Hæstiréttur íslands

Mál nr. 39/2016

Brim hf. (Grímur Sigurðsson hrl.)
gegn
LBI ehf. (Kristinn Bjarnason hrl.)

Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Afleiðusamningur
  • Skuldajöfnuður
  • Tómlæti
  • Vanreifun
  • Frávísunarkröfu hafnað
  • Málsástæða
  • Ómerkingu héraðsdóms hafnað

Reifun

LBI ehf. krafði B hf. um greiðslu samkvæmt átta gjaldmiðlaskiptasamningum sem gerðir voru í september og október 2008. Lokadagar samninganna voru í október 2008 og komu þeir allir út í tapi fyrir B hf. LBI ehf. taldi að B hf. hefði vanefnt samninganna á lokadegi þeirra og miðað við þann dag umreiknaði LBI ehf. fjárhæðir í erlendum myntum, sem B hf. hefði borið að greiða, yfir í íslenskar krónur samkvæmt miðgengi Seðlabanka Íslands og skuldajafnaði við greiðslur LBI ehf. í íslenskum krónum. B hf. krafðist þess að málinu yrði vísað frá dómi sökum þess að LBI ehf. hefði ekki gert grein fyrir því hvaða gengi hann hefði notað við útreikning á mótframlagi sínu til B hf. og að LBI ehf. hefði ekki gefið skýringu á því af hverju miða ætti við gengi Seðlabanka Íslands við útreikning á kröfunni. Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að málatilbúnaður LBI ehf. hefði verið ljós og í samræmi við almenna skilmála hans fyrir markaðsviðskipti en gjaldmiðlaskiptasamningarnir hefðu vísað til þeirra. Þá byggði B hf. á því að ómerkja bæri hinn áfrýjaða dóm þar sem ekki hefði verið fjallað um þá málsástæðu hans að víkja bæri til hliðar í heild eða að hluta samningum aðila á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Vísaði Hæstiréttur til þess að héraðsdómur hefði tekið afstöðu til efnis samninganna og stöðu aðila við samningsgerðina. Þó ekki hefði verið tekið fram berum orðum að samningunum yrði ekki vikið til hliðar samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 væri það ekki slíkur annmarki á hinum áfrýjaða dómi að næg efni væru til að ómerkja hann. Loks taldi Hæstiréttur að samningunum yrði ekki vikið til hliðar samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936. Var B hf. því gert að greiða LBI ehf. hina umkröfðu fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. janúar 2016. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, en að því frágengnu að hann verði sýknaður af kröfum stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að áfrýjanda verði gert að greiða sér 6.100.000 evrur, 3.700.000 bresk pund og 780.000.000 japönsk jen, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 3.800.000 evrum frá 9. október 2008 til 13. sama mánaðar og af 6.100.000 evrum frá þeim degi til greiðsludags, af 1.400.000 breskum pundum frá 9. október 2008 til 13. sama mánaðar, af 3.200.000 breskum pundum frá þeim degi til 14. sama mánaðar og af 3.700.000 breskum pundum frá þeim degi til greiðsludags, og af 780.000.000 japönskum jenum frá 9. október 2008 til greiðsludags, allt gegn afhendingu á 1.649.827.000 krónum. Þá krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eftir að hinn áfrýjaði dómur gekk hefur stefnda verið breytt úr hlutafélagi í einkahlutafélag.

I

Eins og greinir í héraðsdómi höfðaði stefndi málið á hendur áfrýjanda til heimtu greiðslu samkvæmt átta gjaldmiðlaskiptasamningum sem gerðir voru 12. og 30. september og 3. og 8. október 2008. Í öllum tilvikum var um að ræða samninga sem fólu í sér endurnýjun á eldri samningum. Samkvæmt samningunum skyldi stefndi afhenda áfrýjanda á fyrri gjalddaga þeirra eða svonefndum upphafsdegi tilgreinda fjárhæð í erlendum myntum gegn greiðslu áfrýjanda á ákveðinni fjárhæð í íslenskum krónum, en hún var miðuð við svonefnt stundargengi sem var tiltekið. Á síðari gjalddaga eða lokadegi samninganna átti áfrýjandi að afhenda stefnda sömu fjárhæð í erlendum myntum gegn greiðslu stefnda í íslenskum krónum sem tók mið af svonefndu framvirku gengi er samanstóð af stundargenginu með tilteknu álagi. Lokadagar samninganna voru í fimm tilvikum 9. október 2008, í tveimur tilvikum 13. sama mánaðar og í einu 14. þess mánaðar. Komu þeir allir út í tapi fyrir áfrýjanda. Efni þessara samninga, gagna sem varða þá og lögskiptum aðila er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.

Stefndi reisir málatilbúnað sinn á því að áfrýjandi hafi vanefnt samningana á lokadegi þeirra, en þann dag hafi fjárhæðir í erlendum myntum verið umreiknaðar yfir í íslenskar krónur samkvæmt miðgengi Seðlabanka Íslands og skuldajafnað við greiðslur stefnda í íslenskum krónum. Varakrafa stefnda tekur hins vegar mið af því að samningarnir verði gerðir upp eftir efni sínu og án þess að greiðslur aðila verði jafnaðar út.  

II

Svo sem fram kemur í héraðsdómi krafðist áfrýjandi þess að málinu yrði vísað frá dómi, en þeirri kröfu hafnaði dómurinn með úrskurði 24. október 2012. Áfrýjandi gerir sem fyrr segir aðallega sömu kröfu hér fyrir dómi.

Áfrýjandi reisir kröfuna fyrst í stað á vanreifun sökum þess að stefndi hafi ekki gert grein fyrir því hvaða gengi hann hafi notað við útreikning á mótframlagi sínu til áfrýjanda samkvæmt samningum þeirra. Jafnframt telur áfrýjandi að stefndi hafi ekki gefið skýringu á því af hverju miða eigi við gengi Seðlabanka Íslands við útreikning á kröfunni þegar önnur gengisskráning hafi verið umsamin. Telur áfrýjandi að gjaldmiðlaskiptasamningarnir verði ekki skildir á annan veg en þann að reikna eigi fjárhæð erlendra gjaldmiðla á lokadegi samninga eftir framvirku gengi. Þannig geti tap áfrýjanda samkvæmt samningunum aldrei orðið meira en sem nemur muninum á stundargengi og framvirka genginu en sá munur svari til álags á stundargengið eftir samningunum. Í öllu falli telur áfrýjandi að efni samninganna að þessu leyti sé óljóst, en stefndi verði að bera hallann af þeim óskýrleika, enda hafi hann einhliða samið skilmálana á sviði sem hann hafði sérþekkingu á, auk þess sem hann hafi á þeim tíma verið stórt fjármálafyrirtæki. Af þessum ástæðum verði dómur ekki lagður á málið.

 Eins og áður er rakið fólst í gjaldmiðlaskiptasamningum aðila að stefndi átti á upphafsdegi þeirra að afhenda erlendar myntir gegn greiðslu í íslenskum krónum miðað við tiltekið stundargengi, en áfrýjandi átti á lokadegi samninganna að afhenda sömu erlendu fjárhæð gegn greiðslu í krónum samkvæmt framvirku gengi sem nam stundargenginu að viðbættu álagi. Stefndi miðar málatilbúnað sinn við að honum hafi, eftir skilmálum er gilt hafi í lögskiptum aðila, verið heimilt að umreikna erlendar myntir í íslenskar krónur á lokadegi samninganna miðað við gengi seðlabankans þar sem áfrýjandi stóð ekki skil á greiðslum fyrir sitt leyti. Því hafi umsamið gengi aðeins átt við ef samningarnir voru efndir eftir aðalefni sínu. Að þessu leyti er málatilbúnaður stefnda ljós og í samræmi við almenna skilmála hans fyrir markaðsviðskipti, en gjaldmiðlaskiptasamningarnir vísa til þeirra. Verður því ekki fallist á það með áfrýjanda að málið sé vanreifað að þessu leyti.

Í annan stað reisir áfrýjandi kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi á því að það sé vanreifað sökum þess að kröfugerð og málatilbúnaður stefnda taki ekki mið af því að fimm af þeim átta gjaldmiðlaskiptasamningum, sem málið lúti að og voru með lokadag 9. október 2008, hafi verið framlengdir um einn dag. Af því leiðir að umræddir fimm samningar sem stefndi reisir kröfur sínar að hluta á hafi að fullu verið efndir. Jafnframt bendir áfrýjandi á enn yngri samning, sem ekki hafi verið gerð viðhlítandi grein fyrir og kveði á um skipti á evrum og íslenskum krónum 24. nóvember 2008, en ætla megi að um sé að ræða uppgjör á einum af þeim samningum sem kröfur stefnda taki til. Með hliðsjón af þessu telur áfrýjandi málatilbúnaðinn svo óljósan að vísa beri málinu frá héraðsdómi.

