Print

Mál nr. 61/2007

Lykilorð
  • Sjómaður
  • Ráðningarsamningur
  • Bótaskylda skipverja

Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. október 2007.

Nr. 61/2007.

Jakob Valgeir ehf.

(Elvar Örn Unnsteinsson hrl.)

gegn

Baldvini Sigurðssyni

(Jónas Haraldsson hrl.)

 

Sjómenn. Ráðningarsamningur. Bótaskylda skipverja.

B, sem starfað hafði sem yfirvélstjóri á línubát í eigu J ehf., krafði félagið um greiðslu vangoldinna launa. J ehf. krafðist sýknu á þeim grundvelli að félagið ætti gagnkröfu á hendur B, sem næmi hærri fjárhæð en stefnukrafan. Vísaði J ehf. til þess að B hefði hætt fyrirvaralaust störfum á bátnum og því ætti félagið rétt á bótum úr hendi hans  er næmu launum fyrir hálfan uppsagnarfrest, sbr. 60. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Ekki var talið að B hefði sýnt fram á að honum hefði verið heimilt að hætta störfum hjá J ehf. án þess að vinna hinn þriggja mánaða uppsagnarfrest. Með hliðsjón af forsögu 60. gr. sjómannalaga varð að skýra ákvæðið þannig að skipverja bæri að greiða útgerðarmanni þær stöðluðu bætur, sem þar væri kveðið á um, færi skipverji fyrirvaralaust úr starfi án lögmætrar ástæðu óháð því hvort sannanlegt tjón hlytist af. Hæstiréttur vísaði aftur á móti til þess að óumdeilt væri að J ehf. skuldaði B laun, þar sem uppgjörshættir félagsins hefðu ekki verið í samræmi við gildandi kjarasamning og ákvæði laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Í því ljósi væri ekki unnt að fallast á að félagið ætti rétt á að skerða greiðslur til B á grundvelli 60. gr. sjómannalaga vegna brotthvarfs hans úr skiprúmi. Var því fallist á kröfu B.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. febrúar 2007. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og honum dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann staðfestingar héraðsdóms að öðru leyti en því að upphafsdagur vaxta verði 17. nóvember 2005 auk þess sem málskostnaður í héraði falli niður og stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Með hinum áfrýjaða dómi var fallist á kröfu stefnda til greiðslu launa úr hendi áfrýjanda. Áfrýjandi gerði í héraði gagnkröfu til skuldajafnaðar vegna fyrirvaralauss brotthlaups stefnda úr skiprúmi samkvæmt 60. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 með síðari breytingum. Héraðsdómur féllst ekki á þá kröfu. Er héraðsdómi áfrýjað til að fá hrundið þeirri niðurstöðu. Snýst málatilbúnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti um gagnkröfuna, enda unir hann niðurstöðu hins áfrýjaða dóms varðandi launakröfu stefnda að öðru leyti en um upphafsdag dráttarvaxta. Ekki er heldur tölulegur ágreiningur um gagnkröfu áfrýjanda. Hins vegar er ágreiningur á milli aðila um það hvort lagaskilyrði hafi verið fyrir hendi til stofnunar gagnkröfunnar.

Aðila greinir á um hvort samið hafi verið um starfslok stefnda og hvort hann hafi þá verið lausráðinn eða fastráðinn hjá áfrýjanda.

Óumdeilt er að áfrýjandi gerði ekki skriflegan ráðningarsamning við stefnda þrátt fyrir að honum hafi borið skylda til þess samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga. Af þeim sökum ber áfrýjandi sönnunarbyrði fyrir því að stefndi hafi verið fastráðinn vélstjóri hjá honum.

Af hálfu áfrýjanda er á það bent að stefndi hafi byrjað störf hjá honum árið 1995 og síðan verið ráðinn sem yfirvélstjóri á línubát áfrýjanda, Þorlák ÍS-15, í ágúst 2000 og starfað allt fram í desember 2004 og notið á þeim tíma kauptryggingar eins og fastráðinn væri. Í skýrslu stefnda fyrir héraðsdómi var þetta staðfest. Þegar til þessa er litið verður að telja að stefndi hafi haft þriggja mánaða uppsagnarfrest samkvæmt 2. mgr. 9. gr., sbr. 2. mgr. 5. gr. sjómannalaga.

