Hæstiréttur íslands
Mál nr. 275/2004
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamsmeiðing af gáleysi
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 20. janúar 2005. |
|
Nr. 275/2004. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn X (Brynjar Níelsson hrl.) |
Bifreiðir. Líkamsmeiðing af gáleysi. Sératkvæði.
X var ákærður fyrir hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa á leið austur Eiðisgranda í Reykjavík ekið bifreið sinni í veg fyrir bifreið, sem ekið var vestur sömu götu, með þeim afleiðingum að bifreiðarnar rákust á og ökumaður hinnar síðarnefndu slasaðist alvarlega og farþegi úlnliðsbrotnaði. Í málinu var upplýst að skömmu fyrir áreksturinn hafði X keypt sér hamborgara og gosdrykk í söluturni og fengið sér bita af hamborgaranum á sama stað. Talið var að þótt sú skýring væri nærtæk að X hafi misst stjórn á bifreiðinni við að teygja sig eftir hamborgaranum, lægi ekkert fyrir um það. Hafi rannsókn málsins ekki verið sem skyldi, en eins og á stóð hafi borið að rannsaka bifreið X einkum með tilliti til stýrisbúnaðar hennar og hvort rekja mætti sprunginn hjólbarða hennar til árekstursins, eða hvort hjólbarðinn hafi sprungið áður og rekja mætti orsök slyssins til þess. Með vísan til þessa var ekki talin fram komin lögfull sönnun þess að slysið yrði rakið til gáleysis X. Var X því sýknaður af kröfu ákæruvaldsins í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. júní 2004 og krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar.
Ákærði krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur.
Í hinum áfrýjaða dómi er rakinn í stuttu máli framburður ákærða og vitna fyrir dómi. Þar er meðal annars haft eftir ákærða að hann hafi verið byrjaður að borða hamborgarann og hafi lagt hann í farþegasætið eftir hvern munnbita. Þetta er ekki allskostar rétt því að í bókuðum framburði ákærða fyrir dómi kemur fram að hann hafi fengið sér bita af hamborgaranum inni í búðinni, þar sem hann var keyptur, og væri það síðasti bitinn sem hann myndi eftir.
Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Sératkvæði
Garðars Gíslasonar
I
Ákærða er gefið að sök að hafa föstudaginn 7. nóvember 2003, á leið austur Eiðsgranda í Reykjavík, rétt vestan gatnamótanna við Rekagranda, ekið fólksbifreiðinni [1] yfir tvær óbrotnar línur inn á akrein fyrir umferð á móti án þess að nauðsyn bæri til, án nægjanlegrar aðgæslu þar við vegamótin og í veg fyrir fólksbifreiðina [2], sem ekið var vestur götuna, með þeim afleiðingum að árekstur varð með bifreiðunum. Ökumaður [2], Y, fædd [...] 1960, hlaut alvarlegan höfuðáverka með vinstri helftarlömun, þindarslit, vont brot á vinstri olnboga, tvíbrot á vinstri framhandlegg og brot á hægra fæti og fótlegg, og sonur hennar, Z, fæddur [...] 1998, farþegi í barnastól í aftursæti, úlnliðsbrotnaði. Þessi háttsemi ákærða er talin varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 svo og nánar tilgreind ákvæði umferðarlaga nr. 50/1987.
Áreksturinn var tilkynntur lögreglunni kl. 13.47 þennan dag. Næst vettvangi var lögreglubifreið sem Ó lögreglumaður ók og kom hann fyrstur á vettvang. Hann óskaði eftir að tækjabifreið slökkviliðs og sjúkrabifreið yrðu sendar á vettvang, þar sem ökumaður annarrar bifreiðarinnar væri meðvitundarlaus og fastur inn í henni. Tveir lögreglumenn komu á vettvang kl. 13.58 og gerðu viðeigandi ráðstafanir um lokun vettvangs og rannsókn málsins með tæknideild lögreglunnar og framkvæmdastjóra rannsóknarnefndar umferðarslysa.
