Hæstiréttur íslands

Mál nr. 61/2009


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Gjöf
  • Riftun
  • Nákomnir


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. október 2009.

Nr. 61/2009.

Þrotabú Jónasar Andrésar Þórs Jónssonar

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

þrotabúi Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf.

(Skúli Bjarnason hrl.)

 

Gjaldþrotaskipti. Gjöf. Riftun. Nákomnir.

Fallist var á kröfu þb. TF um að rifta greiðslum félagsins að fjárhæð 134.068.000 krónur, til fyrrverandi stjórnarformanns og hluthafa TF, á grundvelli 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Stefndi í héraði, Jónas Andrés Þór Jónsson, skaut málinu til Hæstaréttar 6. febrúar 2009. Hann var úrskurðaður gjaldþrota með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2009 og hefur þrotabú hans tekið við aðild að málinu, sbr, 3. mgr. 23 gr. og 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Áfrýjandi krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fallist verður á með stefnda að Jónas Andrés Þór Jónsson hafi, þegar hinar umdeildu greiðslur til hans voru inntar af hendi, talist nákominn Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. í skilningi 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 6. og 4. tl. 3. gr. laganna. Þá verður einnig fallist á með stefnda að sá hluti greiðslna 16. og 19. júní 2006, sem héraðsdómur taldi riftanlegar á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991, eigi að sæta riftun með vísan til 1. mgr. 131. gr. laganna.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, þrotabú Jónasar Andrésar Þórs Jónssonar, greiði stefnda, þrotabúi Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf., 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. nóvember 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 9. september sl., er höfðað 15. september 2007. Málið var endurflutt 6. nóvember 2008 og dómtekið sama dag.

Stefnandi er Þrotabú Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf., Austurvegi 3, Selfossi.

Stefndi er Jónas Andrés Þór Jónsson, til heimilis í Litháen.

Dómkröfur  

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:

Að rift verði með dómi eftirfarandi greiðslum hins gjaldþrota félags, Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf., til stefnda, samtals að fjárhæð 134.500.000 krónur.

 

þann 10. desember 2004, fjárhæð

24.500.000 krónur

þann 14. desember 2004, fjárhæð

10.000.000 krónur

þann 15. desember 2004, fjárhæð

35.000.000 krónur

þann 16. desember 2004, fjárhæð

  4.000.000 krónur

þann 21. janúar 2005, fjárhæð

12.000.000 krónur

þann 1. apríl 2005, fjárhæð

  9.000.000 krónur

þann 1. apríl 2005, fjárhæð

25.000.000 krónur

þann 1. júní 2005, fjárhæð

10.000.000 krónur

þann 16. júní 2006, fjárhæð

  3.000.000 krónur

þann 19. júní 2006, fjárhæð 

  2.000.000 krónur

 

Þá gerir stefnandi þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða gjaldþrotabúi Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. 134.500.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 24.500.000 krónum frá 10. desember 2004 til 14. desember 2004, en af 34.500.000 krónum frá þ.d. til 15. desember 2004, en af 69.500.000 krónum frá þ.d. til  16. desember 2004, en  af  73.500.000 krónum frá þ.d. til 21. janúar 2005, en af 85.500.000 krónum frá þ.d. til 1. apríl 2005, en af 119.500.000 krónum frá þ.d. til 1. júní 2005, en af 129.500.000 krónum frá þ.d. til 16. júní 2005, en af 132.500.000 krónum frá þ.d. til 19. júní 2005, en af stefnufjárhæðinni, 134.500.000 krónum, frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er gerð sú krafa að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að stefndi verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað. Til vara að dómkröfur stefnanda verði verulega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Málavextir

Málavextir eru þeir að með úrskurði uppkveðnum 5. desember 2006 var bú Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. tekið til gjaldþrotaskipta. Frestdagur var 24. nóvember 2006. Skiptastjóri birti fyrri innköllun vegna þrotabúsins í Lögbirtingarblaðinu þann 17. janúar 2007 og var fyrsti skiptafundur í búinu haldinn 12. apríl 2007.  Á þeim fundi, var að sögn stefnanda, vakin athygli skiptastjóra á því að skoða þyrfti greiðslur til stefnda persónulega og hafi verið lagður fram óundirritaður samningur í því sambandi.  Um hafi verið að ræða stórt gjaldþrot, eins og fram komi m.a. á framlagðri kröfulýsingaskrá, enda hafði félagið stundað yfirgripsmikla byggingastarfsemi til margra ára.

Stefnandi heldur því fram að bókhald og fjárreiður félagsins hafi verið með ófullnægjandi og óaðgengilegum hætti síðustu misserin fyrir gjaldþrot. Bókhald eða fylgiskjöl vegna rekstrarársins 2006 hafi ekki enn fundist. Þá hafi ekki verið gefnar á því fullnægjandi skýringar af hálfu forsvarsmanna búsins.  Að sögn stefnanda komst það bókhald, sem í dag er að finna, ekki í hendur skiptastjóra fyrr en sumarið 2007 og þá frá hendi þriðja aðila en ekki forsvarsmanna hins gjaldþrota félags. Stefnandi heldur því fram að félagið hafi ekki eingöngu verið í umfangsmiklum rekstri, heldur hafi dóttur- og systurfélög þess virst mörg og mikil viðskipti þeirra á milli, sem og viðskipti með eignarhluti í félaginu sjálfu og milli tengdra félaga og eigenda og aðstandenda innbyrðis.  Þannig séu þau óljósu viðskipti sem sögð eru hafa verið að baki þeim yfirfærslum til stefnda, sem mál þetta snýst um, af þessum toga.  Við könnun á bankareikningum og öðrum gögnum búsins hafi verið staðfestur grunur um verulegar fjármuntilfærslur til stefnda, án þess að raunverulegt endurgjald hafi komið fyrir, að mati stefnanda, eða önnur viðhlítandi skýring fundist á gjörningunum. 

Stefndi kveður málsatvik þau að hann hafi, ásamt viðskiptafélögum sínum, keypt 93% hlutafé í Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. (TF) á árinu 2003. Haustið 2004 hafi hann keypt hlut félaga sinna og eignast þessi 93% hlutafjárins.  Haustið 2004, nánar tiltekið í október, hafi samningaviðræður við Friðrik Atla Sigfússon og Sigurð Gestsson trésmíðameistara hafist um kaup þeirra á hlutafé TF. Upphaf þessara þreifinga og síðar viðskipta hafi orðið fyrir tilstilli Agnars Agnarsson löggilts fasteignasala hjá fasteignasölunni Stórhús. Á þessum tíma hafi verið í gangi miklar umræður í þjóðfélaginu um fyrirhugað álver á Austurlandi en endanleg og bindandi ákvörðun um það hafi svo verið tekin 10. janúar 2005 en þá hafði stefndi áður skrifað undir bindandi kaupsamning um sölu á TF og tengdum félögum.

Á árinu 2003 kveðst stefndi hafa flutt búferlum frá Austurlandi til Reykjavíkur og hafi hugur hans staðið til þess að hætta umsvifum á Austurlandi og vildi stefndi selja allt hlutafé sitt í TF ásamt tengdum félögum, sem og allt hlutafé sitt í einkahlutafélaginu Kass ehf., sem hafi átt fasteignir á Seyðisfirði og Egilsstöðum. Auk þess hafi á þessum tíma verið í gangi kaup Kass ehf. á fasteignum á Selfossi, Austurmýri 7 og 9, auk þess kaup á fasteign í Reykjavík, Smiðshöfða 8. Sala hlutafélaganna hafi verið lögð upp á ýmsan máta enda um nokkuð umfangsmikil og flókin viðskipti að ræða.

Samkvæmt kaupsamningi, dags. 4. janúar 2005, hafi Sigurður og Friðrik persónulega keypt 93% hlutafjár stefnda í TF. Í sama samningi hafi verið ákveðið að TF keypti allt hlutafé stefnda í Kass ehf. og komi alveg skýrt fram í kaupsamningi þessum að TF kaupi hlutaféð fyrir 100.000.000 króna. Jafnframt sé kveðið á um sölu á 50% hlut stefnda í einkahlutafélaginu TF Festi ehf. og 100% hlut í einkahlutafélaginu HM Festi ehf.