Áfrýjandi byggir á því að stefndi hafi fengið frí til þess að fara í utanlandsferð að  lokinni veiðiferð sem farin var 12. desember 2004 og hafi átt að koma aftur til vinnu í fyrstu viku janúar en um það leyti hafi áfrýjandi aftur á móti frétt að stefndi hefði hafið störf hjá öðru félagi. Stefndi heldur því hins vegar fram að honum hafi samist svo við Flosa Valgeir Jakobsson útgerðarstjóra og núverandi stjórnarformann áfrýjanda að hann mætti hætta störfum eftir umrædda veiðiferð. Ekkert er komið fram í málinu sem styður þessa fullyrðingu stefnda. Þar sem stefnda hefur ekki tekist sönnun um að honum hafi verið heimilt að hætta störfum hjá áfrýjanda án þess að vinna hinn þriggja mánaða uppsagnarfrest verður að leggja til grundvallar í máli þessu að stefndi hafi farið fyrirvaralaust úr starfi í byrjun janúar 2005 þegar fríi hans lauk.

II.

          Í 60. gr. sjómannalaga er kveðið svo á að fari skipverji fyrirvaralaust úr starfi eða áður en uppsagnarfrestur er liðinn án lögmætrar ástæðu eigi útgerðarmaður rétt á bótum úr hendi skipverja er nemi launum fyrir hálfan uppsagnarfrest eða helming þess tíma sem eftir sé af uppsagnarfrestinum, þó aldrei lægri fjárhæð á fiskiskipum en sem nemi sjö daga kauptryggingu en föstum launum í sjö daga á kaupskipum.

          Í athugasemdum með 60. gr. frumvarps þess er varð að sjómannalögum er meðal annars tekið fram að ákvæði þetta sé nýmæli. Í gildi væru ákvæði í kjarasamningum sjómanna, sem mæli svo fyrir, að fari skipverji fyrirvaralaust og án þess að lögmætar ástæður liggi til, úr skiprúmi, eigi útgerðarmaður rétt til bóta úr hendi skipverja, sem svara til launa í uppsagnarfresti. Að þessu leyti hafi réttarstaða sjómanna verið lakari en annarra launþega. Um aðra launþega en sjómenn hafi gilt sú regla, að bætur til vinnuveitenda þeirra í slíkum tilvikum hafi numið jafngildi launa í hálfum uppsagnarfresti. Eðlilegt þyki, að sjómenn sitji við sama borð og aðrir launþegar.

          Með 60. gr. sjómannalaga var samkvæmt framansögðu tekið upp í lög ákvæði sem áður hafði verið í kjarasamningum allt frá 1. mars 1976, sbr. dóm Félagsdóms frá 16. febrúar 1982 í máli nr. 9/1981, sem birtur er VIII. bindi dómasafns réttarins bls. 276. Sú breyting var þó gerð að bætur skyldu aðeins nema jafngildi launa í hálfum uppagnarfresti í stað launa í fullum uppsagnarfresti. Þetta kjarasamningsákvæði hafði að mörgu leyti einkenni févítis þar sem skilyrði fyrir beitingu þess var uppfyllt færi skipverji fyrirvaralaust úr skiprúmi án lögmætra ástæðna óháð því hvort, og þá hve mikið, tjón hlaust af. Með hliðsjón af forsögu 60. gr. sjómannalaga verður að skýra ákvæðið eftir orðanna hljóðan þannig að skipverja ber að greiða útgerðarmanni þær stöðluðu bætur sem þar er kveðið á um fari skipverji fyrirvaralaust úr starfi án lögmætrar ástæðu óháð því hvort sannanlegt tjón hlýst af.

          Af hálfu stefnda er því borið við að hann hafi haft lögmæta ástæðu til að hætta störfum fyrirvaralaust þar sem áfrýjandi hafi ekki greitt honum lög- og kjarasamningsbundinn aflahlut.

          Skilyrði bótaréttar skv. 60. gr. sjómannalaga er að brottför sjómanns sé án lögmætrar ástæðu. Í ljósi eðli ákvæðisins getur útgerðarmaður ekki borið það fyrir sig hafi sjómaður hætt störfum vegna verulegra vanefnda útgerðarmanns á lögbundnum skyldum gagnvart sjómanni, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar frá 3. maí 2001 í máli nr. 446/2000 sem birtur er í dómsafni þess árs á bls. 1672.

          Þar sem óumdeilt er að áfrýjandi skuldaði stefnda þau laun, sem honum hafa verið dæmd með héraðsdómi þar sem uppgjörshættir hans voru ekki í samræmi við gildandi kjarasamninga og ákvæði laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, verður ekki talið að áfrýjandi eigi rétt á að skerða greiðslur til stefnda á grundvelli 60. gr. sjómannalaga vegna brotthvarfs hans úr skiprúmi.