Þótt fallist yrði á það með áfrýjanda að þeir gjaldmiðlaskiptasamningar sem stefndi reisir kröfur sínar á hefðu verið gerðir upp með nýjum samningum, sem fólu í sér framlengingu á fyrri samningum, gæti það ekki varðað frávísun heldur sýknu af kröfu stefnda vegna samninga sem hafi verið efndir. Að réttu lagi koma því slíkar varnir til álita þegar leyst er úr málinu að efni til. Verður því heldur ekki fallist á frávísun málsins af þessari ástæðu og verður þeirri kröfu áfrýjanda hafnað.

III

Áfrýjandi reisir kröfu um ómerkingu hins áfrýjaða dóms á því að héraðsdómur hafi ekki fjallað um þá málsástæðu hans að víkja beri til hliðar í heild eða að hluta gjaldmiðlaskiptasamningum aðila á grundvelli nánari atvika sem eigi undir 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þar sem ekki hafi verið tekin rökstudd afstaða til þeirrar málsástæðu í samræmi við f. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé óhjákvæmilegt að ómerkja dóminn og vísa málinu heim í hérað til meðferðar á ný.

Í greinargerð áfrýjanda til héraðsdóms var umrædd málsástæða hans studd þeim rökum að stefndi hafi við samningsgerðina unnið gegn hagsmunum áfrýjanda í þeim beina tilgangi að auðgast sjálfur. Jafnframt yrði í þessu samhengi að líta til stöðu samningsaðila en með þeim hafi verið augljós aðstöðumunur þar sem stefndi var fjármálafyrirtæki með sérþekkingu á þessum vettvangi meðan áfrýjandi var með atvinnurekstur af öðru tagi og reiddi sig á ráðgjöf stefnda. Í hinum áfrýjaða dómi var vísað til þess að áfrýjandi hafi um árabil átt í verulegum viðskiptum með erlenda gjaldmiðla, þar á meðal með framvirkum skiptasamningum af þeim toga sem málið tekur til. Því hafi starfsmönnum áfrýjanda verið vel ljóst eðli viðskiptanna og sú áhætta sem fylgdi þeim vegna breytinga á gengi gjaldmiðla. Jafnframt vísaði héraðsdómur til þess að áfrýjandi væri stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða með verulegar tekjur í erlendum myntum og áralanga reynslu af gjaldeyrisviðskiptum. Að þessu gættu tók dómurinn afstöðu til efnis þeirra samninga sem aðilar gerðu og stöðu þeirra við samningsgerðina. Þótt úr þessu hafi verið leyst í öðru samhengi og án þess að berum orðum væri tekið fram að samningunum yrði ekki vikið til hliðar samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 er þetta ekki slíkur annmarki á hinum áfrýjaða dómi að næg efni séu til að ómerkja hann. Þeirri kröfu áfrýjanda verður því hafnað.

IV

Áfrýjandi reisir einnig kröfu sína um sýknu á fyrrgreindri málsástæðu um að fimm af þeim átta gjaldmiðlaskiptasamningum sem málið taki til hafi verið gerðir upp með nýjum samningum og geti stefndi því ekki átt kröfu á grundvelli þeirra. Þessi málsástæða var ekki höfð uppi í héraði þótt hún sé reist á gögnum sem áfrýjandi hafði þá undir höndum. Standa skilyrði 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 ekki til þess að hún komist að fyrir Hæstarétti. Af sömu ástæðu kemst ekki að sú málsástæða áfrýjanda að stefndi hafi fellt niður samningana með dreifibréfi 16. október 2008 til viðskiptavina sinna þar sem fram kom að afleiðusamningum bankans yrði lokað.

Svo sem áður greinir hafnaði héraðsdómur þeim röksemdum sem áfrýjandi færði fram til stuðnings því að samningunum yrði vikið til hliðar samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936. Með skírskotun til þess verður þeirri málsástæðu hafnað. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Brim hf., greiði stefnda, LBI ehf., 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 19. október 2015

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 17. febrúar 2012. Stefnandi er LBI hf., Álfheimum 74, Reykjavík. Stefndi er Brim hf., Bræðraborgarstíg 16, Reykjavík. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 9. september sl. Að kröfu stefnda fór munnlegur málflutningur fram að nýju 16. október sl. með vísan til 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og var málið dómtekið að nýju að honum loknum.         

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi greiði honum 756.517.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 555.406.000 krónum frá 9. október 2008 til 13. október 2008, af 739.912.000 krónum frá þeim degi til 14. október 2008 og af 756.517.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi greiði 6.100.000 evrur, 3.700.000 sterlingspund og 780.000.000 japanskra jena, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 3.800.000 evrum frá 9. október 2008 til 13. október 2008 og af 6.100.000 evrum frá þeim degi til greiðsludags, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 1.400.000 sterlingspundum frá 9. október 2008 til 13. október 2008, af 3.200.000 sterlingspundum frá þeim degi til 14. október 2008 og af 3.700.000 sterlingspundum frá þeim degi til greiðsludags, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 780.000.000 japanskra jena frá 9. október 2008 til greiðsludags, gegn afhendingu á 1.649.827.000 krónum. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar.

                Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara lækkunar á kröfum stefnanda. Þá segir eftirfarandi í kröfugerð stefnda: „Verði fallist á nettun er þess krafist að vextir verði ekki tildæmdir frá fyrra tímamarki en þingfestingardegi málsins. Verði stefndi dæmdur til að greiða fjárhæðir í EUR, JPY, og GBP gegn mótframlagi stefnanda í íslenskum krónum er þess krafist að það mótframlag beri sömu dráttarvexti og frá sama tíma og krafa stefnanda.“ Stefndi krefst einnig málskostnaðar.

                Með úrskurði héraðsdóms 24. október 2012 var kröfu stefnda um frávísun málsins hafnað.

Málsatvik

Stefndi starfar einkum við útgerð, fiskvinnslu og verslun með sjávarafurðir og er ekki um það deilt að tekjur félagsins eru að verulegu leyti í erlendum myntum. Stefnandi, sem áður starfaði undir heitinu Landsbanki Íslands hf., var viðskiptabanki stefnda allt þar til Fjármálaeftirlitið skipaði bankanum skilanefnd 7. október 2008. Samkvæmt stefnu voru þá í gildi 13 samningar á milli málsaðila, þar á meðal þeir átta gjaldmiðlaskiptasamningar sem stefnandi grundvallar kröfur sínar á í málinu og nánar er lýst síðar. Var í öllum átta tilvikum um að ræða samninga sem fólu í sér framlengingu eldri samninga sem þegar voru í tapi fyrir stefnda. Komust samningarnir allir á í gegnum síma eða með tölvubréfum.

Hinn 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um að ráðstafa tilteknum eignum og skuldum stefnanda til Nýja Landsbanka Íslands hf., nú Landsbankans hf., þ. á m. öllum afleiðusamningum. Hinn 12. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið hins vegar ákvörðun um að allir afleiðusamningar skyldu vera áfram hjá stefnanda og felldi þar með úr gildi 2. ml. 7. tl. fyrri ákvörðunar sinnar. Er ekki um það deilt að stefnandi sé réttur aðili þeirra krafna sem um er deilt í málinu.

Hinn 27. janúar 2009 ritaði formaður skilanefndar stefnanda stefnda bréf sem með fylgdi yfirlit yfir afleiðu- og/eða gjaldeyrisskiptasamninga stefnda við stefnanda. Kom þar meðal annars fram að afleiðusamningar sem þegar væru komnir á gjalddaga væru orðnir að kröfum. Var stefnda veittur 14 daga greiðslufrestur til að ganga frá greiðslu eða semja um greiðslu vegna samninganna. Með bréfi lögmanns stefnda 11. febrúar 2009 var þeim kröfum sem fram komu í bréfi stefnanda mótmælt. Var þar vísað til sambærilegra sjónarmiða og stefndi byggir varnir sínar á í máli þessu, meðal annars að allar forsendur samninganna hefðu brugðist þar sem gjaldeyrismarkaður hefði ekki verið virkur frá seinni hluta ársins 2008 og einnig hefði bankinn ekki gætt hagsmuna stefnda við gerð samninganna.

Hinn 2. febrúar 2012 var stefnda sent innheimtubréf vegna þeirra átta samninga sem mál þetta lýtur að. Var töluleg sundurliðun kröfu stefnanda í meginatriðum í samræmi við kröfugerð hans í máli þessu. Innheimtubréfi stefnanda var mótmælt með bréfi stefnda 14. sama mánaðar.