Stefndi kveður kaupsamninginn frá 4. janúar 2005 hafa gengið eftir. Þannig hafi hann selt og afsalað sér öllum umráðum yfir þeim einkahlutafélögum sem hér um ræði, þ.e. Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf., Kass ehf., TF Festi ehf. og HM Festi ehf. Stefndi kveðst, í mars 2005, hafa tilkynnt til Hlutafélagaskrár breytingar á stjórnum, framkvæmdarstjórn og prókúrum allra téðra hlutafélaga. Skráning hjá Hlutafélagaskrá hafi dregist af völdum kaupenda þar sem þeir hafi óskað eftir lengri tíma til að ganga frá skipan stjórna félaganna. Samkvæmt skýru ákvæði téðs kaupsamnings hafi Friðrik og Sigurður tekið við stjórnun félaganna frá 1. janúar 2005.

Með þessum kaupsamningi hafi Sigurður og Friðrik eignast 93% hlutafjár í TF og TF allt hlutafé í Kass ehf., TF Festi ehf. og HM Festi ehf.

Sú breyting hafi síðar verið gerð á upphaflegum samningi milli stefnda, annars vegar og Friðriks og Sigurðar, hins vegar, að kaupverð hlutafjár í TF hafi verið lækkað þar sem umsamdar forsendur fyrir verðlagningu hlutafjár TF hafi breyst vegna færri lóðareininga í eigu félagsins og lægra eiginfjárhlutfalls en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. Niðurstaðan hafi því orðið sú að TF keypti allt hlutafé í Kass ehf. fyrir  100.000.000 króna, 50% hlutafé í TF Festi ehf. fyrir 20.000.000 króna (hafi átt fyrir 50% hlutafjár) og allt hlutafé stefnda í HM Festi ehf. fyrir 12.750.000 krónur. Umsamið endanlegt söluverð hlutafjár stefnda í TF hafi orðið 24.550.000 krónur og hafi stefndi samþykkt í upphafi árs 2006 að það skyldi því aðeins greitt tækist að bjarga félaginu.

Í téðum kaupsamningi milli stefnda og kaupenda, Friðriks og Sigurðar, hafi verið um samið að Ómar Bogason, framkvæmdastjóri TF frá 2003, myndi gegna störfum þar til eignarhald væri að fullu komið í hendur nýrra eigenda og stjórnenda. Í mars 2005 hafi Ómar látið af störfum sem framkvæmdarstjóri TF. Í upphafi árs 2005 hafi viðskiptavinum TF verið kunngert um eigendaskiptin í TF og tengdum félögum. Helstu lánastofnunum TF hafi og verið tilkynnt um þessar breytingar, þ.á m. starfsmönnum VBS, sem þá hafi verið orðin meðal stærstu lánardrottna TF. Í lok mars 2005 hafi rekstur allra framangreindra félaga að fullu og öllu verið kominn í hendur nýrra eigenda og hafi kaupendur komið fram í nafni þeirra. Engum hafi átt að geta dulist á þessum tíma hverjir voru orðnir eigendur og stjórnendur félaganna.

Stefndi lýsir því í greinargerð sinni að í upphafi ársins 2006 hafi Þorbjörn Sigurðsson, yfirmaður verkefnafjármögnunar Verðbréfastofunnar hf. (VBS) haft samband við stefnda og Ómar Bogason, fyrrum framkvæmdarstjóra TF, og tjáð áhyggjur sínar af TF. Hafi komið fram á fundi sem haldin var í kjölfarið að framvinda byggingaframkvæmda TF á Austurlandi væri ekki með eðlilegum hætti og verkefnafjármögnun VBS til TF væri áhyggjuefni þar sem verkstaða væri ekki í takt við útlánareglur VBS.

Stefndi kveðst hafa brugðist vel við beiðni VBS. Hann hafi ákveðið að aðstoða  VBS við að leita lausna í málinu, þrátt fyrir að honum hafi ekki borið nokkur skylda til þess. Með samþykki Friðriks og Gísla Bogasonar hafi stefndi hafið afskipti af málum TF og tengdra einkahlutafélaga á vormánuðum 2006. Rétt sé að geta þess að þegar stefndi seldi TF og hin einkahlutafélögin ári áður hafi lánafyrirgreiðsla VBS til TF verið rétt um 100 milljónir króna og fjárhagur félagsins traustur og gnótt verkefna. Ári síðar hafi staðan verið gjörbreytt og enginn hafi virst hafa yfirsýn yfir hlutina, svo sem verkefnastöðu, byggingarframkvæmdir, veðskuldir og önnur umfangsmikil umsvif allra þessara félaga sem stefndi hafi ekkert haft með að gera í tæpt eitt og hálft ár.

Um mitt árið 2005 hafi kaupendur TF, Friðrik og Sigurður, lent í innbyrðis deilum sem leitt hafi til þess að nokkru síðar hafi verið rekið má1 fyrir Hlutafélagaskrá um hver réði yfir félaginu. Hafi það má1 endað með samkomulagi milli þessara aðila um að Friðrik tæki alfarið yfir stjórn félagsins í samvinnu við Gísla Bogason, sem hafi verið fjármálastjóri TF frá miðju ári 2005, en Gísli hafi átt 7% í félaginu sem stefndi hafi ekki haft yfir að ráða við söluna. Brotthvarf Sigurðar kveður stefndi eflaust hafa komið þungt niður á verkefnum félagsins enda hafi hann verið sá aðili sem valinn var til að annast verkstýringu og hafi haft til þess menntun og reynslu.

Eftir beiðni VBS og með samþykki Friðriks og Gísla hafi stefndi komið að málinu vorið 2006 og m.a. fengið formlega heimild stjórnar til að móta tillögu að lausn fjármála félaganna. Hafi stefndi, fyrir sinn reikning, fengið Kristján Björgvinsson, löggiltan endurskoðanda, til að vinna að málinu. Þá hafi stefndi einnig fengið til liðs við sig Jón Ólafsson viðskiptafræðing hjá fyrirtækinu Bókhald og skattskil ehf., til að fara yfir bókhald TF og tengdra félaga og hafi stefndi einnig greitt allan kostnað vegna þessarar þjónustu sem hafi á endanum orðið verulegur, eða ríflega 3 milljónir króna. Þá hafi stefndi einnig ráðið Jónatan Svavarsson rekstrarfræðing sem hafi starfað á vegum stefnda í u.þ.b. 3-4 mánuði. Þóknun hans hafi verið umtalsverð, eða um 5 milljónir króna.

Þrátt fyrir að fljótlega kæmi í ljós að áhyggjur VBS væru réttmætar þá hafi stefndi talið ýmsa möguleika felast í TF og hafi því ákveðið að koma af krafti að því að bjarga TF. Hafi og verið pressað á stefnda af hálfu VBS að koma að málinu og gera allt er í hans valdi stæði til að bjarga málum. Á tímabilinu maí til september 2006 hafi stefndi lagt út verulega fjármuni og mikla vinnu, til þess að freista þess að bjarga félaginu. Þá hafi stefndi, vorið 2006, keypt allt hlutafé Sigurðar Gestssonar, 46,5%, í TF fyrir 28.875.000 krónur. Samtals hafi fjárútlát hans og innleystar ábyrgðir á árinu 2006 vegna TF numið um 70.000.000 króna. Ljóst sé í dag að allt það fé sé stefnda glatað.

Sumarið 2006 hafi verið unnið ötullega að því að greina fjárhagsstöðu TF og dótturfélaga þess undir stjórn stefnda og Jónatans Svavarssonar. Í júlí-ágúst 2006 hafi komið í ljós að fjárhagur TF var bágur og raunar verri en ætlað hafði verið enda höfðu þá komið í ljós umfangsmikil og flókin viðskipti dótturfélaga TF sem ekki hafi verið vitað um í upphafi þegar stefndi kom að málum um vorið 2006. Um þessi viðskipti hafi VBS ekki haft neina yfirsýn enda minnst af þeim gerð með þeirra fulltingi. Einkum og sér í lagi hafi fjárhagsstaða dótturfélaga TF, Kass ehf., TF Festis ehf. og HM Festis ehf., verið alvarleg vegna umfangsmikilla og um margt óljósra fasteignaviðskipta stjórnenda félaganna síðustu 12-15 mánuði á undan.