Í frumskýrslu lögreglunnar segir að áreksturinn hafi orðið rétt vestan gatnamóta Rekagranda. Þarna sé Eiðsgrandinn ein akrein í hvora átt og breidd hvorrar akreinar 3,5 metrar. Á milli akreinanna sé autt svæði afmarkað með óbrotnum línum og breidd þess 3 metrar. Á þessum vegarkafla sé gatan bein og yfirsýn góð. Yfirborð vegarins hafi verið blautt og ekki unnt að merkja nein hemlaför á yfirborðinu. Áreksturinn hafi orðið á nyrðri helmingi vegarins og hafi bifreiðin [2] kastast út fyrir veg til norðurs og ökumaður hennar verið meðvitundarlaus og fastur í bifreiðinni.
Ökumaður hinnar bifreiðarinnar, ákærði í máli þessu, hafi verið með meðvitund en kvartað undan eymslum í brjósti og fótum. Áður en hann hafi verið fluttur á slysadeild hafi náðst að tala stuttlega við hann. Hann hafi sagst ekkert muna eftir aðdraganda óhappsins en sagst hafa verið að koma utan af Nesi og ekið austur Eiðsgranda. Tekið er fram í skýrslunni að greinilegt hafi verið að ákærði hafi ekki notað öryggisbelti við aksturinn því það hafi verið fast í þeirri stöðu sem það sé í þegar það sé ónotað. Á gólfi bifreiðarinnar fyrir framan hægra framsæti hafi legið hálfétinn hamborgari.
Báðar bifreiðarnar voru dregnar af vettvangi og var mat lögreglumanna að þær hefðu orðið fyrir það miklum skemmdum að þær teldust tjónabifreiðar og voru skráningarnúmer þeirra tekin af. Lögreglan bað fjölmiðla að auglýsa eftir vitnum.
Ákærði hafði samband við föður sinn frá vettvangi og kom hann þangað. Ákærði var fluttur á slysadeild til rannsóknar. Segir í skýrslu lögreglunnar að þegar störfum hafi verið lokið á vettvangi hafi verið rætt við ákærða á slysadeild og hafi foreldrar hans verið viðstaddir. Ákærði hafi þá sagst hafa verið að koma utan af Nesi og ekið austur Eiðsgranda. Hann hafi verið að koma frá versluninni Nesval, Melabraut 19, Seltjarnarnesi, þar sem hann hafi keypt sér hamborgara og kók. Hann hafi verið byrjaður að borða hamborgarann og lagt hann frá sér í hægra framsæti eftir hvern munnbita, en kókdósina hafi hann ekki opnað.
Vitnin B og C gáfu sig fram við lögreglu eftir að hafa heyrt í fréttum að vitni vantaði að umferðarslysinu á Eiðsgranda. Í skýrslunni er haft eftir vitninu B að hann hafi ekið austur Eiðsgranda á eftir leigubifreið en á undan henni hafi verið bifreið ákærða. Stutt hafi verið á milli bifreiðanna. Nálægt gatnamótum Rekagranda hafi bifreið ákærða verið beygt mjög snögglega til vinstri yfir á öfugan vegarhelming, þar sem hún hafi lent á bifreið sem ekið var úr gagnstæðri átt. Hann hafi ekki séð nein hemlaljós á bifreið ákærða fyrir áreksturinn. Haft var eftir vitninu C að hún hafi ekið á eftir brúnni jeppabifreið. Hún kvaðst hafa veitt athygli grárri fólksbifreið fyrir framan bifreiðarnar. Þegar nálgaðist gatnamót Rekagranda hafi hún séð þegar ökumaður gráu bifreiðarinnar hafi beygt mjög skyndilega til vinstri og ekið yfir á öfugan vegarhelming og þar á græna fólksbifreið sem ekið hafi verið úr gagnstæðri átt. Hún hafi ekki séð hemlaljós á gráu bifreiðinni.
