Hæstiréttur íslands

Mál nr. 592/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Niðurfelling máls
  • Gagnkrafa


Fimmtudaginn 21. október 2010.

Nr. 592/2010.

Landsbanki Íslands hf.

(Guðmundur Óli Björgvinsson hrl.)

gegn

Heritable Bank plc.

(Viðar Lúðvíksson hrl.)

Kærumál. Niðurfelling máls. Gagnakröfur.

L kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem mál H á hendur honum var fellt niður. H hafði fallið frá kröfum sínum og óskað eftir því að málið yrði fellt niður. Krafðist L þess að lagt yrði fyrir héraðsdóm að taka gagnkröfur hans á hendur H til efnislegrar úrlausnar. Talið var að kröfur þær til sjálfstæðs dóms sem L gerði uppfylltu ekki skilyrði 4. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um að krafa hans varðaði úrlausn sakarefnis, sem borið hefði verið undir dóm. Gagnkröfu yrði þó aðeins komið að í máli ef skilyrði væru til að hafa hana sjálfstætt uppi samkvæmt ákvæðum XXIII. kafla laganna, sbr. þó 2. tölulið 173. gr. Þegar af þessari ástæðu var hinn kærði úrskurður staðfestur um niðurfellingu málsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. október 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2010, þar sem mál varnaraðila á hendur sóknaraðila var fellt niður. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. k. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka gagnkröfur hans á hendur varnaraðila til efnislegrar úrlausnar. Verði hinn kærði úrskurður staðfestur krefst hann hærri málskostnaðar úr hendi varnaraðila en þar var ákveðinn. Í báðum tilvikum er krafist kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í hinum kærða úrskurði er frá því greint að varnaraðili hafði lýst kröfum við slit á sóknaraðila og slitastjórn hafnað þeim að öllu leyti eða að hluta. Varnaraðili vildi ekki una afstöðu slitastjórnar og var ágreiningnum vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur samkvæmt 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991. Varnaraðili lagði fram greinargerð sína á dómþingi 8. júní 2010. Fékk sóknaraðili þá frest til 2. september 2010 til að leggja fram greinargerð af sinni hálfu. Áður en til þess kom tilkynnti varnaraðili með bréfi til sóknaraðila 12. ágúst 2010 að hann félli frá kröfum sínum, sem orðið höfðu tilefni ágreiningsmálsins fyrir héraðsdóminum, og óskaði hann eftir að það mál yrði fellt niður. Við fyrirtöku málsins 2. september 2010 lagði sóknaraðili fram greinargerð þar sem hann krafðist þess aðallega að kröfum varnaraðila yrði vísað frá dómi en til vara að þeim yrði hafnað. Byggði hann meðal annars á því að varnaraðili hefði afturkallað kröfur sínar á hendur sóknaraðila. Þá gerði hann jafnframt tvær sjálfstæðar kröfur á hendur varnaraðila, annars vegar um að viðurkennt yrði að kröfur varnaraðila, sem lýst hafði verið, væru endanlega niður fallnar og hins vegar að þær væru ekki tækar til skuldajafnaðar. Kvaðst hann styðja þessar kröfur við 4. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991, þar sem þeim sem verðist kröfum í þrotabú væri heimilað að hafa uppi gagnkröfur til sjálfstæðrar úrlausnar um sakarefnið. Af hálfu varnaraðila var þess krafist að málið yrði fellt niður þar sem hann hefði afturkallað kröfur sínar á hendur sóknaraðila. Héraðsdómari gaf málsaðilum kost á að flytja málið munnlega um þennan ágreining. Að loknum málflutningi 14. september 2010 var hinn kærði úrskurður síðan kveðinn upp.

Samkvæmt 4. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991 er það skilyrði fyrir heimild til sjálfstæðrar kröfu af hálfu þess sem verst í máli, að krafa hans varði úrlausn sakarefnisins, sem borið hefur verið undir dóm. Er tekið fram að gagnkröfu verði þó því aðeins komið að í máli að skilyrði væru til að hafa hana uppi sjálfstætt samkvæmt ákvæðum XXIII. kafla laganna, sbr. þó 2. tölulið 173. gr.  Kröfur þær til sjálfstæðs dóms sem sóknaraðili gerði í greinargerð sinni, sem fram var lögð á dómþingi 2. september 2010, uppfylla ekki þessi skilyrði. Þegar af þessari ástæðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur um niðurfellingu málsins. Ekki eru efni til að taka til greina kröfu sóknaraðila um breytingu á málskostnaðarákvæði hins kærða úrskurðar. Ákvæði  úrskurðarins um málskostnað öðrum en aðilum þessa máls til handa eru ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um niðurfellingu málsins og málskostnað sóknaraðila, Landsbanka Íslands hf., til handa..