Á þessum tíma hafi stefndi og Jónatan starfað í umboði Friðriks og Gísla enda hafi VBS þrýst á að sá háttur yrði hafður á og hafi það verið gert að forsendu fyrir áframhaldandi fjármögnun VBS til TF. Í byrjun ágúst 2006 hafi málum verið svo komið að milliuppgjör lá fyrir og komin hafi verið skýr mynd af fjárhag félaganna. Kröfuhafar TF voru tiltölulega fáir, en ljóst hafi verið á þessum tíma að félaginu yrði ekki bjargað án hlutafjáraukningar, lækkun krafna og fullrar samvinnu við VBS, sem hafi verið orðinn stærsti lánardrottin félagsins og fjármögnunaraðili allra byggingarframkvæmda TF. Á þessum tíma hafi stefndi verið í viðræðum við VBS og lögmann þess, Skú1a Bjarnason hrl., um leiðir til að bjarga TF og eftir atvikum dótturfélögum. Hafi í því skyni verið haldnir fjölmargir fundir og m.a. gerður samningur um hlutafjáraukningu í TF sem stefndi hafi að mestu átt að sjá um. Niðurstaðan hafi orðið sú í september 2006 að TF yrði ekki forðað frá gjaldþroti í ljósi þess að ekki hafi fengist svör frá Landsbanka Íslands hf., sem hafi verið forsenda fyrir því að fyrirliggjandi tillögur um björgunaraðgerðir gengju eftir. VBS hafi í ágústmánuði 2006 einhliða sagt upp verkefnafjármögnun við TF og hafi þá öllu starfsfólki TF verið sagt upp og umfangsmiklum byggingaframkvæmdum hætt. Í framhaldi af því hafi stefndi sagt sig frá málinu og stuttu síðar hafi TF verið úrskurðað gjaldþrota.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi kveður mál þetta snúast um tilefnislausar og riftanlegar einhliða greiðslur af reikningum Trésmiðju Fljótsdalshéraðs til nákomins aðila, stefnda, án þess að staða félagsins leyfði slíkar greiðslur.  Kjarni málsins sé þessi:

1.  Frestdagur.  Með úrskurði héraðsdóms Austurlands, uppkveðnum 5. desember 2006, hafi Trésmiðja Fljótsdalshéraðs hf. verið tekin til gjaldþrotaskipta. Frestdagur, sbr. 2. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti (gþskl.), sé 24. nóvember 2006.

2.  Sannaðar greiðslur.  Stefndi hafi greitt eða látið greiða sér út af reikningum Trésmiðju Fljótsdalshéraðs samtals 134.500.000 krónur í 10 aðskildum millifærslum, samkvæmt framlögðum bankayfirlitum, inn á einkareikninga sína á tímabilinu 10. desember 2004 til og með 19. júní 2006.  Allar greiðslurnar séu innan tveggja ára frestsins frá frestdegi og þær tvær síðustu séu  innan 6 mánaða frestsins.

3  .Einhliða úttektir. Engar viðhlítandi skýringar, sem þrotabúið geti tekið gildar, hafi fundist á millifærslum þessum, hvorki í bókhaldi félagsins né í hinum ýmsu skýringum og skýringabrotum sem sett hafi verið fram af hálfu stefnda í mismunandi samhengi, eins og nánar verði gerð grein fyrir.

4.  Nákominn.  Stefndi hafi verið nákominn fyrirtækinu á því tímabili sem greiðslurnar voru inntar af hendi.

5.  Ógjaldfærni.  Á þeim tíma sem greiðslurnar voru inntar af hendi hafi félagið verið ógjaldfært.

6.  Skilyrði til riftunar og endurgreiðslu fyrir hendi.  Að mati stefnanda séu skilyrði til riftunar á ofangreindum greiðslum fyrir hendi í samræmi við lagaáskilnað XX. kafla gþskl. nr. 20/1991, eins og nánar verði gerð grein fyrir hér á eftir, og þar af leiðandi einnig til þess að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða þrotabúinu stefnufjárhæðina, 134.500.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum, í samræmi við heimild í 142. gr. gþskl.

Fyrirliggjandi greiðslur innan 24 mánaða frá frestdegi: 

Fyrir liggi nákvæm sundurliðun á dagsetningum og fjárhæðum allra þeirra greiðslna til stefnda sem krafist sé riftunar á, en þær séu eftirfarandi, sbr. dskj. 7-16:

 

Dags.:

Fjárhæð:

Skýring:

Inn á reikning nr.:

1.  10. des. 2004,

24.500.000 kr.

Hlutafé Kass ehf.

inn á 528 26 4670

2.  14. des. 2004,

10.000.000 kr.

Hlutafé Kass ehf.

inn á 1152 26 374

3.  15. des. 2004,

35.000.000 kr.

Hlutafé Kass ehf.

inn á 1152 26 374

4.  16. des. 2004,

  4.000.000 kr

Hlutafé Kass ehf.

inn á 1152 26 374

5.  21. jan. 2005,

12.000.000 kr

Hlutafé Kass ehf.

inn á 1152 26 374

6.   1. apríl 2005,

9.000.000 kr.

Hlutafé Kass ehf.

inn á 528 26 4670

7.   1. apríl 2005,

25.000.000 kr.

án skýringar

inn á 528 26 4670

8.   1. júní  2005,

10.000.000 kr.

Hlutabréfakaup,

inn á 1152 26 374

9.  16. júní 2006,

3.000.000 kr.

án skýringar,

inn á 1152 26 374

10.19. júní 2006,

2.000.000 kr.

v.Jónas,

inn á 1152 26 374

 

Samtals: 134.500.000 kr.

Fimm síðasttöldu greiðslurnar hafi verið millifærðar af reikningi stefnanda hjá Landsbankanum hf. í útibúi nr. 0175 Egilsstöðum, höfuðbók nr. 26, reikningsnúmer 740, en þær fimm fyrri af reikningi stefnanda hjá Kaupþingi hf. í útibúi nr. 0305 Egilsstöðum, höfuðbók 26, reikningsnúmer 6505. Viðtökureikningarnir séu einkareikningar stefnda.

Málatilbúnaður stefnanda byggist á því að stefndi hafi þannig látið millifæra 85.500.000 krónur af bankareikningi Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. í Kaupþingi hf. og 49.000.000 krónur af bankareikningi félagsins í Landsbankanum, inn á eigin bankareikninga án þess að láta nein raunveruleg verðmæti í staðinn.

Nákominn

Stefndi hafi verið formaður stjórnar  Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf.  frá 9. janúar 2003 til 1. júlí 2005 og einn af eigendum félagsins. Samkvæmt ársreikningi Trésmiðjunnar fyrir árið 2004 hafi stefndi átt 22,5% hlut í félaginu í lok árs 2004. Þótt stefndi hafi látið af stjórnarformennsku í félaginu um mitt árið 2005 hafi hann áfram átt verulegan eignarhluta í því og hafi t.a.m. átt a.m.k. 46,5% hlutafjárins um mitt sumar 2006, en á þeim tíma hafi hann komið fram sem fyrirsvarsmaður félagsins gagnvart lánardrottnum. Samkvæmt framangreindu sé ljóst að á þeim tíma sem hinar riftanlegu greiðslur voru inntar af hendi, á tímabilinu 10. desember 2004 til 19. júní 2006, hafi stefndi verið nátengdur félaginu sem stjórnarformaður og/eða eigandi.  Stefndi hafi í krafti eignarhluta síns og starfa fyrir félagið veruleg áhrif á stefnumótun og ákvörðunartöku hjá því. Því teljist stefndi og Trésmiðja Fljótsdalshéraðs hf. hafa verið nákomin í skilningi 4. - 6. tl. 3. gr. gþskl. Tvær síðustu greiðslurnar séu innan 6 mánaða marksins frá frestdegi, en allar hinar á þeim tíma sem hann sé stjórnarformaður og eigandi að hluta.