Vitnið C gaf skýrslu hjá lögreglunni 15. janúar 2004. Hún kvaðst hafa ekið af Skeljagranda inn á Eiðsgranda til austurs. Þá hefði hún lent á eftir dökkum jeppa, fyrir framan jeppann hafi veri leigubíll og síðan bíll ákærða. Umferðin hafi ekki verið hröð og hún ekki fylgst sérstaklega með umferðinni, sem gengið hafi eðlilega. Hún hafi síðan séð er bifreiðinni [1] var beygt til vinstri og stefnt út af og þá hafi hún jafnframt séð að ökumaðurinn hallaði sér mikið til hægri, líkt því að hann væri að beygja sig eftir einhverju á milli sætanna. Bifreiðinni hefði síðan verið ekið inn á öfugan veghelming og lent beint framan á bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Sérstaklega aðspurð kvaðst hún ekki hafa tekið eftir að stefnumerki hafi verið gefin til vinstri eða að ökumaður hafi hemlað fyrir áreksturinn og ekki séð neina hindrun á akstursleiðinni.
Ákærði kom til lögreglunnar 15. janúar 2004 að eigin frumkvæði til að gefa skýrslu. Hann var spurður hvaðan hann hafi verið að koma og hann svaraði að hann hafi verið að koma heiman frá sér, sem var að Melabraut [...]. Aðspurður hvert hann hafi verið að fara svaraði hann að hann hafi verið að fara niður í bæ til að sækja sér lyf en hann hafi verið með kvef og hálsbólgu, þó ekki með hita. Hann kannaðist við að hafa keypt hamborgarann í sjoppu á Melabraut 19 en hann myndi ekki eftir að hafa verið að borða hann. Honum var þá kynntur framburður vitnisins C að hún hafi séð hann beygja sig niður til hægri, líkt því að hann væri að sækja eitthvað niður á milli sætanna. Hann kvaðst ekki átta sig á eftir hverju hann hafi verið að beygja sig, en hann myndi ekkert síðust sekúndurnar fyrir slysið.
Vitnið B kom einnig til skýrslugjafar hjá lögreglu 15. janúar 2004. Hann kvaðst alveg viss um að ökumaður [1] hafi ekki gefið stefnumerki til vinstri og hann hafi ekki orðið var við að hann hafi hemlað fyrir áreksturinn. Einnig, að engin hindrun hafi verið á veginum, hann hafi verið alveg hreinn, ekkert hafi verið á honum. Hann hafi ekki séð hvort ökumaðurinn beygði sig niður eða hafi verið boginn niður er hann beygði út af.
II
Fyrir héraðsdómi kvaðst ákærði ekki hafa hugmynd um af hverju hann beygði yfir á akrein á móti, en honum dytti í hug að það hafi sprungið og hann hafi misst stjórn á bílnum. Hann kvaðst ekki hafa verið í öryggisbelti. Hann var spurður um hamborgarann. Hann kvaðst muna eftir að hann fékk sér bita í búðinni, það sé síðasti bitinn sem hann myndi eftir. Hann hafi labbað úr búðinni og inn í bílinn. Þá var borin undir hann skýrsla lögreglu þar sem haft sé eftir honum að hann hafi verið byrjaður að borða hamborgarann og lagt hann frá sér í hægra framsæti eftir hvern munnbita, og hvort þetta gæti staðist. Hann svaraði því til að þetta gæti staðist á meðan hann var á leiðinni út í bíl og væri að starta bílnum, þá hafi hann lagt hamborgarann frá sér. Nánar aðspurður um þetta svaraði ákærði að hann myndi þetta ekki.
Vitnið C kom fyrir héraðsdóm. Hún kvaðst hafa fylgst með bílnum þegar hún sá hann fram undan jeppanum og hafi haldið að eitthvað hefði komið fyrir, af því að hún hafi séð hann „bara á milli sætanna, ökumanninn“ Henni hafi fundist eins og hann hefði hallast aðeins til hægri yfir á farþegasætið.