Sóknaraðili greiði varnaraðila, Heritable Bank plc., 300.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. september 2010.

I.

Mál þetta var þingfest 14. apríl sl., en í því þinghaldi var lagt fram bréf slitastjórnar Landsbanka Íslands hf., móttekið 23. mars sl., þar sem óskað var dómsmeðferðar vegna ágreinings um fjórar lýstar kröfur sóknaraðila, Heritable Bank plc., á hendur Landsbanka Íslands hf. Erindinu var beint til héraðsdóms á grundvelli 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 með síðari breytingum, einkum 102. gr. þeirra laga, sbr. lög nr. 44/2009.

Í bréfi slitastjórnar kemur fram að sóknaraðili sé dótturfélag Landsbanka Íslands hf. í Skotlandi og sé þar í skiptameðferð eftir þarlendum reglum. Sóknaraðili hafi lýst fjórum kröfum á hendur Landsbanka Íslands hf., samtals að fjárhæð um 903 milljónir breskra punda, en slitastjórn hafi hafnað þeim, ýmist að öllu leyti eða að hluta. Einnig hafi slitastjórn hafnað kröfu sóknaraðila um skuldajöfnuð við kröfu Landsbanka Íslands hf. á hendur sóknaraðila, að fjárhæð nálægt 86 milljónum breskra punda.

Við þingfestingu málsins var af hálfu sóknaraðila lögð fram bókun, þar sem fram kemur að varnaraðili, Landsbanki Íslands hf., hafi lýst þremur kröfum við slitameðferð sóknaraðila. Hafi sóknaraðili talið tvær þeirra óvissar og virði þeirra ekkert, en þriðju kröfunni hafi hins vegar verið hafnað þar sem hún hafi að fullu verið gerð upp með yfirlýsingu um skuldajöfnuð. Þannig taldi sóknaraðili að allar kröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila væru fallnar niður. Hafi varnaraðili andmælt þessum ákvörðunum sóknaraðila. Í bókun sóknaraðila segir einnig að sóknaraðili hafi lýst gagnkröfum sínum á hendur varnaraðila við slitameðferð á Íslandi til þess að alls öryggis yrði gætt, og muni þær kröfulýsingar standa á meðan sóknaraðili bíði niðurstöðu skoskra dómstóla um hvort ágreiningur aðila varðandi kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila heyri undir skoska dómstóla vegna slitameðferðar sóknaraðila í Skotlandi. Í ljósi þessa krafðist sóknaraðili þess „að máli þessu verði frestað þar til endanlegur dómur gengur um tiltekna þætti í ágreiningsmáli, sem rekið er af hálfu varnaraðila gegn sóknaraðila fyrir skoskum dómstólum“, eins og orðrétt sagði í bókun sóknaraðila. Yrði ekki fallist á frestun málsins óskaði sóknaraðili eftir hæfilegum fresti til að leggja fram greinargerð, ásamt gögnum. Varnaraðilar höfnuðu því að málinu yrði frestað, og töldu einnig að sá frestur sem sóknaraðili óskaði eftir til að leggja fram greinargerð af sinni hálfu væri úr hófi.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí sl. var hafnað kröfu sóknaraðila um málinu yrði frestað þar til endanlegur dómur gengi um tiltekna þætti í ágreiningsmáli sem rekið væri af varnaraðila gegn sóknaraðila fyrir skoskum dómstólum. Var sóknaraðila veittur frestur til að skila greinargerð í málinu til 8. júní sl. Í forsendum úrskurðarins kemur fram að samkvæmt ákvæðum tilskipunar 2001/24/EB, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., skuli leysa úr ágreiningi um lýstar kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., fyrir íslenskum dómstólum. Því væru engin efni til þess að fallast á kröfu sóknaraðila um frestun málsins af ofangreindum ástæðum.

Í þinghaldi 8. júní sl. lagði sóknaraðili fram greinargerð sína, ásamt gögnum, og var varnaraðilum veittur frestur til 2. september sl. til að skila greinargerð af sinni hálfu.