Ógjaldfærni

Þó að stefndi hafi sönnunarbyrðina fyrir því að félagið hafi verið gjaldfært sé rétt að fara yfir stöðuna samhengisins vegna.  Fljótlega eftir að stefndi og viðskiptafélagar hans hafi tekið við rekstri Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. hafi tekið að halla verulega undan fæti í rekstri félagsins á sama tíma og fasteignaverð á svæðinu náði óþekktum hæðum og verkefni voru næg. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2004 skuldaði félagið t.d. um 230 milljónir í árslok, þar af hafi 90 milljónir verið vegna yfirdráttarlána hjá ýmsum bönkum. Tap af rekstri félagsins á árinu hafi numið rúmum fjórum milljónum króna. Eignastaðan hafi einnig verið bágborin, þrátt fyrir endurmat á eignum.  Vísist um þessa þætti til framlagðs ársreiknings.  Það sé við þessar aðstæður sem greiðslurnar renni til stefnda. Á þeim tíma sem eftir lifði hjá félaginu hafi rekstur þess bókstaflega verið í andaslitrunum og löngu kominn á gjörgæslu þegar síðustu greiðslurnar hafi runnið til stefnda í júní 2006. Stefnandi telur algjörlega óhugsandi að stefnda, og öðrum sem áttu eignarhlut í Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. og/eða gegndu stjórnunarstöðum hjá félaginu, hafi ekki verið kunnugt um ógjaldfærni þess allt frá árslokum 2004, enda hafi stefndi tekið beinan þátt í e.k. björgunaraðgerðum félagsins.

Greiðslur/endurgjald – gjöf

Stefnandi telur að engin raunveruleg verðmæti hafi komið á móti greiðslunum, en stefndi hafi sönnunarbyrði fyrir því að svo hafi verið.  Engar síðari skýringar stefnda á þessum millifærslum standist skoðun að mati stefnanda. Þegar vaknað höfðu grunsemdir um meint óeðlilegt fjárstreymi úr sjóðum félagsins og inn á reikninga stefnda,  hafi hann afhent óundirritað skjal, sbr. dskj. 4, sem hann kvað vera kaupsamning sem komist hefði á þann 4. janúar 2005 milli sín og Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf.   Sjálfur virðist hann hafa áritað skjalið sem staðfest ljósrit, þrátt fyrir að engin væri undirritunin.

Síðar hafi komið í leitirnar undirritaður kaupsamningur, dags. sama dag og ljósritið óundirritaða, dskj. 4, sem áður hafði verið sýnt, eða þann 4. janúar 2005, sbr. dskj. 24 (sic en telja verður að hér eigi að standa dskj. 25).  Samkvæmt þeim samningi eigi stefndi að hafa selt Friðriki Atla Sigfússyni og Sigurði Gestssyni persónulega 93% hlutafjár í Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf., en einnig 100% hlutafjár í Kass ehf., 100% hlutafjár í HM Festi ehf. og 50% hlutafjár í TF Festi ehf. fyrir kr 207.250.000.-. Engir samningar hafi fundist þar sem Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. séu seld umrædd hlutabréf, en hið óundirritaða skjal hljóti að víkja andspænis hinu undirritaða.

Stefnandi byggir á eftirfarandi að því er endurgjaldið varðar:

Stefndi hafi sönnunarbyrði fyrir tilvist  og verðmæti endurgjalds

Engin hlutabréfaviðskipti höfðu átt sér stað á árinu 2004

Ekkert liggi fyrir um að Trésmiðjan hafi heldur keypt nein hlutabréf síðar, kaupendur hafi verið aðilar persónulega, en eina aðkoma Trésmiðjunnar virðist hafa verið sú  að hún hafi átt að greiða fyrir þá félaga, Friðrik og Sigurð.

Trésmiðjan sé ekki beinn aðili að samningi, dags. 4. janúar 2005

Einkahlutafélögin Kass ehf., TF Festir ehf. og HM Festir ehf. séu og hafi öll verið algerlega verðlaus.

Liðir 1-4 þarfnist ekki skýringar.  Nauðsynlegt sé hins vegar að fjalla lítilsháttar um verðmæti fyrrgreindra hlutafélaga.  Eins og að framan sé rakið séu skýringar á greiðslukvittunum vegna millifærslnanna í flestum tilvikum ,,hlutafé Kass ehf.“ sem virðist gefa til kynna að millifærslurnar hafi verið klæddar í þann búning að Trésmiðja Fljótsdalshéraðs hf. hafi verið að greiða stefnda fyrir hlutfé í einkahlutafélaginu Kass. Það stangist á við framansagt um aðila að kaupsamningi 4. janúar 2005.  Auk þess hafi Kass ehf. á þessum tíma verið skuldsett félag með litla og óljósa eignastöðu og afar lítið tekjustreymi. Samkvæmt ársreikningi Kass ehf. fyrir árið 2004 hafi tap á rekstri félagsins verið tæpar 4,5 milljónir árið 2004 og hafi félagið ekki átt eignir fyrir skuldum. Þá hafi einnig komið í ljós að nokkrar af þeim eignum sem séu taldar til eigna Kass ehf. í umræddum kaupsamningi, dags. 4. janúar 2005, hafi ekki komist í eigu félagsins fyrr en eftir 4. janúar 2005. Nægi í því sambandi að nefna að Kass ehf. hafi ekki notið þinglýstra eignarheimilda yfir Austurmýri 7 og 9 á Selfossi fyrr en 27. janúar 2005, sbr. dskj. 62-63. Kaupsamningur vegna Smiðshöfða 8 í Reykjavík, þar sem Kass ehf. kaupi húsnæði á 2. hæð af SU ehf., sé dags. 1. mars 2005 og innfærður í þinglýsingabók 27. apríl 2005, sbr. dskj. 64-65. Afsal vegna eigendaskiptanna sé dags. 15. mars 2005 og innfært í þinglýsingabók 24. maí 2005. Samkvæmt þessu hafi Austurmýri nr. 7 og 9 og Smiðshöfði 8 ekki verið í eigu Kass ehf. þann 4. janúar 2005 og virðist því  kaupsamningurinn ekki standast þegar af þeirri ástæðu.  Niðurstaðan sé því sú að félagið sé og hafi verið verðlaust, enda styðji eftirfarandi gjaldþrot þess þá fullyrðingu sem og nauðungarsala eigna félagsins.

Þótt hvergi sé minnst á önnur félög í millifærslugögnum en Kass ehf., telur stefnandi að nauðsynlegt sé að fjalla einnig örfáum orðum um einkahlutafélögin HM Festi ehf. og TF Festi ehf.  Stefnandi telur verðmæti þeirra ekkert eða óverulegt og byggir það m.a. á eftirfarandi:

Samkvæmt ársreikningi HM Festis ehf. hafi félagið ekki átt neinar eignir um áramótin 2004/2005 og hafi enga starfsemi stundað á þessum árum.

Sömu sögu sé að segja um TF Festi ehf. Félagið hafi ekki stundað rekstur á árinu 2004 og hafi engar eignir átt í árslok 2004.

Samkvæmt kaupsamningnum sé 100% hlutur í HM Festi ehf. metinn á 19.500.000 krónur og 50% hlutur í TF Festi á 15.000.000 krónur (metið á 20.000.000 króna í hinum samningnum sama dag, sbr. dskj. 4).  Í samningnum segi að lánsloforð félaganna frá Íbúðalánasjóði ,,grundvalli umsamið kaupverð,“ og ennfremur að lánsloforð TF Festis ehf. sé að fjárhæð 800.000.000 króna og lánsloforð HM Festis ehf. að fjárhæð 650.000.000 króna, sem sé röng tilgreining þar sem lánsloforð HM Festis ehf. muni hafa verið samtals að fjárhæð 350.000.000 króna, sbr. dskj. 68.

Lánsloforð frá Íbúðalánasjóði veiti ekki tryggingu fyrir því að handhafi þess fái lán, heldur þurfi að sækja um lán, sbr. 38. gr. reglugerðar nr. 458/1999, m.s.br. og uppfylla önnur skilyrði, m.a. um eigið framlag. Hér skuli einnig vísað til 34. gr. reglugerðarinnar þar sem segi að að Íbúðalánasjóður skuli veita lán til ,,allt að 150 leiguíbúða á ári á árunum 2002-2005“. Að mati stefnanda sé því óraunhæft að verðleggja félag, hvers eina ,,eign“ sé lánsloforð, með þeim hætti sem gert sé í umræddum samningi.

Stefnandi telur að HM Festir ehf. og TF Festir ehf. hafi verið verðlaus félög þann 4. janúar 2005, en einnig löngu fyrir og eftir þær dagsetningar. Gjaldþrot TF Festis ehf. styðji þessa skoðun. Ekkert liggi fyrir um afdrif  HM Festis ehf.

Stefnandi byggi þannig á því að ekkert endurgjald hafi komið fyrir umstefndar greiðslur.

