.  Umrætt skilmálaákvæði hafi ekki verið að finna berum orðum í hinum staðlaða samningi aðila.  Í kjölfar riftunarinnar og samkvæmt beiðni stefnanda hafi stefnandi verið upplýstur um efni FAR 52.249-2.  Hafi þá orðið ljóst, að ákvæðið heimilaði riftun af hálfu varnarliðsins, án þess að gera skilyrði um vanefndir eða verulegar vanefndir af hálfu verktaka, og að við þær aðstæður, sem uppi voru í verkinu, hafi ákvæðið aðeins heimilað, að greiddar væru bætur vegna kostnaðar við samningsgerð, undirbúning efnda og kostnaðar af riftuninni (þ.e. vangildisbætur), en að bætur vegna missis hagnaðar væru útilokaðar (þ.e. efndabætur). 

Með bréfi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, dags. 7. júní 2004, var stefnanda tjáð, að félagið gæti einungis krafizt bóta á grundvelli kostnaðar af riftuninni, og var kallað eftir tillögu stefnanda um bætur vegna riftunarinnar á þeim grundvelli.  Var varað við því, að varnarliðið myndi ákveða slíkar bætur einhliða, ef stefnandi legði ekki fram tillögur að bótauppgjöri.

Með bréfi stefnanda til varnarliðsins, dags. 24. júní 2004, setti félagið fram tillögu sína að skaðabótum vegna uppsagnarinnar.  Var byggt á því, að lagaskilareglur alþjóðlegs einkamálaréttar leiddu til þess, að beita bæri íslenzkum réttarreglum um ágreiningsefnið.  Byggði stefnandi á því, að riftunin sem slík væri ólögmæt, þar sem hvorki hefði verið um vanefndir né fyrirsjáanlegar vanefndir að ræða af hans hálfu.  Hafnaði félagið því að sættast á vangildisbætur vegna riftunarinnar og krafðist efndabóta vegna missis hagnaðar, ásamt bótum vegna kostnaðar af riftuninni.  Með bréfi stefnanda til utanríkisráðuneytisins, dags. 24. júní 2004, var ráðuneytinu tilkynnt um málið og afstöðu stefnanda.  Var þar áskilinn allur réttur til þess að beina kröfum að íslenzka ríkinu á grundvelli meginreglna laga nr. 110/1951 og nr. 82/2000, bætti varnarliðið ekki tjón félagsins að fullu.

Með bréfi varnarliðsins, dags. 2. ágúst 2004, var röksemdum stefnanda hafnað og enn á ný krafizt tillögu að uppgjöri bóta á grundvelli bandarísku FAR-reglnanna.  Með bréfi stefnanda, dags. 11. ágúst 2004, var afstaða félagsins ítrekuð.  Var afrit af þessum bréfaskriftum sent utanríkisráðuneytinu með bréfi, dags. 11. ágúst 2004.

Með bréfi, dags. 1. september 2004, var stefnanda tilkynnt, að bætur vegna riftunarinnar væru einhliða ákvarðaðar að fjárhæð USD 24.000.  Var tilkynnt, að bæturnar tækju til lögmannsþóknunar, áætlaðs kostnaðar við undirbúning verksins og stjórnunarkostnaðar vegna viðbragða Eyktar ehf. við riftuninni.  Inni í bótafjárhæðum vegna undirbúnings og stjórnunarkostnaðar var gert ráð fyrir hagnaðarhlutdeild, en bótum vegna missis hagnaðar af verkinu í heild og afleidds tjóns, sem og kröfu vegna vaxta, var hafnað með vísan til FAR 49.202 og FAR 49.112-2.

Með bréfi, dags. 27. desember 2004, óskaði varnarliðið eftir því, að stefnandi legði fram reikning vegna bótafjárhæðarinnar, sem ákveðin hafði verið.  Stefnandi gerði reikning, að fjárhæð USD 24.000, á stöðluð eyðublöð varnarliðsins, dags. 3. janúar 2005. 

Með tölvubréfi, dags. 5. janúar 2005, var þess krafizt, að stefnandi undirritaði enn eitt staðlað eyðublað (release form) með yfirlýsingu, þar sem fram kæmi, að verktakinn leysti þar með bandarísku stjórnina undan kröfum vegna samningsins, sem um ræddi.  Var tekið fram í tölvubréfinu, að undirritun slíks eyðublaðs væri stöðluð framkvæmd í öllum samningum fyrir varnarliðið.   Stefnandi undirritaði ekki eyðublaðið fyrst um sinn.

Stefnandi kveður, að í símtali frá Philip Smith, starfsmanni varnarliðsins, til Páls Daníels Sigurðssonar, sviðsstjóra framkvæmdasviðs stefnanda, hafi verið tilkynnt, að reikningur Eyktar ehf. yrði ekki greiddur, nema yfirlýsingin yrði undirrituð.  Hafi, í því símtali, verið gefinn lokafrestur til 24. janúar 2005 til þess að undirrita yfirlýsinguna, en ella yrði ekkert greitt vegna riftunarinnar.

Þann 24. janúar 2005 kveðst stefnandi hafa undirritað yfirlýsinguna undir mótmælum sem útlistuð hafi verið í bréfi félagsins til varnarliðsins þann sama dag.  Hafi yfirlýsingin og bréfið verið send varnarliðinu með faxi og tölvupósti þann 24. janúar 2005.  Hafi þar verið tekið fram, að hin staðlaða yfirlýsing væri undirrituð í því skyni að takmarka tjón stefnanda vegna riftunarinnar, en ítrekað, að félagið féllist ekki á forsendur greiðslunnar.  Jafnframt var ítrekað, að stefnandi áskildi sér rétt til þess að krefjast greiðslu vegna mismunarins á hinum einhliða ákvörðunum varnarliðsins og réttmætri skaðabótakröfu félagsins frá íslenzka ríkinu. 

Með bréfi til ríkislögmanns, dags. 15. febrúar 2005, var gerð grein fyrir málinu og sett fram bótakrafa á hendur íslenzka ríkinu á grundvelli laga nr. 110/1951 um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess, og laga nr. 82/2000, um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna.  Var ríkinu veittur kostur á að greiða skaðabótakröfu stefnanda, eða ganga til samninga um hana, fyrir 15. marz 2005.  Erindið var ítrekað með bréfi stefnanda, dags. 3. maí 2005. 

Með bréfi ríkislögmanns, dags. 22. júní 2005, var bótakröfu stefnanda hafnað, með vísan til meðfylgjandi umsagnar utanríkisráðuneytisins, dags. 3. maí 2005.  Með bréfi ríkislögmanns fylgdi einnig umsögn varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli um málið, dags. 25. apríl 2005. 

Með umsögn varnarliðsins um málið fylgdi afrit af samkomulagi ríkisstjórnar Íslands og Bandaríkjanna frá 23. maí 2001, um verksamninga á vegum varnarliðsins, vegna verka á Íslandi.  Í því samkomulagi er einnig vísað til „the 25 June 1986 Iceland - United States Exchange of notes“, „the 25 March 1954 Iceland - United States Memorandum of Understanding on Arrangements for the Accomplishment of the Iceland Defense Construction Program General Principles“ og „the Iceland – United States Agreed Minute of 9 April 1996 and accompanying Exchange of Notes“.  Með bréfi stefnanda til utanríkisráðuneytisins, dags. 26. ágúst 2005, var óskað eftir afriti af nefndum þjóðréttargerðum á ensku og í íslenzkri útgáfu, væri hún til.  Einnig var óskað svara um efndir samkomulagsins frá 23. maí 2001.  Kveður stefnandi, að svar við því erindi hafi ekki borizt. 

