Hæstiréttur íslands

Mál nr. 163/1999


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


                                                         

Miðvikudaginn 21. apríl 1999.

Nr. 163/1999.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Elín Vigdís Hallvarðsdóttir)

gegn

Agnari Víði Bragasyni

(Sigurður Georgsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður l. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Niðurstaða héraðsdóms um að A skyldi sæta gæsluvarðahaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála  var staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. apríl 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. apríl 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 17. maí nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. apríl 1999.

Ár 1999, laugardaginn 17. apríl, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem haldið er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Sigurjónu Símonardóttur settum héraðsdómara kveðinn upp úrskurður þessi.

Lögreglan hefur krafist þess að kærða, Agnari Víði Bragasyni, kt. 160966-3009, Bragagötu 23, Reykjavík, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 allt til mánudagsins 17. maí nk. kl. 16.00.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins var kærði handtekinn sl. nótt í húsnæði JP Tattoo að Laugavegi 32b, Reykjavík, en rekstraraðilar fyrirtækisins höfðu komið að kærða í húsnæðinu þá skömmu áður og hafði hann verið búinn að stinga á sig skartgripum að áætluðu verðmæti 150.000 til 200.000 krónur, myndavél að áætluðu verðmæti 50.000 krónur og sex ávísunum um 50.000 krónur. Kærði hefur viðurkennt að hafa farið inn um glugga í húsnæði JP Tattoo, hann hafi séð skartgripina, myndavélina og ávísanirnar og ákveðið að taka það með sér.

Lögreglan vísar til þess að til rannsóknar séu fleiri mál á hendur kærða. Þannig hafi kærði verið handtekinn aðfaranótt mánudagsins 5. apríl sl. með fíkniefni í vörslum sínum. Hafi kærði verið á bifreið, sem hann hafi fengið að láni, en í bifreið þessari hafi fundist munir úr nokkrum innbrotum. Vegna þessa máls hafi kærði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald frá 5. apríl til 9. apríl. Þann 29. mars sl. hafi kærði verið handtekinn eftir að hafa tekið tösku úr bifreiðinni AP-193 sem stóð við Nesti við Bíldshöfða. Í töskunni hafi verið framhlið af Sony útvarps- og geislaspilara og vasamyndavél. Eigandi bifreiðarinnar hafi komið að kærða í bifreiðinni og náð honum á hlaupum. Kærði hafi viðurkennt að hafa farið inn í bifreiðina og tekið þaðan töskuna.

Þá séu til meðferðar fyrir dómi þrjár ákærur, útgefnar af lögreglustjóranum í Reykjavík á hendur kærða. Í ákæru útgefinni 10. febrúar sl. séu kærða gefin að sök þrjú fíkniefnabrot, í ákæru útgefinni 30. mars sl. séu honum gefin að sök þrjú þjófnaðarbrot, tvö fíkniefnabrot og einnig skjalafals og í ákæru útgefinni 14. apríl sl. sé hann ákærður fyrir þjófnað. Lögreglan kveður kærða vera undir rökstuddum grun um að hafa framið innbrot, þjófnaði og fíkniefnabrot og samkvæmt ferli hans undanfarið sé talið víst að hann muni halda afbrotum sínum áfram meðan málum hans sé ekki lokið, sbr. c-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verið sé að rannsaka ætluð brot kærða á 244. gr. almennra hegningarlaga og lögum nr. 65/1974 og reglugerð nr. 16/1986 sem gæti varðað fangelsisrefsingu.

Upplýst er að kærði hlaut nýlega dóm á grundvelli ákærunnar frá 10. febrúar sl. þar sem honum voru gefin að sök þrjú fíkniefnabrot framin á tímabilinu 3. september 1998 til 9. janúar 1999. Var hann fundinn sekur um brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og gert að greiða 70.000 króna sekt. Í ákæru útgefinni 30. mars sl. eru kærða gefin að sök þrjú þjófnaðarbrot á tímabilinu 8. til 11. febrúar sl. þar sem stolið var töluverðum verðmætum. Þá er honum í sömu ákæru gefið að sök skjalafals með því að hafa í félagi við annan 4. janúar sl. notað í viðskiptum tvo tékka samtals að fjárhæð 288.000 krónur sem kærði falsaði undirskriftir á. Auk þessa eru kærða gefin að sök tvö fíkniefnabrot. Í ákæru útgefinni 14. apríl sl. er kærða gefinn að sök þjófnaður 4. janúar sl. en í því tilviki var ekki um mikil verðmæti að ræða.  Kærði hefur fyrir dómi viðurkennt sakargiftir samkvæmt framangreindum ákærum en dómsmeðferð er ekki lokið. Hjá lögreglu eru nú til meðferðar þrjú mál á hendur kærða, þar með talið mál vegna þjófnaðartilraunar kærða sl. nótt sem hann hefur viðurkennt fyrir dóminum. Eitt þessara mála er vegna fíkniefnamisferlis og gruns um aðild að nokkrum innbrotum en munir úr innbrotum frömdum á tímabilinu mars til apríl sl. fundust 5. apríl sl. í bifreið sem kærði hafði umráð yfir. Sætti kærði gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar þess máls 5.-9. apríl sl. Kærði hefur neitað að vita nokkuð um framangreinda muni, sem fundust í bifreiðinni, utan bakpoka sem hann kvaðst eiga og í var kúbein. Þá hefur kærði viðurkennt að hafa 29. mars sl. tekið tösku úr bifreið, sem stóð við Nesti við Bíldshöfða en kærði var staðinn að þjófnaði þessum. Fallist er á með lögreglu að kærði sé undir rökstuddum grun um framangreind brot. Lögreglan kveður ætlun sína vera að ljúka rannsókn ofangreindra mála og gefa út ákæru á næstunni þannig að hægt verði að ljúka öllum málum kærða á fyrirhuguðum gæsluvarðhaldstíma.

Upplýst er að kærði er fíkniefnaneytandi og grunur leikur á að framangreind brot hans séu framin undir áhrifum vímuefna. Með vísan til þess sem að framan er rakið um brotaferil kærða á síðustu mánuðum, einkum þess að kærði hefur ekki látið skipast við gæsluvarðhald það sem hann sætti 5.-9. apríl sl., þykir mega ætla að hann muni halda áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið. Er því fullnægt skilyrðum c liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til gæsluvarðhalds yfir kærða og verður kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 17. maí 1999 kl. 16.00.

Úrskurðarorð:

Kærði, Agnar Víðir Bragason, sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 17. maí 1999 kl. 16.00.