Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-14
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Embættismenn
- Stjórnsýsla
- Starfslok
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 8. janúar 2021 leitar Ágústa Elín Ingþórsdóttir leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 11. desember 2020 í málinu nr. 829/2019: Ágústa Elín Ingþórsdóttir gegn íslenska ríkinu, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur í fyrsta lagi að kröfu leyfisbeiðanda um að viðurkennt verði með dómi að skipunartími hennar í embætti skólameistara Fjölbrautaskóla Vesturlands hafi framlengst til fimm ára frá 1. janúar 2020 til 31. desember 2025. Í annan stað krefst leyfisbeiðandi þess að ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra um að embætti skólameistara yrði auglýst laust til umsóknar frá og með 1. janúar 2020, verði felld úr gildi en til vara að viðurkennt verði að ákvörðunin hafi verið ólögmæt. Ágreiningur aðila lýtur einkum að því hvort leyfisbeiðanda hafi verið tilkynnt ákvörðun ráðherra um að embætti skólameistara Fjölbrautaskóla Vesturlands yrði auglýst laust til umsóknar með sex mánaða fyrirvara í samræmi við 2. mgr. 23. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í héraðsdómi, sem staðfestur var í meginatriðum með skírskotun til forsendna hans í Landsrétti, var íslenska ríkið sýknað af kröfum leyfisbeiðanda. Þótti sannað í málinu að leyfisbeiðanda hafi í símtali sem ráðherra átti við hana 30. júní 2019 verið tilkynnt um þá ákvörðun ráðherra að auglýsa embættið laust til umsóknar og talið að um fullnægjandi tilkynningu samkvæmt 2. mgr. 23. gr. laga nr. 70/1996 hafi verið að ræða. Var jafnframt talið að ákvörðunin hefði verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum.
Leyfisbeiðandi byggir leyfisbeiðni sína á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi auk þess sem hún telur dóm Landsréttar bersýnilega rangan að formi og efni. Hún byggir á því að mat héraðsdóms og Landsréttar á því að gagnaðili hafi fært fram fullægjandi sönnun um að leyfisbeiðanda hafi verið tilkynnt um íþyngjandi ákvörðun ráðherra innan tímamarka 2. mgr. 23. gr. laga nr. 70/1996 sé rangt. Vísar hún til dóma Hæstaréttar 25. febrúar 1999 í máli nr. 247/1998 og 28. september 2000 í máli nr. 72/2000 þar sem stjórnvöld hafi verið látin bera hallann af því að hafa ekki tryggt sér sönnun með óyggjandi hætti um atvik sem voru umdeild í samskiptum starfsmanns annars vegar og þeirra sem fóru með ráðningarvald hins vegar. Þá hafi málið jafnframt fordæmisgildi um það álitaefni hvort ákvörðun ráðherra um að auglýsa embætti laust til umsóknar sé stjórnvaldsákvörðun sem falli undir gildissvið stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en ella um skyldu ráðherra til að gæta að meginreglum stjórnsýsluréttar við ákvarðanatöku. Verði að líta til þess að ákvörðun ráðherra hafi verið að rekja til ávirðinga sem bornar hafi verið á leyfisbeiðanda í aðdraganda ákvörðunarinnar.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til eða formi, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.