A

Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu áttu málsaðilar í margs konar viðskiptum um árabil, meðal annars gerðu þeir frá árinu 2004 að telja hundruð samninga með afleiður. Fyrir liggur að hinn 3. apríl 2002 voru af hálfu stefnda undirritaðir „Almennir skilmálar fyrir markaðsviðskipti Landsbanka Íslands hf.“ og var þar umboðsmaður stefnda tilgreindur Guðmundur Kristjánsson framkvæmdastjóri. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. skilmálanna skyldi gera skriflega samninga um framkvæmd einstakra markaðsviðskipta þar sem kveðið yrði nánar á um sérgreinda skilmála, lánskjör og endurgreiðslu. Í 3. mgr. greinarinnar sagði að viðskiptamaður skyldi senda fjárfestingarbanka stefnanda beiðni um viðskipti með símbréfi, tölvupósti eða í gegnum síma. Kom fram að samningar skyldu staðfestir skriflega að frátöldum „stundarviðskiptum með gjaldeyri“. Samkvæmt 4. mgr. skyldi bankinn senda frumrit samninga til viðskiptamanns og skuldbatt viðskiptamaður sig til að senda undirritað frumrit samnings til bankans innan sjö daga frá því að samningur var gerður eða, eftir atvikum, fyrir gjalddaga/lokadag samnings þegar viðskipti færu fram innan þess tíma.

                Í 4. gr. skilmálanna var kveðið á um heimild bankans til að beita skuldajöfnuði (nettun samninga) við gjaldfellingu þeirra. Í 7. gr. skilmálanna var fjallað um vanefndir viðskiptamanns og heimild bankans til gjaldfellingar. Kom þar fram að bankinn hefði heimild til að gjaldfella, eða loka, samningi þegar viðskiptamaður vanefndi skuldbindingar sínar verulega, meðal annars með því að bæta ekki úr vanskilum innan sjö daga og með því að leggja ekki fram undirrituð frumrit samninga innan sjö daga frá dagsetningu samnings eða fyrir gjalddaga þegar sá dagur væri innan þeirra tímamarka. Í lok greinarinnar sagði að viðskiptamaður skyldi greiða dráttarvexti af kröfu bankans frá og með gjaldfellingardegi. Bankanum væri heimilt að umreikna kröfur yfir í íslenskar krónur á þeim degi eða eftir atvikum á gjalddaga kröfu. Í 8. gr. kom fram að með undirritun sinni lýsti viðskiptamaður því yfir að honum væri ljóst að þau viðskipti sem hann kynni að eiga við stefnanda gætu verið sérstaklega áhættusöm og að honum bæri að afla sér utanaðkomandi ráðgjafar teldi hann þess þörf.

Í 10. gr. téðra skilmála var sérstaklega fjallað um framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga. Var í greininni vísað til „Almennra skilmála fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga“, útgefnum af sambandi íslenskra viðskiptabanka og sambandi íslenskra sparisjóða sem skyldu gilda um slík viðskipti aðila. Í grein 1.1 þess hluta síðastgreindra skilmála er fjallar um skiptasamninga segir að með „skiptasamningi [sé] átt við hvers konar vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamninga og aðra þá samninga þar sem samningsaðilar koma sér saman um að greiða vexti hvor til annars af tiltekinni viðmiðunarfjárhæð í sama gjaldmiðli eða greiða vexti og höfuðstól hvor til annars hvor í sínum gjaldmiðli á samningstímanum [/]. Skiptasamningur er bindandi fyrir báða samningsaðila. Hann kemst yfirleitt á með símtali milli samningsaðila. Munnlegur samningur, sem kemst á með þeim hætti, skal staðfestur skriflega svo fljótt sem verða má. Öll símtöl starfsmanna banka, sem annast viðskipti af þessu tagi við viðskiptamenn, eru tekin upp á segulband.“ Í grein 1.4.2 sem fjallaði um skuldajöfnun, eða nettun, segir að ef samningsaðilar eru skuldbundnir til að inna greiðslur af hendi hvor til  annars á sama bankadegi, í sama gjaldmiðli og samkvæmt sama samningi, skuli greiðslunum skuldajafnað þannig að sá samningsaðili sem eigi að greiða hærri fjárhæð greiði hinum mismuninn. Í 8. grein skilmálanna var kveðið á um heimild til að reikna dráttarvexti frá gjalddaga samnings og heimild kröfuhafa til að umreikna fjárhæð sem væri í vanskilum í íslenskar krónur sem bæru íslenska dráttarvexti.

Í málinu hafa verið lagðir fram „Almennir skilmálar Landsbankans um verðbréfaviðskipti“ sem samdir voru á árinu 2007 með vísan til gildistöku laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, en lögin fólu meðal annars í sér innleiðingu á svonefndri MiFID-tilskipun sem tekin hafði verið upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Fyrir liggur að af hálfu stefnanda voru umræddir skilmálar sendir Óttari Má Ingvasyni, starfsmanni stefnda, með tölvubréfi 5. nóvember 2007. Jafnframt liggur fyrir í málinu tölvubréf starfsmannsins þar sem hann segist samþykkja skilmálana fyrir hönd stefnda. Jafnframt liggur fyrir að stefnandi skilgreindi stefnda í framhaldinu sem viðurkenndan gagnaðila samkvæmt lögum nr. 108/2007.

B

Svo sem áður greinir reisir stefnandi kröfur sínar á átta gjaldmiðlaskiptasamningum, sem hann telur hafa verið gerða 12. september 2008, 30. sama mánaðar og 3. október 2008. Er í öllum tilvikum tekið fram af hálfu stefnanda að um sé að ræða samninga sem fólu í sér endurnýjun eldri samninga sem þegar voru í tapi fyrir stefnda. Vegna allra átta samninganna hefur stefnandi vísað til endurrita og upptöku af símasamtölum við starfsmenn stefnda. Vegna samningsins hann telur hafa verið gerðan 12. september 2008 er vísað til samtals Ólafs Arnar Haraldssonar, fyrrverandi starfsmanns stefnanda, við Óttar Má Yngvasonar, fyrrverandi starfsmann stefnda. Vegna annarra samninga er vísað til símasamtala sama starfsmanns stefnanda við Guðmund Kristjánsson, forstjóra stefnda.

Í öllum tilvikum skyldi stefnandi afhenda stefnda erlendan gjaldeyri á samningsdegi gegn því að fá afhenta ákveðna fjárhæð í íslenskum krónum. Liggur jafnframt fyrir að færslur gjaldeyris og íslenskra króna fóru fram á reikningum aðila hjá stefnanda í samræmi við efni samninganna. Í samningunum er gengi íslensku krónunnar gagnvart hinum erlenda gjaldmiðli tilgreint sem „stundargengi“ á framlögðum samningum. Samkvæmt öllum samningunum skuldbatt stefndi sig til þess að afhenda sama magn erlends gjaldeyris á gjalddaga gegn því að fá greidda tiltekna fjárhæð í íslenskum krónum. Er gengi íslensku krónunnar miðað við þennan dag tilgreint sem „framvirkt gengi“ í samningunum. Mismunur stundargengis og framvirks gengis er í samningunum tilgreint sem álag.

Einstakir samningar sem stefnandi byggir kröfur sínar á eru sem hér segir:

1. Samningur dagsettur 12. september 2008 (nr. 2924157) með síðari gjalddaga 14. október þess árs. Á síðari gjalddaga skyldi stefndi afhenda stefnanda 500.000 sterlingspund gegn því að fá afhentar 79.700.000 krónur. Framvirkt gengi svaraði til 0,75% álags. Samkvæmt skuldajöfnun, sem tók mið af miðgengi sterlingspunds gagnvart íslensku krónunni samkvæmt skráningu Seðlabanka Íslands (192,62 króna), nam skuld stefnda á gjalddaga 16.605.000 krónum.

Í málinu hefur verið lagt fram afrit samningsins undirritað af Óttari Má Yngvasyni, fyrrverandi starfsmanni stefnda. Einnig liggur fyrir tölvupóstur 12. september 2008, vegna fyrri samnings, ásamt endurriti og upptöku símasamtals sama dag milli téðs Óttars Más og Ólafs Arnar Haraldssonar, fyrrverandi starfsmanns stefnanda, vegna viðskiptanna, sem ekki er ástæða til að rekja í einstökum atriðum.

2. Samningur dagsettur 3. október 2008 (nr. 3004678) með fyrri gjalddaga 6. sama mánaðar og síðari gjalddaga 13. sama mánaðar. Á síðari gjalddaga skyldi stefndi afhenda stefnanda 2.300.000 evrur gegn því að fá greiddar 250.401.000 krónur. Framvirkt gengi svaraði til -0,31% álags. Samkvæmt skuldajöfnun, sem tók mið af miðgengi evru gagnvart íslensku krónunni samkvæmt skráningu Seðlabanka Íslands (150,21 króna), nam skuld stefnda á gjalddaga 95.082.000 krónum.