Riftanleg ráðstöfun – endurgreiðsla

Samkvæmt öllu framangreindu telur stefnandi nauðsynlegt, vegna hagsmuna kröfuhafa þrotabúsins, að höfða riftunarmál þetta og telur stefnandi umræddar greiðslur vera riftanlegar á grundvelli XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991, sérstaklega 131., 134., og 141. gr.

Stefnandi telur meðal annars að greiðslur Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. af bankareikningum félagsins til stefnda séu riftanlegar á grundvelli 2. mgr. 131. gr. gþskl. um riftun gjafagerninga. Stefndi hafi verið nákominn Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. í skilningi ákvæðisins, sbr. 4.- 6. tl. 3. gr. laganna, sbr. það sem áður sé rakið. Því telur stefnandi að gjöfum sem afhentar voru allt að 24 mánuðum fyrir frestdag sé hægt að rifta á grundvelli 2. mgr. 131. gr., sbr. 2. málsl. 2. mgr. 131. gr. gþskl. Um tvær seinustu millifærslurnar af reikningi Landsbankans, þann 16. júní 2006 að fjárhæð 3.000.000 króna og þann 19. júní 2006 að fjárhæð 2.000.000 króna, sé vísað til 1. mgr. 131. gr., enda hafi greiðslurnar verið inntar af hendi (afhentar) á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag.

Stefnandi taki hér fram að jafnvel þótt litið yrði svo á að einhver samningur hafi komist á milli stefnanda og stefnda þá hafi gjafahugtakið verið skýrt á annan hátt í gjaldþrotarétti en í fjármunarétti. Þannig taki gjafahugtakið til gagnkvæmra samninga þar sem verulegur munur sé á endurgjaldi því sem seljandi fái í hendur og þeirra verðmæta sem látin séu af hendi í raun. Riftun á grundvelli ákvæðisins byggist því á hlutlægu mati á þessum mismun. Samkvæmt framansögðu telur stefnandi augljóst að verulegur munur sé þarna á.

Þá telur stefnandi að greiðslunum til stefnda megi einnig rifta með vísan til almennu riftunarreglunnar í 141. gr. gjþskl. Stefndi hafi verið grandsamur um ógjaldfærni Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. á því tímabili sem greiðslurnar frá stefnanda til stefnda áttu sér stað auk þess sem greiðslurnar hafi bersýnilega verið ótilhlýðilegar og hafi leitt til verulegrar skerðingar á eignum búsins. Samtals hafi greiðslurnar til stefnda numið 134.500.000 krónum og sé augljóst að svo há fjárhæð hafi haft veruleg áhrif á fjárhag og rekstur trésmiðjunnar, kröfuhöfum þrotabúsins til tjóns.

Krafan um endurgreiðslu sé reist á 142. gr. gþskl.

Vísað er til laga XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sérstaklega 3., 131., 134., 141. og 142. gr. Vísað er til laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Um vexti og vaxtavexti vísast til laga nr. 38/2001, en um  málskostnað til XXI. kafla eml.

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefnandi staðhæfi í stefnu að málatilbúnaður hans byggist á því að stefndi hafi látið millifæra 85.500.000 krónur af reikningi Trésmiðju Fljótsdalshéraðs í Kaupþingi hf. og 49.000.000 króna af bankareikningi félagsins í Landsbankanum, inn á eigin bankareikninga án þess að láta nein raunveruleg verðmæti í staðinn.

Við þennan málatilbúnað sinn sé stefnandi bundinn og sé vörnum stefnda hagað til samræmis við hann.

Í samræmi við framangreint byggir stefnandi aðallega á því téðar greiðslur til stefnda frá TF hafi verið gjafagerningur og þ.a.l. riftanlegar samkvæmt 131.gr. gjaldþrotaskiptalaga. Að auki sé vísað til 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga sem varði óeðlilegan greiðslueyri og að lokum byggi stefnandi á því að stefndi hafi verið grandsamur um ógjaldfærni TF á þeim tíma sem greiðslurnar áttu sér stað.

Gjafagerningur, 131. gr. gjaldþrotaskiptalaga

Af málatilbúnaði stefnanda verði ekki annað séð en hann byggi kröfu sína um riftun samkvæmt 131. gr. á því að um „einhliða úttektir“ stefnda á peningum frá TF hafi verið að ræða og „engar viðhlítandi skýringar“ hafi „fundist á þessum millifærslum, hvorki í bókhaldi né í hinum ýmsu skýringum og skýringarbrotum sem sett hafa verið fram af hálfu stefnda“ og engir gagnkvæmir samningar liggi að baki greiðslunum. Þessi málsástæða stefnanda sé algerlega rakalaus og styðjist ekki við nein haldbær gögn.

Af gögnum málsins, þ.m.t. bókhaldsgögnum og árshlutareikningi TF megi glöggt sjá að grundvöllur greiðslnanna til stefnda sé kaupsamningur hans og TF um einkahlutafélögin Kass ehf., HM-Festi ehf. og TF Festi ehf. Kaupsamningar liggi fyrir á dskj. 24-27, sbr. dskj. 23 sem sé greinargerð með kaupunum. Í árshlutauppgjöri 2006, sbr. dskj. 79, komi fram að hin keyptu félög, (eignir framangreindra hlutafélaga) séu bókfærð hjá félaginu. Sé eignarhlutur TF í téðum félögum metinn og bókfærður á 132.761.192 krónur. Ársreikningar félagsins árið 2005 og árshlutareikningurinn 2006 hafi verið unnir af Jóni S. Ólafssyni viðskiptafræðingi hjá Bókhaldi og Skattskilum ehf., og því löglíkur fyrir því að eignfærslan hafi verið í samræmi við lög um ársreikninga, skattalög og hlutafélagalög. Þá hafi stefndi talið fram sölu hlutabréfanna á skattframtali sínu og hafi fengið álögur í samræmi við það. Liggi því fyrir sönnun um það að kaupsamningur hafi komist á milli TF og stefnda og TF hafi fengið endurgjald fyrir þær greiðslur sem stefndi sé krafinn endurgreiðslu á og þar af leiðandi sé enginn fótur fyrir ofanlýstum málatilbúnaði stefnanda.

Lögmanni stefnanda og VBS hafi verið fullkunnugt um þessa kaupsamninga milli stefnda og Sigurðar og Friðriks, annars vegar, og stefnda og TF, hins vegar, enda hafi eignirnar verið hagnýttar í þágu TF og VBS á árinu 2005 og 2006. Ýmsar eignir einkahlutafélaganna hafi verið seldar, s.s. raðhúsin að Austurmýri 7-9, Selfossi og andvirðinu ráðstafað af TF en þessar fasteignir hafi tilheyrt Kass ehf. Aðrar fasteignir þess félags, s.s. Hafnargata 28, Seyðisfirði og Miðvangur 3-5, Egilsstöðum hafi verið veðsettar VBS vegna skuldbindinga TF við VBS, sbr. dskj. 82. Þá hafi lóðarréttindi félaganna verið veðsett VBS fyrir framkvæmdalánum o.s.frv. VBS og lögmanni stefnanda hafi því fyllilega verið ljós viðskiptin, hvernig fasteignarréttindin voru verðlögð og hafi samþykkt þá verðlagningu de facto m.a. með veitingu lána til TF og dótturfélaganna. Þá sé í dskj. 87 frá ágúst 2006 sérstaklega vísað til dótturfélaga TF.

Á grundvelli framangreinds sé því mótmælt að umræddar greiðslur til stefnda falli undir 131. gr. gjaldþrotaskiptalaga.  Í fjármunarétti sé gjafahugtakið skilgreint þannig, að það sé loforð um afhendingu eignar án þess að fyrir komi endurgjald auk þess sem vilji loforðsgjafans standi ótvírætt til þess að gefa verðmætin. Í gjaldþrotarétti sé byggt á því, til viðbótar framangreindu, að um örlætisgerning sé að ræða, að tilgangurinn sé að gefa fjármuni á kostnað annarra kröfuhafa.