          Með vísan til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu er niðurstaða héraðsdóms staðfest um upphafsdag vaxta.

          Með vísan til alls þess sem að framan greinir er niðurstaða héraðsdóms staðfest.

          Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Jakob Valgeir ehf., greiði stefnda, Baldvini Sigurðssyni, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember 2006.

I

Mál þetta sem dómtekið var 18. október 2006 var höfðað 3. maí 2006.  Stefnandi er Baldvin Sigurðsson, Faxabraut 16, Reykjanesbæ, en stefndi er Jakob Valgeir ehf., Grundarstíg 5, Bolungarvík.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 584.050 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 21.431 krónu frá 9. maí 2002 til 9. júní 2002, af 42.862 krónum frá þeim degi til 9. júlí 2002, af 64.293 krónum frá þeim degi til 9. ágúst 2002, af 85.724 krónum frá þeim degi til 9. september 2002, af 107.155 krónum frá þeim degi til 9. október 2002, af 117.871 krónu frá þeim degi til 9. febrúar 2003, af 183.833 krónum frá þeim degi til 9. mars 2003, af 235.682 krónum frá þeim degi til 9. apríl 2003, af 260.326 krónum frá þeim degi til 9. júlí 2003 en af 584.050 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að dómurinn viðurkenni gagnkröfu stefnda og sýkni stefnda af kröfu stefnanda.  Þá krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.  Til vara krefst stefndi þess að upphaf dráttarvaxtakröfu stefnanda miðist við 17. nóvember 2005 og að málskostnaður verði felldur niður.

II

Málavextir eru þeir að stefnandi, sem hafði unnið hjá stefnda allt frá árinu 1995, hóf störf sem yfirvélstjóri á línubát stefnda, Þorláki ÍS-15, hinn 1. ágúst 2000.  Ekki var gerður við hann skriflegur ráðningarsamningur.  Stefnandi hætti störfum hjá stefnda í desember 2004 í lok veiðiferðar sem farin var hinn 12. desember 2004.  Er ágreiningur með aðilum um starfslok stefnanda.  Stefnandi heldur því fram að hann hafi komist að samkomulagi við Flosa Jakobsson, núverandi stjórnarformann stefnda, um að hann fengi að hætta störfum á þessum tíma.  Stefndi mótmælir því og kveður skipstjórann, Jón Pétursson, hafa veitt stefnanda leyfi til að fara í frí í desember 2004.  Hafi stefnandi útvegað vélstjóra til að leysa sig af og hafi staðið til að stefnandi kæmi aftur til vinnu í byrjun janúar 2005.  Það hafi hann hins vegar ekki gert og hafi stefndi fengið þær upplýsingar í byrjun ársins 2005 að stefnandi hefði hafið störf hjá öðru fyrirtæki.

Verðlagsstofa skiptaverðs rannsakaði uppgjörshætti stefnda, vegna útgerðar Þorláks ÍS-15 tímabilið 1. september 2002 til 31. mars 2004, með vísan til 6. gr. laga nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegs­manna.  Úttekt Verðlagsstofu leiddi í ljós að á tímabilinu janúar til júlí 2003 hafi skiptahlutur skipverja samkvæmt launaseðlum verið nokkuð lægri en samkvæmt útreikningum Verðlagsstofu.  Stefndi mótmælir því ekki að framangreindir uppgjörs­hættir séu í andstöðu við kjarasamninga og lög.  Kveðst stefndi hafa fallist á að hafa þennan háttinn á vegna óska stefnanda sem hafi haft frumkvæðið að því að uppgjör hafi verið með þessum hætti.

Í kjölfar framangreindrar niðurstöðu Verðlagsstofu sendi lögmaður stefnanda stefnda innheimtubréf 17. október 2005 og krafði hann um greiðslu vangoldinna launa vegna ofangreinds tímabils bæði fyrir stefnanda og annan skipverja, Bjarna Pétursson, vélstjóra.  Með bréfum 27. október 2005 féllst stefndi á réttmæti krafna stefnanda og Bjarna Péturssonar og greiddi þeim síðarnefnda umkrafða greiðslu.  Hafnaði stefndi að greiða kröfu stefnanda þar sem hann taldi sig eiga gagnkröfu á hendur honum að fjárhæð 670.215 krónur vegna þess að hann hefði farið fyrirvaralaust úr starfi í desember 2004.

