Hæstiréttur íslands

Mál nr. 590/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Þriðjudaginn 10. september 2013.

Nr. 590/2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. september 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. september 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. október 2013 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. október 2013 kl. 16.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. september 2013.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 4. október 2013, kl. 16.00, á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

                Í greinargerð lögreglustjóra eru rakin rakin mál sem kærði er talinn tengjast:

,, M. 007-2013-29375

Þann 6. júní sl. barst lögreglu tilkynning um þjófnað á skrifstofu [...], þar sem stolið hafði verið 2,5 milljónum króna sem voru í merktum uppgjörstöskum. Sams konar töskur fundust við húsleit á heimili X.

M. 007-2013-34203, innbrot í heimahús að [...] í Reykjavík þar sem stolið var skartgripum og i-pad spjaldtölvu. Tekist hefur að endurheimta talsvert af skartgripum úr innbrotinu.

Mál lögreglu nr. 007-2013-35064, innbrot og þjófnaður að [...] Álftanesi. Föstudaginn 5. júlí sl. var lögregla kölluð til að íbúðarhúsinu að [...] á Álftanesi, en þar hafði verið spenntur upp gluggi og stolið þaðan m.a. myndavél og linsum, að verðmæti 650.000,- skartgripum, mótorhjólafatnaði, mótorhjóli ásamt lyklum, ísl. þjóðbúning og hnífum samtals að verðmæti kr. 1.350.000. Búið að endurheimta mest allt þýfi.

Mál lögreglu nr. 007-2013-34939, þjófnaður þann 4. júlí á veski að [...] í Reykjavík,  sem innihélt meðal annars greiðslukort á nafni A og skartgripi (2 hringar)  en þar hafði verið farið heimildarlaut inn í anddyri og veskinu verið stolið. Hluti þýfisins verið endurheimtur.

Mál lögreglu nr. 007-2013-34395, innbrot og þjófnaður þann 1. júlí sl. að [...], Álftanesi,  þar sem spenntur var upp gluggi og peningum stolið um kr. 240.000,-.

M. 007-2013-31327, innbrot og þjófnaður að [...] í Reykjavík. Þann 16. júní sl. var lögregla kölluð að íbúðarhúsinu við [...] en þar hafði verið brotist inn og stolið peningakassa úr stáli, $1.000 og evrum að verðmæti 550.000 kr. auk skartgripa. Sonur tjónþola þekkir kærða og kveður hann hafa komið og bankað upp á hjá foreldrum sínum að [...] daginn fyrir innbrotið. Við húsleit að [...] hjá kærða fundust munir úr innbrotinu.

M. 007-2013-32058, innbrot og þjófnaður að [...] í Garðabæ. Þann 19. júní var lögregla kölluð að íbúðarhúsinu við [...] en þar hafði gluggi í stofu verið spenntur upp og þaðan stolið tveimur fartölvum, spjaldtölvu, myndavél, armbandsúri, ray ban sólgleraugum auk bakpoka merktum Stjörnunni. Við húsleit hjá kærða fannst bakpokinn en tjónþoli segir hann auðþekktan þar sem slíkur bakpoki hafi ekki verið seldur á almennum markaði.

M. 007-2013-34211, kærði stöðvaður í akstri grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

M. 007-2013-35237, kærði stöðvaður í akstri grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

M. 007-2013-39873, kærði stöðvaður í akstri grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

M. 007-2013-38087, Farið inn í herbergi sem skilið hafði verið eftir ólæst á meðan tjónþoli brá sér á salernið.  Tekin Macbook air fartölva,  iPhone 4 sem og evrur.    Einnig Samsung Galaxy, sá sími hugsanlega tekinn daginn áður.

Mál 007-2013-38931, innbrot og þjófnaður að [...] í Kópavogi. Þann 28. júlí sl. var lögregla kölluð að íbúðarhúsinu við [...] í Kópavogi en þar hafði verið farið inn um svalahurð á húsnæðinu og þaðan stolið fartölvu, leikjatölvu, Tivoli tæki undir ipod nano og ipod nano. Tjónþolar þekkja til kærða. Við húsleit að [...] fannst fartölva úr innbrotinu sem unnt var að rekja til Y, en lögreglan grunar að hún hafi verið í félagi með X í þessu og fleirum brotanna.Munirnir hafa ekki fundist en X er grunaður um þjófnaðinn í félagi við Y en lögregla hefur fengið upplýsingar þess efnis, í framburðarskýrslu m.a. B, að þau hafi stolið frá túristum á hótelinu.