Vitnið G rannsóknarlögreglumaður, sem samdi frumskýrslu lögreglunnar, bar fyrir héraðsdómi að engin hemlaför hefðu fundist. Ákærði hefði sagt á slysadeild að hann hefði keypt hamborgara og verið að borða hann við aksturinn. Ekkert á vettvangi hafi bent til að sprungið hefði á bifreiðinni áður en henni var beygt, en þeir hafi leitað vel eftir slíkum ummerkjum. Vinstra framhjól bifreiðarinnar hafi verið „alveg í köku“.
Vitnið J rannsóknarlögreglumaður, sem kom á vettvang ásamt G og gerði uppdrátt, bar fyrir héraðsdómi að engin hemlaför hafi fundist. Hann bar á sama veg og G, að hvellspringi á bifreið þá markist för í malbikið og ekkert slíkt hafi sést. Hann hafi talað við ákærða á slysdeild ásamt G. Ákærði hafi þar sagst hafa keypt hamborgara úti á Nesi og sig minnti að hann hafi talað um að hann hafi verið að borða hamborgarann og lagt hann frá sér þess á milli sem hann beit í hann, en hann hafi ekki verið búinn að opna kókdósina. Það hafi mátt skilja ákærða þannig að meðan hann ók hafi hann tekið sér bita og lagt hamborgarann frá sér þess á milli.
Vitnið S rannsóknarlögreglumaður tók ljósmyndir á vettvangi. Hann bar að ekkert á götunni hafi bent til að hjólbarði hafi sprungið fyrir áreksturinn.
III
Bifreiðin, sem ákærði ók, var fjögurra dyra fólksbifreið, Toyota Corolla, frá bílaleigu. Á einni framlagðra ljósmynda sést á gólfi framan við farþegasæti plast matarbakki og munnþurrkur og á næstu mynd af sama svæði má sjá sama matarbakka og munnþurrkur og einnig bita af hamborgarabrauði. Myndirnar sýna að báðar bifreiðar voru illa útleiknar eftir áreksturinn. Þær voru dregnar af vettvangi og taldar ónýtar.
Þegar ákærði var spurður fyrir héraðsdómi hvort hann hefði hugmynd um af hverju hann hefði beygt til vinstri yfir á akreinina á móti svaraði hann: „Ekki hugmynd. Mér dettur það í hug að það hafi sprungið og ég hafi misst stjórn á bílnum, annað veit ég ekki.“ Rannsókn á vettvangi sýndi engin merki þess að sprungið hefði á hjólbarða bifreiðarinnar, og vitni að atburðinum sáu heldur engin merki þess. Verður því að telja það ósennilegt.
Þá var ákærði spurður hvort hann hafi verið að borða hamborgarann í bílnum. Hann svaraði: „Ég man eftir að ég fékk mér bita í búðinni, það er síðasti bitinn sem ég man eftir. Ég labbaði úr búðinni og inn í bílinn.“ Þá var borið undir hann það sem lögreglan skráði í frumskýrslu eftir honum á slysadeildinni um að hann hafi verið að borða hamborgarann í bílnum og lagt hann fá sér í hægra framsæti eftir hvern munnbita. Hann svaraði: „Þetta getur passað á meðan ég er á leiðinni út í bíl og er að starta bílnum, þá legg ég hann frá mér.“
Í bifreið ákærða fannst hálfétinn hamborgari. Kemur það illa heim og saman við framburð ákærða fyrir dómi að hann hefði aðeins fengið sér einn bita af hamborgaranum í búðinni. Að lokinni rannsókn á vettvangi fóru lögreglumennirnir á slysadeild og höfðu tal af ákærða, sem þar var ásamt foreldrum sínum. Samkvæmt frumskýrslunni sagði ákærði þeim þar að hann hefði keypt hamborgara og kók og verið byrjaður að borða hamborgarann og lagt hann frá sér í hægra framsæti eftir hvern munnbita. Fyrir héraðsdómi breytti hann þessari frásögn eins og að framan greinir. Vitnið C sá til ákærða þar sem hann færði sig á milli sætanna og beygði sig rétt áður en áreksturinn varð. Ákærði var ekki með öryggisbeltið spennt og styður það frásögn vitnisins og skýrir hana. Þegar þetta er virt verður að líta til þess sem ákærði sagðir sjálfur lögreglunni á slysadeildinni. Orð hans um að hann hafi lagt hamborgarann frá sér í hægra framsæti eftir hvern munnbita koma á engan hátt heim og saman við orð hans fyrir héraðsdómi að hann hafi aðeins lagt hann frá sér þegar hann var að gangsetja bifreiðina. Engin skynsamleg skýring er á þessum breytta framburði ákærða nema sú, að hann hafi á síðari stigum ekki viljað kannast við sína upprunalegu frásögn. Þessi fyrsta frásögn hans um að hann hafi verið að fá sér bita og lagt hamborgarann fá sér í hægra framsæti eftir hvern munnbita verður því lögð til grundvallar.