Með bréfi lögmanns stefnanda 8. febrúar 2006 var mótmælt staðhæfingu stefnda um brotthlaup stefnanda úr skiprúmi og ítrekuð krafa um greiðslu óuppgerðra launa.  Með svarbréfi lögmanns stefnda 22. febrúar 2006 var áréttaður sá skilningur stefnda að stefnandi hefði hætt störfum fyrirvaralaust, hann hafi óskað eftir fríi til að fara til Spánar í desember 2004 og hafi stefndi átt von á honum til vinnu að loknu því fríi. 

Í málinu er ekki deilt um réttmæti kröfu stefnanda heldur snýst ágreiningur aðila um það hvort stefndi eigi gagnkröfu á móti þeirri kröfu til skuldajafnaðar vegna meints ólögmæts brotthlaups stefnanda úr skiprúmi.

III

Stefnandi byggir á því að við uppgjör launa á árunum 2002 og 2003 hafi stefndi brotið gegn ákvæðum kjarasamnings og laga og hafi stefnandi af þeim sökum verið vanhaldinn í launum á tímabilinu.  Séu brot stefnda alvarleg og viðamikil og sé um að ræða brot gegn kjarasamningi Alþýðusambands Vestfjarða og Útvegsmannafélags Vestafjarða, einkum 1. og 2. mgr. greinar 1.01 kjarasamningsins, og lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, 7. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur og 4. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.

Stefndi hafi ekki haldið því fram að krafa stefnanda, sem byggist á útreikningum Verðlagsstofu skiptaverðs, sé óréttmæt eða röng.  Hafi stefndi meðal annars gert upp vangreidd laun við Bjarna Pétursson, fyrrverandi vélstjóra hjá stefnda, á grundvelli þessara útreikninga.  Verði því ekki annað séð en að stefndi viðurkenni að hafa vangreitt stefnanda laun og því sé úrlausnarefni máls þessa einungis hvort stefnandi hafi glatað rétti sínum til launa vegna meints brotthlaups úr skiprúmi.

Stefnandi kveður stefnda ekki hafa gert skriflegan ráðningarsamning við sig en það sé í skýrri andstöðu við ákvæði 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.  Þar sem ekki hafi verið í gildi milli aðila skriflegur ráðningarsamningur, þar sem kveðið væri á um ráðningartíma, hafi stefnandi talið sig vera lausráðinn hjá stefnda.  Í nóvember 2004 hafi orðið að samkomulagi milli stefnanda og útgerðarstjóra stefnda, Flosa Jakobs­sonar, að stefnandi fengi að hætta störfum hjá stefnda og hafi síðasti starfsdagur stefnanda verið 12. desember 2004.  Þá hafi stefndi fundið eftirmann stefnanda, Elías H. Ketilsson, yfirvélstjóra.  Þessu til staðfestingar sé lögskráningarvottorð þar sem fram komi að stefnandi hafi verið afskráður úr skipinu 13. desember 2004 og sama dag hafi nefndur Elías verið lögskráður sem yfirvélstjóri.  Í ljósi þessa verði stefndi að svara því hvenær stefnandi eigi að hafa stungið af fyrirvaralaust svo sem hann haldi fram.  Hljóti það að hafa verið á tímabilinu frá lokum veiðiferðar 12. desember 2004 og fram til þess að nýr yfirvélstjóri hafi verið lögskráður á skipið degi síðar.

Stefndi byggi á því í bréfum sínum 27. október 2005 og 22. febrúar 2006, að hann eigi bótakröfu á hendur stefnanda vegna meints brotthlaups hans úr skiprúmi og sé í bréfum þessum vitnað til ótilgreinds kjarasamnings, eflaust sé þar verið að vísa til  kjarasamnings Vélstjórafélags Íslands og Landsambands íslenskra útvegsmanna, og 60. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.  Hið rétta sé að kjarasamningur VSFÍ hafi ekki gilt um lögskipti stefnanda og stefnda, heldur kjarasamningur ASV og ÚMFV, en í grein 1.17 þess samnings sé kveðið á um rétt útgerðar til að krefjast bóta vegna ólögmæts brotthlaups skipverja úr skiprúmi.  Megi ljóst vera, þrátt fyrir orðalag þess ákvæðis, með vísan til 60. gr. laga nr. 35/1985, sbr. gagnályktun frá 1. mgr. 4. gr. sömu laga, að bótakrafa útgerðar vegna brotthlaups skipverja geti aldrei numið hærri fjárhæð en sem nemi launum fyrir hálfan uppsagnarfrest.