Með engum hætti sé sýnt fram á það af stefnanda að tilgangur með kaupum TF á félögunum, eftir að fyrir lá að þeir Sigurður Gestsson og Friðrik Sigfússon keyptu 93% hlutafjár TF,  hafi verið sá að gefa stefnda fé á kostnað annarra kröfuhafa félagsins. Þvert á móti liggi fyrir í málinu að um gagnkvæman kaupsamning var að ræða og umtalsverðar eignir hafi flust yfir til TF við samninginn sem hafi orðið félaginu að peningum. Á þeim tíma sem samningurinn var gerður hafi félagið verið í stakk búið til að sinna þeim fasteignaþróunarverkefnum sem einkahlutafélögin höfðu ráðist í. Það, að nýir eigendur TF hafi ekki sinnt félaginu og rekstri þess með þeim afleiðingum að ríflega 1 ½ ári eftir söluna hafi hagur þess verið verri en skyldi, sé stefnda óviðkomandi og verði honum ekki kennt um það.

Í þessu máli hátti svo til að þeir einstaklingar sem keypt hafi hlutafé TF af stefnda hafi verið fagmenn á sviði byggingastarfsemi og hugðust nýta sér betra atvinnuástand, aukna kaupgetu og aukna eftirspurn eftir húsnæði á Austurlandi með samsvarandi hækkuðu fasteignaverði, til þess skapa félaginu og hluthöfum þess hagnað. Verðlagning félaganna hafi verið eðlileg í ljósi eigna, bæði bókaðra og dulinna eigna, svo og þeirra fasteignaþróunarverkefna sem félögin höfðu unnið að en félögin hafi haft réttindi yfir ríflega 100 lóðum. VBS, helsti lánadrottinn félagsins, hafi lánað fé til verkefna sem grundvallast hafi á kaupsamningi stefnda og TF auk þess að lána félögunum fé til að kaupa fasteignir á Austurlandi og í Reykjavík. Þess vegna fari því víðsfjarri að kaupsamninginn megi skilgreina sem  örlætisgerning frá eigendum TF til stefnda.

Stefnandi kjósi að byggja mál sitt á því að um örlætisgerning hafi verið að ræða, og að ekkert endurgjald hafi komið frá stefnda til TF. Með því að sýnt hafi verið fram á að þessar staðhæfingar stefnanda séu rangar, og raunar gegn betri vitund hans, þá beri að hafna kröfum hans. Stefnandi byggi ekki á því að um gagnkvæman samning hafi verið að ræða en að endurgjald stefnda hafi, hins vegar, verið óeðlilega lágt. Þar af leiði að ekki verði leyst úr málinu á þeim forsendum. Ex tuto vilji stefndi þó taka fram að stefnandi hafi ekki fært sönnur á það að það endurgjald sem TF fékk frá stefnda hafi ekki verið sanngjarnt og eðlilegt en slíkt sé forsenda greiðsluskyldu stefnda, hvað sem öðru líði. Sönnunarbyrðin um það hvíli á stefnanda ef á því væri byggt að endurgjaldið hafi verið minna en sem nam greiðslum TF.

Í þessu sambandi sé vakin athygli á því að með því að stefnandi forðast vísvitandi að viðurkenna það, sem þó sé öllum hlutaðeigandi ljóst, að um gagnkvæman samning hafi verið að ræða, þá sé engin grein gerð fyrir því af hálfu stefnanda að hve miklu leyti eignir þær sem TF fékk frá stefnda, á grundvelli samningsins, hafi orðið félaginu að verðmæti.  Málið sé því algerlega vanreifað að þessu leyti og þ.a.l. sé ekki unnt að dæma stefnda til greiðslu þegar af þeim ástæðum og skorti því að farið sé að ákvæðum 80. gr. d) EML um skýrleika í málatilbúnaði.

Greiðslur samkvæmt kaupsamningnum hafi verið inntar af hendi á tímabilinu 10. desember 2004 til og með 1. júní 2005, eða u.þ.b. 17 mánuðum fyrir frestdaginn, 24. nóvember 2006. Ákvæði 1. mgr. 131. gr. gjaldþrotaskiptalaga eigi því ekki við, hvað svo sem öðru líði.

Stefndi mótmæli því hann hafi verið nákominn TF í skilningi 3. gr. gjaldþrotaskiptalaga þegar samningur hans og TF var gerður og að unnt sé, ef því sé að skipta, að beita 2. mgr. 131.gr. gjþl. Þegar kaupin hafi átt sér stað hafi stefndi þá þegar verið búinn að selja allt hlutafé sitt í TF til Sigurðar og Friðriks og ákvörðunin um kaup TF á umræddum einkahlutafélögum hafi verið tekin af nýjum eigendum TF á viðskiptalegum forsendum þeirra. Þegar TF hafi greitt stefnda samkvæmt samningnum hafi hann hvorki verið hluthafi né stjórnandi í félaginu og hafi því ekki verið í þeirri aðstöðu að taka ákvarðanir í TF á grundvelli hagsmunatengsla eða sambærilegra tengsla. TF hafi innt greiðslurnar af hendi í samræmi við samningsskyldu sína enda félagið löngu búið að taka yfir og hagnýta sér umrædd einkahlutafélög í sínum rekstri. Stefnandi viðurkenni sjálfur í stefnu að stefndi hafi eignast 46,5% hlutafjár í TF „um mitt sumar 2006“. Þá hafi verið meira en ár liðið frá því að síðasta kaupsamningsgreiðslan var greidd honum. Hlutafjáreign hans í félaginu á þeim tíma hafi enga þýðingu við úrlausn þessa máls.

Ótilhlýðileg ráðstöfun, 141. gr. gþl.

Því sé alfarið hafnað að skilyrði til þess að rifta greiðslunni á grundvelli 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga séu uppfyllt í þessu máli. Grundvallarskilyrði riftunar á þessum grunni séu þau að greiðslan hafi verið ótilhlýðileg, að félagið hafi orðið ógjaldfært vegna ráðstöfunarinnar og stefndi verið grandssamur um slæma fjárhagsstöðu félagsins þegar greiðslan fór fram.

Í fyrsta lagi hafi verið samið um greiðslu í nóvember 2004 sem staðfest hafi verið formlega þann 4. janúar 2005. Ljóst sé að á þeim tíma hafi félagið fyllilega verið gjaldfært. Miða beri við þann dag sem hinn gagnkvæmi samningur sé gerður en ekki hvenær greiðslurnar séu inntar af hendi síðar.

Í öðru lagi hafi TF ekki orðið ógjaldfært vegna samningsins við stefnda þar sem félagið hafi fengið til sín samsvarandi verðmæti sbr. árshlutareikning TF.

Í þriðja lagi hafi greiðslur verið reiddar fram af nýjum stjórnendum félagsins sem hafi tekið ákvörðun um greiðslurnar. Félagið hafi verið gjaldfært þegar þær greiðslur fóru fram. Stefndi hafi enga vitneskju haft um fjárhag og rekstur félagsins eftir mars 2005 umfram aðra kröfuhafa þess, þar sem hann hafi ekki lengur haft með stjórn félagsins að gera. Til marks um það að stefnda hafi verið allsendis ókunnugt um að fjárhagsstaða TF væri lök í júní 2005 sé sú staðreynd að hann féllst á kaupa hlutafé í félaginu á ný um sumarið 2006 og ábyrgjast skuldbindingar TF við Húsasmiðjuna að fjárhæð 30 milljónir króna, leggja félaginu til endurskoðendur og verkfræðing til þess að tryggja rekstur félagsins.  Þá beri að geta þess að stefndi hafi treyst á yfirsýn VBS yfir fjármál TF á grundvelli verkefnafjármögnunar VBS til félagsins.

Með vísan til framangreinds sé algerlega ósannað að fjárhagsstaða TF hafi verið slík að stefnda hafi átt að vera það ljóst að með því að selja félaginu félög sem bæði áttu fasteignir og gríðarleg lóðaréttindi sem veittu TF möguleika á umfangsmikilli byggingarstarfsemi á uppgangstímum á Austurlandi væri hann að hagnýta sér með ótilhlýðilegum hætti fé félagsins á kostnað annarra kröfuhafa þess.

Stefnandi eigi sönnunarbyrðina fyrir því að skilyrði 141 gr. gjaldþrotaskiptalaga séu uppfyllt.

