Hæstiréttur íslands

Mál nr. 272/2001


Lykilorð

  • Lausafjárkaup
  • Galli
  • Riftun
  • Málsástæða
  • Greiðslueyrir


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002.

Nr. 272/2001.

SP-Fjármögnun hf.

(Ólafur Garðarsson hrl.)

gegn

Haraldi Sveinbirni Helgasyni

(Hreinn Pálsson hrl.)

 

Lausafjárkaup. Galli. Riftun. Málsástæður. Greiðslueyrir.

H, sem keypt hafði bifreið af S hf., taldi hana hafa verið haldna leyndum göllum við söluna og krafðist riftunar á þeim grundvelli. Að atvikum málsins virtum þótti H hafa beint kröfum að S hf. vegna gallanna án ástæðulauss dráttar, sbr. 52. gr. þágildandi laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Var því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að H hefði verið riftun heimil. Kröfu S hf. um sérstaka tilhögun endurgreiðslu kaupverðs bifreiðarinnar var hafnað, þar sem sú krafa var of seint fram komin. Með því að S hf. hafði hvorki með framlagningu nýrra gagna eða á annan hátt sýnt fram á að kaupverð bifreiðarinnar hefði verið annað og minna en 3.300.000 krónur var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að S hf. bæri að endurgreiða H fullt kaupverð bifreiðarinnar að frádregnum 200.000 krónum vegna notkunar S hf.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. júlí 2001. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda, en til vara að dómkröfur hans verði lækkaðar verulega. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms. Til vara krefst hann þess að áfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 1.333.000 krónur en til þrautavara 833.000 krónur. Í vara- og þrautavarakröfu krefst hann dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. maí 2000 til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

 Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi á ágreiningur aðila rætur að rekja til þess að stefndi keypti 27. nóvember 1998 bifreiðina KL 385. Áfrýjandi var seljandi hennar, en bifreiðin hafði fyrir söluna verið í umráðum eiginkonu Helga Ingvarssonar samkvæmt kaupleigusamningi. Annaðist Bifreiðaverkstæði Sigurðar Valdimarssonar ehf. milligöngu um söluna. Reisir stefndi kröfur sínar á því að bifreiðin hafi við söluna verið haldin leyndum göllum og beindi hann kröfum sínum í héraði vegna þess að Helga Ingvarssyni og Bifreiðaverkstæði Sigurðar Valdimarssonar ehf. auk áfrýjanda. Var niðurstöðu héraðsdóms varðandi kröfur á hendur Helga og bifreiðaverkstæðinu ekki áfrýjað og eru þær því ekki til umfjöllunar fyrir Hæstarétti.

 Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt fram ódagsett skjal þar sem áfrýjandi veitti Sigurði Valdimarssyni fullt umboð til að selja bifreiðina KL 385. Þá hafa verið lögð fyrir Hæstarétt nokkur ný gögn varðandi starfsemi Viðskiptanetsins hf. og verðmæti inneigna þar.

Í málinu er meðal annars deilt um það hvort stefndi hafi beint kröfum að áfrýjanda vegna galla á hinni seldu bifreið án ástæðulauss dráttar, sbr. 52. gr. þágildandi laga nr. 39/1922 um lausafjárkaup. Við mat á því hvort stefnda hafi í upphafi verið rétt að beina kröfum sínum að Bifreiðaverkstæði Sigurðar Valdimarssonar ehf. og hefja síðan viðræður við Helga Ingvarsson um að láta kaupin ganga til baka ber að líta til þess að bifreiðaverkstæðið kom ekki aðeins fram við umrædda sölu sem bílasali, er annaðist milligöngu um söluna, heldur hafði það samkvæmt framansögðu umboð áfrýjanda til að selja bifreiðina. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að áfrýjandi hafi komið að sölu bifreiðarinnar með þeim hætti sem tíðkanlegt er að eigendur geri heldur látið Helga og bifreiðaverkstæðinu það eftir. Þannig verður til dæmis ekki séð að áfrýjandi hafi látið starfsmenn sína kynna sér ástand bifreiðarinnar fyrir söluna. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um riftun stefnda á kaupum á umræddri bifreið.

Í áfrýjunarstefnu krefst áfrýjandi þess að nái krafa um riftun fram að ganga verði honum ekki gert að endurgreiða kaupverð bifreiðarinnar með öðrum greiðslueyri en um var samið að notaður skyldi þegar bifreiðin var keypt, en samkvæmt afsali fyrir bifreiðinni skyldu 1.700.000 krónur af 3.300.000 króna kaupverði hennar greiddar með inneign hjá Viðskiptanetinu hf. Þessari kröfu hefur stefndi mótmælt sem of seint fram kominni. Slík krafa var ekki gerð fyrir héraðsdómi og verður hún heldur ekki talin felast í þeim ummælum áfrýjanda í greinargerð fyrir héraðsdómi að krafa hans sé að tekið verði tillit til þessa „einkennilega greiðslumáta“ ef aðal- eða varakrafa stefnda næði fram að ganga. Var brýn þörf á að taka skýrt fram ef ætlunin var að gera varakröfu um greiðslu í öðrum verðmiðli en íslenskum krónum. Verður því fallist á með stefnda að þessi krafa sé of seint fram komin og talið að í málatilbúnaði áfrýjanda fyrir héraðsdómi hafi einungis falist krafa um að við ákvörðun fjárhæðar endurgreiðslu kaupverðs í íslenskum krónum yrði, ef til riftunar kæmi, tekið mið af verðmæti inneigna hjá Viðskiptanetinu hf. Þar sem hvorki hefur með framlagningu nýrra gagna um Viðskiptanetið hf. eða á annan hátt verið sýnt fram á að kaupverð bifreiðarinnar hafi verið annað og minna en 3.300.000 krónur verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að áfrýjanda beri að endurgreiða stefnda 3.100.000 krónur enda þykir frádráttur frá kaupverði vegna notkunar stefnda hæfilega ákveðinn í hinum áfrýjaða dómi.

Staðfest er niðurstaða héraðsdóms um málskostnað.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður að því gættu að um dráttarvexti eftir 1. júlí 2001 fer eftir 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti ogverðtryggingu.

Áfrýjandi, SP-Fjármögnun hf., greiði stefnda, Haraldi Sveinbirni Helgasyni, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. apríl 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 26. mars s.l., hefur Haraldur Sveinbjörn Helgason, kt. 271257-2959, Skarðshlíð 21, Akureyri, höfðað hér fyrir dómi gegn SP-fjármögnun hf., kt. 620295-2219, Sigtúni 42, Reykjavík, Helga Ingvarssyni, kt. 090449-4199, Urðarhæð 13, Garðabæ og Bifreiðaverkstæði Sigurðar Valdimarssonar ehf., kt. 591296-3109, Óseyri 5, Akureyri með stefnu birtri 4. og 5. september 2000.

