Hæstiréttur íslands

Mál nr. 434/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Föstudaginn 2. september 2011.

Nr. 434/2011.

Sjóvá-Almennar tryggingar hf.

(Anton B. Markússon hrl.)

gegn

Árna Benediktssyni

(enginn)

Kærumál. Nauðungarsala. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu S hf. um að ógilt yrði ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 14. febrúar 2011 um að endursenda S hf. beiðni um nauðungarsölu á eign Á. Var málinu vísað frá Hæstarétti þar sem það uppfyllti ekki skilyrði um áfrýjunarfjárhæð, sbr. 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. júlí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að ógilt yrði ákvörðun, sem sýslumaðurinn í Reykjavík mun hafa tekið 14. febrúar sama ár „um að endursenda sóknaraðila beiðni um nauðungaruppboð á eign varnaraðila, Árna Benediktssonar.“ Um kæruheimild vísar sóknaraðili til „144. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu“. Hann krefst þess að fyrrgreind ákvörðun sýslumanns verði ógilt og sér dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.

Í málinu leitar sóknaraðili ógildingar á ákvörðun, sem hann kveður sýslumanninn í Reykjavík hafa tekið 14. febrúar 2011 en ekki hefur þó verið lögð fram í málinu, um að endursenda sóknaraðila beiðni hans um nauðungarsölu, sem svo var réttilega nefnd, á nánar tilgreindri fasteign varnaraðila. Í beiðninni, sem var rituð 28. janúar 2011, var á grundvelli lögveðréttar leitað fullnustu á kröfu um iðgjald af brunatryggingu fasteignarinnar, sem sóknaraðili kvað nema samtals 141.616 krónum að meðtöldum vöxtum og kostnaði. Í hinum kærða úrskurði var sem fyrr segir hafnað kröfu sóknaraðila um að ógilt yrði ákvörðun sýslumanns.

Samkvæmt 3. málslið 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 er heimild til kæru á úrskurði héraðsdóms, sem kveðinn er upp eftir sérreglum þeirra laga og felur í sér lokaákvörðun um ágreiningsefni, meðal annars háð því að fullnægt sé almennum skilyrðum til áfrýjunar dómi í einkamáli. Því fer fjarri að mál þetta varði hagsmuni, sem fullnægja skilyrðum um áfrýjunarfjárhæð í 152. gr. laga nr. 91/1991 með áorðnum breytingum. Máli þessu verður því af sjálfsdáðum vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Það athugast að í málatilbúnaði sóknaraðila í héraði og hinum kærða úrskurði, þar á meðal í úrskurðarorði, er ítrekað rætt um að málið varði uppboðsbeiðni sóknaraðila, beiðni hans um uppboð eða beiðni um nauðungaruppboð, en frá því að lög nr. 57/1949 um nauðungaruppboð féllu úr gildi 1. júlí 1992 hafa fullnustugerðir með slíku heiti ekki farið fram hér á landi. Þá er aðfinnsluvert að sóknaraðili hafi kært úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar þótt honum hefði gjörla mátt vera ljóst að heimild stæði ekki til málskots.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2011.

                Þetta mál, sem var tekið til úrskurðar 27. maí 2011, barst dóminum 24. febrúar 2011. Það er höfðað af Sjóvá-Almennum tryggingum hf., kt. 650909-1270, Kringlunni 5, Reykjavík.

                Sóknaraðili krefst þess að ógilt verði ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að endur­senda uppboðsbeiðni sóknaraðila, dags. 28. janúar 2011, og að Sýslu­mann­inum í Reykjavík verði gert að taka beiðnina fyrir.

                Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að mati dómsins.

                Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu telst sá sem er gerðarþoli nauðungarsölugerðar varnaraðili dómsmáls sem höfðað er vegna ágreinings sem rís við gerðina. Af þeim sökum er eigandi þeirrar fasteignar sem sóknaraðili krafðist nauðungarsölu á, Árni Benediktsson, varnaraðili þessa máls. Hann sótti ekki þing og hefur ekki látið málið til sín taka þrátt fyrir lögmæta boðun.

                Sýslumaðurinn í Reykjavík nýtti sér heimild, sem honum er veitt í 6. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991, til að senda héraðsdómara athugasemdir sínar varðandi álitaefni þessa máls með bréfi dags. 10. maí 2011.

Málsatvik

                Hinn 28. janúar 2011 lagði Gjaldheimtan ehf. fram, hjá sýslumann­inum í Reykjavík, fyrir hönd umbjóðanda síns, Sjóvár-Almennra trygginga hf., beiðni um uppboð á fasteigninni að Hringbraut 77, með fastanúmerið 202-6873.

                Sóknaraðili byggði beiðni sína um uppboð á eign varnaraðila á van­goldnum iðgjöldum af lögboðinni brunatryggingu samkvæmt lögum nr. 48/1994 um bruna­trygg­ingar en kröfur samkvæmt lögunum eru tryggðar með lögveði í brunatryggðri fasteign skv. 1. mgr. 7. gr. laganna. Tímabilin 1. febrúar 2009-1. febrúar 2010 og 1. febrúar 2010-1. febrúar 2011 voru í vanskilum.