Mál 007-2013-38919, innbrot og þjófnaður að [...] í Reykjavík. Þann 28. júlí  sl. var lögregla kölluð að íbúðarhúsinu við [...] en þar hafði verið spennt upp útihurð og þaðan stolið sjónvarpi, myndavél, fartölvu, Bang&Olufsen dokku ásamt peningum úr sparibaukum. Tjónþolar þekkja til kærða og þá hafði kærði samband við tjónþola skömmu eftir innbrotið er tjónþoli hafði lýst eftir tölvu með persónulegum myndum á facebook og kvaðst myndu hugsanlega getað reddað honum tölvunni gegn greiðslu. Símagögn sem lögreglan hefur undir höndum styðja þetta.

Mál 007-2013-39221, innbrot og þjófnaður í bifreið framan við [...] að [...]. Þann 30. júlí var tilkynnt um innbrot og þjófnað úr bifreið en þaðan hafði verið stolið Nikon myndavél en myndavélin fannst við húsleit að [...] í gær.

Mál 007-2013-39413, innbrot og þjófnaður á [...] við [...] í Reykjavík. Þann 30. júlí var lögregla kölluð að [...] en þar hafði verið brotist inn á eitt hótelherbergi og þaðan stolið myndavélum sem og bifreiðinni [...] sem er hvít VW Polo bifreið. Lögregla fann bifreiðina í námunda við [...] í gær en þá var hún á stolnum númeraplötum bæði að framan og aftan en þó með sitthvoru númerinu. Sjónarvottur hvað umráðamann bifreiðarinnar ávallt ganga inn í [...] en kærði hefur neitað að hafa verið á bifreiðinni. Þá hefur grunaður samverkamaður greint lögreglu frá því að munir sem fundust í bifreiðinni tilheyri honum.

Mál 007-2013-38929 og -40085, innbrot og þjófnaður að [...] við [...] í Reykjavík. Dagana 28. júlí og 2. ágúst var brotist inn á hótelherbergi að [...]. Við húsleit að [...] fannst farsími í sama herbergi og kærði var handtekinn í í gær en farsíminn er talinn vera úr innbrotinu þann 28. júlí sl. Einnig hefur verið lagt hald á lykla í eigu hótelsins.

Mál 007-2013-40432, innbrot og þjófnaður að [...] í Kópavogi. Þann 5. ágúst sl. var lögregla kölluð að íbúðarhúsinu við [...] en þar hafði verið skrúfuð rúða úr útidyrahurð íbúðarinnar og þaðan stolið peningaveski með 6.000 kr. í reiðufé, tveimur gullhringum og gullhálsmeni. Sjónarvottur lýsti því að maður hafi verið með borvél framan við íbúðina að morgni 4. ágúst og lýsti geranda skilmerkilega en lýsingin passar við kærða. Þá þekkir tjónþoli kærða.

Mál 007-2013-40569, þjófnaður að [...] í Reykjavík á tímabilinu 26. – 31. júlí. Kærði hefur viðurkennt í skýrslutöku hjá lögreglu að hafa farið til [...] og stolið þaðan 500.000 í reiðufé. En þaðan er einnig saknað 6.000 evra sem kærði neitar að hafa tekið.

Mál 007-2013-40552, innbrot og þjófnaður að [...] í Garðabæ. Þann 6. ágúst sl. var lögregla kölluð að íbúðarhúsinu að [...] en þar hafði verið spenntur upp gluggi í kjallara og farið inn í húsið um nótt á meðan heimilismenn sváfu og stolið þaðan tveimur farsímum, fartölvu og Rolex armbandsúri. Framan við húsnæðið sást hvítur Polo en kærði er grunaður um að hafa ekið um á stolinni bifreið af sama lit og gerð.

M. 007-2013-40312, innbrot og þjófnaður af heimili að [...]. Teknir munir, Apple TV, Apple macbook pro 13“,  Xbox leikjatölva, ipod Touch, bíllyklar og eldsneytiskort.  Einnig teknir peningar og iphone 4 farsími. Samkvæmt framburði vitnis mun X þekkja til húsráðenda. Er það grunur lögreglu að X hafi farið inn í íbúðina að [...].