Í málinu hefur verið lagt fram óundirritað afrit samningsins ásamt endurriti af tölvubréfi, sent 3. október 2008, á rafföngin gk@brimhf.is og gsg@brimhf.is. Kveður stefnandi umrætt skjal hafa fylgt tölvubréfinu sem viðhengi. Einnig liggur fyrir tölvupóstur vegna fyrri samninga ásamt endurriti og upptöku símasamtals 3. október 2008 milli Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra stefnda, og áðurnefnds Ólafs, fyrrverandi starfsmanns stefnanda, vegna viðskiptanna, sem ekki er ástæða til að rekja í einstökum atriðum.

3. Samningur dagsettur 3. október 2008 (nr. 3004697) með fyrri gjalddaga 6. sama mánaðar og síðari gjalddaga 13. sama mánaðar. Á síðari gjalddaga skyldi stefndi afhenda stefnanda 1.800.000 sterlingspund gegn því að fá greiddar 253.764.000 krónur. Framvirkt gengi svaraði til -0,42% álags. Samkvæmt skuldajöfnun, sem tók mið af miðgengi sterlingspunds gagnvart íslensku krónunni samkvæmt skráningu Seðlabanka Íslands (190,66 krónur), nam skuld stefnda á gjalddaga 89.424.000 krónum.

Í málinu hefur verið lagt fram óundirritað afrit samningsins ásamt endurriti af tölvubréfi, sent 3. október 2008, á rafföngin gk@brimhf.is og gsg@brimhf.is. Kveður stefnandi umrætt skjal hafa fylgt tölvubréfinu sem viðhengi. Einnig liggur fyrir endurrit og upptaka áðurgreinds símasamtals 3. október 2008 sem einnig laut að þessum viðskiptum.

4. Samningur dagsettur 8. október 2008 (nr. 3017192) með síðari gjalddaga 9. sama mánaðar. Á síðari gjalddaga skyldi stefndi afhenda stefnanda tvær milljónir evra gegn því að fá greiddar 202.680.000 krónur. Framvirkt gengi svaraði til -0,06% álags. Samkvæmt skuldajöfnun, sem tók mið af miðgengi evru gagnvart íslensku krónunni samkvæmt skráningu Seðlabanka Íslands (144,27 krónur), nam skuld stefnda á gjalddaga 85.860.000 krónum.

Í málinu hefur verið lagt fram óundirritað afrit samningsins ásamt endurriti af tölvubréfi, sent 3. október 2008, á rafföngin gk@brimhf.is og gsg@brimhf.is. Kveður stefnandi umrætt skjal hafa fylgt tölvubréfinu sem viðhengi. Að öðru leyti vísar stefnandi til tölvubréfssamskipta við Guðmund Kristjánsson, forstjóra stefnda, og áðurnefnds Ólafs, fyrrverandi starfsmanns stefnanda, svo og tölvubréfssamskipta Ólafs við yfirmann sinn, Ara P. Wendel, þar sem fram kemur að téður Guðmundur óski eftir því að framlengja samninginn.

5. Samningur dagsettur 30. september 2008 (nr. 2990926) með fyrri gjalddaga 2. október 2008 og síðari gjalddaga 9. sama mánaðar. Á síðari gjalddaga skyldi stefndi afhenda stefnanda 1.800.000 evrur gegn því að fá greiddar 253.764.000 krónur. Framvirkt gengi svaraði til -0,20% álags. Samkvæmt skuldajöfnun, sem tók mið af miðgengi evru gagnvart íslensku krónunni samkvæmt skráningu Seðlabanka Íslands (144,27 krónur), nam skuld stefnda á gjalddaga 85.464.000 krónum.

Í málinu hefur verið lagt fram óundirritað afrit samningsins ásamt endurriti af tölvubréfi, sent 30. september 2008, á rafföngin gk@brimhf.is og gsg@brimhf.is. Kveður stefnandi umrætt skjal hafa fylgt tölvubréfinu sem viðhengi. Að öðru leyti vísar stefnandi til tölvupósts 30. september 2008 ásamt endurriti og upptöku milli Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra stefnda, og áðurnefnds Ólafs, fyrrverandi starfsmanns stefnanda, sem laut að viðskiptunum og ekki er ástæða til rekja í einstökum atriðum.

6. Samningur dagsettur 30. september 2008 (nr. 2990955) með fyrri gjalddaga gjalddaga 2. október þess árs og síðari gjalddaga 9. sama mánaðar. Á síðari gjalddaga skyldi stefndi afhenda stefnanda 1.400.000 sterlingspund gegn því að fá greiddar 194.684.000 krónur. Framvirkt gengi svaraði til -0,22% álags. Samkvæmt skuldajöfnun, sem tók mið af miðgengi sterlingspunds gagnvart íslensku krónunni samkvæmt skráningu Seðlabanka Íslands (182.31 króna), nam skuld stefnda á gjalddaga 60.550.000 krónum.

Í málinu hefur verið lagt fram óundirritað afrit samningsins ásamt endurriti af tölvubréfi, sent 30. september 2008, á rafföngin gk@brimhf.is og gsg@brimhf.is. Kveður stefnandi umrætt skjal hafa fylgt tölvubréfinu sem viðhengi. Að öðru leyti vísar stefnandi til sama tölvupósts og símtals 30. september 2008 og áður greinir.

7. Samningur dagsettur 30. september 2008 (nr. 2990895) með fyrri gjalddaga 2. október 2008 og síðari gjalddaga 9. sama mánaðar. Á gjalddaga skyldi stefndi afhenda stefnanda 480.000.000 japanskra jena gegn því að fá greiddar 295.776.000 krónur. Framvirkt gengi svaraði til -0,0014% álags. Samkvæmt skuldajöfnun, sem tók mið af miðgengi japansks jens gagnvart íslensku krónunni samkvæmt skráningu Seðlabanka Íslands (1,0486 krónur), nam skuld stefnda á gjalddaga 207.552.000 krónum.

Í málinu hefur verið lagt fram óundirritað afrit samningsins ásamt endurriti af tölvubréfi, sent 30. september 2008, á rafföngin gk@brimhf.is og gsg@brimhf.is. Kveður stefnandi umrætt skjal hafa fylgt tölvubréfinu sem viðhengi. Að öðru leyti vísar stefnandi til sama tölvubréfs og símtals 30. september 2008 sem áður greinir.

8. Samningur dagsettur 8. október 2008 (nr. 3017196) með síðari gjalddaga 9. sama mánaðar. Á síðari gjalddaga skyldi stefndi afhenda stefnanda 300.000.000 japanskra jena gegn því að fá greiddar 198.600.000 krónur. Framvirkt gengi svaraði til -0,0004% álags. Samkvæmt skuldajöfnun, sem tók mið af miðgengi japansks jens gagnvart íslensku krónunni samkvæmt skráningu Seðlabanka Íslands (1,0486 krónur), nam skuld stefnda á gjalddaga 115.980.000 krónum.

Í málinu hefur verið lagt fram óundirritað afrit samningsins ásamt endurriti af tölvubréfi, sent 8. október 2008, á rafföngin gk@brimhf.is og gsg@brimhf.is. Kveður stefnandi umrætt skjal hafa fylgt tölvubréfinu sem viðhengi. Að öðru leyti vísar stefnandi til sömu gagna og greinir undir lið 4 hér að framan.

Áður er rakið að framangreindir samningar fólu í öllum tilvikum í sér framlengingu fyrri samninga. Liggja fyrir í málinu gögn um gerð og tildrög hluta þessara samninga sem ekki er ástæða til að rekja sérstaklega.

C

Í málatilbúnaði stefnda eru rakin tildrög þess að stefndi tók að gera gjaldmiðlaskiptasamninga við stefnanda. Leggur stefndi áherslu á að þetta hafi verið að frumkvæði stefnanda sem hafi kynnt fyrrum starfsmanni stefnda fjármálaafurðir og fjárfestingarkosti og hvatt starfsmanninn í þeim efnum. Í upphafi hafi tilgangur gjaldmiðilskiptasamninga verið gengisvarnir, þ.e. að kaupa varnir gegn styrkingu krónunnar. Þegar íslenska krónan hafi farið að veikjast hafi þrýstingur aukist af hálfu stefnanda og hafi sölustarf hans farið að einkennast af spákaupmennsku. Sölustarf stefnanda hafi ekki uppfyllt skilyrði sem reikningsskilareglur setji um varnir gegn gjaldeyrisáhættu. Ætlað tap stefnda af fallandi gengi íslensku krónunnar hafi orðið að bókhaldslegum hagnaði í sjóðum stefnanda, en afkoma stefnanda síðustu 20 mánuði fyrir ógreiðslufærni hans hafi verið borin uppi af gengishagnaði hans. Vísar stefndi til þess að stefnandi hafi hvatt ýmsa aðila til að taka stöðu með íslensku krónunni með ráðgjöf þar að lútandi löngu eftir að stefnanda varð ljóst að vísbendingar voru komnar fram um að krónan myndi falla. Telur stefndi þannig að um alvarlegan og augljósan hagsmunaárekstur hafi verið að ræða sem stefnandi hafi leynt stefnda.