Við fyrirtöku málsins 2. september sl. lagði lögmaður sóknaraðila fram ljósrit af bréfi frá lögmanni sóknaraðila í Skotlandi til slitastjórnar varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., dagsett 12. ágúst sl., þar sem tilkynnt var að sóknaraðili afturkallaði allar kröfur sínar, sem lýst hefði verið við slitameðferð Landsbanka Íslands hf. Jafnframt segir þar að sóknaraðili óski eftir því að ágreiningsmál þetta verði fellt niður fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Í sama þinghaldi lagði lögmaður Landsbanka Íslands hf. fram greinargerð sína, ásamt gögnum. Af því tilefni ítrekaði lögmaður sóknaraðila að hann hefði þegar óskað eftir því að málið yrði fellt niður, enda hefði hann afturkallað allar kröfur sínar við slitameðferð varnaraðila. Aðrir varnaraðilar kváðust ekki taka afstöðu til ágreinings aðila um niðurfellingu málsins, en áskildu sér rétt til ómaksþóknunar, yrði fallist á kröfu sóknaraðila um niðurfellingu þess. Vegna fram komins ágreinings aðila um niðurfellingu málsins ákvað dómari að fresta málinu til 14. september sl. og gefa aðilum þá kost á að reifa sjónarmið sín til ágreiningsins. Var svo gert og málið að því búnu tekið til úrskurðar.

II.

Sóknaraðili ítrekar fyrri kröfu sína um að mál þetta verði fellt niður, enda hafi hann þegar fallið frá öllum kröfum sínum við slitameðferð varnaraðila. Því sé nú svo komið að hann eigi ekki lengur aðild að neinum ágreiningsmálum fyrir dóminum í tengslum við slitameðferð varnaraðila. Dómara beri því að verða við kröfu hans um niðurfellingu málsins, sbr. c-liður 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Jafnframt mótmælir sóknaraðili því að varnaraðili geti komið að gagnkröfum í málinu til sjálfstæðs dóms eða úrskurðar, eins og hann geri í greinargerð sinni, enda séu þær kröfur í eðli sínu kröfur um sýknu í máli þar sem engar kröfur séu lengur gerðar á hendur varnaraðila. Kröfurnar séu að auki þannig orðaðar að dómur geti ekki orðið við þeim, en feli hins vegar í sér beiðni um álit dómsins um lögfræðileg efni. Þá mótmælir sóknaraðili því að fyrir hendi séu skilyrði samkvæmt 4. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., til þess að varnaraðili geti haft uppi þær gagnkröfur sem hann geri í greinargerð sinni. Loks mótmælir sóknaraðili kröfu varnaraðila um málskostnað, enda hafi varnaraðili ekki gert slíka kröfu þegar sóknaraðili krafðist niðurfellingar málsins á dómþingi 2. september sl. Hins vegar sé málskostnaðarkrafa gerð í greinargerð varnaraðila, en lúti þó aðeins að þeim kröfum sem sóknaraðili setji þar fram.

III.

Varnaraðili krefst þess að málið verði aðeins fellt niður í aðalsök, en að gagnkröfur hans, sem fram koma í greinargerð 2. september sl., verði teknar til efnisúrlausnar. Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins. Aðalkrafa hans byggist á því að 4. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991 veiti honum heimild til að hafa uppi sjálfstæðar kröfur um úrlausn sakarefnisins, og hafi hann gert það í greinargerð sinni til dómsins 2. september sl. Sóknaraðili hafi að sönnu heimild til að fella niður mál sitt fyrir dóminum, en hins vegar hafi hann ekki  slíkt forræði á gagnkröfum hafi þær komið fram, sbr. 2. mgr. 176. gr. sömu laga. Mótmælir varnaraðili því að nokkrir ágallar séu á gagnkröfum sínum eða að þær feli í sér lögspurningu. Þvert á móti heldur hann því fram að hann hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn dómsins um kröfur sínar. Telur hann að fyrir sóknaraðila vaki það eitt að víkja sér undan lögsögu íslenskra dómstóla, en láta þess í stað skoska dómstóla fjalla um kröfur varnaraðila á hendur sóknaraðila.

IV.

Eins og rakið er hér að framan tilkynnti sóknaraðili varnaraðila bréflega 12. ágúst sl. að hann afturkallaði allar kröfur sínar við slitameðferð varnaraðila og myndi af þeim sökum óska þess við Héraðsdóm Reykjavíkur að mál þetta yrði fellt niður. Sóknaraðili lagði yfirlýsinguna fram við fyrirtöku málsins á dómþingi 2. september sl., en áður hafði verið boðað til þinghaldsins í því skyni að varnaraðili legði fram greinargerð af sinni hálfu. Í þinghaldinu lagði varnaraðili fram greinargerð sína, ásamt gögnum, en sóknaraðili ítrekaði að hann hefði þegar óskað eftir niðurfellingu málsins, enda hefði hann afturkallað allar kröfur sínar við slitameðferð varnaraðila. Því væri engum kröfum sóknaraðila til að dreifa við slit varnaraðila.