Kveðst stefnandi byggja á því, að samkomulagið hafi ekki verið efnt að eftirtöldu leyti:  1.  Enginn Íslendingur hafi hlotið fræðslu eða þjálfun á sviði FAR-reglnanna hjá bandarískum aðilum, sbr. grein III-VI í samkomulaginu.  2.  Ekki hafi farið fram skoðun á FAR-reglunum með það fyrir augum að ákvarða, hvort breyta eða aðlaga þurfi einhver ákvæði þeirra í því skyni að innleiða að fullu ákvæði samkomulags ríkisstjórnar Íslands og Bandaríkjanna frá 23. maí 2001, um verksamninga á vegum varnarliðsins vegna verka á Íslandi, sbr. grein III-VI í samkomulaginu.  3.  Ákvæði FAR 52.249-2 hafi ekki verið þýtt á íslenzku, sbr. grein III-VI í samkomulaginu. 

Snýst ágreiningur aðila í máli þessu um rétt stefnanda til skaðabóta vegna hagnaðarmissis vegna samningsslitanna.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir á því, að samningur sá, sem mál þetta snýst um, sé gerður á milli stefnanda og varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, fyrir milligöngu forvalsnefndar, sem sé utanríkisráðuneytinu til aðstoðar við meðferð verksamninga á athafnasvæði varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli samkvæmt lögum nr. 80/2000 um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna.  Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli hafi notið úrlendisréttar á grundvelli þjóðréttarvenju.  Séu úrlendisrétturinn, og þær skyldur íslenzka ríkisins gagnvart íslenzkum þegnum, sem af honum leiði, útfærð nánar í varnarsamningi milli Íslands og Bandaríkjanna og viðbæti um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess, en þeim hafi verið veitt lagagildi með lögum nr. 110/1951.  Á grundvelli úrlendisréttarins sé varnarliðið undanþegið lögsögu íslenzka ríkisins og verði því ekki stefnt á Íslandi, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Íslenzka ríkinu sé samkvæmt öllu framangreindu stefnt í málinu.  Fyrirsvar utanríkisráðherra byggi á lögum nr. 106/1954 um yfirstjórn mála á varnarsvæðum o.fl., lögum nr. 73/1969 um Stjórnarráð Íslands, og 14. gr. reglugerðar nr. 3/2004 um Stjórnarráð Íslands.  Málið sé höfðað sem viðurkenningarmál og sé um heimild til þess vísað til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Kröfugerð stefnanda á hendur stefnda um viðurkenningu á rétti skaðabóta vegna missis hagnaðar af verksamningi við varnarliðið sé byggð á 3. gr. og 4. tl. 6. gr. varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna, sbr. lög nr. 110/1951.  Samkvæmt 3. gr. skuli það vera háð samþykki Íslands með hverjum hætti varnarliðið taki við og hagnýti þá aðstöðu á Íslandi, sem veitt hafi verið með varnarsamningnum.  Samkvæmt 4. tl. 6. gr. æski Bandaríkin þess að ráða hæfa íslenzka borgara til starfa í sambandi við varnarsamninginn, og að svo miklu leyti sem Ísland kunni að samþykkja ráðningu íslenzkra borgara til starfa hjá liði Bandaríkjanna, skuli slík starfsráðning framkvæmd með aðstoð og um hendur þess eða þeirra fyrirsvarsmanna, sem af Íslands hálfu séu til þess kvaddir.  Þá sé í 4. tl. 6. gr. kveðið á um, að ráðningarkjör og vinnuskilyrði, einkum vinnulaun, launauppbætur og öryggisráðstafanir við vinnu skuli fara að íslenzkum lögum og venjum.  Stefnandi byggi á því, að 4. tl. 6. gr. viðbætisins eigi jafnt við um launþega og verktaka, sem starfi í þágu varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, svo sem fordæmi Hæstaréttardóma staðfesti.  Liggi sú staðfesta lögskýring nú til grundvallar lögum nr. 82/2000 um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna, sem kveði m.a. á um forræði íslenzka ríkisins á því, hvaða fyrirtæki fái heimild til samninga um verklegar framkvæmdir fyrir varnarliðið.  Stefnandi byggi á því, að stefndi geti ekki valið og hafnað að vild, hvaða þættir 4. tl. 6. gr. viðbætisins eigi við um verksamninga, heldur hljóti ákvæðið eðli máls samkvæmt að ná í heild sinni jafnt til verksamninga og vinnusamninga.  Stefndi geti þannig ekki byggt upp kerfi íhlutunar í verksamninga við varnarliðið á grundvelli 4. tl. 6. gr. viðbætisins, án þess að tryggja verktökum um leið þá réttarstöðu, sem kveðið sé á um berum orðum í ákvæðinu.  Stefnandi byggi því á því að skýra verði hugtökin „ráðning“, „starfsráðning“, „ráðningarkjör“ og „vinnuskilyrði“ í 4. tl. 6. gr. viðbætis við varnarsamninginn á þann hátt, að þau nái jafnt til ráðningar og réttarstöðu launþega sem samningsgerðar um verktöku og réttarstöðu verktaka.  Stefnandi byggi einnig á því, að það sé skýr meginregla að baki viðbæti um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra, sbr. lög nr. 110/1951, að varnarliðinu beri að virða íslenzk lög og að varðandi einkaréttarlega starfsemi ábyrgist íslenzka ríkið, að íslenzkir einkaaðilar njóti réttarstöðu samkvæmt íslenzkum rétti í samskiptum sínum við varnarliðið.  Komi sú meginregla t.d. fram í b- lið 1. tl. 2. gr, 4. tl. 6. gr. og 2. tl. 12. gr. viðbætisins og hafi verið staðfest í dómum Hæstaréttar.  Skýra beri ákvæði viðbætisins með hliðsjón af tilgangi hans, sem sé að mæla fyrir um réttarstöðu annars aðila varnarsamningsins, Íslands, eða einstaklinga og lögaðila, sem undir hann heyri, vegna verknaðar hins aðila varnarsamningsins, Bandaríkjanna, eða einstaklinga og lögaðila, sem undir hann heyri. 

Þá byggi stefnandi á því, að vegna tvíeðlis landsréttar og þjóðaréttar sé samkomulag ríkisstjórnar Íslands og Bandaríkjanna frá 23. maí 2001, um verksamninga á vegum varnarliðsins vegna verka á Íslandi, ekki bindandi gagnvart sér.  Sú skuldbinding íslenzka ríkisins gagnvart Bandaríkjunum, sem þar komi fram, sbr. gr. III-V, að allir verksamningar við varnarliðið skuli framkvæmdir í samræmi við FAR-reglurnar, geti ekki breytt réttarstöðu stefnanda samkvæmt lögum nr. 110/1951 og íslenzkum rétti.  Varnarliðið hafi borið fyrir sig, að þessi samningsskuldbinding gildi gagnvart stefnanda og hafi neitað greiðslu efndabóta á þeim grundvelli.  Réttarstöðu stefnanda samkvæmt lögum nr. 110/1951 hafi ekki verið breytt með lögum.  Með því að gera greint samkomulag við Bandaríkin og láta hjá líða að innleiða efnisreglur þess í íslenzkan rétt hafi stefndi þannig brotið gegn gildandi réttarreglum, sem tryggja eigi hagsmuni stefnanda.  Hafi stefndi einnig þannig valdið stefnanda tjóni, sem hann beri skaðabótaábyrgð á. 