Telur stefnandi einsýnt að stefndi hafi ekki orðið fyrir tjóni af meintu brotthlaupi stefnanda úr skiprúmi þar sem nýr yfirvélstjóri hafi verið lögskráður um borð í skipið daginn eftir að stefnandi lét þar af störfum.  Verði því ekki séð að úthald bátsins hafi tafist eða að stefndi hafi orðið fyrir óhagræði eða tjóni vegna hins meinta brotthlaups. Hafi  því ekki stofnast bótakrafa stefnda til handa.

Samkvæmt því sem stefndi haldi fram eigi stefnandi að hafa stungið af úr skiprúmi 12. eða 13. desember 2004.  Bótakrafa stefnda á hendur stefnanda komi ekki fram fyrr en í bréfi lögmanns stefnda dags. 27. október 2005, eða rúmum 22 (sic) mánuðum síðar.   Sé á því byggt að hafi stefndi á annað borð getað haft uppi kröfu á hendur stefnanda, sé sú krafa niður fallin vegna tómlætis, enda hafi stefnandi svo löngu síðar haft réttmæta ástæðu til að ætla að slík krafa yrði ekki gerð.  Stefnandi telji einnig að þegar af þeirri ástæðu, að stefndi greiddi stefnanda ekki lög- og kjarasamningsbundinn aflahlut, eigi stefndi ekki bótakröfu á hendur sér.

Kröfu sína sundurliðar stefnandi svo:

A. Leiðrétting á kauptryggingu og föstum launaliðum í apríl - september 2002.

Apríl - ágúst 2002.

Í samræmi við kjarasamning ASV og ÚMFV hefði greiðsla kauptryggingar átt að nema 195.707 krónum á mánuði,  fatapeningar 3.856 krónum á mánuði, starfsaldurs­álag 13.700 krónum á mánuði og fastakaup 5.493 krónum á mánuði.  Greiðsla stefnda til stefnanda vegna þessara liða hafi ekki verið nema 184.298 krónur á mánuði vegna kauptryggingar, vegna fatapeninga 2.740 krónur á mánuði, vegna starfsaldursálags 7.372 krónur á mánuði og vegna fastakaups 2.916 krónur á mánuði.   Mismunurinn sé 21.431 króna á mánuði og sé gerð krafa um 107.155 krónur vegna tímabilsins.

September 2002.

Í samræmi við kjarasamning ASV og ÚMFV og 50% vinnuframlag stefnanda hefði greiðsla kauptryggingar átt að nema 97.854 krónum þennan mánuð, fatapeningar 1.928 krónum, starfsaldursálag 6.850 krónum og fastakaup 2.747 krónum. Greiðsla stefnda til stefnanda vegna þessara liða hafi ekki verið nema 92.149 krónur vegna kauptryggingar, vegna fatapeninga 1.370 krónur, vegna starfsaldursálags 3.686 krónur og vegna fastakaups 1.458 krónur.  Mismunurinn sé 10.716 krónur og sé gerð krafa um greiðslu hans.

B. Vangreiddur aflahlutur janúar - mars og júní 2003.

Janúar 2003.

Samkvæmt launaseðli hafi hásetahlutur verið 237.312 krónur en hefði átt að vera 277.227 krónur.  Sé gerð krafa um greiðslu mismunarins, samtals að fjárhæð 39.915 krónur, 0,5 aukahlutar yfirvélstjóra 19.958 krónur og orlofs ofan á þessar fjárhæðir 6.089 krónur eða samtals 65.962 krónur.

Febrúar 2003.

Samkvæmt launaseðli hafi hásetahlutur verið 541.981 króna en hefði átt að vera 573.356 krónur.  Gerð sé krafa um greiðslu mismunarins, samtals að fjárhæð 31.375 krónur, 0,5 aukahlutar 15.688 krónur og orlofs ofan á þessar fjárhæðir 4.786 krónur eða samtals 51.849 krónur.

Mars 2003.

Samkvæmt launaseðli hafi hásetahlutur verið 324.198 krónur en hefði átt að vera 339.111 krónur.  Gerð sé krafa um greiðslu mismunarins, samtals að fjárhæð 14.913 krónur, 0,5 aukahlutar 7.456 krónur og orlofs ofan á þessar fjárhæðir 2.275 krónur eða samtals 24.644 krónur.

Júní 2003.