Samkvæmt 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., gilda almennar reglur um meðferð einkamála um meðferð mála samkvæmt XXIV. kafla laganna, að því leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum þeirra laga. Í c. lið 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er mælt fyrir um að mál verði fellt niður ef stefnandi krefst þess. Af ákvæðinu leiðir ekki aðeins að dómara er skylt er að verða við slíkri kröfu, heldur einnig að stefndi geti ekki komið í veg fyrir þau málalok. Frá þessari meginreglu er þó sú undantekning gerð að hafi stefndi þingfest gagnsök, getur málið haldið áfram sem sjálfstætt mál án tillits til afdrifa aðalsakarinnar.

Eins og atvikum er hér háttað getur dómurinn ekki fallist á að heimilt sé að reka málið áfram sem sjálfstætt mál um gagnkröfur varnaraðila, sem fyrst komu fram í greinargerð hans. Ræður þar mestu um að varnaraðila var 12. ágúst sl. kunnugt um að sóknaraðili afturkallaði allar kröfur sínar við slitameðferð varnaraðila og myndi af þeim sökum óska þess að málið yrði fellt niður við fyrirtöku þess 2. september sl. Þótt varnaraðili hafi þá lagt fram greinargerð sína undir andmælum sóknaraðila verður hvorki á það fallist að með því einu hafi gagnsök verið höfðuð, né að uppfyllt hafi verið skilyrði til þess að varnaraðili gæti haft uppi sjálfstæðar kröfur af sinni hendi, sbr. 4. mgr. 177. gr. laga nr. 21/1991. Ákvörðun dómara um að fresta málinu til 14. september í því skyni að gefa aðilum þá kost á að tjá sig um kröfu sóknaraðila um niðurfellingu málsins fær þar engu um breytt. Verður því fallist á kröfu sóknaraðila og mál þetta fellt niður.

Við munnlegan flutning málsins 14. september sl. gerði varnaraðili kröfu um málskostnað úr hendi sóknaraðila, yrði dómurinn við kröfu sóknaraðila. Aðrir varnaraðilar gerðu hið sama í þinghaldi 2. september sl. Þar sem mál þetta er æði umfangsmikið, framlögð gögn sóknaraðila mikil að vöxtum og varða flókna fjármálagerninga á báða bóga, þykir rétt að verða við kröfum varnaraðila og úrskurða sóknaraðila til greiðslu málskostnaðar, sbr. 2. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Málskostnaður til Landsbanka Íslands hf. ákveðst 800.000 krónur, en málskostnaður til annarra varnaraðila 300.000 krónur.  

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Mál þetta er fellt niður.

Sóknaraðili, Heritable Bank plc., greiði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 800.000 krónur í málskostnað, en öðrum varnaraðilum, Arrowgrass Masterfund Limited., Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited, CIG & Co, Conseq Invest plc, Conseq Investment Management AS, CVI GVF (Lux) Master S.a.r.l, E. SUN Commercial Bank Limited, Fondo Latinoamericano de Reservas (F.L.A.R), GLG Market Neutral Fund, GLG European Distressed Fund, ING Life Insurance and Annuity, ING USA Annuity and Life Insurance Co., Reliastar Life Insurance Company, Security Life of Denver Insurance, LMN Finance Ltd, Monumental Life Insurance Company, National Bank of Egypt (UK) Limited, Ohio National Life Assurance Corporation, Phoenix Life Insurance Company, PHL Variable Insurance Company, Sun Life Assurance Company of Canada, Third Point Partners LP (US), Lyxor/Third Point Fund Limited, Third Point Offshore Master Fund LP, Third Point Partners Qualified LP, Third Point Ultra Master Fund LP (Cayman), Värde Fund LP, Värde Fund V-B LP, Värde Fund VII-B LP, Värde Fund VI-A LP, The Värde Fund IX LP/The Värde Fund IX-A LP, The Värde Fund VIII LP, Värde Investment Partners LP, Värde Investment Partners (Offshore) Master LP, WGZ Bank Luxembourg AS og WGZ Bank Ireland PLC, sameiginlega 300.000 krónur.