Hæstiréttur íslands

Mál nr. 493/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Yfirmat


                                     

Mánudaginn 25. ágúst 2014.

Nr. 493/2014.

Bolungarvíkurkaupstaður

(Einar Baldvin Axelsson hrl.)

gegn

Officine Maccaferri S.p.A

(Eiríkur Elís Þorláksson hrl.)

Ósafli sf.

(enginn)

ÍAV hf.

(enginn)

Marti Contractors Ltd. og

(enginn)

Eflu hf.

(enginn)

Kærumál. Dómkvaðning matsmanna. Yfirmat

B höfðaði mál gegn O, Ó sf., Í hf., M Ltd. og E hf. vegna ætlaðra galla á verki við uppbyggingu snjóflóðavarnargarða í B. Fyrir þingfestingu málsins í héraði krafðist B þess að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta nánar tilgreind atriði varðandi fyrrgreindar framkvæmdir, meðal annars um ástæður þess að netgreindur og grjótfylling hefðu hrunið í snjóflóðavarnargörðunum. Við meðferð málsins lagði O fram beiðni um að dómkvaddir yrðu þrír menn til að framkvæma yfirmat á tilteknum atriðum í tengslum við fyrrnefnda matsgerð. Í úrskurði héraðsdóms var beiðni O tekin til greina með vísan til þess að þrátt fyrir að spurningar yfirmatsbeiðninnar væru ekki þær sömu og fram hefðu komið í undirmatsbeiðni væri yfirmatsmönnum samkvæmt beiðninni ætlað að endurmeta það sem matsmönnunum hefði verið falið að meta í undirmati, þ.e. orsakir þess að netgrindur og grjótfylling höfðu hrunið niður í umræddum snjóflóðavarnargörðum. Í dómi Hæstaréttar var hinn kærði úrskurður hins vegar felldur úr gildi og tekið fram að þær spurningar, sem fram kæmu í matsbeiðni O, væru hvergi nærri þær sömu eða samsvarandi þeim, sem leitað hefði verið svara við í matsbeiðni B. Samkvæmt 64. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála gæti aðili krafist yfirmats um atriði sem áður hefðu verið metin. Þessu skilyrði væri ekki fullnægt.  

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. júlí 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2014, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðilans Officine Maccaferri S.p.A um að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn til að leggja mat á nánar tilgreind atriði. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu um dómkvaðningu yfirmatsmanna. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Officine Maccaferri S.p.A krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins á það rætur að rekja til verks við uppbyggingu snjóflóðavarnargarða undir Traðarhyrnu í Bolungarvík, en í tengslum við það voru gerðir þrír samningar. Í fyrsta lagi tók varnaraðilinn Efla hf. að sér ráðgjöf við sóknaraðila í tengslum við gerð varnargarðanna, þar á meðal að gera gögn vegna útboðs á verkinu, sem fór fram 2008, og yfirferð tilboða vegna annars útboðs á árinu 2009. Í öðru lagi gerði sóknaraðili samning 24. júní 2008 við varnaraðilann Ósafl sf. á grundvelli útboðs á verkinu. Samkvæmt samningnum fólst það í gerð 710 m langs varnargarðs og átta keilna fyrir ofan byggð. Í garðinn og keilurnar skyldi nota jarðefni, sem fengin væru innan framkvæmdasvæðisins, bæði laus efni og efni úr bergskeringum. Sú hlið varnargarðsins og keilnanna, sem sneri móti fjalli, yrði byggð upp með netgrindum og styrktum jarðvegi. Undir verkið heyrði einnig rif mannvirkja og gerð vinnuvega, gangstíga og drenskurða. Í þriðja lagi gerði sóknaraðili samning við varnaraðilann Officine Maccaferri S.p.A í kjölfar annars útboðs um stoðvirki fyrir varnargarðana. Í málinu liggur fyrir skriflegur samningur um þetta efni, sem var dagsettur 11. mars 2009 en ekki undirritaður af hálfu aðilanna.