Stefnandi gerir þær dómkröfur aðallega, að viðurkennd verði með dómi riftun á kaupsamningi (afsali) frá 27. nóvember 1998, um kaup á bifreiðinni KL-385, sem er Jeep Laredo Grand árgerð 1997 og að stefndu verði gert að endurgreiða stefnanda kr. 3.300.000,- ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 23. júlí 1999 til greiðsludags, gegn afhendingu á framangreindri bifreið í því ástandi sem hún er í samkvæmt lýsingu í matsgerð Bjarna Sigurjónssonar bifvélavirkjameistara dags. 3. maí 2000.  Til vara krefst stefnandi þess, að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda kr. 1.333.000,- með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25, 1987 frá 23. júlí 1999 til greiðsludags.  Til þrautavara krefst stefnandi þess, að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda kr. 833.000,- ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 23. júlí 1999 til greiðsludags.  Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu samkvæmt mati dómsins.

Stefndi Helgi Ingvarsson gerir þær dómkröfur aðallega, að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda.  Til vara krefst hann þess, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Verði aðalkrafa stefnanda um riftun samþykkt þá krefst stefndi Helgi þess, að endurgreiðsluverðmæti bifreiðarinnar verði metið að hámarki kr. 2.628.000,- sem sé söluverðmæti sambærilegrar bifreiðar í dag og að frádregnum hæfilegum kostnaði vegna notkunar stefnanda í tæp tvö ár.  Þá krefst stefndi Helgi í öllum tilvikum málskostnaðar, auk virðisaukaskatts, úr hendi stefnanda eftir mati dómsins.

Stefnda Bifreiðaverkstæði Sigurðar Valdimarssonar ehf. gerir þær dómkröfur að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Stefnda SP-fjármögnun hf. gerir þær dómkröfur aðallega, að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda en til vara, að dómkröfur hans verði lækkaðar verulega.  Í báðum tilvikum gerir stefnda SP-fjármögnun hf. kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins.

Málsatvik munu vera þau, að stefnandi keypti þann 27. nóvember 1998 bifreiðina KL-385, Jeep Laredo Grand, árgerð 1997.  Seljandi var stefndi SP-Fjármögnun hf., en fyrir söluna hafði bifreiðin verið á kaupleigu og í umráðum Sigríðar Gylfadóttur, sambýliskonu stefnda Helga, samkvæmt kaupleigusamningi nr. 700087.  Bifreiðin var upphaflega flutt til landsins af Gylfa Þórissyni, syni Sigríðar,  og voru kaupin eins og áður segir, fjármögnuð af stefnda SP-Fjármögnun hf.  Við komuna til landsins var bifreiðin skemmd og var hún færð til viðgerðar á réttingaverkstæðinu Bílvirki ehf. í Hafnarfirði.  Var bifreiðin tekin á ökutækjaskrá þann 13. mars 1998 að lokinni viðgerð.  Bar skráning bifreiðarinnar í ökutækjaskrá með sér, að um væri að ræða viðgerða tjónabifreið.

Sölu bifreiðarinnar til stefnanda annaðist stefnda Bifreiðaverkstæði Sigurðar Valdimarssonar ehf., hér eftir nefnt BSV ehf., og ritaði framkvæmdastjóri stefnda BSV ehf., Sigurður Valdimarsson, undir afsalið, dags. 27. nóvember 1998, fyrir hönd seljanda, stefnda SP-Fjármögnunar hf.  Kaupverð bifreiðarinnar var kr. 3.300.000,- og greiddist þannig, að kr. 1.600.000,- greiddust með yfirtöku bílaláns en kr. 1.700.000,- með inneign hjá Viðskiptanetinu hf.

Ofangreindur kaupleigusamningur var greiddur upp þann 17. desember 1998.

Þremur til fjórum dögum eftir að stefnandi festi kaup á bifreiðinni kom í ljós, að framdrif hennar var brotið.  Var stefnanda útvegað annað framdrif og það sett í bifreiðina, honum að kostnaðarlausu.

Nokkru síðar, að öllum líkindum í mars 1999, lét stefnandi bifvélavirkja skoða bifreiðina.  Við skoðun hans kom í ljós, að ýmislegt var úr lagi gengið í bifreiðinni.

Í kjölfarið hafði stefnandi samband við stefndu Helga og BSV ehf. og krafðist þess, að kaupin yrðu látin ganga til baka.  Bauðst stefndi Helgi til þess að rifta kaupunum, en aðilar náðu ekki saman um hvernig gera skyldi viðskiptin endanlega upp.  Þegar ljóst var, að sættir næðust ekki í málinu, óskaði stefnandi eftir því við Héraðsdóm Norðurlands eystra, að dómkvaddur yrði óvilhallur matsmaður til að meta ástand bifreiðarinnar.  Þann 4. febrúar 2000 var Bjarni Sigurjónsson bifvélavirkjameistari dómkvaddur til verksins og liggur matsgerð hans, dags. 3. maí 2000 frammi í málinu.

Lýsir matsmaður ástandi bifreiðarinnar svo:  „Vinstri grindarbiti boginn á þremur stöðum við dempara, hásingastífu undir kvalbak og við gírkassabita.  Grindarbitinn er einnig 3 mm. of stuttur, 4 mm. of neðarlega og genginn til hægri undir bíl móts við gírkassabita. – Einnig er gólf gengið upp á þessu svæði.  Drifskaft rekst í sjálfskiptingu vegna þessarar skekkju, svo er hásing of aftarlega vinstra megin og gengin yfir til hægri.  Fremri hurðarstafur of innarlega við efri löm og stafur milli hurða vinstra megin of utarlega þannig að hurðir falla illa að ofan við topp. – Vegna skekkju á hásingu og stýrisgangi hafa lostnað stífur og stólar sem halda hásingu, snúningur er á grind þar sem stóllinn sem heldur hásingunni er festur.  Óvíst er með vinstra innra bretti, það hefur verið skipt um hluta af því og staðsetning ekki rétt.  Gormaskál virðist ekki vera á réttum stað, það gæti þurft að skipta um innrabretti þegar skipt er um grindarbita. – Spindilhús er skakkt vinstra megin á hásingu og sýnir meðfylgjandi hjólamæling snúning á hásingarstút og skekkju á hásingunni undir bílnum.“

Áætlaði matsmaðurinn viðgerðarkostnað kr. 833.000,- en tók jafnframt fram, að hann teldi fullkomna viðgerð á bifreiðinni allt of kostnaðarsama úr því sem komið væri.