Til vara krefjist stefndi lækkunar á dómkröfum stefnanda. Í fyrsta lagi sé þess krafist að til frádráttar komi þau fjárverðmæti sem TF fékk í sinn hlut samkvæmt kaupsamningnum. Þar sem ekki hafi verið sýnt fram á annað af hálfu stefnanda sé byggt á því af hálfu stefnda að endurgjaldið sem TF fékk jafngildi greiðslum til stefnda og því geti ekki verið um skuld stefnda að ræða. Hvíli sönnunarbyrðin á stefnanda um að endurgjaldið hafi verið lægra en bókfært sé í ársreikningum félagsins, sbr. árshlutareikning 2006. Ekkert í máli sanni að svo sé. Í öðru lagi sé krafist lækkunar á dómkröfum varðandi greiðslur pr. 16. júní og 19. júní 2006 þar sem stefndi hafi greitt 4.321.248 krónur.

Um málskostnað vísar stefndi til 130. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða

Fyrir liggur að bú Trésmiðju Fljótsdalshéraðs var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Austurlands 5. desember 2006. Óumdeilt er að frestdagur samkvæmt 2. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti hafi verið 24. nóvember 2006.

Stefnandi höfðar mál þetta á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti til riftunar á greiðslum til stefnda sem áttu sér stað á tímabilinu 10. desember 2004 til og með 19. júní 2006. Byggir stefnandi á því að stefndi hafi látið millifæra greiðslur af bankareikningum Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. inn á eigin bankareikninga án þess að láta nein raunveruleg verðmæti í staðinn. Nema þessar greiðslur 134.500.000 krónum eða stefnufjárhæð.

Stefndi byggir á því að af bókhaldsgögnum og árshlutareikningi Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. fyrir 2006 megi glöggt sjá að grundvöllur umræddra greiðslna til stefnda sé kaupsamningur hans og trésmiðjunnar um kaup trésmiðjunnar á einkahlutafélögunum Kass, HM Festi og TF Festi sem voru í eigu stefnda. Vísar stefndi í því sambandi til dómskjala nr. 24, sem er óundirritað uppkast af kaupsamningi og til dskj. nr. 27, sem er viðauki við kaupsamning stefnda og Sigurðar og Friðriks, dags. 4. janúar 2005. Þá er einnig bent á að í árshlutauppgjöri 2006 séu félögin bókfærð hjá Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf.

Á dskj. nr. 24 er að finna uppkast af kaupsamningi, dags. 4. janúar 2005, milli Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. og stefnda vegna sölu á þar tilgreindum einkahlutafélögum. Seljandi er tilgreindur stefndi, Jónas A. Þ. Jónsson. Skjalið er ekki undirritað og hefur því ekki samningsgildi.

Á dskj. nr. 25 er hins vegar að finna kaupsamning, dags. 4. janúar 2005, milli stefnda sem seljanda og Sigurðar H. Gestssonar og Friðriks Á. Sigfússonar sem kaupenda. Samkvæmt þessum samningi selur stefndi Sigurði og Friðriki hlutafé sitt í Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf., Kass ehf, HM Festi ehf. og TF Festi. Kaupverð var ekki fastákveðið. Samkvæmt ákvæði í kaupsamningnum skyldi heildarkaupverð þessara félaga vera 207.250.000 krónur en tekið er fram að kaupverð gæti breyst til hækkunar vegna lánsloforða ÍLS og/eða vegna fjölgunar lóða. Þá er ekki tiltekið hvernig eða hvenær kaupverð skyldi greitt. Samkvæmt framburði stefnda fyrir dómi endaði kaupverð á trésmiðjunni í núlli þar sem minni verðmæti hafi reynst í félaginu en lagt var upp með. Sigurður og Friðrik hafi því ekki greitt neitt fyrir trésmiðjuna. Viðaukar við kaupsamning þennan voru gerðir 9. mars 2005 og 1. júlí 2005.

Stefndi bar fyrir dómi að hann teldi kaupsamning milli sín og Sigurðar og Friðriks villandi í uppsetningu þar sem Sigurður og Friðrik hafi verið að kaupa Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf., sem móðurfélag, og það félag hafi átt að kaupa þessi dótturfélög. Þegar virtur er framburður Sigurðar H. Gestssonar virðist skilningur hans á þessum samningi hafa verið sá sami enda lýsti hann því yfir að hann hefði ekki verið að kaupa þessi félög persónulega.

Agnar Agnarsson, löggiltur fasteignasali, sem sá um gerð kaupsamnings milli stefnda og Sigurðar og Friðriks, bar fyrir dómi að gert hefði verið ráð fyrir að Trésmiðja Fljótsdalshéraðs hf. keypti félögin Kass ehf., HM Festi ehf. og TF Festi. Enginn skriflegur samningur um kaup trésmiðjunnar á umræddum félögum liggur hins vegar fyrir í málinu, en einungis óundirritað uppkast af kaupsamningi, eins og áður segir. Stefndi bar fyrir dómi að byggt hefði verið á munnlegum samningi en ekkert er upplýst um efni hans í málinu. Telst því ósannað að um slíkan samning hafi verið að ræða. Hefur því ekki verið sýnt fram á það í málinu að kaupsamningur hafi verið gerður milli Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. og stefnda um kaup trésmiðjunnar á umræddum einkahlutafélögum í eigu stefnda.

Ársreikningur Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. árið 2004 liggur fyrir í málinu. Samkvæmt framburði Jóns Ólafssonar viðskiptafræðings var ársreikningur ekki gerður fyrir árið 2005 en árshlutauppgjör var gert 2006.

Jónatan Smári Svavarsson bar fyrir dómi að í maí 2006 hefði staðið til að hann kæmi að rekstri Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. sem framkvæmdastjóri. Honum hafi verið tjáð að rekstur trésmiðjunnar ætti að vera nokkuð góður. Margt hafi bent til þess, m.a. uppgangur í samfélaginu. Að hans ósk hafi verið unnið árshlutauppgjör 2006. Hafi Jón Ólafsson viðskiptafræðingur komið mest að þessu uppgjöri. Þegar niðurstaða þess hafi legið fyrir hafi hann talið að rekstarforsendur væru ekki til staðar. Uppgjörið hafi einungis sýnt neikvæða rekstarniðurstöðu sem hafi verið þvert á þær forsendur sem aðkoma hans hafi byggst á.

Jón Ólafsson bar fyrir dómi að hann hefði unnið milliuppgjör 2006 upp úr bókhaldi félagsins að beiðni stefnda, Jónasar. Ástæðan hafi verið að menn væru að koma að rekstrinum sem vildu sjá stöðuna. Uppgjörið hafi legið fyrir um 20. júlí 2006 og hafi það í raun verið innanhússplagg hjá trésmiðjunni. Jón bar að ársreikningur fyrir árið 2005 hefði ekki verið gerður, eins og áður segir.

Eins og fram er komið liggur ekki fyrir í máli þessu að ársreikningur fyrir Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. hafi verið gerður árið 2005. Af umæddu árshlutauppgjöri 2006 þykir ekki verða ráðið, eins og stefndi heldur fram, að grundvöllur umræddra greiðslna til stefnda sé kaupsamningur hans og trésmiðjunnar um kaup trésmiðjunnar á einkahlutafélögunum Kass, HM Festi og TF Festi sem voru í eigu stefnda, enda liggur fyrir að enginn slíkur kaupsamningur var gerður, sbr. það sem áður er rakið.

Fyrir liggur, samkvæmt framansögðu, að með kaupsamningi 4. janúar 2005 seldi stefndi Sigurði H. Gestssyni og Friðrik Atla Sigfússyni hlutafé sitt í Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. og hlutafé sitt í Kass ehf., HM Festi og TF Festi. Hvað sem aðilar þessa samnings höfðu í huga við gerð hans þá verður hann ekki túlkaður á annan hátt en að Sigurður og Friðrik hafi persónulega keypt umrætt hlutafé. Ekkert í samningnum gefur vísbendingu um að Trésmiðja Fljótsdalshéraðs hf. sé aðili að þessum samningi. Hefur ekki verið sýnt fram á að neinn annar samningur hafi verið gerður um kaup trésmiðjunnar á hlutafé í Kass ehf., HM Festi og TF Festi, hvorki skriflegur né munnlegur. Breytir engu hér um þótt eignir þessara hlutafélaga hafi að einhverju leysti nýst Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. eins og virðist vera raunin samkvæmt því sem fram hefur komið.