Sóknaraðili kveður vandamál hafa komið upp við framkvæmd verksins, sem hafi valdið sér tjóni. Stóðu sóknaraðili og varnaraðilarnir Ósafl sf., Officine Maccaferri S.p.A og Efla hf. sameiginlega að því að afla af því tilefni skýrslu þriggja sérfræðinga, þar sem leitað var svara við því annars vegar hverjar væru orsakir þess að netgrindur hafi hrunið og hvaða ráðstafanir væru nauðsynlegar til að lagfæra gallann og koma í veg fyrir að netgrindur og grjótfylling hryndu aftur. Hins vegar hvort hætta væri á að netgrindur, sem enn héldu, gæfu eftir og hryndu, en ef svo væri hverjar væru orsakir þess og hvaða leiðir væru til að girða fyrir að það gerðist. Í skýrslu sérfræðinganna 25. nóvember 2009 var talið að ýmislegt í hönnun og framkvæmd verksins hefði mátt betur fara, en áður en lengra yrði haldið væri nauðsynlegt að netgrindur, breidd grjótfyllingar og tenging netgrinda inn í styrktan jarðveg sættu ítarlegri endurskoðun. Einnig bæri nauðsyn til að yfirfara álagsforsendur, öryggisstuðla og efnisgæði, svo og að kanna hönnunarforsendur betur með tilliti til aðstæðna á verkstað. Þá var talið eðlilegt að athuga áhrif breytileika í efnisgæðum við endurskoðun á hönnun mannvirkisins.

Sóknaraðili leitaði eftir því 4. mars 2010 að dómkvaddir yrðu menn til að meta „hvað farið hefur úrskeiðis við uppbyggingu bratta hluta varnargarðsins og skal það mat taka til bæði hönnunar, efnis og framkvæmdar.“ Nánar tiltekið óskaði sóknaraðili eftir því að í matsgerðinni yrði svarað spurningum undir lið með fyrirsögninni: „Netgrindur sem hafa hrunið“, sem var svohljóðandi: „Netgrindur hafa gefið eftir með þeim afleiðingum að grjótfylling hefur hrunið niður. Óskað er eftir því að matsmenn leggi mat á eftirfarandi: i. Hver er orsök þess að netgrindur og grjótfylling hafa hrunið niður? ii. Hvaða ráðstafanir eru nauðsynlegar til að lagfæra gallann og koma í veg fyrir að netgrindur og grjótfylling hrynji aftur? iii. Hver er kostnaðurinn við að lagfæra gallann og koma í veg fyrir að netgrindur og grjótfylling hrynji aftur?“ Þá óskaði sóknaraðili eftir að svarað yrði spurningum í lið með fyrirsögninni: „Aðrar netgrindur“, þar sem sagði eftirfarandi: „Óskað er eftir að hinir dómkvöddu matsmenn fari yfir allt verkið og meti hvort netgrindur, sem enn halda, séu líklegar til að gefa eftir. Í því sambandi er sérstaklega bent á að tengijárn hafa á sumum stöðum slitnað. Óskað er eftir því að matsmenn leggi mat á eftirfarandi: i. Er hætta á því að netgrindur, sem enn halda, gefi eftir og hrynji niður? ii. Ef svo er, hver er orsök þess að hætta er á að netgrindur og grjótfylling hrynji niður? iii. Hvaða leiðir eru til úrbóta til að fyrirbyggja að fleiri netgrindur hrynji? iv. Hver er kostnaðurinn við að lagfæra slíkan galla og koma í veg fyrir að fleiri netgrindur hrynji?“ Tveir menn voru dómkvaddir 23. apríl 2010 til matsstarfa samkvæmt þessari beiðni og luku þeir matsgerð 29. desember sama ár. Að henni fenginni höfðaði sóknaraðili mál á hendur varnaraðilum með stefnu 24. september 2012, þar sem hann krafðist þess annars vegar að þeim yrði öllum í sameiningu gert að greiða sér 43.937.250 krónur og hins vegar að varnaraðilinn Officine Maccaferri S.p.A yrði einn dæmdur til að greiða sér 103.230.000 krónur. Málatilbúnaður sóknaraðila var í meginatriðum reistur á niðurstöðum matsgerðarinnar.