Fyrir Hæstarétti heldur ákærði því fram að ekki hafi verið færð lögfull sönnun fyrir gáleysi hans þar sem gögn málsins skýri ekki aksturslag hans og þess vegna hefði ýtarleg rannsókn á bifreiðinni þurft að fara fram. Hvorki hafi farið fram athugun sérfróðra manna á því hvort bilun í bifreiðinni gæti verið orsök árekstursins né hvort sprunginn hjólbarði gæti skýrt hann.
Svo sem fyrr greinir er ekkert sem bendir til þess að hjólbarði hafi sprungið á bifreið ákærða, sem hafi valdið því að hann hafi misst stjórn á bifreiðinni. Enda þótt ekki hafi farið fram rannsókn á bifreið ákærða eftir áreksturinn til þess að leita að bilun í stýrisútbúnaði hennar, eða öðru sem gæti hafa bilað, verður ekki fram hjá því litið að hann hemlaði ekki á þeim tíma sem tók að færa bifreiðina yfir óbrotna línu og þriggja metra breitt svæði áður en bifreið hans skall beint framan á bifreið þá sem á móti kom. Það bendir ekki til skyndilegrar bilunar í bifreið ákærða þannig að hann hafi misst stjórn á henni. Á hinn bóginn er frásögn hans sjálfs af því að hann hafi bitið í hamborgarann og lagt hann þess á milli í sætið við hliðina á sér, sem studd er framburði vitnis að atburðinum. Frásögnin bendir eindregið til þess að hann hafi ekki verið með hugann við aksturinn og því hvorki leiðrétt stefnuna né hemlað þegar í óefni var komið. Að öllu athuguðu er þetta ekki aðeins sennilegasta skýringin heldur eina skýringin sem fram er komin á atburði þessum.
Samkvæmt framansögðu er sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er réttilega heimfærð til lagaákvæða.
Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 219. gr. almennra hegningarlaga og tilgreindum ákvæðum umferðarlaga. Hann er fæddur 1979 en hefur þrívegis sætt refsingum fyrir brot gegn 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðalaga og einu sinni gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og þrívegis verið sviptur ökurétti.
Við ákvörðun refsingar ákærða er til þess að líta að með broti sínu olli hann miklum meiðslum og var hending ein að ekki hlaust af því mannsbani. Með hliðsjón af þessu er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði, en fresta má fullnustu hennar haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Einnig skal hann sviptur ökurétti í tvö ár. Þá skal ákærði greiða 100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og allan sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. maí 2004.
Málið er höfðað með ákæru 9. mars 2004 á hendur: X, kt. [ ], [ ], fyrir hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa, föstudaginn 7. nóvember 2003, á leið austur Eiðisgranda í Reykjavík, rétt vestan gatnamótanna við Rekagranda, ekið bifreiðinni [1] yfir tvær óbrotnar línur inn á akrein fyrir umferð á móti án þess að nauðsyn bæri til, án nægjanlegrar aðgæslu þar við vegamótin og í veg fyrir bifreiðina [2], sem ekið var vestur Eiðisgranda, með þeim afleiðingum að árekstur varð með bifreiðunum, ökumaður [2], Y, fædd 24. júní 1960, hlaut alvarlegan höfuðáverka með vinstri helftarlömun, þindarslit, vont brot á vinstri olnboga, tvíbrot á vinstri framhandlegg og brot á hægra fæti og fótlegg og farþegi í bifreið hennar, Z, fæddur 29. nóvember 1998, úlnliðsbrotnaði.