Réttur stefnanda til efndabóta byggi á þeim málsástæðum, að ákvæði útboðsskilmála um riftun til hægindaauka, sbr. FAR 52.249-2, sé ekki skuldbindandi gagnvart sér og að riftun varnarliðsins á verksamningi við sig hafi verið ólögmæt.  Íslenzka ríkinu beri því að bæta stefnanda mismuninn á þeirri fjárhæð, sem varnarliðið hafi greitt félaginu vegna riftunar verksamningsins og réttmætrar skaðabótakröfu félagsins að íslenzkum rétti. 

Stefnandi byggir á því, að um samning sinn við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli gildi íslenzk lög og réttarreglur.  Stefnandi sé einkaaðili, sem hafi gert einkaréttarlegan samning um einkaréttarlega starfsemi við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli.  Gildi íslenzkra laga og réttarreglna um samning stefnanda við varnarliðið leiði beint af ákvæði 4. tl. 6. gr. viðbætis við varnarsamninginn, sbr. lög nr. 110/1951.  Þrátt fyrir ákvæði 4. tl. 6. gr. viðbætisins hefði stefnandi getað samið við varnarliðið um lagaval, þannig að bandarískar réttarreglur giltu í lögskiptum aðila, eins og heimilt sé að íslenzkum rétti.  Það hafi ekki verið gert.  Í útboðsgögnum og samningi sé hvergi vísað til bandarísks réttar sem þeirra laga, sem gilda skyldi um samninginn, en ítrekað vísað til FAR-reglnanna (“Fedaral Aquisition Regulation (FAR)“) sem samningsskilmála.  Sé það og viðurkennt af hálfu varnarliðsins að líta beri á FAR-reglurnar sem samningsskilmála en ekki réttarreglur, sem gildi um samninginn.  Í undirkafla útboðsgagna nr. 01013N („sérstök ákvæði fyrir verk á Íslandi“), gr. 1.3, sé að finna ákvæði um lagaval.  Segi þar, að verktaki skuli fylgja lögum þess ríkis, sem eigi við um verkið og þjónustuna, sem veitt sé.  Samningurinn hafi því ákvæði um val á íslenzkum lögum.  Stefnandi byggi aðallega á 3. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar, sem kveði á um að beita eigi þeim lögum, sem með vissu verði talin leiða af samningnum sjálfum eða öðrum atvikum.  Til vara sé vísað til 1. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 43/2000, þar sem kveðið sé á um, að hafi samningur ekki að geyma ákvæði um lagaval, skuli beita lögum þess lands, sem samningurinn hefur sterkust tengsl við, sem sé þess lands, þar sem sá, sem efna eigi aðalskyldu samningsins, þ.e. verktakinn, búi við samningsgerðina.  Einnig vísi stefnandi til meginreglna alþjóðlegs einkamálaréttar.

Varðandi skuldbindingargildi ákvæðis útboðsgagna um riftun til hægindaauka, sbr. FAR 52.249-2, byggi stefnandi aðallega á því, að ákvæðið hafi aldrei orðið hluti af verksamningi sínum við varnarliðið.  Til vara byggi stefnandi á því, að verði talið, að ákvæði útboðsgagna um riftun til hægindaauka, sbr. FAR 52.249-2, hafi orðið hluti af samningi við varnarliðið, verði það metið ógilt í heild sinni eða að hluta, þar sem það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera það fyrir sig, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.  Við mat á því, hvort staðlaðir skilmálar verði taldir hafa orðið hluti af samningi, eða hvort samningsskuldbinding verði talin ósanngjörn, beri m.a. að líta til efnis samningsins, stöðu samningsaðilanna, atvika við samningsgerð og atvika, sem síðar hafi komið til, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1935.

Stefnandi byggi á því, að við mat dómstóla á því, hvort hið staðlaða ákvæði útboðsgagna um riftun til hægindaauka, sbr. FAR 52.249-2, hafi orðið hluti af samningi aðila, beri að taka mið af meginreglum íslenzks samninga-, kröfu- og verktakaréttar, sem birtist m.a. í lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sbr. einkum 25., 39. og 67 gr., og ákvæðum í ÍST 30, almennum útboðs- og samningsskilmálum um verkframkvæmdir, 5. útg. 2003, sbr. einkum gr. 25.6.1 – 25.6.6. og til hliðsjónar gr. 25.5.  Einnig beri að taka mið af meginreglum alþjóðlegs kauparéttar, sem birtiast m.a. í meginreglum UNIDROIT um alþjóðlega viðskiptasamninga, sbr. einkum gr. 2.1.20.  Frávik frá þeim efnisreglum víki frá því, sem löggjafinn og fagaðilar telji eðlilegt, sanngjarnt og góða viðskiptavenju.  Því lengra sem umdeildir skilmálar víki frá þeim viðmiðum, þeim mun meiri kröfur beri að gera til þess að þeir teljist hafa orðið hluti af samningi aðila eða til að þeir teljist gildur hluti af samningi aðila.  Stefnandi byggi á því, að tilvísun útboðsgagna til FAR 52.249-2 sé sérlega íþyngjandi með því að fela varnarliðinu algert sjálfdæmi um riftun, án vanefnda af hálfu stefnanda, og ganga síðan enn lengra með því að takmarka bótarétt stefnanda verulega af því tilefni.  Sé ákvæðið í raun í fullkominni andstöðu við meginreglur íslenzks samninga-, kröfu- og verktakaréttar og hina alþjóðlegu meginreglu samningaréttar um, að gerða samninga beri að halda („pacta sunt servanda“).  Efni FAR 52.249-2 hafi ekki verið kynnt sérstaklega eða gert aðgengilegt stefnanda við samningsgerðina.  Stefnandi byggi á því, að við mat á því, hvort staðlaðir samningsskilmálar verði hluti af samningi aðila, sé meginreglan sú, að aðili verði ekki bundinn við aðra samningsskilmála en þá, sem honum hafi verið kunnugt um við samningsgerðina.  Þegar um sé að ræða ákvæði, sem víki jafn alvarlega frá meginreglum samninga-, kröfu- og verktakaréttar og raunin sé í máli þessu, verði þau ekki bindandi nema að hafa verið sérstaklega kynnt við samningsgerðina.  Sá aðili, sem vilji bera slíkt ákvæði fyrir sig, verði að geta sýnt fram á, að gagnaðili hafi haft beina vitneskju um efni ákvæðisins og hafi með virkum hætti samþykkt að vera bundinn af því.  Þá byggi stefnandi á því, að við mat á þessu sjálfdæmisákvæði um riftun, beri einnig að líta til þess viðurkennda sjónarmiðs verktakaréttar, að þegar um sé að ræða stóra verksamninga, sé vegna ríkra hagsmuna samningsaðila almennt rétt að gera auknar kröfur til umfangs vanefnda við mat á því, hvort þær teljist verulegar og heimili þannig riftun.  Auk þess sé gerð krafa um sérstaka formlega viðvörun og færi á úrbótum sem undanfara riftunar.  Einnig beri að líta til þeirrar viðurkenndu tillitsskyldu, sem aðilar stórra verksamninga hafi gagnvart hvor öðrum.  Þá beri að taka mið af því, að viðurkennt sé í samkomulagi ríkisstjórnar Íslands og Bandaríkjanna frá 23. maí 2001, um verksamninga á vegum varnarliðsins vegna verka á Íslandi, að vegna FAR-reglnanna sé þörf sérfræðiaðstoðar og/eða aðlögunar að íslenzkum aðstæðum.  Stefndi hafi þó ekki hlutazt til um neitt slíkt í þágu stefnanda eða annarra bjóðenda í stærri verk hjá varnarliðinu. 