Stefnandi sendi öllum stefndu niðurstöður matsgerðarinnar ásamt riftunarkröfu þann 30. maí 2000.  Því erindi stefnanda svöruðu stefndu ekki og höfðaði hann því mál þetta.

Stefnandi kveðst byggja aðalkröfu sína á því, að stefndu hafi vitað um að bifreiðin KL-385 hefði lent í tjóni, enda hafi það komið fram í skráningu hennar.  Þessum upplýsingum hafi á hinn bóginn vísvitandi verið haldið leyndum fyrir stefnanda þegar kaupin hafi farið fram, þar sem skoðunarskírteini bifreiðarinnar, er innihélt umræddar upplýsingar, hafi ekki legið frammi.  Þess í stað hafi stefnanda verið sýnd tölvuútskrift úr bifreiðaskrá þar sem umræddar upplýsingar hafi ekki komið fram.  Stefnandi kveður gallana á bifreiðinni þess eðlis, að þeir sjáist ekki við skoðun framkvæmda af venjulegum bifreiðakaupanda, sem ekki sé sérfróður um bifreiðar.

Kveður stefnandi niðurstöðu dómkvadds matsmanns sanna, að hinir leyndu gallar séu mjög verulegir og að upplýsingar um að bifreiðin væri tjónabifreið myndu hafa haft úrslitaáhrif á ákvörðun stefnanda um kaupin.  Með því að leyna stefnanda þessum upplýsingum hafi stefndu beitt svikum í skilningi 42. gr. laga nr. 39, 1922 um lausafjárkaup og því eigi hann skýlausan rétt til að rifta kaupunum og krefjast fullrar endurgreiðslu kaupverðsins.  Verði ekki talið sannað, að um svik hafi verið að ræða, telur stefnandi gallana svo verulega, að það heimili allt að einu riftun, samkvæmt 42. gr. laga nr. 39, 1922.

Varakröfu sína kveðst stefnandi byggja á því, að hin selda bifreið hafi við afhendingu verið haldin verulegum leyndum göllum.  Stefnandi hafi keypt bifreiðina sem nýlega, lítið ekna og ógallaða bifreið og hafi það verið áskildir kostir af hans hálfu við kaupin, en göllunum hafi verið haldið leyndum með sviksamlegum hætti.  Hafi það valdið stefnanda verulegu tjóni.  Beinn viðgerðarkostnaður sé samkvæmt mati dómkvadds matmanns kr. 833.000,-.  Við þá fjárhæð megi bæta verulegu afleiddu tjóni vegna afnotamissis og annarra óþæginda, auk þess sem yfirgnæfandi líkur séu á, að bifreiðin verði aldrei seljanleg á sama verði og ógölluð bifreið, þrátt fyrir viðgerð.  Hið afleidda tjón kveðst stefnandi telja varlega áætlað kr. 500.000,- og því sé heildarskaðabótakrafa hans kr. 1.333.000,-.  Um þetta kveðst stefnandi vísa til 2. mgr. 42. gr. laga nr. 39, 1922. 

Verði ekki fallist á, að hann eigi rétt til skaðabóta, kveðst stefnandi gera þá kröfu, að stefndu verði gert að greiða honum síðastgreinda upphæð, sem afslátt af kaupverði.

Þrautavarakröfu kveður stefnandi byggða á sömu málsástæðum og lagarökum og varakröfu, en bundna við viðgerðarkostnað samkvæmt mati hins dómkvadda matsmanns, sem stefnandi telur að sé fullsannað lágmarkstjón hans vegna gallanna í hinni seldu bifreið.

Kröfur á hendur stefnda BSV ehf. kveður stefnandi sérstaklega á því byggðar, að stefnda BSV ehf. hafi brugðist skyldu sinni sem bifreiðasali, með því að upplýsa ekki stefnanda um galla þá, sem á bifreiðinni voru.  Þessi vanræksla geri stefnda BSV ehf. meðábyrgt hinum stefndu í málinu, auk þess að skapa hjá honum sjálfstæða skaðabótaskyldu.  Kveðst stefnandi um þetta einnig vísa til ákvæða laga nr. 69, 1994 um sölu notaðra ökutækja, einkum 2. mgr. 5. gr., en einnig 1. mgr. sömu greinar og 4. gr. laganna.

Stefndi Helgi kveðst í fyrsta lagi byggja sýknukröfur sínar á aðildarskorti.  Hann hafi hvorki verið eigandi, umráðamaður né seljandi bifreiðarinnar KL-385 er hún hafi verið seld.  Hann hafi aldrei ekið bifreiðinni og reyndar aldrei séð hana, en hins vegar með öllum ráðum reynt að ná sáttum á fyrri stigum málsins, þar sem það tengist fjölskyldu hans.

Verði stefndi Helgi talinn aðili málsins kveður hann allt að einu eiga að sýkna sig af kröfum stefnanda.  Ekki hafi verið um svik að tefla í viðskipum með bifreiðina og hún ekki haldin neinum göllum, sem seljandi bifreiðarinnar beri ábyrgð á.  Stefnandi hafi keypt nýlega bifreið á lágu verði á kjörum sem vart þekkist; ekkert greitt í reiðufé, rúmlega helmingur af andvirði bílsins greiddur með Viðskiptanetskrónum, sem hafi 30-40 % lægra gengi en íslenska krónan, og afgangurinn með yfirtöku bílaláns.  Þá hafi stefnanda alla tíð verið ljóst, að hann væri að kaupa innflutta og notaða tjónabifreið.  Það hafi komið fram í skráningarskírteini bifreiðarinnar, sem legið hafi frammi við kaupin, að bifreiðin væri tjónabifreið.  Einnig hafi það komið fram í tölvuútskrift úr Bifreiðaskrá, sem legið hafi frammi við samningsgerðina.  Þá hafi það komið fram í hinu nýja skráningarskírteini, sem stefnandi hafi fengið sent frá Skráningarstofunni hf. fáeinum dögum eftir kaupin.  Loks hafi myndir af tjóninu verið í hanskahólfi bifreiðarinnar þegar stefnandi fékk hana afhenta.

Stefndi Helgi kveður bifreiðina hafa verið í ágætis ásigkomulagi þegar stefnandi hafi fengið hana afhenta og í enn betra standi 3-4 dögum síðar þegar lokið hafi verið við að skipta um framdrif, á kostnað seljanda, án nokkurra athugasemda að öðru leyti.