Telst þetta varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 25. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993.”
Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu af refsikröfu og af kröfu um sviptingu ökuréttar, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þess er krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun að mati dómsins.
Samkvæmt lögregluskýrslu dags. 7. nóvember 2003 var lögreglu tilkynnt um áreksturinn, sem lýst er í ákærunni, kl. 13.47 ofangreindan dag. Í skýrslunni segir svo: ,,Áreksturinn varð á Eiðisgranda rétt vestan gatnamóta Rekagranda. Þar sem áreksturinn varð er Eiðsgrandinn ein akrein í hvora átt og er breidd hvorrar akreinar 3,5 metrar. Á milli akreinanna er autt svæði afmarkað með óbrotnum línum og breidd svæðisins 3 metrar. Á þessum vegarkafla er Eiðsgrandi bein og yfirsýn góð. Sjá nánar vettvangsuppdrátt. Yfirbor vegarins var blautt og ekki hægt að merkja nein hemlaför á yfirborðinu.” Þá segir að greinilegt hafi verið af ummerkjum á vettvangi að áreksturinn hafi orðið á nyrði helmingi vegarins. Ökumaður bifreiðarinnar [2] var meðvitundarlaus, en ökumaður [1], ákærði í máli þessu, hafi verið í bifreið sinni er lögreglan kom á vettvang. Áður en hann var fluttur á slysadeild náðist að ræða stuttlega við hann. Segir í skýrslunni að hann hafi ekkert munað eftir aðdraganda óhappsins. Rætt var við ákærða á slysadeild og greindi hann þá svo frá, að hann myndi ekki eftir aðdraganda slyssins. Hann kvaðst hafa ekið utan af Nesi, austur Eiðisgranda, hann kvaðst hafa keypt hamborgara og kókdós í verslun skömmu áður og hafi hann verið byrjaður að borða hamborgarann á þessari akstursleið. Hann hafi lagt hamborgarann frá sér í farþegasæti milli þess sem hann tók munnbita af honum. Kókdósina kvaðst hann ekki hafa verið búinn að opna.
Í skýrslunni er lýst aðgerðum lögreglu á vettvangi og því að auglýst hafi verið eftir vitnum og eftir það hafi vitnin B og H gefið sig fram.
Y slasaðist mikið við áreksturinn og í viðtali við hana kom fram að hún mundi ekki eftir honum. Fékkst þetta einnig staðfest í viðtali við eiginmann hennar, sem greindi frá minnistapi Y. Af þessum sökum var hvorki tekin af henni skýrsla undir rannsókn málsins né undir aðalmeðferð þess.
Í skýrslutöku hjá lögreglunni 15. janúar sl. greindi ákærði svo frá að hann myndi ekki eftir slysinu. Hann myndi eftir sér akandi framhjá verslun Bónuss við Eiðistorg og síðan er hann rankaði við sér eftir slysið fastur í bifreið sinni.
Nú verður rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði kvaðst ekki muna eftir aðdraganda slyssins. Hann kvaðst ekki vita hvers vegna hann beygði yfir á akrein fyrir umferð á móti, en kvað hugsanlegt að sprungið hefði á bifreið sinni og hann misst stjórn á henni. Ákærði kvaðst ekki vita þetta. Hann kvaðst síðan muna eftir sér fyrir slysið er hann ók framhjá umferðarljósum við Eiðistorg. Eftir slysið kvaðst hann fyrst muna atburði er hann rankaði við sér í bíl sínum eftir slysið og hafi hann átt erfitt með andardrátt. Hann hafi séð strák koma hlaupandi að bílnum og aðstoðað sig út úr honum. Ákærði kvaðst hafa komið við í sjoppu á Melabraut 19, þar sem hann hafi keypt hamborgara og kók. Hann kvaðst hafa verið byrjaður að borða hamborgarann á þessari akstursleið og hafi hann lagt hann í farþegasætið eftir hvern munnbita.