Stefnandi byggi á því, að við mat á því, hvort hið staðlaða ákvæði útboðsgagna um riftun til hægindaauka, sbr. FAR 52.249-2, hafi orðið hluti af samningi aðila, beri m.a. að líta til stöðu samningsaðilanna og atvika við samningsgerð.  Stefnandi byggi á því, að í þessu sambandi beri að líta til þess, að varnarliðið hafi haft mun sterkari stöðu við samningsgerðina en stefnandi.  Allt ferli útboðs, tilboðsgerðar, samningsgerðar og eftirfarandi samskipta um verkið beri mun frekar keim af einhliða stjórnsýsluákvörðunum varnarliðsins en gagnkvæmum samningum við stefnanda.  Öll samnings- og útboðsgögn séu stöðluð og einhliða samin af hálfu varnarliðsins, á ensku, og engin samskipti eða samningaviðræður hafi farið fram við gerð verksamnings, sem skýrt gætu nánar ákvæði þeirra.  Hafi stefnandi því enga möguleika haft á því að gera fyrirvara eða semja nánar um skilmála riftunar verksamnings.  Útboðsgögn, sem hafi verið á ensku, hafi verið afar óaðgengileg bjóðendum.  Fjöldi skilmála hafi ekki verið tekinn upp berum orðum í útboðsgögnum, heldur einungis vísað til FAR-reglnanna um þá, þ.á m. FAR 52.249-2.  Hafi þeir skilmálar ekki verið kynntir stefnanda eða gerðir aðgengilegir. 

Til vara byggi stefnandi á því, að öll ofangreind sjónarmið varðandi það, hvort hið staðlaða ákvæði útboðsgagna um riftun til hægindaauka, sbr. FAR 52.249-2, hafi orðið hluti af samningi aðila, leiði einnig til þess að ógilda megi hið umdeilda samningsákvæði á grundvelli 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. 

Stefnandi byggi á því, að þar sem ákvæði gr. 52.249-2 í útboðsskilmálum hafi ekki gildi gagnvart sér, beri að meta riftun varnarliðsins og rétt stefnanda til skaðabóta í tilefni af henni eftir almennum reglum íslenzks kröfu- og verktakaréttar.  Stefnandi byggi á því, að riftun sem ekki sé réttlætt með því að um verulega vanefnd sé að ræða, teljist ólögmæt.  Þeim, sem beri ábyrgð á slíkri ólögmætri riftun, beri að bæta riftunarþolanum það fjártjón, sem af því hljótist.  Stofnist þá réttur til efndabóta, sem geri riftunarþola eins settann og samningur hefði verið réttilega efndur.  Séu ofangreindar meginreglur íslenzks réttar staðfestar í lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sbr. einkum 25., 39. og 67. gr.  Einnig birtist þær í staðlinum ÍST 30, almennum útboðs- og samningsskilmálum um verkframkvæmdir, 5. útg. 2003, sbr. einkum gr. 25.6.1 – 25.6.6.   

Stefnandi hafi tekið við bótum að hluta samkvæmt einhliða ákvörðun varnarliðsins til að takmarka tjón sitt, eins og honum beri skylda til eftir almennum reglum.  Hafi það verið gert með fyrirvara um, að stefnandi samþykkti ekki forsendur bótauppgjörsins og hafi að auki áskilið sér rétt til að sækja vangreiddar bætur á hendur íslenzka ríkinu í samræmi við meginreglur laga nr. 110/1951 og 82/2000.  Fyrirvarinn sé fullgildur að íslenzkum rétti.  Varnarliðið hafi greitt stefnanda USD 24.000 í skaðabætur þann 24. janúar 2005 samkvæmt einhliða ákvörðun sinni.  Hafi þeir bótaþættir, sem greiðslan tók til, verið útlistaðir í einhliða samningsbreytingu („Amendment of Solicitation/Modification of Contract“), dags. 1. september 2004, og hafi tekið til áfallinnar lögmannsþóknunar vegna riftunarinnar, áætlaðs kostnaðar við undirbúning verksins og stjórnunarkostnaðar vegna viðbragða Eyktar ehf. við riftuninni.  Inni í bótafjárhæðum vegna undirbúnings og stjórnunarkostnaðar hafi verið gert ráð fyrir hagnaðarhlutdeild af þeim þáttum verksins, en bótum vegna missis hagnaðar af verkinu í heild og afleidds tjóns, sem og kröfu vegna vaxta, hafi verið hafnað með vísan til FAR-reglnanna.  Varnarliðið hafi þannig greitt stefnanda vangildisbætur, auk efndabóta að litlum og ósérgreindum hluta, þ.e. sem hlutfall af bótafjárhæðum vegna kostnaðar við undirbúning verksins og stjórnunarkostnaðar vegna riftunarinnar.  Krafa stefnanda sé um viðurkenningu réttar til efndabóta vegna missis hagnaðar af verksamningi við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli um verkið: „Contract N62470-01-C-5066, Bldg 638, Repair/Alter, U.S. Naval Air Station, Keflavik, Iceland“, að frádregnum þeim skaðabótum, sem varnarliðið á Keflavíkurflugvelli hafi greitt stefnanda þann 24. janúar 2005.  Viðurkenni stefnandi þannig, að hann eigi hvorki rétt til vangildisbóta samhliða efndabótum, né heldur rétt til að fá efndahagsmuni sína af verksamningnum tvíbætta að því leyti sem efndabætur hafi verið innifaldar í bótaákvörðun varnarliðsins. 

Stefnandi styðji kröfur sínar og aðild íslenzka ríkisins við varnarsamning milli Íslands og Bandaríkjanna og viðbæti um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess, en þeim hafi verið veitt lagagildi með lögum nr. 110/1951 og ákvæði laga nr. 80/2000 um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna.  Þá byggi stefnandi á reglum skaðabótaréttar um skaðabótaábyrgð hins opinbera.  Varðandi lagaskil byggi stefnandi á ákvæðum laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar og meginreglum alþjóðlegs einkamálaréttar.  Um skuldbindingargildi, túlkun og efndir samnings aðila byggi stefnandi á meginreglum íslenzks samninga-, kröfu- og verktakaréttar, lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup.  Varðandi aðild, varnarþing og kröfugerð sé vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Fyrirsvar utanríkisráðherra byggi á lögum nr. 106/1954 um yfirstjórn mála á varnarsvæðum o.fl., lögum nr. 73/1969 um Stjórnarráð Íslands, og 14. gr. reglugerðar nr. 3/2004 um Stjórnarráð Íslands.  Málskostnaðarkrafa styðjist við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. 

Málsástæður stefnda

Stefndi byggir í fyrsta lagi á því, að sýkna beri stefnda sökum aðildarskorts með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en einnig standi rök til þess að vísa málinu frá dómi, sbr. 1. mgr. 24. gr. sömu laga.  Málshöfðun stefnanda sé beint að íslenzka ríkinu og sé utanríkisráðherra stefnt fyrir þess hönd, ekki að því er séð verði vegna Varnarliðsins.  Stefnandi krefjist þess í málinu, að viðurkenndur verði réttur hans til skaðabóta úr hendi stefnda vegna missis hagnaðar af verksamningi við varnarliðið, að frádregnum skaðabótum (umsömdum að mati varnarliðsins), sem stefnanda voru greiddar 24. janúar 2005.  Stefnandi byggi kröfu sína til viðurkenningar á skaðabótum á því, að 4. tl. 6. gr. viðbætis við varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna, sbr. lög nr. 110/1951, eigi jafnt við um launþega og verktaka, sem starfi í þágu varnarliðsins.  Stefndi mótmæli því, að samningur sá, sem stefnandi gerði við varnarliðið, eða kröfur á honum reistar, falli undir greind ákvæði varnarsamningsins eða viðbætis við hann, sbr. lög nr. 110/1951, sem geri stefnanda kleift að beina málsókn sinni að íslenzka ríkinu.

