Hæstiréttur íslands

Mál nr. 527/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 12

 

Föstudaginn 12. október 2007.

Nr. 527/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. október 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. október 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 15. október 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                               

                                         Úrskurður Héraðsdóms Reykja­víkur 8. október 2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu þess efnis að kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. október nk. kl. 16.00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að í gær, um kl. 13:34,  hafi kærði, X, tilkynnt lögreglu að nágranni hans og vinur, Y, kt. [...], lægi rænulaus í rúmi sínu að [...], íbúð [...], í Reykjavík.  Hafi kærði farið inn í opna íbúð Y og komið að honum liggjandi í blóði sínu.

Kl. 13:39 hafi lögregla komið á vettvang og hitt þar fyrir kærða sem hafi vísað lögreglu á íbúð Y.  Þegar komið hafi verið inn í íbúðina var hún verið mettuð ljósum reyk.  Í svefnherbergi íbúðarinnar hafi Y legið á hægri hlið í rúmi sínu, alklæddur og í skóm, með sæng og kodda yfir höfði sér.  Er lögregla hafi lyft sænginni og koddanum af höfði Y hafi mátt sjá mikla áverka vinstra megin á andliti hans.  Þá hafi mátt sjá duft úr slökkvitæki á vinstri vanga Y og í rúmi hans, einnig blóðslettur á veggnum fyrir ofan höfuðgafl rúmsins.   Hafi Y verið fluttur á slysadeild, þar sem hann hafi látist af sárum sínum kl. 23:30.

Í vottorði Z komi fram að Y hafi orðið fyrir mjög alvarlegum og í byrjun greinilega lífshættulegum áverkum við áverkana sem hafi hlotist  fyrr um daginn og dregið hann til dauða.

Ætla megi að Y hafi verið veitt höfuðhögg með slökkvitæki því sem hafi fundist á vettvangi.

Kl. 14:23 hafi kærði X verið handtekinn, grunaður um að hafa veitt Y umrædda áverka.  Við handtöku hafi kærði verið verulega ölvaður, jafnvægi hans óstöðugt og málfar eilítið óskýrt.

Við athugun lögreglu á vettvangi hafi kærði haft nýlegt hrufl á fingri, þá hafi mátt sjá á höndum hans duft úr slökkvitæki.  Hafi kærði ekki getað gefið viðhlítandi skýringu á tilkomu áverka og dufts á höndum sínum.

Við húsleit á heimili kærða að [...], íbúð [...], hafi fundist úlpa með blóðblettum á, duft úr slökkvitæki og blóðkám á á vaski, rafmagnsrofa og útidyrahurð.

Öryggismyndavélakerfi sé í fjölbýlishúsinu og við skoðun á myndbandsupptökum þess sjáist, kl. 11:25 Y og kærði X fara saman út úr húsinu.  Kl.  11:33 komi þeir svo saman inn.  Enginn sjáist koma eða fara út úr húsinu, uns lögregla komi inn í andyrið kl. 13:38.

Við nánari skoðun megi sjá kærða X íklæddan úlpu sem líkist mjög úlpu þeirri sem hafi fundist blóðug í íbúð hans.  Þá megi sjá kærða, þar sem þeir séu báðir staddir í anddyri hússins, baða út höndum eins og um ósætti væri að ræða þeirra á milli. 

Nú fyrr í dag hafi verið tekin skýrsla af kærða þar sem hann neiti sök.  Kveðist hann hafa verið með Y við drykkju frá því á laugardaginn var í íbúð Y.  Um hádegisbilið í gær hafi Y lagst upp í rúm og sofnað.  Þá hafi hann ákveðið að fara yfir í sína íbúð, þar sem hann hafi haldið áfram drykkju.  Um 40 mínútum seinna hafi hann farið yfir til Y og þá séð hann blóðugan í rúminu, hann þá tekið um höfuð hans til að reyna að losa um öndunarveg hans.  Hann hafi séð slökkvitæki í rúminu og ýtt því frá.  Að því loknu hafi hann hringt í 112 og óskað eftir aðstoð lögreglu.  Hann segist hafa beðið eftir lögreglu allan tímann inn í íbúð Y. 

Aðspurður um ferðir sínar í hádeginu í gær, samanber myndbandsupptökur, segist hann ekki muna eftir því að hafa farið út.  Þá hafi kærði verið spurður um blóðkám sem hafi fundist í íbúð hans, sem hann hafi sagt tilkomið er hann fór yfir í sína íbúð, í fylgd lögreglu. 

Rannsókn málsins sé á algjöru frumstigi og því afar brýnt að kærði fái ekki svigrúm til að torvelda hana eða spilla henni á nokkurn hátt.  Fyrir liggi að afla vitna og taka skýrslur af þeim, auk þess sem unnið sé að rannsókn sönnunargagna, m.a. m.t.t. framburðar kærða. 

Kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a.-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Kærða er gefið að sök brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga.  Með vísan til þess sem fram kemur í greinargerð lögreglustjóra og þess sem rannsóknargögn málsins bera með sér er fallist á að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varðað getur fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi og fallist er á að kærði geti torveldað rannsókn málsins með því að koma undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á vitni, gangi hann laus. Er því fallist á kröfu um gæsluvarðhald eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 15. október nk. kl. 16.00.