Samkvæmt launaseðli hafi hásetahlutur verið 708.699 krónur en hefði átt að vera 904.592 krónur.  Gerð sé krafa um greiðslu mismunarins, 195.893 krónur, 0,5 auka­hlutar 97.947 krónur og orlofs ofan á þessar fjárhæðir 29.884 krónur eða samtals 323.724 krónur.

Sundurliðun kröfugerðar:

 

Apríl – ágúst 2002     

kr. 107.155

September 2002

kr.   10.716

Janúar 2003

kr.   65.962

Febrúar 2003

kr.   51.849

Mars 2003      

kr.   24.644

Júní 2003        

kr. 323.724

Samtals

kr.  584.050

 

Dráttarvaxtakrafan miðist við gjalddaga launakrafna sem sé 9. hvers mánaðar vegna undangengins mánaðar, sbr. ákvæði kjarasamnings ASV og ÚMFV.

Auk áður tilvísaðra lagaákvæða byggi stefnandi á ákvæðum sjómannalaga nr. 35/1985, einkum 9. gr., 27. gr. og 32. gr.  Þá sé byggt á kjarasamningi ASV og ÚMFV, einkum I. kafla samningsins.  Þá sé byggt á almennum reglum vinnuréttarins um greiðslu verklauna og reglum kröfu-, vinnu- og samningaréttar um efndir samninga og greiðslu fjárskuldbindinga.  Um orlof vísist til ofangreinds kjara­samnings og orlofslaga nr. 30/1987.  Dráttarvaxtakröfu sína rökstyður stefnandi með vísan til III. kafla laga nr. 38/2001 og dómafordæma.  Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.  Um samningsvarnarþing vísar stefnandi til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Stefndi kveður stefnanda hafa verið fastráðinn starfsmann sinn til margra ára.  Um ráðningarsamband aðila hafi gilt samningur milli Alþýðusambands Vestfjarða og Útvegsmannafélags Vestfjarða auk þess sem ákvæði sjómannalaga nr. 35/1985 hafi gilt um réttarsamband aðila.

Enginn skriflegur ráðningarsamningur hafi verið gerður allan starfstíma stefnanda og vísar stefndi um ráðningarsamband aðila til dóms Hæstaréttar í máli nr. 354/2003 en í niðurstöðu dómsins komi eftirfarandi fram:

„Ráðningarsamningur samkvæmt sjómannalögum liggur ekki fyrir, en samkvæmt 6. gr. laganna skal útgerðarmaður sjá um að skriflegur ráðningarsamningur sé gerður. Verður ekki séð að um ráðningartíma hafi verið samið. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laganna var því uppsagnarfrestur aðila gagnkvæmur í þrjá mánuði.”

 

Sé ótvírætt að mati stefnda að ákvæði 2. mgr. 9. gr. laga 35/1985, sbr. 1. mgr. þess ákvæðis, taki til ráðningarsambands sem í gildi hafi verið milli aðila.

Stefndi kveður gagnkröfu sína til skuldajafnaðar byggjast á heimild í 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Séu öll skilyrði til skuldajafnaðar samkvæmt almennum reglum kröfuréttar uppfyllt.  Kröfur séu milli sömu aðila og snúist báðar um gjaldkræfar peningafjárhæðir.  Fjárhæð gagnkröfu stefnda byggist á 60. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sem takmarki ítarlegri heimild gagnkröfu samkvæmt tölulið 1.17 samnings milli Alþýðusambands Vestfjarða og Útvegsmannafélags Vestfjarða.

Fjárhæð gagnkröfu kveður stefndi vera 670.215 krónur, sem séu laun í hálfum uppsagnarfresti sem sé sex vikna uppsagnarfrestur.  Sundurliðist launin svo fyrir þrjá mánuði: 1) janúar 2005, 1,5 hlutur eða 531.192 krónur, 2) febrúar 2005, 1,5 hlutur eða 399.256 krónur og 3) mars 2005, 1,5 hlutur eða 409.983 krónur.  Samtals séu laun þessara þriggja mánaða 1.340.431 króna og helmingur þeirra sé fjárhæð gagnkröfunnar eða 670.215 krónur eins og að framan greinir.

Varðandi þá málsástæðu stefnanda að stefndi hafi ekki orðið fyrir tjóni, þá vísar stefndi til ákvæðis 60. gr. laga 35/1985, sjómannalaga, en samkvæmt ákvæðinu sé ekki gerð krafa til þess að sýnt sé fram á tjón.  Bætur séu meðalhófsbætur, sbr. dóm Hæstaréttar 1978:1247.