Stefnandi taki það sérstaklega fram á bls. 7 í stefnu, að hann sé einkaaðili, sem hafi gert einkaréttarlegan samning við varnarliðið.  Stefnandi hafi hins vegar kosið að krefja íslenzka ríkið um skaðabætur vegna einkaréttarlegs samnings, sem það sé ekki aðili að, á grundvelli ákvæða laga nr. 110/1951.  Skaðabætur til handa stefnanda, ef viðurkenndar yrðu, teldust skaðabætur innan samninga.  Samkvæmt skýru ákvæði 2. tl. 12. gr. viðbætis um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra, sbr. lög nr. 110/1951, sé íslenzka ríkinu ekki skylt að greiða skaðabætur innan samninga vegna verknaða manna í liði Bandaríkjanna.  Af þessum sökum verði málinu ekki beint að utanríkisráðherra fyrir hönd íslenzka ríkisins.

Stefndi byggi á því, að meginreglan sé sú, að réttarstaða einstaklinga og lögaðila við Varnarliðið lúti bandarískri lögsögu. Úrlendisrétturinn sé því meginreglan, þannig að Varnarliðið falli ekki undir íslenzk lög.  Til undantekninga heyri þá sú tilhögun, að unnt sé að beina kröfum á hendur utanríkisráðherra fyrir hönd íslenzka ríkisins til greiðslu bóta vegna athafna Varnarliðsins, eða að Varnaliðið lúti íslenzkum réttarreglum.  Slíkar undantekningar komi til að mynda fram í áðurnefndri 6. gr. viðbætis við varnarsamninginn, sem beri að skýra þröngt.  Þannig heyri kröfur um bætur innan samninga vegna verksamninga ekki undir þær undantekningar.  Beri því, að mati stefnda, að hafna þeirri málsástæðu stefnanda, að varðandi einkaréttarlega samninga almennt ábyrgist íslenzka ríkið, að íslenzkir einkaaðilar njóti réttarstöðu samkvæmt íslenzkum rétti í samskiptum sínum við varnarliðið.  Verði á engan hátt lagt til grundvallar, að slík meginregla komi fram í tilvitnuðum ákvæðum varnarsamningsins, svo sem haldið sé fram í stefnu.  Þá sé sérstaklega áréttað í 2. tl. 12. gr., að samningskröfur séu sérstaklega undanþegnar vegna bótamála.

Þótt 4. tl. 6. gr. skapi grundvöllinn að komu íslenzkra stjórnvalda að verksamningum varnarliðsins, sé ástæðan þar augljóslega önnur en þegar um launakjör íslenzkra launþega sé að ræða, svo sem stefndi hafi bent á í bréfi, dags. 3. maí 2005, er fylgdi svari ríkislögmanns.  Íslenzk yfirvöld hafi sett í lög ákvæði um verk- og þjónustusamninga við varnarliðið, sbr. gr. 1. til 9. í lögum 82/2000.  Þar komi fram í 4. gr. sú meginregla, að samningar við varnarliðið séu einungis heimilir að fenginni tilnefningu frá utanríkisráðuneytinu, í samræmi við ákvæði gildandi milliríkjasamninga.  Í lögunum séu ákvæði um forval og framkvæmd þess, en að öðru leyti sé í gildi samningur milli Íslands og Bandaríkjanna um framkvæmd verklegra framkvæmda (Agreement between the Government of Iceland and the Government of the United States in Connection with U.S. Department of Defense Contracting performed wholly within Iceland, dags. 23. maí 2001).  Í megindráttum hafi hann verið gerður til að opna aðgang íslenzkra verktaka að verklegum framkvæmdum á vegum varnarliðsins og teljist afleiddur samningur í skilningi laga nr. 82/2000.  Í samningnum sé samið um, að bandarísk stjórnvöld bjóði út lungann af sínum samningum yfir vissum viðmiðunarfjárhæðum, notast verði við forval á hæfum verktökum, og að samningar varnarliðsins byggist á bandarískum viðmiðunarreglum, Federal Aquisition Rules (FAR).  Íslenzk stjórnvöld hafi gert þennan samning til hagsbóta fyrir íslenzka verktaka og opnað með honum möguleika íslenzkra verktaka á almennum íslenzkum markaði til að fá verksamninga við varnarliðið. Ákvæði hans um beitingu FAR í samningum varnarliðsins sé í samræmi við meginregluna um samningsfrelsið, sem almennt gildi á Íslandi, þ.e. að samningsaðilum sé almennt heimilt að ákveða, hvort þeir gangi til samninga, við hvern þeir semji og um hvað. Hvorki ákvæði 4. tl. 6. gr. viðbætisins, sem byggt sé á í stefnu, né önnur ákvæði varnarsamningsins eða viðbætisins, þ.á m. tilvitnuð 3. gr. eða 2. gr. í stefnu, gildi því um þann samning, sem málið varði eða leiði til aðildar stefnda að málinu.  Á engan hátt taki hugtökin „ráðning, starfsráðning, ráðningarkjör“ eða „vinnuskilyrði“ í nefndu ákvæði til verksamninga eða bótakrafna (innan samninga) vegna þess samnings, sem um ræði.  Aðrar röksemdir í stefnu leiði ekki til þess, að kleift sé að stefna íslenzka ríkinu, og geti tilvísun til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 ekki átt við um samskipti við stefnda, en aðkoma forvalsnefndar og mál þau, sem eigi undir lög nr. 82/2000, skipti engu máli í því sambandi.  Stefnandi hafi gert samning við Varnarliðið þannig að bandarískar réttareglur giltu, rétt eins og haldið sé fram í stefnu, að honum hafi verið kleift, en umræddir samningsskilmálar byggi á bandarískum réttarreglum, svo sem heimilt sé á grundvelli laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar.

Af framangreindum ástæðum beri að sýkna sökum aðildarskorts, enda heyri sakarefnið ekki undir þær réttarreglur, sem geri kleift að beina kröfum á hendur íslenzka ríkinu.  Telji stefndi það einnig geta valdið frávísun málsins án kröfu, að óglöggt sé á hvaða grundvelli málið sé höfðað - vegna Varnarliðsins eða íslenzka ríkisins.  Í því efni sé einnig áréttað, að stefnanda væri nauðsynlegt að beina málsókn sinni að Bandaríkjunum, sem ekki eigi lögsögu hér á landi, eins og málinu sé háttað, sbr. 24. gr. laga nr. 91/1991.  Þar sem sakarefnið sé í raun undanskilið íslenzkri lögsögu, beri að vísa því frá dómi.

Stefndi byggi sýknukröfu sína einnig á því, að á milli stefnanda og varnarliðsins hafi komizt á gildur samningur, sem hafi innihaldið lögmætan samningsskilmála, sem hafi heimilað varnarliðinu að segja samningnum upp einhliða gegn greiðslu staðlaðra vangildisbóta, þegar til þess kom að stefnandi hafi ekki sinnt boði Varnarliðsins um að gera grein fyrir þeim bótafjárhæðum, sem til álita gátu komið.  Umræddur samningsskilmáli hafi verið hluti samningsins og stefnanda gjörkunnur.  Varnarliðið hafi alfarið staðið við samninginn af sinni hálfu, og því sé frekari rétti stefnanda til bóta mótmælt.