Í þinghaldi í málinu 13. maí 2014 lagði varnaraðilinn Officine Maccaferri S.p.A fram beiðni um að dómkvaddir yrðu þrír menn til að „framkvæma yfirmat á nánar tilgreindum atriðum í tengslum við matsgerð, dags. 29. desember 2010“. Í hinum kærða úrskurði eru 25 spurningar, sem varnaraðilinn vill fá svör yfirmatsmanna við, teknar upp orðréttar úr matsbeiðni hans. Ljóst er af því, sem þar kemur fram, að þessar spurningar eru hvergi nærri þær sömu eða samsvarandi þeim, sem leitað var svara við í áðurnefndri matsbeiðni sóknaraðila 4. mars 2010. Samkvæmt 64. gr. laga nr. 91/1991 getur aðili krafist yfirmats, þar sem tekin verði til yfirmats þau atriði, sem áður hafa verið metin. Þessu skilyrði ákvæðisins fyrir yfirmati er ekki fullnægt til að verða við beiðni varnaraðilans Officine Maccaferri S.p.A og ber því að hafna henni.

Varnaraðilanum Officine Maccaferri S.p.A verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hafnað er beiðni varnaraðilans Officine Maccaferri S.p.A um dómkvaðningu yfirmatsmanna.

Varnaraðilinn greiði sóknaraðila, Bolungarvíkurkaupstað, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2014.

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar hinn 12. júní sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Bolungarvíkurkaupstað, á hendur Officine Maccaferri S.p.A, VIA J.F. Kennedy, 10 40069 Zola Predosa, Ítalíu, Ósafli sf., Höfðabakka 9, Reykjavík og eigendum þess Marti Contractors Ltd. Seedorffeldstrasse 21, CH-3302 Moosseedorf, Sviss og Íslenskum aðalverktökum hf., Keflavíkurflugvelli, Reykjanesbæ og Eflu hf. (áður Línuhönnun hf.), Höfðabakka 9, 110 Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 24. september 2012 og þingfestri 27. september 2012, og  Vittoria Assicurazioni S.p.A., Mílanó, Ítalíu, til réttargæslu.

                Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 43.937.250 krónur auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 24. febrúar 2011 til greiðsludags.   Krafist er að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn hinn 24. febrúar 2012, en síðan árlega þann dag.

Stefnandi gerir enn fremur þá kröfu að stefnda Officine Maccaferri S.p.A. verði dæmt til að greiða honum 103.230.000 krónur auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 24. febrúar 2011 til greiðsludags.  Krafist er að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn hinn 24. febrúar 2012, en síðan árlega þann dag.

Þá krefst stefnandi þess einnig að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.   Þess er krafist að tekið verði tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun við ákvörðun málskostnaðar, en stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur. 

                Dómkröfur stefndu, Ósafls sf., Marti Contractors Limited, og Íslenskra aðalverktaka hf., voru þær aðallega, að dómkröfum stefnanda á hendur þeim yrði vísað frá dómi. Til vara krefjast stefndu sýknu af öllum kröfum stefnanda í málinu.

 Stefndu krefjast þess hver fyrir sig að stefnandi verði dæmdur til að greiða þeim  málskostnað.

Dómkröfur stefndu, Eflu hf., voru þær aðallega, að málinu yrði vísað frá dómi.  Til vara krafðist stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

Dómkröfur stefnda,  Officine Maccaferri S.p.A., voru þær aðallega, að öllum kröfum stefnanda á hendur stefnda yrði vísað frá dómi.  Til vara krefst stefndi þess, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Til þrautavara krefst stefndi þess, að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður sem stefnda verði gert að greiða verði í því tilviki felldur niður.

Þá er krafist málskostnaðar í öllum tilfellum úr hendi stefnanda að viðbættum virðisaukaskatti.

Engar kröfur voru gerðar á hendur réttargæslustefnda, sem ekki hefur sótt þing eða látið sækja þing.

                Mál þetta var flutt um ágreining um dómkvaðningu yfirmatsmanna hinn 16. júní sl., og er einungis sá þáttur málsins til úrlausnar hér.        

                Í þinghaldi hinn 13. maí sl. krafðist stefndi, Officine Maccaferri S.p.A., þess að dómkvaddir yrðu þrír óvilhallir yfirmatsmenn, sbr. yfirmatsbeiðni. Matsþoli, stefnandi, Bolungarvíkurkaupstaður, krafðist þess í þinghaldi hinn 23. maí sl. að dómkvaðningu yfirmatsmanna yrði hafnað þar sem beiðnin uppfylli ekki þau skilyrði sem gerð séu til yfirmats í 64. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.  Yfirmatsbeiðnin feli ekki í sér beiðni um endurmat á atriðum sem hafi áður verið metin heldur mat á nýjum atriðum.   Matsþoli stefndi, Efla hf. tók undir þessa kröfu stefnanda.