Varðandi tómlætiskröfu stefnanda vísar stefndi til þess að krafa stefnda hafi stofnast í janúar 2005 þegar stefnandi hafi ekki mætt til skips að loknu fríi eins og hann hafi tilkynnt skipstjóra stefnda að hann myndi gera.  Hafi krafa stefnda komið fram í bréfi til lögmanns stefnanda í október 2005 eða um 10 mánuðum eftir að krafan hafi stofnast.

Kröfu sína um sýknu af dráttarvaxtakröfu stefnanda kveður stefndi byggjast á 7. gr. laga 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Krafa um greiðslu málskostnaðar byggist á því að stefnanda hafi verið það ljóst með bréfi lögmanns stefnda 27. október 2005 að stefndi ætti gagnkröfu á stefnanda að minnsta kosti sömu fjárhæðar og krafa stefnanda.  Þrátt fyrir það hafi stefnandi höfðað mál þetta.  Um þetta vísist til a-liðar 1. mgr. 131. gr. laga 91/1991.

Fallist dómurinn ekki á aðalkröfu stefnda krefst stefndi þess til vara að upphafstími dráttarvaxtakröfu stefnanda sé 17. nóvember 2005 en þá sé liðinn einn mánuður frá því að stefnandi lagði fram kröfu sína, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

Hafi stefnandi sjálfur lagt til við stefnda lækkun skiptaverðmætis til uppgjörs við skipverja með þátttöku stefnanda og annarra skipverja í leigu veiðiheimilda til skips stefnda.  Þó að ljóst sé að slíkt munnlegt samkomulag hafi ekki lagastoð og stefnandi geti sótt vangreidd laun á stefnda, meðal annars með vísan til 1. mgr. 1. gr. laga 24/1986, þá hafi stefnandi haft frumkvæði að gerð samkomulags milli útgerðar og áhafnar sem stefnandi kjósi að virða að vettugi. 

Stefndi gerir kröfu til þess í varakröfu, að málskostnaður verði felldur niður og vísar því til stuðnings til 3. töluliðs 130. gr. laga 91/1991 og til sömu raka og hann vísi til hér að framan varðandi upphafstíma dráttarvaxta. 

V

Eins og rakið hefur verið hefur stefndi viðurkennt kröfu stefnanda og er því hvorki í málinu deilt um réttmæti kröfunnar né fjárhæð hennar.  Ágreiningur sá sem er til úrlausnar í máli þessu lýtur að réttmæti gagnkröfu stefnda sem hann hefur uppi til skuldajafnaðar við kröfur stefnanda með vísan til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en þar segir að varnaraðila sé rétt að hafa uppi gagnkröfu til skuldajafnaðar í máli án þess að gagnstefna ef skilyrði fyrir skuldajöfnuði séu fyrir hendi.  Krefst stefndi sýknu á þeim forsendum að gagnkrafa hans sé hærri en stefnukrafan.

Gagnkröfu sína byggir stefndi á 60. gr. sjómannalaga nr. 35/1987 en þar segir að útgerðarmaður eigi rétt á bótum úr hendi skipverja ef hann fari fyrirvaralaust úr starfi eða áður en uppsagnarfrestur er liðinn án lögmætrar ástæðu og nemi bætur þessar launum fyrir hálfan uppsagnarfrest eða helming þess tíma sem eftir er af uppsagnarfrestinum, þó aldrei lægri fjárhæð á fiskiskipum en sem nemi sjö daga kauptryggingu en föstum launum í sjö daga á kaupskipum.   

Má af málatilbúnaði stefnda ráða að þar sem ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur milli aðila sé ótvírætt að ákvæði 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga taki til ráðningarsambands aðila og því hafi uppsagnarfrestur aðila verið gagnkvæmur í þrjá mánuði og vísar stefndi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 354/2003 þessu til stuðnings.  Er útreikningur kröfunnar miðaður við að stefndi eigi rétt á bótum sem nemi launum fyrir hálfan þennan uppsagnarfrest eða sex vikur sbr. 60. gr. laganna.

Aðila greinir á um ráðningarkjör stefnanda og eins og fram er komið var ekki gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda.  Samkvæmt 1. mgr. 6. gr.  sjómannalaga nr. 35/1985 skal útgerðarmaður sjá um að gerður sé skriflegur ráðningarsamningur við skipverja þar sem meðal annars skal greina um uppsagnarfrest sé um hann samið.  Í  2. mgr. 9. gr. laganna er fjallað um ráðningartímann og skal uppsagnarfrestur yfirmanns vera þrír mánuðir nema um annað hafi verið sérstaklega samið. 