Kveður stefndi Helgi bifreiðina KL-385 hafi verið flutta inn sem tjónabifreið og hún skráð sem slík.  Það geti engum og hafi engum getað dulist.  Til að fá slíka bifreið skráða þurfi að láta gera við hana á viðurkenndu verkstæði.  Hún gangi í gegnum nákvæmar rannsóknir og mælingar áður en Skráningarstofan hf. samþykki að taka hana á skrá sem viðurkennda og óaðfinnanlega bifreið, sem óhætt sé að hleypa út á vegina.  Bifreiðin KL-385 hafi gengið í gegnum þetta ferli rétt áður en stefnandi keypti hana og þeir meintu gallar, sem fram komi í framlagðri matsgerð Bjarna Sigurjónssonar, hafi ekki verið til staðar á þeim tíma, sem hún var seld.  Langlíklegast sé því, að því gefnu að niðurstaða matsgerðarinnar sé rétt, að bifreiðin hafi orðið fyrir einhverju tjóni hjá stefnanda sjálfum enda hafi hann t.d. þurft að láta skipta um framrúðu og framdrif fljótlega eftir kaupin og þá beri vottorð á dómskjali nr. 9 með sér, að meðferð hennar hafi ekki verið sem best.

Stefndi Helgi kveður svo virðast sem stefndu í málinu hafi ekki átt þess kost að gæta hagsmuna sinna á matsfundi.  Þá komi ekkert fram í matinu um hvenær hinir meintu gallar bifreiðarinnar hafi fyrst komið fram eða frá hvaða tíma þeir séu.

Samkvæmt framansögðu sé ljóst, að ekkert hafi verið að bifreiðinni þegar stefnandi keypti hana enda hafi hann notað hana óslitið frá þeim tíma og fram til 11. september 2000.  Hann hafi t.d. farið með bifreiðina í aðalskoðun þann 16. september 1999 og hafi þá ekki verið gerðar athugasemdir um galla í þá veru, sem stefnandi haldi fram. 

Hafi stefnandi átt einhvern rétt til riftunar, skaðabóta eða afsláttar þá sé sá réttur fallinn niður fyrir fyrningu, tómlæti og aðgerðarleysi.  Í sóknarskjölum komi fram, að mjög fljótlega eftir kaupin hafi hinir meintu gallar komið fram.  Það sé hins vegar ekki fyrr en haustið 1999 sem stefnandi setji sig í samband við stefnda BSV ehf. til að bera fram óljósar kvartanir.

Stefndi Helgi kveðst vekja sérstaka athygli á því, að stefnanda hafi verið boðið að skila bílnum gegn endurgreiðslu síðla sumars 1999, en hann hafi hafnað því boði.  Með því hafi hann fyrirgert frekari rétti og sé með ólíkindum að rúmu ári síðar sé höfðað dómsmál til riftunar og skaðabóta er byggi á meintum svikum.

Kveður stefndi Helgi það skýlausa og réttmæta kröfu sína, fari svo ólíklega að riftunarkrafa stefnanda fái einhvern hljómgrunn, að þá skili hann bifreiðinni í sama ástandi og hann hafi fengið hana.  Hann greiði sanngjarnt gjald fyrir notkun hennar í tæp tvö ár, endurgreiðsluverð verði endurnýjunarverð sambærilegrar bifreiðar, nú kr. 2.628.000,- og verði notkunargjaldið dregið frá endurnýjunarverðinu.  Loks verði endurgreiðsla stefnda Helga í sömu mynt og kaupverðið var greitt í, þ.e. rúmlega helmingur í Viðskiptanetskrónum.

Stefndi Helgi kveðst sérstaklega mótmæla kröfugerð stefnanda sem allt of hárri, rangri og ósannaðri.  Því fari fjarri að um svik hafi verið að ræða og allir sem komið hafi að málinu hafi vitað og mátt vita, að um tjónabifreið væri að ræða.  Þá sé skaðabótakrafa stefnanda með öllu órökstudd og ósönnuð.  Matsgerðin segi ekkert nema að einhvern tímann hafi verið gert illa við bifreiðina og þá eigi málskostnaðarkrafan ekki rétt á sér með tilliti til framangreinds og áðurnefnds sáttaboðs.

Að öðru leyti kveðst stefndi Helgi vísa til meginreglna kröfuréttarins, ákvæða kaupa- og samningalaga og dómafordæma.  Varðandi málskostnað vísist til 129.  og 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála og vegna aðildar vísist til 16. gr. sömu laga.  Um virðisaukaskatt vísist til laga nr. 50, 1988.

Stefnda Bifreiðaverkstæði Sigurðar Valdimarssonar ehf., hér eftir nefnt stefnda BSV ehf., kveður árgreiningslaust milli aðila, að við sölu bifreiðarinnar 27. nóvember 1998 hafi komið fram í fyrirliggjandi skjölum, að um væri að ræða bifreið, sem flutt hafi verið inn skemmd, svokallaða tjónabifreið.  Stefnda BSV ehf., sem m.a. reki bifreiðasölu með notaðar bifreiðar, hafi haft milligöngu um sölu bifreiðarinnar til stefnanda.  Áður en gengið hafi verið frá sölunni hafi, eins og venjulega sé gert, verið fengið veðbókarvottorð af bifreiðinni og einnig útskrift úr ökutækjaskrá.  Á þessum útskriftum úr bifreiðaskrá, sem legið hafi frammi við söluna, hafi komið fram, að um tjónabifreið væri að ræða.  Um þetta hafi stefnanda verið kunnugt enda hafi verð og greiðslukjör verið í samræmi við það.

Til að fá bifreið skráða í bifreiðaskrá, sem flutt sé inn sem tjónabifreið, þurfi að framvísa vottorðum um að gert hafi verið við hana af viðurkenndum aðila.  Stefnda BSV ehf. hafi því getað treyst því, að bifreiðin væri ekki haldin neinum göllum.