Með vísan til dóms Hæstaréttar 8. mars 2013 í máli nr. 73/2013, þar sem úrskurði héraðsdóms um að synja stefnda um dómkvaðningu matsmanna var hrundið, voru hinn 8. apríl 2013 dómkvaddir Einar Guðbjartsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, og Sturla Jónsson, löggiltur endurskoðandi, í því skyni að leggja á það mat, með skoðun á árshlutareikningi stefnanda fyrir fyrri hluta ársins 2008, hvaða áhrif gengi íslensku krónunnar hefði haft á þróun stærðar efnahags- og rekstrarreiknings stefnanda á umræddu tímabili. Í annan stað var matsmönnum falið að leggja mat á það hverjar hefðu verið aðrar rekstrartekjur stefnanda samkvæmt afkomutilkynningu 29. júlí 2008. Samkvæmt stefnda var tilgangur matsins sá að færa sönnur á að um alvarlegan hagsmunaárekstur hjá stefnanda hefði verið að ræða. Einnig að stefnandi hafi í raun verið gjaldþrota ef ekki hefðu komið til tekjur af gengishagnaði.

Matsgerð var lögð fram við fyrirtöku málsins 2. október 2014. Var fyrri matsspurningu svarað af matsmönnum á þá leið að áhrif gengis íslensku krónunnar á þróun efnahags- og rekstrarreiknings stefnanda á tímabilinu janúar til júní 2008 hefðu numið 63.673.880.243 krónum að gefnum þeim forsendum sem nánar væri lýst í matsgerðinni. Í svari við síðari matsspurningu kom meðal annars fram að aðrar rekstrartekjur hefðu numið 20.010 milljörðum króna á umræddu tímabili og hefðu þessar tekjur meðal annars komið til af jákvæðum gengismun að fjárhæð 32.266 milljarðar króna sem jafnframt hafi numið 95,7% af tekjum undir þessum lið. 

D

Við aðalmeðferð málsins kom Kristinn Bjarnason, stjórnarmaður stefnanda, fyrir dóm og gaf aðilaskýrslu. Einnig gaf aðilaskýrslu Guðmundur Kristjánsson, forstjóri stefnda. Þá komu fyrir dóm sem vitni, Einar Guðbjartsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og höfundur matsgerðar sem lögð hefur verið fram í málinu, Jón Sturla Jónsson, löggiltur endurskoðandi og meðhöfundur áðurnefndrar matsgerðar, Magnús Magnússon, forstöðumaður hjá stefnanda, Erna Jónsdóttir, fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Ólafur Örn Haraldsson, sérfræðingur á gjaldeyrissviði Landsbankans hf. og fyrrverandi starfsmaður stefnanda, Lárentsínus Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi meðlimur í skilanefnd stefnanda, og Óttar Már Yngvason, fyrrverandi starfsmaður stefnda.

Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Aðalkrafa stefnanda byggist á framanlýstum samningum og heimild stefnanda til að beita skuldajöfnuði við uppgjör þeirra. Krafan sundurliðast sem hér segir:

                                                                                              Gjalddagi              Fjárhæð

Samningur nr. 2924157, dags. 12.09.2008                  14.10.2008           kr.   16.605.000

Samningur nr. 3004678, dags. 03.10.2008                  13.10.2008           kr.   95.082.000

Samningur nr. 3004697, dags. 03.10.2008                  13.10.2008           kr.   89.424.000

Samningur nr. 3017192, dags. 08.10.2008                  09.10.2008           kr.   85.860.000

Samningur nr. 2990926, dags. 30.09.2008                  09.10.2008           kr.   85.464.000

Samningur nr. 2990955, dags. 30.09.2008                  09.10.2008           kr.   60.550.000

Samningur nr. 2990895, dags. 30.09.2008                  09.10.2008           kr. 207.552.000

Samningur nr. 3017196, dags. 08.10.2008                  09.10.2008           kr. 115.980.000

Neikvæð staða stefnda samtals:                                                                   kr. 756.517.000

Jákvæða staða stefnda samtals:                                                                   kr.                     0

Höfuðstólsfjárhæð skuldar stefnda                                                                              kr. 756.517.000

Varakrafa stefnanda byggist á þeirri forsendu að stefnanda hafi ekki verið heimilt að byggja kröfugerð sína upp á þann hátt að skuldajöfnun hafi átt sér stað á umsömdum gjalddögum samninga. Felur varakrafan þannig í sér að stefndi verði dæmdur til að efna samningana samkvæmt efni sínu með greiðslu þeirra erlendu mynta, sem þar er kveðið á um, gegn því að stefnandi greiði samsvarandi fjárhæðir í íslenskum krónum.

                Stefnandi vísar til þess að stefndi hafi ekki undirritað þær staðfestingar sem hann fékk sendar með tölvubréfum eða haldið því fram að samningar hafi ekki komist á með aðilum. Hafi stefndi einhvern tímann haft rétt til að mótmæla samningunum telur hann að hann hafi glatað þeim rétti sínum með tómlæti og athafnaleysi. Stefnanda sé því rétt að líta svo á að umræddir samningar í aðalkröfu hafi komist á og séu skuldbindandi milli aðila.

                Af hálfu stefnanda er fullyrðingum um umboðsskort starfsmanna stefnda og hagsmunaárekstur stefnanda mótmælt.

Helstu málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir varnir sínar á því að þeir samningar sem stefndi reisi kröfur sínar á séu óundirritaðir. Samkvæmt 3. málslið 3. gr. almennra skilmála fyrir markaðsviðskipti hafi hins vegar gilt sú ófrávíkjanlega skylda að slíkir samningar skyldu staðfestir skriflega. Ekki sé nægilegt fyrir stefnanda að vísa til endurrits símtala. Stefndi telur einnig að stefnanda hafi mátt vera ljóst að fyrrum starfsmaður stefnda hafði ekki heimild til að skuldbinda stefnda. Vísar stefndi í þessu sambandi til 25. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð því til stuðnings að prókúruumboð hafi ekki nægt til að samþykkja gjaldmiðlaskiptasamninga fyrir hönd stefnda, heldur hafi samþykki stjórnar verið nauðsynlegt. Vísar stefndi til þess að það sé ekki tilgangur hans samkvæmt samþykktum að stunda verðbréfaviðskipti. Stefndi vísar til þess að hann hafi þegar í febrúar 2009 mótmælt formi og efni krafna stefnanda.

Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi án heimildar flokkað stefnda sem viðurkenndan gagnaðila í viðskiptum eftir gildistöku laga nr. 108/2007. Ákvörðun um að samþykkja þessa flokkun hafi ekki verið á færi starfsmanns stefnda enda hafi hún verið óvenjuleg eða mikils háttar, sbr. lög nr. 2/1995 um hlutafélög. Til töku slíkrar ákvörðunar hafi stjórn stefnda ein verið bær.

Stefndi telur einnig að stefnandi hafi glatað rétti sínum fyrir tómlæti við innheimtu með því að fylgja ekki bréfi sínu 11. febrúar 2009 eftir fyrr en með innheimtubréfi 2 febrúar 2012 eða nærri þremur árum síðar. Stefndi telur einnig að umræddir samningar hafi fallið úr gildi vegna þess að stefnandi hafi verið ófær um að efna þá á gjalddaga þeirra. Hafi stefnandi þannig verið ógjaldfær á gjalddögum samninganna. Með tilkynningu sinni 27. janúar 2009 hafi stefnandi einnig lýst því yfir að hann ætlaði sér ekki að efna samningana og þannig sjálfur fellt þá niður.

Stefndi telur heimild stefnanda til skuldajöfnunar hafa verið háða gjaldfellingu samkvæmt 7. gr. almennra skilmála stefnanda auk þess sem ákvæðið áskilji ákveðið form á gjaldfellingu. Þessum fyrirmælum hafi ekki verið fylgt af hálfu stefnanda. Stefnanda hafi því ekki verið heimilt að beita skuldajöfnun við uppgjör samninganna. Einnig hafi það verið skilyrði fyrir beitingu skuldajöfnuðar að kröfur væru í sömu mynt.