Mál 007-2013-40461, innbrot og þjófnaður í fimm herbergi á [...] við [...] í Hafnarfirði. Þann 6. ágúst sl. var lögregla kölluð að [...] vegna innbrots í fimm herbergi hótelgesta. Úr fjórum herbergjanna hafði verðmætum verið stolið. Tilkynnandi sagði að um kvöldmatarleytið daginn áður hafi íslenskur maður verið að þvælast um hótelið en engir íslenskir gestir hafi verið bókaðir á hótelinu. Allar fimm hurðarnar höfðu verið spenntar upp með einhverju verkfæri. Í öryggismyndavélakerfi hótelsins sést X ganga inn í hótelið en þangað kom hann á bifreiðinni [...]. Þá hefur bakpoki og í honum munir frá einum hótelgestanna fundist í þessari sömu bifreið kærða.

Mál 007-2013-40793, innbrot og þjófnaður að [...] í Garðabæ. Þann 7. ágúst sl. var lögregla kölluð að íbúðarhúsinu við [...] en þar hafði verið farið inn um glugga í bílskúr og þaðan inn í íbúðarhúsið og stolið iphone farsíma og ipad spjaldtölvu. I-phone sími úr innbrotinu hefur verið haldlagður og rakinn til vitorðsmanns kærða.

Mál 007-2013-41200, þjófnaður í garði við [...] í Reykjavík. Þann 2. ágúst sl. var tilkynnt um stolið Jet Ski sem hafði verið á kerru í garði við [...]. Aðili á bifreiðinni [...] sem kærði hefur viðurkennt að hafa verið með til umráða sást á vettvangi stuttu fyrir þjófnaðinn. Brotaþoli hefur endurþekkt kærða á mynd.

M. 007-2013-41682, þjófnaður af heimili að [...]. Fartölvu stolið. Umrædd fartölva, DELL, fannst í fórum B en hún sagði að X hefði komið með þessa tölvu á heimili sitt, mál nr. 007-2013-41207.  Tölvan var eign [...] en þar starfar tjónþoli.“

Við rannsókn ofangreindra mála hefur lögregla einnig náð að tengja kærða við áður óupplýst innbrot og þjófnaði á höfuðborgarsvæðinu (007-2013-3096, 7465, 16718, 19556, 20508, 20617, 24878, 25876, 27080 og 27254)

Kærði var fyrst úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála þann 9. júlí sl. og sætti því þar til hann var látinn laus þann 19. sama mánaðar.

Þann 9. ágúst var kærði svo handtekinn að [...] í [...] vegna gruns um aðild að innbrotum og þjófnuðum (007-2013-41207). Var hann daginn eftir úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli 1. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála til 21. ágúst nk. Var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 536/2013. Þann 21. ágúst var kærði svo úrskurðaður í áframhaldandi gæslu á grundvelli rannsóknarhagsmuni til dagsins í dag. Var sá úrskurður einnig staðfestur með dómi Hæstaréttar. Loks var kærði úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag með úrskurði þann 30. ágúst sl. Var hann staðfestur með dómi Hæstaréttar.

Kærði á ekki langan sakaferil, en þann 17. febrúar 2010 hlaut hann sekt vegna brots á 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga.

Við rannsókn mála kærða hjá lögreglu hefur komið í ljós að hann er í mikilli neyslu fíkniefna og að hann fjármagnar þá neyslu að því er virðist að öllu leyti með auðgunarbrotum.

Með vísan til framangreinds og brotaferils kærða á undanförnum vikum og mánuðum sé það mat lögreglustjóra að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, að hann muni næst hljóta óskilorðsbundinn dóm, og að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærða muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða.

                Eins og fram kemur hefur í þrígang á þessu ári verið staðfestir í Hæstarétti úrskurðir héraðsdóms um gæsluvarðhald yfir kærða sem gefur auk annars tilefni til þess að lögregla fái byggt á því að til staðar sé rökstuddur grunur um brotastarfsemi sem réttlætir kröfu um síbrotagæslu yfir kærða.

                Því er fallist á með lögreglustjóra að að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, og að hann muni hljóta óskilorðsbundinn dóm, og að yfirgnæfandi líkur séu á því að kærða muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Eru brotin þess eðlis að telja verður nauðsynlegt að stöðva brotastarfsemi hans. Er það mat dómara að skilyrði c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála uppfyllt.

                Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi eins og segir í úrskurðarorði.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. október  2013, kl. 16.00.