Stefnda BSV ehf. hafi ekki verið kunnugt um, að bifreiðin væri gölluð, þegar hún hafi verið seld.  Af stefnu verði ráðið, að skaðabótaábyrgð stefnda BSV ehf. sé byggð á því, að félagið hafi brugðist skyldu sinni sem bifreiðasali með því að upplýsa stefnanda ekki um galla, sem hann telur að bifreiðin hafi verið haldin.  Stefnda BSV ehf. kveður stefnanda hafi fengið þær upplýsingar, að um tjónabifreið væri að ræða og þá hafi honum verið bent á að hann gæti látið skoða bifreiðina, eins og skýrt kemur fram í afsali.  Í ljósi þessara staðreynda verði að túlka 1. mgr. 4. gr. laga nr. 69, 1994.  Samkvæmt ákvæðinu hvíli ekki sjálfstæð skoðunarskylda á bifreiðasala, þó hann hafi milligöngu um sölu bifreiðar.  Þá liggi í málinu frammi afsal, sem sé í fullu samræmi við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 69, 1994 og verði því ekki annað séð af gögnum málsins, en stefnda BSV ehf. hafi sinnt þeim skyldum, sem félaginu bar samkvæmt tilvitnuðum lögum.  Samkvæmt framansögðu verði ekki heldur séð, að 2. mgr. 5. gr. laga nr. 69, 1994, geti átt við í málinu, því um nýlega lítið ekna bifreið hafi verið að ræða og því engin ástæða til að ætla annað, en bifreiðin væri í góðu ástandi.  Ekki séu því nein skilyrði fyrir hendi til að dæma stefnda BSV ehf. til greiðslu skaðabóta.

Varðandi kröfur stefnanda kveður stefnda BSV ehf. ekki annað verða séð af stefnu, en dómkröfunum sé beint að öllum stefndu, þ.m.t. kröfu um riftun og endurgreiðslu á kaupverðinu.  Hvað þetta varði verði að hafa í huga, að stefnda BSV ehf. hafi ekki verið aðili að kaupunum og verði því ekki beint að honum kröfu um riftun á kaupunum og endurgreiðslu á kaupverðinu.  Eðlilegt sé því að vísa þessari kröfu á hendur stefnda BSV ehf. frá dómi, frekar en að sýkna félagið af kröfunni.  Verði það hins vegar niðurstaða dómsins, að fallast á aðalkröfu stefnanda, hljóti það að leiða til þess að stefnda BSV ehf. verði sýknað af kröfum stefnanda. 

Hvað kröfu stefnanda um skaðabætur og skaðabótaskyldu stefnda BSV ehf. varði þá kveðst félagið vísa til þess, sem um það segi hér að framan.  Fjárhæð kröfunnar sé þannig skýrð í stefnu, að lagt sé til grundvallar mat dómkvadds matsmanns um viðgerðarkostnað og síðan bætt við kr. 500.000,- vegna svokallaðs afleidds tjóns.  Hvað matið varði þá kveðst stefnda BSV ehf. taka það fram, að félaginu hafi ekki verið gefinn kostur á að vera viðstatt, þegar skoðun á bifreiðinni hafi farið fram.  Matsgerðin hafi þ.a.l. ekki það sönnunargildi, sem slík skjöl vanalega hafi.  Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á neitt afleitt tjón og því sé fjáhæð vegna þess mótmælt, þar sem hún eigi enga stoð í gögnum málsins.  Auk þess hafi stefnandi haft afnot bifreiðarinnar og ekið henni yfir 10.000 km þannig að ekkert sé komið fram í málinu, sem bendi til að hann hafi orðið fyrir afleiddu tjóni. 

Loks kveðst stefnda BSV ehf. benda á, að stefnanda hafi verið boðið að rifta kaupunum en hann ekki þegið það boð þrátt fyrir að honum hafi verið boðið gangverð á bifreiðinni og sömu greiðslukjör og hann hafi keypt hana á.  Stefnandi geti því ekki krafið stefnda BSV ehf. um skaðabætur, þar sem hann hafi ekki takmarkað tjón sitt, líkt og honum hafi borið.

Hvað þrautavarakröfu varði kveðst stefnda BSV ehf., með vísan til þess sem áður segi um framkvæmd matsins,  mótmæla fjárhæð þeirrar kröfu.

Stefnda BSV ehf. kveður kröfu stefnanda um dráttarvexti frá 23. júlí 1999 ekki rökstudda í stefnu.  Mótmæli stefnda BSV ehf. uppafsdegi dráttarvaxta, en svo virðist sem stefnandi miði upphafsdag dráttarvaxta við tilkynningu til stefnda Helga um að stefnandi telji bifreiðina gallaða.  Ef sömu sjónarmið ættu við gagnvart stefnda BSV ehf. þá ætti upphafsdagur dráttarvaxta að vera 25. nóvember 1999.  Þetta sé hins vegar ekki samræmi við vaxtalög nr. 25, 1987, sbr. 15. gr. laganna.

Stefnda SP-Fjármögnun hf. kveður, að í 52. gr. laga nr. 39, 1922 um lausafjárkaup sé skýrt tekið fram, að komi í ljós að söluhlut sé ábótavant þá skuli kaupandi skýra seljanda frá því vilji hann bera það fyrir sig.  Í 2. mgr. 52. gr. sé síðan tekið fram, að vilji kaupandi rifta kaupum skuli hann skýra seljanda frá því án ástæðulauss dráttar, ella missi hann rétt sinn.  Þrátt fyrir þessi skýru lagafyrirmæli hafi stefnandi sýnt af sér gífurlegt tómlæti þar sem hann hafi ekki tilkynnt stefnda SP-Fjármögnun hf. um hugsanlega galla.  Um þá hafi stefnda SP-Fjármögnun hf. ekki orðið kunnugt fyrr en með ábyrgðarbréfi dómara í lok janúar 2000.

Samkvæmt 54. gr. laga nr. 39, 1922 geti kaupandi ekki borið fyrir sig, að söluhlut hafi verið ábótavant, ef liðið sé ár frá því að kaupandi fékk söluhlut í hendur.  Samkvæmt framlögðum gögnum hafi stefnandi keypt bifreiðina þann 27. nóvember 1998.  Stefnda SP-Fjámögnun hf. hafi ekki orðið kunnugt um að söluhlut væri hugsanlega áfátt fyrr en í lok janúar 2000, er ábyrgðarbréf hafi borist frá dómara um matsfund.  Hafi þá verið liðnir rúmir 14 mánuðir frá kaupunum.  Stefnda SP-Fjármögnun hf. hafi hvorki skuldbundið sig til að ábyrgjast hlutinn í lengri tíma en eitt ár né haft svik í frammi.  Hvorki ákvæði 53. gr. né 54. gr. in fine eigi því við hér.