Stefnandi byggi á því, að um samning sinn við varnarliðið gildi íslenzk lög og réttarreglur.  Stefnandi staðhæfi, að af hálfu varnarliðsins sé viðurkennt að líta beri á FAR-reglurnar sem samningsskilmála en ekki réttarreglur, sem gildi um samninginn.  Stefnandi staðhæfi einnig, að ákvæði 1.3 í kafla útboðsgagna nr. 0103N sé lagavalsregla í skilningi ákvæða laga um lagaskil á sviði samningaréttar nr. 43/2000, og samningurinn hafi því ákvæði um val á íslenzkum. lögum.

Framangreindum málatilbúnaði stefnanda sé mótmælt.  Í téðu ákvæði 1.3 í kafla 0103N sé fyrst og fremst verið að fjalla um þá skyldu verktaka að virða íslenzk lög og reglur við framkvæmd verks og veittrar þjónustu.  Ákvæðið verði, að mati stefnda, ekki túlkað á þann veg, að með því sé fjallað um, eða mælt fyrir um, hvaða reglur gildi um samninginn.  Grein 1.3 sé því ekki lagavalsregla, heldur ákvæði, sem lúti almennt að löghlýðni.  Hafa beri í huga, að samkvæmt alþjóðlegum einkamálarétti sé það grunnregla, að samningsaðilum sé heimilt að semja um, hvaða réttarreglur gildi um samninga þeirra.  Í umræddum samningi stefnanda og varnarliðsins sé berum orðum tekin afstaða til þess, hvaða réttarreglur gildi um samninginn.  Það sé gert í yfirkafla 00200, sem vísi til bandarískra alríkisútboðsreglna (FAR-reglnanna), viðbótarútboðsreglna bandaríska varnarmálaráðuneytisins (DFARS) og samningahandbókar bandaríska sjóhersins (FAC).  Í yfirköflum 00720 og 00721 sé einnig að finna slíkar tilvísanir.  Sú tilgreining sé gild, bæði samkvæmt almennum reglum alþjóðlegs einkamálaréttar og samkvæmt lögum nr. 43/2000.  Hafi stefnandi raunar haldið því fram, að unnt sé að gera samning við varnarliðið, þannig að bandarískar réttarreglur gildi, en einmitt þannig hafi verið um samið.

Stefnandi byggi málatilbúnað sinn aðallega á því, að hið umþrætta ákvæði FAR 52.249.-2, sem hafi heimilað varnarliðinu einhliða uppsögn samningsins, hafi ekki orðið hluti af samningi aðila.  Stefnandi vísi einnig til þess, að ákvæði FAR 52.249.-2 sé íþyngjandi samningsákvæði, sem hafi ekki verið kynnt honum sérstaklega við samningsgerðina, og því sé það ekki bindandi fyrir hann.  Þá bendi stefnandi á, að stefndi hafi ekki hlutazt til um að tryggja stefnanda, eða öðrum bjóðendum í stærri verk hjá varnarliðinu, sérfræðiaðstoð við gerð verksamninga við varnarliðið, þrátt fyrir að í samkomulagi ríkisstjórnar Íslands og Bandaríkjanna frá 23. maí 2001, um verksamninga á vegum varnarliðsins vegna verka á Íslandi, sbr. dskj. nr. 26., hafi verið viðurkennt, að vegna FAR-reglnanna sé þörf sérfræðiaðstoðar og/eða aðlögunar að íslenzkum aðstæðum.  Til vara byggi stefnandi á því, að verði talið, að ákvæði FAR 52.249.-2, hafi orðið hluti af samningnum verði ákvæðið metið ógilt í heild sinni eða að hluta, þar sem það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að bera það fyrir sig, sbr. 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.

Þessum málatilbúnaði stefnanda sé mótmælt af hálfu stefnda, svo sem að framan sé rakið.  Þegar stefnandi tók þátt útboði vegna umþrætts verksamnings, hafði hann þegar hlotið tilnefningu sem hæfur aðili í 39 verk á vegum varnarliðsins.  Þá hafi hann átt að baki sjö verksamninga við varnarliðið á undanförnum fimm árum.  Liggi einnig fyrir í gögnum málsins (m.a. dskj. nr. 37), að stefnandi hafi verið vel upplýstur um tilvist og ákvæði FAR-reglnanna og hafi áður nýtt sér FAR-reglu nr. 14-405 sumarið 2002 til þess að fá leiðrétta tilboðsfjárhæð sína í verk á vegum varnarliðsins.  Þá hafi, eins og getið sé hér að framan, útdráttur á íslenzku með þýðingu á helstu ákvæðum FAR-reglnanna, þar með talið ákvæði FAR 52.249, verið aðgengilegur íslenzkum verktökum á heimasíðu varnarliðsins síðan árið 2001.  Hafi einnig verið hvatning til stefnanda í útboðsgögnum um að kynna sér þá skilmála meðal annarra og greið leið og aðgangur að þeim.  Þannig hafi fyrirsvarsmenn stefnanda þekkt þessa samningsskilmála sérstaklega við þessa samningsgerð.  Áhætta af því, hvort forsvarsmenn eða starfsmenn stefnanda hafi ekki kynnt sér þá, geti ekki verið Varnarliðsins eða stefnda.  Stefnandi sé meðal stærstu verktakafyrirtækja landsins.  Fyrirtækið hafi verið stofnað fyrir 20 árum síðan og séu starfmenn þess um 200 talsins.  Það liggi ljóst fyrir, að stefnandi hafi margra ára reynslu og sérfræðiþekkingu á sviði verktaka- og útboðsréttar.  Þá markaðssetji stefnandi sig með svofelldum orðum á heimasíðu sinni:  „Þekking er langmikilvægasta byggingarefnið að okkar mati sem endurspeglast í hugsun, reynslu og kunnáttu sem að henni koma“.  Telji stefndi einsýnt, að stefnandi geti ekki, í ljósi fyrri samskipta sinna og samningagerðar við varnarliðið sem og ákvæða, sem gilt hafi umrætt sinn, borið fyrir sig nokkra vanþekkingu á stöðluðum samningsákvæðum varnarliðsins.  Þannig hafi enginn aðstöðumunur verið á milli stefnanda og varnarliðsins, þeim fyrrnefnda í óhag.  Sé annars vegar um að ræða stefnanda, sem sé sérfróður um verktakastarfsemi og verksamninga, og hins vegar varnarlið Bandaríkjahers.  Auk framangreinds sé því mótmælt, að samningur 23. maí 2001 hafi ekki verið aðlagaður, eða að málsástæður stefnanda þar að lútandi styðji kröfur hans.  Ekkert orsakasamband sé þar á milli eða tengsl við kröfur stefnanda, þannig að bakað gæti bótaábyrgð.

Þegar fyrirliggjandi gögn þessa máls séu skoðuð, sjáist berlega, að staðhæfingar stefnanda um meinta vanþekkingu sína fái alls ekki staðizt.  Fyrir liggi, að ákvæði FAR-reglnanna hafi orðið hluti af samningi stefnanda og varnarliðsins samkvæmt skýru orðalagi ákvæða í útboðs- og verklýsingu, þar á meðal áður tilvitnuðum yfirkafla 00200, 00720 og 00721, og tilvitnuðum ákvæðum í dálki 13.c og 28 á tilboðseyðublaði og samningi aðilanna.  Þá hafi stefnanda þar að auki staðið til boða, á öllum stigum samningsgerðarinnar, að óska eftir aðgangi eða eintaki að tilvitnuðum ákvæðum FAR-reglnanna og að fá leiðbeiningar og upplýsingar um samningsgerðina hjá samningsstjóra varnarliðsins.  Stefndi byggi enn fremur á því, að í grein 1.4 í verklýsingu (dskj. nr. 5) hafi verið gerð krafa um enskukunnáttu, og að sérstakur fulltrúi stefnanda, að minnsta kosti, hafi uppfyllt það skilyrði, en þetta sé augljóslega meðal þeirra grundvallarþátta, sem ráði því, að verkataki sé metinn hæfur á grundvelli laga nr. 82/2000.  Þá blasi við, að samskipti stefnanda og skjalagerð hafi farið áreynslulaust fram á ensku.