Stefnandi heldur því fram að hann hafi verið lausráðinn og hafi hann ekki verið bundinn af uppsagnarfresti.  Hann lauk sinni síðustu veiðiferð fyrir stefnda hinn 12. desember 2004 og kom ekki aftur til starfa hjá stefnda eftir það.  Hefur stefnandi haldið því fram að það hafi hann gert í samráði við fyrirsvarsmann stefnda en því mótmælir stefndi.  Ekki verður séð að stefndi hafi aðhafst nokkuð í kjölfar hins meinta brotthlaups stefnanda fyrr en eftir að innheimtubréf lögmanns stefnanda barst honum í október 2005.  Kom stefndi fyrst fram með kröfur á hendur stefnanda vegna meints brotthlaups í bréfi til lögmanns stefnanda hinn 27. október 2005 eða um tíu mánuðum eftir að hann kveðst hafa fengið vitneskju um að stefnandi væri hættur störfum.  Þykir þetta tómlæti og sú staðreynd að ráðinn var eftirmaður stefnanda daginn eftir að stefnandi lauk sinni síðustu veiðiferð fyrir stefnda, renna stoðum undir þær fullyrðingar stefnanda að hann hafi verið lausráðinn og ekki bundinn af uppsagnarfresti.

Þar sem ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda andstætt fyrrgreindu ákvæði 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga ber stefndi sönnunarbyrði fyrir því að uppsagnarfrestur milli aðila hafi verið annar en stefnandi heldur fram og hefur stefnda ekki tekist sú sönnun og verður að bera hallann af því.  Hefur stefndi því ekki sýnt fram á það með haldbærum rökum að starfslok stefnanda hafi verið með þeim hætti sem greinir í fyrrgreindri 60. gr. sjómannalaganna sem veiti stefnda rétt til bóta úr hendi stefnanda.  Verður stefndi því ekki sýknaður á þeim forsendum að hann eigi gagnkröfu til skuldajafnaðar á hendur stefnanda.

Krafa stefnanda er krafa um vangoldin laun vegna brota stefnda á kjarasamningi og lögum. Enda þótt sýnt væri fram á að stefnandi hafi samþykkt og haft frumkvæði að því að uppgjör væri með þeim hætti sem hér um ræðir, en engin haldbær gögn liggja fyrir um það í málinu, getur stefndi ekki firrt sig ábyrgð þar sem samningar launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en almennir kjarasamningar ákveða eru ógildir, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.  Verður því ekki fallist á varakröfu stefnda um að upphafstími dráttarvaxta miðist við 17. nóvember 2005. 

Af málatilbúnaði stefnda verður ráðið að hann geri þá kröfu til vara eða þrautavara að hann verði sýknaður af dráttarvaxtakröfu stefnanda með vísan til 7. gr. laga nr. 38/2001, þótt þeir annmarkar séu á málatilbúnaði hans að sú krafa er ekki sett fram sem hluti af dómkröfum hans heldur kemur hún fram í niðurlagi kafla um málsástæður og lagarök í greinargerð hans.  Samkvæmt lagaákvæði þessu skal ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður vegna atvika sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki kennt um.  Með sömu rökum og ekki verður fallist á að upphafstími dráttarvaxta miðist við 17. nóvember 2005 verður ekki fallist á þessa kröfu stefnda.

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verða dómkröfur stefnanda teknar til greina eins og þær eru fram settar með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur þar með talinn virðisaukaskattur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Jónas Þór Jónasson hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Magnús Helgi Árnason hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Jakob Valgeir ehf., greiði stefnanda, Baldvini Sigurðssyni, 584.050 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 af 21.431 krónu frá 9. maí 2002 til 9. júní 2002, af 42.862 krónum frá þeim degi til 9. júlí 2002, af 64.293 krónum frá þeim degi til 9. ágúst 2002, af 85.724 krónum frá þeim degi til 9. september 2002, af 107.155 krónum frá þeim degi til 9. október 2002, af 117.871 krónu frá þeim degi til 9. febrúar 2003, af 183.833 krónum frá þeim degi til 9. mars 2003, af 235.682 krónum frá þeim degi til 9. apríl 2003, af 260.326 krónum frá þeim degi til 9. júlí 2003 en af 584.050 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda  250.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.