Verði ekki fallist á sýknu með vísan til framangreinds er sýknu krafist á grundvelli skaðabótakröfu sem stefndi eigi gegn stefnanda. Skaðabótakrafan sé a.m.k. jafnhá og hver sú fjárhæð sem stefnda kunni að verða gert að greiða stefnanda. Krafa stefnda sé um vangildisbætur sem miðist við að samningarnir hefðu aldrei verið gerðir. Stefndi rökstyður kröfu sína á þá leið að kröfur stefnanda séu tilkomnar fyrir saknæma og ólögmæta háttsemi starfsmanna stefnanda sem stefnandi beri ábyrgð á. Stefnandi hafi átt andstæðra hagsmuna að gæta sjálfs sín vegna, með þeim gerningum sem hann byggir kröfur sínar á, en á þeim tíma sem þeir hafi verið gerðir hafi hann safnað eignum í erlendri mynt í þeim tilgangi að innleysa gengishagnað sem erlendar eignir færðu honum við fall íslensku krónunnar. Hafi þessi gengishagnaður borið uppi afkomu hans síðustu 20 mánuði fyrir fall hans. Vísar stefnandi til niðurstöðu dómkvaddra matsmanna þessu til stuðnings.

Stefndi vísar í þessu sambandi einnig til þess að þar sem stefndi hafi í raun átt að teljast almennur fjárfestir, en ekki viðurkenndur gagnaðili, hafi verið brotið gegn rétti hans samkvæmt lögum nr. 108/2007 sem tekið hafi gildi 1. nóvember 2007. Ítrekar stefndi að til þess að svipta hann þeirri vernd sem fólst í því að samþykkja skilgreiningu á honum sem viðurkenndur gagnaðili hafi þurft samþykki stjórnar. Stefnanda hafi því borið að ganga úr skugga um hæfni stefnda og kunnáttu til að eiga umrædd viðskipti með sérstöku prófi og jafnframt borið að prófa tilhlýðileika þeirra viðskiptatækifæra sem hann bauð stefnda. Hefði þessi skylda verið virt hefðu þeir gerningar sem dómkröfur varða aldrei farið fram.

Stefndi vísar einnig til 8. gr. laga nr. 108/2007 varðandi hagsmunaárekstra en alvarlegir hagsmunaárekstrar hafi verið með stefnanda og stefnda. Allt það tap sem stefnandi krefji stefnda um sé að sama skapi hagnaður stefnanda. Undir yfirskini ráðgjafar hafi stefnandi stundað miskunnarlausa sölumennsku gangvart stefnda og haldið fast að honum afurðum sem einvörðungu urðu stefnda til tjóns þegar yfir lauk og juku að sama skapi áhættu hans. Þegar gengi íslensku krónunnar hafi fallið hafi stefnandi þrýst á stefnda að kaupa af sér fleiri skiptasamninga og kallað þetta gengisvarnir. Stefnandi hafi verið sterki aðili viðskiptasambandsins, verið í stöðu innherja, í skilningi XIII kafla laga nr. 108/2007 og ekki átt að hafa milligöngu um verðbréfaviðskipti, enda hafi starfsmenn stefnanda haft vitneskju eða grun um að viðskiptin brytu í bága við ákvæði áðurgreindra laga og leikið sér að fyrrverandi starfsmanni stefnda, allt undir yfirvarpi ráðgjafar.

Sýknu er einnig krafist með vísan til þess að stefnandi uppfyllti ekki kröfur um lágmarks eiginfjárgrunn fjármálafyrirtækis og átti með réttu ekki að hafa starfsleyfi. Stefnandi hafi blekkt eftirlitsaðila og með þeim hætti haldið starfsemi sinni sem fjármálafyrirtæki áfram þrátt fyrir að uppfylla ekki lágmarkskröfur til þess að stunda verðbréfaviðskipti.

Stefndi vísar einnig til þess að engri gildri skuldaviðurkenningu stefnda sé til að dreifa. Af þeim svonefndu gjaldmiðlaskiptasamningum sem stefnandi vísi til verði ekki annað ráðið en að stefnandi einn gefi yfirlýsingar um fyrirætlanir sínar. Yfirlýsingar stefnanda séu einnig óljósar og mótsagnakenndar og uppfylli ekki skilyrði til að teljast gild loforð eða gildir kaupsamningar.

Stefndi mótmælir því að „Almennir skilmálar Sambands íslenskra viðskiptabanka og Sambands íslenskra sparisjóða fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga“ sem gefnir voru út í febrúar 1998 hafi þýðingu í málinu enda hafi ekki verið til þeirra vísað í samningum aðila.


 

Niðurstaða

                Svo sem áður er lýst samþykkti forstjóri stefnda almenna skilmála stefnanda fyrir markaðsviðskipti 3. apríl 2002, en í 10. gr. þeirra skilmála var með ótvíræðum hætti vísað til almennra skilmála fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga. Verður að leggja til grundvallar í málinu að umræddir skilmálar hafi upp frá þessu gilt um lögskipti aðila.

Í málinu er óumdeilt að eftir samþykkt skilmálanna átti stefndi í umtalsverðum og ítrekuðum viðskiptum við stefnanda, meðal annars með gjaldmiðlaskiptasamningum sambærilegum þeim sem um er deilt í málinu. Í ársreikningi stefnda fyrir árið 2007, sem lagður hefur verið fram í málinu, kemur fram að félagið hafi gert framvirka samninga um sölu á gjaldeyri til að verja framtíðartekjur félagsins og nemi heildarfjárhæð „opinna samninga“ 1,2 milljörðum króna, en staða þeirra sé jákvæð um 62,8 milljónir króna. Með hliðsjón af gögnum málsins má ætla að verulegur hluti þeirrar fjárhæðar hafi komið til vegna gjaldmiðlaskiptasamninga við stefnanda enda þótt fram hafi komið við aðalmeðferð málsins að stefndi hafi einnig gert slíka samninga við Glitni banka hf. Verður því við það að miða að þegar komið var fram á árið 2008 hafi stjórnendur stefnda þekkt vel til eðlis gjaldmiðlaskiptasamninga og hvernig staðið var að gerð slíkra samninga hjá stefnanda. Gildir einu í þessu sambandi hvort stjórnendum stefnda var ljóst að stefndi hafði verið flokkaður sem viðurkenndur gagnaðili samkvæmt lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

A

Samkvæmt 1. gr. almennra skilmála stefnanda fyrir markaðsviðskipti, sem áður greinir, giltu þeir meðal annars um gjaldeyrisviðskipti og afleiðuviðskipti. Skilmálarnir skyldu gilda hvort heldur viðskiptin ættu sér stað í gegnum síma, veraldarvefinn eða á annan hátt. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. skilmálanna skyldi gerð einstakra samninga hagað þannig að viðskiptamaður sendi beiðni með símbréfi, tölvupósti eða í gegnum síma. Að frátöldum svonefndum stundarsamningum með gjaldeyri eða verðbréf skyldi staðfesta alla samninga skriflega. Samkvæmt 4. mgr. skyldi stefnandi senda viðskiptamanni frumrit samninga og skuldbatt viðskiptamaður sig til að senda undirrituð frumrit til stefnanda innan sjö daga frá því að samningar voru gerðir eða, eftir atvikum, fyrir gjalddaga samnings. Í 5. gr. skilmálanna kom fram að öll símtöl við stefnanda væru hljóðrituð og samþykkti viðskiptamaður að slíkar hljóðritanir mætti leggja fram í dómsmáli ef upp kæmi ágreiningur um hvað samningsaðilum fór á milli. Loks kom fram í 7. gr. skilmálanna að það teldist veruleg vanefnd viðskiptamanns ef frumrit samnings hefðu ekki borist stefnanda innan sjö daga frá dagsetningu samnings eða fyrir gjalddaga ef hann væri innan þeirra tímamarka.

Af framangreindum ákvæðum verður ótvírætt dregin sú ályktun að gjaldmiðlaskiptasamningar hafi getað komist á með munnlegum hætti, þ.e.a.s. í gegnum síma. Í greinum 1.1 í almennum skilmálum fyrir framvirk gjaldmiðlaviðskipti og skiptasamninga, sem vísað var til í 10. gr. skilmálanna kom raunar fram að gjaldmiðlaskiptasamningar kæmust yfirleitt á með símtali. Af báðum skilmálum verður hins vegar ráðið að þegar um gjaldmiðlaskiptasamninga var að ræða hafi, að svo búnu, átt að leita skriflegrar staðfestingar viðskiptamanns á gerð samninganna. Hvað sem líður slíkri staðfestingu er þó ljóst að hún réð ekki úrslitum um það hvort samningur teldist hafa komist á, heldur var henni ætlað að vera til staðfestingar samningi sem þegar hafði verið gerður.