Það sé auk þess meginregla íslenzks verksamningaréttar, að öll þau gögn, sem sérstaklega sé vísað til í útboðsgögnum, séu hluti samnings.  Óumdeilt sé, að verklýsing sú, sem reifuð sé að framan og stefnandi leggur fram sem dskj. nr. 5 (specifications), hafi verið hluti útboðsgagna.  Allar tilvísanir þar hafi verið aðgengilegar stefnanda, og sannað sé í málinu, að stefnandi hafi þekkt til þeirra jafnt í þessum samningi og vegna fyrri verka. Ákvæðið, sem vísað sé til í yfirkafla 00721, hafi greint sérstaklega frá heimild til slita á samningi (termination for convenience of the government (fixed - price 9) (sep 1996) - alternates i (sep 1996)).  Stefnanda hafi því verið vel kunnugt um ákvæðið, sem heimilaði slit á samningi vegna hagsmuna verkkaupa, og hafi haft alla möguleika á að kynna sér það. Aðeins fyrirsögn ákvæðisins, sem beinlínis taki á því að slíta megi samningi við tilteknar aðstæður - hagsmuna bandarískra stjórnvalda, sé þess eðlis að vera næg, auk þess sem félag með sérfræðikunnáttu á sviði verksamninga hafi þekkt til þess og hlotið að gefa því sérstakan gaum.  Mótmælt sé, að tilvísun til ákvæðis, sem hafi heimilað slit á samningi, hafi ekki verið í samræmi við útboðsgögn.

Stefndi mótmæli því í ljósi framangreinds, að tilvitnað ákvæði UNIDROIT/ICC í stefnu geti átt við eða stutt málatilbúnað stefnanda.  Sama sé að segja um önnur ákvæði, sem byggt sé á í stefnu, t.d. ákvæði kaupalaga eða ÍST-30.  Eins og fyrr sé rakið, hafi aðgerðir varnarliðsins falið í sér einhliða uppsögn á grundvelli heimildarákvæðis í samningi.  Ekki hafi hér verið um að ræða riftun í skilningi kröfuréttar, enda engri vanefnd stefnanda til að dreifa, heldur beitingu ákvæðis í samningi.  Tilvísanir stefnanda í riftunarákvæði laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 og ÍST 30 eigi því ekki við í máli þessu, og komi bætur á grundvelli ólögmætrar riftunar hér ekki til álita, að mati stefnda.

Í stefnu sé því haldið fram, að orðið hafi 3 breytingar á útboðsgögnum, sem ekki skipti máli.  Þessar breytingar skipti a.m.k. máli í því tilliti, að með þeim hafi verið felldir út tilteknir FAR-skilmálar og öðrum FAR-skilmálum bætt inn.  Undir þetta sé ritað af hálfu stefnanda (dskj. nr. 8) og með þessu sé augljóslega sannað, að forráðamenn félagsins, sem að samningagerð komu fyrir þess hönd, hafi þekkt til þessara skilmála í heild og efnis þeirra - hver ákvæði þeirra skyldu vera inni í samningi og hver ekki.

Með vísan til framangreindra málsástæðna og lagaraka, fyrri samninga og samskipta samningsaðila og svo þess, að stefnandi hafi sjálfur beitt ákvæðum FAR-reglnanna sér til hagsbóta og lagt þau til grundvallar í lögskiptum milli sín og varnarliðsins, telji stefndi með öllu óraunhæft, að félagið geti í máli þessu borið fyrir sig, að umþrætt samningsákvæði FAR 52.249.-2, sé ógildanlegt að hluta eða í heild á grundvelli ákvæðis 36. gr. samningalaga.  Ákvæðið hafi á engan hátt verið ósanngjarnt í skilningi ákvæðis 36. gr. samningalaga og engar þær aðstæður uppi, sem gefi tilefni til beitingar þeirrar reglu íslenzks réttar.  Sé því alfarið mótmælt, að ákvæðið víki frá meginreglum samninga-, kröfu- og verktakaréttar. Stefnanda hafi verið frjálst að semja á þann hátt sem hann gerði.

Stefndi byggi einnig á því, að fyrir liggi í málinu fullnaðarkvittun, dags. 24. janúar 2005, sbr. dskj. nr. 22., undirrituð af fyrirsvarsmönnum stefnanda.  Um sé að ræða skuldbindandi samkomulag um fullnaðarbætur, án frekari eftirmála við Varnarliðið.  Í því sambandi hafi einhliða bréf lögmanns stefnanda, einnig dags. 24. janúar 2005, ekkert gildi, þar sem efni þess bréfs stangist alfarið á við efni þessarar yfirlýsingar og samkomulags.  Með yfirlýsingunni 24. janúar 2005 (contractor's release) hafi komizt á samningur við varnarliðið, án þess að nokkurs fyrirvara væri þar getið af hálfu stefnanda.  Í yfirlýsingunni komi fram, að um endanlegar bætur sé að ræða, og sé yfirlýsingin undirrituð af þar til bærum fulltrúum stefnanda, eins og sérstaklega sé áréttað í yfirlýsingunni sjálfri.  Efni hennar sé afdráttarlaust um, að Varnarliðið sé leyst undan samningnum, svo og allri ábyrgð, skyldum eða kröfum, hverju nafni, sem nefnist. Byggi stefndi á því, að með undirritun yfirlýsingarinnar hafi stefnandi skuldbundið sig eftir efni hennar, og að ekki verði bæði sleppt og haldið.  Byggi stefndi á því, að yfirlýsingin sé fullgildur löggerningur samkvæmt íslenzkum rétti sem og bandarískum, eftir þeim samningsskilmálum, sem gilt hafi milli stefnanda og varnarliðsins.  Þessi yfirlýsing hafi borizt með símbréfi þann 24. janúar 2005 kl. 14:10, eins og sjáist af dskj. nr. 22.  Bréf lögmanns stefnanda hafi verið sett fram einhliða og gegn vilja gagnaðila, og telji stefndi það ekkert gildi hafa gagnvart því samkomulagi, sem stofnazt hafi sama dag. Þegar bréfið barst kl. 15:05 þennan dag, hafi aukinheldur verið kominn á samningur, sem hafi kveðið á um endanlegar lyktir málsins gagnvart varnarliðinu, sem fyrr segi.  Bréf lögmanns stefnanda þennan sama dag, sem hafi borizt, eftir að samkomulag hafði tekizt, hafi því enga þýðingu og breyti ekki þeim löggerningi, sem þegar hafi verið kominn á og sé í andstöðu við hann.