Stefndi byggir á þeirri málsástæðu að endurgjald hafi komið fyrir þær greiðslur sem færðar voru af bankareikningi Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. á bankareikninga stefnda. Reifar stefndi í löngu máli í greinargerð sinni eignastöðu félaganna Kass ehf., TF Festis ehf. og HM Festis ehf. Með því að ekki hefur verið sýnt fram á að Trésmiðja Fljótsdalshéraðs hf. hafi gert samning um kaup á þessum félögum þykir ekki ástæða til þess að reifa þessa málsástæðu stefnda nánar. Hefur ekki verið sýnt fram á að neinn samningur liggi til grundvallar greiðslum til stefnda vegna hlutafjár í Kass ehf. sem stefnandi krefst riftunar á í máli þessu eða að endurgjald af hálfu stefnda hafi komið til. Telja verður því að um gjöf til stefnda hafi verið að ræða í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti.

Samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 má krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar má krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent sex til tólf mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Þetta gildir einnig um gjafir til nákominna sem hafa verið afhentar sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag.

Í 3. gr. laga nr. 21/1991 er að finna skýringar á orðinu nákominn. Segir í tl. 4  að orðið nákomnir í lögunum sé notað um mann og félag eða stofnun sem hann eða maður honum nákominn á verulegan hluta í.

Samkvæmt vottorði fyrirtækjaskrár, sem móttekið var 9. janúar 2004, var stefndi tilgreindur stjórnarformaður Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. 30. desember 2003. Samkvæmt kaupsamningi 4. janúar 2005 seldi hann Friðriki A. Sigfússyni og Sigurði H. Gestssyni hlutafé sitt í trésmiðjunni sem var 93% af hlutafé félagsins. Samkvæmt framburði stefnda og Sigurðar fyrir dómi tóku þeir Sigurður og Friðrik við rekstri félagsins fljótlega upp úr áramótum 2005 en samkvæmt gögnum úr fyrirtækjaskrá var stefndi stjórnarformaður til 1. júlí 2005 og bar ábyrgð sem slíkur. Fram er komið að samstarf þeirra félaga, Sigurðar og Friðriks, gekk ekki sem best og bar Sigurður að hann hefði hætt afskiptum af trésmiðjunni um sumarið 2005 og hefði hann selt stefnda sinn hlut í trésmiðjunni.

Trésmiðja Fljótsdalshéraðs hf. og Verðbréfastofan hf. gerðu með sér samning um fjármögnun vegna lóðarkaupa í Fellabæ og Egilsstöðum 30. nóvember 2004. Fyrir dóminn kom Hlynur Jónsson Arndal, starfsmaður Verðbréfastofunnar hf.  Kvaðst hann hafa komið að málefnum trésmiðjunnar í júnímánuði 2005. Hafi þá verið mikill þrýstingur af hálfu stjórnenda trésmiðjunnar að fá fé hjá Verðbréfastofunni hf. Kvað hann verkstöðu fyrirtækisins tæplega hafa leyft frekari fjármögnun. Þá hafi verið komið í ljós að Verðbréfastofan hf. hefði lánað í tiltekin verk fjármuni sem virtust ekki skila sér til starfsmanna trésmiðjunnar. Þá hafi fjármagnið heldur ekki verið til staðar í félaginu. Síðar hafi komið í ljós að engin gatnagerðargjöld hefðu verið greidd af lóðum í Fellabæ. Leitað hafi verið eftir skýringum og hafi stefndi, Jónas, verið sendur fyrir hönd trésmiðjunnar. Hafi viðbrögð hans ekki verið þau sem búist var við. Hann hafi talið þetta tóma vitleysu og ekki sýnt neina viðleitni til útskýringa.

Eins og áður greinir var stefndi stjórnarformaður Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. á þeim tíma sem átta af hinum tíu umdeildu greiðslum fóru fram, eða á tímabilinu 10. desember 2004 til 1. júní 2005. Telja verður að hann, stöðu sinnar vegna, sem eigandi til 4. janúar 2005 og stjórnarformaður til 1. júlí 2005, hafi haft afskipti af félaginu og tekið þátt í ákvarðanatöku varðandi málefni félagsins. Í ljósi þess telst hann hafa verið nákominn í skilningi 131. gr. gjaldþrotaskiptalaga, sbr. og 4. tl. 3. gr. sömu laga. Teljast umræddar greiðslur til stefnda því riftanlegar nema sýnt sé fram á að félagið hafi verið gjaldfært á þessum tíma. Stefndi hefur sönnunarbyrðina fyrir því að svo hafi verið.

Samkvæmt árshlutauppgjöri 2006 sem samið er af  Jóni Ólafssyni, og hefur ekki verið vefengt af stefnda, kemur fram í leiðréttum samanburðartölum rekstrarreiknings 2004 að framleiðslukostnaður það ár er ranglega vanmetinn um 70 milljónir króna. Ef þessi leiðrétting er færð inn í efnahagsreikning ársins er ljóst að eigið fé TF er ofmetið um 70 milljónir króna í árslok 2004, sem þýðir að eigið fé verður neikvætt um 65 milljónir króna sem sýnir fram á að félagið hafi ekki verið gjaldfært í árslok 2004. Að mati dómsins kemur glögglega fram í þessu árshlutauppgjöri að félagið var ógjaldfært í árslok 2004. Teljast umræddar greiðslur til stefnda því riftanlegar á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991.

Stefndi heldur því fram að greiðslur sem inntar voru af hendi til hans 16. júní 2006 og 19. júní 2006 hafi komið þannig til að hann hafi að beiðni framkvæmdastjóra trésmiðjunnar tekið að sér að vera milligöngumaður og annast skuldaskil fyrir félagið og hafi hann ráðstafað umræddum greiðslum í þágu trésmiðjunnar. Þykja ekki efni til að vefengja fullyrðingu stefnda að þessu leyti. Samkvæmt framlögðum kvittunum eru allar þessar greiðslur nema ein tilkomnar vegna skulda Kass ehf. Kvittun vegna greiðslu að fjárhæð 432.000 krónur ber með sér að greidd hefur verið skuld Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. við Húsasmiðjuna hf.

Í ljósi þess sem rakið er hér að framan hefur ekki verið sýnt fram á að Trésmiðja Fljótsdalshéraðs hf. hafi verið ábyrg fyrir skuldum Kass ehf. Er ekki sýnt fram á að endurgjald af hálfu stefnda hafi komið til vegna þessara greiðslna sem lagðar voru inn á bankareikning hans. Teljast greiðslur þessar, að undanskilinni greiðslu að fjárhæð 432.000 krónur, riftanlegar á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991.

Með vísan til 142. gr. laga nr. 21/1991 ber stefnda að endurgreiða stefnanda 134.068.000 krónur ásamt þeim vöxtum sem um er krafið.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða málskostnað sem ákveðst 1.500.000 krónur.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt meðdómendunum Guðmundi Jens Þorvarðarsyni endurskoðanda og Reyni Ragnarssyni endurskoðanda.

Dómsorð:

Rift er eftirfarandi greiðslum hins gjaldþrota félags, Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf., til stefnda, Jónasar Andrésar Þórs Jónssonar, samtals að fjárhæð 134.068.000 krónur, er fram fóru:

 

þann 10. desember 2004, fjárhæð 24.500.000 krónur

þann 14. desember 2004, fjárhæð 10.000.000 krónur

þann 15. desember 2004, fjárhæð 35.000.000 krónur

þann 16. desember 2004, fjárhæð 4.000.000 krónur

þann 21. janúar 2005, fjárhæð 12.000.000 krónur

þann 1. apríl 2005, fjárhæð 9.000.000 krónur

þann 1. apríl 2005, fjárhæð 25.000.000 krónur

þann 1. júní 2005, fjárhæð 10.000.000 krónur

þann 16. júní 2006, fjárhæð 3.000.000 krónur

þann 19. júní 2006, fjárhæð 1.568.000 krónur

 

Stefndi, Jónas Andrés Þór Jónsson, greiði stefnanda, þrotabúi Trésmiðju Fljótsdalshéraðs, 134.068.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr.  laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 24.500.000 krónum frá 10. desember 2004 til 14. desember 2004, af 34.500.000 krónum frá þeim degi til 15. desember 2004, af 69.500.000 krónum frá þeim degi til  16. desember 2004, af  73.500.000 krónum frá þeim degi til 21. janúar 2005, af 85.500.000 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2005, af 119.500.000 krónum frá þeim degi til 1. júní 2005, af 129.500.000 krónum frá þeim degi til 16. júní 2005, af 132.500.000 krónum frá þeim degi til 19. júní 2005, en af 134.068.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.