Við endurflutning málsins var því hreyft af hálfu stefnda að ósannað væri að umræddar staðfestingar hefðu borist honum og hefði af þessum ástæðum ekki komist á samningur. Í málinu liggja fyrir endurrit tölvubréfa sem bera með sér að viðhengi hafi fylgt bréfunum. Er í tölvubréfunum vísað til sömu númera og koma fram í afritum þeirra samninga sem lagðir hafa verið fram í málinu. Samkvæmt umræddum tölvubréfum voru þau send á rafpóstföngin gk@brimhf.is og grg@brimhf.is. Fullyrðing stefnda um þetta atriði kom fyrst fram við aðalmeðferð málsins án þess að lögmaður hans gæti útskýrt nánar hvers vegna téð tölvubréf hefðu ekki borist starfsmönnum stefnda. Eins og sönnunarstöðu málsins er háttað verður stefndi að bera hallan af skorti af nánari gögnum um þetta atriði málsins. Verður því lagt til grundvallar að umræddir samningar hafi verið aðgengilegar starfsmönnum stefnda, þ.á m. Guðmundi Kristjánssyni forstjóra, þegar eftir sendingu þeirra og þannig talist vera nægilega komnar til stefnda. Umræddar sendingar stefnanda til stefnda fólu ekki í sér tilboð um gerð samnings heldur skriflegar staðfestingar samninga sem þegar höfðu verið gerðir, í flestum tilvikum með munnlegum hætti.  Fólu sendingarnar því í sér ákvaðir sem urðu bindandi fyrir stefnda þegar voru komnar til hans og honum aðgengilegar.

Gögn málsins bera með sér að af hálfu stefnanda hafi tíðkast að gera gjaldmiðlaskiptasamninga við stefnda símleiðis. Að frátöldum þeim tveimur samningum sem stefnandi telur hafa verið gerða 8. október 2008 er í öllum tilvikum vísað til endurrita samtala í gegnum síma. Í því þeim tilvikum er hins vegar vísað til tölvubréfssamskipta þar sem einnig er vísað til munnlegra samskipta. Samkvæmt almennum reglum samningaréttar, svo og því sem nú hefur verið rakið um skilmála stefnanda, getur það ekki ráðið úrslitum um gildi þessara samninga hvort þeir voru staðfestir skriflega af stefnda. Myndi það og ekki hagga þessari niðurstöðu þótt fallist væri á það með stefnda að hann hafi haft stöðu almenns fjárfestis eftir gildistöku laga nr. 108/2007 hinn 1. nóvember 2007, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 23. september 2013 í máli nr. 493/2013.

B

Í munnlegum skýrslum við aðalmeðferð málsins kom fram að Óttar Már Ingvason, fyrrverandi starfsmaður stefnda, hafi um nokkurt skeið annast gerð gjaldmiðlaskiptasamninga fyrir hönd félagsins en forstjóri stefnda, Guðmundur Kristjánsson, hafi tekið við umsjón þessara viðskipta þegar kom fram í september 2008. Liggur þannig fyrir að téður Óttar már stóð að gerð gjaldmiðlaskiptasamningsins 12. september 2008 og undirritaði skriflega staðfestingu hans en að öðru leyti hefur stefnandi vísað til samskipta starfsmanna sinna við Guðmund Kristjánsson forstjóra stefnda.

Áður hefur verið rakið að stefndi átti í umfangsmiklum og reglubundnum viðskiptum við stefnanda með framvirka gjaldmiðlaskiptasamninga um árabil. Hvað sem líður tilgangi stefnda samkvæmt stofnsamþykktum sínum, svo og tilkynningum til fyrirtækjaskrár, verður að telja að þessi viðskipti hafi á árinu 2008 talist þáttur í venjulegri starfsemi hans og þá þannig að framlenging slíkra samninga hafi fallið undir daglegan rekstur í skilningi 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Fór þannig ekki á milli mála að Guðmundur Kristjánsson hafði, sem forstjóri stefnda, fullnægjandi heimild að gera þá samninga sem hér um ræðir.

Samkvæmt munnlegum skýrslum fyrir dómi var forstjóra stefnda fyllilega kunnugt um að áðurnefndur Óttar Már sinnti gerð gjaldmiðlaskiptasamninga við stefnanda. Er og ekki fram komið að athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu stefnda við samningsgerð Óttars Más fyrr en eftir höfðun máls þessa. Samkvæmt þessu er það álit dómsins að stefndi geti ekki nú borið það fyrir sig að umræddur starfsmaður hafi haft ófullnægjandi heimildir til gerðar þeirra samninga sem stefnandi byggir kröfur sínar á og á sú niðurstaða raunar einnig við um ætlaðan umboðsskort Guðmundar Kristjánssonar. Samkvæmt þessu er hafnað málsástæðum stefnda byggðum á umboðsskorti.

C

Áður hefur því verið lýst að Óttar Már Yngvason hafi staðið að gerð samnings 12. september 2008 og undirritað þá staðfestingu um gerð samningsins sem stefnandi byggir kröfur sínar að þessu leyti á. Að mati dómsins fer þannig ekki á milli mála, hvað þennan samninga áhrærir, að hann var nægilega samþykktur af starfsmanni stefnda.

Svo sem áður greinir telur stefnandi að aðrir samningar hafi gerðir af Guðmundi Kristjánssyni, forstjóra stefnda. Í þessum tilvikum er hins vegar ekki um að ræða skriflegar staðfestingar hans eða annarra starfsmanna við efni samninganna heldur liggur einungis fyrir að staðfestingar voru sendar stefnda. Hefur áður verið komist að þeirri niðurstöðu að miða beri við að þær hafi borist starfsmönnum hans, þ.á m. téðum Guðmundi.

Vegna samninga sem stefndi telur hafa verið gerða 30. september og 3. október 2008 hafa verið lagðar fram upptökur og endurrit símasamtala. Að mati dómsins kemur fram í þessum gögnum vilji Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra stefnda, til að framlengja fyrirliggjandi samninga þótt í ákveðnum tilvikum skorti á að starfsmaður stefnanda slái föstum nánari atriðum, svo sem gjalddögum og álagi. Að mati dómsins verður þrátt fyrir þetta að horfa til þess að meginefni samnings aðila var framlenging fyrri samninga. Þá sendi stefnandi stefnanda tafarlaust skriflega samning þar sem allar nánari upplýsingar komu fram. Er ekki fram komið að af hálfu stefnda hafi verið gerð sérstök athugasemd við þennan þátt í samningi aðila.

Svo sem áður greinir liggja ekki fyrir símaupptökur vegna tveggja samninga sem stefnandi telur hafa verið gerða 8. október 2008. Hins vegar liggur fyrir að áðurnefndum Guðmundi Kristjánssyni var sent tölvubréf þar sem fram kom að fyrri samningar væru á gjalddögum. Þá voru stefnda sendar tilkynningar vegna samninganna og er ekki fram komið að af hans hálfu hafi verið gerð athugasemd við þær.

Þótt almennt stofnist ekki til loforðs á grundvelli athafnaleysis loforðsgjafa verður tómlæti stefnda gagnvart framangreindum tilkynningum ekki skýrt á aðra leið en að umboðsmenn hans hafi í reynd ekki haft athugasemdir við efni samninganna eins og það var tilgreint í þessum skjölum. Þegar einnig er litið til fyrri samskipta aðila, þar sem samningar höfðu ítrekað verið framlengdir, verður á það fallist með stefnanda að samningar hafi í öllum framangreindum tilvikum komist á í samræmi við efni þeirra tilkynninga sem sendar voru stefnda.

D

Samkvæmt 4. gr. fyrrgreindra skilmála stefnanda var honum heimilt, við þær aðstæður að skuldbindingar viðskiptamanns væru gjaldfelldar, að beita skuldajöfnuði milli allra samninga sem féllu undir skilmálana þannig að hagnaður og tap hvors aðila um sig væri gert upp í einu lagi. Við slíka skuldajöfnun var jafnframt heimilt að umreikna allar skuldbindingar í íslenskar krónur. Téð heimild stefnanda til skuldajafnaðar leiddi einnig af almennum reglum kröfuréttar, líkt og ráðið verður af 40. gr. laga nr. 108/2007, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 26. apríl 2012 í máli nr. 212/2012, enda var ekki að finna sérstaka takmörkun viðvíkjandi skuldajöfnun í samningi aðila. Með vísan til dóms Hæstaréttar 11. september 2014 í máli nr. 11/2014 verður einnig að líta svo á að kröfur aðila hafi verið samrættar og hafi slíkur skuldajöfnuður haft afturvirk áhrif frá því að kröfurnar gátu mæst á gjalddaga.

                Áðurlýstir gjaldmiðlaskiptasamningar höfðu að geyma ákveðinn gjalddaga. Samkvæmt 7. gr. almennra skilmála stefnanda skyldi það meðal annars skoðast sem veruleg vanefnd ef viðskiptamaður væri í einhverjum vanskilum við stefnanda og hefði ekki bætt úr því innan sjö daga frá því að vanskil hófust. Einnig taldist það veruleg vanefnd samkvæmt sömu grein skilmálanna ef frumrit samninga hefðu ekki borist stefnanda innan sjö daga frá dagsetningu samnings eða fyrir gjalddaga hans. Í greininni sagði að við þessar aðstæður væri stefnanda heimilt, en undir engum kringumstæðum skylt, að gjaldfella eða „loka samningi“.