Stefnda SP-Fjármögnun hf. kveðst ekki hafa verið boðað af matsmanni á matsfund.  Í IX. kafla laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála sé fjallað um matsgerðir.  Í 5. tl. 61. gr. segi, að bókað skuli af dómara í þingbók m.a. hverjum eigi að gefa kost á að gæta hagsmuna sinna við framkvæmd matsins.  Í 2. tl. 62. gr. komi síðan skýrlega fram mikilvægi þess, að aðilum sé veittur kostur á að vera á matsfundi, því matsmaður eigi að tilkynna aðilum, svo fljótt sem verða megi og með sannanlegum hætti, hvar og hvenær verði metið.  Þetta hafi matsmaður ekki gert og sé því ljóst, að stefnda SP-Fjármögnun hf. hafi aldrei gefist tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.  Matsgerðin sé því ekki marktæk og verði matsbeiðandi að bera hallan af því.  Verði því að sýkna stefnda SP-Fjármögnun hf. af kröfum stefnanda.

Kveður stefnda SP-Fjármögnun hf. það koma skýrt fram í gögnum málsins, að bifreiðin KL-385 hafi verið flutt inn sem tjónabifreið og skráð sem slík.  Í bréfi Skráningarstofunnar hf. á dómskjali nr. 19 sé t.a.m. skilmerkilega rakið hvernig skráningu bifreiða, sem fluttar séu inn óviðgerðar, sé háttað.  Í lok bréfsins segi síðan, að bifreiðin hafi verið skráð sem tjónabifreið frá 22. maí 1997 til 30. maí 1999, en eftir það sem viðgerð tjónabifreið.  Stefnandi hafi því aldrei átt að velkjast í  vafa um að um væri að ræða bifreið, sem lent hefði í tjóni.  Þá sé það vinnuregla hjá Skráningarstofunnu hf., að nokkrum dögum eftir bifreiðaviðskipti sé kaupanda sent nýtt skráningarvottorð á skráð lögheimili.  Svo virðist sem stefnandi hafi engar athugasemdir gert við það vottorð.

Fram komi í greinargerð BSV ehf., að við sölu bifreiðarinnar hafi legið frammi skjöl er sýnt hafi að um tjónabifreið væri að ræða og hafi stefnandi einnig um það upplýsingar frá sölumönnum.

Stefnda SP-Fjármögnun hf. kveðst til stuðnings varakröfu m.a. vísa til framangreinds varðandi rökstuðning.

Kveður stefnda SP-Fjármögnun hf. koma fram í greinargerð stefnda Helga, að bifreiðin hafi verið seld stefnanda á ákaflega einkennilegum kjörum.  Kaupleigusamningurinn hafi verið yfirtekinn en afgangurinn u.þ.b. helmingur kaupverðs hafi verið greiddur með svokölluðum viðskiptanetskrónum.  Það sé því krafa stefnda SP-Fjármögnunar hf., að ef aðal- eða varakrafa fái hljómgrunn verði tekið tillit til þessa einkennilega greiðslumáta.

Þá kveðst stefnda SP-Fjármögnun hf. líta svo á, að riftun sé óframkvæmanleg þar sem stefnandi geti ekki skilað bifreiðinni í sama ástandi og hún hafi verið við kaupin.    Verði stefnanda hins vegar dæmdar einhverjar bætur sé það krafa félagsins, að tekið verði fullt tillit til þess að stefnandi hafi ekið bifreiðinni sleitulítið frá kaupunum og þar til hann á árinu 2000 lagði númerin inn.  Hljóti stefnandi að þurfa að greiða sanngjarnt endurgjald fyrir notkunina. 

Stefnda SP-Fjármögnun hf. kveðst vekja sérstaka athygli á því, að svo virðist sem skipt hafi verið um framdrif og framrúðu í bifreiðinni aðeins örfáum dögum eftir kaupin.  Hljóti því að vakna sú spurning hvort eitthvað hafi komið fyrir bifreiðina í meðförum stefnanda.  Félagið kveðst einnig vekja athygli á því, að svo virðist sem riftun hafi verið boðin, líklega af umráðamanni bifreiðarinnar.

Til stuðnings kröfum sínum kveðst stefnda SP-Fjármögnun hf. vísa í lög um lausafjárkaup nr. 39, 1922 einkum til 52.-54. gr.  Þá vísist einnig til laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991, einkum IX. kafla sem og 129. og 130. gr.

Skýrslur fyrir dómi gáfu, auk stefnanda og stefnda Helga, Pétur Gunnarsson viðskiptafræðingur, Sigurður Valdimarsson framkvæmdastjóri stefnda BSV ehf., Bjarni Sigurjónsson bifvélavirkjameistari, Sigurður Valgarðsson lífvörður og Jón Kristinn Sigurðsson bifvélavirki.

Af gögnum málsins verður hvorki ráðið, að stefndi Helgi hafi verið aðili að hinum umdeildu viðskiptum með bifreiðina KL-385, né heldur að hann hafi komið fram f.h. seljanda gagnvart stefnanda við sölu hennar.  Hins vegar liggur fyrir, að hann tók, vegna tengsla við umráðamann bifreiðarinnar, þátt í sáttatilraunum er fram fóru í málinu í kjölfar riftunarkröfu stefnanda, eftir að kaupin gerðust.

Af framansögðu er ljóst, að málsástæður stefnanda, er varða meint svik allra stefndu og byggja á lögum nr. 39, 1922 um lausafjárkaup, geta ekki varðað stefnda Helga á neinn hátt.  Þá getur hann af sömu ástæðum ekki verið ábyrgur vegna annarra mögulegra vanefnda seljanda á umræddum kaupum.  Þykir því verða að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda í málinu með vísan til aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.

Fyrir liggur, að þegar stefnandi keypti bifreiðina KL-385 þann 27. nóvember 1998, var hún skráð sem „viðgerð tjónabifreið“ í ökutækjaskrá.  Þykir mega gera þá lágmarkskröfu til aðila er standa í bifreiðaviðskiptum, að þeir kanni af sjálfsdáðum skráðar, opinberar upplýsingar varðandi bifreiðar, sem þeir hyggjast festa kaup á.  Getur stefnandi því, að mati dómsins, ekki byggt nokkurn rétt í málinu á að umræddum upplýsingum hafi vísvitandi verið haldið leyndum fyrir honum við kaupin.

Er það mat hinna sérfróðu meðdómsmanna, er skoðuðu bifreiðina KL-385 að lokinni aðalmeðferð málsins, að bifreiðin sé haldin göllum, sem ekki sé hægt að gera kröfu til að almennur bifreiðakaupandi sjái við venjubundna skoðun.  Umræddir gallar eru því leyndir, en ósannað er með öllu, að gallarnir hafi komið til eftir að stefnandi keypti bifreiðina.