Við skoðun bifreiðarinnar á vettvangi fannst hamborgarinn á gólfinu fyrir framan farþegasætið.
Ákærði lýsti afleiðingum slyssins fyrir sig, en hann hafi brákast, 8 rifbein brotnað og hann hlotið höfuðhögg og fleiri áverka. Hann hafi verið frá vinnu í 6 vikur af þessum sökum.
Vitnið H kvaðst hafa ekið bíl sínum af Skeljagranda, inn á Eiðsgranda og framhjá Seilugranda er hún sá til bifreiðar ákærða á öfugum vegarhelmingi. Hún kvaðst hafa séð er bifreiðinni var skyndilega beygt yfir á öfugan vegarhelming og hafi hún talið að eitthvað hafi komið fyrir og séð ökumann á milli framsætanna. Nánar aðspurð um þetta kvað hún að sér hafi komið til hugar að eitthvað hafi komið fyrir ökumanninn, hann sofnað, eða liðið hefði yfir hann, þar sem hann hafi hallast yfir til hægri í áttina að farþegasætinu. Hún kvaðst ekki hafa séð hann beygja sig niður. Hún kvaðst ekki minnast þess að hafa heyrt hvell eins og ef hvellsprungið hefði á bifreið.
Vitnið B kvaðst hafa ekið frá Eiðistorgi á þessum tíma og undan sér hafi ekið tvær bifreiðar. Allt í einu hafi bifreið ákærða tekið sig út úr og verið ekið í aflíðandi beygju yfir á akreinina fyrir umferð á móti og árekstur orðið. B kvaðst ekki hafa séð neina ástæðu fyrir þessu aksturslagi ákærða. Bifreið ákærða hafi ekki verið hemlað og hann hafi ekki séð neina hindrun, sem hafi orðið þessa valdandi. B var spurður hvort hann hafi heyrt hvell, eins og ef hvellsprungið hefði á bifreið. Hann kvaðst ekki hafa heyrt annan hvell en þann, er bifreiðarnar skullu saman. Hann kvaðst ekki hafa séð til ákærða og ekki tekið eftir því hvort hann hafi beygt sig til hliðar.
Vitnið Guðlaugur Einarsson rannsóknarlögreglumaður kom á staðinn. Hann kvað engin hemlaför hafa fundist eftir bifreiðarnar sem skullu saman, en yfirborð vegar var blautt sem minnki líkur á því að hemlaför sjáist. Guðlaugur kvaðst hafa haft tal af ákærða eftir slysið. Komið hafi í ljós að hann mundi ekkert eftir aðdraganda þess. G kvað ekkert hafa komið fram við rannsókn á vettvangi, sem benti til þess að hvellsprungið hefði á bifreið ákærða fyrir áreksturinn, en hann kvað erfitt að fullyrða um þetta. G minnti að ákærði hafi gefið upp 50 - til 60 km ökuhraða og ef hvellspringur á bifreið á þeim hraða þá komi annaðhvort gúmmíför í malbikið eða för eftir felguna. Hvorugu hafi verið til að dreifa á vettvangi, en þessa hafi verið leitað eftir að bílarnir voru fjarlægðir.
Vitnið J rannsóknarlögreglumaður skýrði og staðfesti vettvangsuppdrátt sem hann gerði, en engin hemlaför hafi fundist og engin ummerki um að hvellsprungið hefði á bifreið ákærða fyrir áreksturinn.
J var spurður hvers vegna ekki hefði verið kallað í bíltæknimenn á vettvang. Kvað hann ástæðuna þá að lögreglumenn, sem færu á vettvang, hefðu ekki aðgang að slíku manni eins og áður var. J kvaðst í þessu tilviki hafa talið ástæðu til að kalla út slíkan mann á vettvang. Aðspurður um það hvers vegna bifreið ákærða var ekki skoðuð eftir að hún var flutt af vettvangi, kvaðst hann ekki hafa komið að þeirri ákvörðun, það sé í verkahring þeirra sem annist framhaldsrannsókn málsins.
S rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn og skýrði ljósmyndir sem hann tók af vettvangi.
Fyrir liggur læknisvottorð Y, sem dags. er 10. febrúar 2004. Svavar Haraldsson bæklunarlæknir ritaði vottorðið og kom hann fyrir dóm og skýrði það og greindi frá afleiðingum slyssins fyrir Y og batahorfum.
Niðurstaða
Sannað er með vitnisburði H og B og með ljósmyndum af vettvangi, sem sýna hvar bifreiðarnar ráukust saman, að bifreið ákærða fór yfir á öfugan vegarhelming, eins og lýst er í ákærunni. Ákærði man ekki andartökin áður en áreksturinn varð og hefur því ekki getað borið um það hvers vegna bifreið hans fór þessa leið.
Eins og rakið var hefur Y, ökumaður bifreiðarinnar [2], ekki getað upplýst um aðdraganda slyssins.
Lögreglumenn sem komu á vettvang höfðu tal af ákærða og þá kom í ljós að hann gat ekki greint frá aðdraganda slyssins.
Vitnið J rannsóknarlögreglumaður lýsti því að ekki hefði verið kallað á sérfróðan aðila til að skoða bifreiðarnar á staðnum vegna þess að lögreglan hefði ekki aðgang að slíkum manni. J kvaðst hafa talið ástæðu til að gera það. Þá liggur fyrir að bifreið ákærða var ekki skoðuð af sérfróðum aðilum eftir að hún var flutt á brott og samkvæmt lögregluskýrslu dags. 1. apríl sl. var búið að rífa bifreiðina í varhluti er það var kannað sama dag.
Samkvæmt þessu fór engin skoðun fram á bifreið ákærða í því skyni að ganga úr skugga um það hvort bilun í bílnum gæti skýrt aksturslag bifreiðarinnar í greint sinn, eða hvort að sprunginn framhjólbarði gæti skýrt aksturinn. Þetta hefði þurft að gera eins og á stóð, enda lá fyrir að ökumenn bifreiðanna gátu ekki borið um aðdraganda slyssins. Ekkert í gögnum málsins skýrir aksturslag ákærða, þótt vitni hafi lýst akstursleið hans fyrir áreksturinn. Fram kom að ákærði hafði skömmu fyrir áreksturinn borðað hamborgara, sem hann kvaðst hafa lagt frá sér í farþegasæti á milli þess sem hann tók bita af honum. Við rannsókn á bifreið ákærða fannst hamborgari á gólfi fyrir framan farþegasætið, sem staðfestir frásögn ákærða um þetta. Þó nærtæk kunni að virðast sú skýring að ákærði hafi misst stjórn á bifreiðinni við að beygja sig eftir hamborgaranum liggur ekkert fyrir um það.
Það er álit dómsins að nokkuð skorti á að rannsókn máls þessa hafi verið sem skyldi. Eftir að ljóst varð hvers kyns var, það er að fólk slasaðist alvarlega og ökumenn bifreiðanna gátu ekki greint frá aðdraganda slyssins, bar eins og á stóð að rannsaka bifreið ákærða með tilliti til alls þess sem nú hefur verið rakið, einkum stýrisbúnað bifreiðarinnar og hvort ástæða sprungins hjólbarða verði rakin til árekstursins, eða hvort hjólbarðinn kunni að hafa sprungið áður og rekja megi orsök slyssins til þess.
Að öllu ofanrituðu virtu þykir ekki fram komin lögfull sönnun þess að slysið, sem lýst er í ákærunni, verði rakið til gáleysis ákærða svo varði við þau lagaákvæði, sem í ákæru greinir. Ber samkvæmt þessu að sýkna ákærða af kröfum ákæruvaldsins.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með taldar 120.000 krónur í málsvarnarlaun til Guðmundar Óla Björgvinssonar héraðsdómslögmanns.
Þorsteinn Skúlason, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík, flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með taldar 120.000 krónur í málsvarnarlaun til Guðmundar Óla Björgvinssonar héraðsdómslögmanns.