                Fyrir liggur að stefnandi gjaldfelldi ekki áðurlýsta samninga í beinu framhaldi af gjalddaga þeirra. Hafði hann þannig hvorki uppi tafarlausar kröfur í íslenskum krónum á grundvelli skuldajafnaðar (nettunar samninganna) né kröfu um skipti gjaldeyris samkvæmt efni þeirra. Með vísan til fyrrgreinds dóms Hæstaréttar 11. september 2014 verður hins vegar við það að miða að heimild stefnanda til gjaldfellingar og uppgjörs á grundvelli skuldajafnaðar hafi staðið óhögguð án tillits til ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins um að skipa honum skilanefnd 7. október 2008 samkvæmt 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008.

Ekki hefur komið fram að stefndi hafi fyrir sitt leyti haft uppi kröfu um efndir samninganna á gjalddaga þeirra. Eins og áður greinir voru allir samningarnir í tapi fyrir stefnda og hefði slík krafa stefnda í reynd þýtt að hann hefði þurft að inna af hendi ákveðinn mismun í íslenskum krónum, enda nýtti stefnandi heimild sína til skuldajafnaðar. Því er haldlaus sú málsástæða stefnda að stefnandi hafi verið ófær um að efna samningana fyrir sitt leyti eða að stefnandi hafi með einhverjum hætti vanefnt samningana. Þá verður ekki á það fallist að stefnandi hafi glatað rétti sínum síðar fyrir tómlæti. Að þessu virtu er það þýðingarlaust fyrir úrlausn málsins hvort tekin var sú ákvörðun hjá stefnanda, eftir að honum hafði verið skipuð skilanefnd 7. október 2008, að gjaldmiðlaskiptasamningar skyldu, að svo stöddu, ekki gerðir upp. Það sama á við um fullyrðingar stefnda á þá leið að stefnandi hafi verið ófær, sökum fjárskorts, um að inna af hendi greiðslur samkvæmt útistandandi samningum.

E

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu einnig á því að í gerð umræddra samninga hafi falist ólögmæt og saknæm háttsemi af hálfu starfsmanna stefnanda. Eigi stefndi af þessum sökum skaðabótakröfu gegn stefnanda sem nemi a.m.k. stefnufjárhæð. Þessu til stuðnings hefur stefndi einkum vísað til þess að hagsmunir stefnanda af þróun gengis gjaldmiðla hafi verið andstæðir hagsmunum stefnanda. Nánar tiltekið telur stefndi að matsgerð dómkvaddra matsmanna sanni að stefnandi hafi haft beina og verulega hagsmuni af því að gengi íslensku krónunnar lækkaði með því að slík þróun hækkaði efnahagsreikning hans og styrkti gengi hlutabréfa. Við aðalmeðferð málsins var lögð á það áhersla af hálfu stefnda að stefnandi hefði ekki verið tilbúinn til þess að leyfa stefnda, eða öðrum viðskiptamönnum, að taka stöðu gegn íslensku krónunni, líkt og fram hafi komið í símtali Guðmundar Kristjánssonar við starfsmann stefnanda 3. október 2008 en einnig komi fram í öðrum gögnum, þ.á m. skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

                Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. almennra skilmála stefnanda, sem forstjóri stefnda undirritaði og áður greinir, lýsti viðskiptamaður því yfir að honum væri ljóst að þau viðskipti sem hann kynni að eiga við stefnanda gætu verið sérlega áhættusöm. Eins og áður er rakið hafði stefndi átt veruleg viðskipti með erlenda gjaldmiðla árum saman, þ. á m. með framvirkum skiptasamningum, svo sem um ræðir í máli þessu. Er það álit dómsins að starfsmönnum stefnda hafi verið vel ljóst eðli þessara viðskipta og sú áhætta sem óhjákvæmilega leiddi af mögulegum breytingum á gengi gjaldmiðla. Í ljósi reynslu og þekkingar hjá stefnda á gjaldeyrisviðskiptum var það því fyrst og fremst á forræði hans að taka afstöðu til þess hvort hann tæki þá áhættu sem fólst í gerð einstakra gjaldmiðlaskiptasamninga, svo og hvernig hann leitaðist við að dreifa eða takmarka áhættu sína vegna þessara samninga.

                Af hálfu stefnda var lögð á það áherslu við munnlegan flutning málsins að gjaldmiðlaskiptasamningar hafi í upphafi verið kynntir af stefnanda sem vörn gegn breytingum á gengi íslensku krónunnar og þá jafnframt að vaxtamunur hérlendis myndi tryggja að slíkir samningar skiluðu hagnaði eða a.m.k. ekki tapi. Þegar komið hafi fram á árið 2008 hafi þessi samningar hins vegar einkennst af spákaupmennsku og þrýstingi af hálfu stefnanda á að stefndi gerði þessa samninga. Stefndi er stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða með verulegar tekjur í erlendum gjaldeyri og áralanga reynslu í viðskiptum með gjaldeyri. Að þessu virtu telur dómurinn að stefndi hafi ekki gefið sannfærandi skýringar á því með hvaða hætti rangar upplýsingar eða önnur óforsvaranleg háttsemi af hálfu stefnanda leiddi til þess að stefndi hélt áfram að gera gjaldmiðlaskiptasamninga þrátt fyrir að þeir leiddu ítrekað til taps í íslenskum krónum. 

                Alkunna er að bankar, sem bjóða viðskiptamönnum sínum á að gera afleiðusamninga, leitast við að minnka eða eyða áhættu sinni með margvíslegum hætti, þ. á m. með áætlunum um að gerðir samningar við mismunandi viðskiptamenn vegi hver annan upp með þeim afleiðingum að heildaráhætta bankans minnki. Hins vegar kann banki einnig að hafa sjálfstæða hagsmuni af þróun þeirra atriða sem afleiðusamningur lýtur að, t.d. gengi tiltekins gjaldeyris, og geta mismunandi ástæður legið þeim hagsmunum til grundvallar. Jafnvel þótt gögn málsins bendi til þess að stefnandi hafi hagnast, a.m.k. til skamms tíma litið, af lækkandi gengi íslensku krónunnar telur dómurinn ekki fram komið að stefnandi hafi markvisst stuðlað að lækkun íslensku krónunnar eða búið yfir sértækum upplýsingum um þróun gengis hennar sem honum var skylt að upplýsa viðskiptavini sína um.

Líkt og áður greinir tjáði starfsmaður stefnanda forstjóra stefnda í síma hinn 3. október 2008 að hvorki stefnandi né aðrir íslenskir viðskiptabankar leyfðu viðskiptamönnum sínum að gera gjaldmiðlaskiptasamninga þar sem tekin væri staða gegn íslensku krónunni. Að mati dómsins gat forstjórinn vart túlkað þessa afstöðu bankans á annan hátt en að bankinn, og eftir atvikum aðrir viðskiptamenn hans, teldu hagsmunum sínum ekki borgið með því að taka stöðu með íslensku krónunni, heldur væri fremur hið gagnstæða upp á teningnum. Því verður ekki á það fallist að með umræddri yfirlýsingu hafi starfsmaður stefnanda veitt stefnda rangar upplýsingar eða með öðrum hætti komið þannig fram að leitt geti til skaðabótaábyrgðar stefnanda.

Samkvæmt öllu framangreindu er því hafnað að stefndi eigi skaðabótakröfu gegn stefnanda vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi sem hann beri ábyrgð á. Verður höfuðstóll aðalkröfu stefnanda því tekinn til greina.

Áður er rakið að endanleg ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að afleiðusamningar flyttust ekki frá stefnanda til Nýja Landsbankans hf. lá ekki fyrir fyrr en 12. október 2008. Var þannig fyrir hendi nokkur óvissa um hver væri kröfuhafi samkvæmt umræddum samningum. Einnig verður að skilja framburð Ernu Jónsdóttur, fyrrverandi starfsmanns stefnanda, þannig að dagana eftir 7. október 2008 hafi verið tekin ákvörðun um að láta uppgjör gjaldmiðlaskiptasamninga bíða um sinn. Að þessu virtu verða dráttavextir einungis miðaðir við tilkynningu stefnanda um gjaldfellingu samninganna 27. janúar 2009, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, eins og nánar greinir í dómsorði.

Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn, að teknu tilliti til umfangs þess, þ.á m. flutnings um frávísunarkröfu stefnda, 3.000.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu stefnanda flutti málið Ágúst Karlsson hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Magnús Helgi Árnason hdl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Brim hf., greiði stefnanda, LBI hf., 756.517.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. febrúar 2009.

                Stefndi greiði stefnanda 3.000.000 krónur í málskostnað.