Stefnanda hafi verið greiddar þær bætur, sem til álita komu samkvæmt samningi félagsins við varnarliðið.  Engum vanefndum hafi því verið til að dreifa af hálfu varnarliðsins, eða bótaskyldu fyrir að fara af hálfu stefnda.  Í þessu sambandi byggi stefndi einnig á því, að eins og fram komi í gögnum málsins hafi Varnarliðið kallað eftir því, að stefnandi kæmi fram með kröfur þær, sem til álita kæmu á grundvelli hinnar umdeildu reglu FAR-skilmálanna.  Ekki hafi stefnandi sinnt þeim boðum, en félaginu hafi síðan verið greiddar bætur, að fjárhæð 24.000 Bandaríkjadalir, á grundvelli heimildar í reglu FAR 249.  Í þessu sambandi byggi stefndi einnig á því, að stefnandi hafi ekki gert tilraun til þess í málinu að sýna fram á tjón, bótakröfu sinni til stuðnings.  Þótt stefnandi höfði nú mál til viðurkenningar á bótarétti, sé nauðsynlegt, að stefnandi sýni fram á tjón, umfram þær bætur, sem honum hafi þegar verið greiddar.  Þar sem engin gögn eða rökstuðningur séu til stuðnings bótakröfu stefnanda við þessar aðstæður, sé á því byggt, að stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að meginskilyrði bótaréttar sé uppfyllt og beri því að sýkna af kröfum stefnanda, verði málinu ekki þegar vísað frá dómi af þessum sökum.

Með vísan til alls framanritaðs telji stefndi, að sýkna beri af kröfum stefnanda.  öðru leyti en að framan sé rakið, sé öllum málsástæðum stefnanda mótmælt.  Verði ekki á aðildarskort stefnda fallizt sé, auk framanritaðs, byggt á meginreglunni um skuldbindingargildi samninga, bæði hvað varði það ákvæði, sem hafi heimilað Varnarliðinu að slíta samningnum, og þann löggerning frá 24. janúar, þar sem stefnandi hafi leyst Varnarliðið undan öllum skyldum og frekari eftirmálum.  Breyti í því tilviki engu, þótt miðað væri við íslenzkar réttarreglur, enda hafi aðilum samningsins, stefnanda og Varnarliðinu, verið fullkomlega heimilt að semja á grundvelli þeirra skilmála, sem gert hafi verið, þ.á m. FAR-reglnanna.

Í stefnu sé því haldið fram, að undirbúningur framkvæmda hafi þegar verið hafinn af hálfu stefnanda.  Um þessa fullyrðingu liggi ekkert fyrir í málinu, og sé óhjákvæmilegt að mótmæla henni sem ósannaðri.  Ekki hafi verið ráðgert, að verkið hæfist fyrr en í desember 2003.  Vísist hér einnig til lokamálsliðs 38. gr. samningalaga, ef til beitingar íslenzkra réttarreglna kæmi á þeim grundvelli, og sé í því tilviki ítrekað, að stefnandi hafi á engum stigum sýnt fram á tjón.

Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísist í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Forsendur og niðurstaða

Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar Skarphéðinn Ómarsson, sem vann sem verktaki fyrir stefnanda, Gylfi Gíslason framkvæmdastjóri, sem var fjármálastjóri hjá stefnanda, Magnús Jónsson framkvæmdastjóri og fyrrum starfsmaður stefnanda, Gunnar Örn Steingrímsson, verkefnastjóri hjá stefnanda, og Arnfinnur Bertelsson, byggingaverkfræðingur og fyrrum starfsmaður á Roicc skrifstofunni.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því í fyrsta lagi, að hann sé ekki réttur aðili að málinu.

Stefnandi byggir aðild stefnda á því, að samningur sá, sem mál þetta snýst um, hafi verið gerður fyrir milligöngu forvalsnefndar, sem hafi verið utanríkisráðuneytinu til aðstoðar við meðferð verksamninga á athafnasvæði varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli samkvæmt lögum nr. 82/2000.  Þá vísar stefnandi til l. nr. 110/1951, 3. gr., og 4. tl. 6. gr. viðbætis við varnarsamninginn um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra.

Samkvæmt 3. gr. l. nr. 82/2000 taka lögin til allra samninga milli íslenzkra aðila og varnarliðsins, sem byggjast á ákvæðum varnarsamningsins og afleiddra samninga, og segir þar m.a., að til samninga í þessum skilningi teljist allir samningar, hverju nafni sem nefnist, þ.m.t. verksamningar.  Í III. kafla laganna, gr. 7 - 9, er fjallað um verksamninga.  Í 8. gr. segir svo m.a., að utanríkisráðuneytið auglýsi opið forval íslenzkra viðskiptaaðila.  Að loknum forvalsfresti leggi forvalsnefnd mat á þá aðila, sem tekið hafi þátt í forvalinu, og velji hæfa aðila.  Við matið ber að líta til þess, að fyrirtækin þurfa að vera íslenzk, hafa viðhlítandi verkreynslu á samningssviðinu, tæknilega getu, tækjabúnað og nægilega fjárhagslega burði til að efna samning þann, sem í boði er.  Þá ber að taka mið af íslenzkum öryggishagsmunum og almennum öryggissjónarmiðum.  Tilnefnir utanríkisráðuneytið hæfa aðila samkvæmt ákvörðun forvalsnefndar til varnarliðsins.

Í 3. gr. l. nr. 110/1051 segir svo m.a., að það skuli vera háð samþykki Íslands með hverjum hætti varnarliðið taki við og hagnýti þá aðstöðu á Íslandi, sem samningurinn veitir.  Í 4. tl. 6. gr. viðbætisins segir svo m.a., að ráðning íslenzkra borgara til starfa hjá varnarliðinu skuli framkvæmd með aðstoð og um hendur þeirra fyrirsvarsmanna, sem af Íslands hálfu séu til þess kvaddir.  Þá segir svo:  „Ráðningarkjör og vinnuskilyrði, einkum vinnulaun, launauppbætur og öryggisráðstafanir við vinnu, skulu fara að íslenskum lögum og venjum.“

Eins og ákvæði þetta hljóðar, er ljóst, að það vísar til vinnusamninga, en ekki verksamninga.

Það liggur fyrir og er óumdeilt, að stefnandi er einkaaðili og gerði verksamning sinn við varnarliðið sem slíkur, enda þótt heimild hans til samningsgerðar hafi fengizt með því, að forvalsnefnd samþykkti hann hæfan til þess að bjóða í verkið.  Er ljóst samkvæmt framangreindum ákvæðum um forvalsnefnd, að öryggissjónarmið ráða því, að þessi leið er farin við val á hæfum einstaklingum eða fyrirtækjum til að bjóða í verk fyrir varnarliðið.  Að öðru leyti kemur íslenzka ríkið ekki að verktilboði eða samningi aðila við varnarliðið. 

Krafa stefnanda er um skaðabætur innan samninga.  Í 2. tl. 12. gr. viðbætis um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þeirra, sbr. l. nr. 110/1951, er íslenzka ríkinu gert að úrskurða og greiða kröfur, aðrar en samningskröfur, vegna verknaða manna í liði Bandaríkjanna, sem af hlýst tjón á eignum manna eða stofnana á Íslandi, allt eins og nánar greinir í ákvæðinu.  Verður að fallast á það með stefnda, að þarna sé skýrt kveðið á um það, að íslenzka ríkinu sé ekki skylt að greiða skaðabætur innan samninga vegna samningsrofa varnarliðsins.  Hefur stefnandi ekki sýnt fram á, að íslenzka ríkið sé, þrátt fyrir ákvæði þetta, ábyrgt fyrir meintu tjóni stefnanda.  Verður því þegar af þessum sökum að sýkna íslenzka ríkið af kröfum stefnanda í máli þessu.  Eftir atvikum þykir rétt, að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenzka ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Eyktar ehf., í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.