Liggur fyrir í þessum þætti málsins að taka afstöðu til þess hvort umbeðið yfirmat skuli fara fram.

II

Mál þetta  varðar uppbyggingu snjóflóðavarnargarða undir Traðarhyrnu í Bolungarvík.  Krefst stefnandi Bolungarvíkurkaupstaður skaðabóta úr hendi stefndu vegna ætlaðs galla á verki við uppbyggingu snjóflóðavarnagarða ofan Bolungarvíkur.  Í málinu gerir stefnandi annars vegar fjárkröfu óskipt á hendur öllum stefndu á grundvelli þess sem stefnandi kvaðst hafa þurft að kosta til við að endurbyggja snjóflóðavarnargarðinn sökum vandamála er komið hafi upp við framkvæmd verksins.  Hins vegar gerir stefnandi fjárkröfu á hendur stefnda, Officine Maccaferri einum vegna aukins efniskostnaðar, þar sem hönnun hans hafi verið haldin galla.  Byggir stefnandi á matsgerð dómkvaddra matsmanna.

Matsbeiðandi getur krafist yfirmats á þeim atriðum sem áður hafa verið metin, samkvæmt 64. gr. laga nr. 91/1991.  Í framlagðri matsbeiðni, dagsettri 4. mars 2010, voru matsmenn beðnir um að meta hverjar væru orsakir og afleiðingar þess að netgrindur og grjótfylling hafi hrunið niður í snjóflóðavarnargörðum þeim sem verið væri að byggja fyrir ofan Bolungarvík auk þess að meta kostnað við úrbætur.  Að auki að skoðað yrði hvort hætta væri á að metgrindur sem enn haldi séu líklegar til að gefa eftir og hver kostnaður væri við þær úrbætur.  Þá voru í matsbeiðninni settir fram einstaka matsliðir sem sundurliðaðir voru.  Óskað var eftir að metið yrði hver væri orsök þess að netgrindur og grjótfylling hafi hrunið niður.  Hvaða ráðstafanir séu nauðsynlegar til að lagfæra gallann og koma í veg fyrir að netgrindur og grjótfylling hrynji aftur og hver væri kostnaður við þá framkvæmd.  Þá var óskað eftir mati matsmanna á því hver hætta væri á að netgrindur, sem enn héldu, gæfu eftir og hryndu niður og orsök þess að hætta væri á að þær og grjótfylling hrynji niður.  Hvaða leiðir væru til úrbóta til að fyrirbyggja að fleiri netgrindur hrynji og kostnaður við að lagfæra slíkan galla og koma í veg fyrir að fleiri netgrindur hrynji. 

Í framlagðri yfirmatsbeiðni er óskað eftir yfirmati á nánar tilgreindum atriðum.  Um tilgang yfirmatsins segir að hann sé að afla sönnunar á því hvaða ástæður liggi að baki hruni hins upphaflega snjóflóðavarnargarðs.  Síðan er í yfirmatsbeiðni settar fram nokkuð margar matsspurningar, svohljóðandi:

„ 3.1.  Má rekja orsök hrunsins á netgrindum og grjótfyllingu á hrunsvæðinu eingöngu til þess að engin tengin var milli netgrinda og styrktu fyllingarinnar eða eru jafnframt aðrar orsakir til staðar? 

3.1.1. Ef svo, hverjar þá?

3.2.  Var jarðþrýstingur á netgrindur sem hrundu of mikill miðað við hönnun skv. skilmálum í útboðslýsingu útboðs nr. 14623 sem yfirmatsbeiðandi tók þátt í?

3.2.1  Ef já, hvað olli auknum jarðþrýstingi á netgrindurnar sem hrundu?

3.3.  Var samskonar jarðþrýstingur á öðrum hlutum snjóflóðavarnargarðsins og þeim hluta sem hrundi?

3.3.1.  Ef já, hverjar eru ástæður þess að aðrir hlutar snjóflóðavarnargarðsins hrundu ekki?

3.4.  Höfðu aðrir þættir en spurt er um í 3.1 og 3.2 áhrif á hrun netgrindanna og hinnar styrktu fyllingar?

3.5  Uppfyllti hönnun og útreikningar yfirmatsbeiðanda á tengingum milli netgrinda og styrktu fyllingarinnar kröfur útboðslýsingar í útboði nr. 14623?