                Sóknaraðili lét birta fyrir varnaraðila, 25. janúar 2011, lögboðna greiðslu­áskorun sem undanfara nauðungarsölu samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sýslumaðurinn í Reykjavík tók við beiðni um nauðungarsölu 28. janúar sl. en endursendi sóknaraðila hana 14. febrúar 2011 með þeim rökstuðningi að þegar 15 daga frestur sá sem tiltekinn er í 2. mgr. 9. gr. laga um nauðungarsölu væri liðinn væri lögveðréttur fyrir iðgjöldum brunatryggingarinnar fyrndur að hluta.

                Með bréfi 21. febrúar sl. lýsti sóknaraðili því yfir við sýslumann að hann hygðist nýta sér heimild 2. mgr. 73. gr. laga um nauðungarsölu og bera ákvörðun sýslu­manns undir héraðsdóm.

Málsástæður sóknaraðila

                Sóknaraðili byggir á því að hann hafi rofið fyrningarfrest lögveðskröfunnar með því að leggja fram beiðni um nauðungarsölu 28. janúar 2011 og vísar hann því til stuðnings til 17. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Sóknaraðili bendir sérstaklega á að samkvæmt ummælum í greinargerð með 13. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu komi fram að það þyki ekki nærtæk túlkun að líta svo á að í þeim tilfellum sem beiðni um nauð­ungar­sölu berst sýslumanni áður en liðinn er sá 15 daga frestur sem tilgreindur er í 2. mgr. 9. gr. laganna, beri að endursenda beiðnina, heldur væri eðlilegri niðurstaða að slík beiðni yrði geymd hjá embættinu uns lögákveðinn frestur væri liðinn.

                Sóknaraðili byggir á því að ekki skuli fara með beiðnir um nauðungarsölu á sama hátt og aðfararbeiðnir sem berast of snemma samkvæmt 18. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Í þeim tilvikum beri að líta svo á að beiðni um aðför, sem ekki fullnægi skilyrðum 5.-8. gr. laga um aðför, sé ekki komin fram fyrr en á fyrsta starfsdegi eftir að aðfararfrestur rennur út. Sú niður­staða sé í eðlilegu samhengi við reglu um röð aðfararbeiðna og innbyrðis staða þeirra. Sóknar­aðili bendir á að innbyrðis staða beiðna við nauðungarsölu skipti ekki máli og því sé ekki unnt að horfa til umræddrar reglu 18. gr. laga um aðför, við mat á álitaefni þessa máls. Að auki sé krafa hans lögveðskrafa sem ætíð fáist greidd af andvirði eignar á nauðungarsölu.

                Með vísan til þessa telur sóknaraðili að sýslumaður hafi ekki átt að endursenda beiðni hans um uppboð heldur móttaka hana þann dag sem hún barst embættinu en taka beiðnina fyrir að liðnum 15 daga fresti samkvæmt 9. gr. laga um nauðungarsölu

                Sóknaraðili vísar til laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu einkum 13. gr. og 73.-79. gr., laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing vísar sóknaraðili til 4. mgr. 3. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991, en um málskostnað vísar hann til 77. gr. sömu laga, sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Athugasemdir sýslumanns

                Eins og áður er komið fram rökstuddi sýslumaður endursendingu á beiðninni með þeim rökum að þegar 15 daga frestur varnaraðila til að bregðast við greiðslu­áskorun samkvæmt 9. gr. laga nr. 90/1991 var liðinn hafi lögveðsréttur sóknaraðila í eign varnaraðila verið fyrndur að hluta.

                Í þeim athugasemdum sýslumanns sem hann sendi héraðsdómara, með heimild í 6. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991, áréttar hann það orðalag 1. mgr. 9. gr. laganna að í greiðslu­áskorun til gerðarþola skuli tekið fram að nauðungarsölu á tiltekinni eign verði krafist til fullnustu tilgreindrar peningaskuldar sinni gerðarþoli ekki áskoruninni. Ekki verði séð að heimilt sé að skerða þann tíma sem gerðarþolum sé ætlaður til að bregðast við áskorun um greiðslu, til þess að gerðarbeiðandi geti skapað sér betri rétt með því að rjúfa fyrningu lögveðréttar.

                Sýslumaður benti á að í lögum nr. 90/1989 um aðför sé í 7. gr. fjallað um birtingu greiðsluáskorunar og í 18. gr. þeirra laga sé tekið fram að beiðnir sem berist áður en aðfararfrestur sé liðinn skuli ekki teljast fram komnar fyrr en á fyrsta starfs­degi eftir lok frestsins. Geti gerðarbeiðandi þannig ekki bætt stöðu sína í innbyrðis stöðu gerðarbeiðenda með því að leggja beiðni fram áður en aðfararfrestur sé liðinn.