Málsástæður stefnanda, er varða meint svik allra stefndu og byggja á lögum nr. 39, 1922 um lausafjárkaup, geta ekki varðað stefnda BSV ehf. á neinn hátt þar sem félagið var ekki aðili að kaupunum.  Þá getur félagið af sömu ástæðum ekki verið ábyrgt vegna annarra mögulegra vanefnda seljanda á umræddum kaupum.

Á stefnda BSV ehf. sem bifreiðasala hvíldi ekki skylda til að skoða bifreiðina KL-385 nákvæmlega eða meta sérstaklega ástand hennar.  Stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn sem benda til þess, að stefnda BSV ehf. hafi, er kaupin gerðust, verið kunnugt um áðurnefnda galla.  Þar sem gallar bifreiðarinnar voru leyndir, þykir sú fullyrðing stefnda BSV ehf., að félaginu hafi verið ókunnugt um þá, vel geta staðist.  Er því að mati dómsins ósannað, að stefnda BSV ehf. hafi, er hin umdeildu kaup gerðust, verið kunnugt um að bifreiðin væri haldin göllum.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða dómsins, að stefnanda hafi ekki tekist að sanna, að stefnda BSV ehf. hafi beitt svikum við sölumeðferð bifreiðarinnar.  Þá þykir jafnframt með öllu ósannað, að félagið hafi á annan hátt brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 69, 1994 um sölu notaðra ökutækja, en framlagt afsal dags. 27. nóvember 1998 er að mati dómsins í fullu samræmi við ákvæði nefndra laga.  Ber því að sýkna stefnda BSV ehf. af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Í 54. gr. laga nr. 39, 1922 um lausafjárkaup segir:  „Nú er ár liðið frá því er kaupandi fékk söluhlut í hendur og hann hefir ekki skýrt seljanda frá, að hann ætli að bera fyrir sig, að söluhlutnum hafi ábótavant verið, og getur hann þá eigi síðar komið fram með neina kröfu af því tilefni, nema seljandi hafi skuldbundið sig til að ábyrgjast hlutinn í lengri tíma, eða haft svik í frammi.“  Þá segir í 61. gr. nefndra laga, að ef slík tilkynning frá kaupanda, sem um geti í 6., 26., 27., 52. og 54. gr., sé afhent til flutnings með ritsíma eða pósti eða með öðrum þeim flutningstækjum, sem gilt þyki að nota, missi tilkynnandi engan rétt við það, að tilkynningunni seinki eða hún komi eigi til skila.

Samkvæmt framlögðu ljósriti úr póstkvittanabók lögmanns stefnanda sendi lögmaðurinn stefndu BSV ehf. og SP-Fjármögnun hf. ábyrgðarbréf þann 25. nóvember 1999.  Byggir stefnandi á því í málinu, að umrædd ábyrgðarbréf séu framlögð bréf til nefndra aðila þar sem stefnandi tilkynnir þeim, að hann ætli að bera fyrir sig galla á bifreiðinni KL-385.  Stefnda SP-Fjármögnun hf. hefur ekki dregið í efa að Íslandspóstur hf. hafi móttekið ábyrgðarbréf þessa efnis til félagsins, en kveðst hins vegar aldrei hafa fengið bréfið í hendur.

Ákvæði 61. gr. laga um lausafjárkaup inniheldur sérákvæði um sendingu ákveðinna tilkynninga kaupanda og þau réttaráhrif, sem slíkur sendingarmáti hefur í lausafjárkaupum.  Eins og áður hefur verið rakið var tilkynning stefnanda til stefnda SP-Fjármögnunar hf. komin í hendur Íslandspósts hf. áður en frestur skv. 54. gr. laga um lausafjárkaup rann út.  Af orðum 61. gr. laganna verður ekki annað ráðið en umrædd tilkynning stefnanda hafi því komið fram innan árs frests 54. gr.  Verður af þeim sökum ekki á því byggt í málinu, að stefnandi hafi glatað rétti vegna fyrirmæla 54. gr. laga um lausafjárkaup.

Í 1. mgr. 52. gr. laga um lausafjárkaup segir m.a. annars, að komi það í ljós, að söluhlut sé ábótavant og kaupandi vilji bera það fyrir sig, þá skuli hann skýra seljanda frá því þegar í stað, ef um verslunarkaup sé að tefla, en ella án ástæðulauss dráttar.  Í 2. mgr. segir síðan, að ef kaupandi vilji rifta kaup eða krefjast viðbótar eða nýrra hluta í stað þeirra, sem hann hafi fengið, skuli hann skýra seljanda frá því án ástæðulauss dráttar; ella missi hann rétt sinn til þess að hafna hlutnum eða krefjast viðbótar.

Stefnandi bar fyrir dómi að hann hafi í febrúar 1999 orðið var við að bifreiðin virkaði ekki sem skyldi.  Hafi hann farið með bifreiðina á verkstæði stefnda BSV ehf. og hafi þá komið í ljós, að annað framhjól bifreiðarinnar var laust.  Var bifreiðin í kjölfarið hert upp á verkstæði stefnda BSV ehf.   Kvaðst stefnandi fyrir dómi á þessum tíma hafa talið, að hið lausa framhjól gæti staðið í sambandi við framdrifsskipti þau, sem fram fóru honum að kostnaðarlausu, nokkrum dögum eftir að hann keypti bifreiðina.  Stefnandi kvaðst síðan hafa farið á bifreiðinni „suður“ og á þeirri leið hafi framhjólið aftur losnað.  Hafi stefnandi í kjölfarið farið með bifreiðina á verkstæði Topps ehf. í Kópavogi, þar sem bifreiðin hafi aftur verið hert upp.  Bifreiðin hafi því næst staðið á bílasölu í um mánaðartíma fyrir „sunnan“, en er stefnandi hafi ekið henni, að þeim tíma liðnum, til Akureyrar, hafi framhjólið enn losnað.  Hafi stefnandi þá farið með bifreiðina á verkstæði Bílvirkis ehf. og eftir skoðun þess fyrirtækis hafi verið haft samband við hann og honum tjáð, að ýmislegt væri athugavert við bifreiðina. 

Fyrir liggur að stefnandi hafði í kjölfarið ítrekað samband við stefndu Helga og BSV ehf. vegna málsins og leiddu þær viðræður m.a. til þess, að stefnanda var gert tilboð í ágúst 1999 um að kaupin gengju til baka með ákveðum skilmálum þó.  Þá sendi stefnandi stefnda SP-Fjármögnun hf. áðurnefnt bréf dags. 25. nóvember 1999.