3.5.1.  Ef nei, hvað var ófullnægjandi við hönnun og útreikning miða við kröfur og forsendur útboðslýsingar er koma fram í útboði nr. 14623?

3.6.  Voru öryggisstaðlar sem notaðir voru við hönnun yfirmatsbeiðanda fullnægjandi út frá forsendum útboðslýsingar í útboði nr. 14623?

3.6.1.  Ef nei, af hverju ekki?

3.6.2.  Ef nei, er heimilt að styðjast við þá staðla sem notaðir voru af hálfu yfirmatsbeiðanda miðað við forsendur útboðslýsingar í útboði nr. 14623?

3.7.  Voru leiðbeiningar fulltrúa yfirmatsbeiðanda á verkstað til samræmis við hönnun yfirmatsbeiðanda skv. skriflegu tilboði yfirmatsbeiðanda í útboði 14623?

3.7.1.  Ef nei, að hvaða leyti voru leiðbeiningar fulltrúa yfirmatsbeiðanda á verkstað öðruvísi?

3.7.2.  Ef nei, höfðu breyttar leiðbeiningar fulltrúa yfirmatsbeiðanda á verkstað áhrif á virkni snjóflóðavarnarkerfisins?  Ef svo er, hverjar voru afleiðingarnar?

3.8.  Voru framkvæmdir á verkstað eftir brottför fulltrúa yfirmatsbeiðanda í samræmi við leiðbeiningar hans á verkstað?

3.9.  Hver var orsök slitinna tengijárna og útbungunnar netgrinda?

3.10.  Hvers vegna var ekki að finna slitin tengijárn og útbungun netgrinda á öllum snjóflóðavarnargarðinum heldur einungis á sumum hlutum hans?

3.11  getur framkvæmd við uppsetningu snjóflóðavarnargarðsins, þar með talin þjöppun jarðvegs, uppsetning hinnar styrktu fyllingar og hleðsla grjóts í netgrindur, haft áhrif á útbungun grinda og slit tengijárna?

3.12  Hver voru áhrif fjölgunar tengijárna á netgrindur?

3.13  Var breytt hönnun matsþola Eflu og matsþola Ósafls fullnægjandi miða við kröfur í útboðslýsingu í útboði nr. 14626?

3.13.1.  Hvaða áhrif hafði aukið magn fyllingarefnis að baki netgrindanna, en samkvæmt teikningum að breyttri hönnun náði styrktardúkur ekki inn að neðri hluta netgrindanna þar sem aukið magn fyllingarefnis var áætlað?

3.13.2.  Á hrunsvæðinu var síudúkur staðsettur utan við styrktardúk.  Hvaða áhrif hafði slíkt á frágang umvafða endans?

3.14.  Eftir að tekin var ákvörðun um breytta hönnun á snjóflóðavarnarkerfinu var sá hluti veggjarins sem hrundi byggður í samræmi við hina breyttu hönnun?

3.14.1.  Ef nei, hvað var ólíkt með teikningum og byggingu?“

Af framangreindu er ljóst, að þó svo spurningar þær sem settar eru fram í yfirmatsgerð séu ekki þær sömu og þær sem settar voru fram í undirmatsgerð, er yfirmatsmönnum falið í yfirmatsbeiðni að endurmeta það sem matsmönnum var falið að meta í undirmati, þ.e. orsakir þess að netgrindur og grjótfylling hrundi niður í umræddum snjóflóðavarnargörðum.  Með því að svo er verður ekki talið að stefnandi hafi sýnt fram á að í yfirmatsbeiðninni sé krafist mats á öðrum atriðum en þeim sem þegar hafa verið metin í undirmatsgerð.  Verður því orðið við kröfu um að dómkveðja yfirmatsmenn til að framkvæma umbeðið yfirmat.

Ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Dómkvaddir skulu yfirmatsmenn til að meta þau atriði, sem greinir í matsbeiðni stefnda, Officine Maccaferri S.p.A., frá 13. maí 2014.