                Þar sem lögveðsrétturinn hafi verið fyrndur hafi sóknaraðili ekki haft heimild til að krefjast uppboðs á eign varnaraðila á grund­velli 4. töluliðar 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

Niðurstaða

                Ágreiningsefni þessa máls lýtur að því hvort rétt hafi verið af Sýslumanninum í Reykjavík að endursenda beiðni sóknaraðila um nauðungarsölu á fasteign vegna ógreiddra iðgjalda lögbundinnar brunatryggingar samkvæmt lögum nr. 48/1994.

                Heimild sóknaraðila til þess að krefjast nauðungarsölu fasteignar vegna vangold­inna iðgjalda brunatrygginga án undangengis dóms er í 2. mgr. 7. gr. laga um bruna­tryggingar nr. 48/1994, sbr. 4. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauð­ungar­sölu. Í 1. mgr. 9. gr. þeirra laga kemur fram að áður en nauðungarsölu verði krafist til fullnustu peningakröfu á grundvelli heimildar samkvæmt 2.-6. tölulið 1. mgr. 6. gr. laganna beri gerðabeiðanda að senda gerðaþola skriflega greiðsluáskorun um uppgjör á skuld hans við gerðabeiðanda. Í greiðsluáskoruninni skal tekið fram að nauðungarsölu á tiltekinni eign verði krafist til fullnustu tilgreindrar peningaskuldar verði áskoruninni ekki sinnt.

                Sóknaraðili byggir kröfu sína um nauðungarsölu á því að tvö tímabil bruna­trygginga fasteignarinnar að Hringbraut 77, með fastanúmerið 202-6873, hafi verið fallin í gjalddaga. Fyrra tímabilið var frá 1. febrúar 2009 til 1. febrúar 2010 og var gjalddagi þess 1. febrúar 2009. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um brunatryggingar fylgir iðgjöldum brunatrygginga lögveð í tvö ár frá gjalddaga. Lögveðsréttur sóknar­aðila vegna fyrra vangoldna tímabilsins rann því út 1. febrúar 2011. Sóknaraðili lét birta greiðsluáskorun fyrir varnaraðila 25. janúar sl. og lagði inn hjá sýslumanni beiðni um nauðungarsölu 28. janúar sl. Þegar 15 daga greiðsluáskorunarfrestur var liðinn tók sýslu­maður beiðni sóknaraðila til athugunar en sá þá að á því tímamarki var lögveðs­réttur sóknaraðila vegna fyrra tímabilsins fyrndur. Þar sem fjárkrafan var ekki sundur­liðuð eftir tímabilum endursendi sýslumaður sóknaraðila beiðnina í heild sinni.

                Ekki er unnt að fallast á það með sóknaraðila að hann hafi rofið fyrningarfrest lögveðsréttar síns í fasteigninni að Hringbraut 77 með því að afhenda sýslumanni beiðni um nauðungarsölu á eigninni þremur dögum áður en rétturinn rann út. Í 2. mgr. 12. gr. laga um nauðungarsölu kemur fram að fyrningu kröfu sé slitið gagnvart gerðar­þola á þeirri stundu er sýslumaður móttekur beiðni kröfuhafa þess efnis að nauð­ungar­sala fari fram að því skilyrði gefnu að beiðnin sé í samræmi við reglur 1. mgr. 13. gr. laganna. Beiðni sóknaraðila var ekki í samræmi við reglur þess ákvæðis þar sem frestur varn­ar­aðila til að bregðast við greiðsluáskorun sóknaraðila var þá ekki liðinn.

                Að mati dómsins verður að túlka 13. gr. sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um nauð­ung­ar­sölu þannig að beiðni um nauð­ungar­sölu verði ekki tæk til afgreiðslu fyrr en komið er í ljós að áskorun um greiðslu hafi ekki verið sinnt innan lögboðins frests og jafnframt að fyrr geti beiðnin ekki fengið þau réttaráhrif að geta rofið fyrningu lögveðsréttarins.

                Eins og vera bar var beiðni sóknaraðila geymd hjá sýslumannsembættinu þar til hinn lögboðni frestur varnar­aðila var runninn út, 9. febrúar. Á því tímamarki þegar beiðnin var tæk til afgreiðslu var hún ekki heldur í samræmi við ákvæði 1. mgr. 13. gr. þar sem lögveðsréttur vegna fyrra tímabilsins var þá fyrndur og nauðungarsöluheimild sóknar­aðila vegna þess tímabils því fallin niður. 

                Þrátt fyrir að sóknaraðili hefði tveggja ára ráðrúm til þess að hefja fullnustu­aðgerðir gagnvart varnaraðila hóf hann þær of seint og verður varnaraðili ekki látinn bera hallann af því. Þar sem krafa sóknaraðila var ekki sundur­liðuð eftir tímabilum var sýslumanni rétt að endur­senda hana í heild sinni.

                Eins og atvikum þessa máls er háttað þykir rétt að hvor málsaðili beri sinn kostnað af málinu.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

                Hafnað er þeirri kröfu sóknaraðila, Sjóvár–Almennra trygginga hf., að ógilt verði ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík 14. febrúar sl. þess efnis að endursenda sóknaraðila beiðni um nauðungaruppboð á eign varnaraðila, Árna Benediktssonar.

Málskostnaður fellur niður.