Ekki verður annað séð, en stefnda BSV ehf., sem undirritaði afsal vegna hinnar umdeildu bifreiðar f.h. SP-Fjármögnunar hf., hafi komið að sáttatilraunum vegna málsins, eftir að stefnandi tók að kvarta yfir ástandi bifreiðarinnar.  Má þetta m.a. ráða af framburði Sigurðar Valdimarssonar fyrir dómi.  Af gögnum málsins verður ekki séð, að stefnda BSV ehf. hafi, er stefnandi bar sig upp við félagið vegna gallanna, vísað stefnanda á stefnda SP-Fjármögnun hf.  Er það því álit dómsins, að stefnanda hafi, eins og á stóð og í ljósi þessa, verið rétt að beina kvörtunum sínum vegna gallanna til stefnda BSV ehf.  Þá þykja kvartanir stefnanda hafa komið tímanlega fram þegar litið er til áðurrakins framburðar hans fyrir dómi, en þeim framburði hefur stefnda SP-Fjármögnun hf. ekki tekist að hnekkja.  Er stefnanda varð síðan ljóst, að sættir tækjust ekki tilkynnti hann hins vegar stefnda SP-Fjármögnun hf. með ábyrgðarbréfi, að hann hyggðist bera gallana fyrir sig.  Þykir stefnandi því að öllu þessu athuguðu hafa tilkynnt seljanda, að hann hyggðist bera það fyrir sig að bifreiðinni væri ábótavant, innan ástæðulauss dráttar í skilningi 1. mgr. 52. gr. laga um lausafjárkaup.

Stefnandi sendi stefnda SP-Fjármögnun hf. tilkynningu um riftun þann 30. maí 2000.  Fyrir liggur að niðurstaða dómkvadds matsmanns lá fyrir í upphafi þess mánaðar.  Gat stefnanda ekki fyrr en að fenginni þeirri niðurstöðu verið ljóst, hvert umfang gallanna væri.  Að þessu athuguðu og í ljósi þess sem að framan er rakið, þykir yfirlýsing stefnanda um riftun, hafa komið fram án ástæðulauss dráttar í skilningi 2. mgr. 52. gr. laga um lausafjárkaup.

Af vætti hins dómkvadda matsmanns, Bjarna Sigurjónssonar, bifvélavirkjameistara, fyrir dómi má ráða, að hann hafi ekki tilkynnt málsaðilum með sannanlegum hætti hvar og hvenær hann hygðist framkvæma matsskoðun á bifreiðinni KL-385.  Stefnda SP-Fjármögnun hf. hefur borið fyrir sig, að félagið hafi ekki fengið boðun á matsfund, en fyrir liggur, að enginn á vegum stefnda SP-Fjármögnunar hf. var viðstaddur matsskoðunina.  Að þessu athuguðu er það niðurstaða dómsins, að hin framlagða matsgerð hafi ekki sama sönnunargildi í málinu og ef fylgt hefði verið að öllu leyti fyrirmælum IX. kafla laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála. 

Hinir sérfróðu meðdómsmenn hafa skoðað bifreiðina KL-385 og telja þeir lýsingu matsmannsins á ástandi hennar vera í aðalatriðum rétta.  Þá hefur matsmaðurinn staðfest skýrslu sína fyrir dóminum og gert nánari grein fyrir matinu.  Þykir því, þrátt fyrir galla á framkvæmd matsins, mega leggja það til grundvallar í málinu.  Með vísan til þessa er að mati dómsins nægjanlega sannað, að bifreiðin hafi verið haldin þeim göllum, sem í matsgerð er lýst, þegar stefnandi keypti hana þann 27. nóvember 1998 og þeir hafi verið verulegir í skilningi 1. mgr. 42. gr. kaupalaga nr. 39, 1922.  Var stefnanda  því rétt að rifta kaupunum með vísan til nefndrar lagagreinar, líkt og hann gerði þann 30. maí 2000.  Hins vegar þykir rétt, að draga frá endurgreiðslu stefnda SP-Fjármögnunar hf. á kaupverði bifreiðarinnar, ákveðna fjárhæð vegna notkunar stefnanda á bifreiðinni frá kaupdegi og til þess dags, er hann afskráði hana og einnig vegna slits, sem gögn málsins bera með sér, að orðið hafi á bifreiðinni meðan hún var í vörslum stefnanda.  Þykir hinum sérfróðu meðdómendum sú fjárhæð hæfilega áætluð kr. 200.000,-.  Verðrýrnun vegna aldurs á tímabilinu frá kaupdegi til greiðsludags verður stefnda SP-Fjármögnun hf. hins vegar, eðli málsins samkvæmt, að bera.  Þá er með öllu ósannað, að kaupverð bifreiðarinnar hafi í raun verið annað og minna en kr. 3.300.000,-, en fullyrðingar stefnda SP-Fjármögnunar hf. í þá veru eru engum gögnum studdar.  Skal stefnda SP-Fjármögnun hf. því með vísan til alls þessa endurgreiða stefnanda kr. 3.100.000,- ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 30. maí 2000 til greiðsludags, gegn afhendingu á bifreiðinni

Rétt þykir, með vísan til úrslita málsins, að stefnandi greiði stefnda Helga kr. 180.000,- í málskostnað, málskostnaður falli niður milli stefnanda og stefnda BSV ehf., en stefnda SP-Fjármögnun hf. greiði stefnanda kr. 500.000,- í málskostnað.  Er virðisaukaskattur innifalinn í dæmdum málskostnaðarfjárhæðum.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri, ásamt meðdómsmönnunum Kristni H. Jóhannssyni, bifvélavirkjameistara og Birni Berg, bifvélavirkjameistara.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Helgi Ingvarsson, skal sýkn af öllum kröfum stefnanda, Haraldar Sveinbjörns Helgasonar, í máli þessu.  Stefnandi greiði stefnda Helga kr. 180.000,- í málskostnað.

Stefnda, Bifreiðaverkstæði Sigurðar Valdimarssonar ehf., skal sýkn af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.  Málskostnaður skal falla niður milli síðastgreindra aðila.

Viðurkennd er riftun stefnanda dags. 30. maí 2000 á kaupum hans, þann 27. nóvember 1998, á bifreiðinni KL-385, Jeep Laredo Grand, árgerð 1997.  Skal stefnda SP-Fjármögnun hf. endurgreiða stefnanda kr. 3.100.000,- ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 30. maí 2000 til greiðsludags, gegn afhendingu á bifreiðinni.  Stefnda SP-Fjármögnun hf. greiði stefnanda kr. 500.000,- í málskostnað.